Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Lestur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt fram mál í borgarstjórn þar sem hvatt er til að nota ávallt gagnreynda lestraraðferð og að lögð sé áhersla á að lesskilningur sé þjálfaður frá byrjun enda er lestur og lesskilningur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun.

Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA undanfarin ár þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestribarn að lesa og lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. 

Á fundi borgarráðs í vikunni voru eftirfarandi fyrirspurnir lagðar fram:

Í hversu miklum mæli eru skólar að nota gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri s.s. bókstafa-hljóða-aðferðina sem sérfræðingar eru sammála um að sé sú leið sem hafi gefið bestan árangur?

Eru skólar að huga sérstaklega að þeim börnum þar sem hefðbundnar aðferðir henta ekki, heldur t.d. frekar sjónrænar kennsluaðferðir?

Eru gerðar einstaklingsmiðaðar námsáætlanir um leið og kemur í ljós að barn hefur sérþarfir af einhverjum toga?
Eru fyrir hendi samræmd árangursmarkmið í skólunum um að börn séu orðin læs eftir 2. 
bekk og að áherslan sé á þjálfun lesskilnings?
Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla sem snúa að þjálfun sem eykur lesskilning?

Rannsóknir hafa sýnt að börn innflytjenda eru að koma verr út en í nágrannalöndum.
Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla í Reykjavík til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.


Framkvæmdastjóri sem er diplómatískur og kann að miðla málum

Ég er aðeins að hugsa núna í ljósi þessa nýja fyrirkomulags í sveitarstjórn á Akureyri þar sem tekinn hefur verið upp samstarfssamningur. Ef ég máta þetta við sveitarfélagið Reykjavík þá er borgarstjóri ekki þessi diplómatíski málamiðlari sem hann gæti verið ef hann vildi í stað þess að taka alltaf kerfisbundið stöðu með meirihlutanum. Farsælast væri ef framkvæmdastjóri sveitarfélags væri ráðinn en ekki kjörinn, held ég.

Borgarstjóri tekur ávallt stöðu með meirihlutanum og reynir aldrei að miðla málum, ná sameiginlegri lendingu með minnihlutanum. Það myndi auðvitað breyta öllu ef framkvæmdastjórinn legði áherslu á að ná sameiginlegri lendingu í málum. Auðvitað gæti framkvæmdastjórinn, þótt hann sé kjörinn vel beitt sér þannig, t.d. gefið sjónarmiðum minnihlutans meiri gaum. Í rauninni er það í höndum framkvæmdastjórans, kjörins eða ráðins hvernig samstarfi er háttað og hvort menning og andrúmsloftið sé gott og heilbrigt í borgar/sveitarstjórninni. Það er í hans valdi hvort hann vill halda utan um sveitarstjórnina þannig að fulltrúar fá aðkomu að ákvörðunum og þar með taki ábyrgð. Og það er í hans höndum með hvaða hætti samstarfinu er háttað til að það skili sem mestum árangri fyrir fólkið í sveitarfélaginu. Í Reykjavík er minnihlutinn áhrifalaus og getur aðeins tjáð sig í gegnum bókanir og í ræðum á fundi borgarstjórnar. Málum sínum koma þeir fram með tillögum sem framkvæmdarstjóri/borgarstjóri hafnar nánast alltaf. Minnihlutinn veitir vissulega aðhald og hefur eftirlit eins og honum ber að gera og gerir það í gegnum eina tækið sem hann hefur, bókanir.

En þetta gæti verið svo mikið mikið betra ef við hefðum framkvæmdastjóra sem væri diplómatískur og fær stjórnandi.

 


Borgarstjórnarsalinn á ekki að nota til að fá útrás fyrir persónulega heift

Þessi uppákoma í gær í borgarstjórn var með ólíkindum, ég missti andlitið og að horfa upp á heiftina, hjálpi mér. Ég var komin að fremsta hlunn með að bjóða borgarfulltrúa Pírata að finna fyrir hana góðan sálfræðing. Það hlýtur að búa mikið undir þegar hvert tækifæri innan sem utan borgarstjórnar er notað til að hatast út í annan einstakling með þessum hætti. Sama gerðist reyndar í Silfrinu þar sem Sigurborg gat ekki á sér setið. Er þetta ekki komið út í meiðyrði? Alla vega á þetta ekki heima í borgarstjórn svo mikið er víst og gildir engu um hverja ræðir. Við vorum kosin til að gæta hagsmuna borgarbúa, það er okkar hlutverk í borgarstjórn. Held bara að borgarstjóra hafi verð skemmt, svei mér þá, var alla vega mín upplifun. Hann beitti sér í það minnsta ekki neitt til að stoppa þennan vitleysisgang sem meirihlutinn kallar yfir sig.

 


Fögur fyrirheit en minna um efndir

Borgarstjórnarfundur er í fullum gangi og nýlega lauk umræðu um stöðu barna í Reykjavík. Farið var vítt og breytt. Ég hef f.h. Flokks fólksins lagt fram ótal tillögur sem flestar hafa farið í tætarann hjá meirihlutanum. Í þessari bókun reyndi ég að taka saman helstu þætti sem bara verður að laga.

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi.

Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu til talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn


Ekki öll börn komast að borðinu

Samkvæmt tölum Hagstofunnar 2020 eru 28-35 þúsund manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátæk, þar af allt að 10 þúsund börn undir 16 ára aldri. Stærsti hlutinn eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna. Fátækir foreldrar hafa oft ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neita börnum sínum um þátttöku í skólatengdum félagsviðburðum. 

Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna sem ýmist eru til þess fallnar að bæta aðstæður barna í skólatengdu umhverfi, bæta og flýta þjónustu ætlaða börnum eða stuðla að börn sitji við sama borð án tillits til m.a. efnahagsstöðu foreldra.  

Enda þótt börn í Reykjavík hafi það almennt gott og líður vel bæði á heimilum sínum, í skóla, frístund og tómstundum er það margt sem betur má fara í þjónustu við börn og foreldra þeirra. Í borgarstjórn 15. september flyt ég fyrir hönd Flokks fólksins.
Hún hljóðar svona:

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. 

Hér er verið að vísa til afþreyingu utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög.Eina leiðin til að tryggja að öllum börnum sé boðið að borðinu, njóti sem sagt jafnræðis án tillits til aðstæðna eða nokkurs annars er að grípa til sértækra aðgerða eins og að tekjutengja gjöld. Ef lækkanir og afslættir ganga sífellt jafnt yfir alla þá verður aldrei neinn jöfnuður. Foreldrar sem eru vel settir fjárhagslega vilja gjarnan borga vel fyrir veitta þjónustu.

Hinn 11. apríl lagði Flokkur fólksins til í borgarráði að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum.
Tillögunni var vísað til Velferðarráðs. Þar var henni vísað frá. 

Það var miður miður og hljómar illa þegar tillaga eins og þessari er fleygt út af borðinu eins og hún sé ekki þess verð að fá nánari skoðun. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið aftur til að höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum þar með tekjutengingaraðferðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks.

Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður hefur étið upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. 




Pálmatré í Vogabyggð, eitt stórt klúður!

Pálmatré í Vogabyggð. Ég spurði hvað væri að frétta af raunhæfismatinu og fékk svar í vikunni sem leið.
Hér eru bókanir Flokkur Fólksins og meirihlutans og gagnbókanir. Ég segi í gagnbókun, hvernig væri bara að viðurkenna að þetta var eitt stórt klúður??!
 
Bókun
Flokkur fólksins spurði hvað væri að frétta af raunhæfismati á útilistaverki í Vogabyggð. Fram kemur að raunhæfismatið er ekki hafið en er á dagskrá. Matið verður unnið af óháðum ráðgjöfum ásamt sérfræðingum umhverfis- og skipulagssviðs. Áætlaður kostnaður við raunhæfismatið liggur ekki fyrir. 

Í raunhæfismatsferlinu á að planta trjám á opnum svæðum og athuga hvort þau lifi. Þetta getur tekið mörg ár og orðið ansi fjárfrekt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að nú þegar hafa sterkar vísbendingar komið fram um að þetta gangi ekki, sé ekki aðeins óraunhæft heldur hrein og klár vitleysa. Mörgum finnst það stórt álitamál og jafnvel ábyrgðarhluti að borgarmeirihlutinn ætli að verja bæði tíma og  fjármagni í eitthvað sem er ljóst  að muni ekki ganga. Hér er gott dæmi þess hvernig fé og tíma er eytt í gæluverkefni í stað þess að huga að þarfari hlutum eins og að styrkja grunnþjónustu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að verið sé að teygja málið því meirihlutinn á erfitt með að viðurkenna mistök. En gerði hann það, væri hann maður að meiri!
 
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki er verið að „teygja“ málið líkt og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins heldur fram heldur kemur beinlínis fram í svarinu eftirfarandi: „Ekki eru tafir á undirbúningsvinnu eða framkvæmdum í Vogabyggð vegna raunhæfismatsins“.
 
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það geta öllum orðið á mistök og er tímabært að skipulagsyfirvöld viðurkenni klúður sitt varðandi þetta pálmadæmi í Vogahverfi og spari þar með  borgarbúum óþarfa útgjöld.

Börnum úthýst vegna vanskila foreldra

Eins og fréttist um daginn þá eru dæmi um að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið.

Hér er bókun:
Fulltrúi Flokkur fólksins vill taka undir orð umboðsmanns barna þar sem hún segir að ákvörðun sveitarfélags um að synja foreldrum í erfiðri stöðu um vistun fyrir barn í leikskóla er eingöngu til þess fallin að auka á erfiðleika viðkomandi heimilis með því að gera foreldrum síður kleift að stunda vinnu utan heimilis og framfæra börn sín. Þannig minnka sömuleiðis líkurnar á því að skuldir foreldra við sveitarfélagið verði greiddar. Tilefni bréfsins er að fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið.
Dæmi eru um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum. Í mannréttindastefnu og Barnasáttmálanum segir að börn skuli hafa jafnan rétt án tillits til m.a. efnahagsástands foreldra. Börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir fátækt. Huga þarf einmitt sérstaklega að börnum í aðstæðum þar sem fátækt ríkir en ekki útiloka þau með því að meina þeim vist í leikskóla af því að foreldrar þeirra geti ekki borgað. Nú er aðstæður vegna COVID að koma skýrar í ljós. Róður er þungur hjá mörgum foreldrum og á eftir að þyngjast enn.

Hverfisskipulag Breiðholts, samráðsþátturinn

Tillögum Flokks fólksins um að auka aðgengi Breiðhyltinga að skipulagsyfirvöldum vegna hverfisskipulags Breiðholts var felld á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun. Aðallega var tillagan lögð fram til að tryggja að þeir sem halda sig heima nú vegna COVID fái tækifæri til að eiga samtal um hverfisskipulagið. En skipulagsyfirvöld telja ekki þörf á fjölgun viðveru eða frekari fundum þar sem mikil þátttaka hefur verið í samráðsferli eftir því sem segir í bókun þeirra.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að viðverudögum verði fjölgað í Mjódd og Gerðubergi vegna COVID ástandsins. Einnig fannst Flokki fólksins mikilvægt að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari svo hægt er að halda almennilega íbúaráðsfundir í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild.

Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi af ótta við smit. Sumir eru einnig  í sóttkví eða einangrun vegna COVID.

Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri til að kynna sér hugmyndirnar og koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti.  

Með því að fella þessa tillögu er verið að loka fyrir þann möguleika að það fólk sem er fast heima vegna COVID geti komið til skrafs og ráðagerðar um hverfisskipulagið.
Fyrir þá sem eru fastir heima þeim þarf að bjóða aðrar leiðir til að fá kynningu og koma ábendingum sínum á framfæri. Vel má hugsa sér að starfsmaður fari í heimsóknir til fólks sem óska eftir að ræða málin.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband