Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Þriðja Táknið, bókin á náttborðinu

Kannski er ég smá skrýtin. Ég hef verið með bókina, Þriðja Táknið eftir hana Yrsu Sigurðardóttur á náttborðinu nú bráðum í 2 mánuði. Lesturinn gengur hægt því mér þykir bókin afburða leiðinleg. Þessi bók hefur farið sigurför um heiminn og búið er að þýða hana á fjölmörg tungumál nú síðast á Kínversku. Ég trúi því þess vegna varla að ég er að  „krebera “ yfir þessari bók.
Hvað er málið hér? Hvernig má það vera að „allir“ eða alla vega mjög margir dásama þessa bók á meðan ég virðist varla ætla að geta lokið við að lestur hennar?  Strax í upphafi fannst mér innihaldið (lýsingar á morði) skjóta langt yfir markið t.d.  hvað varðar ógeðslegheit og síðan hef ég einfaldlega aldrei upplifað neina spennu við lesturinn, ekki einu sinni væga spennu eða eftirvæntingu. Meintir morðingar frekar en morðingi  en ég tek það fram að ég er nú í þessum skrifuðu orðum á bls. 270 af 351, virðast vera samnemendur hins myrta,  háskólanemar sem hafa verið að fikta í kukli ásamt þeim sem myrtur var.
Gott ef ég næ að lesa eina blaðsíðu í kvöld og kannski aðra á morgun osfrv.  Ég mun því ljúka lestri bókarinnar einhvern tímann undir vorið. 
Fyrirgefðu Yrsa, ég sé að þú hefur gott tak á íslenskri tungu og mörg orðatiltæki og hugsun þeim að baki eru snjöll, en efnið, þráðurinn og/eða lýsingarnar (veit ekki hvað af þessu nema allt sé) eru a.m.k. hvað mig varðar lítt skemmtilegt að lesa. Ég skal samt klára bókina þó ekki nema á öðru en þrjóskunni.
Ég hef lesið allar bækur Arnaldar og gengið ágætlega að ljúka þeim enda þótt þær hafi að sálfsögðu verið mismunandi. Ég er viss um að Yrsa er gott efni í rithöfund. Að mínu mati fór hún bara of bratt svona í fyrstu lotu.


Húrra!! Bráðum er hægt að fara á kaffihús sem er án reykjarstybbu.

Nú fer að líða að því að hægt verði að fara á kaffihús, veitingastaði og bari sem ekki eru fullir af reykjarfýlu.  Ég hlakka til. Þvílíkur lúxus, nú kemur maður bara heim af þessum stöðum og þarf ekkert endilega að fara í sturtu til að ná af sér stybbunni eða setja endilega fötin í þvott. Ein vinkona mín sem var að fara á krá með vinum sínum ákvað að fara í gömlu kápunni sinni sem hún er löngu hætt að nota því þá myndi hún ekki þurfa að splæsa hreinsun á kápuna sem hún gengur dags-daglega í.
Enda þótt veitingastaðir og kaffihús hafa haft afmörkuðuð svæði fyrir reykingarfólk þá smitaðist reykurinn og lyktin ávalt um allan staðinn. Á krám og börum er í raun algerlega ólíft þegar líða tekur á kvöldið. Þetta er því það eina sem dugar. Ég veit að margir eru ekki sáttir við þetta. Ég hef þá von og trú samt að þeir aðlagist og að þetta verði til þess að þeir dragi úr reykingum sínum og helst hætti alveg.

Hugur (ekki hagur) Hafnarfjarðar, hver er hann?

Jæja, nú er að koma að því. Spennan vegna kosninganna í Hafnarfirði fer vaxandi. Hver skyldi nú hugur Hafnarfjarðar vera á morgun?  Mér skylst að úrslitin geti oltið á örfáum atkvæðum. Ég hef reynt að fylgjast með umræðunni og heyri eitt og annað þessu tengdu í starfi mínu í einum grunnskóla Hafnarfjarðar. Aragrúi greina hefur verið skrifaður með og á móti. Enda þótt ég sé ekki fullnuma í bakgrunnsfræðunum hef ég myndað mér skoðun á þessu máli. Ég er með stækkun álvers í Hafnarfirði. Mér finnst í raun að ekki einungis Hafnfirðingar hefðu átt að fá að kjósa um þetta. Málið snertir marga aðra en þá. Satt að segja finnst mér það óðs manns æði að vera á móti þessu og myndi sannarlega finna til með bæjarbúum verðir niðurstaðan sú að stækkuninni verði hafnað.
Í Mbl í dag er ágætis yfirlit (á bls. 20) um margvísleg rök sem andstæðingar og stuðningsmenn stækkunar færa fyrir máli sínu. Eftir að hafa lesið það finnst mér rök þeirra sem eru á móti, alla vega sum hver, afar ósannfærandi.  Til dæmis þar sem segir „Hótanir Alcan um að loka í Straumsvík fái þeir ekki að stækka hafa verið kallaðar hræðsluáróður af okkur andstæðingum stækkunar“.  Að mínu mati eru þetta engin rök heldur afneitunar og blekkingaleikur. Það er afar líklegt ef ekki staðreynd að verði stækkun ekki samþykkt þá muni innan skamms ekkert álver vera í Hafnarfirði.  Með því að hafna þessu eru starfsmöguleikar Hafnfirðinga í uppnámi, tekjum kastað á glæ og hætta á að fyrirtæki flosni upp. Hafnfirðingar! Ekki láta það gerast.

Hvað er DRG?

Ég hlustaði á áhugaverðan fyrirlestur á Rótarýfundi í Rótarýklúbbnum mínum Reykjavík-Asturbæ í hádeginu í dag. Þar talaði Margrét Hallgrímsson sviðstjóri á Kvennasviði LSH um sín störf og rekstur sviðsins.  Kvennasviðið er DRG fjármagnað sem þýðir að greiðslukerfið er byggt á framleiðslu. Ákveðinn DRG flokkur gefur fasta fjárupphæð og í sama DRG flokk lenda sjúkdómsgreiningar sem kosta u.þ.b. jafn mikið. Stjórnendur DRG fá upplýsingar um tekjur og útgjöld í einum pakka, sjá hvaða einstaka sjúklingahópar kosta, sjá á einfaldan og skýran hátt hvaða þjónusta er veitt og hvað hún kostar og sjá auðveldar sveiflur á ársgrunni.
Föst fjármögnun er hins vegar við lýði alls staðar annars staðar á LSH. Þjónustueining með fasta fjármögnun fær fjárheimild án tillits til framleiðslu. Stjórnendur fá upplýsingar úr mörgum kerfum aðallega kostnaðarliði. Þeir sjá þegar kostnaður eykst en þó aðallega vegna aukins launakostnaðar. Stjórnendur eiga þannig erfitt með að bera starfsemina saman við aðrar samskonar einingar og eiga jafnframt bágt með að aðgreina hvað einstaka sjúklingahópar kosta.

Maður skyldi ætla, samkvæmt þessu, að DRG væri það form sem LSH myndi vilja taka upp fyrir öll sín svið.  Þess vegna kom það mér á óvart að heyra Margréti segja að Sviðið hefur þurft að berjast fyrir að fá að hafa þetta rekstrarform en ekki fasta fjármögnun. Hvernig getur heilbrigðisráðuneytið ekki viljað viðhafa rekstrarform sem skilar hagræðingu heldur frekar ríghalda í form sem löngu er búið að sýna ótal vankanta?Shocking


Kosningarnar í vor og velferðarmálin

Það kom mér ekki á óvart að lesa að velferðarmálin voru talin mikilvægust af sex málefnum sem fólk var beðið um að gefa einkunn í skoðanakönnu Fréttablaðsins. Þegar ég var í prófkjörinu skynjaði ég áhuga fólks á að setja velferðarmálin á oddinn. Ég, sem sálfræðingur, tók þessu vissulega fagnandi enda hef ég fundið í gegnum starfið hvar og hvernig mætti bæta eitt og annað sem snýr að þessum málaflokki. Þetta var ein af aðalástæðum þess að ég gaf kost á mér í þetta prófkjör. Ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar skoðanakönnunar þá setti Sjálfstæðisflokkurinn reyndar efnahagsmálin efst. Þau eru sannarlega mikilvæg og kannski er ekkert hægt að segja að einn málaflokkur sé mikilvægari en annar. Hitt er víst að sé fólk í persónulegum vanda; tilfinningar,- eða félagslegum vanda þá er eins og það hafi margföldunaráhrif. Velferð er undirstaða þess að hægt sé að njóta alls þess góða sem okkar þjóðfélag býður að öllu jöfnu upp á.

Ísland í dag og Kastljósið kvöldið 26. mars.

Bæði Ísland í dag og Kastljósið voru með áhugavert efni í kvöld. Fyrst má nefna aurskriðuna fyrir norðan. Mikið lifandi skelfing er þetta fólk frábært, sterkt og mikil ljúfmenni. Þau halda fullkominni yfirvegun. Manni finnst eitthvað svo dapurt að sveitarfélagið skuli ekki einfaldlega koma þarna og taka til hendinni. Öðruvísi verður ekki svona verk, sannkallað drulluverk unnið. Ég skora á Eyjafjarðarsveit að taka málið í sínar hendur.
Svo er það viðtalið við veslings fyrrverandi lögreglumanninn hann Björn. Ég minnist þess að hafa lesið um þetta í einhverju dagblaðanna á sínum tíma, þá sjálf nýkomin heim frá námi. Síðan fréttist ekkert meira af þessu. Hitt er að svona var þetta á þessum árum og allt fram til þess að vitundarvakning varð í þjóðfélaginu og Barnahús var stofnað. Ég er svo sannfærð um að svona viðbrögð eins og þessi maður, Björn, sýndi þegar stúlkurnar leituðu til hans voru ekki svo óalgeng á þessum tíma. Hann má eiga það karl greyið að hann viðurkenndi mistökin og er tilbúinn að biðjast afsökunnar. En svona var þessi samtími.  Fólk réði einhvern veginn ekki við umræðu af þessum toga eða þessi  hugtök hvað þá að ímynda sér hvernig bregðast ætti við. Lausnin var að þagga upplýsingar, vitneskju um svona lagað í hel skytust þær upp á yfirborðið. Ef grunnsemdir voru til staðar voru þær einnig oft bældar niður.
Margt vatn hefur runnið til sjávar í þessum málaflokki, svo mikið er víst. Ég spái í hvernig mínir eigin foreldrar hefðu brugðist við hefði maður lent í því að vera misnotaður/áreittur kynferðislega og ákveðið að segja frá því.  Svei mér þá, ég er ekkert viss um að neitt hefði verið gert nema manni ráðlagt að forðast viðkomandi.


Konur í vændi (breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna)

Ég er bara tiltölulega sátt við þessi nýju lög. Með því að gera hvorki kaup né sölu vændis refsiverð er minni hætta á að vændi fari neðanjarðar. Auk þess er auðveldara fyrir þann sem stundar vændi að bera vitni í málum gegn vændismiðlurum sem og mögulegu ofbeldi sem þeir sem stunda vændi kunna að verða fyrir af hálfu kaupenda.  Veigamesta atriðið í þessu er að einhver 3. aðili (melludólgar) geti ekki haft af þessu fé. Jafn mikilvægt er að taka af hörku á allri miðlun og auglýsingum. Hvað tveir fullorðnir einstaklingar (eldri en 18 ára) ákveða að gera sín á milli er síðan þeirra mál.
Hvað varðar afnám fyrningarfrestsins í alvarlegustu kynferðisbrotamálunum gagnvart börnum er einnig jákvæð breyting. Kannski leiðir það ekki til fleiri sakfellingar vegna þess hversu sönnunarstaðan er erfið þegar langt er um liðið en þetta hefur móralska þýðingu. Gerendur vita nú að hægt er að sækja þá til saka á öllum tímum, þeir eru sem sagt aldrei sloppnir. Kannski það stoppi einhverja þeirra.
Ég er einnig afar sátt við að nú hefur kynferðislegt áreiti s.s. að þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns verið lögfest. Þessi atriði voru áður ætíð á gráu svæði í lagakerfinu. Margt jákvætt má segja um þessar nýju breytingar.
Vildi bara að þær hefðu litið dagsins ljós miklu fyrr.
 


Blogg ætlað uppalendum

Ég hef í all mörg ár verið eins og þeytispjald með fræðsluinnlegg um samskiptamál og tengd málefni fyrir hinar ýmsu fagstéttir s.s.  starfsfólk frístundaheimila, starfsmenn íþróttamiðstöðva og sundlauga, starfsmenn skóla og íþróttaþjálfara, flokksstjóra... Ég hef í dag verið að undirbúa innlegg sem ég ætla að vera með í Áslandsskóla á mánudaginn.  Efnisyfirlitið er svona:
1. Barnið, algengustu vandamál og orsakir
2. Skólastarfið, eðli og kröfur
3. Forvarnir og fyrirmyndir
4. Agi og agavandamál
5. Kjarni góðra samskipta
6. Helstu reglur í uppeldismálum
7. Snertisamskipti

Ég ætla að deila með ykkur einum, tveimur uppeldisgullmolum ef þið gætuð nýtt ykkur í uppeldishlutverkinu.
Það sem óvart veldur stundum hegðunarvanda:
1. Barnið fær ekki umbun fyrir að sýna sérlega góða hegðun (dæmi: gleymist að taka eftir því og minnast á það)
2. Barnið fær umbun fyrir óþekkt (dæmi: gefið er eftir þegar barnið er búið að grenja nóg)
3. Barnið er óvart skammað fyrir góða hegðun (dæmi: barnið gerir eitthvað jákvætt en fær skammir fyrir að gera ekki betur eða eitthvað öðruvísi)
4. Barnið er ekki áminnt þegar það sýnir af sér slæma hegðun (dæmi: barn lemur systkini sitt og enginn segir neitt).

Hvernig skal áminna.
Áminning/athugasemdir skulu beinast að hegðuninni/atferlinu en ekki persónunni.
Mikilvægt er að gera ekki atlögu að persónuleika barnsins þegar verið er að ávíta það.
Segja: „Mér þykir óendanlega vænt um þig/elska þig en mér líkar hins vegar ekki hegðun þín“


Pólitískar embættisráðningar og klíkuskapur

Það er vonandi að pólitískar embættisráðningar og annar ámóta klíkuskapur innan stjórnmálaflokka fari nú brátt að heyra sögunni til. Hvernig skyldi þessum málum vera háttað hjá nágrannaþjóðum okkar?
Enn virðist þetta vera algengt hér á landi sbr. umfjöllun í Fréttablaðinu í dag en þar kemur m.a. fram að pólitískar embætisráðningar i utanríkisþjónustunni hafi aukið til muna undanfarin ár. Ef klíkuskapur hvort sem það eru ættar- eða vinatengsl á að ráða hver fær hvaða embætti eða stöður þá má gera því skóna að sá hæfasti hreppi sjaldnast hnossið.

Leyndarmál lífsins í tilefni dagsins

Mig langar að blogga eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
Hvað er það sem skiptir máli?
Hvað er það sem er gaman og hvað er það sem mig langar að ná betri tökum á?
Þetta eru allt afar persónulegar spurningar og svör fólks sem fá við þeim því mjög einstaklingsbundin.
Svona í hnotskurn eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá skiptir heilsan öllu máli því án hennar er hætta á að skemmtilegir hlutir fái á sig gráan blæ. Að sama skapi skiptir vellíðan og velgengni ástvinna okkur öllu máli til að við getum notið okkur að fullu.
Það sem hefur gefið mér hvað mesta gleði er vinna mín með börnum og unglingum í starfi mínu sem sálfræðingur. Að vinna með börn er forréttindi. Ef maður einfaldlega temur sér að HLUSTA á hvað þau eru að segja, skilja þeirra hugarheim þá er árangur skammt undan.  Ég spyr flest þau börn sem ég tala við eftirfarandi spurninga:
1. Ef þú ættir eina ósk hvers myndir þú óska þér?
2. Hvað er það sem er gott í lífi þínu?
3. Hvað er það sem er ekki svo gott í lífi þínu?
4. Er það eitthvað sem þú vilt að breytist heima og/eða í skólanum
5. Hvað er það sem þú getur gert til að breyta því og hvað er það sem aðrir þurfa að gera til að breyta því?

Þau svör sem ég fæ við þessum spurningum gefa mér venjulega gott hráefni til að halda áfram að vinna í átt að lausn og betri líðan barnsins og fjölskyldu þess.

En hvaða er það sem miðaldra konu svona eins og mig langar mest til að ná árangri með?
Jú, það er að „master the mind“ eða að ná enn betra valdi á hugsunum með þeim hætti að temja sér stöðugt jákvæðar hugsanir og fleygja öllum þeim neikvæðum út. Þetta er gamla góða hugræna atferlismeðferðin sem ekki bara virkar vel fyrir þá sem stríða við þunglyndi eða depurð heldur einnig alla aðra. Kjarnin er að hafa skýr markmið og sjá fyrir sér og trúa að maður nái þessum markmiðum. Gott er að muna samhliða þessu að maður breytir ekki öðrum en maður getur breytt sjálfum sér og framkallað þannig annars konar viðbrögð frá umhverfinu. Áhrif hugsana, skoðanaorku og frágeislunar á umhverfið held ég að sé oft vanmetin. Ef hugsanir og orkan þeim tengd er neikvæð er hætta á að maður dragi að sér neikvæða hluti og að sama skapi ef hugsanir eru jákvæðar þá laði maður að sér jákvæða þætti bæði fyrir sjálfan sig og þá sem hugsunin nær til.

Eigið þið öll góðan og blessaðan dag.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband