Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Stjórnmálaflokkur velferðarmála?

Niðurstöður könnunarinnar.

Spurningin var:

Hvaða stjórnmálaflokkur í þínum huga tengir sig hvað mest við velferðarmál?

92 svöruðu

Niðurstöður voru eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn 26.1%
Samfylkingin 30.4%
Framsóknarflokkurinn 15.2%
Vinstrihreyfingin grænt framboð 20.7%
Frjálslyndi flokkurinn 7.6%


Lík óskast...

Ef þú ert að deyja, má ég, þegar þú ert dáinn fá þig lánaðan til að...??

Eitthvað í þessa veru hljómar þessi einmuna sérstaka auglýsing hans Snorra Ásmundssonar í Fréttablaðinu í dag.

Landsmenn hafa aldrei séð annað eins.

Möguleikarnir á því að vekja á sér athygli, jafnvel ögra eru sannarlega óteljandi og með þessari auglýsingu hefur Snorra tekist að komast milli tannanna á fólki svo um munar. Kannski er það megin tilgangurinn?

En segjum sem svo að ef hvatinn að baki auglýsingunni sé nú ekkert annað en eins og Snorri segir þ.e. að fá hráefni í listsköpun, tel ég að hún hefði haft trúverðugri áhrif hefði hún verið betur orðuð.

Að segja ef þú ert á grafarbakkanum hljómar eins og verið sé að gera hreint og klárt grín. Betra hefði verið að mínu mati að segja t.d:  ef þú ert deyjandi.

Einnig orðalag eins og  þarf á nokkrum líkum að halda liggur við að dragi upp mynd í huga manns af líkhrúgu. Svo er það orðalagið  skilað eftir notkun í sama ástandi  en það virka afar ógeðfellt og fyrir suma jafnvel tortryggilegt.  Strax kemur upp í hugann, HVERNIG NOTKUN?

Hvað sem þessu öllu líður þá er auglýsingunni beint til aðila sem veit að hann mun brátt deyja. Kallað er eftir persónulegu samþykki einstaklingsins.  Fái Snorri einhvern sem er deyjandi til að gefa samþykki sitt fyrir því að hann megi nota líkið eftir andlátið, þá má e.t.v álykta sem svo að þetta sé samningur tveggja aðila sem sé öðrum óviðkomandi.


Engin Layla....mikil vonbrigði

Tónleikarnir með Eric Clapton voru haldnir í gærkvöldi.
Mannfjöldi var mikill, um eða yfir 13.000 manns og tónleikarnir í heildina, að mér skilst, vel heppnaðir. Helstu vonbrigði þeirra sem ég hef heyrt tjá sig um tónleikana er að Clapton tók ekki hið frábæra lag Layla (stundum skrifað Laila).

Ég get vel skilið þessi vonbrigði enda er þetta lag eitt það allra stórkostlegasta sem heyrst hefur frá listamanninum. Minnir auk þess á gamla tíma, árin í Tónabæ. Smile


...erilsamt var hjá lögreglu...

Útihátíðarhelgin mikla er nú að baki og gekk að mestu vel eftir því sem næst verður komist. Allavega liggur enginn í valnum hvorki eftir umferðarslys né líkamsárásir og fyrir það erum við þakklát.

Í fréttum af helginni segir gjarnan erilsamt var hjá lögreglu, hvað svo sem þetta erilsamt þýðir nákvæmlega. Stundum fylgir fréttinni um eril lögreglunnar að 2 hafi setið fangageymslur og stundum 20. Hvort heldur tveir eða tuttugu er lýsingin sú sama: erilsamt var hjá lögreglu.

Í huga mínum lítur þetta þannig út að býsna vel hafi gengið á Akureyri svo ekki sé minnst UMFÍ mótið í Þorlákshöfn og á mörgum öðrum smærri útihátíðum um land allt.
Þjóðhátíð í Eyjum var e.t.v. helst til of skrautleg eða hvað?

Þessi árvissi atburður að menn kveiki í tjöldum í hátíðarlok er sérkennilegur og örugglega ekki í þökk allra þeirra sem tapa dýrum útilegubúnaði. Þjóðhátíðin var afar fjölmenn og hefði orðið enn fjölmennari ef veður hefði ekki hindrað brottför þeirra sem ætluðu út í Eyjar á sunnudeginum. Lýsingar á hvernig Dalurinn er útleikinn eftir hátíðina eru svakalegar og ærið verkefni framundan að hreinsa svæðið og koma öllu í viðunandi horf aftur. 
En ef Eyjamenn eru ánægðir, gestir þeirra og aðstandendur sömuleiðis þá getum við hin einnig glaðst.


Ímynd stjórnmálaflokkanna, sjá skoðanakönnun hér til hægri

Ég var á afar áhugaverðum fyrirlestri í dag í Odda en þar fjallaði Þórhallur Guðlaugsson dósent við viðskiptafræðideild HÍ um markaðsfræði í tengslum við stjórnmálaflokka landsins.

Í fyrirlestrinum fór Þórhallur yfir nýlega grein sína sem ber heitið
Markaðsfræðilegt sjónarhorn á stöðu stjórnmálaflokka fyrir Alþingiskosningarnar 2007,
sem birt er í 1. tbl. 4. árg. 2008 í Stjórnmál og stjórnsýsla, veftímarit.

Skoðunarkönnun sú sem ég hef sett af stað á bloggsíðunni tengist efni þessa fyrirlesturs Þórhalls. Hann birtir í greininni niðurstöður sínar á könnun sem hann gerði á hvernig ungt fólk skynjaði stöðu stjórnmálaflokkanna. Leitað var svara með hvaða hætti viðfangið tengdi stjórnmálaflokkanna við þætti eins og:

Spilling
Ásókn í völd
Atvinnulífið
Umhverfismál
Þjóðerniskennd
Velferðarmál
Samstaða
Traust.

Ég vil hvetja fólk sem hefur áhuga á þessum niðurstöðum að kynna sér þær hjá Þórhalli. 


Bílakirkjugarður við Suðurlandsveg

Þegar ekinn er Suðurlandsvegur í átt til Reykjavíkur má sjá þegar komið er rétt austan við Rauðavatn að víða við þjóðveginn er búið að leggja merktum bílum með máluðum auglýsingaskiltum á hliðum.  Þessum bílum hefur verið lagt óskipulega og minnir einna helst á bílakirkjugarð þar sem mest hefur verið lagt af þeim. 

Þetta er ekki bara sjónmengun heldur draga auglýsingabílarnir athyglina frá akstrinum.
Hvet fólk til að skoða þetta.

Þarf ekki löggjafinn að taka á þessu?


Kínverjar í góðum félagsskap

Það að stærsti íþróttaviðburður heims sé haldinn í Kína getur haft góð áhrif á kínverska alþýðu og samfélagið allt.  Aukin tengsl er einmitt eitt grundvallaratriði þess að hægt sé að koma áleiðis jákvæðum skilaboðum sem e.t.v. kunna að festa sig í sessi. Með því að rjúfa einangrun eins og hægt er, ná jákvæðar fyrirmyndir að hafa áhrif og hver veit nema það leiði til þess að lagður verði grunnur að breytingum til góðs.

Af því sem maður les um undirbúning Leikanna í Peking leggja Kínverjar mikla áherslu á að vera góðir gestgjafar. Þeir vilja að Leikarnir gangi snurðulaust fyrir sig svo vænta megi hróss frá öðrum þjóðum. 

Kínverjar eru að mínu viti gríðarlega duglegt fólk. Þeir sem hafa kynnst Kínverjum ber flestum saman um að þeir séu gott fólk, greiðviknir og ljúfir í framkomu. Lífsbarátta margra  hefur verið hörð og menningin bíður ekki upp á neitt kvart og kvein. Þjóðin hefur lengi liðið fyrir ömurlega stjórnarhætti sem fela í sér harðneskju og mannréttindabrot.

Nú fóstra Kínverjar Ólympíuleikana og hver veit nema eitthvað gott komi út úr því fyrir kínversku þjóðina.

 

 


Eru breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðarins í sjónmáli?

Ég við taka undir með þeim fjölmörgu sem lýstu vonbrigðum sínum að Doha viðræðurnar fóru út um þúfur.  Þeirra á meðal voru Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs Íslands og margir fleiri,  stjórnmálamenn sem aðrir.

Líklegt er talið að ekki muni líða eins langur tími milli viðræðna og raun hefur borið vitni undanfarin ár enda málið knýjandi. Þrátt fyrir að slitnaði upp úr WTO viðræðunum er það fagnaðarefni að heyra að hér á landi muni hefjast undirbúningur fyrir breytingar í takt við þann veruleika sem viðræðurnar fólu í sér og fjölluðu um.

Þótt viðræðurnar hafi farið út um þúfur í þessari lotu óttast margir bændur um sinn hag og finnst nú að óvissuástand ríki í landbúnaðarmálum. Flestir vita að þótt slitnað hafi upp úr Doha viðræðunum þýðir það ekki endilega að allt muni haldast óbreytt í landbúnaðarmálum hér á landi. Nú hlýtur að verða að fara ofan í saumana á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Óumflýjanlegt er t.a.m. að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins sem bent hefur verið á að sé ekki í neinu samræmi við alþjóðasamninga. Það er einnig allt of rígbundin við gömlu búgreinarnar og hefur því hindrandi áhrif á að eðlilegt umhverfi geti myndast í landbúnaðarframleiðslu. Fjölbreytni og samkeppni þurfa nauðsynlega að komast inn í þennan geira. Eins og einnig hefur verið bent á eru landbúnaðarstyrkir hér á landi með þeim hæstu sem fyrirfinnast í OECD löndunum.

Nú bíður að leita leiða til að skellur þeirra breytinga sem koma skulu bugi ekki bændastéttina.

Vonbrigði með viðræðuslitin eru þó sannarlega ekki bundin við íslenskan veruleika heldur einnig að þjóðir heims misstu þar með af góðu tækifæri til að opna réttlátari viðskiptaleiðir sem gagnast gætu ekki hvað síst þróunarríkjunum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband