Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022
Kemstu ekki á Hestháls?
27.2.2022 | 08:45
Á vef Strætó bs. kemur fram að frá og með 1. mars hættir Strætó bs. að taka við pappírs farmiðum í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og er þá aðeins í boði að nota Klapp greiðslukerfi.
Þessi breyting á eftir að valda mörgum miklum vanda.
Það er hópur fólks sem af ýmsum ástæðum notar ekki tölvur til að fara inn á Mínar síður. Um er að ræða ákveðinn hóp fatlaðra, eldra fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. hælisleitendur sem ekki tala tungumálið.
Hvernig á þessi hópur að bera sig að?
Á vef Strætó bs.segir einnig:
Þeir sem komast ekki á Hestháls 14 geta sent okkur farmiðana sína í pósti.
Ef þú kýst að senda okkur miðana í pósti, þá er nauðsynlegt að fylgja þessum skrefum:
Stofnaðu aðgang að Mínum síðum með símanúmeri eða netfangi.
Mínar Síður
Sendu farmiðana í pósti á heimilisfangið: Strætó bs. Hestháls 14, 110 Reykjavík
Nauðsynlegt er að hafa nafn, símanúmer eða netfang með í bréfinu. Við leggjum inneign á veski viðkomandi símanúmers eða netfangs sem fylgir með bréfinu.
Hér er gert ráð fyrir að allir hafi rafræn skilríki og geti farð inn á Mínar síður.
Ég mun í næstu viku leggja fram eftirfarandi tillögur:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hægt verði að nota áfram pappírsmiða í strætó enda ekki allir sem eiga snjall/farsíma eða tölvur hvað þá að þeir treysti sér inn á Mínar síður
Lagt er til að útibú Strætó bs. verði víðar í borginni s.s. í Mjódd, á Hlemmi og jafnvel víðar til að aðstoða þá sem ekki treysta sér til að kaupa inneign í Klapp í gegnum síma eða fara inn á Mínar síður.
Greinargerð með tillögunni
Klapp nýja greiðslukerfi Strætó hefur valdið sumu fólki miklum vandræðum. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bent á athugasemdir fatlaðs fólk um Klapp en einungis er hægt að skrá sig með rafrænum skilríkjum. Ákveðinn hópur fatlaðra og einnig eldra fólks, innflytjenda og hælisleitenda eru ekki með rafræn skilríki. Hælisleitendur sem dæmi geta ekki sótt um rafræn skilríki og það er hópur sem notar strætó mikið.
En er hópur fólks aðeins með peninga, seðla þótt þeim fari fækkandi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki tímabært að loka á möguleikann að nota pappírsmiða. Útibú sem selja pappírsfarmiða þurfa að vera víðar um borgina svo fólk þurfi ekki að endasendast upp á Hestháls.
Fólk af erlendum bergi sem t.d. talar ekki tungumálið er margt hvert í tómu veseni núna eftir að þessu var breytt. Mikið af fólki, t.d. hælisleitendum býr í Breiðholti og er Mjóddin skiptistöð fyrir margt af þessu fólki. Þetta fólk á erfitt með að finna leið sína upp í Hestháls og á jafnvel ekki lengur miða til að fara í strætó. Nú er þeim bara sagt að skrá sig inn á Mínar síður, fólk sem hefur ekki möguleika á að fá rafræn skilríki, fólk sem ekki notar tölvur og þekkir ekki Mínar síður.
Mjóddin var og er besti staðurinn til að þjónusta strætófarþega með strætómiða eða kort.Einnig Hlemmur og spöngin
Það skýtur einnig skökku við þegar horft er upp á að þjónusta sem hér um ræðir hefur versnað en á sama tíma er meira lagt í rými og góða aðstöðu fyrir yfirstjórn Strætó bs.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Strætó bs. hugsi hlutina upp á nýtt og að þessu sinni út frá þjónustuþegum. Færa á þjónustuna til fólksins en ekki öfugt.
Bið getur kostað líf
21.2.2022 | 17:27
Knarrarvogurinn 460 milljónir
15.2.2022 | 20:45
Knarrarvogur 2 rifið en fyrst keypt fyrir 460 milljónir
Bókun Flokks fólksins við liðnum Knarrarvogur 2 - kaup á fasteign.
Að eyða 460 milljónum til að kaupa hús til niðurrifs fyrir borgarlínu þegar fyrirtækið ,,Betri samgöngur ohf." á að fjármagna Borgarlínuverkefnið hlýtur að vera á gráu svæði vægast sagt og þar að auki virðist verðið fyrir niðurrifið vera mjög hátt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki ganga upp.
Það skýtur skökku við að Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs til að búa til rými fyrir borgarlínu. Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir í gögnum. Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu.
Lóðarsamningar Reykjavíkurborgar og olíufélaganna
10.2.2022 | 14:54
Samninganefndin mætti.
Um var að ræða 4 mál:
Minnisblað borgarstjóra, Rammasamkomulag við Atlantsolíu og Orkunnar og Samkomulag við Löður vegna uppbyggingar á lóðinni Lambhagavegi 12.
Lóðirnar eru 16 en samningarnir mun fleiri sem eru undir.
Hér koma bókanir fulltrúa Flokks fólksins í þessum málum.
Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á lóðum sem eru nú undir bensínstöðvum í lóðir fyrir íbúðarhús. Það sem þegar hefur komið fram bendir til þess að borgin nýti þessa stöðu illa. Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himin háan kostnað til að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðu. Hvergi kemur skýrt fram hver á að hreinsa lóðina þegar henni er skilað. Á t.d. að skila henni án eiturefna? Hvergi hefur heldur verið reiknað út hver er kostnaður af hreinsun? Hann þarf að áætla með rökum. Einhverjir samningar hafa nýlega runnið út eða eru að renna út. Í þeim tilfellum er samningsstaðan góð og þá ætti að bíða nema eitthvað annað réttlæti að ganga þurfi strax til samninga.
Út frá þeim upplýsingum sem hafa fengist má draga þá ályktun að borgin sé að semja af sér. Sjálfsagt hefði verið að lóðarhafa greiddu til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Samkvæmt því sem þegar hefur komið fram um þessa samninga má ætla að núverandi lóðarhöfum séu færðir verulegar fjárupphæðir.
Samkomulag við Atlantsolíu vegna fyrirhugaðra uppbyggingar á lóðinni Háaleitisbraut 12 í Reykjavík. Þetta samkomulag er að sama meiði og hin. Nýtingu lóðarinnar verði breytt, núverandi mannvirki rifin og á henni verði reistar íbúðir í bland við
atvinnuhúsnæði. Lagt er upp með að í nýju deiliskipulagi verði valkvætt af hálfu lóðarhafa hvort á efri hæðum verði íbúðar- og/eða atvinnuhúsnæði. Fram kemur að vegna breyttrar hagnýtingar og aukins byggingarmagns á lóðinni mun lóðarhafi ekki greiða sérstaklega
til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva. Hér er verið að færa Atlantsolíu háar upphæðir. Af hverju er félaginu ekki gert að greiða innviðagjöld.
Í þessu samkomulagi mun lóðarhafi láta vinna nýja deiliskipulagstillögu fyrir lóðina Lambahagvegur 12. Byggja á upp á lóðinni bílaþvottastöð og eldsneytisdælur en ekki íbúðarhús. Þetta samkomulag er því ekki að sama meiði og hin þar sem olíufélögin fá að byggja hús á lóðunum ýmist með því skilyrði að fækka dælum eða hætta með þær alfarið án tillits til hvort samningar hafi runnið út, séu um það bil að renna út eða séu í gildi til næstu ára.
Koma svo! Það er einfaldlega svo mikið í húfi!!
9.2.2022 | 09:07
Það var sannkallað ánægjuefni þegar fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta hafði samband við mig. Erindið var að ungmennaráðið ætlaði að leggja fram tillögu um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar með ungmennum 8. febrúar.
Mér var bæði ljúft og skylt að senda þeim efni og segja þeim frá baráttu minni með málið í borgarstjórn. Árum saman hefur sálfræðingum ekki fjölgað í skólum þrátt fyrir að börnum hafi fjölgað.Enda þótt sálfræðingar séu hluti af þverfaglegu teymi skólaþjónustunnar ættu þeir engu að síður að hafa aðsetur í skólunum eins og áður var.
Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim miklu máli. Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn sinn, vita hvar hann er að finna og vita að þau geti leitað til hans með skömmum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust.Með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum geta þeir unnið þéttar með námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi.
Saman geta þessir fagaðilar myndað öflugt teymi sem sinnir forvarnarstarfi og verið til taks fyrir börnin, starfsfólkið og foreldrana allt eftir atvikum og þörfum. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er því miður í meiri hættu á að grípa til örþrifaráða
Sorglega langur biðlisti
Umsóknum um þjónustu í skólum hefur fjölgað gríðarlega frá 2020. Langur biðlisti er eftir fagþjónustu skólaþjónustunnar og hefur reyndar verið árum saman en fyrir COVID stefndi í sögulegt hámark hans. Nú bíða 1.804 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bæst hafa um 200 börn á listann á örstuttum tíma.
Ekki hefur verið brugðist við þessari fjölgun nema að litlu leyti. Sálfræðiþjónusta og þjónusta talmeinafræðinga er ekki í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu.
Naumt er skammtað og eins mikið og meirihlutinn segir að þetta sé hið versta mál er ekki verið að gera nóg til að eyða biðlistum. Á meðan bíða börnin með ófyrirséðum afleiðingum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því vissulega þegar ákveðið var að auka fjárheimildir til velferðarsviðs 2022 um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga.En þetta er ekki há upphæð og mun varla duga til að taka obbann af biðlistakúfnum.
Meirihlutinn horfir grannt í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna en er alveg til í að setja háar fjárhæðir í alls kyns annað jafnvel eitthvað sem enginn er að biðja um.
Brýnna er en orð fá lýst að ganga í þetta verkefni enda hefur hver skýrslan á fætur annarri staðfest að andleg líðan unglinga fari versnandi.
Skylda borgarinnar er að tryggja öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Við eigum að geta gert forgangskröfu um að börn hafi gott aðgengi að sálfræðingum það er einfaldlega svo mikið í húfi! Koma svo!
Grein birt í Fréttablaðinu 9. febrúar 2022
Efri árin eru líka árin mín
6.2.2022 | 14:28
Ég hef sem borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn barist fyrir, á þessu kjörtímabili, að Reykjavíkurborg setji hagsmuni aldraðra í forgang og hafi frumkvæði að gagngerum umbótum á lífsskilyrðum þeirra og aðstæðum í Reykjavík.
Eitt af kosningaloforðum Flokks fólksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var að stofnað yrði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Meginhlutverk hans yrði að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann myndi kortleggja stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgjast með framkvæmd heimaþjónustu. Tillagan var lögð fram í tvígang en hafnað.
Ég el enn þá von í brjósti að í Reykjavík verði komið á embætti hagsmunafulltrúa aldraðra sem geti lagt sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart eldra fólki. Auk þess myndi hagsmunafulltrúi geta haft frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara t.d. til að koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.
Eldumst heima
Kannanir sýna að flestir vilja búa sem lengst heima hjá sér og ganga hugmyndir nútímans út á að veita þeim sem vilja og geta það þann möguleika. Ýmist vill fólk halda áfram að búa á sínu gamla heimili eða flytjast í sjálfstæða búsetu sem er hannað með þjónustuþarfir þessa aldurshóps að leiðarljósi sem geta verið ólíkar.
Nauðsynlegt er að fjölga þjónustuþáttum til þeirra sem búa á sínu eigin heimili og dýpka aðra þjónustuþætti sem fyrir eru til að hægt sé að auka líkur á heimaveru sem lengst. Einnig er mikilvægt að bjóða þeim sem búa heima á sínum efri árum upp á sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika og samhliða virkja fjölþættar heilsueflandi aðgerðir. Aðstæður fólks eru mismunandi eins og gengur. Sumir hafa misst maka sína og ekki eru allir sem eiga fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga eða stytt stundir.
Flokkur fólksins hefur lagt það til í borgarstjórn að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks, svipað og í byggðinni við Borgarspítalann sem er afar vinsæl og vel heppnuð. Svæðin verði skilgreind og hugsuð út frá þörfum þessa aldursskeiðs og með miðlægum þjónustukjarna.
Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu í búsetumálum. Fleiri tegundir úrræða þurfa að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.
Hjúkrunarrými fyrir þá sem það þurfa
Mikill skortur er á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sem þarf fulla þjónustu og mikla umönnun. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Efri árin eiga að vera gæðaár, ár sem ekki eiga að einkennast eða litast af kvíða og óvissu. Þeir eru ófáir sem hafa þurft að dvelja á Landspítala vikum eða mánuðum saman löngu eftir að meðferð er lokið vegna þess að ekkert annað úrræði er til og þeir sem gætu farið heim geta það ekki vegna manneklu í heimaþjónustu. Einnig er löng bið eftir hvíldarinnlögn.
Eldra fólk er samfélagslegt verðmæti
Flokkur fólksins telur löngu tímabært að skera upp herör gegn aldursfordómum hjá Reykjavíkurborg, ekki síst þegar fullfrísku eldra fólki er beinlínis hent út af vinnumarkaði við 67-70 ára aldur hjá borginni þó að það hafi bæði góða starfsgetu og löngun til að vinna lengur. Hér er verið að sóa samfélagslegum verðmætum. Reykjavíkurborg á að hafa frumkvæði að gagngerri viðhorfsbreytingu þar sem eldra fólk er metið að verðleikum. Með hækkandi aldri eykst viska og yfirvegun.
Samráð og samvinna
Hafa á fullt samráð og samvinnu við fólkið í borginni þegar verið er að taka ákvarðanir um það sjálft og umhverfi þess. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum þeirra. Hlusta þarf á þjónustuþegana og aðstandendur þeirra. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að skipuleggja þjónustu fyrir borgarana. Án borgarbúa er engin borg.