Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020
Tillögunni um tilraunaverkefni að rekstraraðilar taki sjálfir ákvörðun um hvort hafa eigi opnar eða lokaðar göngugötur sem meirihlutinn hefur ákveðið að séu varanlegar göngugötur eða tímabundnar, var vísað frá í skipulags- og samgönguráði í fyrradag og þá sátu sjálfstæðismenn í borginni hjá.
Ég lagði tillöguna aftur fyrir í borgarráði í gær. Henni var aftur vísað frá en í þetta sinn greiddu sjálfstæðismenn í borginni atkvæði gegn frávísuninni. Flott hjá þeim!
Bókun:
Hér er um góða málamiðlunartillögu að ræða sem væri vel þess virði að láta reyna á tímabundið. Á góðviðrisdegi kann að vera sniðugt að loka götu fyrir umferð og gera hana að göngugötu en á köldum dögum að hafa þær opnar fyrir bílaumferð.
Það er vel þess virði að kanna hvernig fyrirkomulag sem þetta myndi reynast. Þess utan á eftir að gera mælingar af hlutlausum aðilum á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram af meirihlutanum. Öðruvísi er varla hægt að taka upplýstar ákvarðanir.
Þessi götulokunarmál hafa verið sérlega erfið og finnst mörgum sem meirihlutinn hafi beitt mikilli valdníðslu því í ljós hefur komið að meirihluti fólks þ.m.t. rekstraraðilar vilja þetta ekki og hafa í kjölfar lokunar flutt verslanir sínar í burtu af svæðinu.
Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta kaldar kveðjur frá skipulagsyfirvöldum til rekstraraðila. Treystir meirihlutinn þeim ekki til að stýra því sjálfir hvort sú gata sem þeir reka verslun við sé opin fyrir bílaumferð eða ekki?
Þéttingastefnan komin út í öfgar?
27.5.2020 | 13:56
Fyrirvari settur við samþykkt ársreiknings m.a. vegna Félagsbústaða
27.5.2020 | 13:49
Hér er fyrirvari Flokks fólksins við samþykkt ársreiknings borgarinnar 2019 sem settur var samhliða undirritun hans. Ástæðan fyrir þessum fyrirvara var m.a. vegna Félagsbústaða en ekki síður vegna þess með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar. Þetta voru orð Einars S. Hálfdánarsonar endurskoðanda sem sagði sig úr endurskoðunarnefnd borgarinnar á dögunum.
Hér er fyrirvari Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög.
Tíðindum sætti þegar einn af endurskoðendum endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sagði sig úr nefndinni vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.
Borgin ætti að reka sinn eiginn "Arnarskóla"
22.5.2020 | 20:14
Ég hef verið með bókanir vegna þess að borgin hefur sett stopp umsóknir í Arnarskóla vegna þess að svokallað ytra mat liggur ekki fyrir sem ekki er í höndum borgarinnar að framkvæma.
Skólayfirvöld í borginni samþykktu að greiða inngöngu fjögurra barna nú nýlega í Arnarskóla en segir að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir. Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Í Arnarskóla er hugað að einstaklingnum og að mæta þörfum hans að öllu leyti.
Ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd
22.5.2020 | 10:58
Í vikunni samþykkti velferðarráð að hraða innleiðingu stafrænnar tækni á velferðarsviði m.a. vegna jákvæðrar reynslu af nýtingu rafrænna lausna á tímum COVID-19 faraldursins, s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu, notkun fjarfundabúnaðar til ráðgjafasamtala og móttöku rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins fannst sjálfsagt að vera með í þessari tillögu en vildi á sama tíma leggja áherslu á að ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd.
Rafrænar lausnir eru sannarlega framtíðin og tekið var heljarstökk í framþróun á snjalllausnum vegna COVID-19. Jákvæð reynsla er af nýtingu rafrænna lausna s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu og víða. Innleiðing tæknilausna einfaldar margt en það sem fulltrúi Flokks fólksins vill halda til haga er að það eru ekki allir sem nota snjalltækni til að hafa samskipti við umheiminn. Ástæður eru ótal margar. Þessum hópi fólks má ekki gleyma í allri snjalltæknigleðinni. Starfsfólk þarf að vera næmt á hvað hentar hverjum og einum og hvað hann þarf og vill. Notandi þjónustu á að stýra ferð enda er hann sá eini sem veit hvað hann þarf, vill og getur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því að persónuleg tengsl, nánd og snerting eigi eftir að dragast saman vegna allra þeirra rafrænu lausna sem nú eru í boði. Það má aldrei hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Einnig er mikilvægt að gera reglulega athuganir á rafrænum lausnum og hvernig þær eru að nýtast.
Oft legið við stórslysi á hjólreiða- og göngustígum
20.5.2020 | 20:32
Á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun var lagt fram til staðfestingar erindisbréfi samgöngustjóra varðandi stýrihóp um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Það sem sá stýrihópur sem hér um ræðir verður að gera er að huga að reglum á blönduðum stígum (hjólreiða- og göngustígum). Oft hefur legið við stórslysum á blönduðum stígum. Að leggja stíga, blandaða stíga sérstaklega fylgir ábyrgð að öryggi þeirra sem eiga að nota hann verði sem best tryggt. Setja þarf hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Á sínum tíma var lögð lína þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Sú lína er ekki lengur þar sem umferð á stígum hefur aukist mikið. Í hjólreiðaáætlun er markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Þetta tekur mörg ár. Nú myndast iðulega vandræða- og hættuástand á blönduðum stígum. Fólk er hvatt til að hjóla en aðstæður fyrir hjólandi og gangandi eru bara víða ekki góðar. Þar sem hægt er að hafa línu til að aðskilja gangandi og hjólandi þá ætti hún að vera til staðar. Skipulagsyfirvöld voru of fljót á sér að fræsa línuna í burtu og halda að skilti duga. Sums staðar hefur línan verið látin eyðast. Fulltrúa Flokks fólksins þykir þetta ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum. Á meðan hjólreiðastígar eru ekki aðskildir frá göngustígum þarf að gæta varúðar og freista einskis til að tryggja öryggi vegfarenda stíganna eins og hægt er.
Lýðræði, gegnsæi og að hlusta á borgarbúa
14.5.2020 | 13:37
Miðbæjarmálin voru á dagskrá fundar skipulags- og umhverfisráðs og ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili. Ákveðið var að fresta tillögu meirihlutans um eina viku en hún var á þá leið að stækka ætti göngugötusvæðið enn meira. Þetta mál er í raun einstakt fyrir nokkrar sakir. Fulltrúa Flokks fólksins fannst þetta vera prófmál þessa meirihluta á kosningaloforð þeirra sem var m.a. að virða lýðræði, gegnsæi og hlusta á borgarbúa. Á þessu prófi er meirihlutinn nú þegar kolfallinn. Ráðist hefur verið í breytingar sem fljótlega komu í ljós að voru ekki í þágu fjölda fólks og þ.m.t. fólks sem hefur persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Margt hefur verið reynt til að ná eyrum meirihlutans, undirskriftalistar, hróp, skrif, umræður og viðtöl. Allt hunsað og keyrt áfram af hörku. Þegar viðskipti minnkuðu flúðu tugir eigendur verslana svæðið. En það breytti engu fyrir þennan meirihluta, áfram skyldi haldið með það sem var ákveðið og allir áttu að vita að hafi verið ákveðið, fyrir löngu eins og þau segja í meirihlutanum þegar þau eru krafin um rök fyrir framgöngu sinni. En framkoma eins og þessi við borgarbúa sýnir vanvirðingu. Flestir sjá að vel er hægt að bíða og endurmeta stöðuna. Það skaðar ekki.
Setja þarf hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum
13.5.2020 | 13:48
Bleyta fyrst og sópa svo
11.5.2020 | 19:48
Einn stærsti áfangi lífs míns
11.5.2020 | 19:46