Toppurinn er svo bókin á náttborðinu
18.7.2018 | 20:26
Ég er bara sátt við dagsverkið á þessum degi, 100 ára fullveldisafmælis okkar Íslendinga. Deginum var varið í að undirbúa fund borgarráðs á morgun. Þar er Flokkur Fólksins málshefjandi á umræðu um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra. Afgreiða á tillögu Flokks fólksins um rekstrarúttekt óháðs aðila á Félagsbústöðum. Einnig á að ræða úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningu í embætti borgarlögmanns; dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í fjármálastjóra gegn Reykjavíkurborg vegna gildi áminningar og síðast en ekki síst er Álit umboðsmanns Alþingis um húsnæðisvanda utangarðfólks á dagskrá. Flokkur fólksins er með bókun í öllum þessum málum og fleirum til en dagskrárliðir eru 30. Á náttborðinu bíður mín svo Tengdadóttirin eftir Guðrúnu frá Lundi sem minnir vel á lífsbaráttu forfeðranna. Til hamingju með daginn!
Klárlega ósmekklegt og jafnvel siðlaust
18.7.2018 | 12:01
Mér finnst allt þetta tilstand ríkisstjórnarinnar og mikli kostnaður vegna hátíðarþingfundar á Þingvöllum afar ósmekklegt og nánast siðlaust í ljósi ástandsins í kjaradeilu ríkisins og ljósmæðra. Hvernig er hægt að vera í einhverju hátíðarskapi á Þingvöllum þegar neyðarástand ríkir á fæðingardeild Landspítala?
Heimilislausir afgangsstærð árum saman
18.7.2018 | 10:01
Það er kominn tími til að hugsa út fyrir boxið og byrja að framkvæma. Málefni heimilislausra hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og var einnig eitt aðalkosningamál Flokks fólksins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Að vera heimilislaus er án efa eitt það erfiðasta í lífi sérhvers einstaklings og fjölskyldu. Heimilislausir er fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á öllum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað heimili. Sumir heimilislausir glíma við veikindi eða hömlun af einhverju tagi. Þetta er fólk sem hefur orðið fyrir slysi eða áföllum, eru öryrkjar eða með skerta starfsorku sem hefur valdið þeim ýmis konar erfiðleikum og dregið úr möguleikum þeirra að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Ætla má að langflestir þeirra sem eru heimilislausir séu það vegna þess að þeir hafa ekki efni á að leigja húsnæði í Reykjavík þar sem leiguverð fyrir meðalstóra íbúð er jafnvel 250.000 krónur á mánuði. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og margir þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum kvarta auk þess yfir að húsnæðinu sé ekki haldið nægjanlega við. Sumt af húsnæði Félagsbústaða er heilsuspillandi. Hjá Félagsbústöðum hefur leiga jafnframt hækkað mikið undanfarið og er að sliga marga leigjendur.
Flokkur fólksins hefur lagt fram tvær tillögur sem varða Félagsbústaði en eins og kunnugt er um að ræða fyrirtæki sem heyrir undir B-hluta borgarinnar. Fyrri tillagan er að borgarstjórn samþykki að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Þessari tillögu var vísað í borgarráð þar sem henni var síðan vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðanda. Seinni tillagan er að borgarstjórn samþykki að gerð verði ítarleg úttekt á biðlista Félagsbústaða m.a. hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar og hverjar eru aðstæður umsækjenda? Hve langur er biðtíminn og hve margir hafa beðið lengst? Hér er um að ræða brot af þeim upplýsingum sem óskað hefur verið eftir er varðar biðlista Félagsbústaða.
Heimilislausir búa margir hverjir upp á náð og miskunn hjá öðrum, ýmist vinum eða ættingjum eða hírast í ósamþykktu iðnaðarhúsi sem ekki er hægt að kalla mannabústað. Einn hluti hóps heimilislausra er utangarðsfólk, fólk sem glímir sumt hvert við djúpstæðan fíknivanda og geðræn veikindi. Þessi hópur þarf líka að eiga einhvers staðar heima, hafa stað fyrir sig. Enn aðrir eru þeir sem kjósa að búa í húsbílum sínum en hafa ekki fengið varanlega staðsetningu fyrir húsbílinn nærri grunnþjónustu.
Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni. Það er víða verið að byggja alls kyns húsnæði sem selt verður fyrir upphæðir sem þessum hópi er fyrirmunað að ráða við að greiða. Byggja þarf ódýrara og hagkvæmara, hraðar og markvissara og alls staðar sem hægt er að byggja í Reykjavík. Óhagnaðardrifin leigufélög þurfa að verða fleiri. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að lífeyrissjóðir fái lagaheimild til að setja á laggirnar óhagnaðardrifin leigufélög. Hjá lífeyrissjóðunum er gríðarmikið fjármagn sem nýta má í þágu fólksins sem greiðir í sjóðina.
Í viðtali við verkefnastjóra Kísilverksmiðjunnar á Bíldudal í morgunútvarpinu í vikunni sagði hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi sem fullbúin kosta 16 milljónir. Hér er komin hugmynd sem vel mætti skoða fyrir Reykjavík og víðar. Fram til þessa hefur lóðarverð verið hátt og einnig byggingarkostnaður. Þeir sem hafa helst byggt hafa gert það í hagnaðarskyni enda eigendur gjarnan fjárfestingabankar og önnur fjárfestingarfyrirtæki.
Af hverju getur borgin ekki skoðað lausnir af fjölbreyttari toga? Vandi heimilislausra og annarra sem búa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum mun aðeins halda áfram að vaxa verði ekki farið að grípa til róttækra neyðaraðgerða enda ríkir hér neyðarástand í þessum málum. Það þarf að setja húsnæðismálin í forgang fyrir alvöru og byrja að framkvæma. Flokkur fólksins í borginni hefur óskað eftir að málefni þessa hóps verði sett á dagskrá á næsta fundi borgarráðs 19. júlí. Það er kominn tími til að fara að hugsa út fyrir boxið í þessum málum og framkvæma.
Greinin var birt á kjarninn.is síðastliðinn mánudag
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins
Gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra
4.7.2018 | 11:19
Tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra verður lögð fram í borgarráði á morgun 5. júlí. Hún hljóðar svona:
Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði
velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls.
Greinargerð:
Í þeim tilgangi að styðja enn betur við efnaminni fjölskyldur er lagt til að foreldrar sem eru
undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Efnahagsþrengingar
foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Sumar fjölskyldur eru
enn að glíma við fjárhagserfiðleika vegna afleiðinga hrunsins og sjá ekki fyrir sér að geta rétt
úr kútnum næstu árin ef nokkurn tíman. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250.000 kr.
á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef húsnæðiskostnaður er einnig innifalinn í
þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Það er skylda
okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu
foreldra þeirra. Börnum sem er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr.
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði banni við mismunun af
nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama
borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Með þessari
tillögu er verið að freista þess að tryggja að börn efnaminni foreldra missi hvorki pláss á
frístundaheimilum né verði svikin um tækifæri til að sækja frístundaheimili vegna bágra
félags- og fjárhagslegra stöðu foreldra
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins
Tímamótafundur með fulltrúum heimilislausra
3.7.2018 | 12:26
Fulltrúar Kærleikssamtakanna, sem í vetur hafa beitt sér fyrir réttindum heimilislausra, hittu fulltrúa stjórnarandstöðunnar á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðin föstudag.
Staða heimilislausra í Reykjavík er mjög slæm en einstaklingum í þeim hópi hefur fjölgað töluvert á síðustu 8 árum, í kjölfar húsnæðiskreppunnar og undir stjórn Dags B. Eggertsonar
sem borgarstjóra.
Formaður Kærleikssamtakanna Sigurlaug G. Ingólfsdóttir og Garðar S. Ottesen meðstjórnandi hittu Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Sönnu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokks Íslands og
Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúa Sósíalista, Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins í Reykjavík, Baldur Borgþórsson og Svein Hjört Guðfinnsson, varaborgarfulltrúa frá Miðflokki.
Á fundinum var m.a. rætt um hvernig kortleggja þurfi núverandi húsnæði borgarinnar og skipuleggja starfsemina betur til að mæta þörfum og ná að
sinnna hinum mismunandi hópum heimilislausra. Síðan að bæta við húsnæði eftir þörfum. Mikil samstaða var hjá öllum á fundinum til að koma meðlausnir við þessum ört vaxandi vanda og verða á næstunni lagðar fram tillögur fyrir velferðarráð og borgarstjórn.
Nú munu verkin tala sínu máli í stað endalausra loforða," segir
Sigurlaug G. Ingólfsdóttir, formaður samtakanna eftir fundinn.
Oddvitar flokkanna sögðu:
Málefni heimilislausra þola enga bið, við verðum að hefjast handa strax við að leysa þessi brýnu vandamál sem heimilislausir glíma við,"
segir Sanna Mörtudóttir.
Vandinn hefur vaxið gríðarlega en fjöldi heimilislausra hefur margfaldast á fáum árum. Þetta er ólíðandi," segir Eyþór Arnalds.
Það er ljóst af fyrstu verkum nýs meirihluta borgarstjórnar, að ekki er áhugi á að leysa úr vanda heimilislausra. Það kemur því í hlut okkar
í stjóranandstöðu að berjast fyrir lausnum í þeim málaflokki. Undan því hlutverki verður ekki vikið, heldur blásið til sóknar, núverandi ástand
er með öllu óviðunandi," segir Baldur Borgþórsson.
Við áttum tímamótafund með fulltrúum Kærleikssamtakanna með þeim Sigurlaugu og Garðari og munum koma málefnum heimilislausra á dagskrá,"
segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins
Hagsmunafulltrúi fyrir aldraða
3.7.2018 | 11:29
Tillaga þessa efnis var lögð fyrir af borgarfulltrúa Flokks fólksins á borgarráðsfundi 28. júní sl.
Hvað er í gangi hjá Félagsbústöðum?
29.6.2018 | 08:23
Félagsbústaðir hafa talsvert verið til umræðu að undanförnu og kemur ekki til af góðu. Margir hafa leitað til mín og sagt farir sínar ekki sléttar í samskiptum við þetta fyrirtæki sem er undir B hluta borgarinnar. En fæstir þora að koma fram undir nafni af ótta við afleiðingar.
Þetta er óhuggulegt og tel ég að við þurfum að leggjast á eitt til að finna út hvað sé þarna í gangi. Á fyrsta borgarstjórnarfundi lagði ég fram tillögu um að óháðir aðilar yrðu fengnir til að taka út ýmsa þætti þarna, ekki einungis reksturinn. Þessari tillögu var í gær, á fundi borgarráðs, vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðun. Ég var ósátt við þessa afgreiðslu og lét bóka það. Hefði viljað sjá óháðan aðila kalla sjálfur eftir gögnum m.a. hjá fjármálastjóra og frá innri endurskoðun eftir atvikum.
Í gær var ég með aðra tillögu sem tengist Félagsbústöðum. Hún hljóðar svona:
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á biðlista Félagsbústaða
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:
1. Hverjir eru á biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar?
2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar?
3. Hversu langur er biðtíminn?
4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það?
5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör?
6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör?
7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum?
8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun?
9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir?
10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin?
Tillögunni var frestað.
Fliss, háð og spott á borgarstjórnarfundi
21.6.2018 | 09:33
Fliss, háð og spott og ávirðingar og árásir á einstaka nýkjörinn borgarfulltrúa einkenndu samskipti borgarstjórnarinnar í garð stjórnarandstöðunnar á fyrsta fundi borgarstjórnar 19. júní sl.
Þetta kom mér mjög á óvart. Í tvígang taldi ég mig knúna til að fara í pontu og krefjast þess að fólk hagaði sér vel, sýndi kurteisi, virðingu og væri málefnalegt enda get ég ekki liðið að sitja þögul við þessar aðstæður.
Ég spyr mig nú í upphafi starfs á nýjum vinnustað hvort svona framkoma og hegðun hafi kannski tíðkast í gegnum árin? Mér sýnist að þörf sé á skýrum samskiptareglum og að til sé viðbragðsáætlun gegn einelti í borgarstjórn.
Ég hef áralanga reynslu af því að vinna með samskipta- og eineltismál og hef skrifað fjölmargar greinar um einelti á vinnustað. Ég myndi gjarnan vilja heyra í öðrum borgarfulltrúum, fráfarandi og núverandi um hvort þeir telji að einelti hafi tíðkast á þessum vinnustað.
Er borgarráð "dauðadeild"?
19.6.2018 | 21:32
Fyrsti fundur minn í borgarstjórn hefur nú staðið á áttundu klukkustund og enn er nokkuð eftir af málum. Ég hef tekið nokkrum sinnum til máls undir ýmsum liðum og hef einnig mótmælt dónalegri framkomu eins borgarfulltrúa og ómálaefnalegri umfjöllun þessa sama borgarfulltrúa. Ég hef flutt tillögu sem fjallar um það að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum (sjá tillögu í heild sinni hér neðar).
Tillagan fékk góðan stuðning frá hinum stjórnarandstöðuflokkunum en meirihlutinn ákvað að vísa tillögunni til borgarráðs. Hvað um hana verður er spurning en eftir því sem ég skil er afar algengtað þar sofni tillögur stjórnarandstöðu svefninum langa. Mér er nú að verða það ljóst að sennilega bíður þessi málsmeðferð flestra tillagna stjórnarandstöðunnar sem lagðar eru fram í borgarstjórn. Í borgarráði hef ég ekki atkvæðarétt en hef tillögurétt og rétt til að tjá mig.
Borgarstjórn
19. júní 2018
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum
Borgarstjórn samþykkir að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á
Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu
leigutaka. Úttektin skal liggja fyrir eigi síðar en á fyrsta borgarstjórnarfundi í september.
Greinargerð:
Leiguverð á íbúðum Félagsbústaða hefur í einhverjum tilfellum verið að hækka og er að sliga
marga leigjendur. Einnig hafa fjölmargar ábendingar og kvartanir borist um að húsnæði á
vegum Félagsbústaða sé ekki haldið við sem skyldi.
Óskað er eftir úttekt á rekstri félagsins, þar sem farið er yfir launamál stjórnenda þess,
stjórnarhætti og hlutverk fyrirtækisins m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar
hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Það er ýmislegt sem orkar tvímælis þegar rýnt er í rekstur
félagsins en það skal ekki rekið í ágóðaskyni. Í ljósi þess er athyglivert að Félagsbústaðir hafi
sýnt svo mikinn hagnað á liðnu ári. Óskað er eftir að svarað verði spurningum um það hvernig
hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi
félagsins.
Í úttektinni þarf m.a. að svara hvernig vinnubrögð eru viðhöfð við endurmat eigna og færslu
bókhalds í því sambandi. Er núverandi rekstrarform sem best til að þjóna hagsmunum
notenda?
Skert heimaþjónusta í sumar. Nýji meirihlutinn segist hafa lausnir
13.6.2018 | 08:53
Frá kynningu nýs meirihluta í gær á málefnasamningi sínum.
Ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins vildi vita hvað þau ætluðu að gera varðandi heimaþjónustuna sem verður að skerða í sumar vegna manneklu en ekki hefur fundist starfsfólk til þess að sinna afleysingum. Ég vildi einnig vita hvort þau hefðu rætt þetta langvinna, alvarlega vandamál í viðræðunum.
Sjá má svar borgarstjóra hér þegar rúmlega 8. mín. eru liðnar af upptökunni
Fæ ég tækifæri?
1.6.2018 | 08:33
Eineltismál hafa verið mér hjartans mál árum saman. Sem nýkjörinn borgarfulltrúi langar mig mjög að fá tækifæri til að nýta áratuga þekkingu mína og reynslu í eineltismálum í þágu starfsmanna og barnanna í borginni. Spurning er um hvort maður fái tækifæri til þess ef niðurstaðan verður sú að ég fari í minnihluta?
Sjá nánar um vinnu mína í eineltismálum á kolbrunbaldurs.is
Þakklát og auðmjúk
31.5.2018 | 20:00
Hjartans þakkir til allra stuðningsmanna minna og fyrir allar fallegu kveðjurnar sem mér hafa borist.
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan með nýjum áskorunum og mun ég, nýkjörinn borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja mig alla fram um að þjóna borgarbúum sem best ég get.
Í brjósti mér er kraftur tígrisdýrsins
24.5.2018 | 11:45
Kæru Reykvíkingar.
Nú þegar komið er að ykkur að velja þann flokk sem þið treystið til að gera breytingar langar mig að segja fyrir hvað ég stend sem manneskja og sem oddviti Flokks fólksins.
Alveg frá því ég man eftir mér hef ég brunnið af sterkri réttlætiskennd. Hvers kyns óréttlæti, mismunun, óheiðarleiki og valdníðsla sem ég hef orðið vitni af á lífsleiðinni hefur vakið í brjósti mér kraft tígrisdýrsins. Með þessari samlíkingu er ég að reyna að lýsa því ógnarbáli sem blossar upp finni ég mig í aðstæðum í starfi jafnt sem einkalífi þar sem fólki líður illa og þar sem beitt er ofbeldi eða óréttlæti. Við þessar aðstæður blanda ég mér iðulega í málið og læt með öllum mögulegum hætti til skarar skríða jafnt í orði sem og í verki til að stöðva, breyta, bæta eða sporna við óréttlæti og ofbeldi. Ég er þessi manneskja sem sumum finnst allt of hreinskilin og opinská. Alveg frá því ég hafði eitthvað vit í kollinum hef ég alltaf verið áræðin, frökk, kjörkuð og verkglöð. Hugmyndir nægja mér ekki, þær þarf að framkvæma. Ég hika ekki við að taka áhættu ef það er í þágu fólks.
Kjósið mig, ég stend með ykkur og breytingar verða.
xF
Myglusaga úr Reykjavík
23.5.2018 | 17:18
Móður var sagt að lofta bara út þegar hún hafði ítrekað kvartað yfir myglu og raka í félagslegu húsnæði á vegum borgarinnar. Kona með lítið barn er búin að vera á vergangi vegna myglu og raka. Mæðgurnar voru báðar veikar og barnið með sýkingar frá fæðingu. Heimilislæknir ráðlagði mæðgunum að flytja út. Árið 2014 greindist móðirin með astma og flutti fjölskyldan þá á sjúkrahótel.
Móðirin margreyndi að ná sambandi við Reykjavíkurborg og fékk árið 2015 fund með borgarstjóra þar sem hún óskaði eftir að sýni yrðu tekin úr húsnæðinu vegna veikinda dóttur sinnar. Við því var ekki orðið.
Mæðgunum bauðst loksins íbúð í 101 Reykjavík sem hentaði illa en móðirin samþykkti þó að taka. Heilsu barnsins hélt áfram að hraka. Í ljós kom að veggur í barnaherbergi var illa einangraður og vegna raka hafði mygla myndast. Mæðgurnar voru veikar allan þennan vetur og varð móðir að hætta háskólanámi. Ekki var orðið við beiðni um lagfæringar og áttu mæðgurnar ekki annars kost en að flýja úr húsnæðinu og skilja búslóðina eftir. Vatnsleki var í veggnum og vatn hafði komist í rafmagn svo þeim var hætta búin. Málið var loksins athugað og þá talað um minniháttar leka. Ekki var gert við og mæðgurnar fóru aftur á sjúkrahótelið.
Heilbrigðiseftirlitið skoðaði íbúðina og í skýrslu kom fram að fjarlægja skyldi allt rakaskemmt byggingarefni. Félagsbústaðir réðust í viðgerðir en rakaskemmt efni var þó ekki fjarlægt, einungis skrapað af veggjum, sparslað og kíttað en myglan lifði áfram góðu lífi bak við fínpússað yfirborð.
Á meðan að lagfæringar áttu sér stað sendi móðir sýni af myglu úr vegg til Náttúrufræðistofnunar Íslands, á Akureyri. Kom þá í ljós að um Aspergilus myglu væri að ræða en eiturefni úr henni eru krabbameinsvaldandi. Um var að ræða margar slæmar tegundir af myglu. Henni var ráðlagt að henda öllu innbúi sínu nema nokkrum glösum.
Móðirin fór í rannsóknir vegna heilsuleysis og í ljós kom að hún er komin með langvinnan alvarlegan lungnasjúkdóm. Um var að ræða bandvefsbreytingar í lungum og skerta lungnastarfsemi og það var mat lækna að lungnasjúkdómurinn hafi verið afleiðing þess að búa í rakaskemmdu mygluðu húsnæði í langan tíma.
Staða mæðgnanna í dag er að móðir og barn glíma enn við veikindi, barn sem nú er 10 ára er kvíðið og finnur til mikils óöryggis eftir allan flækinginn. Hún spyr: mamma, eigum við hvergi heima?
Eftir viðgerðir á íbúðinni var móðurinni boðin sama íbúð aftur en hún fylgdi ráðleggingum læknis og afþakkaði. Á þessum tímapunkti gat hún ekki lengur gist á sjúkrahóteli og þurfti því að bíða eftir öðru húsnæði.
Móðir afþakkaði boð um gamlar íbúðir hjá félagsbústöðum. Vegna alvarlegra veikinda gat hún ekki tekið áhættuna á að fara í gamalt húsnæði. Læknar ráðlögðu henni að búa í nýbyggingu til þess að lágmarka möguleikann á því að lenda í myglu síðar á lífsleiðinni. Annars myndu einkennin versna og hætta var á líffæraskemmdum.
Við tók þvælingur milli gistiheimila. Eftir að hafa verið heimilislaus með barn í 16 mánuði fékk hún loks íbúð í nýbyggingu með loftræstikerfi eftir að málið hafði farið til umboðsmanns Alþingis.
Í dag sér hún fram á að missa nýju fínu íbúðina vegna þess að leigan þar er 50% hærri en myglubælið í 101 Reykjavík. Leigan er 180 þ.kr. á mánuði fyrir utan hússjóð og móðirin er eingöngu með 250 þ.kr. í tekjur á mánuði.
Nýja húsnæðið er nýbygging sem er laus við myglu og með góðri loftræstingu sem er nauðsynleg vegna lungnasjúkdómsins. Þó uppfyllir húsnæðið ekki byggingareglugerðir vegna hávaðamengunar frá vélbúnaði innan byggingarinnar samkvæmt heilbrigðiseftirlitinu.
Hjá Reykjavíkurborg á leigutaki alltaf sökina. Mygla heima hjá þér? Það er vegna þess að þú loftar ekki nógu vel út.
Tíu árum síðar er móðirin enn að berjast fyrir því að fá að lifa í mannsæmandi húsnæði. Skyldu fleiri sem búa í félagslegu húsnæði á vegum borgarinnar hafa svipaða sögu að segja?
Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík
Svona var upphafið
22.5.2018 | 17:41
Kolbrún kynntist Ingu Sæland síðasta sumar en fannst þó einhvern veginn eins og þær hefðu alltaf þekkst og verið vinkonur. Á þeim tímapunkti var flokkurinn að mælast hátt í skoðanakönnunum og Inga sífellt að verða meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni.
Stefna Flokks fólksins var eins og snýtt út úr nösunum á mér og Inga var kona sem mig langaði að kynnast. Hún segir hlutina hreint út og eignast kannski fullt af óvinum fyrir vikið. En henni er bara alveg sama. Það sama á við um mig, ég berst af hugsjón fyrir fallegan málstað, ég er ekki í neinni vinsældakeppni.
Kolbrúnu bauðst að vera oddviti Flokks fólksins í Reykjavík og svo sannarlega tók ég því af auðmýkt. Það eru svo mörg málefni sem eru mín hjartans mál. Þess vegna vil ég komast að stjórnartaumunum. Ég hreinlega brenn fyrir því að mega hjálpa fólkinu okkar sem á um sárt að binda. Skólamálin og börnin eru mér sérstaklega hugleikin enda hef ég mikla reynslu af störfum mínum með þeim, bæði sem skólasálfræðingur og gegnum störf mín hjá Heilsugæslunni (úr viðtali, sjá heildarviðtalið hér)
Miðborg auðkýfinga og ferðamanna, ekki lengur miðborgin mín
21.5.2018 | 09:08
Annað höfuðmálefni Flokks fólksins er að allir geti fengið þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði. Kolbrún segir að sú þéttingarstefna sem rekin er af meirihlutanum nú sé ekki gerð fyrir hinn almenna borgara og þá sem haldið er hér í fátækt.
Við sáum í fréttum að það er verið að byggja fjögur hundruð milljóna króna íbúðir með útsýni að Hörpunni. 101 er ekki lengur miðborgin mín. Ég er alin upp í Vesturbænum og lék mér í kringum Tjörnina. Þessi miðborg er aðeins fyrir auðjöfra og ferðamenn. Við hin, hinn sauðsvartur almúginn, getum verið annars staðar. Kannski einhvers staðar í tjaldi, þó ekki lengur í Laugardalnum.
Hvar viljið þið byggja?
Hvar sem hægt er að byggja. Það vantar íbúðir á við heilan Mosfellsbæ Það er neyðarástand í húsnæðismálum og það þarf neyðaraðgerðir, rétt eins og í Eyjagosinu og þegar við byggðum upp Breiðholtið á sínum tíma. Það er til nóg af lóðum innan borgarmarkanna.
Hvernig á að fjármagna alla uppbygginguna?
Ég hef áður vísað til þess að við viljum samvinnu við lífeyrissjóði og ríkið. Ef allir leggjast á árarnar þá munum við lyfta algjöru grettistaki í því að koma fólkinu okkar í öruggt skjól. Þessi sérstaka uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis mun ekki einkennast af græðgisvæðingu heldur verður hún algjörlega óhagnaðardrifin. Kjörorðið okkar er Fólkið fyrst.
Bent hefur verið á að nágrannasveitarfélög beri einnig ábyrgð og Kolbrún tekur heilshugar undir það. Hún segir að borgin geti þó ekki vikist undan ábyrgð með því að benda á vankanta annars staðar. Stefna Flokks fólksins er skýr í þessum efnum, það er að sameina eigi öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, til að samrýma kerfi og minnka yfirbyggingu.
Við getum ekki haft bæjarfélög fyrir útvalda eins og til dæmis Seltjarnarnes og Garðabæ. Álagið lendir þá af meiri þunga á Reykjavík sem er ekkert annað en mismunun. Ég held að það verði stutt í að þetta komist til tals á Alþingi.
Kolbrún vill minnka flækjustigið hjá stjórnsýslu borgarinnar, fækka nefndum og einfalda kerfið. Borgarstjóri beri á endanum ábyrgðina en langar boðleiðir til hans og úrvinnsluferli þar sem einn bendir á annan valdi óréttlætanlegum töfum á málefnum þeirra sem reiða sig á kerfið.
Grét þegar bíllinn var dreginn burtu
20.5.2018 | 18:26
Hluti viðtals sem birtist í Helgarblaði DV.
Kolbrún Baldursdóttir hefur um árabil verið einn öflugasti málsvari barna. Sem starfandi sálfræðingur til 25 ára, hefur hún unnið mikið með börnum sem eiga mjög bágt. Nú ætlar hún að að færa baráttuna gegn óréttlæti, mismunun og fátækt inn í sal borgarstjórnar sem oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. Kolbrún var gift Vigni Jónssyni, sem kom út úr skápnum sem samkynhneigður maður árið 1983. Kristinn hjá DV ræddi við Kolbrúnu og Vigni.
Féll strax fyrir stefnu Flokks fólksins
Kolbrún er fædd og uppalin í Reykjavík og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur síðan árið 1992 eftir að hún sneri heim úr námi frá Bandaríkjunum. Hún hefur auk þess starfað í góðgerðarmálum og var formaður Barnaheilla frá 2012-2018. Kolbrún leiðir nú lista Flokks fólksins, sem býður fram í fyrsta sinn til borgarstjórnar í Reykjavík. Hún er þó ekki ókunn stjórnmálunum því hún er varaþingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kolbrún kynntist Ingu Sæland síðasta sumar en fannst þó einhvern veginn eins og þær hefðu alltaf þekkst og verið vinkonur. Á þeim tímapunkti var flokkurinn að mælast hátt í skoðanakönnunum og Inga sífellt að verða meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni.
Stefna Flokks fólksins var eins og snýtt út úr nösunum á mér og Inga var kona sem mig langaði að kynnast. Hún segir hlutina hreint út og eignast kannski fullt af óvinum fyrir vikið. En henni er bara alveg sama. Það sama á við um mig, ég berst af hugsjón fyrir fallegan málsstað, ég er ekki í neinni vinsældakeppni.
Kolbrúnu bauðst að vera oddviti Flokks fólksins í Reykjavík og svo sannarlega tók ég því af auðmýkt. Það eru svo mörg málefni sem eru mín hjartans mál. Þess vegna vil ég komast að stjórnartaumunum. Ég hreinlega brenn fyrir því að mega hjálpa fólkinu okkar sem á um sárt að binda. Skólamálin og börnin eru mér sérstaklega hugleikin enda hef ég mikla reynslu af störfum mínum með þeim, bæði sem skólasálfræðingur og gegnum störf mín hjá Heilsugæslunni. Ég mun aldrei gleyma að börnin okkar eru fjársjóður framtíðar og við verðum að gæða líf þeirra eins mikilli hamingju og barnslegri gleði og nokkur kostur er.
Að eiga öruggt heimili er algjör forsenda fyrir velferð fjölskyldunnar. Algjör forsenda fyrir öryggi barnsins. Stefna Flokks fólksins í húsnæðismálum er því algjör hornsteinn til betra lífs í borginni fyrir alla. Við viljum afnema ríkjandi lóðaskortsstefnu og koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi. Til þess þurfum við að fá lífeyrissjóðina og ríkið til liðs við okkur. Við mismunum ekki borgurunum og viljum aðgengi fyrir alla. Við viljum tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Við munum þrífa götur borgarinnar, stórefla almenningssamgöngur og losa um flöskuhálsa í umferðinni. Einkabíllinn er vinur okkar sem og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni.
Ánægjulegt hvað nánast allir flokkar aðhyllast stefnu Flokks fólksins
Mér finnst merkilegt að sjá aðra flokka vera að gera stefnuna okkar að sinni. Það segir mér einfaldlega að þeir hafa enga hugsjón sjálfir fyrir því sem þeir eru að gera. Nei þeir eru að gera út á það sem þeir telja að muni selja og fá kjósendur til að kjósa sig. Ég trúi því hins vegar ekki að það sé nóg að tileinka sér stefnu annarra um málefni sem viðkomandi hefur ekki virt viðlits í stjórnartíð sinni. Kjósendur sem búa við verkin þeirra hafa engu gleymt. Nú er t.d oddvit VG farinn að tala um að endurreisa verkamannabústaðakerfið. En það er eitt af aðalbaráttumálum Flokks fólksins og hefur verið frá stofnun hans. Hvar eru 3000 íbúðirnar sem átti að byggja á kjörtímabilinu? Félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar hefur mörgum verið illa við haldið, eru heilsuspillandi, fangnar af myglu og raka. Hver trúir þessum hola hljómi sem er án nokkurs raunverulegs vilja til að breyta í þágu þeirra sem þurfa á hjálpinni að halda? Ekki ég. Þess vegna bið ég ykkur að varast eftirlíkingar, þær virka aldrei eins og hið sanna.
Skóli án aðgreiningar er að eyðileggja framtíð þúsunda barna
Hún er alvarleg í bragði þegar hún segir:
Skóli án aðgreiningar eins og hann er rekinn nú er ekki að virka. Þetta er ónýtt kerfi sem er að eyðileggja framtíð þúsunda barna. 30% drengja útskrifast eftir 10 ára skólagöngu, illa læsir og með eða með lélegan lesskilning. Þetta er algjör þjóðarskömm. Það þarf miklu meira utanumhald með hverju og einu barni, hætta að troða þeim öllum í sama boxið þrátt fyrir gjörólíkar þarfir þeirra. Það þarf að fullnægja þörfum þeirra allra, þurfum fleiri sálfræðinga, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, aðstoðarfólk. Skólahúsnæði víða er ekki einu sinni hentugt fyrir þá sem eru þroskahamlaðir. Þú getur ekki sett alla undir sama hatt í einhverri byggingu. Við erum að sliga kennara af álagi og um leið erum við að missa þá frá okkur til annarra starfa og fæla unga fólkið frá því að fara í kennaranám. Við verðum að gjörbreyta kennsluháttum í grunnskólanum og það í samvinnu við kennarana og það strax. Allt of mörgum börnum líður mjög illa í skólanum.
Sem sálfræðingur fæ ég mörg þessara barna til mín. Sum þeirra treysta sér ekki til að vera í skólanum lengur. Þau hætta að mæta. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Þau eru buguð af vanlíðan og kvíða segjast jafnvel vilja deyja.
Allt þetta er í boði núverandi borgarstjórnar. Lítið sem ekkert er gert úr vandanum og gagnrýni afskrifuð sem dylgjur og rugl.
Kolbrún vill berjast fyrir meira sjálfstæði skólanna, að þeir velji hvaða reglur og stefnur þeir setja sér. Hverfin séu mörg hver ólík og þarfir nemendanna ekki alltaf þær sömu. Þá vill hún efla sérskólana til muna og gera börnum auðveldara um vik til að komast inn í þá.
Börn sem eru rétt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru varðandi vitsmunaþroska þeirra, lenda í almennum bekkjum og eiga þá oft mjög erfitt uppdráttar. Þau börn sem hins vegar komast í sérskóla kynnast venjulegu skólalífi á sínum forsendum. Þar geta þau lært eins og aðrir, sinnt félagslífi og verða ekki fyrir aðkasti enda eru þar meðal jafninga. Skóli án aðgreiningar er falleg hugsjón sem er alls ekki að virka
Ertu hlynnt einkarekstri í skólum?
Það eru kostir og gallar en ég er alltaf dálítið hrædd við einkarekstur því að þegar rekstur er hagnaðardrifinn, kemur það því miður oft niður á þjónustunni. Ég vil frekar sjá sérúrræði innan opinberu skólanna og aukið fjármagn.
Ekki lengur miðborgin mín
Annað höfuðmálefni Flokks fólksins er að allir geti fengið þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði. Kolbrún segir að sú þéttingarstefna sem rekin er af meirihlutanum nú, sé ekki gerð fyrir hinn almenna borgara og þá sem haldið er hér í fátækt.
Við sáum í fréttum að það er verið að byggja fjögur hundruð milljóna króna íbúðir með útsýni að Hörpunni. 101 er ekki lengur miðborgin mín. Ég er alin upp í Vesturbænum og lék mér í kringum Tjörnina. Þessi miðborg er aðeins fyrir auðjöfra og ferðamenn. Við hin, hinn sauðsvartur almúginn, getum verið annars staðar. Kannski einhvers staðar í tjaldi, þó ekki lengur í Laugardalnum.
Hvar viljið þið byggja?
Hvar sem hægt er að byggja. Það vantar íbúðir á við heilan Mosfellsbæ Það er neyðarástand í húsnæðismálum og það þarf neyðaraðgerðir, rétt eins og í Eyjagosinu og þegar við byggðum upp Breiðholtið á sínum tíma. Það er til nóg af lóðum innan borgarmarkanna.
Hvernig á að fjármagna alla uppbygginguna?
Ég hef áður vísað til þess að við viljum samvinnu við lífeyrissjóði og ríkið. Ef allir leggjast á árarnar þá munum við lyfta algjöru grettistaki í því að koma fólkinu okkar í öruggt skjól. Þessi sérstaka uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis mun ekki einkennast af græðgisvæðingu heldur verður hún algjörlega óhagnaðardrifin. Kjörorðið okkar er Fólkið fyrst
Bent hefur verið á að nágrannasveitarfélög beri einnig ábyrgð og Kolbrún tekur heilshugar undir það. Hún segir að borgin geti þó ekki vikist undan ábyrgð með því að benda á vankanta annars staðar. Stefna Flokks fólksins er skýr í þessum efnum, það er að sameina eigi öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, til að samrýma kerfi og minnka yfirbyggingu.
Við getum ekki haft bæjarfélög fyrir útvalda eins og til dæmis Seltjarnarnes og Garðabæ. Álagið lendir þá af meiri þunga á Reykjavík sem er ekkert annað en mismunun. Ég held að það verði stutt í að þetta komist til tals á Alþingi.
Kolbrún vill minnka flækjustigið hjá stjórnsýslu borgarinnar, fækka nefndum og einfalda kerfið. Borgarstjóri beri á endanum ábyrgðina en langar boðleiðir til hans og úrvinnsluferli þar sem einn bendir á annan valdi óréttlætanlegum töfum á málefnum þeirra sem reiða sig á kerfið.
Grét þegar bíllinn var dreginn burtu
Núverandi meirihluti borgarstjórnar er með algjörlega brenglaða forgangsröðun að mati Kolbrúnar. Henni fallast hendur þegar umræðan beinist sífellt að grænni borg, þéttingu byggðar og borgarlínu. Í samgöngumálum vill Flokkur fólksins efla strætisvagnakerfið, þannig að það virki fyrir allra með tíðum ferðum. En þrenging gatna og fá bílastæði er orðið stórt vandamál að mati Kolbrúnar.
Ég fékk símhringingu frá Landspítalanum þar sem mér var sagt að móðir mín væri að deyja. Ég þusti af stað en fann hvergi bílastæði við spítalann. Í örvæntingu lagði ég á ólöglegum stað og hljóp inn. Þegar ég kom út af spítalanum, tveimur tímum síðar var búið að draga bílinn minn í burtu. Ég settist niður á götuna og fór að hágráta.
Auk þess er margt í samgöngu kerfinu sem virkar ekki eins og til dæmis ljósakerfið. Karl Berndsen, öryrki og hárgreiðslumeistari, er í öðru sæti á listanum. Hann er lögblindur og gerði úttekt á gönguljósum.
Hann komst að því að um 60 til 80 prósent ljósanna virkuðu ekki fyrir blinda. Þessu er komið upp en síðan er því ekki haldið við. Þetta er dæmi um nauðsynlega þjónustu fyrir fatlað fólk og það gengur ekki að þetta sé svona.
Amma og afi borguðu
15.5.2018 | 15:01
Biðlisti í greiningu og viðtöl hjá sálfræðiþjónustu í skólum borgarinnar er langur. Víða er einum sálfræðingi ætlað að sinna þremur til fjórum skólum.
Í stað þess að fjölga sálfræðingum hefur borgarmeirihlutinn ákveðið að draga úr svokölluðum greiningum enda séu þær oft ofnotaðar en þetta voru orð eins borgarfulltrúa á fundi um daginn þegar spurt var út í málefnið.
Vegna þessa hafa foreldrar neyðst til að fara með börn sem tengja vanlíðan sína við námsgetu á einkareknar sálfræðistofur til að fá styrkleika og veikleika kortlagða. Fyrir þetta er greitt að lágmarki 150.000 krónur.
Að sinna börnum er grunnstefið í stefnu Flokks fólksins og sem oddviti og skólasálfræðingur til fjölda ára er það mat mitt að þegar kemur að sálfræðiþjónustu við skólabörn hafi borgarmeirihlutinn stigið allt of fast á bremsurnar.
Tökum sem dæmi barn sem tengir vanlíðan sína við námið. Kennarar reyna eftir bestu getu að mæta þörfum barnsins. Barnið fær að vinna í smærri hópum, fær e.t.v. léttara námsefni eða minna heimanám. Engu að síður líður því illa í skólanum. Sjálfsmatið versnar og smám saman fer barnið að forðast námið. Þegar komið er í efri bekkina er barnið kvíðið og neitar jafnvel að fara í skólann. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að vera á biðlista eftir sálfræðiþjónustu í marga mánuði.
Í tilfellum sem þessum, sem eru æði mörg er brýnt að barnið fái greiningu strax með þar til gerðum greiningartækjum sem aðeins sálfræðingar mega notað. Um gæti verið að ræða sértækan námsvanda; málþroskaröskun, frávik í skynhugsun, slakt vinnsluminni og athyglisbrest. Þegar niðurstöður greiningar liggja fyrir er gerð einstaklingsnámskrá sem sniðin er að þörfum barnsins.
Stefna borgarinnar í þessum málum hefur leitt til þess að fjöldi barna í borginni fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa. Efnaminni foreldrar hafa ekki efni á þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðings. Í mest sláandi tilfellum hafa foreldrar fengið lán eða afi og amma hafa greitt fyrir þjónustuna.
Flokkur fólksins getur ekki liðið að sparað sé þegar börn eru annars vegar. Tekjur borgarsjóðs eru yfir hundrað milljarðar króna. Við höfum vel efni á að sinna börnunum okkar með fullnægjandi hætti.
Flokkur fólksins er með fjölskylduna í forgrunni í sinni stefnu. Það sem snýr að börnum og foreldrum þeirra er sett í forgang. Markmiðið er að biðlistar eftir þjónustu þar sem börn eru annars vegar hverfi með öllu í stofnunum borgarinnar.
Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík