Börn sem bíða eru börn sem líða

Biðlistar barna eru blettur á heilbrigðisþjónustunni

Árum saman hafa notendur heilbrigðisþjónustunnar mátt búa við biðlista af öllum stærðargráðum. Biðlistar á Barna- og unglingageðdeild (Bugl) hafa verið svo lengi sem menn muna. Biðlistavandi á ekki einungis við um Bugl heldur á fleiri stöðum þar sem börnum og unglingum, sem eiga við sálfræðilegan og/eða líffræðilegan vanda að stríða, er hjálpað. Nefna má einnig langa biðlista á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem kemur illa niður á notendum og aðstandendum.

Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Flokkur fólksins vill uppræta biðlista. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu. Hverju kann það að sæta að samfélag eins og okkar Íslendinga er haldið þessu biðlistameini? Svarið er oft „mannekla“ og til að hægt sé að ráða fleira fagfólk þurfi fjármagn. Fjármagni er ekki forgangsraðað í þágu barnanna, svo mikið er víst. Börn hafa ekki verið sett í forgang, væru þau í forgangi, þá væru ekki langir biðlistar eftir svo nauðsynlegri þjónustu sem sál- og geðlæknaþjónusta er. Á þessu kjörtímabili hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að eyða biðlistum eins og þeir séu bara sjálfsagðir og eðlilegir.

Halda þarf áfram að leita lausna á þessu rótgróna vandamáli og finna leiðir til að ráða inn fleiri fagaðila og stuðla að aukinni samvinnu milli stofnana bæði ríkis og borgar.

Heilsu barna teflt í tvísýnu

Við í Flokki fólksins vonum innilega að á meðan börnin bíða eftir þjónustunni verði vandinn ekki þeim ofviða. Vissulega er reynt að forgangsraða málum. Bráðamál eru tekin fram fyrir og mál sem sögð eru  „þoli bið“ séu látin bíða.  Enginn getur með fullu vitað hvað er að gerast hjá barninu á meðan það bíður eftir þjónustu. Vel kann að vera að á meðan á biðinni stendur vaxi vandinn og geti á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum. Dæmi um bráðamál eru börn sem viðhafa sjálfsskaða, eru jafnvel komin með  sjálfsvígshugsanir eða byrjuð í neyslu. Fullvíst er að þegar svo er komið hefur vandinn átt sér aðdraganda. Mál barns verður ekki bráðamál á einni nóttu heldur hefur líklega verið að krauma mánuðum saman.

Börn eiga ekki að þurfa bíða eftir þjónustu af þessu tagi nema í mesta lagi 3-4 vikur. Með margra mánaða bið er verið að taka áhættu. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu fyrir barn sitt hjá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn, sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk, er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.

Börn sem bíða eru börn sem líða.

Höfundar:

Tómas A. Tómasson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Birt í Mannlífi 18. september 2021

 

Kolla og Tommi í blöðunum Kjarninn


136 bíða eftir sértæku húsnæði. Hver er aldur og aðstæður þeirra í dag

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir á fundi velferðarráðs að fá upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk.
Staðan í Reykjavík er svona:
Þann 1. september s.l. var fjöldi umsækjenda sem bíða eftir fyrsta húsnæði 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Samtals sem sagt 168. Yfir 40 einstaklingar hafa beðið lengur en 5 ár.

Margir bíða fram á fullorðinsár eftir  búsetuúrræði.  Það er mikið lagt á fatlað fólk sem orðið er rígfullorðið og fær ekki búsetuúrræði. Margir hafa beðið árum saman.

Biðlistar eru ekki eiginlegir biðlistar heldur „haugur“ af því sem virðist sem hirt er úr eftir hendinni eða hvað? Alla vegar hefur komið fram ítrekað að sagt sé við einstakling að hann sé næstur en síðan er hann það ekki og annar tekinn fram fyrir og sá sem átti að vera næstur bíður jafnvel í ár eða meira í viðbót.
Þetta reynir á foreldrana en margir búa hjá foreldrum meðan þeir bíða og mest reynir þetta á umsækjendur sjálfa. Dæmi eru um að foreldrar séu orðnir öryrkjar vegna álags.


Hin lamandi áhrif fátæktar

Fátækt meðal barna á Íslandi á sér margar birtingamyndir. Þegar hugtakið „fátækt“ ber á góma dettur mörgum í hug svelti og jafnvel að viðkomandi búi á götunni. Hugtakið fátækt hefur hins vegar mun víðtækari merkingu . Í því felst m.a. að foreldrar hafi ekki ráð á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji stendur til eða eru talin almenn, jafnvel nauðsynleg. Börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Foreldrar, sem eru aðþrengdir fjárhagslega, þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða sínum knöppu fjárráðum ef endar ná ekki saman. Efst á lista er húsaskjól og aðrar grunnþarfir. Í mörgum tilvikum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í leigu. Fátækt hefur aukist hér á landi á síðustu misserum sem m.a. tengist efnahagsáhrifum  COVID-19.


Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi!

Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Íslendingar á ekki að líða fátækt. Hún leiðir til misréttis og getur haft mjög neikvæð áhrif á líf og líðan barna. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Hann hefur ekki verið innleiddur nema að takmörkuðu leyti. Á Íslandi standa fjölmargar barnafjölskyldur standa efnahagslega höllum fæti. Þær geta ekki veit börnum sínum nema brot af því sem börn efnameiri foreldra fá og geta. Sum börn búa við svo bágar aðstæður að þau geta ekki boðið vinum sínum heim. Sum börn fá ekki nóg að borða og fara svöng að sofa. Hér er frásögn stúlku einstæðrar móður sem býr við fátækt:

 „Við mamma búum í einu litlu herbergi. Við misstum allt í Hruninu. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hef gengið í þrjá skóla og á því ekki marga vini."  
 

Auk stækkandi hóps sem býr við fátækt eru biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki. Samkvæmt  nýjum könnunum hefur andleg heilsa barna versnað. Áherslumál Flokks fólksins eru að bæta kjör og líðan allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnahagsþrenginga, barna, öryrkja og eldri borgara. Allir vita eða segjast vita hvaða afleiðingar áhrif skorts og langtímavöntunar hafa á börn og þroska þeirra. Stokka þarf spilin upp á nýtt og setja fólkið sjálft, heilsu þess og hag í forgang. Fólkið fyrst, síðan allt hitt! 

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 

 Tómas Andrés Tómasson - 1. sæti Reykjavík norður réttKolbrun v3


Ekki lengur biðlisti heldur haugur sem týnt er úr

Borgarstjórnarfundur er næstkomandi þriðjudag. Flokkur fólksins hefur sett á dagskrá umræðu um vöntun og langan biðlista eftir sértæku húsnæði og húsnæði með stuðningi.

 
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um biðlista fatlaðs fólks og vöntun á sértæku húsnæði og húsnæði með stuðning.

Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi. Í þessi úrræði hefur alltaf verið biðlisti. Um 135 einstaklingar með fötlun eru á biðlista og hafa 40 beðið lengur en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölur þær sömu. Sumir hafa beðið í fjölda mörg ár, fatlað fólk
sem er orðið rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.
Flestir hafa þann skilning á „biðlista“ að þar sé einhver kerfisbundin röð í gangi, að þeir sem beðið hafa lengst séu fremstir á lista. Kvartanir hafa borist að umræddur biðlisti sé ekki eiginlegur biðlisti heldur sé frekar um að ræða haug frekar en kerfisbundinn skipulagðan lista. Dæmi eru um að einstaklingi sé sagt að hann sé „næstur“ en síðan komið í ljós að það er ekki rétt, aðrir þá teknir fram fyrir. Búið er að dæma í einu máli sem þessu og var þar einstaklingi dæmd milljón í miskabætur.
 

Flest er sjötugum fært

Flest er sjötugum fært

Ég lagði fram þessa tillögu í borgarráði í gær.
Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldra fólki, um og yfir sjötugt, sem hefur áhuga og löngun til að starfa, störf á leikskólum borgarinnar.

Í kjarasamningum segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Heimildin er til staðar. því er ekkert að vanbúnaði. Hér er tilvalið tækifæri til nýta dýrmæta reynslu eldra fólks sem komið er um og yfir sjötugt og langar að nýta krafta sína og reynslu áfram á vinnumarkaði.

 

Það sárvantar fólk til starfa víða m.a. í leikskólum

Enn og aftur er ekki hægt að taka börn inn í leikskóla vegna manneklu. Þetta veldur foreldrum ómældu álagi. Svör eru óljós og loðin. Börn sem áttu að byrja í september geta kannski byrjað í október. Hér er um að ræða yngstu börnin og þau sem fædd eru síðast á árinu mæta algerum afgangi. Foreldrar eru í örvæntingu sinni að leita annarra leiða. Þau reyna að koma börnum sínum að, jafnvel í öðrum hverfum. Það skýtur skökku við að borgarstjórn sem vill draga úr akstri hafi skapað ástand þar sem foreldrar þurfa gjarnan að keyra þvert yfir borgina á háannatímum til að koma börnum sínum til og frá leikskóla.
Í þessum tilfellum er búið að kveðja dagmæðurnar. Sumarfríi er lokið og foreldrar byrjaðir að vinna. Ekki allir foreldrar eiga þess kost að vinna heima. Auk þess verður lítið úr vinnu heima þegar verið er að annast tæplega tveggja ára barn á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega og verið spurður af skóla- og frístundasviði hvaða lausnir hann telji vera í boði. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til í þessu sambandi að Reykjavíkurborg bjóði fólki sjötugu og eldra sem hefur áhuga á að vera lengur á vinnumarkaði og t.d. starfa í leikskólum störf eða starfshlutfall í stað þess að skikka það til að setjast í helgan stein.

Greinargerð

Sá mannekluvandi sem hér er reifaður á leikskólum borgarinnar er fyrst og fremst manngerður. Skóla- og frístundasvið borgarinnar hefur ekki tekist að leysa vandann. Það þarf að gera störfin aðlaðandi og eftirsóknarverð. Launin eru lág og álag stundum mikið. Ef ekki stendur til að hækka launin eða draga úr álagi þá þarf að reyna eitthvað annað til að fjölga starfsfólki. Ef hugsað er út fyrir boxið má sjá lausnir. Sú sem hér er lögð til er að ráða fólk um og yfir sjötugt til starfa á leikskólum borgarinnar. Vissulega mætti gera margt annað til að laða fólk til starfa í leikskólum, t.d. bjóða starfsfólki upp á aukafrí eða aðra umbun. Það verður að grípa til slíkra aðgerða þegar keyra á láglaunastefnu eins á þá sem borgin keyrir.
Skortur á leikskólaplássi er aukaálag á foreldra ofan á allt annað, svo sem COVID. Það gengur ekki að senda foreldrum bréf og segja „því miður,það er bara ekki hægt að taka barnið ykkar inn í leikskóla eins og til stóð”. Það segir í einu slíku bréfi frá leikskóla að það vanti ,,hæft” starfsfólk, að auglýsingarnar skili litlu og ekki sé mikið um umsóknir sem henta. Margt eldra fólk er fullt af orku og áhuga en kerfið hefur sent þau heim af vinnumarkaði vegna þess eins að þau eru orðin sjötug. 

 


Vil bara láta á þetta reyna með skólamöppurnar og Múlalund

Ég vil bara láta reyna á þetta mál með skólamöppur og Múlalund. Þess vegna setti ég inn þessa tillögu í skóla- og frístundaráði 24. ágúst.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi.

Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þessu verði breytt hið snarasta og að Reykjavíkurborg hefji viðskipti við Múlalund enda ekki stætt á öðru.Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það eru löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í brothættri stöðu. Starfsemin í Múlalundi er félagslega- og tilfinningalega mikilvæg fyrir starfsfólkið. Borgin vill ekki versla við Múlalund en vill að Múlalundir ráði fleiri starfsmenn til að framleiða vörur sem Reykjavíkurborg vill ekki kaupa. Þetta er óskiljanlegt. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn í júlí af hverju ekki er verslað við Múlalund. Í svari verst fjármálasviðið með því að bera við rammasamningi. Reykjavíkurborg hefur fulla heimild til þess að víkja frá rammasamningum þegar um er að ræða viðskipti við verndaða vinnustaði eins og Múlalund.
 

Klúðrið hjá Sorpu má ekki tala um

Er að hlusta á viðtal í Sprengisandi við stjórnarformann Sorpu og verð að segja að maður fyllist depurð því ekki var hlustað á varnarorð m.a. frá Flokki fólksins í borgarstjórn sem finna má í bókunum frá 2019. Það eru eilífar afsakanir á þessu Sorpuklúðri, ekki síst GAJU klúðri. Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU sorp- og jarðgerðarstöðina 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. Ekki var farið í útboð og var það kært. Aikantæknin var valin frá Danmörku. Innri endurskoðun fór að skoða þetta mál og skilaði svartri skýrslu. Fyrrverandi framkvæmdarstjóri var sagður hafa gefið villandi upplýsingar og fjölþætt eftirlitskerfi brást. Stundin lýsir GAJU ævintýrinu sem töfrabragði. GAJA átti að geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plast frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Mörg varnarorði voru uppi en stjórn Sorpu hlustaði ekki.

Niðurstaðan er plastmenguð molta með blýi, þungamálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. Sorpa hefur reynt að þagga og hindra aðgengi að gögnum. Sorpa hefur neitað að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýnir að 1.7% af moltu var plast. Eingöngu var mælt plast sem var 2 mm eða stærra, sem sást með augunum. Viðmiðið er 0.5%. Framkvæmdin fór 6.1 milljarð fram úr áætlun. Moltan er nánast ónothæf og ekki hefur tekist eða er vilji til að selja metangas sem er þess í stað brennt á báli. Strætó er ekki einu sinni að kaupa strætó. Tveir vagnar eru á döfinni. Strætó ætlar að veðja á rafmagnið. GAJU ævintýrið var bara einhver draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fjármagn. Fjármagnið sem farið hefur í þetta er ævintýralegt. Neyðarlán þurfti að taka og einnig þurfti að lengja í láni og taka yfirdráttarlán svo fátt sé nefnt.


Borgarbúinn hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum

Þessi bókun Flokks fólksins var færð úr trúnaðarbók á velferðarfundi í vikunni. Aflétting trúnaðar á bókuninni var vegna tillögu sviðsstjóra um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar á velferðarsviði:
 
Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint.

Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. „Borgarbúinn“ hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna meiri aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar.

Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn, samþættingu þjónustu, samhæfingar, samstarfs við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.

Nú á að gyrða sig í brók, kosningar nálgast

Nú á að gyrða sig í brók enda kosningar á næsta leiti

Nú á miðju sumri hef ég verið að líta um öxl, horfa yfir þau þrjú ár sem liðin eru af þessu kjörtímabili í borginni. Eftir tæpt ár verða borgarstjórnarkosningar. Framundan er  krefjandi vetur og reikna má með að fljótlega muni borgarstjórn einkennast af kosningatitringi. Það var mögnuð upplifun að verða kosin sem fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn enda þótt kannanir gæfu iðulega ekki tilefni til bjartsýnis. Ég einsetti mér að berjast ötullega að málefnum Flokks fólksins. Flokkur fólksins berst gegn fátækt og misrétti og við berjumst fyrir bættum kjörum og aðstæðum þeirra verst settu. Mörgum eldri borgurum og öryrkjum líður illa í ríku samfélagi okkar. Engin ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunnþörfum. Hópur hinna lakast settu er oft falinn. Margar barnafjölskyldur berjast í bökkum og því miður virðist vera allnokkur hópur sem glímir við vanlíðan sem má í sumum tilfellum rekja til námstengdra og/eða sálfélagslegra vandamála.

Foreldrar sem eru aðþrengdir fjárhagslega þurfa að forgangsraða ef endar ná ekki saman og þá koma grunnþarfir fyrst. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80%. Það er ómögulegt að ná endum saman þegar 20% launa þurfa að duga fyrir öllu öðru. Mikill skortur er á hagkvæmum húsnæði og er leiguverð íþyngjandi.

Biðlistameinið í borginni hefur hvílst einna sárast á mér. Nú bíða 1547 börn eftir aðstoð fagfólks skólanna, flestir til sálfræðinga og talmeinafræðinga. Strax við upphaf kjörtímabilsins lagði Flokkur fólksins fram tillögur sem lúta að styttingu biðlista. Lagt var m.a.  til að fjölga fagfólki, færa aðsetur sálfræðinga út í skólana og auka  samstarf skóla- og frístundasviðs við Þroska- og hegðunarstöð og heilsugæsluna. Öllum tillögum var hafnað.

Þótt börn eigi skýlausan rétt á nauðsynlegri þjónustu er biðlistavandinn líka  vandamál á ríkisstofnunum. Geðheilsa barna og ungmenna á að vera forgangsmál. Okkur hefur ekki tekist að tryggja börnum vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst þrátt fyrir að eiga aðild að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

En nú virðist meirihlutinn í borgarstjórn ætla að taka við.  Á dögunum voru lagðar fram tillögur um að taka á  biðlistum barna til fagfólks skólaþjónustu. Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa fullt aðsetur innan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til.

Allt kjörtímabilið hefur ekkert gerst í þessum málum. Á meðan börnin hafa beðið hefur hins vegar ekki flækst fyrir meirihluta borgarstjórnar að ákveða að ráðstafa 10 milljörðum í stafræna breytingu. Fyrir brot af þessum tíu milljörðum mætti gera mikið fyrir börnin í borginni og aðra viðkvæma hópa.  Því er ekki mótmælt að taka þarf til í stafrænum veruleika borgarinnar.  En meðhöndla þarf fjármuni borgarinnar af skynsemi og ábyrgð og forgangsraða rétt.

Hugsanlega má reikna með að einhverjar  umbótatillögur meirihlutans á skóla- og velferðarsviði verði að veruleika rétt fyrir kosningar. Segja má „betra seint en aldrei“. Allt sem er gott fyrir börn, þótt skrefin séu lítil, styður fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn.

Hins vegar hefur dýrmætur tími tapast. Fyrir börn sem hafa verið á biðlistum er  seint í rassinn gripið. Þau hafa mátt bíða mánuðum saman og jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu í formi einstaklingsmiðaðrar faglegrar aðstoðar. Mörg hafa útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa fengið aðstoð ýmist að hluta til eða öllu leyti.

Flokkur fólksins vill að öllu fólki, líði vel í borginni og á landinu öllu. Við höfum efni á því. Fólk þarf að finna til öryggis, að stjórnvöld láti það sig varða og að það þurfi ekki að kvíða morgundeginum. Að það hafi fæði, klæði og húsnæði. Við eigum gera kröfu um að allt sé gert til að öllum börnum geti liðið vel og þau upplifað sig örugg í sínum nærumhverfi. Ef þessir þættir eru ekki í lagi skiptir annað oft minna og jafnvel engu máli.  Fólkið fyrst og svo allt hitt!

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Birt í Fréttablaðinu 15. júlí 2021

 

 


1547 börn á biðlista eftir fagþjónustu skóla. 10 milljarðar í stafræn verkefni

1547 börn á biðlista eftir fagþjónustu skóla.
10 milljarðar í stafræn verkefni.
Svona er forgangsröðun meirihluta borgarstórnar.

Nú hefur það verið staðfest af ráðandi öflum í borgarstjórn að stafræn umbreyting er sett í algeran forgang. Stafræn umbreyting hefur verið í vinnslu síðastliðin ár undir stjórn þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem heyrir undir mannréttinda- lýðræðis og nýsköpunarráð. Ég á sæti í Ráðinu og hef fylgst með þróun mála, einnig verið með ótal fyrirspurnir og bókanir varðandi hvernig sýslað er með fjármagnið í einstök verkefni.

Í fyrra samþykkti meirihlutinn að spýta enn meira í og hefur ráðstafað 10 milljörðum í stafræna vegferð sem dreifist á þrjú ár. Sú upphæð sem hér um ræðir er af þeirri stærðargráðu sem varla getur talist að eðlilegt að veita til einnar einingar í borgarkerfi á nánast einu bretti. Verkefnin sem eru auk þess mörg bæði illa skilgreind og óljós og ekki hefur tekist að sýna fram á hagkvæmni þeirra. Við rýningu ofan í reikning bregður við að sjá upphæðir sem greiddar eru til innlendra og erlendra ráðgjafafyrirtækja á sama tíma og hópi kerfisfræðinga hefur verið sagt upp störfum.

Svörin við fyrirspurnum mínum eru mörg hver óljós eða svo háfleyg að þau teljast varla vera á mannamáli.
Ég get heldur ekki litið fram hjá því að borgaryfirvöld láta um 1547 börn bíða eftir faglegri þjónustu og almennt er biðlisti í alla þjónustu borgarinnar óásættanlegur. Biðlistatölur hækka með hverjum degi.
Flokkur fólksins sættir sig ekki við hvernig komið er fram við börnin í borginni.

Dýrmætur tími fyrir börnin hefur glatast

Loks er meirihlutinn í borgarstjórn að taka við sér þegar kemur að því að ráðast til atlögu gegn löngum biðlistum. Meirihlutinn lagði fram á dögunum pakka af tillögum um að taka á  biðlistum barna til fagfólks skólaþjónustu og færa jafnframt fagfólk nær börnunum í skólunum. Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa fullt aðsetur innan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til. Það er auk þess vilji margra skólastjórnenda enda þjónar slíkt fyrirkomulag best börnum og starfsfólki. Hér talar fulltrúi Flokks fólksins af 10 ára reynslu sinni sem skólasálfræðingur.

 

Nú bíða 1056 börn eftir þjónustu fagfólks skóla. Biðlistinn hefur verið að lengjast jafnt og þétt síðustu árin. COVID-ástandið bætti ekki úr en nú bíða sem dæmi 434 börn eftir þjónustu talmeinafræðings. Fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils barist fyrir því að fagfólki verði fjölgað og að farið verði markvisst og kerfisbundið í að stytta biðlista barnanna. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum allt kjörtímabilið. Segir í nýlegum pistli formanna skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs „að sérstakt átak verður gert í að styðja við börn sem leitað hafa eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar í vetur en umsóknum um skólaþjónustu hefur fjölgað hratt undanfarið í tengslum við Covid-faraldurinn“.

 

Hugsanlega má reikna með að eitthvað af umbótatillögum meirihlutans á skóla- og velferðarsviði verði orðnar að veruleika rétt fyrir borgarstjórnarkosningar sem verða í maí á næsta ári. Er það ekki dæmigert að efna eigi loforð rétt fyrir kosningar sem gefin voru fyrir síðustu kosningar? Nái þessi meirihluti aftur kjöri má ætla að sama gerist og síðast, hin fögru loforð fara í skúffu og þegar líður aftur að kosningum verði aftur dustað af þeim rykið?

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega að stíga eigi þetta skref og samþykkti allar þessar tillögur. Segja má „betra seint en aldrei“. Allt sem er gott fyrir börnin þótt skrefin séu lítil styður fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Hins vegar hefur dýrmætur tími tapast. Fyrir tugi barna sem hafa verið á biðlistum er ansi seint í rassinn gripið. Þau hafa mátt bíða mánuðum saman og jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu í formi einstaklingsmiðaðrar faglegrar aðstoðar. Mörg hafa útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa fengið aðstoð ýmist að hluta til eða öllu leyti.

Stafræn umbreyting sett ofar en aðstoð við börn í vanda

Á meðan börnin hafa beðið hefur hins vegar ekki flækst fyrir meirihluta borgarstjórnar að ákveða að ráðstafa 10 ma.kr. í stafræna umbreytingu eða öllu heldur stafræna umbyltingu. Fyrir brot af þessum tíu milljörðum mætti gera mikið fyrir börnin í borginni og aðra viðkvæma hópa.  Ekki er um það deilt að stafrænar lausnir eru af hinu góða. Nauðsynlegt er að einfalda ákveðna ferla til að flýta afgreiðslu sem dæmi. En meðhöndla þarf fjármuni borgarinnar af skynsemi og ábyrgð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það hafi ekki verið gert þegar kemur að innleiðingarferli stafrænnar umbreytingar í borginni. Um þau mál hafa verið lagðar fram fjöldi bókanna og fyrirspurna. Eitt er víst að engin stafræn umbreyting mun verða til þess að grynnka á biðlistum á meðan ekki er nægt fagfólk ráðið til verksins, hvorki talmeinafræðingar né sálfræðingar. Þess utan þarf enga 10 ma.kr. til að taka nauðsynleg skref í einföldun rafrænna ferla. Hluti þessa fjármagns hefði átt að ráðstafa til að styrkja skólaþjónustu grunnskólanna og ráða fleira fagfólk, sálfræðinga og talmeinafræðinga.

Þær eru ófáar tillögurnar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram á kjörtímabilinu sem lúta að lausnum á biðlistavanda borgarinnar. Biðlistar í borginni eru eins og illkynja mein sem vaxið hefur hratt síðustu árin. Allar tillögur Flokks fólksins hafa verið felldar eða þeim vísað frá meira og minna. Vaxandi vanlíðan barna hefur verið staðfest af Landlæknisembættinu, í könnunum Velferðarvaktarinnar og nú síðast í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Niðurstöður bera að sama brunni þ.e. að börn og ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri en áður. Áhrif og afleiðingar COVID hefur bæst ofan á þá slæmu stöðu sem fyrir var.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Grein birt í Fréttablaðinu 29. júní 2021


Styrkir fyrir glerskipti vegna hljóðvistar

Mér lék forvitni á að vita meira um þessa styrki til glerskipta vegna hljóðvistar og sendi inn fyrirspurnir sem ég fékk svar við í vikunni og skilaði inn eftirfarandi bókun í kjölfarið:
 
Lagður er fram listi yfir styrkveitingar til að bæta hljóðvist með glerskiptum. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki viss um að fólk sem býr við hávaða vegna umferðar á götu sem það býr við viti almennt um að samfélagið tekur þátt í kostnaði við að bæta hljóðvist. Að búa í gömlum grónum hverfum hefur bæði galla og kosti. Þeir sem kaupa gömul hús vita að þau eru ekki eins vel einangruð og ný hús. Augljóst er hvaða hús eru við umferðargötur. Ekkert á að koma á óvart. Í hverfum í uppbyggingu er hins vegar erfiðara að sjá allt fyrir. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að styrkur sem þessi renni til margra en ekki fárra þótt um lægri upphæðir verði þá að ræða. Það er auk þess mat fulltrúa Flokks fólksins að svona styrki eigi að tekjutengja. Þeir sem hafa efni á glerskiptum eiga að fjármagna það sjálfir en hjálpa á frekar hinum efnaminni sem hafa engin önnur ráð en að leita eftir styrkjum með vandamál af þessu tagi. Miðað við 65 desíbela jafngildishávaðastig yfir sólarhringinn má búast við að við fjölda húsa víðsvegar í borginni sé hávaði.
 
En hér eru fyrirspurnirnar:
Hversu margir hafa sótt um og hversu margir hafa fengið styrk til glerskipta í eigin húsnæði til að bæta hljóðvist á ári hverju frá árinu 2014?
Hversu mikið hefur verið greitt í styrki til glerskipta á ári hverju frá árinu 2014?
Hvernig dreifast umsóknir og styrkveitingar vegna glerskipta á götur?
Hver er hæsta fjárhæð vegna styrks sem hefur verið veittur vegna glerskipta og hvert er meðaltal fjárhæða styrkja?
Hver er kostnaður Reykjavíkur á ári hverju frá árinu 2014 við að meta hvort umsækjendur uppfylla kröfur til styrkveitingar og við að meta hljóðstyrk og veita ráðgjöf vegna hljóðvistar?
Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að sami einstaklingur hljóti fjölda styrkja vegna þess að viðkomandi á fleiri en eina íbúð?
Er skilyrði að einstaklingur búi í því húsi þar sem sótt er um styrk?
Er eitthvað horft til efnahagsstöðu umsækjanda við mat á styrkhæfni hans?

Breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni

Ég lagði þessa tillögu fram í skipulags- og samgönguráði umferðarþungi á Breiðholtsbr23. júní:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina og óski eftir viðræðum hið fyrsta um að breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni.
Þessi bútur brautarinnar er á annatímum löngu sprunginn, ekki síst síðla fimmtudags og föstudags þegar fólk streymir út úr bænum. Umferðarteppur eru af þeirri stærðargráðu að umferðarteppan nær niður alla Breiðholtsbrautina og situr fólk fast á brautinni í óratíma. Ástandið mun ekki batna þegar að Arnarnesvegurinn mun tengjast Breiðholtsbrautinni. Eðlilegt hefði verið að tvöföldun Breiðholtsbrautar væri gerð á undan tengingu við Arnarnesveg. Þetta ætti að vera algert forgangsmál.
Sjá nánar umræðu um málið á síðunni Íbúasamtökin Betra Breiðholt

Tillagan um vinnumiðlun eftirlaunafólks felld í borgarstjórn

Tillagan um að borgarstjórn samþykki að setja á laggirnar Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík var felld í borgarstjórn 15. júní sl.
 
Bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarstjórn samþykki að setja á laggirnar Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík. Tillagan er felld en á sama tíma segir borgarstóri að mál af þessu tagi sé í skýrum farvegi? Hvaða farvegur er það spyr fulltrúi Flokks fólksins?

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem málefni eldri borgara fái ekki mikið vægi í borgarstjórn og sjaldan en minnst á þennan aldurshóp t.d. í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráði.

Þessi tillaga sem hér um ræðir byggir á sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni. Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur.

Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi njóta góðs af því að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna tímabundið.

Það eru mannréttindi að fá að vinna eins lengi og kraftar leyfa og áhugi er fyrir hendi og auðvitað án skerðinga og njót umfram allt afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir.

Eftirlaun og launuð vinna

Á fundi borgarstjórnar 15. júní mun fulltrúi Flokks fólksins leggja til að borgarstjórn samþykki að setja á fót Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík stofni Vinnumiðlun eftirlaunafólks. Um er að ræða hugmynd að sænskri fyrirmynd þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni tímabundið. Sambærileg hugmynd er nú til skoðunar á Húsavík og hefur verið fjallað um verkefnið í tímariti LEB (Landssamband eldri borgara). Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Hugsunin að baki Vinnumiðlun eftirlaunafólks er að sýna að þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýði það ekki að fólk geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði allt sitt fullorðinslíf og hefur haft mikla ánægju af vinnu sinni enda er hún oft einnig áhugamál fólks.

 

Allt samfélagið myndi stórgræða á að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna. Allir græða á því að vera út í samfélaginu, taka þátt og komast í virkni. Það dregur úr einmanaleika og vinnur gegn þunglyndi hjá þeim sem glíma við það. Hér er ekki verið að tala um sjálfboðastarf heldur launuð störf. Það er fátt sem hefur eins mikið tilfinningalegt gildi eins og að upplifa sig virkan og að maður sé að gera gagn.

Hvernig mun vinnumiðlunin virka?

Vinnumiðlun eftirlaunafólks myndi virka þannig að fólk sem vill vinna skráir sig og síðan geta einstaklingar og fyrirtæki leitað til vinnumiðlunarinnar ef þeim vantar fólk í ákveðin verkefni. Þegar búið er að skrá sig er farið yfir hvað viðkomandi hefur gert áður, við hvað þeir hafa starfað og hvar færni þeirra og áhugi liggur. Sá sem skráir sig til vinnu ræður því hvenær hann vinnur og hversu mikið. Sumir vilja ráða sig í starf hálfan daginn, aðrir geta hugsað sér að starfa tvo daga í viku og svo framvegis. Nú er hægt að vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að ellilífeyrir skerðist. Auðvitað er ekkert sanngirni í þessu. Úrræðið myndi að sjálfsögðu virka betur ef dregið er úr skerðingum vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Eftirlaunafólk á að fá að vinna eins lengi og það vill án skerðinga og njóta afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Meirihlutinn í borgarstjórn getur ef hann vill ákveðið að fylgja ekki almannatryggingarkerfinu og boðið eldra fólki upp á úrræði til að auka virkni og tekjur.

Vinnumiðlunin yrði milliliður. Hún myndi síðan annast innheimtu hjá fyrirtæki/stofnun þar sem viðkomandi vinnur og greiða svo laun til þátttakenda. Fjölmörg störf koma til greina fyrir þennan hóp enda er mannauðurinn mikill og fólk með langa reynslu. Fyrirkomulagið gengur vel í Svíþjóð og er auk þess til skoðunar á Húsavík. Því ætti Vinnumiðlun eftirlaunaþega að geta blómstrað í Reykjavík. Oft kemur upp sú staða að fyrirtæki vanti starfskraft með stuttum fyrirvara eða tímabundið. Hægt er að hugsa sér alls konar birtingamyndir í þessu sambandi. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn og aðrir kjörnir fulltrúar sjái kostina við þessa tillögu og vísi henni þangað sem hún á heima til frekari skoðunar og þróunar.

Grein birt í Morgunblaðinu 14. júní 2021


Myndavélar á alla leikvelli

Tillaga Flokks fólksins lögð fram á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð í dag þess efnis að ráðið beiti sér fyrir því að settar verði upp myndavélar á alla leikvelli á vegum borgarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér fyrir því að settar verði upp myndavélar á alla leikvelli á vegum borgarinnar.

Það heyrir til mannréttinda að tryggja börnum fyllsta öryggi í borginni hvar sem er. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem tryggt má vera að finna börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á svæðum sem þeim er ætlað að leika sér á. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.

Þessi tillaga er lögð fram í ljósi nýlegs atviks þar sem reynt var að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli í borginni. Þetta er ekki eina tilvikið af þessum toga. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sómi væri af því ef mannréttindaráð léti kostnaðarmeta þessa tillögu og í framhaldinu beita sér fyrir því að fá hana samþykkta.
myndav. 2

Afsökunarbeiðni lágmark

Málefni Fossvogsskóla

Við erum í Fossvogsskóla núna í borgarstjórn. Ég kalla eftir að meirihlutinn biðji skólastjórnendur Fossvogsskóla, foreldra og börnin formlegrar afsökunar á að hafa ekki hlustað og brugðist strax og með markvissari hætti við ákalli um myglu þegar börn og starfsfólk veiktust ítrekað.
Málefni Fossvogsskóla er áfall. Meirihlutinn í borginni lagði mikið á sig til að sannfæra starfsfólk, foreldra og börn sem og alla borgarbúa að búið væri að komast fyrir myglu í Fossvogsskóla. Glænýjar, sláandi myndir eru nú birtar af loftræstikerfum í skólahúsnæðinu þar sem sjá má að inntak í loftræstikerfi skólans er þakið myglu en búið var að hylja hana með klæðingu. En og aftur er fullyrt af eftirlitsaðilum að búið væri að fara yfir loftræstikerfið. Annað hvort er eftirlitið gallað eða menn hafa vísvitandi horft fram hjá þessu nema hvoru tveggja sé. Þarna hafa börn verið látin stunda nám við afar mengandi aðstæður. Ákalli var ekki sinnt. Minnist borgarfulltrúi Flokks fólksins þess að hafa fengið skammir frá Heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Var hann sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum hroka þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Reynt var að þagga málið og sagt að viðgerð væri lokið. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Nú er viðurkennt af meirihluta skóla- og frístundaráðs að bregðast hefði átt við fyrr og hlustað hefði átt betur. En á ekkert að biðjast afsökunar? Það þykir fulltrúa Flokks fólksins algert lágmark.

Klám og klámáhorf grunnskólabarna. Við höfum sofnað á verðinum

Rannsókn og greining birti í febrúar 2021 niðurstöður könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna. Niðurstöður sýndu m.a. að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Þessar niðurstöður komu flestum á óvart.

Það er mikið áfall fyrir foreldra að uppgötva að börn þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Það er ekki síður áfall og byrði að bera fyrir unga manneskju að slíkar sjálfsmyndir séu í umferð. Þegar brotið er á ungu fólki eða börnum með þessum hætti er mikilvægt að bjóða upp á áfallahjálp, ráðgjöf og eftirfylgni til lengri tíma.

Í ljósi þessara niðurstaðna lagði Flokkur fólksins fram tillögu í borgarstjórn 18. maí sl. um að auknu fjármagni verði veitt til skólanna þ.e. kennara og starfsfólk frístundaheimila og einnig Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Tillögunni var vísað frá og fylgdi borgarstjóri frávísuninni sjálfur úr hlaði með þeim rökum að unnið væri nú þegar að forvörnum vegna klámáhorfs barna á vettvangi borgarinnar. Það er hins vegar mat mitt að gera megi mun betur í þessum málum og sérstaklega styðja við innviði skóla og starfsfólk frístundaheimila. Það er ljóst af þessum niðurstöðum að dæma að við höfum sofnað á verðinum.

 

Hafa ber einnig í huga að skólaþjónustan er löngu sprungin en hennar hlutverk er einnig að styðja við kennara, starfsfólk, nemendur og foreldra með ráðgjöf og fræðslu. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað vakið athygli á, þá bráðvantar fleiri fagaðila hjá skólaþjónustu borgarinnar sem anna engan veginn beiðnum um sálfræði- og félagslega aðstoð. Biðlisti barna eftir þjónustu fagaðila skólanna í Reykjavík hefur lengst um 77 börn á tveimur mánuðum. Þann 1. mars voru 956 börn á bið eftir skólaþjónustu.
Þeim hefur fjölgað síðan þá og voru 1. maí sl.1.033. Ekki er séð að neitt sé verið að gera af hálfu meirihlutans til að grípa fyrr inn í málefni barnanna á biðlistanum sem heldur áfram að lengjast með hverjum degi sem líður.

Ný norm hafa myndast

Ástæður fyrir hinum geigvænlegu niðurstöðum úr könnun Rannsóknar og greiningar eru flóknari en svo að þær verði reifaðar hér. Víst má þó telja að það er eitthvað að breytast varðandi viðhorf til þessara mála og ný norm hafa myndast. Hópi barna finnst það ekki tiltökumál að senda sjálfsmyndir  en því miður eru þau ekki að átta sig á hættunni sem þessu fylgir og afleiðingum sem myndsendingunum, dreifingu og sölu geta fylgt.

Fram hefur komið hjá forstöðumanni Barnahúss að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra. Þetta sýnir að klámáhorf barna er að aukast. Stundum hafa börnin verið þvinguð til að senda slíkar myndir og sláandi er að sjá hversu mörg barnanna hafa kynnst gerandanum í gegnum netið.

 

Víða er unnið gott starf bæði í skólum, af fagteymi á vegum borgarinnar og samtökum foreldra og barna s.s. Heimili og skóla, Samfok og fleirum. Í skólum eru kennarar og frístundafólk að takast á við þessi mál þegar þau koma upp. Umfram allt þarf að styrkja innviði skólanna til að geta sinnt forvörnum í auknum mæli og til að skólinn geti tekið á málum sem kunna að koma upp. Tryggja ber einnig að kennarar og annað starfsfólk eigi vísan stuðning og fræðslu hjá skóla- og frístundasviði.

Fræða þarf börn og ungmenni um þessi mál, hjálpa þeim að þjálfa gagnrýna hugsun, hvetja þau til að vingast ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er og gera sér grein fyrir hversu hættulegt það er að þiggja greiðslu fyrir kynferðislegar myndsendingar.

Spurt hefur verið um hvort foreldrar geti og eigi að hafa óheftan aðgang að snjalltækjum barna sinna. Á því leikur enginn vafi enda foreldrar ábyrgir fyrir net- og skjánotkun barna sinna. Margir foreldrar veigra sér hins vegar við því að setja reglur sér í lagi ef börn þeirra mótmæla slíku eftirliti. Virða á aldurstakmark leikja og samfélagsmiðla. Það eru ekki sett að ástæðulausu. Foreldrar og ungmenni þurfa að eiga samtal um netið og skjánotkun. Best af öllu er ef hægt er að sammælast um reglur og jafnvægi.

 

Skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök þurfa að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.


Það er mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að snúa við þeirri þróun sem sýnilega hefur orðið og færa hana til betri vegar. Hér má einnig nefna áhrif fjölmiðlanna. Fjölmiðlar gegna ábyrgðarhlutverki í þessari umræðu sem og annarri.

Grein birt í Morgunblaðinu 26.5. 2021

Kolbrun (1)


SPORLOF var það heillin

SPORLOF var það heillin.
Her­ferð Reykja­vík­ur­borg­ar þar sem efnt var til nýyrðasam­keppni fyr­ir enska hug­takið Staycati­on kostaði rúm­ar tvær millj­ón­ir. Þetta kem­ur fram í svari upp­lýs­inga­full­trúa í sam­skiptateymi skrif­stofu borg­ar­stjóra og borg­ar­rit­ara við fyr­ir­spurn mbl.is.

Ég fæ stundum þessa tilfinningu að borgarbatteríið sé stjórnlaust. Þetta orð er þess utan óskiljanlegt og hver er tilgangurinn með því að borgin standi fyrir nýyrðasamkeppni. Nýyrði verða til að sjálfu sér þegar þörf er á.
 
Í svona lagað er meirihlutinn í borgarstjórn alveg til í að splæsa á rúmum tveimur milljónum.

En þegar kemur að börnum og að þjónusta þau þá er ekki til peningur. Nú bíða 1033 börn eftir að komast til fagfólks skóla, einna helst til sálfræðinga og talmeinafræðinga.
 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/05/23/rumar_tvaer_milljonir_i_sporlof/?fbclid=IwAR2sf-DVah_OYXwakpapopP0z_e_9zpaurbY6MAkg1ePT111vVQiG7pSw-8


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband