Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Frumskógur tryggingarmála, gáleysi eða stórkostlegt gáleysi?

Ásgeir Jónsson var í Kastljósinu að lýsa samskiptum sínum við tryggingarfélag en sonur hans sem er 100% öryrki eftir að maður sem ók á ofsahraða á röngum vegahelmingi skall á bíl Ásgeirs sem var með börnin sín tvö í aftursætinu. Dóttir hans lést í bílslysinu og einnig farþegi hins bílsins.

Ég ætla ekki að rekja frásögnin hér en hægt er að nálgast hana á Netinu. 

Mín hugsun er eftir að hafa hlustað á þetta, þvílíkt endalaust tryggingarrugl. Tryggingarfélagið karpar um túlkun hugtaka eins og hvort um var að ræða gáleysi eða stórkostlegt gáleysi. Í þessu tilviki eru skerðingar á bótum byggðar á ályktun um hvernig drengnum muni reiða af í framtíðinni en hann er nú bundinn við hjólastól.

Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að grandskoða þessi mál, einfalda þau þannig að fólk sem verður fyrir slíkum hörmungum þurfi ekki að ganga í gegnum óskýra túlkun tryggingarfélagsins og jafnvel karp um krónur á sama tíma og það er að syrgja barnið sitt eða ástvin sinn. 

Ég fagna mjög þessari umræðu og vil þakka Ásgeiri fyrir að tjá sig um þessa erfiðu reynslu. Vonandi verður hún til þess að hreinsað verði til í þessu kraðaki, frumskógi tryggingarmála, hvort sem þessi ríkisstjórn muni gera það eða sú næsta?  Þetta á vissulega að vera löngu búið að gera.


Vinnubrögð og verklag á Alþingi

Hvernig er hægt að gera vinnubrögð, verklag og almennt séð starfshætti Alþingis skilvirkari og markvissari?

Sumir þingmenn hafa tjáð sig um hvað ríkir mikill seinagangur í verkháttum á þinginu og að nauðsynlegt væri að einfalda verklag og ryðja burtu óþarfa hindrunum.  Óheyrilegur tími fer í að ræða mál fram og til baka, spyrja, svara, ásaka, verjast, karpa, stundum dag eftir dag.

Vissulega er mjög mismunandi hvað þingmenn fara oft í pontu. Sumir fara ítrekað og sitja ekki þegjandi yfir neinu máli. Aðrir láta heyra í sér endrum og sinnum en sumir sjaldan eða næstum aldrei.

Einstaka harðduglegir þingmenn hafa tjáð óánægju sína með að geta ekki beitt sér meira með  markvissum og skilvísum hætti. Þeir þrá að láta hendur standa fram úr ermum, drífa í að afgreiða mál sem jafnvel eru allt að því borðliggjandi.

Sú staðreynd að þingmannamál sem fara í nefndir, daga flest öll þar uppi. Ég spurði stjórnmálafræðing um þetta atriði og hún sagði að þingmannamál kæmust ekki í gegn vegna þess að dagskrá þingsins er í höndum meirihluta Alþingis, þeirra sem fara fyrir ríkisstjórn. Ríkisstjórn er með ákveðna dagskrá sem hún vill koma í gegn.  Ráherrar hafa ráðuneytin í vinnu fyrir sig og þar liggur sérfræðiþekking og líka vitneskja um hvað þurfi að gera í hverjum málaflokk.

Það er þess vegna erfitt fyrir óbreyttan þingmann að keppa við þessa sérfræðinga. Mikið hefur verið talað um að það þurfi að styrkja Alþingi m.a. með tilliti til þess að þingmenn geti leitað til starfsmanna sem hafa sérfræðiþekkingu í margvíslegum málaflokkum sem geta unnið að úttektum o.fl. sem er forsenda góðs undirbúnings fyrir framlögð þingmál.

Á þessu hlýtur að vera hægt að gera bragarbót. Þarna er margt sem mætti skoða með það í huga að gera á því breytingar svo þingmenn geti nýtt krafta sína að fullu og þurfa ekki að sitja og finnast þeir vera áhrifalitlir.


Kynin og kynlíf, fræðsla og spjall, seinni hluti, á ÍNN í kvöld kl. 9

jona3_naerverusalar16_794521.jpgSeinni þátturinn með Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur, kynfræðingi er í kvöld
Í nærveru sálar.
Haldið er áfram umræðunni þar sem frá var horfið síðasta mánudag.
Mismunandi sýn á kynlífsvanda
Helstu kynlífsvandamál kynjanna.


Mál Birgis Páls sem dæmdur var í Færeyjum vegna aðildar að Pólstjörnumálinu stórfurðulegt

Ég var að hlusta á Kastljósið og þar á meðal á umfjöllun um mál Birgis Páls Marteinssonar einn af þeim sem komu við sögu í Pólstjörnumálinu. Saksóknarinn, Linda Margarete Hasselberg krafðist þess að Birgir Páll yrði dæmdur í 10 ára fangelsi.

Með Pólstjörnumálinu er átt við smyglið sem upp komst þegar skúta full af fíkniefnum var tekin á Fáskrúðsfirði. Skútunni var siglt hingað frá Danmörku en hún hafði viðkomu í Færeyjum þar sem Birgir Páll tók við tveim kílóum af amfetamíni frá skipverjum

Af umfjölluninni að dæma í Kastljósinu í kvöld virðist sem Birgir Páll, ungur drengur, hafi unnið það eitt til saka að vera  á röngum stað á röngum tíma.

Margt er mjög furðulegt í þessu máli en það er erfitt að fullyrða nokkuð eða álykta frekar um það, hafi maður ekki kynnt sér málið í hnotskurn.

Eitt virðist liggja skýrt fyrir og það er að Birgir Páll sat í óheyrilega langan tíma í einangrun.  Ef litið er til baka minnist maður þess ekki að hafa heyrt mikið fjallað um hlut Birgis sérstaklega nema í byrjun,  en síðan ekki svo mikið  fyrr en dómur féll yfir honum í Færeyjum.
Minnst var einnig á, á einhverjum tímapunkti, að lögmaður hans væri fremur atkvæðalítill.

Nú beinast sjónir manna að öllu ferlinu og sérstaklega hvernig þetta sneri að þessum unga manni.  

Ég vona í það minnsta að hægt verði að varpa frekara ljósi á t.d. aðkomu saksóknarans og eins ef það reynist rétt, eins og fram kom í Kastljósinu, að þetta hafi átt að vera eitthvað fordæmismál.

Hefði einhver, ríkisvaldi: stofnun að samtök hér á Íslandi, getað beitt meiri þrýstingi eða vakið athygli á stöðu þessa drengs mikið fyrr á tímabili einangrunarsetu hans?

Bara spyr?


 


Að fjölmiðlar gæti jafnræðis

Senn fara prófkjör stjórnmálaflokkanna í hönd. Eins og gefur að skilja munu frambjóðendur vilja koma málum sínum á framfæri og ein hefðbundnasta leiðin er að senda inn greinar í dagblöðin.

Í kjölfar hrunsins hvarf eitt af dagblöðunum af markaði, 24 stundir, þannig að eftir standa Morgunblaðið og Fréttablaðið.

Það segir sig sjálft að þessi tvö blöð hafa ekki tök á að birta allar þær greinar sem streyma að hvort heldur þær séu skoðanir fólksins eða fjalla um málefni frambjóðenda.

Það sem er þó óskandi er að blöðin gæti jafnræðis og forðist að hygla einum umfram annan af einhverjum orsökum. Það er mjög ósanngjarnt og ólýðræðislegt fái einn frambjóðandi greiðari aðgang að einhverjum fjölmiðli.  Það er heldur ekki sanngjarnt gagnvart lesendum/kjósendum sem e.t.v. fara þá á mis við að kynna sér málefni allra frambjóðenda.


Ástvinaþema á ÍNN. Fræðsla og spjall um kynin og kynlíf

jona3_naerverusalar16.jpgJóna Ingibjörg Jónsdóttir, kynfræðingur er gestur
Í Nærveru sálar
mánudagana 9. og 16. febrúar.

Rætt verður um mismunandi mælikvarða og hugmyndir um kynlíf:
Kynjamismun hvað varðar kynlöngun.
Tvíþættur tilgangur kynlífs.
Mismunandi sýn á kynlífsvanda.
Helstu kynlífsvandamál kvenna og karla. "Afgangskynlíf"...hvað er átt við með því? 

Upplýsandi þættir um mikilvægt málefni.
Hafi einhverjir spurningar sem lúta að þessum málum kann að vera að við þeim komi svör. 
Segja má að eins konar ástvinaþema sé á ÍNN um þessar mundir en nýlega hafa verið sýndir þættirnir Ástvinanudd.


Fannst látin í Kapelluhrauni og var búsett í Breiðholti

Kona fannst látin í dúfnakofa í Kapelluhrauni í gær.
Það hefur verið óskemmtilegt að koma þarna að svo mikið er víst.

Málið er allt hið dapurlegasta. Lítið er vitað en talið er að konan hafi ofkælst.

Það vekur athygli að sérstaklega er tekið fram að maðurinn, sambýlismaður konunar, liggi undir grun og að þau hafi verið búsett í Breiðholti.

Það blasir ekki við, alla vega ekki fyrir mér,  hvað búseta fólksins skiptir máli í þessu fréttaflutningssamhengi.

Eftir því hefur hins vegar verið tekið að fjölmiðlar nefna gjarnan Breiðholtið, komi hverfið við sögu þegar fluttar eru fréttir um málefni sem með einhverjum hætti tengjast glæpsamlegu athæfi.

Þetta hafa Breiðhyltingar margsinnis tekið eftir og tjáð sig um ítrekað.

 Hlúa þarf að ímynd Breiðholtsins


Sjálfhverfa og siðblinda hinn versti kokkteill

Það hafa sannarlega margir komið ár sinni vel fyrir borð ef marka má fréttir af fólki sem í stórum stíl afsalaði sér eignum til maka sinna (eiginkvenna) rétt áður en bankahrunið skall á.  Íbúðarhúsin, jarðir, sumarbústaðir, hesthús og jeppar voru skráðir á konurnar.

Samkvæmt þessu vissu margir greinilega hvað var í aðsigi og ætluðu nú aldeilis ekki að sökkva með þjóðinni í eitthvert skulda- og gjaldþrotafen.

Þetta var vitað árið 2005 og þá alveg ljóst að ekki var við neitt ráðið, heyrði ég mann nokkurn segja sem starfaði á vettvangi þar sem aðgangur var að upplýsingum um raunverulega stöðu og þróun mála. Þetta hafa svo sem fleiri sagst hafa vitað og tjáð sig um.

En þessi mál þarf að skoða. Það er alveg óviðunandi að þeir sem tóku virkan og meðvitaðan þátt í vafasömum viðskiptaháttum og léku sér með sparifé fólksins í landinu takist að koma öllu sínu undan á meðan þeir sem  t.d. hvergi komu nærri sitja uppi með skaðann.

Tíminn vinnur ekki með okkur í að ná til þessara einstaklinga. Eins og Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild HÍ segir þá er hægt að rifta svona samningum innan tveggja ára.  Ef enginn krefst gjaldþrotaskipta í búi  þessara aðila í 24 mánuði eru þeir sloppnir, segir Ásta.


Tvísýnt um Tónlistarhúsið

Óvís er hvort hægt verði að ljúka byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss nú í kjölfar efnahagshruns.

Kannski er það óraunhæft að halda að hægt sé að LJÚKA byggingu þess en óskandi er að hægt verði að halda eitthvað áfram með það og loka því þannig að það liggi ekki undir skemmdum. 

Búið er að setja í bygginguna 10 milljarða, eða tæpan helming þess sem áætlað er að það kosti. Að láta þetta standa opið fyrir veðri og vindum og drabbast niður væri sóun á þessu fé. Ef látið standa næstu misseri á því byggingarstigi sem það er á núna ereinnig af því mikil sjónmengun.

Björgunaraðgerðir þyrftu að miðast í það minnsta við að ganga þannig frá húsinu að það liggi ekki undir skemmdum og væri þokkalegt á að líta þar sem það stendur í hjarta borgarinnar.


Þátturinn með Helgu Jónsdóttur á dagskrá í kvöld

helgambl0105160.jpgÞættinum með henni Helgu Jónsdóttur var frestað í síðustu viku vegna tveggja tíma Hrafnaþings. Hann er nú á dagskrá í kvöld.

Vonbrigði og væntingar bankastarfsmanna á ÍNN í kvöld kl. 9
Í nærveru sálar.
Helga Jónsdóttir er formaður Félags starfsmanna Landsbankans.
Hún segir okkur frá örlagamorgninum 7. október sl. þegar starfsmönnum var tjáð að Landsbankinn hafði verið tekinn yfir.

Hún er sannkölluð Pollýanna hún Helga. Með jákvæðni og bjartsýni hefur hún stutt félaga sína í bankanum. Við ræðum um vonbrigðin og sorgina yfir uppsögnunum.  Svo er það vonin og væntingar um að byggja megi upp nýjan og sterkan banka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband