Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019
Tillaga um að miða útreikninga vatns- og fráveitugjalds eignar frekar við áætlaða notkun frekar en stærð var felld. Hugsunin á bak við þessa tillögu var sú að það kemur betur út og er sanngjarnara að miða þetta gjald út frá notkun/fjölda notenda en fermetrastærð. Slík mæling gæti t. d. frekar miðast við fjölda skráðra heimilismanna í hverri íbúð, því notkun fer eftir fjölda notenda en ekki eftir stærð íbúðar.
Í greinargerð með tillögunni kom fram að borgarfulltrúa Flokks fólksins telur það vera ósanngjarnt að reikna þetta gjald út frá fermetrafjölda eignar vegna þess að það segir ekkert til um magnnotkun á vatni eða frárennslislögnum. Að gjaldstofn þessi skuli vera fermetragjald íbúðastærðar (ásamt bílskúr ef við á), kemur afar óhentugt út fyrir eldra fólk. Margt eldra fólk situr eitt eftir í stórri íbúð, eða húsi, sem áður var heimili hjónanna og barna þeirra. Þegar árin færast yfir fljúga börnin úr hreiðrinu. Í besta falli eru þá foreldrarnir eftir í íbúðinni. Ætla má að eldri borgarar noti minna vatn en yngra fólk. Eldamennska og þvottur minnkar mjög líklega.
Þess utan er innheimtan á sérstöku reikningseyðublaði, sem spurning er hvort uppfyllir lagaskilyrði og reglur Ríkisskattstjóra um tekjuskráningu á sölureikningum. Ástæða þess er sú að á innheimtuskjali er hvorki að sjá tilgreindan einingafjölda eða einingaverð. Á reikningsformið er áritaður reitur fyrir einingaverð en enginn dálkur er fyrir fjölda keyptra eininga þó eining sé miðuð við fermetra. Einungis er tilgreint nafn gjaldsstofns og gjaldfærð upphæð hvers gjaldsstofns.
Svar með afgreiðslunni má sjá hér
Engin viðbrögð ennþá við tillögunni um hjólhýsagarð
30.1.2019 | 18:33
Hverfi fyrir smáheimili er í umræðunni núna, var m.a. í fréttum ruv áðan. Enn hef ég ekki fengið svar við tillögunni um hjólhýsagarð. Borgarmeirihlutinn segir að það samræmist ekki stefnunni um þéttingu byggðar. Velferðarráð segir þetta ekki vera velferðarmál. Ég spyr er heimilisleysi ekki velferðarmál?
Tillagan var lögð fyrir í lok júlí og situr föst í meðförum velferðarsviðs:
Tillaga Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð
Borgarráð 31. júlí
Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Vísað til Velferðarráðs
Greinargerð:
Það er brýnt að Reykjavíkurborg skapi þessum hópi fullnægjandi aðstæður til að vera með sín hjólhýsi eða húsbíla á stað þar sem þau geta verið örugg til framtíðar. Eins og staðan er núna er mikill húsnæðisvandi í borginni sem er tilkominn vegna langvarandi skorts á hagkvæmu húsnæði hvort heldur er til kaups eða leigu. Með því að vanda til verka við val og umgjörð hjólhýsagarðs þar sem slík byggð getur risið er komið varanlegt og öruggt heimilisúrræði fyrir þá sem kjósa að búa í aðstæðum sem þessum. Í löndum sem við berum okkur saman við eru tjaldstæði fyrir húsbíla og hjólhýsi þar sem fólk býr árið um kring og lætur vel að því. Nútíma hjólhýsi eru ódýr og húsnæði með öllum þægindum. Ný hjólhýsi fyrir t.d. tvær manneskjur kosta um 3 milljónir á Íslandi og 10 ára gamalt hjólhýsi í góðu standi um 1,.5 milljónir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fyrir einhverja kann þetta að vera raunhæfur kostur fáist framtíðarstaðsetning sem hentar hjólhýsi sem hugsað er sem heimili í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur sem upplifir meira frelsi við að búa í hjólhýsi en að búa í fjölbýlishúsi. Sumum hentar það vel og segjast njóta þess að geta einungis opnað einar dyr hurð og stigið út. Þeir sem hafa reynslu af þessu búsetuformi og líkar það hafa sagt þetta sé ekkert öðruvísi en að búa í litlu einbýlishúsi. Mikilvægt er að leiga sé lág fyrir hjólhýsi eða húsbíl í hjólhýsagarðinum enda eru margir þeir sem kjósa að búa í hjólhýsi efnaminna fólk. Leiga verður að vera í takt við greiðslugetu. Þjónusta Í hjólhýsagarði þarf að vera aðgangur fyrir hjólhýsi/húsbíl að tengjast heitu og köldu vatni og rafmagni. Fullnægjandi hreinlætisaðstaða þarf að vera til staður og möguleiki á aðgangi að eldhúsi og matsal. Í hjólhýsagarði verða að sjálfsögðu að gilda fastmótaðar umgengnisreglur og eftirlit. Gæta þarf þess að þar ríki friður og ró og að enginn setjist þar að sem gerir öðrum ónæði, skapi óróa eða ógn af neinu tagi hvort heldur með hegðun, framkomu eða neikvæðum lífsstíl. Á meðan verið er finna staðsetningu og undirbúa hjólhýsagarð er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring eða allt þar til staðsetning hjólhýsagarðs hefur verið ákveðin í Reykjavík og hjólhýsabyggð geti byrjað að rísa. Staðan í dag Staðan í þessum málum er óviðunandi eins og hún er í dag.
Hjólhýsabúendur hafa margir verið í Laugardalnum í óþökk rekstraraðila og borgarinnar. Leiga þar hefur verið hækkuð óheyrilega sem hefur hrakið suma á brott. Sumir hafa sagt þá sögu að þeim hafi verið ráðlagt að fara á tjaldstæði á Laugarvatni. En hængur á því er að þetta fólk er sumt hvert í vinnu í Reykjavík. Öðrum segist hafa verið ráðlagt að leigja rándýrt rúmpláss á gistiheimili sem er með öllu óraunhæft. Enn aðrir segja að þeim hafi verið bent á að búa í tjaldi og þeim jafnvel sagt að sækja síðan um rúmpláss í Víðinesi. Í Víðinesi býr hópur með fjölbreytt vandamál sem kemur og fer auk þess sem þar eru engar almenningssamgöngur. Ekkert af þessum ráðum hentar hópnum sem hér um ræðir, fólki sem vill stöðugleika og næði til að lifa sínu lífi. Þessi hópur vill búa í sínum eigin húsbíl /eða hjólhýsi sem sjálfstæðir einstaklingar. Grunnatriðið í þessu sambandi er að vera á Reykjavíkursvæðinu eða mjög nálægt því og það verður að vera hægt að komast þangað með almenningssamgöngum.
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Halló borgarmeirihluti, jörð kallar
29.1.2019 | 22:29
"Listaverk verða hluti af heildarhönnun hverfisins en Reykjavíkurborg og lóðareigendur munu saman verja 140 milljónum króna til kaupa á verkinu" var sagt í fréttum í kvöld. Og allir skála fyrir þessu!
Fjárhæð sem verja á til kaupa á listaverki eða listaverkum í Vogabyggð nemur 140 milljónum króna og er verkefnið kostað sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðareigendum Vogabyggðar.
Hér er klár staðfesting á hvar forgangsröðun borgarinnar liggur! Og það er ekki hjá börnum og fólki sem bíður á biðlista eftir húsnæði eða nær engan veginn endum saman. Eigum við nokkuð að tala um biðlista í flest alla þjónustu fyrir börn, sálfræðiþjónustu, talmeinaþjónustu...
Ég vil minna á biðlista í húsnæði, fólk sem nær ekki endum saman. Þrá borgarbúar suðrænt loftslag? Hvar hefur það verið staðfest?
Er ekki tímabært að meirihlutinn reyni að fara að snerta jörð??
Borgarmeirihlutinn lifir í einhverjum allt öðrum heimi en hinn almenni borgarbúi, segi ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins sem vill að allir hafi fyrst og fremst fæði, klæði og húsnæði. Ekki étur maður pálmatré? Fólkið fyrst! svo má spá í að flytja inn pálmatré í listaverkaformi eða hvað eina sem þessu fólki kann að detta í hug að gera.
Þórleifur Jónsson sem er íslenskur arkitekt fann nokkuð hundruð ára gamalt veggjakrot í kjallara turns sem tilheyrir Nýborgarkastala á Fjóni í Danmörku. Þórleifur hefur unnið að endurgerð gamalla bygginga í Danmörk þar með talið í Amalíuborg.
Við skoðun og skráningu á aðstæðum þá sá ég þarna skriftir á kjallaraveggjum sem þeir sem hafa verið að vinna hér síðustu ár höfðu ekki tekið eftir, segir Þórleifur Jónsson, sem vinnur að viðgerð og endurhönnun kastalans hjá teiknistofunni VBM-arkitekter.
Fjallað hefur verið um fundinn í dönskum miðlum, svo sem á TV2, en rúnirnar voru ristar á tímabilinu 1300 til 1550 og eru því allt að 700 ára gamlar. Í myndbandi með fréttinni má sjá Þórleif í íslenskri lopapeysu.
Hugsanlega er krotið eftir fanga sem geymdir hafa verið í turninum, en það þekkist frá öðrum turnum af þessari gerð að kjallarar þeirra voru notaðir sem fangaklefar, útskýrir Þórleifur.
Og þar sem Nýborg var konungshöll gætu þetta verið skriftir eftir pólitíska andstæðinga konungs eða aðra merka menn sem dæmdir hafa verið á konungsþingi.
Umræddan turn segir Þórleifur aðeins vera leifar af 35 metra háum vaktturni og hringmúr frá árinu 1200, þar sem hægt var að skima yfir svæðið. Í dag séu hins vegar aðeins varðveittar neðstu þrjár hæðir turnsins og felst skoðun VBM-arkitekta einnig í því hvort hægt sé að byggja á hann fleiri hæðir á endurreisa hann.
Borgarstjóri aðeins fulltrúi meirihlutans
24.1.2019 | 16:50
Fyrir nokkru var lögð fram tillaga um að oddvitar myndu funda reglulega með þingmönnum, ráðherrum og hitta nefndir þingsins eftir atvikum í málum sem eru sameiginleg ríki og borg. Þessi tillaga var felld í fundi borgarráðs í dag. Fram hefur komið að venjan er sú að borgarfulltrúar hitti þingmenn í kjördæminu tvisvar á ári og er það gott. Í þessu tilfelli er verið að tala um oddvita flokkanna í borginni en ekki alla borgarfulltrúa. Nú er það þannig að borgarstjóri einn sækir fjölmarga fundi með þingmönnum og ráðherrum vegna ýmissa sameiginlegra mála ríkis og borgar. Þar sem borgarstjóri er fulltrúi meirihlutans finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki óeðlilegt að oddvitar minnihlutans eftir atvikum sæki einstaka fundi með borgarstjóra þegar hann hittir þingnefndir/aðrar nefndir eða hópa þingsins eða ráðherra. Borgarstjóri er ekki fulltrúi borgarstjórnarflokks Flokks fólksins út á við og getur varla verið talsmaður minnihlutaflokkanna á fundum utan borgarstjórnar.
Meirihlutinn vill ekki að rótað verði meira í þessu máli
21.1.2019 | 12:42
Er braggamálið búið?
Margir spyrja nú hvort braggamálinu sé lokið. Já, segir meirihluti borgarstjórnar, málinu er lokið með skýrslu Innri endurskoðunar. Þetta hefur innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar staðfest. Eins og flestir vita sem skoðað hafa þessa skýrslu þá er enn fjölmörgum spurningum ósvarað. Tveir flokkar minnihlutans í borgarstjórn Flokkur fólksins og Miðflokkurinn freistuðu þess á síðasta fundi borgarstjórnar að fá úr nokkrum vafaatriðum skorið með því að leggja til að málinu yrði vísað til þar til bærra yfirvalda til frekari yfirferðar og rannsóknar. Vanræksla á almannafé varðar við efnahagsbrotalög og brot á skjalavörslulögum varðar við almenn hegningarlagabrot. Að sjálfsögðu var allur meirihlutinn á móti tillögunni enda vilja þau alls ekki láta róta meira í þessu máli. Auk þess greiddi fulltrúi Sósíalista mótatkvæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu tillögunni atkvæði sitt, að undanskildum tveimur þeirra, sem sátu hjá. Í röksemdafærslu þeirra var m.a. sagt að hér væri ekki verið að gæta meðalhófs og að fyrst ætti að ljúka málinu hjá borginni.
Væri hér um barnaverndarmál að ræða væri vissulega skylda okkar að gæta meðalhófs en hér er ekki um neitt slíkt mál að ræða heldur grófa misnotkun á almannafé og brot á skjalavörslulögum auk brots á sveitarstjórnarlögum og innkaupareglum borgarinnar. Aftur skal ítrekað að ekki verður um frekari vinnslu á þessu máli þar sem því er lokið hjá Reykjavíkurborg með skýrslu Innri endurskoðunar eftir því sem næst er komist. Við þekkjum það af reynslu hér á landi að oft fennir hratt yfir skandala. Lífið heldur áfram og aðrar fréttir berast sem hjálpa til við að gleyma leiðinlegum málum.
Mörgum íþyngjandi spurningum er enn ósvarað í braggamálinu og má þar nefna 70 m.kr. sem fóru í uppgerð á minjum. Sjá má af þessu að það eru sannarlega ekki öll kurl komin til grafar og vilja fulltrúar tveggja flokka minnihlutans þess vegna halda áfram að grafa. Í hvað fóru þessar 70 m.kr. vegna uppgerðar á minjum í braggaverkefninu? Skyldum við nokkurn tímann eiga eftir að fá svarið við þessari spurningu?
Ítrekað hefur verið vísað í framkvæmdina á braggaverkefninu ýmist sem mistök eða frávik. Hvað varðar hvort hér sé um frávik að ræða er að sjálfsögðu ekki hægt að segja fyrr en önnur framúrkeyrsluverkefni hafa verið skoðuð. Nokkur verkefni sem hafa farið fram úr kostnaðaráætlun s.s Mathöllin á Hlemmi eru á borði Innri endurskoðunar. Tillaga frá Flokki fólksins hefur einnig verið lögð fram um að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt og gerð var á bragganum, á Vitanum, Gröndalshúsinu og Aðalstræti 10.
Það er einkennilegt að geta fullyrt, eins og borgarstjóri hefur gert, að braggamálið séu mistök. Mistök er eitthvað sem maður gerir óvart, hugsanlega af því að maður veit ekki betur eða hefur ekki fengið nægjanlegar eða réttar upplýsingar. Ótalið er síðan ótrúlegur sofandaháttur og ámælisverð embættisafglöp æðstu valdhafa, borgarstjóra, borgarritara og yfirmanns Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.
Auðvitað geta allir gert mistök. Skoðum nú aðeins það sem meirihlutinn fullyrðir að sé frávikið og sem vísað er í sem MISTÖK. Í braggamálinu er staðfest að sveitarstjórnarlög og lög um skjalasöfn voru brotin og háar fjárhæðir greiddar án heimildar. Reglur borgarinnar um innkaup voru brotnar og gefnar voru upp rangar upplýsingar til borgarráðs. Tölvupóstum og afritum af þeim var eytt. Þetta er allt staðfest í skýrslu Innri endurskoðunar borgarinnar og minnisblaði sem nú liggur fyrir.
Það er mikilvægt að muna að það voru fulltrúar minnihlutans sem ráku augun í að eitthvað væri ekki í lagi með þetta braggamál þegar á fundi borgarráðs á haustdögum 2018 var verið að reyna að fá enn meira fé í það. Verkefnið var þá þegar komið langt fram úr kostnaðaráætlun. Hefði minnihlutinn ekki farið að spyrja spurninga um þetta, heimta svör og krefjast þess að staldrað yrði við þá hefði þetta stóra spillingarmál sennilega ekki komist upp á yfirborðið.
Það sópast milljónirnar úr borgarsjóði til að greiða fyrir klúður
19.1.2019 | 12:06
Það fljúga milljónirnar úr borgarsjóði vegna klúðurs borgaryfirvalda. Hér fara þrjár milljónir og skemmst er að minnast dóms vegna ógildingar áminningar skrifstofustjóra en hún áminnti fjármálastjóra Skrifstofu borgarstjóra. Það mál kostaði borgarbúa 6 milljónir. Hér bókun okkar Vigdís Hauksdóttir í þessu máli frá fundi borgarráðs í gær:
Þetta samkomulag Reykjavíkurborgar, annars vegar og Ástráðs Haraldssonar (ÁH) hins vegar að greiða honum 3 milljónir staðfestir skömmina að borgin skyldi hafa brotið jafnréttislög, borg sem hefur hreykt sér fyrir að jafnrétti sé í heiðri haft. Þetta var brot á jafnréttislögum, sem er háalvarlegt mál. Hér er dæmi um enn eitt málið sem útsvarsgreiðendur þurfa að standa skil á í arfaslakri stjórnsýslu í ráðningarmálum í Ráðhúsi Reykjavíkur
Aldrei að gleyma að hafa börnin með
18.1.2019 | 09:52
Á síðasta fundi borgarstjórnar lagði meirihlutinn fram tillögu um mótun íþróttastefnu til ársins 2030. Tillagan var góð eins langt og hún náði. Í bókun rakti ég nokkur atriði sem mér fannst að hefði mátt ávarpa í stefnunni þ.m.t. að í þeim stýrihópi sem settur verður á laggirnar til að útfæra stefnuna á að vera fullgildur fulltrúi barna þegar rætt verður um íþróttir barna. Einnig hefði ég viljað sjá þessa stefnu heita Íþrótta- og tómstundastefna
Bókun Flokks fólksins
Þessi tillaga um íþróttastefnu til ársins 2030 er góð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þó ákveðinna þátta og telur að taka eigi inn í stefnu þessa einnig tómstundastarfið þannig að talað sé um íþrótta- og tómstundastarf samhliða. Í þessu sambandi má nefna að víða um borgina er aðstaða fyrir tómstundir sem ekki er fullnýtt. Hér má nefna smíðastofur eða aðstöðu til að smíða, tálga og renna. Hvað varðar börnin þarf að gæta þess að raddir þeirra fái ávallt að heyrast þegar talað er um þætti í þeirra lífi og að í stýrihópnum verði fullgildir fulltrúar barna og unglinga. Loks má ekki gleyma að ávarpa brottfall unglinga úr íþróttum en það er vandamál sem kannski fer ekki alltaf hátt. Hvaða leiðir hefur borgin upp á að bjóða til að hjálpa börnum og sérstaklega unglingum að haldast í íþrótta- og tómstundastarfi? Og meira um börnin. Það er afar mikilvægt að börn fái tækifæri, óski þau þess að spreyta sig í ólíkum íþróttagreinum því eins og við vitum þá getur ein íþróttagrein hentað barni á einum tíma en önnur á öðrum tíma. Því fyrr sem barn kynnist ólíkum íþróttagreinum því minni líkur eru á brottfalli að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta hafa einnig fjölmargar rannsóknir sýnt.
70 milljónir í uppgerð á minjum
17.1.2019 | 20:03
Í þessu braggamáli eru sannarlega ekki öll kurl komin til grafar. Við höldum því áfram að grafa.
Fyrirspurn frá F og M sem lögð var fram í morgun á fundi borgarráðs:
Fram hefur komið að 70 milljónir fóru í uppgerð á minjum í tengslum við braggann í Nauthólsvík.
Óskað er eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega þessar 70 milljónir fóru í vegna uppgerðar á minjum í braggaverkefninu. Óskað er eftir nákvæmum lista yfir hvað skilgreint var sem minjar og sundurliðun á uppgerð þeirra.
Reynt að berja niður þá staðreynd að tölvupósti í braggamálinu var eytt
17.1.2019 | 15:38
Borgarfulltrúi meirihlutans hefur undanfarna daga, m.a. í Silfrinu og á fleiri fjölmiðlum sem og ítrekað á fundi borgarstjórnar s.l. þriðjudag fullyrt að póstum í braggamálinu hafi EKKI verið eytt eins og stendur í skýrslu Innri endurskoðunar. Ég og fleiri í minnihlutanum voru ásökuð um rangfærslur, bull og rugl og ýmislegt annað óviðurkvæmilegt var haft um okkur þegar við ræddum um að tölvupósti var eytt. Reynt var margsinnis að benda borgarfulltrúanum á að lesa betur skýrslu Innri endurskoðunar en allt kom fyrir ekki. Ég tók það að mér að senda fyrirspurn til Innri endurskoðunar til að fá þetta enn einu sinni staðfest það sem stendur í Skýrslunni.
Í fyrradag barst tölvupóstur frá Innri endurskoðanda þess efnis að í úthólf fyrrverandi skrifstofustjóra og úthólf og innhólf verkefnastjórans hafi vantað tölvupóst frá fyrri hluta verktímabilsins. Staðfest er svo það sé nú hafið yfir allan vafa að tölvupósti var eytt úr úthólfi skrifstofustjórans. Einnig hefur verið staðfest að öllum tölvupósti í pósthólfi verkefna-stjórans fyrir október 2017, sbr. hér fyrir ofan, hefur verið eytt.
Innri endurskoðun getur hins vegar ekki staðfest hvort meðal hinna eyddu pósta hafi verið tölvupóstur varðandi Nauthólsveg 100. Enn fremur skoðaði Innri endurskoðun skjöl varðandi framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 í skjalavörslukerfi borgarinnar, eins og fram kemur á bls. 76 í skýrslunni, og þar voru einungis örfáir tölvupóstar vistaðir.