Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Starfshættir á Alþingi og viðmót þingmanna í þingsal

Á mánudaginn ætla ég að hitta hana Ragnhildi Helgadóttur, fyrrv. alþingismann og ráðherra og taka upp viðtal við hana um starfshætti Alþingis og hvernig henni lítist á framkomu og viðmót þingmanna í þingsal.

Karp, þras og gagnkvæmar ásakanir hafa verið talsvert áberandi á þinginu að undanförnu og langar mig að spyrja Ragnhildi hvað henni finnst um það og hvort þetta hafi verið svipað þegar hún var á þingi.

Eins langar mig að heyra hennar skoðun á breytingum um þingsköp sem tóku gildi á síðasta ári þar á meðal nýjum reglum um ræðutíma.

 Þátturinn verður sýndur á ÍNN á mánudagskvöld.


Nú erum við komin með norskan seðlabankastjóra

Það er margt sem íslendingar þurfa að aðlagast þessa dagana. Fæstir hafa undan því að meðtaka hvað þá skilja þær öru breytingar sem eiga sér stað frá einum degi til dags.

Nú erum við komin með útlendan seðlabankastjóra og hvað segja lögin við því?

Eins og svo oft í flóknum málum og málum sem engin fordæmi eru fyrir er spurning með hvernig túlka beri lögin. Þannig er því farið með þennan seðlabankastjóra og ráðningu hans í embættið en um er að ræða mann sem er ekki íslenskur ríkisborgari.

Sigurður Líndal spyr hvort hægt sé að setja hann því ekki sé hægt að skipa hann. Við fyrstu sýn telur hann að það sama eigi að gilda um skipun og setningu.

En það er við fyrstu sýn, hvað kemur svo í ljós þegar farið er að rýna í lögin er ómögulegt að vita. 

Ég vil bjóða þessum nýja seðlabankastjóra velkominn til starfa og vona að hann beri gæfu til að gera góða hluti í þágu íslensku þjóðarinnar á meðan hann er við störf í Seðlabankanum.

Ég vil einnig þakka fráfarandi seðlabankastjórum fyrir sín störf og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.


Stóri Dani hættulegur, getur allt eins ráðist á barn?

Stóri Dani réðst á litla tík í Reykjanesbæ og beit hana þannig að það þurfti að svæfa hana. Svona frétt fær á flesta og ekki síst þá sem eiga litla hunda. Ég er nýkomin í þann hóp og hugsa með skelfingu til þess ef hún litla Smuga mín yrði fyrir svona árás. 

Eru eigendur Stóra Dana ekki áhyggjufullir?

Heyrst hafa svipaðar sögur t.d. að Stóri Dani hafi ráðist á og drepið lömb.  Fram kemur hjá hundaþjálfara að ekki sé hægt að alhæfa um skaðgerð Stóra Dana. Samt sem áður hlýtur fólk að verða að hugsa þetta lengra t.d. hvað ef Stóri Dani réðist á barn?


Frambjóðandi sem ekki er háður neinum fjárhagslega heldur persónulegu sjálfstæði sínu

Frambjóðandi sem er engum háður fjárhagslega og þiggur hvorki framlög né styrki heldur fullu persónulegu sjálfstæði sínu. Hafi hann þennan háttinn á segir það sig sjálft að hann þarf að gæta hófs og aðhalds i fjárútlátum vegna prófkjörsbaráttunnar nema að hann sé þess betur fjárhagslega stöndugur.

Ég hef sjálf tekið þá ákvörðun að taka ekki við neinum frjálsum framlögum/peningastyrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum til mín persónulega í tengslum við þetta framboð heldur greiða þann kostnað sem af því hlýst af mínu eigin sparifé
. Ég mun þar af leiðandi verða að gæta hófs í fjárútlátum vegna baráttunnar og reyna að vinna eins mikið sjálf og ég get á sem hagkvæmastan máta. Kosturinn við þetta er sá að með því að gera þetta með þessum hætti finnst mér ég, sem frambjóðandi halda bæði persónulegu og stjórnmálalegu sjálfstæði og þannig líður mér best gagnvart kjósendum.



Frambjóðendur birti yfirlit yfir fjármál sín

Ég vil taka undir með Sigríði Andersen um mikilvægi þess að frambjóðendur, þeir sem eru að sækjast eftir umboði til að starfa á Alþingi, upplýsi kjósendur um fjármálastöðu sína. Þetta er að sjálfsögðu aðeins í ljósi undangenginna atburða, og umræðu um fjárhagsleg tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa. Þetta hefur Sigríður nú sjálf gert.

 Það kemur ekki á óvart þótt einhverjir fleiri frambjóðendur vilji í núverandi ástandi sýna fram á að þeir hafi allt sitt á hreinu hvað þessi mál varðar. Mér finnst það heldur ekki óeðlilegt að kjósendur vilji vita einmitt þennan bakgrunn frambjóðenda áður en þeir ákveði endanlega hvernig þeir vilja verja atkvæðum sínum. 

Ég vil þess vegna hvetja frambjóðendur til að fylgja í fótspor Sigríðar Andersen. Það hyggst ég gera sjálf.


Samgleðst fyrrverandi seðlabankastjóra

Ég samgleðst fyrrverandi seðlabankastjóra Ingimundi Friðrikssyni en honum hefur verið boðið starf hjá norska seðlabankanum.

Þarna er á ferðinni maður sem býr yfir mikilli þekkingu á sínu sviði og rekstri seðlabanka. Mér finnst ánægjulegt að vita til þess að kraftar hans fái notið sín og Norðmenn eru heppnir að fá svo hæfan fagmann í sínar raðir.


Ímynd stjórnmálaflokkanna þegar kemur að velferðarmálum á ÍNN kl. 9

valhollmbl0059582.jpg

Sjálfstæðisflokkurinn og velferðarmálin eru m.a. umræðuefni
Í nærveru sálar á ÍNN í kvöld kl. 9
Gestur er Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929. Hugmyndafræði sem hann lagði strax fram og kölluð hefur verið sjálfstæðisstefnan, hefur haft þrjú meginstef:
1. Áherslu á einstaklingsframtak og viðskiptafrelsi
2. Uppbyggingu velferðakerfis til að tryggja samstöðu í þjóðfélaginu
3. Áherslu á fullveldi Íslands í samvinnu við bandalagsþjóðir s.s. með aðild að NATO og annarri alþjóðasamvinnu.

Hver er ímynd stjórnmálaflokkanna þegar kemur að velferðarmálum?
Það er mat margra að velferðarmál hafi löngum verið ofar á málefnaskrám miðju- og vinstriflokkanna fremur en stefnuskrám flokka sem skilgreina sig hægriflokka.
En er það þannig í raun og veru?
Þessum spurningum og fleirum mun Stefanía reyna að svara
.

 


Velferðarkerfið verður að virka

Velferðarkerfi verður að virka er hugsun sem margir deila um þessar mundir. Oft var þörf fyrir góðu velferðarkerfi en nú er nauðsyn. Í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem ríkja í samfélaginu er sennilegt að velferðarmálin verði sá málaflokkur sem muni hafa mikið vægi í komandi kosningum.

Þegar talað er um velferðarmál skal það haft í huga að verið er að vísa til breiðs sviðs, allt frá innsta kjarna manneskjunnar: andlega- og líkamlega líðan hennar yfir í nærumhverfið eins og fjölskylduna og stofnanir sem hana þjónusta. 

Þær kringumstæður sem nú ríkja eru sem betur fer ekki dæmigerðar. Það er því nauðsynlegt að skoða í nýju ljósi þau mál sem lúta með einum eða öðrum hætti að manneskjunni og velferð hennar.

Atvinnuleysi vex með degi hverjum og mörg heimili eru nú þegar sokkin í skuldafen. Gæði þess velferðarkerfis sem hér verður við lýði á komandi misserum byggist á hvort tekst að reka það með hagkvæmum hætti án þess að skerða þjónustuna að heitið geti. 

Meginmarkmiðið er að lyfta undir bagga með þeim einstaklingum sem geta ekki séð sér og sínum farborða, í sumum tilvikum tímabundið en í öðrum tilvikum varanlega. Enginn á að þurfa að líða skort á grundvallarnauðsynjum á borð við öruggt  húsaskjól, fæði og klæði. 

Annað kvöld á ÍNN verður gestur minn Í nærveru sálar, Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur. Við munum ræða saman um Sjálfsstæðisflokkinn og velferðarmálin. Ein af þremur meginstefnum flokksins er uppbyggingu velferðakerfis til að tryggja samstöðu í þjóðfélaginu. Gera má ráð fyrir að framsetning stefnunnar hafi þó tekið breytingum í takt við tíðarandann hverju sinni, aðstæður í þjóðfélaginu síðan hverjir vermdu ráðherrastólanna á hverjum tíma.

Hversu mikið vægi velferðarkerfið hefur haft síðustu ár í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar mun Stefanía leitast við að svara ásamt fleiri spurningum þessu tengdu.


Fyrirhyggja, festa og framfarir. Vöndum valið í Reykjavík í vor

Listi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík liggur nú fyrir og hef ég ákveðið að vera meðal þátttakenda. Yfirlýsingu þess efnis hef ég sent inn í fjölmiðla en langar líka að setja hana hér á bloggið. Ástæðan fyrir framboði mínu er að af langri reynslu sem sálfræðingur tel ég mig geta komið að gagni í þeirri uppbyggingu sem framundan er. 

Hugmyndafræði mín um verklag gengur út á að heyra hvað fólk er að segja, greina og meta aðstæður, afla upplýsinga og leita samráðs hjá lærðum sem og leikmönnum.
Með framboði mínu í komandi prófkjöri langar mig að styrkja stoðir Sjálfstæðisflokksins með nýjum sjónarhornum og í krafti stefnu hans vil ég leggja mitt af mörkum til að vinna þjóðinni gagn. Greinar og stefnumál í tengslum við framboðið er að finna á www.kolbrun.ws

Ég hef ákveðið að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar. Ég er sálfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og býð mig fram í 4.-5. sæti.
Ég hef verið löggildur sálfræðingur frá 1992 og hlaut sérfræðileyfi Landlæknisembættisins í klínískri sálfræði 2008. Ég er fædd í Reykjavík 1959, lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1980 og BA prófi frá Háskóla Íslands 1986. Ég lagði stund á framhaldsnám í sálfræði í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum og lauk þaðan tveimur Meistaragráðum á fimm ára tímabili.
Ég hef rekið sálfræðistofu og sinnt kennslu á grunn-, framhalds- og háskólastigi samhliða öðrum störfum frá árinu 1992. Ég starfaði um tveggja ára skeið hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, var yfirsálfræðingur á Stuðlum um árabil og í átta ár sálfræðingur í Barnavernd Kópavogsbæjar. Ásamt rekstri sálfræðistofunnar hef ég verið undanfarin þrjú ár skólasálfræðingur í Áslandsskóla.
Ég hef átt sæti í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá því í febrúar 2008. Ég hef setið í ýmsum nefndum og stjórnum m.a. á vegum Sálfræðingafélags Íslands og Sjálfstæðisflokksins.  Ég var formaður Stéttarfélags sálfræðinga, átti einnig  sæti í stjórn BHM og í stjórn Endurmenntunarstofnunar. Ég er varaformaður í stjórn Íbúasamtakanna Betra Breiðholt þar sem ég hef átt sæti frá árinu 2006.
Ég hef haldið fjölmörg námskeið og fyrirlestra um sálfræðileg málefni, samskipti og samningatækni. Ég stjórna þættinum Í nærveru sálar á ÍNN en það eru þættir um félags- og sálfræðileg málefni.
Upplýsingar um námskeið, greinar og pistla má nálgast á
www.kolbrun.ws
Ég er gift Jóni Guðmundssyni, plöntulífeðlisfræðingi, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og á dæturnar Karen Áslaugu sem er hagfræðingur og Hörpu Rún sem er nemi.
Áhugamál eru mörg og lúta einna helst að hreyfingu af ýmsu tagi og landgræðslu. Ég er meðlimur í Rótarý Reykjavík-Austurbæ og tek við embætti verðandi forseta í sumar 2009.

 


Fjölbreyttur listi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Það eru 29 manns sem bjóða sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég veit ekki hvort listinn hafi nokkurn tímann áður verið svona langur. Hvað það þýðir að svo margir úr ýmsum áttum vilji gefa kost á sér, læt ég hverjum og einum um að meta.

Ég fagna þessum fjölda, finnst það frábært að þetta fólk vilji láta gott af sér leiða núna í því óvenjulega árferði sem við búum við.

Á listanum eru núverandi alþingismenn, fyrrum alþingismaður, alþingismaður sem nýlega er kominn heim eins og formaðurinn tók til orða en var áður í Frjálslynda flokknum og þarna má líka finna einn borgarfulltrúa.

Það eru a.m.k einir fjórir hagfræðingar og álíka margir lögfræðingar ef ekki fleiri, markaðs- og fjármálastjórar, læknir, verkfræðingur, bílasali nú og svo ég sem er sálfræðingur.

Þessi skönnun mín er ekki tæmandi en um er að ræða 17 karla og 12 konur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband