Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Hverfisgatan og Staðarhverfið

Framkvæmdir við Hverfisgötu er harmsaga. Þarna hafa rekstraraðilar borið skaða af. Gagnvart þessum hópi hefur svo gróflega verið brotið þegar kemur að loforði um samráð. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sínar eigin skilgreiningar sem hafa ekkert að gera við samráð í þeim skilningi. Framkvæmdir á Hverfisgötu hafa aldrei verið unnar með rekstraraðilum þar. Þeir fá ekki einu sinni almennilegar upplýsingar. Þessu fólki hefur aldrei verið boðið að sjálfu ákvörðunarborðinu. Það er ekki að undra að fólk sé svekkt þegar á því er traðkað og yfir það valtað með þessum hætti. Þetta er þeirra upplifun og er hún vel skiljanleg.

Ekki hefur neitt frekar verið haft samráð við íbúa í Staðarhverfi. Foreldrar hafa lagt fram tillögur sem fela í sér að halda skólanum opnum en ekki er hlustað. Þessi meirihluti hefur haft nokkur ár til að komast að því hvaða samgöngubætur  á að bjóða fólki upp á þarna.  Ljóst er að ef keyra á þetta í gegn í svo mikilli óþökk og óánægju  mun það draga dilk á eftir sér. Hér er enginn sparnaður heldur mun óánægja yfirskyggja allt. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að endurskoða málið frá grunni. Þarna verður aldrei sátt. Fólki finnst þetta valdníðsla og kúgun.


Kaldar kveðjur frá borginni

Dagforeldrar er stétt sem meirihlutinn er að verða búinn að ganga endanlega frá löngu áður en nægt framboð er af plássum á ungbarnaleikskólum. Úr stéttinni er stórflótti. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verða nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef skóla- og frístundarráð hefði fundið leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina í það minnsta þangað til að ungbarnaleikskólar eru orðnir raunhæfur valkostur fyrir foreldra í Reykjavík. Dagforeldrastéttin má ekki deyja út þar sem það munu alltaf verða einhverjir foreldrar sem velja dagforeldra umfram ungbarnaleikskóla.

Staðan í dag er slæm. Foreldrar geta ekki verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæðist. Ýmist vantar börn eða vöntun er á dagforeldrum. Foreldrar eru í sífelldri spennu og starfsöryggi dagforeldra er alvarlega ógnað.
Dagforeldrum hefur verið lofað hinu og þessu í gegnum tíðina sem ekki hefur verið efnt. 

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði 10. október 2019 um að farið yrði í sérstakt átak til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og að beitt yrði til þess öllum tiltækum aðferðum og leiðum. Dagforeldrar hafa sjálfir verið duglegir að benda á lausnir en á þær hefur ekki verið hlustað.

Bilið óbrúað

Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Á meðan verið er að brúa þetta margumrædda bil þarf að styðja við bakið á dagforeldrum ef stéttin á ekki að þurrkast út. Dagforeldrar sjálfir hafa nefnt leigustyrk til þeirra sem að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar. Einnig að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta. Fleiri hugmyndir hafa verið lagðar á borðið s.s. að dagforeldrar fái aðstöðustyrkinn sem var samþykktur en síðan ákveðið að yrði ekki greiddur í bráð. Þessi styrkur myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín.

Haustið sem nú hefur kvatt hefur verið einstaklega erfitt fyrir dagforeldra. Þeir vita ekki endilega hversu mörg börn eru hjá þeim í næsta mánuði. Stundum bjóða leikskólarnir pláss með stuttum fyrirvara.  Dagforeldrar geta því staðið uppi um mánaðamót með einungis hluta af laununum sem þeir gerðu ráð fyrir að hafa. Þeir dagforeldrar sem eru ekki með laus pláss geta síðan ekki tekið við nýjum börnum fyrr en eldri börnin komast inn á leikskóla. Leikskólar Reykjavíkurborgar innrita börn yfirleitt einungis að hausti og því er mjög erfitt að fá laust pláss hjá dagforeldri eða á ungbarnaleikskóla á öðrum tíma ársins en á haustin.

Kaldar kveðjur frá borginni

Það hefur verið farið illa með dagforeldrastéttina og það bitnað á foreldrum og börnum. Framkoma valdhafa borgarinn í garð dagforeldra eru til skammar.  Margir dagforeldrar hafa áratuga starfsreynslu hjá borginni. Sveitarfélagið Reykjavík hefur brugðist þessum hópi, stéttinni, foreldrum og börnum sem reiða sig á þjónustuna. Nágrannasveitarfélögin, flest hver, hafa staðið sig miklu betur þegar kemur að því að hlúa að dagforeldrum.  Haustið hefur verið sérlega slæmt fyrir dagforeldrana og verður vorið slæmt fyrir foreldrana. Í vor munu margir foreldrar spyrja „hver á að passa barnið mitt svo ég komist út að vinna"? 
Já hver á að passa börnin svo foreldrar komist til að vinna fyrir húsnæðislánum/leigu, fæði og klæði? Hvernig ætlar borgin, skóla- og frístundarráð að bregðast við þegar stór hópur af börnum fær ekki vistun og  foreldrar komast ekki til vinnu? Stórt er spurt en fátt er um svör
.


Vil að þau pakki saman

Engin grenndarkynning í stórum né smáum verkefnum.

Þetta má lesa á mbl.is:

Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála hef­ur fellt er úr gildi ákvörðun skipu­lags­full­trúa Reykja­vík­ur­borg­ar frá 22. ág­úst um að veita fram­kvæmda­leyfi til að lengja frá­rein og breikka ramp­inn við Bú­staðaveg sem ligg­ur niður að Kringlu­mýr­ar­braut. Úr fréttum:

Nefnd­in komst að niðurstöðu í gær. 

Gögn máls­ins bár­ust út­skurðar­nefnd­inni frá Reykja­vík­ur­borg 7. októ­ber en eig­end­ur Birki­hlíðar 42, 44, og 48 kærðu ákvörðun um veit­ingu fram­kvæmda­leyf­is. Þess var kraf­ist að ákvörðun yrði felld úr gildi og fram­kvæmd­ir stöðvaðar.

Engin grenndarkynning og það er bara oft þannig bæði í smáum og stórum verkefnum. Og hvað gerist þá? Það koma mótmæli og kærur og framkvæmdir eru stöðvaðar með tilheyrandi vandræðum og kostnaði. Ég hef nýlega sagt frá leikjagrind/klifurgrind sem rokið var í að setja upp í Öskjuhlíð án grenndarkynningar. Þar var tæpum 2 milljónum kastað út um gluggann því það komu mótmæli sem leiddi til þess að rifa þurfti allt niður.

Eitthvað mun þetta kosta meira sem hér er sagt frá í fréttum. Þessi meirihluti í borgarstjórn,  kjarni hans hefur setið of lengi. Hann er bara farinn að gera það sem honum sýnist án þess að spyrja kóng eða prest og þetta er að kosta okkur borgarbúa mikið fé. Ég vil að þessi meirihluti pakki saman og fari frá, hvíli sig bara eins og gott þykir þegar maður hefur verið lengi á sama stað.

Það líður varla sú vika að ekki er kvartað yfir skort á samráði sbr. lokun Kelduskóla. Hver hefur ekki heyrt af óánægju rekstararaðila við Laugaveg og nágrenni. Ekkert samráð þar og svona mætti áfram telja


Áherslan á umhverfisskreytingar frekar en á fólk og þarfir þess

Tillögur Flokks fólksins sem borgarráð hefur synjað snúa flestar að bættari grunnþjónustu við fólkið í borginni, börn, eldri borgara og öryrkja. Meðal tillagna sem hafa verið hafnað er t.d. tillaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frístundaheimili og útrýmingu biðlista barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga

___________________________________________________

Í borgarráði í vikunni var lagt fram yfirlit frá borginni sem sýnir að framlögð mál eru nú 543 talsins, sem er 372% aukning miðað við fjölda mála á sama tímabil á síðasta kjörtímabili. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá þessa miklu aukningu á framlagningu mála á þessu kjörtímabili og sýnir það einfaldlega hve mikið þarf að laga og breyta í borginni. Af nógu er að taka á flestum sviðum borgarinnar. Fólkið sjálft hefur ekki verið í forgangi hjá valdhöfum í mörg ár heldur mætt afgangi.

Að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins var einnig lagt fram yfirlit yfir fjölda mála Flokks fólksins í borginni á þessu rúma ári sem liðið er af kjörtímabilinu. Flokkur fólksins hefur lagt fram eða verið aðili að 145 tillögum fyrir borgarstjórn, borgarráð eða önnur ráð frá síðustu kosningum. Af þessum 145 tillögum hafa aðeins 6 tillögur verið samþykktar. Það eru rétt rúm 4%.

Það er hending og afar sjaldgæft að mál minnihlutans nái fram að ganga og ítrekað er góðum hugmyndum hent í ruslið, sérstaklega ef meirihlutinn óttast að þær geti skyggt á sig sem ráðamenn borgarinnar. Viðbrögð þeirra við höfnun mála eru gjarnan á þá leið að “þetta sé nú þegar í vinnslu.” En síðan er það oft alls ekki reyndin. Það skiptir engu máli hvaða minnihlutaflokk er um að ræða þegar kemur að afgreiðslu mála þeirra, þær fara að megninu til sömu leið, í ruslið.

Tillögur Flokks fólksins sem borgarráð hefur synjað snúa flestar að bættari grunnþjónustu við fólkið í borginni. Meðal tillagna sem hafa verið hafnað er t.d. tillaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frístundaheimili, útrýmingu biðlista barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga, tillaga um íbúakosningu vegna borgarlínu-verkefnisins, tillaga um að borgin bæti upplýsingagjöf til borgarbúa og tillaga um að bæta lýsingu við gangbrautir sem og fjölmargt fleira.

Dæmi eru einnig um að tillögum minnihlutans sé vísað frá eða hafnað en síðar teknar upp og lagðar fram af meirihlutanum og þá samþykktar.

Ef litið er á tillögur sem meirihlutinn leggur sjálfur fram eru þær oft samþykktar með 12 atkvæðum gegn 11 í borgarstjórn. Mér hefur þótt tillögur þessa meirihluta oft ansi rýrar og jafnvel meira til skreytinga. Meirihlutaflokkunum í borgarstjórn þykir gott að berja sér á brjóst. Það er mitt mat, sem oddviti eins af minnihlutaflokkunum að þessi meirihluti sem nú situr í borgarstjórn kýs eftir flokkslínum en ekki málefnum.


Bylting á skólastarfi

Í dag á fundi borgarstjórnar mun ég leggja fram tillögu um að seinka skólabyrjun og hefja skóladaginn kl. 9:00

Tillaga Flokks fólksins að Skóla- og frístundarsvið eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00

 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela SFS (skóla- og frístundarsviði) að eiga samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að kanna hvort fleiri skólar eru tilbúnir til að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00 í stað 8:00. Borgarfulltrúi gerir sér grein fyrir ákveðnum vanda sem gæti skapast hjá einhverjum foreldrum yngri barna sem þurfa sjálfir að mæta í vinnu kl. 8:00.  Hann væri þó hægt að leysa með því að bjóða upp á morgungæslu milli kl. 8:00 og 9:00 fyrir þau börn sem þess þurfa.  Einhverjir skólar hafa nú þegar seinkað skólabyrjun t.d. um 30 mínútur. Sumir skólar hafa einnig breytt lengd kennslustunda frá 40 mínútum yfir í 60 mínútur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við skólastjórnendur um reynslu þeirra á seinkun skólabyrjunar og segja þeir hana góða. Börnin komi hressari í skólann og  séu virkari. Það sé rólegra yfirbragð á nemendum og minna álag á kennurum. Breytingin er  talin hafa verið til  góðs fyrir alla.
Með því að hefja skólastarf kl. 9:00 gefst kennurum tækifæri áður en kennsla hefst til að sinna t.d. undirbúningsvinnu eða foreldrasamskiptum sem þeir ella þyrftu að sinna í lok dags. Seinkun/breyting á upphafi vinnutíma kennara gæti einnig dregið úr umferðarálagi í borginni á háannatíma.

 

Greinargerð

Mikilvægt er að skoða heildarmyndina ef seinka á byrjun skóladags. Hvað varðar börnin þá eiga mörg börn erfitt með að vakna snemma sérstaklega þegar myrkur er úti. Alkunna er að flestum unglingum þykir gott að sofa á morgnana. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að unglingar á Íslandi fara seinna að sofa en unglingar þjóða sem við berum okkur saman við. Þeir unglingar sem fara mjög seint að sofa finnst eðli málsins samkvæmt erfitt að vakna á morgnana. Svefntími barna og sérstaklega unglinga er efni í aðra umræðu og sú umræða þyrfti að snúast um hvernig hægt er að styrkja foreldra í að taka á svefnmálum barna sinna. Það er umræða sem tengist ekki hvað síst snjalltækjanotkun barna og unglinga. Vitað er að snjalltækjanotkun barna að kvöldlagi og fram á nótt er að koma í veg fyrir að þau fari tímalega að sofa. Það er mikilvægt að skólarnir bjóði þeim foreldrum sem telja sig þurfa upp á leiðsögn um snjallsíma/samfélagsmiðlanotkun barna sinna að kvöldlagi.

Ávinningur af seinkun á upphafi skóladags er minni ef barn fer of seint að sofa og fær þar að leiðandi ekki nægjan svefn. Í þeim skólum sem kennsla hefst kl. 8.30 er nokkuð um það að börn komi engu að síður of seint sem gæti verið merki þess að betra er að byrja síðar eða kl. 9:00.
Hvað sem þessu líður er æskilegt að svefn unglinga í tengslum við  byrjun skóladags verði rannsakaður nánar. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif, ef einhver, seinkun upphafs skóladags hefur á lífsstíl barnanna og þar með talið svefnvenjur þeirra.

Það var mat eins skólastjórnanda sem borgarfulltrúi ræddi við sem hefur góða reynslu af seinkun skólabyrjunar að miklu máli skiptir hvernig heimilislíf og almenn rútína fjölskyldunnar er. Svefn er einn stærsti þáttur í lýðheilsu nemenda. Einhver kynni að óttast að ef skólabyrjun er seinkað að þá munu börnin fara seinna að sofa sem því nemur. Í samtali við skólastjórnendur töldu flestir að það yrði ekki raunin. Dæmi, ef barn fer að sofa kl. 2:00  fari það ekki endilega að sofa kl.  3:00 af því að það á að mæta klukkutíma seinna í skólann. Börn eins og fullorðnir hafa ákveðin „norm“ bæði sem börn, unglingar og síðar sem fullorðnir einstaklingar.  Útivistartíminn er enn ein breytan sem áhugavert væri að skoða í tengslum við svefn unglinga.
Niðurstaða samtal við þá sem hafa reynslu af því að hefja skóladaginn seinna er sú að almennt muni það  lengja svefntíma barnanna.

Ef hefja á kennslu kl. 9:00 í stað 8:00 eða 8.30 þarf að finna lausnir á ýmsu öðru. Áður hefur verið talað um að bjóða þarf upp á gæslu milli 8:00 og 9:00. Skoða þarf einnig hvort hægt væri að þjappa skóladagskránni meira saman til þess að nemendur séu ekki búnir seinna að degi til og komist þá seinna á íþróttaæfingar eða í annað tómstundanám.  Einnig þarf að finna leiðir til að stytta vinnutíma kennara að lokinni kennslu.  Mikilvægt er að kanna afstöðu og viðhorf foreldra til seinkunar skólabyrjunar t.d. hvort það myndi henta þeim verr að vita af barninu/unglingum heima eftir að foreldrar eru farnir til vinnu?

Mikilvægt er að heyra raddir kennara og hvernig þeir sjá þennan tíma að morgni til?  Ef hann á ekki að vera vinnutími (t.d. vegna sveigjanleika í starfi og mögulega styttri vinnuviku sem nú er til umræðu),  hvernig eiga þá kennarar að ná að ljúka vinnu sinni fyrir hefðbundinn fjölskyldutíma?

Eins og hér hefur verið rakið er að mörgu að huga í sambandi við að seinka byrjun skóladags. Nú þegar eru fordæmi fyrir að hefja kennslu ýmist kl. 8:30 eða 9:00 með góðum árangri. Sú tillaga sem hér er lögð fram er að skólabyrjun hefjist kl. 9:00. Það er mat flestra þeirra sem starfa í skólum sem hefja kennslu seinna að seinkunin hafi leitt til byltingar á skólastarfinu. Það er því full ástæða til að skóla og frístundarsvið kanni með markvissum hætti hvort fleiri skólar sýna áhuga á að hefja skóladaginn kl. 9:00

 

 


Burt með frauðbakka í mötuneytum borgarinnar

Ég fyrir hönd Flokks fólksins hef látið mig mötuneytismál borgarinnar varða. Þessi tillaga var lögð fram í velferðarráði i vikunni:

TILLAGA FLOKKS FÓLKSINS AÐ HÆTT VERÐI AÐ NOTA FRAUÐÍLÁT Í MÖTUNEYTUM ELDRI BORGARA

Tillaga Flokks fólksins að hætt verði að nota frauðbakka/frauðílát í mötuneytum eldri borgara. Komi þeir ekki með sín eigin ílát þá sé notað pappaílát. Flokkur fólksins hefur áður lagt fram tillögu er varðar plastílát í mötuneytum. Eldri borgarar vilja eins og aðrir í samfélaginu leggja sitt af mörkum til að draga úr plastmengun. Það er því erfitt fyrir þá að þurfa að taka við mat í frauðílátum.Borgarmeirihlutinn og velferðarráð þurfa að fara að taka til hendinni í þessum málum, það er ekki bara nóg að leggja fram einhverjar stefnur um að minnka plast heldur þarf að sýna vilja í verki og leita allra leiða til að aðrar umbúðir en plast eru notaðar í stofnunum á vegum borgarinnar. Það er því einkennilegt að eldri borgurum er skammtaður matur í frauðílát í mötuneyti á vegum borgarinnar.
frauðbakkar
Samþykkt að vísa til umhverfis- og skipulagssviðs í stýrihóp um plaststefnu.

Hvers á Úlfarsárdalur að gjalda?

Úlfarsárdalur er tiltölulega nýtt hverfi. Fjöldi ábendinga hafa borist vegna safnhauga byggingarefnis þar og skort á götumerkingum til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur brugðist við þessu og lagt fram fyrirspurnir um eftirlit með umhirðu og tillögu um borgarmeirihlutinn geri átak í að betrumbæta merkingar til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á gönguþverunum og gangbrautum í Úlfarsárdal.

Víða í Úlfarsárdal eru gangbrautir ekki merktar eins og á að gera (sebrabrautir). Einnig vantar aðrar merkingar svo sem gangbrautarmerki sem nota skal við gagnbraut og vera beggja megin akbrautar.  Ef eyja er á akbraut á merkið einnig vera þar. Það vantar einnig víða viðvörunarmerki sem á að vera áður en komið er að gangbraut. Gangbrautarmerkið ætti ekki að vera lengra en 0,5 m frá gangbraut.

Þetta er sérkennilegt því meirihlutinn í borginni hefur svo oft talað um að réttindi gangandi og hjólandi í umferðinni skuli koma fyrst. Allar gangbrautir eiga að vera merktar eins og eins og lög og reglugerðir kveða á um. Segir í þeim að „gangbrautir verði merktar með sebrabrautum og skiltum til að auka umferðaröryggi. Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut (sebrabrautir)“.

Tillögunni var vísað til skipulags- og samgönguráðs

Haugar af tæki, tólum og öðru byggingardrasli

Ábendingar hafa borist um mikla óhirðu í kringum byggingarsvæði í Úlfarsárdal. Um þessi mál lagði Flokkur fólksins fyrirspurn þess efnis hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar.

Í stöðluðum útboðsákvæðum borgarinnar segir að verktaki skuli ávallt sjá um að allir efnisafgangar séu fjarlægðir jafnóðum. Verktaki skal sjá svo um að umhirða á vinnustað, vinnuskúrum og á lóðum sé ávallt góð og skal verktaki fara eftir fyrirmælum eftirlitsmanns þar að lútandi. Verktaki skal enn fremur gæta ýtrustu varúðar og öryggis við framkvæmd verksins.

Á þessu er heldur betur misbrestur í Úlfarsárdal. Þar er umhirðu verulega ábótavant og líkur á að slysahætta skapist. Sums staðar ægir öllu saman, tæki, tólum og drasli. Sjá má moldar- og vatnspytti á byggingastöðum, hauga af byggingarefni og annarri óreiðu jafnvel á götum sem tengjast ekki byggingarsvæðinu sjálfu. Sagt er að lóðarhafar til margra ára safna byggingaefni á lóðir án þess að hefja framkvæmdir. Sumum finnst þetta ekki vinnustaðir heldur safnhaugar. R19090303

Fyrirspurnum var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs.

 


Fátt um svör því lítið er enn vitað

Það er eitt sem er alvega víst í sambandi við borgarlínu og það er að bíleigendur verða skattlagðir enn frekar með svokölluðum flýti- eða tafagjöldum. Í Samkomulagi ríkis og 6 sveitarfélaga um borgarlínu eru flýti- og umferðargjöld nefnd oft á blaðsíðu.
 
 
Sífellt er verið að sýna tölvuteiknaðar myndir af glæsileika borgarlínu, breiðar götur, engir bílar.. allt eitthvað sem á að heilla fólk og sannfæra það um að borgarlína leysi allan vanda. Nú er borgarstjóri í Kastljósinu og mun fegra þetta enn frekar.
 
Í borgarráði fyrr árinu óskaði ég eftir að fá svör við eftirfarandi spurningum:
1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin?
2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan?
4. Hvað þarf marga vagna í hana?
5. Á hvaða orku verður hún keyrð?
6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir?
7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu?
8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna?
9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?
 
 

Frístundakortið hirt upp í skuld

Til þess að gera öllum börnum kleift að stunda tómstundastarf gefur Reykjavíkurborg út frístundakort. Þessi kort má nota til að niðurgreiða kostnað vegna tómstundastarfs og er 50.000 krónur. Þannig er frístundakortinu ætlað að tryggja börnum efnaminni fjölskyldna aðgang að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Upphæðin er reyndar of lág til að dekka að fullu námskeið allt að 10 vikum en sú tímalengd er eitt af skilyrðum fyrir notkun kortsins.  Foreldrar greiða mismuninn þ.e. þeir foreldrar sem það geta. Börn foreldra sem ekki geta greitt mismuninn geta ekki sótt svo dýr og löng námskeið.

Hugsunin með frístundarkortinu var engu að síðu sú að jafna stöðu barna og gefa þeim tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð efnahag foreldra.

Í framkvæmd er þó raunin önnur. Árið 2009 var tillaga VG  samþykkt að unnt yrði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakorti jafnvel þótt það samræmdist ekki tilgangi kortsins.  Reykjavík veitir fátækum foreldrum fjárhagsaðstoð til þess að greiða niður ýmsan kostnað skv. reglum um fjárhagsaðstoð.  Til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð setur borgin það sem skilyrði að réttur til frístundarkortsins sé fyrst nýttur til að greiða gjaldið eða skuldina ef því er að skipta.  Þar með er tekið af barninu tækifærið að nota kortið í tómstundastarf. Þessi tilhögun bitnar mest á efnaminni fjölskyldum sem eiga í erfiðleikum með að greiða fyrir dvöl barns síns á frístundaheimili og eru því tilneydd að grípa til frístundarkortsins í þeim tilgangi.

Það á ekki að girða fyrir tómstundaiðkun barna af fjárhagslegum ástæðum. Flokkur fólksins leggur til að fjárhagsaðstoð verði veitt óháð því hvort frístundakort barns er nýtt og að kortið sé einungis nýtt í þeim tilgangi sem því var ætlað. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð og fjölbreytni í tómstundastarfi. Að spyrða rétt barns til frístundarkorts við umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól eða nota það sem gjaldmiðil upp í greiðslu vegna nauðsynlegrar dvalar barns á frístundaheimili er brot á rétti barnsins.

 

 


Langaði að blóta hressilega

Ég er oftast róleg og yfirveguð. En þegar ég hafði setið föst í hálftíma frá Nordica Hilton hóteli að Glæsibæ á Suðurlandsbraut eftir heilan dag á Fjármálaráðstefnu Samband Íslenskra sveitarfélaga var ég orðin foxill og hugsaði borgarstjóra og hans fólki í núverandi og síðasta meirihluta þegjandi þörfina. Í alvöru, þarf þetta að vera svona? Nei. Það hafa verið bornar á borð ýmsar lausnir en ekkert slær í gegn. Bara sagt BORGARLÍNA!! HÚN REDDAR ÞESSU ÖLLU!!
Trúir því einhver? Segi bara aftur eins á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn á sama tíma og ég flissaði og var skömmuð í kjölfarið "Í alvöru?"

bílaumferð


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband