Bruðlið burt úr borginni
27.1.2022 | 10:29
lokkur fólksins kallar eftir að borin sé meiri virðing fyrir verðmætum í borginni. Margar fjárfestingar borgarinnar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri sem ætti að vera utan verkahrings borgarinnar.
Flokkur fólksins vonar að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn til að eyða biðlistum, tryggja börnum fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara. Auka þarf jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og tryggja réttlæti fyrir alla samfélagshópa.
Vinna á hverfaskipulag með fólkinu og að samgöngumálum með þarfir allra í huga. Frumskilyrði er að borin sé virðing fyrir fjármunum borgarbúa en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.
SORPA ekki einsdæmi
SORPA var nýlega dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 m.kr. vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi, GAJA.
GAJA er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi til að mæta dýrkeyptum mistökum. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu, þekkingu eða skilning á þessum málum.
Vert er að skoða hvort röð mistaka hjá SORPU megi mögulega setja á reikning meints þekkingarleysis stjórnarmanna?
Stafræn sóun
Ég hef gagnrýnt stafræna sóun í eitt ár. Eyðsla fjármuna er í engu samræmi við tilbúnar afurðir. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum sem ýmist eru enn á tilrauna- eða þróunarstigi, eða á byrjunarstigi innleiðingar löngu eftir áætlun. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu máli.
Hægt er að reka borgina betur. Það er eins og það gleymist að verið er að sýsla með skattfé borgarbúa. Flokkur fólksins lagði til að fenginn yrði ráðgjafi til að fara yfir rekstur helstu deilda, með það að markmiði að hagræða. Tillagan var felld
Röð mistaka kemur illa við pyngju borgarbúa
24.1.2022 | 11:23
Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt meirihluta borgarstjórnar fyrir bruðl með fjármuni Reykvíkinga og kallað eftir nauðsynlegri virðingu fyrir verðmætum, aga og ráðdeild. Borgarbáknið hefur þanist út, margar fjárfestingar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar.
Útboðsklúður SORPU BS.
Hjá SORPU reka hver mistökin önnur á kjörtímabilinu, þar sem enn og aftur þarf að greiða skaðabætur fyrir mistök stjórnenda. SORPA er dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 milljónir króna vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. SORPA braut lög um opinber innkaup þegar fyrirtækið samþykkti að ganga til samninga við Ístak. Stjórn SORPU ber á þessu ábyrgð og þarf að axla hana. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu eða þekkingu á þessum málum. Því spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort þetta meinta kunnáttuleysi tengist röð mistaka sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu allt kjörtímabilið?
GAJU ævintýrið ofl.
GAJA, gas- og jarðgerðarstöð er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til stjórnarformaður, sem nú er fulltrúi Reykjavíkurborgar, sé valinn að nýju og fenginn verði aðili sem hefur nauðsynlega sérmenntun/þekkingu á málefnum og verkefnum SORPU, haldgóða reynslu en umfram allt skilning á þessum málum. Finna þarf aðila sem kann að hlusta á ráðleggingar annarra, varnarorð ef því er að skipta og beri gæfu til að sækja nauðsynlega þekkingu sem er fyrir hendi meðal annarra þjóða sem ýmist hafa verið farsælar í þessum málum eða hafa þurft að súpa seyði af mistökum. Það er nefnilega hagkvæmara að læra af mistökum annarra en af ítrekuðum eigin mistökum. Hjá SORPU hefur verið gerð röð mistaka sem koma nú illilega niður á borgarbúum. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum og bjóði hann þess í stað út. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel og íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn b.s. kerfisins.
Stafræn sóun
Fulltrúi Flokks fólksins hefur í heilt ár staðið vaktina við að fylgjast með innleiðingu stafrænna lausna hjá Reykjavíkurborg. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum en samt hafa milljarðar verið settir í ráðgjöf hjá erlendum fyrirtækjum, tilraunir og þróun á lausnum sem flest stór fyrirtæki og minni sveitarfélög eru jafnvel löngu komin með. Það er með öðrum orðum hamast við að finna upp hjólið og greitt rausnarlega fyrir með peningum Reykvíkinga.
Fjölda starfsmanna hefur verið sagt upp störfum og í staðinn hefur verkefnum verið útvistað eða aðrir starfsmenn ráðnir sem áður voru á einkamarkaði. Ekki hefur verið sýnt fram á hagkvæmni eða ávinning af þessum uppsögnum. Þróunar- og tilraunastarfsemi hefur verið í gangi eins og Borgin sé hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði sem æðir áfram á ævintýralegri vegferð, spreðandi fjármunum eigenda sinna á báðar hendur.
Hvar eru svo allar afurðirnar? Fulltrúi Flokks fólksins reynir eftir bestu getu að fylgjast með og vakta meðhöndlun fjármagns borgarbúa sem er hans skylda. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni Flokks fólksins og spurt áleitinna spurninga. Flokkur fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu alvarlega máli.
Allt eru þetta mál sem að mati okkar í Flokki fólksins er hægt að taka á og með því fara betur með skattfé okkar. Lögð hefur verið fram tillaga um að fá ráðgjafa til að fara yfir rekstur helstu deilda til að kanna hvort að ekki megi hagræða en núverandi meirihluti hefur hafnað því. Tillagan var felld.
Úrbætur á næsta kjörtímabili
Flokkur fólksins elur þá von að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn að bretta upp ermar og taka til hendinni. Eyða biðlistum, tryggja börnum og unglingum næga fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara.
Við í Flokki fólksins viljum auka jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og köllum eftir réttlæti fyrir alla samfélagshópa. Við viljum vinna hverfaskipulag með fólkinu og vinna í samgöngumálum með þarfir allra í huga hvernig svo sem þeir kjósa að fara um borgina.
Til að ná fram endurbótum sem þjóna hagsmunum borgarbúa er frumskilyrði að borin sé virðing fyrir fjármunum þeirra, en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn
Birt á visi.is 24. janúar 2022
Reykjavík ekki í hópi Barnvænna sveitarfélaga
17.1.2022 | 09:42
Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013. Hann hefur lagagildi hér á landi og bein réttaráhrif. Sáttmálinn hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík líkt og gert hefur verið í Kópavogi. Flokkur Fólksins leggur til á fundi borgarstjórnar 18. janúar að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Þar með verði Reykjavík komin í hóp Barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggist á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.
Innleiðing Barnasáttmálans skiptir sköpum um málefni barna, sérstaklega nú þegar fátækt fer vaxandi og kannanir sýna aukna vanlíðan barna.
Til þess að unnt sé að innleiða Barnasáttmálann þarf fyrst að vinna ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. Nokkur brýn mál sem snúa m.a. að aðbúnaði barna og öryggi í leik- og grunnskólum, rétt barna til sálfræði- og talmeinaþjónustu þarfnast úrbóta. Börn eiga einnig rétt á að taka þátt í ákvörðunum er varða þau sjálf þar sem þess er kostur. Það er ekki hvað síst á vettvangi sveitarfélaga, sem sinna fjölþættri þjónustu við börn, sem tryggja þarf að réttur barna til þátttöku í ákvörðunum er varða þau sjálf sé virtur í hvívetna.
Fossvogsskóli, ákvæði Barnasáttmálans brotin
Ástandið vegna myglu í Fossvogsskóla og fleiri leik- og grunnskólum hefur valdið nemendum og foreldrum þeirra streitu og áhyggjum með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum. Í tilviki Fossvogsskóla reyndu foreldrar ítrekað að ná eyrum yfirvalda og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna mygluástandsins en skellt var skollaeyrum við ákalli þeirra. Nú hafa borgaryfirvöld viðurkennt að bregðast hefði átt við fyrr og hlusta betur. Það er fagnaðarefni að umboðsmaður barna hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg láti framkvæma óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum skóla- og borgaryfirvalda vegna ástands húsnæðis Fossvogsskóla.
Foreldrar í vanskilum óöryggir um vistun barna sinna á leikskóla
Nokkur fjöldi barna, sem búsett eru í Reykjavíkurborg, eiga á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Dæmi eru einnig um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum.
Ákvörðun sveitarfélags um að synja foreldrum í erfiðri stöðu um vistun fyrir barn í leikskóla er eingöngu til þess fallin að auka á erfiðleika viðkomandi heimilis með því að gera foreldrum síður kleift að stunda vinnu utan heimilis og framfæra börn sín.
Erfið skuldastaða foreldra getur haft alvarleg áhrif á mörg börn. Samkvæmt Barnasáttmálanum ber að tryggja að börn fái, óháð aðstæðum foreldra þeirra, notið réttar síns til framfærslu, menntunar og þroska. Hlúa á sérstaklega að börnum, sem búa við fátækt á heimili sínu, á öllum sviðum daglegs líf.
Í þessu sambandi má einnig nefna afgreiðslu vanskilamála vegna skólamáltíða. Af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til innheimtufyrirtækisins og voru 1,5% ennþá ógreiddir 1. nóvember 2021. Ef foreldrar geta ekki greitt skuldina safnast dráttarvextir sem elta fátæka foreldra næstu árin. Engu barni er þó sagt upp mataráskrift eftir því sem næst er komist.
Biðlistar rótgróið mein í Reykjavík
Á heildarbiðlista eru nú 1680 börn og bíða flest börn eftir sálfræðingi.
Börn eiga rétt á sálfræðiþjónustu á vegum Skólaþjónustunnar en gengið hefur hægt að grynnka á biðlistanum.
Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggist m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga.
Tugir barna bíða þess utan eftir annars konar fagþjónustu sem borginni er skylt að veita þeim samkvæmt sveitastjórnalögum.
Reykjavíkurborg á hraða snigilsins
Að ofangreindu má sjá að brýnt er að hefja vinnu til að komast að raun um hvað þarf að bæta í aðstæðum barna og réttindamálum þeirra með það fyrir augum að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Daglega eru ákvæði hans brotin.
Eftir því sem næst verður komist liggur nú fyrir borgarráði erindi frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu sem hér hefur verið lýst, Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs og fleiri sviða. Ekki er vitað hvar í kerfinu erindið liggur. Málið liggur í láginni. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum berist hið snarasta svo að taka megi ákvörðun um þátttöku í verkefninu sem leiðir til innleiðingar Barnasáttmálans í Reykjavík.
Greinin er birt í Morgunblaðinu 17.1. 2022
Eldumst heima - sérstök uppbygging svæða
23.12.2021 | 15:18
Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að undirbúa. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.
Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíkra nota. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að huga að útivist, áhugamálum, félagslegri þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíkum forsendum er hægt að styðja myndarlega við löngun eldri borgara til að eldast heima hjá sér.
Ýmis vandamál geta komið í veg fyrir það að eldra fólki líði vel í núverandi húsakynnum sínum. Húsnæðið getur verið of stórt, of dýrt er að flytja, fólkið vill komast í rólegra umhverfi og stundum er langt í þjónustu við eldri borgara. Þetta er atriði sem við í Flokki fólksins viljum taka á og færa til betri vegar.
Á fundi borgarstjórnar 21. desember lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks.
Engin þörf væri fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla eða aðra þjónustu sem hugsuð er fyrir börn og barnafjölskyldur. Einblínt yrði á t.d. útisvæði þar sem boðið er upp á alls konar afþreyingu og skemmtilegum garði eins og Hellisgerði, innisvæði þar sem unnt yrði að koma fyrir verkefnastofu, sameiginlegu svæði, aðstöðu fyrir heimahjúkrun svo fátt eitt sé nefnt.
Svæði sem þetta verður að höfða til eldri borgara og hvetja til útivistar og tómstunda. Aðkoma félaga eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldra fólks með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu þaulhugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði öryggis í hvívetna.
Flokkur fólksins leggur til að efnt verði til samkeppni meðal arkitektastofa þar sem þeim er gefinn kostur á að skipuleggja svæði annars vegar fyrir fólk eldra en 60 ára og hins vegar fyrir fólk eldra en 75 ára. Fyrra svæðið yrði þá með meiri útivistarmöguleikum en hið síðara með meiri nærþjónustu eins og heimahjúkrun og sameiginlegu þjónusturými. Því ekki að stíga þetta myndarlega skref til móts við betra mannlíf til framtíðar fyrir mikilvægan hóp?
Afdrif tillögunnar í borgarstjórn
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk:
Tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk hefur verið felld nánast með þeim rökum að þetta sé ekki það sem þessi hópur þarf né vill.
Tillagan gekk út á að farið yrði í samkeppni um sérstaka uppbyggingu svæða víðs vegar sem yrði sérsniðið fyrir eldra fólk. Markmiðið er að gefa sem flestum tækifæri til að geta elst heima hjá sér við góðar aðstæður og er það hlutverk Reykjavíkurborgar að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.
Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Það þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Þjóðin er að eldast og því þurfi að horfa til þess hvernig Reykjavíkurborg ætlar sér að þjónusta eldri borgara sem best. Það er ekki seinna vænna en að fara að hugsa það strax.
Borgarskipulag á að vera lifandi, breytilegt og taka tilliti til allra hópa. Ef að ekki er hugsað til þarfa eldri borgara strax í skipulagi er slíkt einungis ávísun á óþarfa vandamál síðar meir. Flokkur fólksins hefur rætt um þetta mál við hagsmunasamtök og hugnast mörgum svæði sem þessi.
Fríar skólamáltíðir fyrir börn fátækra foreldra
7.12.2021 | 15:13
Hér er eru tvær þeirra en þær tengjast:
Tillaga nr. 1 um fríar skólamáltíðir fyrir þá verst settu:
Tillaga nr. 2
Tillaga vegna áskrifta, innlendrar og erlendrar ráðgjafar
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsvið verði lækkaðar um 27,5 milljónir , þar af verði áskriftargjöld lækkuð um 12,5 milljónir., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar lækkuð um 7 milljónir. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar lækkuð um 8 milljónir. Fjárhæðinni verði varið til að mæta tekjutapi vegna frírra skólamáltíða barna einstæðra foreldra í leik- og grunnskólum, sbr. tillaga 1, sjá hér ofar
Greinargerð:
Þjónustu- og nýsköpunarsvið áætlar í ofangreind útgjöld 54 milljónir á næsta ári, þar af í áskriftargjöld 25 milljónir., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar 15 m.kr. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar 14 milljónir. Tillagan gerir ráð fyrir að hagræðing í ofangreindum útgjöldum nemi um 50%. Tillagan felur í sér að þjónustu- og nýsköpunarsvið segi upp erlendum áskriftum að hluta til og samningum við erlend ráðgjafarfyrirtæki auk innlendra áskrifta og ráðgjafar.
Klapp!
2.12.2021 | 10:53
Fyrirspurn lögð fram í borgarráði.
Nýlega var tekið í notkun nýtt greiðslukerfi hjá Strætó bs. sem kallast Klapp. Kerfið er hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Greiðslukerfið er rafrænt og virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldinu en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Vandinn er sá að stór hópur fólks með þroskahömlun er ekki með rafræn skilríki. Sökum fötlunar geta þau ekki valið lykilorð og megi þau ekki fá aðstoð við það.
Fulltrúi Flokks fólksins vekur athygli á athugasemdum fatlaðs fólk og leggur hér fram eftirfarandi fyrirspurnir:
Hvað hyggst Strætó gera til að bæta úr þessum vanköntum?
Af hverju var ekki hugsað út í þarfir þessa hóps þegar verið var að hanna og þróa nýtt greiðslukerfi?
Hvernig á að hafa fyrirkomulagið á meðan verið er að leita lausna?
Fátækt er ógn við íslensk börn
25.11.2021 | 10:11
Þar er smánarblettur á okkar auðuga samfélagi hve margir búa hér við sára fátækt. Þeirra á meðal eru aldraðir sem er nauðugur einn kostur velja á milli þess hvort þeir kaupa sér mat eða lífsnauðsynleg lyf, einstæðir foreldrar sem verða að gera upp við sig hvort þeir hafa efni á því að greiða orkureikninginn eða fara til tannlæknis og veikt fólk sem verður smám saman úrkula vonar í því fúafeni fátæktarinnar sem íslenska kerfið er. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þeim langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum.
Sláandi skýrsla Barnaheilla
Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt meðal barna er dregin um dökk mynd af vaxandi barnafátækt í Evrópu. Ísland er þar ekki undanskilið. Bent er á að auka þurfi hér jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi svo dæmi séu nefnd. Þá þurfi að móta opinbera áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Slík stefna er nefnilega ekki til þó að ótrúlegt megi virðast. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður.
Ójöfnuður hefur aukist vegna atvinnuleysis foreldra í COVID og framtíðarhorfur eru óljósar. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna. Tilkynningar um vanrækslu hafa aukist um 20%, ofbeldi um og yfir 23% sem og áhættuhegðun barna um 23%. Um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Húsnæðisaðstæður margar barna eru ótryggar. Húsaleiga er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar eða um 70% af ráðstöfunartekjum. Þetta leiðir til þess að fátækir foreldrar leita skjóls í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel hættulegt.
Aðgerðir strax!
Flokkur fólksins vill að gripið verði tafarlaust til sértækra og markvissra aðgerða í þágu barna. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett, félagslega útskúfuð. Til að ná þessu þarf að setja fram skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. kveðið á um hvernig uppræta eigi vítahring fátæktar, þannig að öll börn fái notið þjónustu til að rækta hæfileika sína. Þetta er stærsta verkefni borgarstjórnar og Alþingis. Öll börn eiga að fá notið stuðnings, hvatningar og þjónustu til að þroskast og njóta sín í lífinu og að fá sjálf tækifæri til að taka þátt í að leggja grunn að menntun sinni og farsæld sinni til framtíðar eins og kostur er.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Fréttablaðinu 26.11. 2021
Ófremdarástand í leikskólum vegna manneklu
18.11.2021 | 14:50
Vissuð þið?
18.11.2021 | 12:44
Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir náin félagsleg samskipti við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína vegna þess að tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalega.
Blind trú á þéttingu byggðar í Reykjavík
9.11.2021 | 10:33
Húsnæðismál í Reykjavík eru í brennidepli vegna þess hve hinn alvarlegi skortur á íbúðarhúsnæði kemur sífellt betur í ljós. Flokkur fólksins styður þéttingarstefnu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún fer að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar eins og hjá núverandi borgarstjórnar-meirihluta. Einhliða framkvæmd þéttingarstefnu í Reykjavík, án ódýrari valkosta fjær miðborginni, hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði. Ekki hefur verið léð máls á að gera annað en að þétta. Ört hækkandi húsnæðisverð speglar ónógt framboð.
Nú eru 1900 íbúðir í byggingu í borginni eða 30% færri en fyrir tveimur árum skv. SI. Raunveruleikinn er skýr, það er slegist um hverja eign. Litlar íbúðir á þéttingasvæðum eru svo dýrar að þær eru ofviða námsfólki, fyrstu kaupendum og efnalitlu fólki.
Reynt að kenna öðrum um vandann
Borgarstjóri ofl. hafa reynt að kenna bönkunum um ástandið en þeir sverja af sér að vilja ekki lána. Þá hefur verið reynt að kenna verktökum um, en heyrst hefur að margir verktakar hafi einfaldlega gefist upp á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg og farið annað. Flækjustig byggingaferlis og kvaðir eru sagðar allt of miklar og íþyngjandi hjá borginni. Hins vegar vantar þá kvöð sem telja mætti langmikilvægasta. Hún er sú að þeim sem fær lóð beri að byggja á henni innan tilskilins tíma. Í Úlfarsárdal eru t.d. lóðir sem á er byggingarúrgangur en engin bygging hefur risið árum saman. Eftir hverju er lóðareigandinn að bíða eða eru verktakar enn að glíma við borgarkerfið?
Gleymd kosningaloforð
Nú eru hverfi að verða ansi einsleit, blokkir á blokkir ofan, litlir og stórir kassar þétt hver ofan í öðrum. Hvað varð um hugmyndina að blandaðri byggð, sjálfbærum hverfum með atvinnutækifærum innan hverfis? Var þetta ekki kosningaloforð núverandi meirihluta? Og hvað varð um þau umhverfis-sjónarmið að taka skuli tillit til birtuskilyrða og hávaða sem skiptir miklu fyrir svefn og líðan í búa? Sá var tíminn að einstaklingar gátu fengið lóðir og byggt sjálfir og samhliða því byggt upp félagslega samstöðu og myndað hverfismenningu. Þessi hugsun virðist með öllu fjarri nú.
Vandinn er sá að það er takmarkað framboð af lóðum fyrir allar gerðir fasteigna. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða, þar sem þeir sem það vilja hefðu getað byggt í stað þess að kaupa hús í Þorlákshöfn eða Hveragerði. Með því að víkka hverfin út og þá innviði sem fyrir eru skapast fleiri íbúðarmöguleikar. Skoða mætti t.d. suðurhlíðar Úlfarsfells og svæði austur af núverandi Úlfarsárdals sem tengjast því hverfi. Hér þarf öfgalausa víðsýni í stað blindrar trúar.
Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Fréttablaðinu 9. 11. 2021.
Hinn góði og hinn vondi
8.11.2021 | 09:37
Forvarnardagur gegn einelti er í dag 8. nóvember. Sem sálfræðingur til þrjátíu ára hef ég komið að fjölda eineltismála bæði í skólum, á vinnustöðum og í aðstæðum þar sem börn og fullorðnir stunda íþróttir og áhugamál sín. Beint er sjónum að vinnustöðum í þessari grein.
Einelti í alls konar myndum virðist því miður lifa góðu lífi á sumum vinnustöðum. Ábyrgð stjórnenda/yfirmanna er mikil því hann hefur allt um það segja hvort tekið verði á eineltismáli með faglegum hætti. Verði það ekki gert eru allar líkur á að eineltishegðun muni lifa góðu lífi á vinnustaðnum.
Ekki er öllum gefið að vera góður yfirmaður. Því miður finnast yfirmenn sem skortir flest það sem telst prýða góðan yfirmann. Það þýðir samt ekki að allir yfirmenn sem ekki teljast góðir yfirmenn séu gerendur eineltis.
Allir geta fundið sig í þeim aðstæðum að vera lagðir í einelti, líka yfirmaðurinn. Dæmi eru um að það sé ekki linnt látum á vinnustaðnum fyrr en búið er að koma yfirmanni frá, kannski vegna þess að hann var ómögulegur yfirmaður að mati einhverra. Þessi mál eru almennt séð ekki einföld og aldrei einsleit.
Yfirmaður, gerandi eineltis
Það sem einkennir yfirmann sem leggur starfsmann í einelti er oft valdafíkn í bland við minnimáttarkennd. Þessi yfirmaður misnotar gjarnan vald sitt til að næra laskað sjálf og eigið óöryggi. Svona yfirmaður heldur oft öllu starfsfólkinu í heljargreipum. Finnist honum einhver ógna sér eða skyggja á sig á vinnustaðnum gæti hann gripið til þess ráðs að reyna að koma þeim starfsmanni illa eða gera hann ótrúverðugan í augum annarra. Það sem einnig einkennir þessa tegund af yfirmanni er sveiflukennt skap og pirringur sem bitnar á starfsfólki eftir atvikum. Hann getur jafnframt átt það til að reiðast skyndilega, rjúka upp ef honum mislíkar. Það kitlar hann jafnvel að finna að hann getur með lund sinni, líkamsmáli og samskiptaháttum valdið óöryggi á vinnustaðnum. Liður í að minna starfsfólkið á hver ræður er að vera gagnrýninn, dómharður og óútreiknanlegur. Að vera óútreiknanlegur er tækni sem er til þess fallin að grafa undan öryggistilfinningu starfsmanna og að þeir geti átt von á öllu. Skilaboðin eru að enginn á vinnustaðnum skuli halda að hann geti verið öruggur með stöðu sína. Þessi yfirmaður fylgist vel með fólkinu á staðnum og notar til þess ýmsar leiðir, leyndar og ljósar.
Sumum kann að finnast að þessi yfirmaður hreinlega bíði færis á að geta tekið einhvern á beinið. Þegar starfsmaður er tekinn á beinið er það oft gert af hörku og óbilgirni.
Farsæli yfirmaðurinn
Sá yfirmaður sem telst góður skartar þveröfugum persónuleikaeinkennum en sá sem lýst er hér að ofan og hefur auk þess góða félagslega færni. Farsæll yfirmaður lætur sig nærumhverfið varða. Hann gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur. Góður yfirmaður hefur tiltæka stefnu í ofbeldismálum og viðbragðsáætlun sem skapar lausnarfarveg fyrir vandamál sem upp kunna að koma. Góður yfirmaður hvetur starfsfólkið til að gera skaðvalda óvirka, séu þeir á staðnum og upplýsa um neikvæða hegðun, verði hennar vart. Hann leggur sig fram um að vera í jákvæðu sambandi við starfsfólkið. Góður yfirmaður gerir að sjálfsögðu miklar kröfur til starfsmanna sinna um að skila góðri vinnu, leggja sig alla fram og hafa hagsmuni vinnustaðarins í heiðri í hvívetna. Metnaður yfirmannsins er líklegur til að smitast til starfsmannanna.
Á vinnustað sem þessum er líklegt að eineltismál séu sjaldgæf. Komi þau upp er tekið á þeim. Eineltismál eru eins ólík og þau eru mörg. Því miður er ekki alltaf hægt að lenda þessum erfiðu málum þannig að aðilar gangi sáttir frá borði. Þau eru flóknari en svo. Hvernig svo sem þeim lyktar skiptir öllu máli að aðilar finni að allt kapp var lagt í að leysa málið með faglegum og manneskjulegum aðferðum.
Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Greinin er birt á visi.is í dag 8. nóvember og ber titilinn Af ábyrgð stjórnenda
Tillaga um að byggja aðra sundlaug í Breiðholti felld
5.11.2021 | 12:43
Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti sem staðsett yrði t.d. í Suður Mjódd hefur verið felld með þeim rökum að nóg sé af góðum sundlaugum í borginni og að verið sé að byggja nýja sundlaug í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Ártúnshöfða.
Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Breiðholtið er stórt hverfi og í því er aðeins ein sundlaug. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að annast þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2.000 íbúðir þegar allt er tiltekið þar af nýjar íbúðir í Mjódd sem gætu orðið ca. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega ca. 500-700. Nýtingartölur í Sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar 2017 og fjölgaði gestum laugarinnar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru þrjár sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa um 28 þúsund manns. Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Það er því brýnt að skoða að byggja aðra sundlaug í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur tillöguna fyrir sem nýja fjárfestingu í síðari umræðu um fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun.
Tillagan í heild sinni ásamt greinargerð
Fulltrúi flokks fólksins leggur til að byggð verði ný sundlaug í Breiðholti. Lagt er til að lauginni verði valinn staður í Seljahverfi eða við íþróttasvæði ÍR í Syðri Mjódd. Borgarstjóra er falið að hefja vinnu við staðarval vegna tillögunnar og leggja til viðeigandi skipulagsbreytingar vegna hennar.
Greinargerð
Nýtt hverfisskipulag fyrir öll hverfi Breiðholts hefur verið til umræðu í vetur og kynnt fyrir íbúum hverfisins.
Ljóst er að gera þarf breytingar á gildandi deiliskipulagi svo koma megi umræddri sundlaug fyrir í Syðri Mjódd. Slík vinna þyrfti að hefjast sem fyrst og ekki síðar en í tengslum við hverfisskipulag strax á nýju ári.
Það er við hæfi í þessu sambandi að nefna að í arkitektasamkeppni um íþróttasvæði í Syðri Mjódd frá árinu 1982 var gert ráð fyrir vatnasvæðum úti. Vísað er til tillögu Guðna Pálssonar og Dagnýju Helgadóttur.
Í Syðri Mjódd er í gildi sérstakt deiliskipulag, sem ekki er hreyft við í hverfisskipulagi, Fyrst þarf því að finna umræddri sundlaug stað í hverfinu og gera síðan breytingar á gildandi deiliskipulagi í framhaldinu.
Í Breiðholtinu er nú ein sundlaug, Sundlaug Breiðholts. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að anna þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti, sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að tvö þúsund íbúðir þegar allt er tiltekið, þar af gætu nýjar íbúðir í Mjódd orðið um 600 talsins og aukaíbúðir í sérbýli á bilinu 500-700.
Sjá má hvernig aðsókn að Sundlaug Breiðholts hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar árið 2017 og fjölgaði gestum hennar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn að lauginni 204.047 en hafði rúmlega tvöfaldast árið 2019 þegar aðsóknin nam 432.219 sundlaugargestum. Til samanburðar má geta þess að í Hafnarfirði eru þrjár sundlaugar en þar búa um 28 þúsund manns.
Í Breiðholtslaug koma ekki einungis Breiðhyltingar heldur einnig fólk úr öðrum hverfum, t.d. Norðlingaholti. Nú er staðan þannig í lauginni að erfitt er, ef ekki ógerlegt, að fara í hana milli kl. 8-16 á virkum dögum. Vissulega er skólasund í forgangi en það er ekki viðunandi að almenningur eigi þess varla kost að sækja sundlaugina nema á kvöldin. Breiðhyltingar eru jafnvel farnir að aka í önnur sveitarfélög til þess að komast í sund.
Fulltrúi flokks fólksins vill að skoðað verði fyrir alvöru að bæta við annarri sundlaug í Breiðholti enda er sundiðkun holl og góð líkamsrækt. Ekki hafa allir efni á líkamsræktarkorti.
Bara eitthvað mjálm og suð sagði formaður Viðreisnar
28.10.2021 | 17:24
Í borgarráði var lögð fram húsnæðisáætlun 2022 og 10 ára úthlutunaráætlun til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins gerði bókun.
Segir í gögnum að stefnt er að byggingu 1000 íbúða í Reykjavík árlega og af þeim eru 250 íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Þetta er gott eins langt og það nær en er bara ekki nóg. Það á eftir að taka langan tíma að vinna upp þau ár sem of lítið var byggt. Úthluta þarf mörgum lóðum fyrir ólíkar tegundir af húsnæði. Sárlega vantar sérbýli og raðhús ef halda á eðlilegum húsnæðismarkaði. Þétting byggðar hefur leitt til þess að það sem byggt er er einsleitt, mest litlar og meðalstórar blokkaríbúðir, á rándýru þéttingarsvæðum.
Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu eru eitthvað um 200 eignir en þær þyrftu að vera allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Mæta þarf ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður allt of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun. Þetta eru staðreyndir en ekki eitthvað mjálm eða suð eins og formaður Viðreisnar orðaði það viðtali á Útvarpi Sögu þegar spurð um hvað henni fyndist um málflutning minnihlutans í borginni um skort á húsnæði í Reykjavík vegna.
12 bílastæði
26.10.2021 | 13:38
Bætum rétt barna sem eiga tvö heimili
16.10.2021 | 10:52
Á fundi borgarráðs lagði ég til fyrir hönd Flokks fólksins að reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar yrðu rýmkaðar. Taka ætti mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn, sem sækja skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra segir til um, ættu einnig rétt á strætókorti.
Einnig lagði ég til aukin réttindi fyrir þau börn, sem sækja skóla í hverfi utan lögheimilis þeirra af annars konar ástæðum. Hér er m.a. átt við börn sem hafa þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla fjarri heimili sínu af þeim sökum eða börn sem hafa flust í nýtt hverfi en vilja halda tengslum við vini í gamla skólanum þar til haldið er í menntaskóla. Fráleitt er að neita þeim um strætókort ef fjarlægðarviðmiði milli heimili og skóla er náð sem er 1,5 km göngufjarlægð frá hverfisskóla sínum fyrir nemendur í 1.-5. bekk og 2 km fyrir nemendur í 6.-10. bekk.
Tökum mið af breyttum lífsháttum
Reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar kveða á um að miða skuli við lögheimili barns og fjarlægð þess frá skóla þegar ákveðið er hvort barnið eigi rétt á strætókorti eða skólaakstri. Nú er það svo að sum börn eiga tvö heimili þótt einungis annað þeirra sé lögheimili . Sífellt verður algengara að barn dveljist viku í senn hjá hvoru foreldri og ekki búa allir foreldrar í sama hverfi. Flokkur fólksins leggur til að reglum sé breytt þannig að tekið sé tillit til fjarlægðar skóla frá báðum heimilum barns til að auðvelda foreldrum að ala börn sín upp í sameiningu. Þessi tillaga er í samræmi við nýsamþykktar breytingar á barnalögum sem taka gildi næstu áramót og opna á það að foreldrar skrái bæði lögheimili og búsetuheimili barns, og taki sameiginlegar ákvarðanir um hagsmuni barnsins í slíkum tilvikum.
Réttlátari tilhögun ætti ekki að auka kostnað borgarinnar nema lítillega en getur skipt hlutaðeigandi börn og foreldra miklu.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Greinin er birt á visi.is 16. október 2021
Hafa börnin með í að skipuleggja hverfið
14.10.2021 | 12:56
Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir seðlabankastjóri
7.10.2021 | 08:57
Fulltrúi Flokks fólksins rakti helstu vanefndir þessa meirihluta á fundi borgarstjórnar 5. október sl. með því að fara í gegnum meirihlutasáttmála þeirra.
Íbúðaskortur og biðlistar er kjarninn í vanefndum þessa meirihluta sem er þvert á það sem stendur í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að byggja eigi sem aldrei fyrr. Samt hafa aldrei verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Ástæðan er skortur á lóðaframboði. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu á þéttingarreitum. Margir sérfræðingar hafa stigið fram og bent á þetta, t.d. Samtök iðnaðarins sem og seðlabankastjóri sem nefndi að brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð. Nú eru eingöngu um 3400 íbúðir í byggingu en byggja þarf árlega 3000-3500 nýjar íbúðir ef vel ætti að vera.
Aðrar vanefndir
Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða.
Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk á ekki mikið eftir milli handanna þegar búið er að borga leiguna. Hópurinn sem leitar til hjálparstofnana hefur stækkað. Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu þrefaldast og nú bíða 1448 börn á listanum. Á sama tíma sýna kannanir að andleg líðan barna fer versnandi.
Ekki voru efnd loforð um sveigjanleg starfslok eldra fólks. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá. Grænum áherslum hefur verið hampað á meðan metan er brennt á báli í stórum stíl. Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í alls konar stafræn tilraunaverkefni til að borgin geti verið stærst og mest á heimsmælikvarða. Fátt er um afurðir, hvar er t.d. Hlaðan og Gagnsjáin, nýtt skjala- og upplýsingakerfi sem átti að koma í notkun fyrir 2 árum.
Ekki skal undra ef einhverjir eru farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
www.kolbrunbaldurs.is
Birt í Fréttablaðinu 7. október 2021
Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!
24.9.2021 | 10:03
Á morgun laugardaginn 25. september verður gengið til Alþingiskosninga
Flokkur fólksins berst gegn fátækt á Íslandi og sækir nú umboð þjóðarinnar til að halda þeirri baráttu áfram á Alþingi. Grundvallarmannréttindi barna og fjölskyldna þeirra hafa alls ekki verið virt sem skyldi hér á landi. Mannréttindi samfélags eiga hvorki að vera háð efnahagi né völdum. Fátækt er samfélagsmein sem hefur aukist á Íslandi síðustu ár.
Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!
Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu til tíu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt að mati Flokks fólksins. Með slíkan efnahagslegan mun sitja börn ekki við sama borð. Fátækt á bernskuárum getur haft víðtæk áhrif á börn og valdið margvíslegum skaða. Félagslega mismununin svíður sárast. Börnin finna til vanmáttar, glíma við brotna sjálfsmynd og sæta í sumum tilvikum einelti.
Ríkisvaldið undir forystu Sjálfstæðisflokksins og VG hefur ekki staðið sig nægjanlega vel gagnvart börnum efnaminni foreldra varðandi sanngjarna dreifingu fjármagns svo að jöfnuður megi ríkja. Staðreyndin er sú að það búa ekki allar fjölskyldur við sjálfsögð mannréttindi á Íslandi. Sumar fjölskyldur búa við óviðunandi húsnæðisaðstæður ýmist vegna lélegs húsakosts eða þrengsla. Það er heldur ekki lengur nýlunda að frétta af börnum sem hafa gengið í allt að fjóra grunnskóla vegna tíðra flutninga fjölskyldunnar.
Það er útilokað fyrir fólk á lægstu laununum, öryrkja og fjölmarga eldri borgara sem greiða háa leigu að lifa mannsæmandi lífi. Þetta getum við hjá Flokki fólksins ekki sætt okkur við.
Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi. Merktu x við F ef þú vilt styðja okkur í þeirri baráttu!
Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Birt í Breiðholtsblaðinu 22. september 2021
Enginn á að þurfa að basla á efri árum
20.9.2021 | 10:33
Fjárhagur og fjárhagsaðstæður eru stór áhrifaþáttur á líðan allra, sama á hvaða aldursskeiði þeir eru. Eftir því sem aldurinn færist yfir með tilheyrandi breytingum skiptir fátt eins miklu máli og fjárhagslegt öryggi. Líklegt má telja að flestir eldri borgarar búi við að minnsta kosti þokkalegt fjárhagslegt öryggi. Vitað er þó að ákveðinn hluti eldri borgara hefur ekki næg fjárráð, býr við ófullnægjandi aðstæður og líður jafnvel skort. Áhersluatriði Flokks fólksins er að enginn eldri borgari búi við skort af neinu tagi. Við viljum tryggja eldri borgurum mannsæmandi afkomu svo þeir geti lifað með reisn og notið ævikvöldsins.
Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að vísað sé til eldri borgara eins og einsleits hóp. Þannig er því ekki háttað. Eldri borgarar eiga það sameiginlegt að hafa náð ákveðnum lífaldri. Að öðru leyti er þessi hópur ekkert frábrugðinn öðrum hópum fólks á einhverju öðru aldursskeiði.
Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar talað er um efri árin er heilsufar. Þótt heilsuleysi geti gert vart við sig á öllum aldursskeiðum er hættan á heilsubresti vissulega mest á efri árum. Að þessu leyti gætir þó mikils mismunar hjá eldri borgurum. Hluti þeirra er við góða heilsu, hluti við þokkalega heilsu og enn annar við bágborna heilsu. Aðrar aðstæður s.s. fjölskylduaðstæður eru að sama skapi afar mismunandi.
Kröftug barátta Flokks fólksins fyrir réttindum eldra fólks
Flokkur fólksins hefur barist með blóði, svita og tárum á Alþingi til að rétta hlut eldra fólks en oftast ekki haft árangur sem erfiði í þeirri glímu við ríkisstjórnina. Vel hefur þó tekist til að skapa umræðu og stórsigur vannst þegar Flokkur fólksins vann í júlí 2019 mál fyrir hönd ellilífeyrisþega, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í því máli varð til þess að ríkið greiddi 29.000 eldri borgurum samtals um sjö milljarða króna.
Undir lok kjörtímabilsins bar barátta Flokks fólksins loks árangur á Alþingi þegar samþykkt var að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra og að blindum og sjónskertum stæði til boða leiðsöguhundar sér að kostnaðarlausu.
Burt með skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna!
Sú regla hefur gilt í íslensku samfélagi að eldri borgarar fara af vinnumarkaði 70 ára án tillits til þess hvort þeir sjálfir eða atvinnurekendur hafi óskað eftir því. Þetta er fólkið sem hefur alla sína starfstíð lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Það er hreint fráleitt að launa þessu fólki með því að útiloka það frá vinnumarkaðnum þótt ákveðnum aldri hafi verið náð enda er lífaldur fráleitur mælikvarði á atgervi fólks.
Í hópi eldri borgara eru einstaklingar sem bæði geta og vilja vera áfram á vinnumarkaði við ólík störf. Það er ekki hlutverk ríkisins að leggja stein í götu eldri borgara sem vilja vera á vinnumarkaði. Hvenær eldri borgari hættir að vinna er hans val og hans persónulega ákvörðun. Þess vegna vill Flokkur fólksins einfaldlega leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna. Allt annað er ósanngjarnt.
Sú kynslóð sem hér um ræðir hefur öðlast reynslu og safnað fjölþættri þekkingu og í mörgum tilvikum er einmitt gagnlegt að blanda saman fólki á mismunandi aldursskeiðum á vinnustöðum. Hinn ungi heili er fljótur að tileinka sér nýja þekkingu er þarf langan tíma til að breyta henni á nothæfan skilning.
Hinn fullorðni heili er lengur að tileinka sér nýja þekkingu en fljótur að sjá hvernig hægt er at nota hana. Með því að fjölga eldri borgurum á vinnumarkaði geta þeir líka miðlað til annarra þroskuðum viðhorfum, sögulegum venjum og hefðum og dýrmætum menningararfi sem skilar sér vel í munnlegum samskiptum frá einum aðila til annars. Því lengur sem eldri borgarar eru virkir í atvinnulífinu og í sem nánustu tengslum við yngri kynslóðirnar því meiri ávinningur fyrir samfélagið í heild.
Gerum efri árin að gæðaárum. Þau eiga hvorki að vera fátæktargildra né kvíðaefni.
Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Birt í Morgunblaðinu 20. september 2021