Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Fermingarbæklingur Smáralindar; er forsíðan klúr?

Ég verð nú að segja að ég staldraði ekkert við þessa forsíðumynd á fermingarbæklingi Smáralindar þegar hann barst mér í hendurnar. Nú les ég að sumir telja myndina óviðeigandi, hún sýni unga stúlku í vel þekktri stellingu úr klámmyndum. Þegar betur er að gáð finnst mér nú reyndar þessi stelling frekar hallærisleg en mér finnst líka að við verðum að vara okkur á að gengisfella ekki umræðuna um klám. Hvað þetta varðar ríkir án efa mikill einstaklingsmunur; ólíkar upplifanir og skynjun fólks með ólíkan bakgrunn osfrv. Vissulega er gott að vera vakandi fyrir öllu sem gæti skaðað eða misboðið fólki sér í lagi börnum en það þarf líka að varast að oftúlka ekki eða missa okkur út í öfgar í þessu eða nokkru öðru. 

Að aflétta launaleynd er það eina rétta.

Ég er mjög meðmælt því að aflétta launaleynd. Sem fyrrverandi formaður Stéttarfélags sálfræðinga þá er það mín reynsla að pukur og laumuspil hvað varðar hver er með hvaða laun gerir fátt annað en að skapa tortryggni og slæman móral. Þessi mál sem önnur eiga einfaldlega að vera uppi á borðinu. Þá myndast heilbrigður samanburður og réttlæti og rök fá að ráða ferð. Í það minnsta er mun auðveldar að taka á málum svo vit sé í.

 


Landgræðsla; nokkur orð um innlendar belgjurtir.

Innlendu belgjurtirnar mynda saman  breiðan valkost í landgræðslustarfi og í landbúnaði. Þar finnum við t.d. litauðgi  og litablöndur (rauð og hvítsmári, umfeðmingur og vallerta, vallerta og rauðsmári)  og stóar og smáar tegundir sem spanna breiða vist á mörgum sviðum  og þær hafa vaxið hér lengi og náð að aðlagast umhverfinu að einhverju marki. Þær má nýta með ýmsum hætti en það er þeim sameiginlegt að þær þurfa ekki níturáburð til að vaxa vel og aðrar tegundir í nágrenninu njóta stundum góðs af níturbindingu þeirra. Íslensku belgjurtirnar eru  flestar af landnemagerð með nokkur sameiginleg einkenni en einnig nokkur einkenni sem eru ólík.  Baunagras og hvítsmári kunna að henta sums staðar í landgræðslu, vallertan, umfeðmingur  eða giljaflækjan annars staðar. Í landbúnaði má hafa not af  hvítsmára og umfeðmingi. Þær hafa verið vanmetnar í landgræðslustarfi.  Úr því má bæta ef hægt er að rækta af þeim fræ. Þar ætti að vera góður markaður fyrir fræ þessara tegunda.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að kanna nýtingu þesara innlendu belgjurta. Allnokkrir erfiðleikar eru á því að nýta þessar tegundir. Fræframleiðsla þeirra var ekki þekkt og margt benti til að fræ nýttist illa (Jón Guðmundsson, LBHI).

Tvö megin vandamál eru

1. Nýting fræs, innan þess hluta er fræverkun og sambýli övera og plöntu
2. Fræframleiðsla. Innan þess hluta er frævun, fræsláttur og að finna aðferðir og umhverfi  sem gefa mest fræ.

Vorið í nánd

Nú fer sól hækkandi, dagamunur er á birtu og brátt er vorið komið. Á þessum tíma fer maður að hlakka til sumarsins, komast í bústaðinn, sinna gróðrinum og planta trjám og blómum. Ég er þó ekki sú sem er með grænu fingurnar á þessum bæ, heldur er makinn sérfræðingur á sviðinu, kappsamur og verklaginn. Búið er að setja niður um 30 þúsund plöntur þar sem sumarbústaðurinn er nú á lokastigi byggingar. Þetta hefur jú tekið all mörg ár og er nú orðið gríðarlega stórt ræktað svæði með fjölmörgum tegundum tjáa, blóma og belgjurta. Gaman væri að eiga umræðu um þessi mál ef meðal bloggvina leynast áhugamenn um ræktun. Aldrei að vita nema góðar hugmyndir dúkki upp.

Rosaleg harka þarna í USA, við þurfum að vinna að því að fá Geir framseldan

Kastljósið: Ameríkanar eru með mikið harðara dómskerfi en við hér á Íslandi. Skrifræðið er mikið og ósveigjanlegt. Ég bjó þarna í 5 ár og upplifði oft þessa stífni. Stundum var hvorki hægt að rökræða né útskýra. Ég minnist þess eitt sinn að hafa verið skráð í rangan áfanga. Það tók mig alla önnina að fá það leiðrétt. Í raun gerðist það ekki fyrr en eiginmaður minn mætti á staðinn og ræddi við skrifstofustjórann sem málið leystist endanlega. Þá var ég margsinnis búin að reyna að ræða við skrifstofustúlkurnar en án árangurs.
Ég finn mikið til með þessum manni,  honum Geir,  sem búinn er nú þegar að afplána 8 ár og á eftir 7 áður en hann á möguleika á að fá sig lausan. Brotið var alvarlegt því er ekki að neita en þetta er ekki í neinu samræmi við réttarkerfið hér á Íslandi.  Ég vil sérstaklega hrósa umsjónarmanni og fréttamönnum Kastljóss fyrir góða og vel unna umfjöllun. Vona að það skili einhverju.


Varasamt að blogga um erfiða lífsreynslu.

Ég vil taka undir með sjúkrahúspresti í Mbl. í dag þar sem hún ráðleggur foreldrum að hafa bloggsíður barna sinna læstar og að blogg um erfiða reynslu geti haft neikvæðar afleiðingar. Eins og fram kemur og vitað er þá hefur það færst í vöxt að foreldrar langveikra barna bloggi um reynslu sína, tilfinningar og meðferð. Þegar fólk opinberar sig og börn sín með þessum hætti fyrir alþjóð þá er hætta á að einhverjir taka hlutina úr samhengi, misskilningur geri vart við sig og viðbrögð séu ekki endilega alltaf jákvæð. Á þetta hefur áður verið bent og ekki vanþörf á. Blogg eða skrif hvort sem það er sett í bréfaform eða í dagbækur hefur þekkt meðferðargildi, fólk hreinlega skrifar sig frá vanlíðan eða áföllum. Það er mjög svo af hinu góða.  Hvað bloggið varðar er reynslan opinberuð fyrir stórum hópi af alls konar fólki. Vissulega má skilja hversu gott það er fá stuðningsyfirlýsingar og hvatningaorð frá kunnugum jafnt sem ókunnugum, finna að fjöldinn allur fylgist með manni og hugsar til manns. Hættan er samt eins og fyrr segir að ekki séu öll viðbrögð jákvæð. Fyrir foreldra langveikra barna getur slíkt verið mikið áfall og skapað enn meiri vanlíðan en ella. Mín skoðun er sú að fólk í þessari stöðu eigi einungis að hafa bloggsíður sínar opnar fyrir vini og vandamenn en ekki fyrir alþjóð. Slíkt er allt of áhættusamt.


Fjölmiðlar stjórna alfarið þjóðfélagsumræðunni!

Halló!! er leigubílavandinn í miðborginni eitthvað nýr af nálinni??? Það mætti halda það því fjölmiðlar ræða þennan vandann eins og hann hafi aldrei áður verið nefndur.
Hvað varð til þess að sjónvarpinu fannst málið eitthvað áhugavert núna en ekki áður?
Jú, sagt var að einhver hefði vakið athygli á þessu mikla vandamáli?? Var það í fyrsta sinn eða hvað?
Því trúi ég eiginlega ekki. Ég minnist þess að oft áður hafi hinn almenni borgari reynt að vekja athygli á löngum biðröðum eftir leigubílum í miðborginni að næturlagi sérstaklega um helgar.  En akkúrat núna þóknast ríkissjónvarpinu að fjalla ýtarlega um málið. Guð einn má vita hvað veldur. Er gúrkutíð? Ólíklegt, núna í aðdraganda kosninga.
Þetta er gott dæmi um hversu gríðarleg völd fjölmiðlamenn virðast hafa. Ekki er betur séð en að þeir stjórni að mestu  hvað er á dagskrá hverju sinni og hverjir eru inni á hverjum tíma. Þetta minnir allt of mikið á fullkomnar geðþóttaákvarðanir. Við hin bara dinglum með, opnum fyrir fréttirnar, hvað annað?
Líklega er ekkert starf eins valdamikið og fjölmiðlastarfið.
Hvað finnst okkur annars um þetta?


Fleiri upplýsingar um sjálfsvíg eldri borgara

Til fróðleiks. Upplýsingar byggðar á minni tæplega 17 ára reynslu sem sálfræðingur og einnig  úr þessari ágætu bók sem ég nefndi.

Hvort sem um er að ræða eldri borgara eða ungt fólk þá eru karlar í miklum meirihluta þeirra sem svipta sig lífi.
Karlar velja frekar einhver vopn til verknaðarins en konurnar velja mildari leiðir ef hægt er að orða svo t.d. ofurskammt af lyfjum
Hjúskaparstaða er mikil áhrifabreyta sérstaklega hjá eldra fólki. Því má segja að einmannaleiki sem er fylgifiskur þess að vera fráskilinn eða að hafa misst maka sinn sé einn stærsti áhættuþáttur í sjálfsvígshættu eldri borgara.

Má greina aðvörunarmerki?
Allar meiriháttar breytingar sem ekki hafa sérstakar ástæður að baki geta verið hættumerki. Eins og aukið tal um dauðann, tilhneiging til einangrunar, þunglyndi, þörf fyrir að gefa eignir, undirbúningur erfðarskrár, kaup/útvegun á lyfjum (söfnun lyjfa).

Það getur verið erfitt fyrir lækna og aðstandendur eldri borgara að átta sig á hvort viðkomandi er í sjálfsvígshættu. Tal um dauðann er ekki óalgengt þegar aldurinn færist yfir. Einnig er algengt að eldra fólk byrji að ráðstafa eigum sínum til afkomenda sinna.

Hvernig er best að bregðst við ef grunur leikur á að viðkomandi eldri borgari sé að gæla við þá hugsun að svipta sig lífi?
*tala um það beint
*spyrja beint út

Ef spurt er beint eru miklar líkur á hreinskilnu svari. Sá sem er að pukrast með sjálfsvígsgælur upplifir oft mikinn létti og gefur þessum aðila tækifæri til að ræða málin. Leyndarmáli sem þessu fylgir mikið álag.

Hvernig er hægt að aðstoða?
*huga að bættri félagslegri stöðu, tengja viðkomandi öðru fólki á öllum aldri og ekki hvað síst fólki á svipuðum aldri
*skoða heilsufar, líkmalegt og andlegt
*skoða fjárhagsstöðu, bæta úr ef ábótavant
*hjálpa til að létta á áhyggjum


Sjálfsvíg eldri borgara er dulið vandamál

Eldri borgarar eru í lang stærsta áhættuhópnum hvað viðkemur sjálfsvígi og sjálfsvígstilraunum. Eldri borgara reyna sjálfsvíg vegna þess að þeir hafa ákveðið að svipta sig lífi en eru ekki með tilrauninni að hrópa á hjálp. Margir í þessum aldurshópi búa einir og þá er oft ekki að vænta að aðstoð berist í tíma. Helstu ástæður eru slæm heilsa, viðvarandi sársauki, hræðsla og kvíði.  Margir óttast að verða byrði á börnum sínum. Önnur ástæða eru fjárhagserfiðleikar, makamissir, einmannaleiki og þunglyndi. Líklegt er þó að margar ástæður liggi að baki ákvörðun sem þessari. Talið er að sjálfsvíg eldri borgara hafi ekki aukist heldur standi fremur í stað. Eldri borgarar í dag hafa meiri möguleika á að taka þátt í ýmsum félagslegum uppákomum og tómstundum og eru því ekki eins einangraðir og áður. Læknisþjónusta hefur einnig aukist til muna. Eins og í öðrum aldurshópum eru karlar í meirihluta. Í  Bandarískri könnun hefur komið í ljós að tíðnin hjá konum lækkar eftir 65 ára en eykst hjá körlum eftir þann aldur. Mér er ekki kunnugt um nýjar tölur í þessu sambandi hér á landi.  

Netfíkn: peningaspil á netinu s.s. netpóker er vandi sem margir unglingar glíma við

Í Mbl. i dag eru skrif um netfíkn sem sé sífellt að verða algengara vandamál. Ég tel að þetta vandamál sé allt eins meðal fullorðinna sem og unglingana þótt ívið meira hefur verið einblínt á þann aldurshóp. Hvað varðar unglinga þá tók ég þátt í rannsókn í samstarfi við sálfræðiskor HÍ á spilafíkn meðal 16-18 ára unglinga í framhaldsskólum. Þetta var í upphafi árs 2006. Meðal niðurstaða var að peningaspil á Netinu er vaxandi vandamál. Hér er um netpóker að ræða og annað sem tengist veðmálum. Þessu er ekkert öðruvísi farið á norðurlöndunum. Margsinnis hefur verið bent á mikilvægi þess að foreldrar séu vakandi yfir bæði þeim tíma sem börn þeirra verja á Netinu og eins hvað þau eru að gera þar. Fylgjast þarf með hvaða síður þau skoða og eins að hafa varann á öllum þeim peningaspilum sem þar eru í boði. Hins vegar getur verið afar erfitt ef foreldrar ætla allt í einu að fara að grípa inn í ef unglingurinn hefur árum saman fengið að hafa sína hentisemi með tölvuna. Þá er hætta á að unglingurinn mótmæli kröftuglega. Þessi eftirfylgd þarf að byrja snemma í lífi barnsins eins og allar aðrar forvarnir. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband