Klám og klámáhorf grunnskólabarna. Við höfum sofnað á verðinum
26.5.2021 | 10:59
Rannsókn og greining birti í febrúar 2021 niðurstöður könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna. Niðurstöður sýndu m.a. að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Þessar niðurstöður komu flestum á óvart.
Það er mikið áfall fyrir foreldra að uppgötva að börn þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Það er ekki síður áfall og byrði að bera fyrir unga manneskju að slíkar sjálfsmyndir séu í umferð. Þegar brotið er á ungu fólki eða börnum með þessum hætti er mikilvægt að bjóða upp á áfallahjálp, ráðgjöf og eftirfylgni til lengri tíma.
Í ljósi þessara niðurstaðna lagði Flokkur fólksins fram tillögu í borgarstjórn 18. maí sl. um að auknu fjármagni verði veitt til skólanna þ.e. kennara og starfsfólk frístundaheimila og einnig Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Tillögunni var vísað frá og fylgdi borgarstjóri frávísuninni sjálfur úr hlaði með þeim rökum að unnið væri nú þegar að forvörnum vegna klámáhorfs barna á vettvangi borgarinnar. Það er hins vegar mat mitt að gera megi mun betur í þessum málum og sérstaklega styðja við innviði skóla og starfsfólk frístundaheimila. Það er ljóst af þessum niðurstöðum að dæma að við höfum sofnað á verðinum.
Hafa ber einnig í huga að skólaþjónustan er löngu sprungin en hennar hlutverk er einnig að styðja við kennara, starfsfólk, nemendur og foreldra með ráðgjöf og fræðslu. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað vakið athygli á, þá bráðvantar fleiri fagaðila hjá skólaþjónustu borgarinnar sem anna engan veginn beiðnum um sálfræði- og félagslega aðstoð. Biðlisti barna eftir þjónustu fagaðila skólanna í Reykjavík hefur lengst um 77 börn á tveimur mánuðum. Þann 1. mars voru 956 börn á bið eftir skólaþjónustu.
Þeim hefur fjölgað síðan þá og voru 1. maí sl.1.033. Ekki er séð að neitt sé verið að gera af hálfu meirihlutans til að grípa fyrr inn í málefni barnanna á biðlistanum sem heldur áfram að lengjast með hverjum degi sem líður.
Ný norm hafa myndast
Ástæður fyrir hinum geigvænlegu niðurstöðum úr könnun Rannsóknar og greiningar eru flóknari en svo að þær verði reifaðar hér. Víst má þó telja að það er eitthvað að breytast varðandi viðhorf til þessara mála og ný norm hafa myndast. Hópi barna finnst það ekki tiltökumál að senda sjálfsmyndir en því miður eru þau ekki að átta sig á hættunni sem þessu fylgir og afleiðingum sem myndsendingunum, dreifingu og sölu geta fylgt.
Fram hefur komið hjá forstöðumanni Barnahúss að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra. Þetta sýnir að klámáhorf barna er að aukast. Stundum hafa börnin verið þvinguð til að senda slíkar myndir og sláandi er að sjá hversu mörg barnanna hafa kynnst gerandanum í gegnum netið.
Víða er unnið gott starf bæði í skólum, af fagteymi á vegum borgarinnar og samtökum foreldra og barna s.s. Heimili og skóla, Samfok og fleirum. Í skólum eru kennarar og frístundafólk að takast á við þessi mál þegar þau koma upp. Umfram allt þarf að styrkja innviði skólanna til að geta sinnt forvörnum í auknum mæli og til að skólinn geti tekið á málum sem kunna að koma upp. Tryggja ber einnig að kennarar og annað starfsfólk eigi vísan stuðning og fræðslu hjá skóla- og frístundasviði.
Fræða þarf börn og ungmenni um þessi mál, hjálpa þeim að þjálfa gagnrýna hugsun, hvetja þau til að vingast ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er og gera sér grein fyrir hversu hættulegt það er að þiggja greiðslu fyrir kynferðislegar myndsendingar.
Spurt hefur verið um hvort foreldrar geti og eigi að hafa óheftan aðgang að snjalltækjum barna sinna. Á því leikur enginn vafi enda foreldrar ábyrgir fyrir net- og skjánotkun barna sinna. Margir foreldrar veigra sér hins vegar við því að setja reglur sér í lagi ef börn þeirra mótmæla slíku eftirliti. Virða á aldurstakmark leikja og samfélagsmiðla. Það eru ekki sett að ástæðulausu. Foreldrar og ungmenni þurfa að eiga samtal um netið og skjánotkun. Best af öllu er ef hægt er að sammælast um reglur og jafnvægi.
Skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök þurfa að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.
Það er mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að snúa við þeirri þróun sem sýnilega hefur orðið og færa hana til betri vegar. Hér má einnig nefna áhrif fjölmiðlanna. Fjölmiðlar gegna ábyrgðarhlutverki í þessari umræðu sem og annarri.
Grein birt í Morgunblaðinu 26.5. 2021
SPORLOF var það heillin
25.5.2021 | 11:33
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/05/23/rumar_tvaer_milljonir_i_sporlof/?fbclid=IwAR2sf-DVah_OYXwakpapopP0z_e_9zpaurbY6MAkg1ePT111vVQiG7pSw-8
77 börn á tveimur mánuðum
19.5.2021 | 09:53
Látum drauma allra barna rætast, ekki bara sumra
18.5.2021 | 16:15
Í borgarstjórn var verið að ræða um Menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 og get ég ekki annað en tönglast á 1033 barna biðlista eftir sálfræðiþjónustu og fleirum fagaðilum skólanna. Stefnan er metnaðarfull og full af flottum hugmyndum. Blessunarlega líður fjöldann allan af börnum vel í skólum sínum. Starfsfólk vinnur óeigingjarn starf og margir eru undir miklu álagi.
Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi:
Margt er gott í þessari stefnu en stefna leysir engin vandamál nema henni sé fylgt eftir með framkvæmdum. Mestu skiptir að börn stundi nám þar sem þeim líður vel og mæta þarf þörfum allra barna. En það er ekki raunin á vakt þessa, né síðasta meirihluta. Flokkur fólksins greiddi atkvæði með stefnunni á sínum tíma í þeirri von að tekist væri á við það sem þarf að laga.
Vandinn er m.a.:
Skólaþjónustan er sprungin og ekki er hreyfður fingur til að bæta þar úr þrátt fyrir hávært ákall.
"Skóli án aðgreiningar" fær ekki nægt fé til að bera nafnið með rentu. Ekki öll börn stunda nám þar sem þau finna sig meðal jafningja Sérskólaúrræði eru löngu yfirfull.
Of mikið álag er á mörgum kennurum/sérkennurum og starfsfólki
Ekki eru neinar samræmdar árangursmælingar á hvort sérkennsla skilar sér.
"Snemmtæk íhlutun" er auðvitað sjálfsagt mál og hefur alltaf verið en kemur ekki í staðin fyrir sértækar greiningar. Hætta er á að barni sé ekki veitt rétt meðferð vegna þess að aldrei var kannað hver raunverulegur vandi þess er.
Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja um 15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega.
Um afglæpavæðingu neysluskammta og aðgengi að vímuefnum
15.5.2021 | 11:32
Ég bæði, sem sálfræðingur og borgarfulltrúi styð umsögn samráðshóps Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðingu neysluskammta)og hef bókað um þessa ánægju mína í borgarráði.
Í umsögninni segir að með afglæpavæðingu neysluskammta má gera ráð fyrir að aðgengi að vímuefnum verði meira. Það er þekkt staðreynd að aukið aðgengi að vímuefnum eykur neyslu. Þessi breyting, verði hún að lögum, getur auðveldað unglingum að verða sér út um vímuefni og því aukið neyslu þeirra.
Það er vissulega jákvætt og mikilvægt að draga úr neikvæðu viðhorfi til hópa sem neyta vímuefna en það er áhyggjuefni að það hafi einnig jákvæð áhrif til vímuefnanna sjálfra í samfélaginu og þá sérstaklega meðal unglinga.
Áhyggjur eru einnig af því að miðað er við 20 ára aldurstakmark í 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, því skýtur skökku við að í frumvarpinu sé miðað við 18 ára aldur en ekki 20 ára eins og í áfengislögunum.
Í bókun Flokks fólksins segir:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að löggjöfin þarf ávallt að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni barna og í öllum lagasetningu sem snerta mögulega börn og ungt fólk þarf að gera áhættumat með tilliti til barna og unglinga, sbr. 3. gr. barnasáttmálans.
Drullukast dauðans í borgarstjórn
12.5.2021 | 07:54
Enda þótt ég ætli ekki að gerast neinn sérstakur verndari borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks þá er það innbyggt í mig að koma þeim til varnar sem sparkað er í. Heift meirihlutans í garð borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna í borgarstjórn birtist í myndum sem stríða langt umfram siðareglur sem meirihlutinn setti sjálfum sér. En svona hatur og heift sem borgarfulltrúinn og Píratinn Dóra Björt sýndi í garð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í dag á fundi sem ræða átti Ársreikning borgarinnar 2020 hlýtur að éta manneskju upp að innan. Ég gat ekki orða bundist.
Fjármál borgarinnar eru í volli
4.5.2021 | 20:08
Taka á lán sem þýðir hærri afborgun lána. Spurt er um hvert verið er að stefna með borgina hvert er markmiði nú þegar harðnað hefur á dalnum og minna er um peninga á sama tíma og áhrif og afleiðingar COVID eru í algleymingi? Á ekki að skerpa á áherslum? Hvað er mikilvægast, hver er forgangsröðunin? Er það stafrænt kerfi á heimsmælikvarða með því að setja 10 milljarða í þjónustu- og nýsköpunarsviðs næstu tvö árin en hluti þess fer í að finna upp hjól sem búið er að finna upp og þarf aðeins að aðlaga að borginni? Eða eru það borgarbúar, velferð þeirra og líðan, börnin, fjölskyldur, eldri borgarar, öryrkjar og borgarbúar allir? Meirihlutinn hefur svarað þessum spurningum, þeirra forgangsröðun er skýr.
Trjárækt meðfram stórum umferðaræðum
30.4.2021 | 08:07
Trjárækt meðfram stórum umferðaræðum var tillaga sem fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í skipulags- og samgönguráði um daginn.
Hér er tillagan og rökin fyrir henni:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til skipulagsyfirvöld ákveði að stórauka plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum í borgarlandinu. Eitt af því sem ekki hefur verið horft til í baráttunni við svifryksmengun er trjágróður. Rannsóknir sýna að trjágróður dregur úr svifryki. Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Umrædd svæði nýtast ekki til útivistar, en eru án bygginga vegna skipulagsmála enda þarf að vera gott rými meðfram stóru umferðaræðunum vegna veghelgunar og framtíðarnotkunar. En svæðin má nýta tímabundið með trjárækt en gera jafnframt ráð fyrir að slíkur trjágróður verði felldur þegar og ef nýta á rýmið í annað. Þetta er svipuð hugmyndafræði og er í verkefninu "Torg í biðstöðu". Lagt er því til að plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum verði stóraukin.
Vísað til umsagnar umhverfis og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.
Skýrsla um borgargötur var lögð fram á fundi borgarráðs í morgun. Flokkur fólksins bókaði eftirfarandi:
Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 20102030 eru notuð hugtökin aðalgata og borgargata um þær götur sem taldar eru lykilgötur í hverju hverfi. Á þessum hugtökum er þó skilgreindur munur; aðalgata tekur til starfsemi við götuna á meðan borgargata tekur til hönnunar og útlits götunnar. Í skýrslunni segir að útlit skipti miklu máli fyrir borgargötu, fallegt umhverfi, (hlýleiki og skreytingar) til að þeir sem ekki eru á bíl líði vel að ferðast um götuna. Birtar eru fallegar myndir af mannvænum götum. Í myndskreytingum vantar hins vegar rokið, snjóinn og regnið, en til þeirra þátta þarf einnig að taka tillit til. Fram kemur að Reykjavíkurborg hafi stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Um hvað snýst sú stefna? Er þetta ekki bara eitthvað sem er sagt en ekkert er á bak við. Fjölbreytt ræktun í einstökum beðum er ekki líffræðileg fjölbreytni.
Reykjavík er líka borg barnanna sem í henni búa
28.4.2021 | 09:25
Eftirfarandi tillögu ætla ég að leggja fram á fundi skipulags- og samgönguráðs 28.4.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur það til við skipulagsyfirvöld að huga sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð.
Þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn tekur of mikinn toll bæði á græn svæði og leiksvæði barna. Í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur mótmæla börn með skipulögðum hætti. Þéttingarstefnan virðist engu eira því byggja skal á hvern blett, stóran og smáan í þeirri von að borgarlína nýtist. Fólk á vissum svæðum í Reykjavík mun reyndar ekki eiga annan valkost en að nota almenningssamgöngur eða hjól þar sem að við íbúabyggð á vissum stöðum í Reykjavík verða fá bílastæði. Börn hafa mótmælt þéttingu byggðar við Vatnshólinn í nágrenni Sjómannaskólans, vinsælt leiksvæði barna. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borg barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef heldur sem horfir.
Eden-hugmyndafræðin, vagga hlýleika, alúðar og valds yfir eigin lífi
18.4.2021 | 11:58
Á þriðjudaginn 20. apríl mun Flokkur fólksins leggja fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að þau tvö hjúkrunarheimili sem borgin rekur verði rekin með Eden-hugmyndafræðinni að leiðarljósi og samþykki einnig að hvetja hjúkrunarheimili í Reykjavík sem eru sjálfseignarstofnanir að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það.
Samkvæmt kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými eiga heimilin að hafa hugmyndafræðilegar forsendur.
Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri.
Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt.
Líklegt þykir að á hjúkrunarheimilum í dag sé reynt að stuðla að því að fólk haldi sjálfstæði sínu en hugmyndafræði Eden gengur lengra og þá sérstaklega í áherslu sinni á lifandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á samneyti kynslóðanna. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur, rík samskipti við yngri kynslóðina, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika/ræktun plantna og grænmetis og nálægð við dýr. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Að heimilið halda gæludýr myndi draga úr streitu, einmanaleika og þunglyndi og auka gleði og samskiptahæfni meðal aldraðra.
Greinargerð
Hugmyndafræðin Eden varð til í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum og er höfundur hennar læknirinn Bill Thomas. Hugmyndin spratt út frá því hversu algengt það var að fólk á hjúkrunarheimilum væri einmana og einangrað. Við einmanaleika, leiða og vanmáttarkennd eru engin lyf til nema þau lyf sem deyfa og sljóvga. Kjarni hugmyndafræðinnar er að fólkið taki fullan þátt í því sem lífið hefur upp á að bjóða og séu virkir. Umhverfi þeirra er gert persónulegt og er skreytt af þeim sjálfum. Mest um vert er að opnað er fyrir þann möguleika að fólk haldi gæludýr og komist í tengsl við plöntur/ræktun. Með dýrunum er hægt að gefa íbúunum hlutverk, gildi og auka virkni þeirra, t.d. má bjóða þeim að hafa páfagauk inni í herbergi sínu, fiska eða önnur gæludýr. Þar sem Eden-hugmyndafræðin er viðhöfð hefur það sýnt sig að íbúar njóta þess að hafa ábyrgðina. Nærveran við dýr veitir gleði og birtu í ýmsum myndum og formum. Fólk nýtur þess að heyra hljóð þeirra og hreyfingar svo ekki sé minnst á félagsskapinn við dýrin.
Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum.
Önnur átta dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík eru sjálfseignarstofnanir sem starfa samkvæmt heilbrigðislögum til að vinna að málefnum aldraðra. Í Reykjavík er hjúkrunarheimilið Mörk vottað Eden heimili og Grund er að undirbúa að verða Eden heimili.
Öldrunarheimili Akureyrar varð fyrst íslenskra hjúkrunarheimila til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden-heimili. Þar er lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og að íbúarnir séu ekki alltaf í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að gefa af sér. Á þeim hjúkrunarheimilum þar sem Eden hugmyndafræðin ríkir búa gæludýr. Þangað koma einnig börn reglulega í heimsókn, með starfsfólki og í samstarfi við skóla. Allir heimilismenn geta komið með sín húsgögn í sitt herbergi, rúmföt ef þeir kjósa, rúmteppi, gardínur og svo framvegis.
Eden-stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalarheimili víða um heim vinna eftir. Samkvæmt henni er talið þýðingarmikið að öldrunarheimili séu heimili þeirra sem þar búa og áhersla lögð á sjálfræði íbúa og einstaklingsmiðaða þjónustu. Í tilkynningu frá Öldrunarheimili Akureyrar kemur fram að innleiðing Eden-hugmyndafræðinnar hafi hafist árið 2006 með breytingum á húsakynnum. Hvatt hafi verið til dýrahalds og samstarf við skóla og ýmis konar félagasamtök aukið.
Heimilin sem fylgja hugmyndafræðinni eru orðin mörg hundruð, í Danmörku, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og víða um Evrópu.. Aðstandendur eru ávallt velkomnir og hvattir til að koma sem oftast. Þeir eru hvattir til að leggja af mörkum, taka þátt í daglegu lífi og vera virkir inni á heimilinu þar sem þeirra aðstandandi býr.
Með frá upphafi ella bara reiði og sárindi
15.4.2021 | 12:19
Á fundi skipulags- og samgönguráðs var kynning um Lækjartorg samkeppni og einni var fjallað um Laugaveginn í 9 skrefum
Þetta er allt gott og vel en allt er þetta í skugga ótrúlegra leiðinda sem ríkt hafa vegna þessa svæðis, þá helst að breytingar þ.m.t. lokanir gatna fyrir umferð voru ekki unnar með hagaðilum eins og þekkt er orðið. Ég hef gagnrýnt aðferðarfræðina sem skipulagsyfirvöld nota sem er vís með að valda úlfúð. Fyrst eru teknar ákvarðanir og síðan er farið í samráðsferli. Þeir sem taka ákvarðanir eru yfirvöld sem leiðbeint er af embættismönnum og aðkeyptum ráðgjöfum, sérfræðingum sem mynda gjarnan stýrihópa. Hér er farið öfugt að. Í stýrihópum eiga að sitja fulltrúar fólksins, borgarbúa úr öllum hverfum, hagsmunasamtökum sem eru þá með í upphafi, eru með í ákvarðanatökunni í stað þess að vera boðið að borðinu þegar búið er að taka ákvörðun um stóru myndina. Ég reyni að lýsa þessu í eftirfarandi bókunum:
Bókun Flokks fólksins við kynningu Lækjartorg, samkeppni:
Kynning er á undirbúningi samkeppni um endurbætur á Lækjartorgi og farið yfir skilyrðin. Í þessari kynningu kjarnast kannski óánægja sem var í kringum lokun gatna á Laugaveg og Skólavörðustíg sem varð til þess að svæðið er mannlaust og rými auð. Fram kemur þegar spurt er um hvort ekki eiga að bjóða notendum og rekstraraðilum í stýrihópinn að fyrst skuli tekin ákvörðun og síðan er rætt við notendur og rekstraraðila. Þetta er það samráð sem boðið er upp á, sem er auðvitað ekki samráð heldur er fyrst tekin ákvörðun og síðan er sú ákvörðun kynnt borgarbúum og hagaðilum. Þetta heitir að tilkynna ákvörðun sem valdhafar hafa tekið en ekki verið sé að hafa samráð.
Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem skipulagsyfirvöld læri ekki af reynslu, læri ekki af mistökum sínum. Öll þessi leiðindi í kringum Laugaveginn sem fræg eru orðin geta því auðveldlega endurtekið sig. Fólki, notendum og hagaðilum finnst sífellt valtað yfir sig þar sem þeir fái aldrei hafa neitt um aðalatriðin að segja. Þau fá að segja til um litlu hlutina, hvar ruslatunna á að vera, bekkur og blóm? Þessi litlu atriði eru kannski þau sem skipulagsyfirvöld eiga að ákveða en notendur sjálfir eiga að ráða stóru myndinni ef allt væri eðlilegt.
Bókun Flokks fólksins Laugavegur í 9 skrefum, framvinda:
Það sem til stendur með Laugaveg í 9 skrefum kann að vera metnaðarfullt. Talað er um teymin sem eiga að stýra þessu en í þeim er enginn fulltrúi notenda eða hagaðila. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð. Einhver í teyminu heldur síðan utan um að upplýsa notendur um ákvarðanir teymisins. Þessi aðferðarfræði vísar ekki á gott. Bjóða á notendum um borð frá byrjun, fulltrúa hagaðila, fulltrúa hverfa og fleirum. Þetta er miðbær okkar allra en ekki þröngs hóps sérfræðinga eða skipulagsyfirvalda. Aðferðarfræðin sem notuð hefur verið t.d. með göngugötur og lokanir gatna hefur skilið eftir sárindi fjölmargra, notenda og hagaðila. Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. Þegar vísbendingar um að slíkt orsakasamhengi raungerist átti að staldra við og finna nýjan og hægari takt í aðgerðum sem fleiri gætu sætt sig við. Sá meirihluti sem nú ríkir lagði áherslu í upphafi kjörtímabils að hafa fólkið með í ráðum svo á það sé nú minnt hér í þessari bókun.
Mannréttindamál að fá að ráða því hvenær maður hættir að vinna
10.4.2021 | 16:29
Ég hef á þessu kjörtímabili staðið fyrir umræðu um að fólk sem verður sjötugt verði ekki rekið af vinnumarkaði. Áður hef ég komið með tillögu um sveigjanleg vinnulok. Allt hefur þetta verið fyrir daufum eyrum meirihlutans og engar undirtektir. Á síðasta fundi mannréttindaráðs lagði ég fram tillögu um að Ráðið beitti sér í þessum efnum enda er þetta sannarlega mannréttindamál.
Tillaga lögð fram 8. apríl:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér fyrir því að borgarmeirihlutinn/borgarstjórn ákveði að losa um almennt starfsaldursviðmið eldri borgara sem er 70 ár og að það verði ákvörðun hvers og eins hvenær hann óskar að hverfa af atvinnumarkaði þegar þessu aldursskeiði er náð.
Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveða á um að almennt skuli segja upp störfum þegar ríkisstarfsmaður nær 70 ára aldri. Engin sambærileg ákvæði eru hins vegar í sveitarstjórnarlögum.
Kjarasamningar kveða á um að yfirmanni er heimilt að endurráða einstakling sem náð hefur 70 ára aldri með nokkrum skilyrðum. Borgarstjórn er því ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um að losa um 70 ára aldursviðmiði þannig að viðkomandi geti ýmist haldið áfram í sínu starfi hjá sveitarfélaginu óski hann þess eða sótt um annað starf/minna starfshlutfall allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Samhliða væri borgarstjórn í lófa lagt að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna verð hækkað í a.m.k. umtalsvert eða afnumið alfarið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér í þessu mikilvæga mannréttindamáli. R2104003
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu á fundi mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs æu dag að Ráðið hvetji ríkisstjórnina til að beita sér umsvifalaust fyrir því að tryggja lagaheimildir fyrir nauðsynlegum sóttvarnaraðgerðum á landamærum svo vernda megi samfélagið gegn heimsfaraldrinum án þess að mannréttindi fólks séu brotin. Sóttvarnarlæknir hefur varað við því að án heimilda til að skylda fólk í sóttkví undir eftirliti verði ekki hægt að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið og dreifist. Það er ljóst að breyta þarf sóttvarnarlögum til að koma á slíkum aðgerðum. Við eigum að virða mannréttindi og fylgja settum lögum. Við eigum einnig að tryggja öryggi og heilsu fólks. Við þurfum að koma í veg fyrir frekari bylgjur faraldursins þar til hjarðónæmi er náð. Nú er nauðsynlegt að takmarka frelsi fólks tímabundið svo hægt sé að koma í veg fyrir þá almannahættu sem faraldurinn getur valdið ef önnur smitbylgja fer af stað. Því ber okkur skylda til að tryggja lagaheimildir fyrir tillögum sóttvarnarlæknis sem jafnframt uppfylla kröfur stjórnarskrár um mannréttindi. Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttinda og því er það verkefni ráðsins að láta í ljós afstöðu sína og kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnar.
Gróðurhús meirihlutans
7.4.2021 | 15:03
Á fjárhagsáætlun 2021 til 2025 ákvað meirihlutinn í borginni að eyða 10 milljörðum á næstu þremur árum í stafræna þróun á Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar (ÞON). Hvorki er skilgreint að heitið geti, hvað skal vinna, hverjar verða afurðirnar né hvernig þær muni nýtast borgarbúum. Fjáraustur til ÞON er mikill. Þjónustu hefur verið útvistað til einkafyrirtækja og innlend og erlend ráðgjafarfyrirtæki hafa mikil áhrif á rekstur sviðsins. Á sama tíma hefur fastráðnum kerfis- og tölvunarfræðingum verið sagt upp.
Vissulega er nauðsynlegt að ráðast í stafræna þróun á þjónustu borgarinnar til að hún verði aðgengileg og umhverfisvæn.
Dæmi um stafrænt verkefni þar sem rennt er blint í sjóinn með hvort þjónusta batni eða auki hagræðingu er hið svo kallaða Gróðurhús. Utan um Gróðurhúsið hefur verið rekin sérstök skrifstofa á þriðja ár.
Gróðurhúsinu hefur verið lýst með eftirfarandi hætti:
Þegar þú mætir í Gróðurhúsið ertu í raun að samþykkja að henda þér út í einhvern prósess, eitthvað ferli. Það mun svo leiða þig eitthvert. Það mætti segja að Gróðurhúsið einblíni 90% á ferlið, og svona 10% á útkomuna. Eitt stærsta verkefnið er að samstilla teymið, hjálpa fólki að vinna saman og taka ákvarðanir. Útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli.
Segja má að Gróðurhúsið sé samnefnari yfir kostnaðarsöm stafræn tilraunaverkefni sem ekkert áþreifanlegt hefur komið út úr.
Á meðan veittir eru milljarðar króna í stafræn tilraunaverkefni bíða 957 skólabörn eftir fagþjónustu m.a. sálfræðinga og talmeinafræðinga. Hluti þessa fjármagns kæmi sér vel til að bæta þjónustu við börn, eldri borgara og öryrkja.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt fjáraustur sem fer umfram það sem teljast má nauðsynlegt og eðlilegt til stafrænnar umbreytinga. Reykjavíkurborg er ekki einkafyrirtæki á alþjóðamarkaði, heldur samfélag sem þarf að reka skynsamlega. Gagnrýn hugsun og heilbrigð skynsemi þarf að vera til staðar hjá þeim sem eiga að axla ábyrgð. Rauð ljós eru fyrir löngu farin að blikka.
Birt í Fréttablaðinu 7.4. 2021
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Happ og harmur spilakassa
3.4.2021 | 09:54
Barátta spilafíkla við spilafíkn er áþreifanleg og tengist oft fleiri alvarlegum vandamálum. Öll spil sem vekja von í brjósti spilarans um að hann geti unnið pening eru líkleg til að hafa ánetjunaráhrif. Fíknivandi stjórnar og þurrkar oft út alla skynsemi og dómgreind. Spilafíkill sem er langt leiddur svífst oft einskis til að afla fjár í spilamennskuna og gengur jafnvel svo langt að tæma sparisjóðsreikninga barna sinna. Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Engu að síður er rekstur spilakassa löglegur. Undanfarið hefur skapast umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa. Sú umræða hefur m.a. skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is.
Í borgarráði 25. mars lagði fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn fram tillögu um "Að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum borgarinnar um spilakassa í Reykjavík með það að markmiði að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar slíks reksturs". Spilakassar í sjoppum orka tvímælis því þar koma börn og unglingar stundum saman. Um stóra sérhæfða spilasali má setja reglur sem takmarka dvöl þar.
Árið 2006 gerði greinarhöfundur rannsókn á spilafíkn meðal 1618 ára unglinga í framhaldsskólum í samstarfi við sálfræðiskor HÍ. Niðurstöður rannsóknarinnar sem bar heitið Peningaspil og spilavandi meðal 16-18 ára framhaldsskólanema voru birtar í Sálfræðiriti sálfræðinga 2008. Einnig voru birtar tvær blaðagreinar í Morgunblaðinu í október 2006. Sú fyrri bar titilinn Peningaspil, gleðigjafi eða harmleikur og hin síðari Peningaspil á netinu er vaxandi vandamál.
Á þessum tíma voru háhraðatengingar á netinu að ryðja sér til rúms og var búist við að þátttaka fullorðinna og unglinga myndi aukast í peningaspilum á netinu. Meðal niðurstaðna var að fjöldi þeirra sem spila peningaspil hafði minnkað, en virkur hópur sem spilaði vikulega eða daglega, hafði stækkað. Einnig sýndu niðurstöður að drengir eru í miklum meirihluta þeirra sem spila peningaspil. Sterkar vísbendingar eru um tengsl milli peningaspilafíknar og annarrar fíknar s.s. áfengis- og vímuefnafíknar og einnig milli spilafíknar og þeirra sem hafa verið greindir með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD). Þessar upplýsingar eru mikilvægar í ljósi umræðunnar um hvernig forvörnum skuli best háttað og að hvaða markhópi þær ættu einna helst að beinast.
Leyfi var sínum tíma veitt til fjáröflunar með spilakössum og fengu Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil (í eigu Rauða Krossins, Landsbjargar og SÁÁ) heimild til reksturs spilakassa. Þrátt fyrir að ágóðinn eigi að renna til góðgerðamála er ljóst að einkaaðilar hagnast. Algengt er að rekstrinum sé útvistað til einkaaðila og varla rennur ágóðinn óskipt til HHÍ og Íslandsspila? A.m.k. gefa upplýsingar í fyrirtækjaskrá það til kynna að rekstur spilakassa og spilasala skili þessum einkaaðilum reglulegum og umtalsverðum hagnaði.
Flokkur fólksins telur tímabært að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum Reykjavíkurborgar til að sporna við spilafíkn og freista þess að fleiri sem hafa ánetjast nái tökum á fíkn sinni. Grípa þarf til heildstæðrar endurskoðunar þar sem skoðað verði hvaða leiðir séu færar til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa í borginni og þar með draga úr spilafíkn. Nauðsynlegt er að sérfræðingar leggi mat á það hvaða leiðir skili bestum árangri, enda ljóst að svara þarf ýmsum álitamálum þegar ráðist er í breytingar á reglugerðum og samþykktum Reykjavíkurborgar. Með því að kortleggja hvaða leiðir eru færar er hægt að grípa til aðgerða sem skila markvissum árangri og draga úr aðgengi að spilakössum og þar með skaðlegum áhrifum spilafíknar.
Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa dregið fram reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra sem sýna svart á hvítu hve miklum skaða spilafíkn veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu. Samtökin berjast fyrir því að spilasölum og spilakössum verði lokað. Fram hefur komið að einhverjir áskilji sér jafnvel rétt til að leita réttar síns gagnvart Happdrætti Háskólans, Háspennu ehf. og íslenska ríkinu og krefjast skaðabóta eða viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem rekstur spilakassa hefur haft á einstaklinga og fjölskyldur.
Greinin er birt í Morgunbladðinu 3.4. 2021.
Bjöllur á kisur svo sem flestir ungar komast á legg
25.3.2021 | 13:56
Fulltrúi Flokks fólksins lagði það til á fundi borgarráðs í apríl að borgarráð beini því til umhverfis- og heilbrigðisráðs ásamt Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) að send verði út tilmæli til kattaeigenda að þeir setji bjöllur a.m.k tvær á ketti sína við upphaf varptíma fugla í maí. Fulltrúi Flokks fólksins er mikill kattavinur en einnig mikill fuglavinur. Kattahald er útbreitt í borginni og þeir kettir þurfa ekki að veiða sér til matar. Kettir ganga flestir lausir og fara sínar ferðir. Kettir er mikilvæg gæludýr í borgum, en kettir höggva stór skörð í stofna smáfugla með ungaveiðum. Flestum finnst mikilvægt að standa vörð um fuglalíf enda lífgar fuglalíf upp á umhverfið í borginni. Spörfuglar gera garðræktendum gagn með því að halda meindýrum á trjám í skefjum. Ábyrgir kattaeigendur draga mikið úr veiðiárangri katta með því að setja bjöllur eða/og litsterk hálsskraut á ketti sína. Tvær til þrjár bjöllur í háls-ól katta sem klingja við samslátt valda því að köttur á erfitt með að koma bráð á óvart. Ein bjalla hefur takmarkað gildi. Fulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja sitt að mörkum til að fleiri fuglsungar í Reykjavík komist á legg og umhverfisgæði batni.
Samþykkt
18.3.2021 | 18:36
Stóru tíðindi vikunnar úr borginni eru að þessi tillaga Flokks fólksins var samþykkt á fundi Velferðarráðs í gær. Hipp hipp húrra!
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum.
Þetta er lagt til í ljósi þess að einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um.
Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið
Bókanir með afgreiðslunni:
Bókun fulltrúa Flokks fólksins
Tillaga Flokks fólksins um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt. Það er ánægjulegt enda dæmi um að ekki allir vita að það er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Fram kom hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ein af ástæðum þess að ekki fleiri sæki um er að fólk vissi hugsanlega ekki af þessum möguleika.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans taka undir þessa tillögu. Það er mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá þjónustu og þau úrræði sem eru í boði, annars nýtast þau ekki þeim sem þeim er ætlað að hjálpa. Þessi tillaga er samþykkt og vísað til velferðarsviðs til útfærslu.
Ekki minnst á einelti í drögum að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi
18.3.2021 | 13:41