Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
Samskiptahættir á Alþingi; þingmenn kvarta yfir að vera lagðir í einelti
28.7.2009 | 20:40
Alþingi er sérstakur vinnustaður að því leyti að hann er einmitt þess eðlis að þar gengur vinnan oftar en ekki út á að sannfæra aðra um réttmæti skoðana sinna og selja hugmyndir til lausna ýmsum samfélagslegum vandamálum.
Vel er hægt að sjá fyrir sér að þrýstingur myndist þegar verið er að leita að meðflutningsmönnum með frumvarpi eða einfaldlega leita eftir stuðningi við einstaka mál hvort heldur þingmannamál eða stuðningi við stjórnarfrumvarp. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að þeir sem sækjast eftir því að starfa á þessum mjög svo sértaka og krefjandi vinnustað stígi klárlega í báðar fætur, hafi sterka sjálfsmynd, dómgreind og einfaldlega kalli ekki allt ömmu sína.
Ekki alls fyrir löngu kvörtuðu a.m.k. tveir þingmenn yfir því að þeir höfðu verið lagðir í einelti af öðrum þingmönnum og einn þingmaður (3. aðili) sagði frá því að ofbeldi hafi klárlega verið beitt þegar kom að atkvæðagreiðslu mikilvægs máls.
Ekki skal gera lítið úr þessu. Þegar þingmaður segir í fréttum að hann hafi verið lagður í einelti eða þegar 3. aðili (þingmaður) segir að hann hafi orðið vitni af því að þingmaður beitti annan ofbeldi þá er mjög mikilvægt að fylgja eftir hvað átt er við og biðja aðila um að útskýra nánar hvað liggur að baki orðum þeirra enda ef rétt reynist er hér um alvarlegar ásakanir að ræða.
Hvað varðar 3. aðilann er einnig áhugavert að skoða hvort sá sem segist hafa orðið vitni af ofbeldi kunni að vera að nýta uppkomnar ásakanir sem pólitískan þrýsting t.d. til að vekja athygli á hvað hinir eru vondir og hvað málstaður þeirra sé slæmur.
Enda þótt vinnan á Alþingi gangi mikið út á að selja skoðanir sínar, sannfæra aðra þingmenn um að ein leið sé betri eða verri en önnur, ber þingmönnum eins og öðrum að varast að ganga ekki of langt í viðleitni sinni að fá aðra á sitt mál. Sá sem vill sannfæra þarf að gæta þess að ganga ekki svo langt að hægt sé að segja að um áreitni sé að ræða og sá sem er í hlutverki þess sem verið er að reyna að sannfæra þarf einnig að geta sett mörk og sagt sem dæmi, nú er nóg komið, hingað og ekki lengra, ég hef gert upp minn hug og við það situr.
Hvað sem þessu líður þarf Alþingi eins og allir aðrir vinnustaður að hafa sína starfsmannastefnu og í henni þarf að felast eineltisáætlun, ferli sem hægt er að setja mál af þessum toga í komi þau upp.
Vert er að rifja upp hér í lok færslunnar hvernig ein af algengustu skilgreiningum á einelti hljóðar þannig að þeir sem lesa færsluna eigi betur með að setja innihald hennar í samhengi við það sem kallast einelti. Skilgreining á vef Fjármálaráðuneytisins er svona:
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.
(Af vef Fjármálaráðuneytis).
Af hverju er eins og vinna hjá embætti Sérstaks saksóknara gangi svakalega hægt sérstaklega þegar fréttir eins og þessar berast:
Enn hefur ekkert mál af þessum toga sem verið hefur til rannsóknar hjá embætti Sérstaks saksóknara ratað til dómstóla.
Ég veit að svona mál taka tíma í vinnslu en tími er samt einmitt eitthvað sem þessi þjóð virðist ekki hafa nógu mikið af sérstaklega þegar kemur að þessum málum.
Þarf ekki hinn Sérstaki saksóknari og hans fólk að gefa enn meira í.
Peningamál | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook
Sérsveitin vel nærð en almenna lögreglan býr við skort?
27.7.2009 | 12:48
Ef marka má þær upplýsingar sem berast m.a. frá lögreglumanninum sem ritað hefur nafnlaus bréf um stöðu lögreglunnar virðist liggja fyrir að vandræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru talsverð eða í það minnsta eru lögreglumenn, margir hverjir, afar ósáttir með sína stöðu. Sagt er að það sé mikið álag, rannsóknarmál hlaðast upp. Ástæðan er sú að of litlu fé er veitt til LRH (Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu).
Á sama tíma og fréttir berast af erfiðleikum lögreglumanna virðist sem Sérsveit RLS (Ríkislögreglustjóra) sé í þokkalegustu málum fjárhagslega.
Þá spyr ég sem almennur borgari hvort ekki sé hægt að minnka fjárhagslegt vægi RLS og auka þess í stað vægi LRH?
Nú eða sameina LRH og RLS í eitt embætti?
Eins má kannski endurskoða skipulagið hjá báðum þessum embættum t.d. draga úr fjölda aðalvarðstjóra og lögreglufulltrúa?
Það skýtur í það minnsta skökku við að hafa vel-útbúna sérsveit til taks í einhver fá útköll á ári þegar hinn almenni lögreglumaður er að kikna undan álagi í starfi og getur þar að leiðandi illa sinnt skyldum sínum gagnvart hinum almenna borgara.
Hvar svo sem lausnirnar liggja er ljóst að eitthvað þarf að gera.
Sjálfsagt eru engar skyndilausnir til en lausnir engu að síður.
Þeir gáfu ávallt af sér fremur góðan þokka
26.7.2009 | 20:18
Björgólfsfeðgar gáfu ávallt af sér frekar góðan þokka, virtust heilir og heiðarlegir í því sem þeir tóku sér fyrir hendur. Nú eru að berast æ fleiri fréttir af alls kyns viðskiptarflækjum þeim tengdum.
Það nýjasta er að Landsbankinn hafi lánað fjölmörgum félögum, sem tengdust þáverandi eigendum bankans, vel yfir lögbundið hámarki og að vafi leiki á því hvort Landsbankinn hafi greint rétt frá lánum til tengdra aðila í síðasta uppgjöri sem bankinn birti áður en hann hrundi í haust.
Um þetta hefur fréttastofa Rúv heimildir og staðfesti Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins við fréttastofu að þetta mál væri til skoðunar hjá eftirlitinu auk sambærilegra mála annarra banka en afgreiðslu væri ekki lokið.
Óeðlilegir viðskiptahættir | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook
Nýjir vendir sópa best
24.7.2009 | 10:08
Sagði Þorvaldur Gylfason í einstaklega góðu viðtali sem var að ljúka á Útvarpsögu rétt í þessu. Hann vill meina að ekki hafi tekist nógu vel að skipta út fólki og sem dæmi sitji enn í Skilanefndum einstaklingar sem þar ættu ekki að vera og einnig almennt í viðskiptageiranum.
Þorvaldur ræðir um í þessu viðtali hversu ömurleg samningsstaða Íslendinga er í þessu Icesave máli enda séu mistökin sem gerð voru hér þess eðlis að ekki sé sennilegt að rauða dreglinum verði skellt út og okkur boðið að koma aftur að samningsborðinu verði Icesave-samningurinn felldur á Alþingi.
Þorvaldur er að mínu viti sá hagfræðingur sem ekki er hægt annað en að hlusta á ætli maður að skoða þessi mál frá öllum sjónarhornum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook
Kúplar sig út með milljarða meðan fyrirtækið sekkur eins og sementspoki
22.7.2009 | 11:02
Fréttin um gjaldþrot auglýsingastofunnar Góðs fólks olli gallbragði í munni manns. Eigandinn er Karl Wernersson. Hann gat greitt sér út milljarða í arð en eftir stendur eignalaust fyrirtæki, útistandandi launakröfur og tómir bótasjóðir.
Hvað vakir fyrir einstaklingi sem gerir svona? Er þetta hrein og klár viðskiptasiðblinda?
Manni langar ekki að trúa því að fólk eins og þessi eigandi sé svo forhertur sem halda mætti þegar tíðindi berast eins og um gjaldþrot auglýsingastofunnar Góð fólks.
Vonandi verður þetta rannsakað ofan í kjölinn og helst öll viðskipti þessara bræðra.
Óeðlilegir viðskiptahættir | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook
Að eignir viðskiptaglæpamanna verði teknar upp í Icesaveskuldina
22.7.2009 | 10:20
Ég tel að við eigum að stefna leynt og ljóst að því að megnið af eigum þeirra sem kunna að fá dóm fyrir viðskiptaglæpi skuli teknar upp í Icesaveskuldina. Hér er átt við þá sem fremstir fóru í flokki þeirra sem lögðu grunn að þeim forapytti sem þjóðin situr nú í vegna óeðlilegra og sennilega glæpsamlegra viðskiptahátta fárra íslendinga á erlendri grundu með ábyrgð íslenska ríkisins sem bakhjarl.
Spurt er hvort verið sé að vinna að kappi í því að hafa upp á þessum eignum samhliða því að verið er að undirbúa dómsmál þessara einstaklinga.
Sé það rétt að viðskiptaglæpamenn (meintir en sem komið er) hafi komið fé sínu kyrfilega fyrir í fasteignum og inn á reikningum útí heimi þá spyr ég hvort aðrar þjóðir t.d. Bretar og Hollendingar séu tilbúnar til að aðstoða íslendinga við að nálgast þær t.d. með því að aflétta bankaleynd í breskum bönkum?
Cayman Island tiheyra t.a.m. bresku krúnunni.
Er Staksteinaskrifarinn smá fattlaus?
21.7.2009 | 11:14
Höfundur Staksteina finnst að verið sé að gera einfalt mál flókið þegar lagt er til að hækka ökuleyfisaldurinn í 18 ár í áföngum.
Í tillögu samgönguráðherra er gert ráð fyrir að aldurstakmarkið verði hækkað í áföngum til ársins 2014. Á árinu 2015 verði síðan 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda.
Höfundur Staksteina spyr hvort nauðsynlegt sé að hafa hækkun bílprófsaldursins svona flókna?
Ég spyr, er hann með aðra og betri tillögu um með hvaða hætti þetta skuli vera gert ef það á að vera gert á annað borð?
Hefur hann e.t.v. hugsað sem svo að best væri að skella þessari breytingu á í einum áfanga þannig að ökukennsla falli niður í heilt ár?
Í frumvarpi því sem ég mælti fyrir hér um árið um hækkun ökuleyfisaldursins í 18 ár var aðlögunin tvö ár. Þessi tillaga samgönguráðherra nú er allt eins góð enda mildari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook
Sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ættu fyrr en síðar að hasla sér völl í öðrum stjórnmálaflokkum
19.7.2009 | 19:43
Borgarahreyfingin hyggst leggja sig niður og hætta störfum, segir í heimasíðu þeirra, þegar ákveðnum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.
Nú hefur veður skipast þannig í lofti að, a.m.k. sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ættu, að mínu mati, að huga að hvort ekki sé rétt að þeir skiptu um flokk og það fyrr en síðar?
Þrír þeirra hafa ákveðið að taka aðra stefnu t.d. hvað varðar aðildarviðræður og umsókn í ESB en lagt var upp með í þeirra stjórnarsáttmála. Aðrir hafa ákveðið að standa við það sem þeir lofuðu kjósendum en það var:
Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.
Þetta er sérkennileg staða sem komin er upp í einni og sömu hreyfingunni.
Meðal þingmanna Borgarahreyfingarinnar eru ábyrgðarfullir stjórnmálamenn sem eiga e.t.v. framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Þeir hinir sömu ættu að huga að stöðu sinni og skoða hvort þeir finni ekki skoðunum sínum og sannfæringu fast (fastara) land undir fótum.
Þjóðin á þing var slagorð hreyfingarinnar sem nú lítur út fyri að vera frekar Geðþótti á þing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook
Mikill léttir
16.7.2009 | 16:03
Tillaga um að leggja inn aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu var samþykkt í dag með 33 atkvæðum gegn 28 en 2 þingmenn sátu hjá.
Þetta er mikill léttir.
Tvöföld atkvæðagreiðsla var ekki fýsileg leið, hefði bæði tekið tíma og kostað sitt. Ég er ánægð með Ragnheiði Ríkharðsdóttur í þessu máli. Ég veit að margir eru ósáttir en gleymum ekki að við, hvert og eitt munum hafa um samninginn að segja þegar þar að kemur.
Eitt er víst að ekki þarf að velta þessum þætti málsins lengur fram og til baka enda margir orðnir hundleiðir á því líka.