Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Endalausar móttökur hjá borginni

Í dag á fundi borgarráðs kom svar við fyrirspurn um veislu, viðburði og móttaka á vegum borgarinnar. Gerð var eftirfarandi bókun og einnig var ný tillaga vegna veislukostnaðar lögð fram af Flokki fólksins.

Bókunin:

Á síðasta ári var 20 milljóna króna varið í alls kyns viðburði, veislur og móttökur. Sundurliðun er þannig að tæpum 9 milljónum var varið í veitingar og 2.5 milljónum í vínföng. Önnur aðkeypt þjónusta eru rúmar 4 milljónir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér sannarlega mikilvægi í ýmsum viðburðum og hátíðum og þykir sjálfsagt að verja fé í hátíðir eins og Barnamenningarhátíð, hátíðir og viðburðir ætlaðir borgarbúum og hinum almenna starfsmanni borgarinnar.
Hins vegar er ljóst að hér er um mikla peninga að ræða sem að hluta til er að fara í móttökur ætlaðar þröngum hópi, einhverjum útvöldum. Á fáum mánuðum hefur sem dæmi verið boðið til á annan tug móttaka sem ætlaðar eru skilgreindum, stundum þröngum , jafnvel elítuhópum.
Allt er þetta greitt af almannafé. Minna skal á að það býr fólk í borginni sem á ekki til hnífs og skeiðar. Í borginni eru um 500 börn sem samkvæmt skilgreiningu eru fátæk. Þessi hópur sem oft er ekki háværasti hópurinn í borginni er ekki boðið í fínar móttökur á vegum borgarstjóra sem greiddar eru af almannafé. Þegar kemur að kostnaði sem þessum hlýtur það að vera skylda borgarmeirihlutans að velta við hverjum steini til að spara.
 
Tillaga:
 
Í ljósi þess kostnaðar sem borgin hefur eytt í alls kyns móttökur og viðburði suma ætluðum lokuðum hópum leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að farið verði ofan í saumana á þessum kostnaði með það fyrir augum að draga úr honum. Athuga skal hvort hægt er að draga úr kostnaði við veitingar, framreiðslu, gjafir og skreytingar. Skoða þarf hversu mikið er að fara í tilstand eins og þetta sem tengist einungis skrifstofu borgarstjóra og einhverjum útvöldum einstaklingum/hópum og hversu mikið er ætlað borgarbúum sjálfum eða er í þágu barna. Efst í forgangi þegar litið er til þessara mála eiga að vera borgarbúar sjálfir og hinn almenni starfsmaður borgarinnar. Það sem er í þágu barna þegar kemur að viðburðum og hátíðum sem er fé sem er vel varið. Það sem annars sparast við að velta við hverjum steini í þessu sambandi er fé sem mætti nota til að lækka skólamáltíðir, fjölga sálfræðingum til að draga úr biðlista, bjóða fátækum börnum upp á gjaldfrjáls frístundarheimili svo fátt eitt sé nefnt.
 
 

Spilað með fé borgarbúa

Mathöll, Laugavegi 107, fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum. Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru enn annar stórskandall af þessum toga hjá borginni. Margt kom á óvart í verkinu sem olli því að kostnaður varð þrefalt meiri en áætlað var. Þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn. Öldur mun ekki lægja fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Svona getur þetta ekki haldið áfram í borginni. Finna þarf leiðir til að tryggja að áætlanir haldi í verkefnum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á svona vinnubrögð þar sem farið er með fé þeirra eins og verið væri að spila fjárhættuspil. Þegar vísbendingar eru um að verk sé að fara fram úr áætlun þarf nauðsynlega að liggja fyrir einhver viðbragðsáætlun. Hversu skemmtilegur staður Mathöllin er skiptir bara ekki máli í þessu sambandi. Lífsgleði og lífshamingja sem Mathöllin er sögð veita mörgum eru ekki neinar sárabætur, alla vega ekki fyrir alla borgarbúa.

 


Hvorki hengja bakara né smið

Þegar upp er staðið hlýtur aðeins einn að vera ábyrgur fyrir framúrkeyrslunni við endurbyggingu braggans og það er borgarstjóri. Hann er framkvæmdastjóri borgarinnar. Hverjir unnu verkið eru varla ábyrgir. Við megum hvorki hengja bakara né smið.  

Ég er ekki tilbúin til að samþykkja eitthvað pukur þegar kemur að braggamálinu nú þegar rannsókn á uppbyggingarferlinu er að hefjast. Allar ákvarðanir og hverjir tóku þær þurfa að koma fram í dagsljósið. Borgarbúar eiga rétt á að fá að vita hvernig ákvörðunum var háttað og á hvaða stigi þær voru teknar. 

Nú er sagt við okkur borgarfulltrúa að við dreifingu gagna að rannsóknarhagsmunir skerðist fari þau í almenna og opinbera birtingu meðan á rannsókn stendur. Það kann að vera rétt.  

En hvernig á hinn almenni borgari að geta verið viss um allt komist upp á borðið? Þetta er spurning um traust og því hefði verið betri að fá ekki einungis óháðan aðila i verkið heldur einhvern utan Ráðhússins.

Flokkur fólksins hefur mótmælt því að Innri endurskoðun rannsaki málið vegna þessa að Innri endurskoðun þekkir þetta mál frá upphafi og hefur án efa setið fundi þar sem ákvarðanir voru teknar í sambandi við endurgerð braggans. Sem eftirlitsaðili kom Innri endurskoðun ekki með athugasemdir eða ábendingar þá. Hvað svo sem niðurstöður leiða í ljós er aðeins einn ábyrgur þegar upp er staðið og það er borgarstjóri.


Ekki sama hvar þú býrð og heldur ekki hvar þú vinnur

Borgarmeirihlutinn er á hraðri leið með að útrýma einkabílnum úr borginni. Liður í mótmælum gegn því er tillaga Flokks fólksins sem lögð var fyrir fyrir margt löngu þess efnis að borgarfulltrúar og starfsmenn Ráðhússins fengju frí bílastæði. Minna má á að borgarstjóri er með einkabílstjóra og margir borgarfulltrúar búa miðsvæðis. En það á ekki við um alla. Þessi tillaga var loks á dagskrá i morgun á fundi forsætisnefndar og sjá má svar borgarmeirihlutans í fundargerð. Hér er bókun Flokks fólksins sem gerð var þegar tillaga var felld:
"Í umræðunni um kostnað við frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólks Ráðhúss, en tillaga þess efnis hefur nú verið felld, vill borgarfulltrúi minna á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar t.d. við rekstur skrifstofu borgarstjóra sem kostar um 800 milljónir á ári. Eins virðist vera hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni eins og bragga sem frægt er orðið og mathöll. En þegar kemur að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk borgarinnar er ekki til fjármagn.

Hvað varðar starfskostnað, (sem notaður er sem rök til að fella tillöguna) sem á að vera til að dekka bílastæðagjöld, þá er hann sá sami án tillits til búsetu. Borgarfulltrúa finnst það ekki réttlátt að starfskostnaður sé sá sami fyrir þann sem t.d. býr í efri byggðum borgarinnar og þann sem býr í miðbæ eða vesturbæ. 
Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þann sem kemur langt til starfa sinna að greiða allt að 1500 krónur og jafnvel meira fyrir vinnudag að ekki sé minnst á tímann sem tekur að komast til vinnu í þeirri umferðarteppu sem einkennir Reykjavík. Hvað varðar borgarfulltrúana má minna á að Alþingismenn hafa frí bílastæði þótt það skipti vissulega engu máli í þessu sambandi"


Mótmæli að Innri endurskoðun ráðist í heildarúttekt á braggabullinu

Því var mótmælt í morgun á fundi borgarráðs að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér.  

Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á  svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna. 

Fulltrúi frá Innri endurskoðun var þessu ekki sammála og til að gæta alls réttlætis birtist hér viðbrögð IE:

Hér er enn og aftur misskilningur á hlutverki IE.

Við höfum gjarnan skilgreint innra eftirlit upp í þrjár varnarlínur. Gróflega er það svo að í fyrstu línu eru framkvæmdirnar, annarri línu þeir sem bera ábyrgð á verklaginu og gerð verkferla. Í þriðju línu er Innri endurskoðun sem hefur það hlutverk að meta virkni innra eftirlits á hverjum tíma. Það er það sem Innri endurskoðun hefur haft að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Til þess að halda óhæði okkar er mikilvægt að tryggja að við séum utan við framkvæmd stjórnkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina gert úttektir á sviði innkaupa, útboða og stjórnsýslu til að meta og sannreyna virkni innra eftirlits og höfum komið ábendingum á framfæri m.a. við borgarráð. Það er ekki á ábyrgð né hlutverk Innri endurskoðunar að vera þátttakandi í framkvæmdum.

 


Rannsakaði dúnmel í 15 ár

Það er ótrúlegt að sækja þetta til Danmerkur þegar tegundin er til víða hér á landi,“ segir Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Strá sem gróðursett voru fyrir utan braggann í Nauthólsvík, sem fór hraustlega fram úr kostnaðaráætlun, kostuðu Reykjavíkurborg 757 þúsund krónur. DV greindi fyrst frá því.

Stöð 2 greindi svo frá því í kvöld að keyptar hafi verið 800 plöntur á 950 krónur stykkið. Kostnaður við gróðursetningu hafi numið 400 þúsund krónum til viðbótar. Heildarkostnaðurinn við stráin, sem heita Dúnmelur á íslensku, var því 1.157 þúsund krónur.

Sjá einnig: Borgarstjóri segir braggamál kalla á skýringar

Jón segir að hann hafi rannsakað dúnmel á árunum 1990 til 2005 en þess má geta að hann er eiginmaður Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Hann hafi plantað nokkrum fræjum í Rangárvallasýslum. „Þessi planta er búin að vera til á landinu í 60 til 70 ár.“ Hann segist undrandi á því að þessar upplýsingar séu ekki á allra vitorði sem að svona málum koma.

Dúnmelur er náskyldur melgresi, sem vex mjög víða á Íslandi. Hann má að sögn Jóns meðal annars finna við Hafnarfjörð. „Það eru breiður af þessu við Hvaleyrarvatn,“ segir hann og heldur áfram. „Ég var sjálfur beðinn um þessa tegund af fyrirtæki í bænum. Ég fór bara í reit í nágrenninu og færði þeim nokkur eintök,“ útskýrir hann.

Til gamans má geta að þegar leitað er að orðinu dúnmelur á Wikipediakoma fram upplýsingar um útbreiðslu á Íslandi. „Honum hefur verið sáð á Íslandi til að græða upp foksanda.“ Vísað er í þrjár heimildir.


Dýraníð ZERO TOLERANCE!!!!

Það er fátt sem veldur mér eins miklum viðbjóði og andlegri vanlíðan og dýraníð. Ég get ekki horft á myndir af slíku en bregði fyrir frétt af dýraníði er dagurinn ónýtur hjá mér og oftast nær nóttin á eftir líka. Ég verð algerlega miður mín, fyllist brjálaðri reiði, fer að gráta, mér verður óglatt, get ekki um annað hugsað en get ekkert gert í stöðunni. Ég spyr mig stöðugt hvers konar mannvera getur gert svona? Hver hefur það í sér að pynta sér til gamans ómálga, varnarlausar lífverur sem eiga allt undir okkur mannskepnunni? Um orsakir? Það eitt tel ég víst að sá fullorðinn einstaklingur sem þetta gerir er ýmist alvarlega andlega sjúkur eða illur nema hvort tveggja sé. Þeir sem gera svona af barnaskap, í fíflagangi eða af því þeir eru áhrifagjarnir eiga eftir að líða illa þegar þeir hafa fengið ögn meiri þroska. Sé um að ræða börn má telja víst að þeim líður hræðilega illa með sjálfa sig af einhverjum orsökum, innri og/eða ytri. Ég hef margsinnis hitt fólk sem gerði svona lagað á yngri árum og gæfi mikið til að hafa ekki gert þetta því samviskan er að drepa það. Minningin um svona viðbjóðslegar gjörðir elta jafnvel alveg fram á grafarbakkann. Við verðum að reyna að gera allt til að sporna við svona löguðu. Ef við höfum einhvern grunaðan eða verðum vitni af svona löguðu þá að reyna að ná til hans, ræða við hann, fá aðstoð fyrir hann, vakta hann..., láta Matvælastofnun eða lögreglu vita. ZERO TOLERANCE!!!!


Ískaldar kveðjur frá borgarmeirihlutanum til fyrrverandi starfsmanna

Það er ákveðinn hópur sem situr eftir í sárum vegna óleystra eineltismála á starfsstöðvum borgarinnar. Hér er bæði um fyrrverandi og núverandi starfsmenn. Þess vegna lagði Flokkur fólksins til eftirfarandi á síðasta borgarstjórnarfundi:

Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/ fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð.

Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið.

Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg.

Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda, hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð.

Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/ kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar.

Þessi tillaga féll ekki vel í kramið hjá meirihlutanum sem vísaði henni frá þrátt fyrir að fullyrða að þau láti sig þessi mál varða fyrir alvöru með meetoo dæmið og allt það. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þóttu þetta kaldar kveðjur og lögðu fram bókun þar sem fram kom að þessi afgreiðsla er líkleg til auka enn frekar á sársauka þeirra sem sitja með sárt ennnið vegna eineltismála hjá borginni.


Braggi fyrst og börnin svo

Það er hægt að eyða í bragga en ekki börnin.

Hér er svar borgarmeirihlutans við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn í Reykjavík búa undir fátæktarmörkum

Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins: Borgarfulltrúa finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.


Ég er ekki sátt við að það standi 90 íbúðir auðar hjá Félagsbústöðum

Ég er ekki sátt að 90 íbúðir séu auðar hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar. Á sama tíma berast fréttir um að einhverjum sé gert að búa í mygluðu húsnæði á þeirra vegum sem ekki hefur fengist lagað. Var eignum Félagsbústaða ekki haldið við árum saman? Minnumst þess einnig að 1000 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Það er eitthvað í þessu sem ekki stenst. Þess vegna er mikilvægt að fá upplýsingar um ástæður t.d. um hvers lags viðgerðir hér um ræðir og tímalengd viðgerðanna. Á síðasta borgarráðsfundi lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi bókun og fyrirspurnir:

Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir eru lausar vegna standsetningar
1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum. 
2. Hvenær hófust viðgerðir? 
3. Á hvaða stigi eru þær? 
4. Hvenær verður þeim lokið? 
5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar? 
6. Hverjar eru ástæðurnar?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband