Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019
Fráleitt að bera saman Pálma og Sólfarið
28.4.2019 | 19:12
Það er algerlega fráleitt að bera þessi tvö útilistaverk saman eins og gert var í fréttum Stöðvar 2. Þau eru á engan hátt sambærileg. Annað er lífvera sem ætlað er að lifa í framandi umhverfi, hitt er úr stáli. Margt fleira mætti nefna sem sýnir fram á að útilokað er að bera þessi tvö verk saman. Ég efast um að Sólfarið hafi t.d. nokkurn tíma farið í raunhæfismat kostað af borginni?
Þegar forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof
24.4.2019 | 14:44
Tvær tillögur Flokks Fólksins voru felldar í Skóla- og frístundarráði í gær, 23.4.
Sú fyrri:
Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem
hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.
Tillagan var felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Seinni:
Flokkur fólksins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunnskóla sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum tilfinningalegum og félagslegum vanda.
Tillagan var felld.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Ég á ekki sæti í þessu ráði nema sem varamaður og gat því ekki bókað en mun gera það þegar fundargerðin verður lögð fram á næsta fundi borgarstjórnar.
Börn fátækra foreldra geta heldur ekki beðið
19.4.2019 | 20:39
Í kvöld var verið að fjalla um greiningar lækna, sálfræðiþjónustu/sálfræðigreiningar sem eru veittar á einkarekinni stofu en sem ekki eru teknar fullgildar hjá hinu opinbera. Þess þjónustu þarf að greiða úr eigin vasa. Þetta er dýr þjónusta. Frumgreining (sem er fyrsta athugun, þá er lagt fyrir vitsmunarþroskaprófið Wechsler, ADHD skimun og e.t.v. hegðunarkvarðar) ekki undir 150 þúsund krónur. Þetta er þjónusta sem börn eiga rétt á að fá hjá borginni (þjónustumiðstöðvum) og hjá ríkinu (Greiningarstöð) ef þroskafrávik eru talin alvarlegri. Vegna langra biðlista er fólk neytt til að fara til sjálfstætt starfandi sálfræðinga eftir greiningu en þá spyr ég enn og aftur hvað með þá foreldra sem eiga ekki pening fyrir greiningu fyrir barnið sitt hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum? Oft hafa börn beðið mánuðum saman og jafnvel á annað ár í skólakerfinu eftir greiningu sem þó foreldrar og kennarar eru sammála um að þurfi að framkvæma ýmist vegna námserfiðleika og/eða tilfinningar- eða félagslegra erfiðleika. Vanlíðan hefur jafnvel vaxið stöðugt hjá þessu barni sem í sumum tilfellum er einfaldlega hætt að mæta í skólann. Um þetta vildi ég gjarnan fá almenna umræðu og hef reynt ýmislegt til þess í borgarstjórn. Það verður að útrýma þessum biðlistum í borginni og hjá ríkinu. Börnum sem líður illa .hvorki geta né eiga að þurfa að bíða eftir þjónustu. Ég hef áður rætt þessi mál og man eftir dæmi sem foreldrar voru að skrapa saman peninga til að fá greiningu fyrir barn sitt út í bæ sem búið var að bíða lengi í skólakerfinu og útskrift var að nálgast
Sjá hér viðtal um þessi mál frá því í fyrra.
Sum segjast ekki langa að fara til að fátækt þeirra spyrjist ekki út
17.4.2019 | 09:17
Allt kostar, líka að fara í skólaferðalög og halda árshátíðir. Auðvitað vilja börn og unglingar gera þetta allt saman enda skemmtilegt. En hver á að borga? Margir foreldrar sem eru í góðum efnum finnst ekkert nema sjálfsagt að greiða háar upphæðir fyrir alls kyns ferðir, viðburði og glæsilega árshátíð fyrir barn sitt með öllu tilheyrandi. En það eru ekki allir foreldrar sem eiga aukakrónur til að standa straum af kostnaði sem þessum. Börn þessara foreldra þurfa þess vegna stundum einfaldlega að sitja heima og það er sárt. Þeim langar alveg jafn mikið að fara í ferðir og á árshátíð eins og öllum hinum börnunum. En til að standa vörð um erfitt efnahagsástand foreldra sinna og af ótta við að það spyrjist út að fátækt er á heimilinu segja börnin jafnvel bara að þeim langi ekki að fara eða þau séu upptekin.
Foreldrar sem hafa ekki ráð á að borga fyrir dýra viðburði eða ferðir líða oft sálarkvalir og finnst þau vera að bregðast barni sínu. Hvað varðar árshátíð er vissulega hægt að halda árshátíð án þess að barn þurfi að reiða fram þúsundir króna. Finna þarf aðrar leiðir. Það sem skiptir máli fyrir börnin er að vera saman og gera eitthvað saman. Samveran sem slík kostar ekki neitt. Málið er að finna samverunni umgjörð sem útilokar engan. Að koma saman í sínu fínasta pússi á árshátíð sem haldin er í skólanum og skemmta sér saman: tala saman, syngja og hlægja saman og umfram allt dansa er meðal þess sem krökkum þykir hvað allra skemmtilegast. Ferðir kosta vissulega alltaf eitthvað. Það þarf alla vega að borga bílstjóranum. Í þeim tilfellum er iðulega ráðist í fjáröflun eða sótt er um styrk hjá sveitarfélaginu sem er hið besta mál.
Grunnskólinn er samkvæmt lögum gjaldfrjáls og þarf það að gilda um allt sem tengist skólanum. Sem sálfræðingur og borgarfulltrúi fagna ég umræðunni og vona að hún verði til þess að allir skólar skoði þessi mál hjá sér og gleymi aldrei að sumar fjölskyldur eiga ekki mikið aflögu. Það má aldrei vera þannig að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Öll mismunun fer illa með börn.
Ég hef í borgarstjórn margsinnis rætt um og komið með tillögur um að gæta þurfi jafnræðis þegar kemur að þátttöku í ferðum eða viðburðum á vegum skóla, frístundar og félagsmiðstöðva sem börnin sækja. Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri eða ríkra foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Skólatengdir félagslegir viðburðir og verkefni eru stundum eina tómstund þessara barna.
Engin skólaganga í boði fyrir einhverfa stúlku
12.4.2019 | 19:48
Skóli án aðgreiningar getur ekki sinnt einhverfri stúlku en samt á skólinn að vera fyrir alla. Barn með einhverfu er ekki lengur með skólavist hér á landi.Það hefur lengi verið vitað að það er ákveðinn hópur barna sem líður illa í skólanum en í þessu tilfelli hefur barnið enga skólavist. Er þetta skóli án aðgreiningar að geta ekki boðið þessu barni þá þjónustu sem það þarf til að stunda skólann? Varla. Sorgleg staðreynd og hér er það staðfest enn og aftur að þessi metnaðarfulla ímynd um skóla fyrir öll börn er ekki að virka fyrir ÖLL börn og ekki nóg með það heldur er börnum sem þurfa sérhæfða þjónustu eins og þessu barni hreinlega vísað frá. Tek það fram að þetta er ekki kennurum og skólastjórnendum að kenna heldur hefur aldrei verið sett nægjanlegt fjármagn í þetta kerfi til að það virki eins og það ætti að gera og í samræmi við hugmyndafræðina. Eigum við ekki að fara setja mál barna og það allra barna í forgang í þessari borg? Til að skóli án aðgreiningar gangi upp þarf að vera þar fullnægjandi þjónusta fyrir öll börn sem eðli málsins samkvæmt eru með ólíkar þarfir. Svo bendir borgin á ríkið og öfugt. Hér má nefna að Klettaskóli er löngu sprunginn en hann er sérskóli og samkvæmt því sem fram kemur hjá borginni er ekki talin ástæða til að útbúa annað sambærilegt úrræði.
Að eldri borgarar fái sveigjanlegri vinnulok
12.4.2019 | 08:12
Ég hef lagt það til að borgin sem vinnuveitandi leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða eldri borgurum upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir miklum kostum, menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki enda stór vinnustaður og bjóða upp á sveigjanleika þegar komið er að starfslokum. Sumir viljað hætta áður en 70 ára markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og af því er reynsla t.d á Droplaugartöðum. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar takmarkað.
Hvað margir eldri borgarar skyldu vera á bið?
11.4.2019 | 16:11
Í morgun á fundi borgarráðs lagði ég fram beiðni um að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara er varðar bið eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum?
Í dag 12.4. er þessi frétt um að enn fleiri séu nú á en Flokkur fólksins vill fá nákvæmar tölur í Reykjavík
Staðan í desember 2018 var sú samkvæmt velferðarsviði að 53 einstaklingar lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi er ósáttur við að tillagan um Hagsmunafulltrúa eldri borgara var hafnað. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara og taldi ekki þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða. Engu að síður berast fréttir af eldri borgurum í neyð. Tillagan um hagsmunafulltrúann fól í sér að hann myndi skoða málefni eldri borgara ofan í kjölinn, halda utan um hagsmuni þeirra og fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn átti að kortleggja stöðuna í heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða. Sá þjónustufulltrúi sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir Hagsmunafulltrúa Flokks fólksins enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun.
Tillaga um úttekt Innri endurskoðunar á Gröndalshúsi felld
5.4.2019 | 17:22
Flokkur fólksins lagði til í janúar að Innri endurskoðun gerði úttekt á Gröndalshúsi en sú tillaga var felld í borgarráði í vikunni.
Hún hljóðaði svona:
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg."
Tillagan var felld
Hér er bókun sem lögð var fram í framhaldi af umsögn borgarinnar um málið og afgreiðslu.
Bókun Flokks fólksins
Óskað var eftir að gerð yrði úttekt á Gröndalshúsi sambærileg þeirri sem gerð var á Nauthólsvegi 100. Í svari frá Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar segir að ekki sé ástæða til að gera úttekt á Gröndalshúsi þar sem verkefnið var unnið á vegum Minjaverndar og þeir starfsmenn sem komu að þessu verkefni á vegum skrifstofunnar hafa látið að störfum.
Flokkur fólksins telur þetta engin rök. Ennfremur segir að ekki sé rétt með farið að Gröndalshús hafi farið 198 milljónir fram úr áætlun og að verið sé að blanda saman atvinnutengdu samstarfsverkefni með Völundarverki og endurgerð hússins að Vesturgötu.
Er hér verið að fullyrða að frétt sem birtist í 15. 12. 2018 sé röng en í henni segir:
Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun.
Segir ennfremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir.
Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram eftirfarandi fyrirspurn:
Spurt er þá hvort eftirfarandi frétt sem birtist í visi.is 15.12.2018 sé röng?
En í henni segir:
Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun.
Segir ennfremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir.
Aðrar tvær tillögur bíða afgreiðslu en þær voru einnig lagðar fram af Flokki fólksins 10. janúar:
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Barnaleg þrákelkni meirihlutans þegar kemur að miðborgarskipulaginu
2.4.2019 | 19:40
Samráð við rekstraraðila og borgarbúa hefur mikið til verið hundsað og mörgum þykir þeir hafa verið blekktir þegar kemur að lokunum Laugavegar og Skólavörðustígs. Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn virðst ætla að keyra áfram þessara lokanir þrátt fyrir að undirskriftalistar hafa borist borginni í dag þar sem 90% þeirra eru mótfallnir lokunum á þessu svæði. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Vilji yfir 90% rekstraraðila skal bara troðið ofan í kokið á þeim og undirskriftalistarnir fara ofan í skúffu hjá borgarstjóra, verða skjalaðir" eins og borgarstjóri orðaði það.
Er miðbærinn einungis fyrir borgarmeirihlutann og ferðamenn? Borgarbúar hafa verið beittir blekkingum og eru í dag í borgarstjórn þegar sífellt er klifað á að fjölmargar kannanir hafa sýnt að lokanir sem hér um ræðir séu með vilja meirihluta borgarbúa. Þetta er ekki rétt. Verði haldið áfram með þessi áfrom er verið að misbjóða borgarbúum gróflega. Hér á að valta yfir fjölmarga. Hvar er samráð við hreyfihamlaða? Tal um samráð er bara hljómið eitt og sannarlega er hvorki verið að huga að þeim sem gíma við hreyfihömlun né eldri borgara. Flokkur fólksins gerir kröfu um að haft sé fullt samráð þegar kemur að þessum lokunum. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.
Í borgarstjórn í dag mun tillaga Flokks fólksins vera lögð fram um að lokun Laugavegar og Skólavörðustígs verði frestað á meðan að könnuð verði til hlítar afstaða borgarbúa gagnvart heilsárs lokun þessara gatna fyrir bílaumferð.
Lagt er til að Reykjavíkurborg taki upp samstarf við háskóla og/eða reynslumikið fyrirtæki sem framkvæmir skoðanakannanir, í þeim tilgangi að vinna að viðhorfsrannsókn ýmissa hópa í borginni gagnvart lokun umræddra gatna fyrir bílaumferð. Lagt er til að leitað verði viðhorfa hagsmunaaðila við þær götur sem á að loka, jafnframt samtök eldri borgara, samtök fatlaðra og breiðs hóps borgarbúa sem búa víðs vegar um borgina. Nauðsynlegt er að úrtakið endurspegli þýðið og sýni þannig sem best raunverulegan vilja borgarbúa og einstakra hópa. Nauðsynlegt er að móta spurningar þannig að skýrt sé hvað spurt er um og þátttakendum gert ljóst hvað er í vændum varðandi lokun þessara gatna til frambúðar.