Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Ég er svooo ánægð með þessa niðurstöðu hvað varðar þetta klámþing.

Er þessi þjóð og þjóðarsál ekki meiriháttar!!  Hvaða þjóð getur státað sig af slíkri samstöðu sem hér ríkir þegar heill hópur ætlar að streyma til landsins í þeim tilgangi  að fjalla um og skiptast á klámefni? Þá brettir íslenska þjóðin upp ermarnar, allir sem einn og segir nei.  Þetta er of gott til að vera satt. Ég satt að segja þorði ekki að vona að þetta gæti orðið niðurstaðan eða að þetta væri yfir höfuð raunhæfur möguleiki . Allir þeir sem hafa mótmælt þessu eiga hrós skilið og þar fara grasrótarsamtökin fremst í flokki. Að sjálfsögðu höfum við eitthvað um það að segja hvaða hópar koma hingað og í hvaða tilgangi. Hvort þetta dregur einhvern dilk á eftir sér verður bara að koma í ljós. Við tökumst á við það þegar og ef til þess kemur. Ég er stolt af Bændasamtökunum og ég er rígmontin af alþingismönnunum okkar. Þetta var lagið!

Nú rofar til hjá þeim sem þjáðst hafa af skammdegisþunglyndi

Með hverjum degi sem nú líður eykst britan. Þeir sem þola illa skammdegið geta nú farið að láta sér hlakka til vorsins. Ákveðinn hópur einstaklinga upplifir þunglyndi á þeim tíma ársins sem mesta myrkrið er. Einkennin eru þreyta, kvíði, neikvæðar hugsanir og streitueinkenni. Sumum líður svo illa á þessum tíma að þeim finnst átak að stíga fram úr á morgnana og takast á við daginn og gildir þá einu hvort verkefnin sem bíða eru flókin eða einföld. Sem sagt framundan er yndislegur tími og maður fyllist löngun til að hoppa og skoppa. Frábært að heyra aftur í fuglunum í tjránnum og hænurnar mínar hérna í garðinum verpa sem óðar væru þessa daganna.

 


Niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu.

Í dag barst mér svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn sem borin var upp á Alþingi í nóvember s.l. Eins og flestir vita kannski hefur Sálfræðingafélag Íslands barist fyrir því í hartnær 20 ár að þeir sem óska eftir þjónustu sálfræðinga fái niðugreiddan kostnað á viðtölum rétt eins og tíðkast hefur árum saman hjá geðlæknum og fleiri heilbrigðisstéttum. Þetta er spurning um að velja sér heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Með því að semja ekki við sálfræðinga er einnig verið að mismuna stéttum. Svörin má nálgast á vefsíðu Alþingis undir Kolbrún Baldursdóttir eða á heimasíðu minni www.kolbrun.ws.
Fyrirspurnin er þessi:

1. Til heilbrigðisráðherra um viðtalmeðferðir vegna kvíða- og þunglyndiröskunar.
a. Hversu margir sjúklingar koma árlega í viðtalsmeðferð vegna kvíða- og þunglyndisröskunar?
b. Hversu margir aðilar hér á landi hafa réttindi til að veita slíka meðferð?
c. Hvað hefur ráðuneytið gert til að veita sjúklingum val um viðtalsmeðferð?
d. Hver er afstaða ráðuneytisins um greiðsluþátttöku Tryggingarstofnunar í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingum?


Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni?

Nú þegar verið er að ræða að byggja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni finnst mér sem líkurnar á að flugvöllurinn kunni að verða þar áfram til lengri tíma séu að aukast. Ég myndi fagna því mjög ef það yrði niðurstaðan. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þar, eða í næsta nágrenni, eigi að vera flugvöllur. Mörg gild sjónarmið eru fyrir því s.s. mikilvægi þess að staðsetning innanlandsflugsins sé sem næst sjúkrahúsi borgarinnar enda geta mínútur skipt máli þegar um bráðatilvik eru að ræða. Keflavík finnst mér aldrei hafa verið aðlaðandi kostur enda þótt margir líti á akstur á Leifsstöð sem skottúr. Sá tími sem tekur að fara frá Reykjavík og nágrenni og þar til gengið er út í vél er býsna drjúgur. Það vita þeir best sem leggja leið sína oft þangað í millilandaflug.

Hjólreiðabrautir í vegaáætlun. Til hamingju Sturla!

Vísað er í hádegisfréttir en þar var sagt að á morgun verði lögð fyrir Alþingi ný samgönguáætlun. Ein af nýjungunum í tillögu um nýja vegaáætlun er að heimila að styrkja gerð göngu-, og hjólreiðastíga meðfram stofnvegum í þéttbýli og meðfram fjölförnustu þjóðvegum í dreifbýli.  Landssamtök hjólreiðafólks hafa lengi barist fyrir að hjólreiðabrautir verði settar í vegalög og viðurkenndar sem hluti að vegakerfinu.  Í tillögum að nýrri vegaáætlun segir: “Í tengslum við endurskoðun vegalaga og hugsanlegar heimildir þar mun koma til skoðunar þátttaka ríkisins í gerð hjóla,- og göngustíga meðfram stofnvegum í þéttbýli. Á sama hátt mun koma til skoðunar þátttaka ríkisins í gerð hjóla,- og göngstíga meðfram fjölförnustu stofnvegum í dreifbýli.“

Þetta er mikill gleðidagur fyrir hjólreiðafólk og persónulega fyrir mig líka en á Alþingi í nóvember s.l. var ég með fyrirspurn til ráðherra um þetta efni sem var svona:
Hefur ráðherra látið undirbúa áætlun um að lagðar verði hjólreiðabrautir sem verði fullgildur samgöngukostur?
Í munnlegu svari ráðherra kom fram að hann var jákvæður fyrir þessu máli og nú er sannarlega tilefni til bjartsýni.


Unglingar sem skemma geta greitt skuldina þegar þeir hafa náð 18 ára aldri.

Nú eru skemmdarvargarnir í Hafnarfirði fundnir. Þar sem þeir eru á aldrinum 16-17 ára sleppa þeir að borga skaðann. Foreldrarnir eru heldur ekki ábyrgir þar sem synir þeirra teljast hálffullorðnir. Þetta er skv. frétt í Blaðinu í dag.  Hérna er greinilega einhver glufa í kerfinu sem þarf að skoða nánar. Það er ekki langt þangað til að þessir strákar ná 18 ára aldri og þá á þessi skuld einfaldlega að bíða þeirra amk að hluta til.  Svo einfalt er það. Ég hvet dómsmálaráðherra til að skoða þessi lög/reglugerðir nánar með tillliti til þessa. Við verðum að stöðva skemmdarverk.  Að þurfa að taka afleiðingum gerða sinna er eina markvissa leiðin til að slökkva á neikvæðu atferli sem þessu.

Fyrir hverja er Hrossaræktardeildin í Hólaskóla?

Ég heyrði því fleygt að íslendingar sem sóttu um í Hólaskóla ættu í harðri samkeppni við útlendinga, aðallega þjóðverja um að fá inngöngu í Hrossaræktardeildina. Kæmist ég á þing aftur myndi ég vilja spyrja landbúnaðarráðherra hver væri samsetning nemenda í þessari deild.
Annars er ég þeirrar skoðunar að bæði Landbúnaðarháskólinn og Hólaskóli ættu að tilheyra Menntamálaráðuneytinu eins og aðrir skólar landsins. Það væri bæði rökrétt og eðlilegt.


Hvað er í kjötinu sem við borðum?

Hversu heilnæm og örugg matvæli eru á markaðinum? Nú hefur það verið opinberað að ýmis efni, ekki bara einhver rotvarnarefni heldur einnig vatn er sprautað í a.m.k. sumar  kjötvörur sem við leggjum okkur til munns. Einnig hef ég heyrt að t.d. kjúklingabringur séu sprautaðar með sykri.
Ég vil hrósa þeim aðilum sem hafa komið fram með þessar upplýsingar jafnvel í óþökk einstakra framleiðenda. Ég er ein af þeim sem les yfirleitt innihaldslýsingar á matvælum en nú finnst mér ég ekki geta treyst á þær lengur. 
Getum við ekki gert kröfur um að innihaldslýsingar séu hárnákvæmar og einnig verið örugg um að matvælaeftirlitið geri stikkprufur endrum og sinnum. 
Hráefni sem er komið fram yfir síðasta söludag eru sögð seld til veitingastaða og í mötuneytin. Er þetta virkilega satt? Það er eiginlega ekki beint rómantískt að fara út að borða lengur.

  


Breiðavík um Breiðuvík?

Í þeirri miklu umræðu sem verið hefur um hörmungarnar í Breiðuvík hefur nafnið Breiðavík ekki verið beygt eins og væri um að ræða orðið Breiðavík um Breiðuvík.
Sjálf hefði ég haldið að einnig ætti að beygja fyrri huta þessa samsetta orðs þar sem það væri dregið af „breið“ þ.e. hér er Breiðavík, um Breiðuvík osfrv.
Er nafnið kannski ekki dregið af „breið“ heldur orðinu „breða sem merkir þá hjarn? Fyrir mér og kannski fleirum er það líklegast að víkin hafi fengið nafnið Breiðavík af því að hún er breið. Þar að leiðandi ætti nafnið auðvitað að beygjast  Breiðavík, um Breiðuvík,  frá Breiðuvík,  til Breiðuvíkur.  
Eitthvað hefur heyrst um að málfarsráðunautur útvarpsins hafi útskýrt málið. En maður er nú ekki til í að kaupa hvað sem er.

Afnema ætti tvöfaldan ríkisborgararétt á Íslandi

Af hverju eigum við að leyfa tvöfaldan ríkisborgararétt á Íslandi? Hver er ávinningurinn af slíku fyrirkomulagi fyrir íslenskt samfélag og hvað tapast við að afnema hann? Þessum spurningum er best svarað af löglærðum einstaklingum sem skoðað hafa málið ofan í kjölinn.
Þeir sem eru með tvöfaldan ríkisborgararétt njóta fullra réttinda í hvoru landi. Skyldurnar eru hins vegar veigalitlar s.s. eins og að sýna hollustu og hafa skyldu til að gegna opinberum störfum.  Mér er þó ekki alveg ljóst hvað átt er við með því  nema þá að sinna herkvaðningu þar sem hún er við lýði.  Það er bæði rökrétt og eðlilegt að ef Alþingi veitir útlendingi íslenskan ríkisborgararétt að þá sé gerð krafa um að hann afsali sér fyrri ríkisborgararétt sínum og hafi þannig einungis einn ríkisborgararétt. Sá sem ætlar fyrir alvöru að setjast að á Íslandi og gerast samfélagsþegn með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgir hefur ekkert að gera með að eiga í handraðanum annan ríkisborgararétt. Möguleikinn á að hafa tvöfaldan ríkisborgararétt skapar ef eitthvað er ójöfnuð þar sem það eru eins konar hlunnindi sem einungis sumir fá tækifæri til að öðlast en aðrir ekki.  Ef til kæmi að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði afnuminn hér á Íslandi þá fellur íslenski ríkisborgararétturinn að sama skapi niður sæki viðkomandi um ríkisborgararétt í öðru landi.  Vissulega er hægt að sækja síðar um sinn gamla ríkisborgararétt óski fólk eftir því að koma aftur til Íslands til að búa. Þessi aðgerð tel ég að myndi auðvelda aðlögun útlendinga sem hingað koma í þeim tilgangi að setjast að til lengri tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband