Kvíði barna, sjálfsskaði, skólaforðun og sjálfsvígsgælur. Hver ber ábyrgðina?

Vanlíðan barna sem tengist skólanum beint er á ábyrgð borgarmeirihlutans. Skóli án aðgreiningar er fyrirkomulag sem ekki hefur gengi upp því uppbygging var í skötulíki og það sem fylgja þurfti með til að fyrirkomulagið virkaði, fylgdi aldrei með.
  
Börn með sérþarfir hafa ekki fengið þann stuðning sem þau þurfa til að geta notið sín í almennum bekk þar sem fjárveitingar skortir til að sinna þeim og mæta þörfum þeirra. Skólinn fær kannski fjármagn til að greiða stuðningsaðila laun en oft nær það ekki mikið lengra. Vandinn hefur verið sá að borgin hefur ekki metið alla kostnaðarliði í skólastarfinu þegar fjárhagsáætlun er gerð. 

Vaxandi vandi barna er því ekki kennurum eða skólastjórnendum að kenna heldur þeim þrönga stakki sem þeim er ætlað að vinna eftir. Málaflokkurinn hefur verið sveltur.

Flokkur fólksins vill tryggja að námsþörfum allra barna verði mætt. Skóli án aðgreiningar er ekki að virka fyrir öll börn. Við verðum að fara að horfast í augu við þennan vanda. Stækkandi hópur barna glímir við kvíða, viðhefur sjálfsskaða, eru með sjálfsvígsgælur og sumum líður svo illa að þau gera tilraunir til sjálfsvígs.

Við í Flokki fólksins líðum ekki slík mannréttindabrot. Mæta skal þörfum allra barna á þeirra forsendum og ekkert barn skal þurfa að líða illa fimm daga vikunnar, dagana sem skóli er. Kvíði sem er beintengdur við að mæta í skólann til náms, námsefnis og félagslegrar samveru sem passar þér ekki og þar sem þú ert ekki meðal jafningja mun fljótlega brjóta þig.

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins 

FÓLKIÐ FYRST!

Þessi þáttur með Ingu Sæland á Útvarpi Sögu var magnaður! Hver stofnar stjórnmálaflokk eins og enginn sé morgundagurinn og er komin með fjóra þingmenn á einni örskot stundu inn á þing nema Inga Sæland?
 
FÓLKIÐ FYRST er okkar kjörorð. Við ætlum ekki að linna látum fyrr en ALLIR í borginni hafa eignast öruggt skjól: heimili, fæði og klæði. Við erum að tala um 1000 barnafjölskyldur sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði, 150 eldri borgara og 500 öryrkja sem nú eiga í engin hús að venda sem þau geta kallað heimili sitt.
 
Barnafjölskyldur sem hér um ræðir búa ýmist hjá vinum eða ættingjum eða í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði eða hafa hrökklast úr borginni. Hundrað eldri borgarar eru geymdir á Landspítala. Dæmi eru um að eldri borgarar hafa verið fluttir út á land gegn vilja sínum þar sem þei þekkja engan, aðskildir frá fjölskyldu og mökum sínum. Aðrir tugir bíða í heimahúsi og er biðin allt að tvö ár fyrir suma.

Allt þetta fólk er á BIÐ, það bíður og bíður og biðlistar hafa ekki haggast í fjögur ár. Ef eitthvað er, þá fjölgar á biðlistum og sama má segja um dagvistun aldraðra og heimaþjónustu. Þetta er vegna þessa að borgin hefur viðhaft lóðarskortsstefnu í mörg ár og lagt áherslu á að byggja hótel og íbúðir fyrir ofurlaunafólk.
 
Við viljum kynna fyrir ykkur hagsmunafulltrúa fyrir aldraða sem ætlað er að kortleggja stöðu eldri borgara í borginni og halda utan um aðhlynningu og aðbúnað þeirra.
 
Við viljum ræða um heimagreiðslur fyrir foreldra til að vera með barni sínu heima til allt að tveggja ára til að brúa bilið frá fæðingarorlofi til leikskóla. Þetta er einungis val.
 
Skólamálin eru annað stórt verkefni. Vaxandi kvíði og andleg vanlíðan hjá börnunum okkar hlýtur að vekja hjá okkur ugg og kallar á grundvallarskoðun og breytingar á núverandi skólafyrirkomulagi sem er Skóli án aðgreiningar. Skóli án aðgreiningar er ekki að virka fyrir öll börn. 
 
 
 
 

Við tökum ekki þátt í þessum blekkingarleik

Foreldrar þekkja börnin sín best. Þau vita hvers þau þarfnast. Breyta þarf inntökuskilyrðum í sérskóla strax svo allir þeir sem þess þurfa og óska hafi aðgang að þeim. 

Flokkur fólksins vill fjölga sérúrræðum skóla þannig að sérhvert barn fái úrræði við hæfi. Öll börn sem greinast með þroskahömlun eiga að hafa aðgang að sérúrræðum og sérskólum ekki bara sum. 

Skóli án aðgreiningar virkar ekki fyrir öll börn. Það hefði þurft miklu meira fjármagn inn í skólana til að styðja við kennara. Það hefði þurft að ráða í alla skóla þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og annað aðstoðarfólk til að styðja við nemendur og kennara sem þurfa mikið aðlagað námsframboð og kennslu. Sem dæmi þjóna 5 sálfræðingar 17 leik- og grunnskólum í Breiðholti. Útilokað er fyrir þessa sálfræðinga að mæta þörfum barna 17 skóla sem þurfa á sálfræðiþjónustu eða sálfræðiathugunum að halda.

Flokkur fólksins veit að ekki er hægt að setja alla undir sama hattinn. Hugsunin um Skóla án aðgreiningar er falleg en þjónar ekki hagsmunum allra barna. Í mörgum tilfellum hefur einfaldlega ekki tekist að aðlaga nemendur með þroskahömlun að jafnöldrunum eða jafnaldrana að þeim. Einnig hefur ekki alltaf tekist að breyta skólahúsnæði þannig að fullnægjandi sé fyrir þroskahamlaða.


Ef þroskinn er langt frá jafnöldrunum breikkar alltaf bilið þannig að stundum gengur þetta upp á yngsta stiginu (1.-4.bekk) en fer svo að verða erfiðara þegar nemendur verða eldri og þeir þá í mikilli hættu með að einangrast.

Klettaskóli er sérskóli og þeim börnum sem þar stunda nám líður vel. Þeir eru námslega sterkir meðal jafninga og blómstra. Í dag eru inntökuskilyrðin mjög ströng. Nemendur þurfa að hafa mikla fötlun til að fá inngöngu þangað. 

Við í Flokki fólksins líðum ekki að nokkru barni líði illa í skólanum vegna þess að það upplifir sig síðra, finnur að það ræður ekki við verkefnin og á erfitt með að mynda félagsleg tengsl.

Barn sem fær ekki að stunda nám á sínum forsendum brotnar saman. Við gerum þá kröfu að ávallt skuli hugsa fyrst og fremst um félagslegan þátt nemenda þegar velja á þeim skólaúrræði.

Flokkur fólksins vill ekki taka þátt í þeim blekkingarleik að sannfæra fólk um að Skóli án aðgreiningar sé skóli fyrir öll börn. 


Einu barni sem líður illa í skólanum er einu barni of mikið!

Allt of oft berast fréttir af slæmri líðan og gengi barna í grunnskólum landsins og að árangur íslenskra nemenda sé áberandi verri en nemenda á hinum Norðurlöndunum. Sumum nemendum líður svo illa í grunnskólanum að þeir geta ekki beðið eftir að útskrifast. Þau kvarta yfir of miklum hávaða í bekknum og eiga erfitt með að einbeita sér. Mörg segjast ekki skilja námsefni eða ná ekki fyrirmælum. Sumum er strítt, þau lögð í einelti og margir krakkar segjast ekki eiga neina vini. Í þessu samhengi má spyrja, er skólinn í núverandi mynd að virka?

Í lögum um grunnskóla og í aðalnámsskrá er skýrt tekið fram að nemendur eigi rétt á að fá námsþarfir sínar uppfylltar í almennum skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegrar eða andlegrar getu (lög um grunnskóla nr. 91/2008).

Flokkur fólksins telur að ekki allir nemendur séu að fá námsþarfir sínar uppfylltar án tillits til færni og getu. Í því sambandi má nefna börn sem hneigjast til verklegs náms. Val í verknámi er takmarkað og því lítið svigrúm til að rækta fjölbreyttari færni á því sviði. Þau börn sem finna sig ekki í núverandi fyrirkomulagi eiga á hættu að brotna niður því þau upplifa sig ýmist vera ómöguleg eða týnd. 

Vanlíðan barna er ekki kennurum að kenna heldur mikið frekar sá þröngi stakkur sem þeim er gert að vinna samkvæmt. Flokkur fólksins vill að hlustað sé betur á foreldra og fólkið á gólfinu. Leggja þarf allt kapp á að að skólar fái frelsi til að þróa fjölbreytni í námsvali, ólíkar leiðir í gegnum námið og fjölbreyttar námsaðstæður. Börn eiga að geta farið á sínum hraða í gegnum námið og hafa meira val þegar kemur að verklegum og skapandi þáttum.

Það sem er öllum börnum sameiginlegt er að þau þarfnast umhyggju, hlýju og hvatningar. Þau þarfnast samveru, öryggis og vináttu. Sérhver einstaklingur þarf að fá að vera hann sjálfur í hópi jafningja.

Endurskoða þarf núverandi kerfi skóla án aðgreiningar. Ekki dugar að vera sammála um stóru drættina þegar ljóst er að okkur er að mistakast. Flokkur fólksins hefur hagsmuni barnsins ávallt í fyrirrúmi. 
Kjörorð okkar er Fólkið fyrst!

Höfundur skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík


Það er ekki ofsögum sagt að það er neyðarástand í húsnæðismálum í Reykjavík

Um 150 eldri borgarar bíða nú eftir dvalar- og hjúkrunarrými. Nokkrir hafa beðið í 2 ár. Biðlisti eftir heimaþjónustu frá heimili til hjúkrunarheimilis er líka langur. Það er einnig bið í dagvistun. Segja má að hvert sem litið er í kerfi borgarinnar hvað varðar húsnæði og dvalarrými eru langir biðlistar.


Um 500 manns eru á biðlista hjá Brynju hússjóði og langur biðlisti er hjá Félagsbústöðum. Hér er aðeins verið að tala um eldri borgara og öryrkja. Tvöfaldur þessi hópur og gott betur af barnafjölskyldum og einstaklingum bíður eftir félagslegu húsnæði.

Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðum verði veitt heimild með lögum til að stofna óhagnaðardrifin leigufélög sem leigja íbúðir á verði sem samræmist greiðslugetu fólks. Fleiri  eru færir til að fjármagna húsnæðisuppbyggingu sem þarf að eiga sér stað hratt og markvisst. Í þessu sambandi má nefna verkalýðsfélögin og Íbúðalánasjóð. 

Húsnæðismarkaðurinn verður að fara að komast í eðlilegt horf. Hlutverk borgarinnar er að veita lóðir, sjá til þess að skipulagið sé í lagi og greiða götur verktaka.  Í þessu ferli mega engar tafir verða því verkefnið er risastórt og vinnst ekki á einu bretti.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík


Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað

„Við mamma búum í einu litlu herbergi. Mamma og pabbi misstu allt í Hruninu. Við áttum fyrirtæki. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hlakka mest til að fá íbúð þar sem ég get farið í sturtu. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað. Ég veit það þýðir ekki að kvarta. Það er bara engin peningur til. Ef ég eignaðist pening myndi ég kaupa mér föndurdót. Mér finnst allt í lagi að vera í gömlum fötum úr Rauða Kross búðunum á meðan mér er ekki strítt.“

 

Einstætt foreldri með 300.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur sem leigir íbúð á 200.000 kr. líður skort á öllum öðrum sviðum. Fjölskyldan á oft ekki fyrir mat. Að koma húsnæðismálum í eðlilegt horf er forgangsmál hjá Flokki fólksins. Við viljum ganga til samstarfs við ríkið og  lífeyrissjóðina og byggja íbúðir víða um borgina. Þetta þarf að gerast hratt. Því fyrr sem framboð eykst því fyrr kemst húsnæðismarkaðurinn í eðlilegt horf. Byggja þarf hagkvæmt en vandað húsnæði og tryggja að það sem er byggt sé á færi efnaminni fólks, eldri borgara og öryrkja að leigja eða kaupa.

Það ófremdarástand sem ríkt hefur í húsnæðismálum hefur komið illilega niður á börnunum. Fjárhagslega aðþrengdir foreldrar þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Þeir þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða ef endar ná ekki saman. Að borga himinháa leigu verður að vera efst á forgangslistanum.  Næst kemur matur á borðið. Annað, skemmtun, afþreying, er einfaldlega ekki í boði.

Ég hef á ferli mínum sem sálfræðingur talað við tugi barna sem líða vegna fátæktar foreldra sinna. Þau finna áþreifanlega fyrir því að sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá ekki sömu tækifæri og þau, ekki sömu upplifun og reynslu af ýmsu sem kostar peninga.  Sjálfsmat þeirra er oft neikvætt og baráttan fyrir að vera samþykktur meðal jafningja er hörð. Vanmáttur og minnimáttarkennd þjaka mörg þessara barna. Í þessum tilfellum er það algengt að fjölskyldurnar hafi flutt oft og börnin hafa gengið í fjóra jafnvel fimm grunnskóla. 

Drengur:

 „Ég er oft leiður því ég get sjaldnast fengið það sama og vinir mínir. Ekki til peningur segir mamma þegar ég spyr hana hvort ég geti t.d. fengið tölvuleik. Kannski í afmælis eða jólagjöf segir pabbi. Það þýðir lítið að tala um þetta. Verst þykir mér að geta ekki boðið vinum mínum heim. Ég vil ekki að þeir sjái hvað er þröngt hjá okkur. Svo ef einhver vinur minn yrði svangur þá er oft ekki mikið til í ísskápnum.“

Liður í að útrýma fátækt er að koma húsnæðismálunum í fullnægjandi horf svo lunginn af tekjum láglaunafólks fari ekki í leigu. Það verður að ganga rösklega til verks í að bæta húsnæðisöryggi efnalítilla fjölskyldna, öryrkja, eldri borgara, einstaklinga og ungs fólks. Flokkur fólksins vill stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjanda.
Krafan er skýr og hún er að allir geti haft öruggt húsnæði.

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík.

 

 


Dylgjur og bull

 

Hér er upptaka frá fundinum með ÖBI. Í panel var Flokkur Folksins sakaður af fulltrúa núverandi meirihluta um dylgjur þegar nefndar voru tölur þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði og bull þegar verið var að ræða um biðlista barna eftir sérfræðiþjónustu skólanna. 

https://www.facebook.com/NPA.midstodin/videos/10160814486930497/ 


Skóli án aðgreiningar er ekki að virka fyrir alla

Skóli án aðgreiningar er það skólakerfi sem boðið hefur verið upp á síðustu áratugi. Fyrirkomulagið hefur ekki gengið upp. Til þess að svo hefði mátt vera hefði þurft mun meira fjármagn inn í skólana en veitt hefur verið síðustu árin. Nauðsynlegt hefði verið að hafa fleiri þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og annað aðstoðarfólk til að styðja við kennara og þá nemendur sem þarfnast sérúrræða og kennslu aðlagaða að sínum þörfum.

Flokkur fólksins vill mæta námsþörfum allra barna án tillits til færni þeirra og getu. Við viljum að fjölbreyttum skólaúrræðum verði fjölgað til að hægt sé að sinna nemendum sem þarfnast sérúrræða þegar almennur hverfisskóli hentar ekki.

Að sinna börnum er grunnstefið í stefnu Flokks fólksins. Sem oddviti og sálfræðingur á heilsugæslu og í skóla til fjölda ára er það mat mitt að þegar kemur að skólaúrræðum og þjónustu við skólabörn hafi borgarmeirihlutinn stigið allt of fast á bremsurnar.

Flokkur fólksins getur ekki liðið að sparað sé þegar börn eru annars vegar. Við vitum öll að innstreymi í borgarsjóð er á annað hundrað milljarðar. Við höfum því vel efni á að sinna börnunum okkar með fullnægjandi hætti.


Borgarskömm hvernig farið er með aldraða

Það eru tugir eldri borgara sem bíða eftir að komast á hjúkrunar- og dvalarheimili. Um 100 eldri borgarar bíða á Landspítala háskólasjúkrahúsi og er biðin þar stundum upp undir ár. Fólk í heimahúsum bíður enn lengur. Í hverjum mánuði eru endurnýjuð nokkur færni- og heilsumöt því þau gilda aðeins í ár. 

Þetta er dapurt svo ekki sé meira sagt, að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi ekki leyst þennan vanda á þeim árum sem hann hafði tækifæri til. Þetta eru afleiðingar lóðakortsstefnu sem ríkt hefur hjá núverandi borgarstjórn.

Það gengur svo langt í hrókeringum með líf aldraðra sem þarfnast heimilis hér í Reykjavík að þeir eru fluttir hreppaflutningum í aðra landshluta vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þá hér í Reykjavík þar sem þeir eiga þó heima. Aldraðir eru jafnvel fluttir burt gegn vilja sínum, í burtu frá fjölskyldu sinni og öllu félagslegu öryggi sem þeir hafa byggt upp í Reykjavík, borginni þeirra. Hjón eru aðskilin, slitin frá hvort öðru og geta ekki notið ævikvöldsins saman. Hvernig er komið fyrir okkur þegar stjórnvöld fara svona með foreldra okkar, afa, ömmur og langafa- og ömmur?

Flokkur fólksins vill taka á þessum málum af festu og öryggi. Burt með lóðaskortsstefnu núverandi borgarmeirihlutans. Við viljum ganga til samvinnu við lífeyrissjóðina, þar sem peningar fólksins liggja og byggja hjúkrunar- og dvalarheimili. Málið þolir enga bið.

Flokkur fólksins vill einnig að ráðinn verði hagsmunafulltrúi aldraðra sem kortleggur málefni eldri borgara og heldur utan um aðhlynningu og aðbúnað þeirra. Hann á að sjá til þess að húsnæði, heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónusta sé fullnægjandi og koma í veg fyrir félagslega einangrun aldraðra með öllum ráðum.


Dauðsjá eftir að hafa tilkynnt eineltismál á vinnustöðum borgarinnar

Fólk sem verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun er margt hvert duglegt að tilkynna málið enda sífellt verið að hvetja það til þess. En í allt of mörgum tilfellum dauðsér fólk eftir að hafa einmitt gert það. Ástæðan er sú að vinnslan sem við tekur er hvorki fagleg né réttlát. Þá er ekki verið að tala um hvort niðurstaða málanna hafi orðið tilkynnanda í vil eða ekki. Á því er vissulega allur gangur.

Kvörtunarmál sem hér um ræðir hafa ýmist verið unnin á vinnustaðnum sjálfum eða hjá sjálfstætt starfandi aðilum sem keyptir hafa verið til verksins. Kjósi Reykjavíkurborg að leita til sjálfstætt starfandi fagaðila til að rannsaka og meta eineltiskvörtun þýðir það ekki að borgaryfirvöld séu ekki lengur ábyrgðaraðili á að unnið sé í málinu með faglegum og réttlátum hætti. Ábyrgðin er ávallt borgarinnar sé um borgarstofnun að ræða.

Greinin er hér í heild sinni


Þakklát fyrir SÁÁ. Skömm að því að borgin skuli ekki styrkja starfið meira en raun ber vitni

Það var okkur Karli Berndsen sem skipar 2. sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík mikill heiður að vera boðin á fund heiðursmanna SÁÁ í hádeginu.
Ég gat sagt þeim frá reynslu minni sem barn og stjúpbarn alkóhólista sem og starfsreynslu minni á Fangelsismálastofnun, í skóla- og í barnaverndarkerfinu.
Við kynntum stefnumál Flokks fólksins og Karl toppaði þetta svo með að ræða um sitt fólk og hvar borgaryfirvöld hefðu brugðist t.d. í aðgengismálum. Á myndinni með okkur er Valgerður læknir hjá SÁÁ.
Það er skömm að því að borgin skuli ekki styðja betur við bakið á SÁÁ sem bjargað hefur lífi þúsunda. Held þeir fá skítnar 19 milljónir á ári ef ég heyrði rétt..

saasaa2

Fékk mitt veganesti frá þremur konum, allar einstæðar mæður sem börðust fyrir sínu lifibrauði

Ég fékk mitt veganesti frá þremur konum, mömmu, Áslaugu Sigurðardóttur, móðurömmu, Maríu Ásmundsdóttur og föðurömmu Ólafíu Sigríði Þorsteinsdóttur. Allar voru þær einstæðar mæður sem þurftu að berjast fyrir sínu lifibrauði. Þessum konum á ég mikið að þakka. Pabbi, Baldur Gíslason gerði það sem hann gat fyrir mig en hann glímdi við alkóhólisma. Móðurafa mínum Sr. Sigurði Einarssyni náði ég að kynnast ári áður en hann lést. Þau kynni voru góð og sannarlega eftirminnileg. Föðurafa, Gísla Bjarnasyni frá Steinnesi kynntist ég aldrei. Hann dó ungur.

kolla með mömmuFormóðir og forfaðir - CopyAfi SpabbiGísli Bjarnason frá Steinnesi


10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í Reykjavík

Þetta eru 10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum:


1. Kolbrún Baldursdóttir | Sálfræðingur
2. Karl Berndsen | Hárgreiðslumeistari
3. Ásgerður Jóna Flosadóttir | Viðskiptafræðingur og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands
4. Þór Elís Pálsson | Kvikmyndaleikstjóri
5. Halldóra Gestsdóttir | Hönnuður
6. Rúnar Sigurjónsson | Vélvirki
7. Hjördís Björg Kristinsdóttir | Sjúkraliði
8. Þráinn Óskarsson | Framhaldsskólakennari
9. Friðrik Ólafsson | Verkfræðingur
10.Birgir Jóhann Birgisson | Tónlistarmaður


Einangraðir og vannærðir eldri borgarar

Rúmliggjandi aldraður einstæðingur með eina maltdós og lýsisflösku í ísskápnum var einn þeirra þrettán í sjálfstæðri búsetu sem Berglind Soffía Blöndal rannsakaði í meistararitgerð sinni. Hún heimsótti þessa þrettán og voru þeir allir vannærðir samkvæmt evrópskum stöðlum. M.ö.ö hluti aldraðra í Reykjavík sveltur eitt heima.

Flokkur fólksins býður nú fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í vor. Flokkur fólksins vill að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða til að tryggja að enginn lifi við þær aðstæður sem lýst er hér að framan. Hlutverk hagsmunafulltrúans verði að byggja upp öflugt og heildstætt kerfi sem heldur utan um aðhlynningu og allan aðbúnað aldraðra. Hagsmunafulltrúinn skal sjá til þess að húsnæði, heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Hann skal tryggja að unnið sé samkvæmt viðurkenndum manneldismarkmiðum og hollustu í fæðuvali á hjúkrunarheimilum, þjónustumiðstöðvum og heimsendum máltíðum.  Hlutverk hans skal og vera að að koma í veg fyrir að aldraðir einangrist einir heima matarlausir og hjálparvana.

Slagorð Flokks fólksins er FÓLKIÐ FYRST. Þess vegna mun Flokkur fólksins í öllu tilliti setja fólkið í fyrsta sæti.  Annað skal bíða á meðan við tryggjum fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.

Eins og staðan er nú, dvelja um 100 eldri borgarar á Landspítala háskólasjúkrahúsi þrátt fyrir að vera í þeirri aðstöðu að geta útskrifast og farið heim. Þetta er dapurt svo ekki sé meira sagt, að nú skuli Dagur B.Eggertsson og borgarstjórn hans hafa setið með stjórnartaumana í  Ráðhúsinu í átta ár án þess að leysa vandann.  Það gengur það langt í hrókeringum með líf aldraðra sem þarfnast hjálpar að fyrir kemur að þeir séu fluttir hreppaflutningum í aðra landshluta vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þá þar sem þeir vilja vera.  Fluttir burt jafnvel gegn vilja sínum, í burtu frá fjölskyldu sinni og öllu félagslegu öryggi. 

Það þarf stórátak í málefnum aldraðra, átak sem  krefst samstarfs ríkis og bæjar.  Skortur á hjúkrunar- og dvalarheimilum er þó fyrst og fremst á ábyrgð núverandi borgarstjórnar sem hefur vanrækt málefni aldraðra árum saman. 

Flokkur fólksins vill gera eldri borgurum kleift að lifa góðu og áhyggjulausu lífi hvort heldur er í heimahúsi eða á hjúkrunarheimili. Þjónusta fyrir aldraða þarf að vera samstillt og samþætt til að hægt sé að koma til móts við óskir og þarfir hvers og eins.  Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vinna að þessu markmiði.

Flokkur fólksins vill búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík


Börn eru látin bíða og bíða

Fimm sálfræðingar eiga að sinna sautján leik- og grunnskólum í Breiðholti. Svona er ástandið í þessum málum víða í Reykjavík. Það skal því engan furða að biðin eftir sálfræðiþjónustu skóla sé löng enda hefur þessi málaflokkur verið sveltur árum saman.

Börn með vitsmunafrávik þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir greiningu.

Snemmtæk íhlutun skiptir máli. Því fyrr sem vandinn er greindur því fyrr er hægt að koma barninu til hjálpar með viðeigandi úrræðum og einstaklingsnámsskrá eftir atvikum.

Flokkur fólksins vill útrýma biðlistum þegar börn eru annars vegar og styrkja Þjónustumiðstöðvar svo hægt verði að auka sálfræðiaðstoð við börn í leik- og grunnskólum. Einn sálfræðingur getur í mesta lagi sinnt tveimur skólum ef vel á að vera. Börn og foreldrar þurfa að hafa greiðan aðgang að skólasálfræðingi og sérhver leik- og grunnskóli ætti að hafa aðgang að talmeinafræðingi.

Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að fara með barn sitt til sálfræðings út í bæ. Dæmi eru um að efnaminni foreldrar taki lán til að geta greitt fyrir sálfræðiþjónustu, viðtöl, ráðgjöf og/eða greiningu á einkareknum stofum þar sem bið eftir þjónustu hjá sálfræðideildum Þjónustumiðstöðva telur stundum í mánuðum.

Flokkur fólksins vill efla geðrækt í skólum og styrkja skólana til að aðstoða börn sem eru einmana, einangruð og vinalaus með markvissum aðgerðum s.s. sjálfsstyrkingarnámskeiðum. 

Börn eiga ekki að þurfa að bíða þarfnist þau sérfræðiaðstoðar af einhverjum toga. Flokkur fólksins hefur hagsmuni barnsins í fyrirrúmi í einu og öllu og í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið löggiltur hér. Í þriðju grein hans er kveðið á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

 

 


Ég var þetta barn

Ég var eitt af þessum börnum sem var á sífelldum flækingi. Þegar ég fæddist bjó ég á Víðimel þar sem við, fimm manna fjölskylda, bjuggum inn á ömmu í 40 fermetra þakíbúð. Næst lá leiðin í nýbyggingu í Sólheima. Um þetta leiti var pabbi farinn að drekka mikið og misstum við þetta húsnæði. Þá var flutt á Hjarðarhagann í rúmt ár og enn versnaði pabba. Fyrir dyrum lá skilnaður og fluttum við systkinin með mömmu þá á Barónsstíg. Þar bjuggum við í rúmt á þegar aftur var flutt í þakíbúð á Víðimel. Þá kom loks vel þeginn stöðugleiki í nokkur ár þar til flutt var enn á ný og að þessu sinni á Nesveg. 

Fyrir barn að flytja svona oft er erfitt hvað varðar ótal margt en ekki hvað síst að eignast vini og viðhalda vinskap.

Þetta er verið að bjóða mörgum börnum upp á í dag. Endalaus þvælingur vegna húsnæðisskorts. Sumir geta hvorki leigt hvað þá fjárfest í húsnæði. 

Allir þurfa þak yfir höfuðið. Það fylgir því mikil vanlíðan að hafa ekki öruggan samastað enda um eina af okkar aðal grunnþörfum. Allt frá hruni hefur staða þeirra verst settu einungis farið niður á við og er nú algerlega óviðunandi í Reykjavík. Börnin í þessum aðstæðum hafa mörg hver átt dapran tíma og sum gengið í allt að fimm grunnskóla. Tíðir flutningar hafa áhrif á sjálfsmynd barna. Þau hafa varla aðlagast og myndað tengsl þegar þau þurfa að flytja aftur. Það setur að mörgum börnum kvíða og áhyggjur þegar þau hugsa hvort þeim takist að eignast vini á enn einum nýjum stað.

Margt ungt fjölskyldufólk getur kannski stólað á foreldra sína og ættingja en það verður að horfast í augu við þá staðreynd að ekki allir foreldrar eiga kost á því að hjálpa börnunum sínum í húsnæðismálum. Sumir eiga bara nóg með sig. Í öðrum tilfellum eru foreldrar ekki til staðar, búa e.t.v. annars staðar á landinu eða erlendis.

Barn sem lifir við þessar aðstæður situr ekki við sama borð og börn sem eiga foreldra í betri efnahagsstöðu. Það ríkir því sannarlega mikill ójöfnuður eins og staðan er í Reykjavík í dag sem ætti að geta séð vel um alla sína þegna. Ójöfnuður sem þessi kemur eins og alltaf verst niður á þeim sem minnst mega sín. Börnin þurfa að geta fundið til öryggis í tilveru sinni ef þau eiga að geta vaxið og dafnað áhyggjulaus.

Flokkur Fólksins sem nú bíður fram í fyrsta sinn í Reykjavík leggur höfuðáherslu á fólkið sem byggir borgina okkar. Hér hefur ríkt lóðarskortur árum saman. Nánast engin venjuleg fjölskylda eða einstaklingur geta keypt dýrar eignir.

Flokkur fólksins vill stuðla að samvinnu ríkis, borgar og lífeyrissjóðanna svo þeim sem tekjulægri eru sé gert kleift að koma sér upp öruggu heimili. Félagslegt húsnæði er nauðsynlegt. Í lok árs 2017 voru 954 fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

Byggja þarf íbúðir af hagkvæmni þannig að borgarar hefðu bolmagn á að kaupa eða leigja. Hægt er að setja kvaðir á byggingalóðir og byggja húsnæði ætlað efnaminna fólki t.d. ungu fólki. Þegar meira framboð er þá verður meiri stöðugleiki og leiguverð lækkar. Í Reykjavík í dag er ekki gert ráð fyrir að venjuleg fjölskylda búi þar.

Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju. Við skulum ekki líða frekari vanrækslu í þessum málum!

Fólkið fyrst!


Vinátta ekki í boði borgarstjórnar

Fátt skiptir meira fyrir börnin okkar en að þau læri góða samskiptahætti. Flokkur fólksins vill að einskis sé freistað til að kenna börnunum um leið og þroski og aldur leyfir umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum og að bera virðingu fyrir hverjum og einum.

Flokkur fólksins vill að  Vináttuverkefni Barnaheilla á Íslandi verði umsvifalaust tekið inn í alla leik- og grunnskóla borgarinnar. Fram til þessa hefur Dagur B. sagt nei við Vináttu. Margsinnis hefur verið rætt við hann um verkefnið en hann hefur tregast til.

Blær stærri

Vinátta er forvarnaverkefni gegn einelti, danskt verkefni að uppruna og nefnist Fri for mobberi á dönsku.   Það er gefið út með góðfúslegu leyfi og í samstarfi við systursamtök Barnaheilla; Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.

Vinátta hefur fengið einstaklega góðar viðtökur á Íslandi og breiðst hratt út. Verkefnið hefur náð mikilli útbreiðslu en í lok árs höfðu leikskólum sem vinna með Vináttu fjölgað um helming á einu ári. Eru þeir nú rúmlega 100 talsins eða 40% allra leikskóla á landinu. Þýðing og aðlögun grunnskólaefnis fyrir 1.–3. bekk hófst á fyrri hluta ársins og á haustdögum fór það í tilraunakennslu í 15 grunnskólum. Byrjað var að undirbúa þýðingu og aðlögun á ungbarnaefni fyrir 0–3ja ára í lok árs. Það er óhætt að segja að Vinátta hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur en áætla má að fjöldi þeirra sem hafa sótt námskeið hjá Barnaheillum um notkun verkefnisins sé að nálgast um 1000 starfsmenn leikskóla og grunnskóla.

Vinátta 1

Vinátta fékk hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2017.

Reykjavík er eitt af fáu sveitarfélögum sem styrkir ekki Vináttu. Kostnaður við að taka verkefnið inni í skóla sem er að meðaltali 100.000 sem hlýtur að teljast lítilræði ef  árangur, hamingja og gleði sem það skilar sér til barnanna, foreldra og starfsfólks skóla er skoðað.

Mælikvarðinn á ágæti verkefnisins Vináttu er sú mikla útbreiðsla sem það hefur hlotið á stuttum tíma. Umsagnir frá starfsfólki Vináttu-leikskólanna hafa allar verið á sama veg, jákvæðar með eindæmum.

Flokkur fólksins vill útrýma einelti, í það minnsta gera allt sem hugsast getur til að það megi vera hverfandi.  Með þátttöku sem flestra leikskóla og grunnskóla í Vináttu eru lögð lóð á þær vogaskálar.

Hvert er vandamálið hjá borgarstjórn Reykjavíkur þegar kemur að Vináttuverkefni Barnaheilla? Skipta börnin í Reykjavík ekki meira máli en svo að ekki sé hægt að styrkja verkefni sem einhugur er um að skili frábærum árangri?

Vináttu hrundið af stað 


Helmingur næringar- og heilsufullyrðinga uppfyllti ekki kröfur

Verða þessar vörur sem eru með rangar innihaldslýsingar ekki fjarlægðar úr verslunum? Eða á fólk bara að forðast þær? Hvernig yrði tekið á svona í nágrannalöndum okkar? Svo virðist sem Matvælastofnun sé sífellt kærð ef hún fer fram á að vara sé fjarlægð eða gerð upptæk. Hvernig á stofnun að sinna eftirliti ef hún á það á hættu að þurfa borga himinháar bætur fyrir að benda á vankanta og misfellur samanber nautabökumálið í Borgarnesi.

Rangar innihaldslýsingar, sjá frétt á vef Matvælastofnunnar

 


Ef barn er leitt þarf lausn að finnast

Reynsla mín að vinna með börnum og unglingum nær aftur til ársins 1992.  Börn koma ekki til sálfræðings að ástæðulausu. Það er eitthvað sem hrjáir þau. Verkefni sálfræðings er að finna út með barninu og foreldrunum hvað það er sem orsakar vanlíðan þess og hvað hugsanlega viðheldur henni. Með því að skoða gaumgæfilega helstu svið barnsins, heimilið, skólann og námið, vinahópinn, tómstundir og tölvunotkun kemur iðulega í ljós við hvaða aðstæður það er kvíðið eða líður illa og á hvaða sviði í lífinu því líður vel og er sátt. Í langflestum tilfellum hefur komið í ljós að rekja má vanlíðan barna sem leita til sálfræðings til einhverra megin þátta í umhverfinu ýmist þátta tengdum fjölskyldunni, námi/námsgetu eða samskiptum í vinahópnum.  Það er hlutverk sálfræðingsins að benda foreldrum og barni á hvaða leiðir eru færar til lausna. Leiðir til lausna fela í sér breytingar eða aðlaganir. Stundum er nauðsynlegt að grípa til nánari greiningar á umhverfisþáttum eða á styrkleikum og veikleikum barnsins til að hægt sé að aðlaga umhverfið betur að þörfum þess. Í langflestum tilfellum finnast viðeigandi lausnir fyrir barnið sem bætir líðan þess og/eða aðstæður. Þess vegna er starf sálfræðings svo gefandi og skemmtilegt.

Börn sem eru kvíðin og óörugg að eðlisfari

Börn sem eru ofurvarkár og kvíðin að eðlisfari upplifa sig oft óörugg jafnvel í aðstæðum þar sem þau eru sátt í. Þetta eru börnin sem eiga það til að ofhugsa hlutina og eru hrædd innra með sér að eitthvað slæmt geti gerst. Þetta eru börnin sem hlusta á fréttir og fyllast kvíða þegar þau heyra af stríðsátökum og náttúruhamförum út í heimi því þau óttast að þetta geti gerst í nærumhverfi þeirra. Sum börn sem glíma kvíða, hræðslu og óöryggi efast einnig oft um eigin getu og hafa jafnvel neikvæðar hugsanir um sjálfa sig.

Sjálfsstyrking og lausnarmiðuð hugsun

Stór hluti af vinnu sálfræðings með börnum er að efla og styrkja sjálfsmat þeirra og hjálpa þeim að endurmeta og leiðrétta neikvæðar hugsanir og ranghugmyndir. Við val sálfræðiaðferðar er tekið mið af vandanum, aldri og þroska. Stuðst er við aðferðir hugrænnar nálgunar (HAM) eftir atvikum eftir því sem barnið hefur þroska og aldur til. Áhersla sálfræðings er að kenna börnum að hugsa í lausnum því enginn fer í gegnum lífið án þess að mæta mótbyr. Vandamál, hvort sem þau eru stór eða smá, verða á vegi allra einhvern tíma á lífsleiðinni. Innleiða þarf hjá börnum trú og vissu um að enginn vandi sé svo stór að ekki séu á honum lausn og að engin slæm líðan eða ástand vari að eilífu. Börn þurfa að vita að þau hafi alltaf eitthvað val. Ávallt er áréttað mikilvægi þess að þau tali um mál sín við foreldra sína eða einhvern fullorðinn sem þau treysta.

Börn og tölvunotkun/samfélagsmiðlar

Fræðsla, þar með talin forvarnarfræðsla, er stór hluti meðferðarvinnu sálfræðings með börnum og foreldrum þeirra. Dæmi um mikilvæga forvarnarfræðslu er að kenna börnum hvernig þau skuli umgangast netið. Foreldrum eru einnig veittar leiðbeiningar og ráðgjöf til að mynda hvaða reglur er nauðsynlegt að hafa á heimilinu og hvernig setja skuli börnum mörk um hegðun og samskipti. Langflestir unglingar verja umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oft í gegnum farsíma. Draga má þá ályktun að óhóflegur tími á samfélagsmiðlum, í tölvuleikjum eða við áhorf sjónvarpsþátta komi niður á svefntíma þeirra og auki kvíða. Börn sem verja mörgum tímum á sólarhring fyrir framan skjá eru verr í stakk búin til að mæta verkefnum og kröfum daglegs lífs. Þegar foreldrar nefna of mikla tölvunotkun barna sinna sem hluta af vandamáli þeirra eru foreldrar og börn ekki endilega sammála um hvort um vandamál sé að ræða. Fyrir barn sem er vant mikilli skjánotkun er erfitt að hugsa til þess að til standi að draga úr henni sérstaklega ef barnið hefur um langan tíma haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að tölvu/neti. Í öðrum málum eru foreldrar ekki meðvitaðir um mikla netnotkun barna sinna og hversu miklum tíma þau verja til að mynda á samfélagsmiðlum. 

Best er ef foreldrar og börn geta komið sér saman um sem flesta hluti og þar á meðal skjátíma. Ef ekki næst samkomulag eru það foreldrarnir sem ráða. Svo virðist sem algengt sé að börn/unglingar hafi óheftan og stundum eftirlitslausan aðgang að skjá og neti. Í þessum tilfellum eru foreldrar hvattir til að setja viðeigandi mörk með því að koma á reglu um tölvunotkun. Einnig eru foreldrar ávallt hvattir til að fylgjast vel með hvaða síður á netinu unglingar þeirra eru að skoða og kenna þeim jafnframt að umgangast netið og samfélagsmiðla af varúð. Almennt séð eru foreldrar þakklátir fyrir ábendingar og ráðgjöf af þessu tagi. Margir upplifa nefnilega vanmátt og óöryggi í þessum efnum og eru ekki vissir um hvort þeir geti sett börnum sínum mörk og þá hvernig mörk best sé að setja. Foreldrar sem eru óöruggir með þessi mál eru hvattir til að leita sér ráðgjafar hjá fagaðilum.

Greinin var fyrst birt á visi. is 5. mars

www.kolbrunbaldurs.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband