Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Frönsku ungarnir erfiðir. Mamman, sálfræðingurinn er no good

Átti samtal við dótturina Hörpu sem er au-pair í París og gætir þar tveggja  barna sem henni finnst vera afar óþekk. Við mæðgur erum að reyna að leggja á ráðin í gegnum Skypið hvernig hún getur beislað litlu Frakkana.

Sálfræðingshjarta móðurinnar slær auðvitað nótt sem dag og hef ég spurt hana hvort hún sé búin að reyna að syngja fyrir þau (Harpa hefur nefnilega einstaklega fallega söngrödd), hvort hún hafi prófað að spila við þau eða lesa fyrir þau Dimmalim á frönsku, bók sem hún tók með sér.
Hún kveðst búin að prófa þetta allt en samt sé erfitt að tjónka við börnin. 

Áðan spurði ég hana hvort hún hafi prófað að knúsa þau, taka hinn bálóþekka strák í fangið og segja honum hvað hann sé mikil snilld.  Nei sagði hún,  gekk ekki með drenginn en tókst með stúlkuna. Söngaðferðin gekk heldur ekki sem skyldi. Þegar hún söng, gólaði bara stráksi Shocking.

Þá spurði ég hvort hún hafi prófað að hunsa neikvæða hegðun þeirra.  Já, hún hafði reynt það en var ekki viss um árangur þeirrar aðferðar, alla vega enn sem komið er.  Tungumálið er sannarlega ekki til að hjálpa. Sundum skilur hún ekkert sem börnin segja og þau ekki hana. 

Ég hef alltaf verið svo góð með börn,
sagði Harpa,  þess vegna skil ég þetta ekki.
Ég sagði; Harpa, þetta er áskorun, verkefni sem þú munt sigrast á. Við vinnum þetta saman í gegnum Skypið. 

Æi, hvað það er annars erfitt að vera svona fjarri og geta ekki komið að meira gagni.
Ég er tóm sem stendur, veit ekki hverju ég á að stinga upp á næst.
Samt á ég víst að þekkja allar aðferðirnar Blush


Ekkert lát á skemmdarverkum

Ein er sú starfsstétt sem klárlega fer vaxandi næstu misseri.  Það er starfsstétt öryggisvarða og vaktmanna. Nú er svo komið í okkar þjóðfélagi að fátt fær að vera í friði. Skemmdarverk eru unnin í skjóli nætur á flestu því sem hægt er að skemma og skemmdarvargar hafa mögulegan aðgang að.
Helst allt þarf að vakta ef það á ekki að vera eyðilagt og dugar ekki til samanber skemmdaverk sem unnin voru á Þristinum þrátt fyrir öfluga öryggisgæslu á svæðinu.

Þetta er sorglegt og margir spyrja sig hverju þetta sætir. Skemmdarrvargar sem oft eru enn á barnsaldri, þ.e. undir 18 ára,  eru ekki í leit að fé heldur einungis að fá útrás fyrir reiði, gremju, hatur og vonbrigði. Sumir þessara aðila eru ofur áhrifagjarnir og hlaupa upp til handa og fóta þegar félagar þeirra hvetja þá til afbrota. Um mögulegar orsakir og ástæður er hægt að skrifa langan pistil.

Margir skemmdarvargar komast upp með þetta. Eftir að hafa skemmt fyrir tugi ef ekki milljónir króna tölta þeir heim að sofa. Hvort þeir sofi svefni hinna réttlátu skal ekkert um sagt.

Fjölmargir komast hjá því að sæta nokkurri ábyrgð nokkurn tímann einfaldlega vegna þess að þeir nást ekki.  Foreldrar barna sem næst að góma þurfa að axla ábyrgð og oft á tíðum greiða stórar fjárhæðir vegna skemmdaverka barnanna.  Hvort og þá með hvaða hætti þessir foreldrar vinna úr málinu með börnum sínum er málefni sérhverrar fjölskyldu. Sumar fjölskyldur taka á þessu af krafti en aðrar finna e.t.v. einungis til vonleysis og vanmáttar.

Þessari umræðu þarf að halda vakandi. Því fyrr sem hægt er að byrja að kenna börnum að bera virðingu fyrir eigum annarra og hjálpa þeim að skilja verðmætagildi hluta því betra. Skemmdarverk eru afbrot. Hvert tilfelli þarf að ræða, kryfja og vinna úr svo auka megi líkur þess að það verði ekki endurtekið.

Almenn umræða um alvarleika málsins er alla vega byrjun hvernig svo sem gengur síðan að auka skilning og innsæi ungmennanna.

Finnum sem flestar og fjölbreyttar leiðir til að ná til þessara barna, hjálpa þeim og hjálpa foreldrunum að hjálpa þeim.  Séu engir eftirmálar, engar afleiðingar, má reikna með að það virki sem hvatning fyrir skemmdarvargana að skemma meira.


Erfitt að hunsa orð Jónasar H. Haralz

Viðalið við Jónas H. Haralz í Silfri Egils í dag var mjög áhugavert. 
Jónas segir það nauðsynlegt að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið með það að markmiði að fá skýr svör um hvað það hefði í för með sér. Það sé eina leiðin til að hætta þessu pexi. Með viðræðum kæmi það fljótt í ljós hvort aðild henti okkur eður ei.

Ríkisstjórnin hefur margsagt að slíkar viðræður verða ekki á þessu kjörtímabili.

Það er erfitt að hunsa algerlega orð þessa aldraða og reynda efnahagsráðgjafa sem velkst hefur um í heimi peningamála meira en hálfa öld. Hann er svo sem bara að leggja það til að við öflum upplýsinga.

Skortur á líffærum lengir biðina

Magnús Þór Þórisson beið í tvö ár eftir að fá nýja lifur.  Vart er hægt að ímynda sér þá streitu og angist sem hlýtur að fylgja því að bíða eftir líffæri. Nagandi óvissa um hvenær það verður og hvort það verði e.t.v of seint.

Stjórnvöld ætla samkvæmt nýjustu fréttum að endurskoða samning við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Grundvöllur þess að hægt sé að stytta biðina eftir líffærum er sú að fleiri gefi líffæri. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað felst í svona samningi milli þjóða um líffæraflutninga, hvort um sé að ræða kaup á líffærum eða líffæraskipti. Þó skyldi maður halda að bið sérhvers einstaklings kynni að styttast ef um væri að ræða skipti þ.e. að íslendingar leggi til líffæri á móti því að fá líffæri.
Eitt er víst að það sárvantar líffæri. 

Ég hef áður skrifað um hina svokölluðu Lífsskrá Landlæknisembættisins.  Um er að ræða yfirlýsingu vegna meðferðar við lífslok. Í Lífsskránni er einnig yfirlýsing um líffæragjöf þ.e. hvort viðkomandi vilji gefa líffæri ef hægt er að nýta þau til að bjarga lífi annarra eða bæta það. 

Því fleiri líffæragjafar því styttri verður bið líffæraþega. Það er e.t.v. stór hópur manna og kvenna sem myndi gjarnan vilja gefa líffæri sín eftir andlát ef hægt er að nýta þau til að bjarga öðrum. Hins vegar hefur þetta fólk kannski ekki leitt hugann að þessu upp að því marki að ganga frá því að fylla út Lífsskráreyðublaðið og koma því Landlæknisembættisins. Hvort það sé nauðsynlegt til að hægt sé að nota líffæri viðkomandi eftir andlát veit ég ekki. Það kann að vera að það nægi að nánustu ástvinir tilkynni að þeim hafi verið kunnugt um þessa ósk hins látna. 
Gott er að minnast þess þegar hugsað er um þetta viðkvæma mál að engin veit hvort hann eigi eftir að fylla hóp líffæraþega síðar á ævinni.

 


Engin stétt, hvorki stétt þingmanna né önnur, er yfir það hafin að fylgja skráðum siðareglum

Það færist í fang að stéttir setji sér siðareglur.  Flest allar stéttir heilbrigðisgeirans hafa fylgt siðareglum áratugum saman.  Nú þegar hafa fjölmargar aðrar stéttir sett sér ákveðnar siðareglur t.d. þær stéttir sem starfa innan fjármálageirans. 

Við gerð siðareglna hafa íslenskar starfsstéttir gjarnan litið til nágrannalandanna. Norðurlandaþjóðirnar eru sennilega komnar lengra á veg með þróun siðareglna og vafalaust eru fleiri starfsstéttir þar sem lúta skráðum siðareglum en hér á landi.

Alhliða og almennar siðareglur eru nauðsynlegar bæði fyrir þá sem tilheyra viðkomandi stétt og þá sem stéttin þjónustar eða á í samskiptum/ tengslum við.  Um er að ræða ákveðinn ramma eða vísir að leiðbeiningum hvað varðar almenn málefni sem þó stundum geta virst vera álitamál eða virkað sem væru á gráu svæði. Þetta eru leiðbeiningar um hvar hin almennu samskiptamörk liggja í málum sem virka einföld en geta síðan þegar á reynir verið flókin. Siðareglur eru til þess fallnar að skerpa á hlutverkum og hjálpa þeim sem eftir þeim starfa að skilgreina sjálfa sig í starfinu svo ekki komi til hagsmunaárekstra eða annarra óheppilegrar skörunar.  

Góðar siðareglur eru gulls ígildi. Ég fagna mjög þeirri umræðu og vinnu sem komin er af stað við samningu siðareglna þingmanna því engin stétt er yfir það hafin að fylgja skráðum siðareglum.



 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband