Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Ólík sjónarmið álitsgjafa Kastljóss í gærkvöldi

Það voru sannarlega ólík sjónarmið álitsgjafa Kastljóss í gærkvöldi en þeir voru spurðir um skoðanir og viðhorf sín er varðar eitt og annað sem lýtur að efnahagsviðburðum ársins.

Sitt sýnist hverjum þegar kemur að því að benda á eins og helstu ummæli ársins, helsta hneykslið og annað  sem þessum aðilum fannst standa upp úr.

Ómar Valdimarsson fannst mér vera sá sem virtist vera nálægt raunveruleikanum, alla vega eins og ég sé hann og sama má segja um fleiri sem spurðir voru.  Ég var reyndar ekki sátt við það sem einn álitsgjafinn sagði um Dorrit forsetafrú.

Þeir sem vilja gera svokallaða útrásarvíkinga að helstu ábyrgðarmönnum alls þessa stóra vandamáls tel ég að séu ekki alveg að sjá heildarmyndina. En það er vissulega bara mín skoðun.

Álitsgjafarnir sem töluðu um viðvörunarbjöllurnar sem löngu voru farnar að hringja og spurðu af hverju ekki var brugðist við, fannst mér vera með fingurinn á púlsinum.

Mikið vildi maður að hlustað hefði verið á þessar bjöllur og á þeim tekið fullt mark.
En svo er alltaf hægt að segja svona eftir á og spurningin er hvort aðrir stjórnmálamenn/stjórnmálaflokkar hefðu verið frekar vakandi?

Það mun náttúrulega aldrei fást staðfest.


Vill Sigmundur Davíð í formannsslaginn?

mynd
Af hverju finnst mér eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé ekki heill í þessari ákvörðun sinni með að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins?
Nógu margir eru svo sem um hitunina.
 
Hann hefur nú loks tilkynnt þessa ákvörðun sína og ætlar að taka slaginn.
 
Annað hvort hefur hann viljað láta ganga á eftir sér eða að hann hefur einfaldlega ekki verið viss um að hann vildi þetta.
 
Þetta með að vera að íhuga og íhuga virkar fremur neikvætt (alla vega á mig). Annað hvort vill hann þetta eða ekki.
 
Sumir í þessum kringumstæðum segja síðan...
það hafa margir skorað á mig....osfrv og þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér.
 
En hvað vitum við um hvort margir hafa skorað á hann eða einhvern annan sem þetta fullyrðir, ef því er að skipta?
 
Annars er Sigmundur Davíð hinn efnilegasti frambjóðandi, það er ekki málið. Og sjálfsagt hefur hann verið framsóknarmaður í húð og hár alla tíð enda sonur Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins.

 


Leið mistök í bókinni um Sigurbjörn biskup

sigurb20081116020741980.jpgÞað hafa orðið mistök á bls. 346 í bókinni um Sigurbjörn biskup en þar er sálmur 391 sagður vera eftir Sigurbjörn Einarsson en hið rétta er að hann er eftir afa minn Sigurð Einarsson.

Sálmur 391
Það húmar, nóttin hljóð og köld
í hjarta þínu tekur völd,
þar fölnar allt við frostið kalt,
- en mest er miskunn Guðs.

Er frostið býður faðminn sinn,
þér finnst þú stundum, vinur minn,
sem veikur reyr, er megni' ei meir,
- en mest er miskunn Guðs.

En vit þú það, sem þreyttur er,
og þú, sem djúpur harmur sker,
þótt hrynji tár og svíði sár,
að mest er miskunn Guðs.

Og syng þú hverja sorgarstund
þann söng um ást, þótt blæði und,
og allt sé misst, þá áttu Krist.
Því mest er miskunn Guðs.


Hin ljúfa hlið Kristins H. á ÍNN í kvöld kl. 9

krisitnnmbl0054134.jpgPersóna Kristins H. Gunnarssonar kortlögð í kvöld kl. 9 á ÍNN
Í nærveru sálar.

Kristinn sýnir ljúfa og einlæga hlið.
Eitt og annað úr stjórnmálaferlinum er dregið fram til að varpa enn skýrara ljósi á manngerð hans.

Hver verður sá sem hann leggur síðan til að verði næsti gestur?
Leitar hann langt um skammt?


Fréttablaðið hefur staðið vaktina. Íslenska krónan - in memoriam, grein sem er þess virði að lesa

Fréttablaðið hefur staðið vaktina síðustu tvo daga.  Í blaðinu í dag er grein eftir Benedikt Jóhannesson, framkvæmdarstjóra ráðgjafarfyrirtækisins Talnakönnunar og Útgáfufélagsins Heims.
Greinin ber heitið Íslenska krónan - in memoriam.

Eins og menn vita eflaust þá er Benedikt tengdur Sjálfstæðisflokknum og hefur verið lengi.
En fyrst og fremst er hann hugsandi maður sem auk þess, vegna sérfræðiþekkingar sinnar á þessu sviði, er vert að hlusta á.
Hér er um að ræða minningargrein um krónuna þar sem viðfangsefnið er enn á líknardeild eins og Benedikt orðar það sjálfur.


Ár Óvissunnar rennur brátt upp

Maður heyrir gjarnan þessa dagana fólk ræða um hvað framundan kann að vera og hvað næsta ár beri í skauti sér.

Í umræðu af þessum toga má heyra að í hugum fólks er framundan mikil óvissa.

Dæmi um spurningar sem heyrast eru:
Hvernig verður þetta allt? Ætli þetta verði mjög erfitt?  Munu mörg fyrirtæki verða gjaldþrota? Mun atvinnuleysi aukast? Heldur ríkisstjórnin velli? Verður ákveðið að fara í ESB aðildarviðræður? Hvernig mun krónunni reiða af?

Þetta er aðeins brotabrot af þeim vangaveltum og spurningum sem bærast meðal manna nú þegar stutt er þangað til árið 2009 gengur i garð.  Svo mikil óvissa ríkir um svo margt og á svo mörgum sviðum að maður man ekki annað eins.

Það hlýtur þó að vera eitthvað sem hægt er að vera viss um,  kannski ekki alveg fullviss um en samt nokkuð viss.


Gleðileg jól bloggarar og aðrir innlitsgestir.

jolmbl0045346.jpgÉg vil óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla.
Ég óska þess jafnframt að þið eigið framundan rólega og ánægjulega jóladaga með ykkar nánustu svo þið getið hvílst og safnað þreki til að takast á við öll þau mörgu verkefni sem kunna að bíða ykkar á komandi ári.

Með jólakveðju,
Kolbrún Baldursdóttir


Birna skammar Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Mogganum í dag

Í Morgunblaðinu í dag lætur Birna Þórðardóttir vaða og ljóst er af efni greinar hennar
Af oflæti Morgunblaðspistlahöfundar að ákveðin pistlaskrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur hafa farið fyrir brjóstið á henni. Birnu finnst Kolbrún skrifa af hroka um mótmælendur og mótmælin.

Ég hef stundum lesið pistla nöfnu minnar en las ekki þennan sem hér um ræðir.
Pistlar blaðamanna eru afar misjafnir og sýnist sjálfsagt sitt hverjum um efnisval og efnistök hverju sinni.

Fastráðnir pistlahöfundar fá laun fyrir að skrifa um skoðanir sínar og viðhorf á ýmsum málum.  Ef þeir koma engu á blað fá þeir ekki greitt.
Skyldi hvatinn sem liggur að baki skrifunum ekki skipta einhverju máli?

Ég er hins vegar sammála Birnu í þessari grein hennar í Mogganum í dag þar sem hún segir að góður blaðamaður á að kynna sér mál enda hlýtur það að vera meginhlutverk blaðamannsins, að kynna sér mál frá ólíkum sjónarhornum og koma upplýsingunum á sem óbrenglaðastan hátt til lesenda.

 

 


Jólasiðir Ásatrúarmanna og tónsmíðin á ÍNN í kvöld.

hilmar.jpgHilmar Örn er gestur Í nærveru sálar í kvöld á ÍNN.
Hilmar er alsherjargoði og tónskáld.

Ásatrúarfélagið hefur verið við lýði í ein 35 ár hér á landi og hefur það að markmiði að hefja til vegs forna siði og menningarverðmæti.

Hilmar segir frá jólasiðum Ásatrúarmanna, fjölskyldu sinni, áhugamálum og tónsmíðinni.


Börnin sem kvíða jólunum, prófum að setja okkur í þeirra spor

Margir fullorðnir muna vel eftir þeirri notalegu tilfinningu þegar þeir voru börn að hlakka til jólana.

Ákveðinn hópur barna hlakkar hins vegar ekki til jólanna heldur kvíðir þeim.  Jólin eru samt sem áður fyrst og fremst þeirra hátíð. 

Þau sem kvíða jólunum  eru börn þeirra foreldra sem eiga við alvarleg vandamál að stríða.

Vandamálin geta verið af ýmsum toga og langar mig sérstaklega að tala hér um börn foreldra sem hafa litla eða enga stjórn á áfengisneyslu sinni.

Um jól drekka þeir foreldrar sem hafa misst tök á drykkju sinni jafnvel meira en ella þar sem ýmsar uppákomur tengdar áfengi eru tíðari.

Sjúkdómurinn alkóhólismi í sinni verstu mynd spyr ekki hvaða dagur er, hvort það eru jól eða páskar.  

Ástand foreldris sem á við drykkjuvanda að stríða og aðstæður sem það skapar veldur því að dýrðarljómi hátíðarinnar fær á sig gráan blæ og tilhlökkunin verður kvíðablandin.

Börnin sem kvíða nú jólunum vegna drykkjuvanda foreldris eru farin að hugsa um hvernig ástandið verði heima um þessi jól. Sum þeirra hafa lifað mörg jól þar sem drykkja foreldris hefur sett svartan blett á hátíðina og nú óttast þau að ástandið verði eins um þessi  jól.

Þau biðja og vona innra með sér að allt verði í lagi enda þótt reynslan hafi e.t.v. kennt þeim að varast ber að hafa nokkrar væntingar þegar áfengi er annars vegar.

Þau velta einnig vöngum yfir því hvort það sé eitthvað sem þau geti gert til að mamma eða pabbi drekki ekki ótæpilega á aðfangadagskvöld eða á öðrum dögum jólahátíðarinnar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband