Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Óþolandi skemmdarverk.

Stöðugt er verið að fremja skemmdarverk á eigum annarra/almennings. Hverjir gera þetta? Eru þetta unglingar eða jafnvel rígfullorðið fólk? Skemmdarverk er eitt af þeim fyrirbærum sem maður fær engan botn í. Það er akkúrat enginn tilgangur með því að skemma fyrir öðrum, það græðir enginn á því, heldur tapa allir. Sú fullnægja sem sá sem fremur skemmdarverkið fær við verknaðinn getur varla verið langvinn. Er kannski enn að hlakka í honum daginn eftir?
Eftir að hafa praktíserað sálfræði í 17 ár er verknaður sem þessi mér ráðgáta. Ljóst er að sá sem stundar að skemma er reiður einstaklingur, jafnvel siðblindur. Hann gerir þetta ítrekað af því að hann kemst upp með það. Ekki hefur tekist að kenna honum að taka ábyrgð og hann hefur komist undan að taka afleiðingunum. Skaðinn er talinn í milljónum svo ekki sé minnst á tilfinningarlega skaðann. Mér finnst að við eigum að fara að taka harðar á skemmdarverkum. Náist í þá sem skemma fyrir öðrum þarf að vera hörð viðurlög, háar sektir og sálfræðimeðferð. Því  miður sleppa margir og geta þannig haldið áfram að skemma án þess að axla ábyrgð.  Mín reynsla er sú að það er ekki fyrr en viðkomandi skemmdarvargur þarf að taka afleiðingunum að hann mögulega fer að hugsa sig tvisvar um áður en hann fremur ódæðið. Sé um að ræða einstaklinga undir 18 ára kemur það í hlut foreldranna að greiða skaðann. Þá er mikilvægt að foreldrarnir láti barnið borga sér til baka með einum eða öðrum hætti. 


Horbjóður nýtt orð fyrir viðbjóður

Talmál unglinga hefur lengi verið áhugaefni mitt. Sem yfirsálfræðingur á Stuðlum þá var einstaklega gaman að fylgjast með orðavali unglinganna og enn tekst þeim að koma manni á óvart.  Orðið horbjóður er nú í notkun a.m.k. einhverra ungmenna og merkir viðbjóður.  Hugsunin á bak við orðið held ég sé nokkuð skýr. Fyrri hlutinn „hor“ kemur líklega frá enska orðinu horrible og síðari hlutinn „bjóður“ er náttúrulega seinni hluti orðsins viðbjóður. Út frá sálfræðilegu sjónarmiði er þetta mjög áhugavert fyrirbæri. Fyrst af öllu dettur manni í hug hversu hugmyndaríkir unglingarnir okkar eru. Ég vildi óska að einhver fyndi hjá sér tíma og þörf til að taka þetta saman frá ári til árs. Þetta eru heimildir og gæti einnig orðið mikið skemmtiefni.

Málefni Byrgisins: Hvernig væri að rannsaka fyrst og álykta svo?

Margir hafa þörf á að tjá sig um það sem nú er að líta dagsljósið hvað varðar Byrgið og Breiðavík. Bæði þessi mál eru ekki fullrannsökuð ennþá. Mér finnst allt of langt gengið í að draga ályktanir og jafnvel ákveða hvað hefur verið í gangi áður en við fáum það endanlega staðfest. Þetta er t.d. mjög áberandi í Fréttablaðinu í dag 10. febrúar á bls. 4. Bara með því að lesa fyrirsögnina fær fólk til að halda að þá þegar hafi málið verið að fullu upplýst.  Síðasta setning fréttarinnar er svo þessi „Málið er í fullri rannsókn og farið að síga á seinni hlutann“. Er ekki allt í lagi að rannsaka málið áður en við teljum okkur vita hvað hefur gerst nákvæmlega þarna og með hvaða hætti. Fréttamennska sem gengur út á hugmyndafræði eins og „líklegt/ólíklegt, örugglega og áreiðanlega“ er ekkert nema til að gefa fólki byr undir báða vængi að spekúlera enn meira um eitthvað sem á eftir að rannsaka. Þegar rannsókn síðan liggur fyrir þá getur þess vegna eitthvað  annað verið upp á teningnum. Gagnvart meintum gerendum er þetta líka afar ósanngjarn. Hvað varð um það að maður sé saklaus þar til sekt hans er sönnuð.  Bíðum bara eftir niðurstöðum rannsókna í þessu máli og þá komumst við eins nærri sannleikanum og mögulegt er.

 


Reykjavíkurflugvöllur og samgöngumiðstöð

Nú blasir það við að Iceland Express fær ekki aðstöðu í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Þetta er hið versta mál því á meðan Flugfélag Íslands einokar aðstöðuna haldast innanlandsflugfargjöld himinhá. Nú væri það óskandi að farið væri að krafti í að byggja samgöngumiðstöð á svæðinu sem rúmað gæti alla nauðsynlega þjónustu og lagt grunninn að eðlilegri samkeppni. Sjálf er ég talsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Það er í lagi að færa hann eitthvað t.d. ef ákveðið verði að fara í einhverjar landfyllingar. Umræðan um staðsetningu flugvallarins hefur verið viðloðandi í mörg ár. Sem frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðismanna í október s.l. þá var ég víst (skv. Samtökum um betri byggð sem gerði könnun meðal frambjóðenda) eini frambjóðandi sem var þeirrar skoðunnar að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Málið er sannarlega umdeilt svo mikið er víst.


Breiðavíkurmálið

Það er hrikalegt að hlusta á þessar fréttir um vistun drengjanna í Breiðavík. Sérstaklega slær það mann hversu ungir sumir þeirra voru þegar þeir voru sendir á þennan afvikna stað fjarri þeim sem þeir höfðu myndað sterkustu tengslin við.  Þetta voru bara kríli, 8 og 9 ára strákar. Þegar maður hugsar til þessa tíma yfir höfuð þá er það ekki bara Breiðavík. Hvernig var þetta til dæmis á sjúkrahúsunum. Ef barn veiktist og þurfti að leggjast inn fengu foreldrar ekki að vera nálægt nema á heimsóknartímum. Ég hef heyrt þó nokkra foreldra lýsa því hvernig var að þurfa að skilja eftir grátandi barn sitt á sjúkrahúsi á þessum tíma.  Eins var harkan mikil í sumum barnaskólum. Við sem erum 45 + munum sum hver eftir framkomu/viðmóti kennara og skólastjórnenda  sem ekki myndi vera samþykkt nú.  Á þessum tíma var það heldur ekki til siðs að börn létu mikið í sér heyra. Ef þau höfðu sig mikið í frammi var þeim oft refsað á einn eða annan hátt. Það er í raun ótrúlegt hversu stutt er síðan þessi „hugmyndafræði“ ríkti.


Fjölmiðlafólk og viðtalstækni

Að minnsta kosti tvö mjög erfið og viðkvæm mál hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum nú síðustu vikur. Viðtöl hafa verið tekin bæði í sjónvarpi og útvarpi við þolendur ofbeldis og einnig meinta gerendur. Í slíkum viðtölum skiptir öllu máli að spyrlarnir séu með viðtalstækni á hreinu. Borið hefur mikið á því í þessum viðtölum að spurðar eru verulega leiðandi spurningar. Þeir sem sitja fyrir svörum eiga það skilið að spurningum sem til þeirra er varpað um svo viðkvæm og eldfim mál sem þessi séu þannig úr garði gerðar að viðmælendur hafi fullt vald á að svara þeim á þeirra eigin persónulegu forsendum. Séu spurningar leiðandi rýrir það gildi upplýsinga sem fram kemur, gefur falska mynd af svörunum og lýsa oft mikið frekar skoðunum og hugsunum spyrilsins en viðmælandans. Ég legg til að annað hvort fari fjölmiðlafólk á viðtalstækninámskeið og læri samhliða smávegis í sálfræði eða að þau einfaldlega fái fagaðila til að taka viðtölin. Viðtal sem tekið er með leiðandi spurningum, hvort sem það fjallar um viðkvæ,m persónuleg málefni eða önnur almennari málefni eru bæði rýrari af gæðum og hvimleitt á að hlusta.


Svifryksmengun og nagladekk

Í allri þessar umræðu um svifryksmengun þá óttast ég mest að það komi að því að nagladekk verði bönnuð með öllu. Svifryksmengun er vissulega vandamál og eflaust þarf að finna leiðir til að draga úr því. En tilhugsunin um að geta ekki ekið á negldum dekkjum um hávetur (alla vega slitnum nagladekkjum) er skelfileg. Við sem búum  í efra Breiðholti vitum hvernig Breiðholtsbrautin er þegar hálka myndast. Þeir sem ekki eru á annað hvort sérlega góðum vetrardekkjum eða negldum dekkjum, drífa einfaldlega ekki upp Brautina í hálku og þvílíkt öngþveiti sem þá myndast.

 


Stjórnarmyndun í vor.

Mér fannst áhugaverð lesning Birgis Hermannssonar, stjórnmálafræðings  í Fréttablaðinu 4. febrúar en hann spáir í valkosti þegar kemur að myndun ríkisstjórnar í vor. Einn af punktum hans er á þá leið að líklegasta ríkisstjórnin verði annað hvort Samfylking, vinstri græn og Framsóknarflokkur eða Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Hið síðarnefnda er erfitt að sjá fyrir.. og þó, kannski eru engir aðrir valkostir betri eftir allt saman.

Gróði bankanna

Nú er það stöðugt í fréttum hvað viðskiptabankarnir moki inn gríðarlegu féi í gegnum þjónustugjöld og vexti. Kúnnar njóta lítils góðs af þessu á meðan eigendur bankanna hlaða undir sig fjámagni og laun yfirmanna eru ekki í neinum takt við raunveruleikann. Þarna er fámennur hópur sem verður æ ríkari og ríkari á kostnað kúnnanna. Í allri þessari evru umræðu hafa heyrst raddir að hinn almenni borgari sem á einhvern aur í banka geti allt eins sett fé sitt á reikninga erlendis. Þetta er sérstaklega í ljósi þess að framtíðin hér.. þetta með sveiflukennda krónu og allt það sé bara verulega ótrygg. Seðlabankinn mun náttúrulega ekki endalaust getað hækka stýrivexti.
Hvað myndi gerast ef hópur fólks tæki peningana sína úr bönkum landsins, skiptir þeim yfir í evrur eða dollara og stofnar reikninga í bönkum erlendis. Er það raunhæfur möguleiki? Er það sniðugur möguleiki? 


Atvinnuauglýsing í Mbl. í dag á erlendu tungumáli

Mér þótti skrýtið að sjá atvinnuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag á erlendu tungumáli frá fyrirtækinu Lauffell sem að mér skylst  staðsett í Hafnarfirði. Ætli þetta fyrirtæki sé erlent og vilji einungis ráða til sín erlenda starfsmenn eða er þetta fyrirtæki íslenskt sem vill ekki ráða til sín íslenska starfsmenn?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband