Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Breiðavíkurdrengir stefna ríkinu

Þessi frétt olli mér vonbrigðum. Undanfarnar vikur hefur íslenska ríkið verið að finna leiðir til að bæta Breiðavíkurdrengjunum upp þann hræðilega tíma sem margir þeirra áttu í Breiðavík. Unnið hefur verið að því að leita leiða með hvaða hætti hægt er að milda þennan skaða sem að sjálfsögðu aldrei er hægt að bæta að fullu frekar en aðra skelfilega reynslu sem sumir hafa orðið fyrir í bernsku. Íslenska ríkið hefur boðið bætur svo sem í formi sálfræðiaðiaðstoðar sem hluti þessa hóps hefur þegið að nýta sér. Nú hafa nokkrir menn sem þarna voru ákveðið að stefna íslenska ríkinu sem þýðir að „ríkið“ þarf að skipta um hlutverk og fara að verjast. Einhvern veginn virkar þetta á mig þannig að nú séum við ekki að vinna saman í þessu lengur heldur er e.t.v. langt og mikið deiluferli framundan þar sem deiluefnið fjallar um peninga. Ég spyr, hverjir eru hvatamennirnir að svona málaferlum? Eru það Breiðavíkurdrengirnir eða lögmenn þeirra?

Heimilisfang Geirs Þórissonar sem afplánar 20 ára dóm í Bandaríkjunum

Viðtal við Geir Þórisson sem nú afplánar 20 ára dóm fyrir líkamsárás í Bandaríkjunum var sýnt í Kastljósi þann 5. mars síðastliðinn. Áframhaldandi umfjöllun var um mál hans í Kastljósi þann 6. og 7. mars. Viðtalið hreyfði við mörgum enda alveg ljóst að þær aðstæður og sú félagslega einangrun sem hann hefur nú búið við í 9 ár eru vægast sagt ömurlegar.

Geir hefur ekki verið gefinn kostur á að stunda nám og möguleikar hans til samskipta við fjölskyldu og vini eru verulega takmarkaðir. Sökum þeirra sterku viðbragða sem fjöldi manns sýndi í kjölfar viðtalsins hafa ættingjar Geirs gefið leyfi fyrir því að dreifa heimilisfangi hans til þeirra sem vilja senda honum góðar kveðjur. Hægt er að senda honum bréf (aðeins þunn umslög) en ekki er hægt að senda honum pakka.
Fyrir einstakling í þeirri stöðu sem Geir er í þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu uppörvandi það er fyrir hann að fá sendar kveðjur héðan að heiman og finna að landar hans hugsa til hans. Hvatningarorð okkar geta verið það haldreipi sem Geir þarfnast svo mjög við þessar erfiðu aðstæður.
Hægt er nálgast viðtalið við Geir á www.ruv.is <http://www.ruv.is/>

Heimilsfang Geirs*:

Geir Thorisson 263907
Grcc HU 5-425
901 Corrections.way
Jarrett VA 23870

U.S.A.

Aðstandendur Geirs hafa stofnað bankareikning í hans nafni fyrir þá sem vilja sýna stuðning með framlagi:

Landsbankinn í Grafarvogi, 0114-05-061708, kennitala 080469-3819, Geir Þórisson.


Átröskun. Hver ber ábyrgðina?

Ég var að lesa viðtal við Ölmu Geirdal í Fréttablaðinu frá því í gær. Ég vil byrja á að hrósa þessari ungu konu og Eddu, samstarfskonu hennar fyrir framtak þeirra í þeirri viðleitni að varpa hulunni af átröskunarsjúkdómum. Í greininni kemur fram eitt og annað sem Alma er ósátt við eins og t.d. gengdarlaus umræða um heilsufæði og heilsusamlegt líferni, svo ekki sé minnst á megrunarkúra. Eins gagnrýnir hún hina svokölluðu kjörþyngd, segir að það hugtak geti verið varasamtsem og líkamsræktarstöðvar fyrir börn sem hafa nú litið dagsins ljós. Það nýjasta eru átröskunarhópar fyrir nýbakaðar mæður sem þyngst hafa um og of á meðgöngu.
Það má vel skrifa undir þessar áhyggjur Ölmu, allar öfgar í þessu máli sem öðru skal varast. Hins vegar finnst mér við hljóta að eiga að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að fólk og ekki hvað síst börn þyngist yfir höfuð það mikið að þau fari að leita í einhver örþrifaráð til að grenna sig. Besta leiðin er eins og gamla máltakið segir að „byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann.“
Hvað börnin varðar þá er ábyrgð foreldranna mikil. Foreldrarnir eru fyrirmynd og ef þeir sýna í verki hvaða lífstíll er vænlegastur til vellíðan þá er afar líklegt að börnin fylgi því eftir. Ef foreldrarnir taka eftir því að barnið þeirra er að þyngjast umfram það sem almennur þroski þess gerir ráð fyrir er mikilvægt að grípa inn í. Saman geta foreldrar og barn leitað orsaka hvort sem þær eru að finna í neyslumynstrinu, fæðutegundum eða skorti á hreyfingu. Ef gripið er fljótt inn í er hægt að stöðva frekari óheillaþróun. Ástæðan fyrir því að margir foreldrar veigra sér við að ræða þessi mál við barnið sitt er ótti við að barnið bregðist harkalega við og grípi þá jafnvel til þess ráðs að hætta að borða. Málið er að það er ennþá hættulegra að láta barnið afskipt og taka þá áhættu að það síðar meir leiti skaðlegra leiða til að grennast. Eins er það með þungaðar konur. Maður skyldi ætla að með góðri ráðgjöf og almennri skynsemi geti sérhver þunguð kona verið meðvituð um að varast að þyngjast ekki svo mikið að eftir fæðinguna sitji hún uppi með megnið af aukakílóunum. 


Hafðu áhrif!

Málefnanefndir Sjálfstæðisflokksins eru nú að halda opna fundi fundi í Valhöll.  Á morgun 19. mars kl. 17.15 er fundur í Velferðarnefnd  en sú nefnd var sameinuð eftir síðasta landsfund og í henni eru heilbrigðis-, og tryggingarnefnd og nefnd um málefni aldraðra. Fundurinn er opinn öllum sjálfstæðismönnum  og nú er um að gera að mæta og leggja sitt af mörkum. Ég hyggst mæta og langar til að vekja athygli á tveimur málefnum:

1. Á áralangri baráttu sem sálfræðingar hafa átt við
Heilbrigðis- og tryggingarráðuneytið hvað varðar þjónustusamning
Félagsins við TR. Þetta málefni er ekki hvað síst mikilvægt nú í kjölfar umræðunnar um skort á fagfólki á stofnunum eins og í Byrginu.

2.  Að eldri borgurum verði gefin kostur á að vera áfram á vinnumarkaði óski þeir þess og án þess að lífeyrir þeirra verði skertur.  Þetta er margt hvert orkumikið fólk sem er tilbúið að starfa áfram.
Um gæti verið að ræða léttari störf, ýmis hlutastörf eða fullt starf ef því er að skipta.
Þess vegna þarf að lyfta þakinu með þeim hætti að þeir sem vilja og geta starfað áfram eigi þess
kost.  Þessi hópur hefur öðlast ævilanga reynslu og safnað fjölþættri þekkingu. Með því að auka hlutfall eldri borgara á vinnumarkaði geta þeir miðlað til okkar hinna þroskuðum viðhorfum,
sögulegum venjum og hefðum, dýrmætum menningararfi sem skilar sér hvað best í munnlegum samskiptum frá einum aðila til annars. Því lengur sem eldri borgarar eru virkir í atvinnulífinu og í sem nánustu tengslum við yngri kynslóðirnar því meiri ávinningur fyrir samfélagið í heild."

Sjálfstæðismenn, mætum á fundinn á morgun og söfnum í sarpinn fyrir landsfund.


Ókeypis lögfræðiaðstoð mun sannarlega nýtast mörgum innflytjendum ekki hvað síst konunum

Lögrétta, félag laganema við HR ætlar að bjóða innflytjendum ókeypis lögfræðiaðstoð í Alþjóðahúsi. Þessu ber að fagna. Ásamt því að upplýsa innflytjendur um réttarstöðu sína á Íslandi þá er hópur kvenna á hverjum tíma sem þarfnast ráðleggingar og lögfræðiaðstoðar er varðar hjúskparrétt og forsjár- og umgengnismál.  
Aðilar beggja vegna borðs munu græðu á þessu framtaki; lögfræðinemarnir öðlast dýrmæta reynslu og innflytjendur fá lögfræðiaðstoð sem þeir að öðrum kosti myndu jafnvel ekki geta sótt sér bæði vegna þess hversu kostnaðrsöm hún er og einnig vegna þess að þeir vita e.t.v ekki hvert þeir eiga að leita. 
Ókeypis lögfræðiþjónusta ásamt því að bjóða innflytjendum upp á íslenskunám þeim að kostnaðarlausu hlýtur að vera kjarninn í stefnu okkar Íslendinga í innflytjendamálum.


Kynferðislegt áreiti á sundstöðum

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi nýverið karlmann til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir að leita á ungar stúlkur þegar þær voru við leik í sundi. Á námskeiðum sem ég hef haldið fyrir starfsmenn sundlauga höfum við einmitt verið að fara í þetta efni. Kynferðislegt áreiti á sundstöðum getur verið erfitt að koma auga á, hvað þá að sanna og myndi ég halda að það sé algengara en margan grunar. Hvað er það við sundstaði sem hugsanlega laða gerendur að?
Á sundstaði koma jú saman mörg börn á öllum aldri. Í sundi eru mörg tækifæri til að áreita; t.d. klípa í, káfa og nudda sér upp við annan aðila undir yfirborði vatnsins. Algeng dæmi eru líka að gerendur rekist „óvart“ í og lendi þá „óvart“ á viðkvæman stað osfrv.
Þættir sem laða gerendur að:
Þeir geta hagað sér eins og börn
Starfsmenn eiga erfiðara með að hafa eftirlit og yfirsýn
Auðvelt er að fela sig bak við nafn- og klæðaleysi
Auðvelt er að komast í líkamlega snertingu

Ástæðan fyrir því hversu erfitt getur verið að hafa auga með þessu er að ekki er alltaf hægt að álykta hvort hinn fullorðni þekki barnið eða hvort kynnin hafa átt upptök sín í sundlauginni og staðið þá jafnvel yfir í einhvern tíma. Gerandi hefur þá náð að mynda traust við barnið sem grunar ekki annað en að þarna sé hættulaus einstaklingur á ferð.
Hvaða börn eru í áhættu?
*Börn sem eru félagslega einangruð
*Börn sem lögð hafa verið í einelti
*Börn sem hafa lágt sjálfsmat/brotna sjálfsmynd
*Börn sem skortir hlýju, umhyggju og athygli
*Börn sem eiga við einhverskonar fötlun að stríða.

Hvað geta starfsmenn gert? Starfsmenn eru að sjálfsögðu með vökult auga og grípa inn í ef grunur er um eitthvað vafasamt liggur fyrir. Eins ef barn kemur og segir frá þá skal undantekningalaust kanna málið. Mikilvægt er að góðar verklagsreglur liggi fyrir á sundstöðum um hvernig bregðast skuli við uppákomum sem þessum. Gríðarlega mikilvægt er að foreldrar fræði börn sín um þessa hættu þannig að þau læri að meta aðstæður standi þau frammi fyrir tilvikum sem þessum. Eins að hvetja börn til að láta vita, segja frá hafi þau orðið fyrir áreiti af einhverju tagi.


Níundu bekkingar í menntaskóla. Gott mál!

Ég er mjög ánægð með að skoða eigi möguleika á sveigjanlegum námstíma í grunnskóla í báða enda. Sem skólasálfræðingur í Áslandsskóla þá skynja ég sterkt hversu gríðarlega mikill fjölbreytileiki er innan þessa hóps á öllum sviðum og að útilokað er að ætla að setja alla undir sama hatt hvað varðar námskröfur eða hraða námsferils. Því meiri sveigjanleiki og einstaklingsbundnar námsleiðir því betra. Þannig geta foreldrar og síðan unglingarnir þegar þeir nálgast 9. bekk  fengið að móta eigin námsfarveg allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Heyrst hafa óánægjuraddir sem segja að þarna sé verið að hafa af börnunum bestu árin. Þetta eru meiningarlaus orð þar sem ekki er hægt að sjá neina tengingu milli lengd grunnskólanáms og „bestu áranna“. Það hentar ákveðnum hópi barna bæði vitsmunalega, tilfinninga,- og félagslega að fara hraðar í gegnum grunnskólakerfið en boðið hefur verið upp á hingað til. Öðrum hópi hentar að fara hægar og enn öðrum hópi ennþá hægar.  Þannig er það bara og við eigum að geta mætt þörfum allra þessara hópa í stað þess að steypa alla í sama mót og telja okkur ávalt vita hvað öðrum er fyrir bestu.

Dýr aflífuð áður en farið er í frí

Þetta er fyrirsögn á frétt í Fréttablaðinu í dag. Manni finnst þetta hreint ótrúlegt. Getur verið að einhverjir séu svo miklir tækifærissinnar að eiga dýr t.d. yfir veturinn og aflífa þau svo fyrir utanlandsferðina. Auðvitað er alls konar fólk til, þetta er bara eitthvað svo ljótt og óþarft.  Mér finnst að hver og einn ætti að spyrja sig áður en hann ákveður að eignast gæludýr hvort hann í fyrsta lagi sé hæfur til að annast dýrið og í öðru lagi hvort hann sé tilbúinn til að færa fórnir hvort sem það eru peningafórnir eða annað. Oft er þetta kannski bara spurning um peninga, fólk tímir ekki að borga fyrir gæsluna. Það fylgir því ábyrgð að eiga dýr.


Að leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir ber vott um kjánaskap og tillitsleysi

Hvað gengur þeim ferðamönnum til sem leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir? Þeir sem taka slíka áhættu og lenda síðan í hremmingum eiga að mínu mati að bera kostnaðinn sem til fellur vegna leitar og  björgunaraðgerða. Gera þessir aðilar sér ekki grein fyrir að reikningar björgunasveita eru upp á milljónir? Er þeim kannski bara alveg sama?  Svo er spurning hvort ekki eigi að skylda ferðamenn til að gera grein fyrir ferðaátælunum sínum.


Kjóllinn hennar Ragnhildar í Kastljósinu í kvöld var ..spes..

Þetta var hin mesta furðuflík sem hún Ragnhildur klæddist í Kastljósinu í kvöld og kalla ég nú ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Fyrst sýndist mér dressið vera með grænan, munstraðan smekk en svo kom nú í ljós við nánari athugun að þetta græna, skræbótta stykki var áfast við kjólinn sem var að öðru leyti svartur með einhverjum svona glitrandi borðum undir græna smekknum og á ermunum. Alla vega stórmerkileg hönnun svo mikið er víst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband