Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Hvort maður vill lifa eða deyja þegar meðferð hvorki læknar né líknar er persónuleg ákvörðun hvers og eins
30.3.2008 | 22:50
Lífsskrá heitir sú ská sem Landlæknisembættið hefur tekið í notkun. Um er að ræða eyðublað sem fólk, heilbrigt sem veikt, getur fyllt út hvenær sem er á lífsleiðinni þar sem það gefur yfirlýsingu um hvað það vill eða vill ekki að gert sé við það að gefnum tilteknum kringumstæðum við lífslok. Lífsskrá er hægt að nálgast á heimasíðu Landlæknisembættisins.
Þessar upplýsingar komu fram í viðtali við landlækni í Morgunblaðinu. Aðeins á annað hundrað manns hafa fært sér Lífsskránna í nyt. Sennilega hafa ekki fleiri gert það en raun ber vitni vegna þess að mörgum er einfaldlega ekki kunnugt um þennan möguleika.
Það er réttur hvers og eins að taka ákvörðun um hvort hann eða hún vilji lifa eða deyja þegar meðferð lengir aðeins líf hins dauðvona sjúklings án þess að fela í sér lækningu eða líkn. Í mörgum tilvikum er slík meðferð ekki réttlætanleg.
Þeir sem sýna fyrirhyggju og fylla út umrætt eyðublað eru að gera bæði sjálfum sér og fjölskyldu sinni greiða. Þeir sem nú eru heilbrigðir geta með engu móti vitað hvenær eða með hvaða hætti þeir yfirgefa þetta líf. Þeir sem nú þegar eru lífshættulega sjúkir finna að dauðinn er ef til vill skammt undan. Það er réttur allra, hvort heldur þeirra heilbrigðu eða veiku að taka sjálfir þessa ákvörðun enda er þetta þeirra líf sem um ræðir. Fyrirhyggjan felst í því að koma þessum persónulegu upplýsingum um vilja sinn á framfæri með óyggjandi hætti.
Að lifa eða deyja, komi upp þessar flóknu og erfiðu kringumstæður er ákvörðun manneskjunnar sjálfrar. Með því að koma vilja sínum á framfæri á þar til gerðum eyðublöðum er maður ekki einungis að gera sjálfum sér greiða heldur einnig sínum nánustu. Nógu erfið er staða ættingjanna þótt þeir þurfi ekki líka að að gefa fyrirmæli um takmörkun meðferðar þegar þeir hafa e.t.v. enga hugmynd um vilja þess sem lífið á.
Umræðan er sannarlega viðkvæm en krefst engu að síður opinskárrar umfjöllunar bæði á opinberum vettvangi og einstaklingslega.
Er sparnaður í hættu?
20.3.2008 | 20:32
Skammtímaáhrif niðursveiflu krónunnar hefur hvað mest áhrif á þá sem hafa verið að taka erlend lán eða kaupa erlendar vörur. Ef ástandið verður langvarandi eru langtímaáhrifin víðtækari og líkleg til að hafa áhrif á flesta þá sem hér búa. Eins og staðan er í dag virðast hvorki lærðir né leikmenn treysta sér til að spá fyrir um hve lengi ástandið kann að vara.
Sá hópur sem hefur verið að leggja fyrir og spara hugsar eðlilega nú hvort sparnaður þeirra haldi. Við þessar aðstæður er sparifé gjarnan ótryggt. Á meðan hrópað er eftir lækkun stýrivaxta er ekki ósennilegt að þetta fólk óttist að með slíkri aðgerð verði gengið á sparifé þeirra.
Það er í raun ekki erfitt að skilja þessar áhyggjur eins og staðan er í dag.
Peningamál | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook
Ríkisstjórnarflokkarnir með púlsinn á forvörnum
19.3.2008 | 10:50
Í gær var ráðstefna á vegum félagsmálaráðuneytisins haldin á Grand Hótel þar sem rætt var um foreldrahæfni og að foreldrahæfni væri ein besta forvörnin.
Í ályktun um fjölskyldumál sem var samþykkt á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins kemur það einmitt fram að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á að forvarnir byrji snemma á lífsskeiði barnsins og að fræðsla til verðandi foreldra verði efld. Jafnframt er lögð áhersla á að foreldrar geti á öllum stigum leitað sér uppeldisráðgjafar og stuðnings án tillits til efnahags og búsetu.
Það er gott til þess að vita að vinna Fjölskyldunefndarinnar var og er í góðu samræmi við það sem er í umræðunni í dag um þessi mál. Með eflingu foreldrahæfnis er átt við að þeir foreldrar, sem af einhverjum skilgreindum/óskilgreindum orsökum þurfa aðstoð við uppeldi barna sinna eða einfaldlega upplifa sig óörugga í hlutverkinu og finni hjá sér þörf fyrir að fá fræðslu og leiðbeiningar, hafi greiðan aðgang að slíkri þjónustu.
Margir nýir verðandi foreldrar eru fullir óöryggis og velta því fyrir sér hvernig þeim muni takast upp í foreldrahlutverkinu. Ekki eru allir svo lánsamir að eiga eða búa í nálægð við fjölskyldu sína sem þeir gætu leitað til ef þeim vantar svör við spurningum um barnið, umönnun þess eða upplýsingar er viðkoma uppeldinu. Því fyrr sem foreldrafærnin eflist og þroskast því minni líkur eru bæði á að vandamál komi upp og ef það gerist þá er verulega dregið úr líkum þess að vandinn ágerist.
Það er gott til þess að vita að púls ríkisstjórnarflokkanna er á réttum stað í þessum málum enda í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins um stefnu til eflingar foreldrahæfni.
Bloggið er öflugt og spennandi leikfang sem við erum í óða önn að læra á
16.3.2008 | 11:25
Það eru ýmsir áhugaverðir punktar sem koma fram í viðtalinu við þá Egil Helgason og Össur Skarphéðinsson en þeir ræða um Miðil augnabliksins í Mbl. í tilefni þess að mbl.is er 10 ára.
Það líður satt að segja ekki sá dagur að blogg eða bloggarar eru ekki meðal þess sem rætt er milli manna. Þetta fyrirbæri sem við köllum blogg hefur sannarlega blásið út og tekið sér bólfestu í tilverunni og er jafnvel hægt og sígandi að þoka einhverjum öðrum miðlum til hliðar.
Það eru þó ekki allir hrifnir. Til er sá hópur sem vill ekkert með blogg hafa, segist hvorki fara inn á bloggsíður né kæmi þeim til hugar að blogga. Þeir segja þetta hreina tímasóun, hugsanlega ávanabindandi og á blogginu sé að finna æði mikið af lélegu efni.
Það kann vel að vera margt til í þessu og verður hver og einn að hafa sinn háttinn á. Þó hef ég nú hvatt þá sem tala með þessum hætti að leyfa sér að kíkja inn á bloggið og vera einfaldlega duglegir við að vinsa úr efni, sortera frá það sem þeim þykir lélegt og kanna hvort ekki sé eitthvað að finna sem höfðar til þeirra.
Að lesa bloggsíður er bara eitt af mörgu sem hægt er að velja og hafna.
Áhugaverður punktur í viðtalinu við Egil er þegar hann segir að bloggið sé fyrir fljótfæra einstaklinga, hættulegur miðill. Þetta er alveg rétt hjá honum að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að margir sem hafa stundað það að blogga að einhverju marki hafi einhvern tímann bloggað í fljótfærni og af hvatvísi, efni sem þeir e.t.v. síðar skammast sín fyrir og óska að það hefði aldrei verið birt á blogginu undir þeirra nafni.
Hér er ég ekkert endilega að tala um einstaklinga sem eru hvatvísir í eðli sínu. Þetta getur allt eins hent fólk sem er þekkt fyrir yfirvegun og nákvæmni. Það sem gerist er að einhver umræða eða frétt hefur á viðkomandi gríðarleg tilfinningarleg áhrif, kannski vegna þess að umræðan snertir hann persónulega eða kemur við kaunin á siðferðis- og réttlætiskennd, trú,- eða stjórnmálaskoðun viðkomandi. Tilfinningarlegt uppnám grípur um sig og áður en náð er að gefa sér tíma til að hugsa málið frekar eða sanka að sér ýtarlegri upplýsingum hefur texti verið birtur sem bloggarinn e.t.v. síðar meir, þegar tilfinningaröldurnar hafa lægt og vitsmunirnir náð yfirhöndinni á ný, sér eftir.
Fyrir okkur bloggara þá er bloggið öflugt og spennandi leikfang sem við erum í óða önn að læra á.
Fleiri punkta er að finna í þessu spjalli við Egil t.d. hve margir stjórnmálamenn nýttu sér bloggið og blogguðu af krafti fyrir síðustu kosningar bæði til að kynna sjálfan sig og málstað sinn. Fljótlega eftir kosningarnar hurfu sumir þessara stjórnmálamanna af vettvangi og frá einstaka þeirra hefur lítið heyrst síðan hvorki á blogginu né annars staðar ef því er að skipta.
Að blogga getur skapað álag og streitu.
Það getur verið talsvert álag að blogga og tengist það m.a. því hversu erfitt það getur verið að fá ómálefnalegar athugasemdir, sendar í árásarskyni á þann sem heldur úti bloggsíðunni og sem beinlínis eru ætlaðar til að rægja og svívirða síðuhaldarann.
Þeir sem hafa bloggað í einhvern tíma og blogga um umdeild málefni t.d. eins og stjórnmál kannast margir við að hafa fengið framan í sig einhvern skít oftar en ekki frá nafnlausum bloggurum. Eins og Egill segir þá dæma þessir aðilar sig sjálfa úr leik. Það er þó alveg ljóst að slíkar bloggfærslur höfða til einhverra sem finna greinilega í þessu persónulega næringu.
Dæmin eru fjölmörg þar sem hraunað hefur verið yfir þekkta sem óþekkta einstaklinga.
Þetta tel ég m.a. vera ástæða fyrir því að sumt fólk sem svo gjarnan vildi halda úti bloggsíðu treystir sér hreinlega ekki til þess. Aðrir hafa gripið til þess ráðs að nota stillingar bloggsins til að getað síað frá óþverrann og ómálefnalegar athugasemdir og enn aðrir bjóða alls ekki upp á að hægt sé að skrá athugasemdir inn á síðuna.
Að lokum vil ég bara óska mbl.is til hamingju með afmælið.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook
Komnar úr eggjaeign.
13.3.2008 | 20:06
Það hefur fjölgað í hópi ellilífeyrisþega í Breiðholtinu.
Hænurnar okkar eru orðnar aldraðar og líkast til á leið úr eggjaeign.
Elli kerling heimsækir okkur öll fyrr en síðar og gildir þá einu um hvers lags lífveru er að ræða.
Það er að byrja að fjara undan mínum elskulegu. Þær eru mikið til hættar að verpa. Egg í varpkassa telst frekar til undantekningar en reglu.
Það færir okkur gleði að hugsa um að þessar góðu hænur hafa átt gott líf. Það hefur verið séð vel um þær og tvö síðastliðin sumur hafa þær farið í sveitina þar sem þær hafa fengið að valsa um sælar og glaðar.
Þessar elskur hafa verið örlátar á afurðirnar og eiga sannarlega skilið að eiga friðsælt ævikvöld.
Félagið París bíður þá sem búa einir/eru einhleypir velkomna
11.3.2008 | 22:28
Hvort sem þú býrð ein(n) af eigin vali, í kjölfar skilnaðar eða makamissis og langar til að mynda ný vinakynni og tengsl, átt þú þess kost að ganga í félagið París.
Þetta félag hefur starfað í fimm ár og hefur það að markmiði að skapa skemmtilegan vettvang í kringum áhugamál þeirra sem eru einir eins og segir í dagbók Morgunblaðsins frá því um helgina.
Starfið byggir á hópastarfi. Um er að ræða bíóhóp, spjallhóp, gönguhóp, út að borða hóp, menningarhóp og ferðahóp svo fátt eitt sé nefnt.
Formaður félagsins, Sigrún Höskuldsdóttir leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum félagsmönnum og segir að það hafi sýnt sig að mikil þörf sé fyrir vettvang af þessu tagi.
Útí samfélaginu er án efa fullt af fólki sem langar til að mynda ný kynni en hefur ekki löngun til að sækja skemmtistaði í því skyni. Félagið París er sannarlega fýsilegur valkostur fyrir þennan hóp til að hitta annað fólk og eiga með því gefandi samverustundir.
Á slóðinni www.paris.is má finna upplýsingar um hið fjölbreytilega hópastarf.
Á hvaða mið skal róa?
Mitt í ólgandi sjó.
Einhliða evra eða ESBé.
Sáttir sumir við hverslags fé,
sem bjóðast þeim til handa.
Miðla sem á markaði sterkari standa.
Krónan gamla úrelt er,
Kauphöll hana vill kveðja.
Hvort evran sigur úr bítum ber.
Karpið og kveinið í eyrun sker
Á krónuna fáeinir veðja.
Hvernig svo sem það allt fer.
Krónan okkar kæra,
komin að tímamótum.
Óstöðug stendur á eigin brauðfótum.
Kollvarpar peningastefnu,
kúvendir verðlagi, skapar þenslu
Um miðilinn gjaldfallna skorta menn kennslu.
Gengið mönnum er tíðrætt um,
gamanið farið að grána
Trúin að tapast, hvað er til ráða?
Verðbólgumarkmið skjálfa!
vaxtastefnunni ógna.
Nú fylkjum liði og leitum lána
Var sko að horfa á Spaugstofuna
Peningamál | Breytt 10.3.2008 kl. 20:55 | Slóð | Facebook
Þvagleggsmálið og horngrýtis kjaftæði
6.3.2008 | 19:35
Með þessari reglugerð eru verklagsreglur skýrðar vegna töku sýna þegar grunur leikur á um að ekið hafi verið undir áhrifum.
Frábært!
Hins vegar er ekki eins skemmtilegt til þess að vita að hann Árni Johnsen vísi til umræðunnar um krónu og evru sem hvimleiða og leggur til að við hættum þessu horngrýtis kjaftæði eins og hann orðaði það.
Vonandi áttar Árni sig á því fyrr en seinna að það er engin lausn fólgin í því að þagga mál í hel.
Öll umræða er bráðnauðsynleg og bara af hinu góða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook
Milljónatap
6.3.2008 | 10:23
Þeir sem hafa verið virkir á hlutabréfamarkaðinum undanfarin ár hafa þurft að horfa á eftir milljónum ef ekki milljörðum hreinlega gufa upp. Hvort eitthvað af þessu tapi skilar sér aftur að hluta til eða að öllu leyti getur enginn spáð fyrir með neinni vissu. Eina færa leiðin er bara að bíða og vona að markaðurinn taki við sér af einhverri alvöru. Þeir sem telja sig hafa gott vit á þessum málum spá þó því að ekki vænkist hagur næsta árið í það minnsta.
Í svona aðstæðum er þess vegna best að huga að hvað gefur lífinu raunverulegt gildi og ekki skal gleyma því að veraldleg gæði ná bara visst langt þ.e. þar til dauðinn bankar upp á.
Tap
Til hvers að syrgja tapað fé,
týnda hluti eða hulið hnoss.
Gröfinni allslaus ert gefinn á vald.
Holdið þú nauðugur kveður,
Himni þú vonglaður heilsar.
Veraldleg gæði þér gagnast ei meir.
Peningamál | Slóð | Facebook
Lestarkerfi í Reykjavík
3.3.2008 | 20:34
Ég fagna því hversu mikill kraftur hefur færst í umræðuna um lestarkerfi í Reykjavík og vísa í því tilefni til færslunnar Reykjavíkurlestin sem birtist hér á bloggsíðunni 2. febrúar s.l.
Í gær var grein í Mbl. sem bar titilinn Reykjavíkur-metró. Í henni segir að léttlestir séu lakari kostur en Strætó og að metró og skutlubússar séu það eina sem vit er í.
Mér finnst þessi umræða mjög spennandi.
Það hlýtur að vera mikilvægt að greina á milli í umræðunni lestir sem eru á eigin spori og lokaðar frá annarri umferð og síðan sporvagnakerfi þar sem lestarvagnarnir eru á sömu götum og bílarnir.
Það síðarnefnda mun varla henta hérna. Þegar talað er um ,,léttlestir" lítur stundum út sem verið sé að tala um sporvagnakerfi.
Maður skyldi halda að það sé eðlilegt að setja lest í stokk (metró) þar sem ekki er pláss fyrir hana ofanjarðar. Ef litið er til nágrannaborga má sjá að í þéttbýli, þar sem ekki er pláss fyrir teina eru lestar settar neðanjarðar en að öðrum kosti eru þær á yfirborðinu. Ef við lítum til borga eins og London og Kaupmannahafnar má sjá þetta fyrirkomulag. Lestir eru neðanjarðar í miðbæjunum þar sem ekki er pláss fyrir þær ofanjarðar en annars eru teinarnir lagðir ofanjarðar.
Ef til lestarsamgangna kæmi hér á landi má vel gera ráð fyrir að sama lögmál myndi gilda um miðbæ Reykjavíkur og um miðbæi nágrannaþjóða okkar. Hægt að sjá fyrir metró undir Þingholtunum og í Kvosinni en síðan t.d. ofanjarðarteina á eyjunni milli akreina meðfram Miklubraut og austur borgina og víðar er fjær dregur.
Jafnvel neðanjarðarlestir (metró) eru ódýrari kostur en umferðarmannvirki með mislægum gatnamótum auk þess sem þær taka miklu minna pláss. Bílagöng eru dýr og án efa mun dýrari en lestargöng. Bílagöng eru bæði stærri og þurfa loftræstingu og lýsingu langt umfram lestargöng.
Þetta allt þarf virkilega að íhuga vel og vandlega ef á annað borð á að skoða möguleikann á lestarsamgöngum í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2008 kl. 22:15 | Slóð | Facebook