Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Arfleifðin skoðuð með Heiðari snyrti og Björk borgarfulltrúa.

naerverusalararf133.jpg

Það er sennilega aldrei eins tímabært og nauðsynlegt og nú en að hugsa til baka og rifja upp hvernig forfeður og mæður okkar lifðu. Þrautseigjan, eljan og krafturinn bjó meðal þorra íslendinga því stór hluti þeirra lifði oft við erfiðar aðstæður bæði kulda, vosbúð og fátækt.

Í nærveru sálar 1. mars ræði ég við frændfólk mitt þau  Heiðar Jónsson, snyrti og Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa um arfleifðina en ömmur okkar þær María og Stefanía Ásmundsdætur frá Krossum voru systur.

Hver voru skilaboð þessara kraftmiklu systra til afkomenda sinna og hvernig minnumst við þeirra sem fyrirmynda?  Við ræðum saman um lífið sem þær lifðu á Krossum og tengjum okkur við lífsskoðun þeirra og gildismat. Hvernig getum við mynda brú frá gömlu góðu gildum fortíðarinnar yfir í hina flóknu og ólgumiklu nútíð sem við lifum og hrærumst í?

maria_og_stefania_smundsdaettur.jpgMaría og Stefanía Ásmundsdætur voru dætur Ásmundar Jónssonar og Kristínar Stefánsdóttur frá Krossum. Þær fæddust fyrir aldamótin 1900, bjuggu og ólu börn sín upp á Krossum í Staðarsveit. Stefanía varð snemma ekkja með stóran barnahóp og María var einstæð móðir með tvær dætur. Við frændfólkið rifjum upp minningarnar um ömmur okkar, lærdóminn sem þær miðluðu, umburðarlyndið sem þær kenndu og hvernig þær sýndu kærleikann í verki.


Hvað er eðlilegra fullorðnu fólki en að löngunin til að eignast barn

Þátturinn um ófrjósemi og allar þær flóknu hliðar sem þeim vanda fylgir er kominn á vefinn.

Hér


Að glíma við ófrjósemi

naerverusalar1kr_tilverass30.jpgFátt er eins eðlilegt fullþroska fólki en löngun og þrá til að eignast barn. Barnleysi getur verið sársaukafullt vandamál. Þeir sem glíma við ófrjósemi verja oft mörgum árum af fullorðinslífi sínu í tilraunir til að eignast barn.

Skilgreining á ófrjósemi er þegar par hefur reynt að eignast barn í eitt ár án árangurs. Talið er að 15-20% para á barneignaraldri glími við ófrjósemi einhvern tímann á lífsleiðinni. Ófrjósemi er fyrst og fremst líffræðilegt vandamál enda þótt sálrænir þættir hafi svo sannarlega áhrif.

Tilvera, samtök um ófrjósemi var stofnuð 1989. Hlutverk Tilveru er m.a. að standa við bakið á pörum sem þarfnast tæknifrjóvgunarmeðferðar. Aðeins þeir sem hafa verið og eru í þeirri stöðu að glíma við ófrjósemi og hafa reynt að eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar vita hversu mikið álag ferlið er og hversu mikil áhrif það hefur á tilfinninga- og líkamlega líðan. Ef meðferðin skilar ekki árangri eykst álagið enn frekar og algengt er að tilfinningar eins og sorg, vonleysi og kvíði komi upp.

Fyrir nokkrum árum var Tæknifrjóvgunardeildinni á LSH lokað og gerður var samningur við ART Medica um að annast þessa þjónustu. Tæknifrjóvgun eins og glasafrjóvgun er kostnaðarsöm meðferð og oft er fleiri en einnar meðferðar þörf.  Kostnaður fer m.a. eftir hversu margar meðferðir parið hefur farið í og einnig hvort parið á eitt eða fleiri börn saman.

Ófrjósemi virðist vera vaxandi vandamál.  Ástæður eru vafalaust hvorki einhlítar né einfaldar.

Í nærveru sálar 22. febrúar verða þessi  mál rædd með þeim Katrínu Björk Baldvinsdóttur og Huldu Hrönn Friðbertsdóttur en þær sitja í stjórn Tilveru. Meðal þess sem verður fjallað um er hversu mikið og margslungið álag það er að vera í þessum sporum.  Það reynir ekki einvörðungu á líkama og sál heldur einnig á samband og samskipti para svo ekki sé minnst á fjárhagsleg útgjöld sem því fylgir að fara í fjölmargar tæknifrjóvgunartilraunir svo sem glasafrjóvganir.

Við ræðum um ófrjósemi og skilgreinum síðbúna ófrjósemi sem oft fær mun minni athygli. Lengi vel hefur ófrjósemi einnig verið feimnismál  í hugum sumra. Það er von flestra að með opinni umræðu um þetta málefni muni það breytast.

Þrái fólk að eignast barn má einnig spyrja hvort við því sé ekki bara ein lausn sem er að parið eignist BARN? Í þessu sambandi ræðum við hvað felst í hugtakinu barnfrelsi.

Síðast en ekki síst er spurningin hvort stjórnvöld geti liðkað enn frekar til fyrir þennan hóp t.d. með breytingum á lögum og reglugerðum þessu tengdu.

Meira um ófrjósemi 22. febrúar Í nærveru sálar á ÍNN kl. 21.30.


Væntingar og vonbrigði nýnema í háskóla

naerverusalar_kr_hi11feb.jpgFyrsta árið í háskóla er ekki alltaf dans á rósum. Nýnema bíða oft alls kyns skakkaföll og hindranir. Þeir leggja af stað í þessa vegferð, flest hver full væntinga en uppgötva síðan stundum all harkalega að leiðin er hvorki bein né greið.  Viðbrigðin að koma í háskóla eru gríðarleg.  Enda þótt nemendur séu að koma úr ágætum menntaskólum og eru margir hverjir tiltölulega vel undirbúnir þá er nám á háskólastigi frábrugðið að mjög mörgu leyti. Í háskóla er samankominn hópur námslega sterkra nemenda. Samkeppni getur því verið mikil. Sá sem hefur verið með þeim hæstu í menntaskóla er e.t.v. kominn í hóp meðaljónanna þegar komið er í háskóla. 

Í háskólanámi er þess krafist að nemendur beri ábyrgð á eigin námi. Það er ekki kennaranna að fylgjast með því hvort nemendur hafi lært heima eða séu að fylgjast með því sem fram fer í tímum. Nemendur verða, ef þeir ætla að ná árangri, að hafa færni og getu til að vinna sjálfstætt. Þeir þurfa að hafa nægjanlegan sjálfsaga til að liggja yfir bókunum án þess að nokkur sé endilega að hvetja þá eða fylgjast með að þeir stundi námið sómasamlega.

Til að ræða þetta og margt fleira í þessu sambandi koma Í nærveru sálar 15. febrúar tveir náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands þær Jónína Ólafsdóttir Kárdal og María Dóra Björnsdóttir.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa í háskóla er afar víðtækt. Það er ekki lengur einskorðað við að kynna námsleiðir eða hjálpa krökkunum að velja sér brautir heldur einnig að kenna námstækni, hvernig undirbúningi undir próf verður best háttað og hugga og hvetja nemendur sem hafa ekki náð tilskyldum árangri. Við ræðum um klásus, síur og óheyrilegt fall fyrsta árs nemenda svo sem í lögfræði. Hvað er hægt að gera fyrir tugi ef ekki hundruðir nemenda sem t.d. falla í hinni alræmdu Almennu? Eins er forvitnast um hvort námsráðgjafar leiðbeini kennurum í samskiptum þeirra við nemendur og hvernig sértækum hópum er sinnt eins og þeim sem glíma við lesblindu?


Staða ættleiðingarmála á Íslandi í dag

naerverusalar_aettlkk123.pngTilkoma barns á heimili er oftast nær tilefni gleði og eftirvæntingar. Þetta á ekki síður við í þeim tilvikum þegar börn eru ættleidd. Nær undantekningarlaust hafa fjölskyldur sem bíða eftir að fá barn ættleitt gengið í gegnum langan biðtíma sem jafnvel er stundum hlaðinn óvissu. Mörg pör eru þá þegar búin að ganga langa þrautargöngu við að reyna að eignast sitt eigið barn og í því sambandi gengið í gegnum erfiðar aðgerðir og tilraunir á sviði tæknifrjóvgunar.

Í þættinum Í nærveru sálar 8. febrúar verða þessi mál skoðuð nánar. Nýútkomin bók, Óskabörn verður kynnt en segja má að hún sé eins konar biblía í þessum málaflokki. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út um ættleiðingar í 45 ár.

Enn er biðlistinn eftir að ættleiða barn gríðarlangur. Yfir 100 fjölskyldur bíða þess að geta sótt barn til eitthvað af þeim löndum sem Ísland hefur ættleiðingarsamband við.

Gestir þáttarins eru þau:
Sigrún María Kristinsdóttir, blaðamaður, doktorsnemi og höfundur bókarinnar Óskabörn og Hörður Svavarsson, formaður félagsins Íslensk ættleiðing.

Í þættinum ræðum við um Haíti og hvort það sé raunverulegur möguleiki að gert verði formlegt ættleiðingarsamband milli Íslands og Haíti. Hvernig geta íslensk stjórnvöld liðkað enn frekar fyrir í þessum málum? UNICEF og önnur alþjóðleg samtök hafa varað þjóðir heims við hættu á því að nokkurs konar gullgrafaraæði brjótist út hjá fólki sem vilja ættleiða börn í kjölfar hörmunganna á Haíti. Hver eru helstu rökin fyrir því að börnin eru oftar en ekki orðin ársgömul og jafnvel eldri þegar foreldrar fá þau í hendurnar?
Hvernig er staðan með ættleiðingar frá Kína um þessar mundir?

Hér eru aðeins nefnd fáein atriði af þeim sem farið verður yfir í Í nærveru sálar næstkomandi mánudag.


Hin árangursríka sálfræðinálgun Hugræn Atferlismeðferð

naerverusalar1hamkrbr26.jpgHelstu sérkenni Hugrænnar atferlismeðferðar. Sálfræðinálgun sem hentar þeim sem glíma við kvíða, streitu og depurð. Oddi Erlingsson og Sóley Davíðsdóttir, sálfræðingar segja frá námskeiði sem þau bjóða upp til að kenna fólki að tileinka sér þessa árangursríku tækni.

Í Nærveru sálar kl. 21.30 1. febrúar á ÍNN.

Námskeið í Hugrænni Atferlismeðferð, sjá meira á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar www.kms.is

Hugræn atferlismeðferð er meðferðarform sem sameinar bæði aðferðir hugrænnar meðferðar (cognitive therapy) og atferlismeðferðar (behavior therapy).  Í hugrænni meðferð fær fólk aðstoð við að breyta neikvæðu hugarfari þannig að líðan þeirra fari batnandi. Í atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að breyta atferli sínu, til dæmis takast smátt og smátt á við það sem það kvíðir fyrir að gera. Þannig fer líðan þess smám saman batnandi og fólk öðlast meiri trú á getu sinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband