Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
Bjöllur á kisur svo sem flestir ungar komast á legg
25.3.2021 | 13:56
Fulltrúi Flokks fólksins lagði það til á fundi borgarráðs í apríl að borgarráð beini því til umhverfis- og heilbrigðisráðs ásamt Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) að send verði út tilmæli til kattaeigenda að þeir setji bjöllur a.m.k tvær á ketti sína við upphaf varptíma fugla í maí. Fulltrúi Flokks fólksins er mikill kattavinur en einnig mikill fuglavinur. Kattahald er útbreitt í borginni og þeir kettir þurfa ekki að veiða sér til matar. Kettir ganga flestir lausir og fara sínar ferðir. Kettir er mikilvæg gæludýr í borgum, en kettir höggva stór skörð í stofna smáfugla með ungaveiðum. Flestum finnst mikilvægt að standa vörð um fuglalíf enda lífgar fuglalíf upp á umhverfið í borginni. Spörfuglar gera garðræktendum gagn með því að halda meindýrum á trjám í skefjum. Ábyrgir kattaeigendur draga mikið úr veiðiárangri katta með því að setja bjöllur eða/og litsterk hálsskraut á ketti sína. Tvær til þrjár bjöllur í háls-ól katta sem klingja við samslátt valda því að köttur á erfitt með að koma bráð á óvart. Ein bjalla hefur takmarkað gildi. Fulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja sitt að mörkum til að fleiri fuglsungar í Reykjavík komist á legg og umhverfisgæði batni.
Samþykkt
18.3.2021 | 18:36
Stóru tíðindi vikunnar úr borginni eru að þessi tillaga Flokks fólksins var samþykkt á fundi Velferðarráðs í gær. Hipp hipp húrra!
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum.
Þetta er lagt til í ljósi þess að einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um.
Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið
Bókanir með afgreiðslunni:
Bókun fulltrúa Flokks fólksins
Tillaga Flokks fólksins um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt. Það er ánægjulegt enda dæmi um að ekki allir vita að það er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Fram kom hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ein af ástæðum þess að ekki fleiri sæki um er að fólk vissi hugsanlega ekki af þessum möguleika.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans taka undir þessa tillögu. Það er mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá þjónustu og þau úrræði sem eru í boði, annars nýtast þau ekki þeim sem þeim er ætlað að hjálpa. Þessi tillaga er samþykkt og vísað til velferðarsviðs til útfærslu.
Ekki minnst á einelti í drögum að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi
18.3.2021 | 13:41
Börn sem bíða, börn sem líða
16.3.2021 | 08:12
Nú bíða 957 börn eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík, 360 stúlkur og 597 drengir. Að baki hverju barni er tilvísun undirrituð af kennara/skóla og foreldrum. Flest bíða eftir að komast til skólasálfræðings. Ég hugsa daglega til þessara barna, hvernig þeim líður, og vona innilega að á meðan þau bíða eftir þjónustunni verði þeirra vandi ekki þeim ofviða. Vissulega er reynt að forgangsraða málum. Í svari frá Velferðarsviði kemur fram að reynt sé að taka bráðamál fram fyrir og mál sem þoli bið séu látin bíða. Flest mál hafna í hinum svokallaða 3. flokki en það er flokkur mála sem þolir bið samkvæmt flokkunarmati skólaþjónustu.
Bráðamál og málin sem sögð eru þola bið
Enginn getur með fullu vitað hvað er að gerast hjá barninu á meðan það bíður eftir þjónustu. Vel kann að vera að á meðan á biðinni stendur vaxi vandinn og getur á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum. Dæmi um bráðamál eru börn sem viðhafa sjálfsskaða, eru jafnvel komin með sjálfsvígshugsanir eða byrjuð í neyslu. Fullvíst er að þegar svo er komið hefur vandinn átt sér aðdraganda. Mál barns verður ekki bráðamál á einni nóttu heldur hefur líklega verið að krauma mánuðum saman.
Börn eiga ekki að þurfa bíða eftir þjónustu af þessu tagi nema í mesta lagi 3-4 vikur. Með margra mánaða bið er verið að taka áhættu. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu fyrir barn sitt hjá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Fréttablaðinu 16. mars 2021
Hver á að gæta varðanna?
14.3.2021 | 14:10
Borið í bakkafullan lækinn
12.3.2021 | 11:45
Atvinnumál eldri borgara í Reykjavík var til umræðu í borgarstjórn í kvöld að beiðni fulltrúa Flokks fólksins. Ég er eiginlega í nettu sjokki, bara miður mín því enginn úr meirihlutanum sýndi þessu málefni áhuga. Enginn þeirra óskaði eftir að taka til máls og tjá sig. Mér finnst anda ansi köldu frá meirihlutanum í garð þessa aldurshóps.
Hér er bókun í málinu:
Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að "endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris." Einnig segir að ákvörðun um ráðninguna skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns viðkomandi stofnunar. Þetta minnir á bænaskjal eins og Íslendingar sendu til einvaldskonungana í Kaupmannahöfn fyrr á öldum. Eftir að hafa farið á milli manna í embættiskerfinu lendir ákvörðum hjá borgarstjóra. Borgin hlýtur að geta gert betur en þetta í stað þess að stefna að því leynt og ljóst að losa sig við fólk úr störfum aðeins vegna þess að það hefur náð ákveðnum aldri. En orð eru til alls fyrst en í þetta sinn kom ekki eitt orð frá meirihlutanum, bara ísköld þögnin.