Bara geri það og steinheld kjafti á meðan
13.2.2011 | 20:02
Hvað sem öllu líður er dónalegt að púa á fólk. Jón Gnarr á ekki persónulega sök á þeim vanda sem þjóðin glímir nú við eða borgarbúar ef því er að skipta. Ég fagna hagræðingu og betra skipulagi. Margt hefur lengi mátt betur fara.
Finnst bara í lagi að vinna meira fyrir minna á meðan við komum okkur út úr þessu. Bara geri það á meðan kraftar leyfa og steinheld kjafti á meðan.
Var eina skilnaðarbarnið í bekknum
24.1.2011 | 19:29
Já tímarnir hafa breyst. Í grunnskóla eða barnaskóla eins og það hét minnist ég þess að hafa verið eina skilnaðarbarnið í bekknum. Gagnvart skilnaði foreldra var í þá daga takmarkaður skilningur.
Hvernig líður skilnaðarbörnum?
Sumum skilnaðarbörnum líður illa. Þeim finnst jafnvel skilnaður foreldra sinna stundum vera þeim að kenna. Þau upplifa jafnvel skömm. Líðan getur stundum verið svo slæm að börn fráskildra foreldra reyna að láta lítið fyrir sér fara og vilja helst ekki að aðrir í skólanum viti um skilnaðinn.
Margt hefur breyst á 40 til 45 árum. Án þess að hafa einhverjar rannsóknarniðurstöður til að styðjast við, þá vil ég engu að síður fullyrða að í sumum tilvikum er hægt að finna bekk þar sem jafnvel helmingur barnanna eiga foreldrar sem ekki búa saman.
Samhliða þeirri staðreynd að skilnaðir hafa farið vaxandi hefur viðhorf til skilnaðar almennt séð breyst. Núna eru þeir sem sinna börnum hvort heldur í skóla eða í tómstundum farin að skilja betur áhrif skilnaðar á börn og mögulegar afleiðinga hans á sálarlíf barnanna.
Alvarlegar og langvinnar afleiðingar eru helst í þeim tilvikum þar sem skilnaðurinn hefur haft langan og átakamikinn aðdraganda og þar sem börnin hafa jafnvel orðið á milli hatrammrar deilu foreldranna. Ekki bætir úr skák ef foreldrarnir halda áfram eftir skilnaðinn að deila og skammast út í hvort annað og nota börn sín til að ná sér niður á hvort öðru.
En það er efni í annan pistil.
Bókin Sumarlandið hefur haft áhrif..á mig
16.1.2011 | 19:58
Í miðju amstri þessa samfélags er lestur bóka oftar en ekki hin besta hvíld vegna þess að hægt er að gleyma sér, oft algerlega.
Þessi bók er einstök. Ég ákvað að lesa hana með opnum huga en veit ég sjálf ekki baun í bala um þessi mál. Vil bara hlusta og vega og meta hvað mátast best.
Fréttamenn fengu bikar að gjöf á Bessastöðum í tilefni árs skóganna
15.1.2011 | 12:57
Á blaðamannafundi á Bessastöðum í tilefni árs skóganna fengu fréttamenn gefins bikar sem er hannaður og smíðaður af Jóni Guðmundssyni, plöntulífeðlisfræðingi.
Á stilknum hangir hringur sem ekki er hægt að ná af. Hugmyndin er sú að bikarinn hafi þá eiginleika að hann tæmist aldrei af góðum áformum, því þau væru bundin í hring um hann miðjan og haggast ekki.
Ár skóganna, hér má sjá athöfnina á Bessastöðum
Árið 2011 er alþjóðlegt ár skóga að frumkvæði allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að auka vitund um sjálfbæra nýtingu, verndun og þróun í öllum gerðum skóglenda. Skógrækt ríkisins mun, í samvinnu við aðra hagsmunaðila í skógrækt, koma að ýmsum viðburðum á árinu í tengslum við ár skóga.
Hún kallar ekki allt ömmu sína stúlkan að tarna
8.1.2011 | 12:48
Birgitta Jónsdóttir er í óvenjulegum aðstæðum
Um hana má með sanni segja að hún lætur ekki troða á sér, hún er fylgin sér, staðföst og hugrökk. Birgitta kom í viðtal Í nærveru sálar í fyrra og ræddi um samskipti á Alþingi þar á meðal fremur neikvæð samskipti sem hún hafði bæði orðið vitni að og reynt sjálf. Þátturinn bar yfirskriftina Er einelti á Alþingi?
Það er vonandi að samskipti á Alþingi hafi frekar batnað síðan og að þingmenn komi vel fram við hvern annan eins og gera má kröfu um á öllum vinnustöðum.
Nú er lag að birta jákvæðar fréttir
5.1.2011 | 20:24
Svo virðist sem sumir fjölmiðlamenn séu hálf vonsviknir yfir að ekki sprakk allt í háaloft hjá VG í dag á fundinum sem beðið hefur verið eftir.
Það hefði náttúrulega verið feitt fréttaefni.
Hvort sem það eru VG, sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn þá skýtur það skökku við ef í ljós kemur að verið sé að vonast eftir að neikvæðir og erfiðir hlutir gerist til þess að geta birt einhverjar hasarfréttir fyrir blóðþyrsta.
Eru einhverjir sem vonast til að allt fari á versta veg hjá til að geta komið með einhverjar krassandi fréttir?
Það kann að vera gúrkutíð hjá fjölmiðlum núna en þá er einmitt lag að birta og fjalla um jákvæða hluti, skemmtilegar sammannlegar vangaveltur og margt það sem gott fólk er að gera vel og það sem er að ganga vel t.d. í stjórnun landsins og í lífi einstaklinga og hópa.
Við Reykjavíkurtjörn
2.1.2011 | 19:23
Hlustaði rétt í þessu á Egil Ólafsson syngja lagið Við Reykjavíkurtjörn, texta samdi Davíð Oddsson.
Höfundur lags er Gunnar Þórðarson.
Alin upp í Melunum, þá yljar sannarlega að hlusta á þetta lag og texta.
Kallar á fullt af minningum þegar maður lék sér við tjörnina og því umhverfi öllu. Þá var Melavöllurinn til og gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu var einn stór ævintýraheimur.
Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag.
1.1.2011 | 19:07
Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag. Matarkortarkerfi hlýtur að henta betur.
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið hefur einhvern veginn misst af lestinni þegar kemur að hagkvæmni og þróun í þessum málum. Á þetta hafa margir bent.
Þetta fyrirkomulag sem verið hefur á matargjöfum er úrelt. Landsbyggðin, sumstaðar alla vega, hefur breytt þessu yfir í matarkort. Er nokkuð vit í öðru? Slíkt fyrirkomulag getur varla verið flókið miða við margt annað.
Hjálparsamtök, Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd hljóta einnig að þurfa að vinna saman, sameinast enda tilgangur og markmið þeirra það sama.
Ágætt ávarp
1.1.2011 | 13:53
Eitthvað íslenskt, á Skólavörðustíg 14
20.12.2010 | 20:18
Ef ykkur vantar óvenjulega og fallega íslenska hönnun til að gefa í jólagjöf þá kíkið í kjallarann á Skólavörðustíg 14.
Allt frá pennum og skartgripum úr íslenskum við yfir í stórar ávaxtaskálar og lampa úr margs konar viði.
Verðið er gott og svo er alltaf hægt að skipta vörunni hjá þeim sem hana framleiðir.
Jólatiltektin hjá sumu fólki, að setja dýr í poka og fleygja?
18.12.2010 | 11:10
Tiltekt einhvers fyrir þessi jól felur í sér að setja ketti í poka og fleygja þeim í rusl eða út á víðavang.
Hvað býr innra með manneskju sem gerir svona?
Illska og hatur?
Heimska?
Allt þetta þrennt og meira til?
Það er ekki oft sem manni hreinlega sortnar fyrir augun og gælir við hinar verstu hugsanir um hvað manni myndi langa til að gera við fólk sem þetta gerir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir berast af viðurstyggilegum aðferðum við að losa sig við dýr.
Þessu fólki er ekki hægt að senda hugheilar jólakveðjur.
Þeirra hlýtur að bíða reikningsskil gjörða sinna annars staðar.
Takk sömuleiðis
17.12.2010 | 19:22
Mikið hafði ég gaman að því að heyra um hjónin sem tóku jólakortin sem þau fengu, skrifuðu á þau takk sömuleiðis og sendu til baka til þeirra sem sendu þau.
Þetta kalla ég hugmyndaríki og góð nýting á fjármunum.
Ég heyrði að Lára Ómarsdóttir hafi sagt frá þessu í fréttum.
Svona lagað fær mann sannarlega til að brosa í skammdeginu og aðdraganda jóla.
Snilld.
Hræðsluáróður? Fjölmiðlar í hasarstuði??
15.12.2010 | 19:36
Er þetta hræðsluáróður hjá rekstraraðilum Sólheima?
Legg til að nýir verða fundnir.
Átta mig ekki á þessum skilaboðum þeirra sem reka Sólheima.
Skil heldur ekki af hverju fjölmiðlar hoppa á fyrirsögn eins og LOKA Á SÓLHEIMUM?
Fjölmiðlar oft óþolandi hasarkenndir.
Gói allur að gera sig
11.12.2010 | 20:42
Mjög góður þáttur áðan með Góa, (Guðjóni Karlssyni).
Var farin að hlakka til að fylgjast með fleiri þáttum af Hringekjunni.
En svo bara kvaddi hann, að því er virtist endanlega.
Það hefði þurft að gefa honum meiri tíma til að sanna sig.
Þátturinn og þáttarstjórnandinn var allavega vaxandi.
Leitt að ekki verða fleiri þættir.
Ábyrgðarleysi að taka ekki þátt
9.12.2010 | 19:38
Gera verður þá kröfu til Bændasamtaka Íslands, að þau skipti þegar í stað um afstöðu til samninganefndarinnar, taki þátt í því starfi sem þar fer fram og leggi sitt af mörkum til að samningarnir sem unnið er að, verði sem bestir fyrir land og þjóð, bændur jafnt sem aðra þegna þessa lands segir Ingimundur Bergmann.
Væri ég bóndi fyndist mér þessi afstaða Bændasamtakanna óþolandi. Að sitja heima sýnir ábyrgðarleysi. Hvort sem maður er fylgjandi eða á móti þá er aðalatriðið að mæta á svæðið og reyna að hafa áhrif samkvæmt sinni bestu sannfæringu og í þágu manna og málefna sem maður er umboðsaðili fyrir.
Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi
22.11.2010 | 16:44
Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi. Það hefur stundum borið á því að þingmenn kjördæma hafi hyglað mönnum og máefnum sem einskorðast við það kjördæmi sem þeir voru kosnir í.
Þetta er sögulega einn aðal ókosturinn við það kjördæmafyrirkomulag sem nú ríkir.
Reyndar var þetta enn verra hér áður fyrr. Halda mætti að um væri að ræða einhvers konar hefð sem erfitt er að komast út úr.
Tengsl hafa myndast, menn eru nánir hver öðrum, jafnvel frændur. Þetta á við um stærri sem smærri kjördæmi en er þó e.t.v. meira áberandi í þeim smærri vegna smæðarinnar.
Kjördæmaskipan þarf m.a. að taka fyrir á stjórnlagaþingi. Mjög margir eru sammála um það.
Viðtöl við frambjóðendur. RÚV stendur sig vel.
20.11.2010 | 19:27
Ég vil þakka RÚV fyrir að gera sitt allra besta með að kynna frambjóðendur til stjórnlagaþings.
Í dag var ég ásamt fjölmörgum öðrum í fimm mínútna viðtali um af hverju ég gæfi kost á mér til stjórnlagaþings og hverju, ef einhverju, ég vildi breyta í stjórnarskrá Íslands?
Skipulag var til fyrirmyndar. Viðhorf og móttaka starfsmanna var til fyrirmyndar.
Hvað svo sem mér finnst ég geta sagt um eigin frammistöðu í viðtalinu er klárt í mínum huga að RÚV er að sinna hér skyldu sinni með sóma.
Takk fyrir það RÚV.
Hvorki betri né færari
20.11.2010 | 18:19
Í hópi frambjóðenda er gríðarlegu fjöldi af hæfu og færu fólki.
Ég skil vel ef kjósendur eru í vanda með val sitt. Mikill kostur er þó að hafa úr slíkum fjölda að velja og að geta valið svo marga sem raun ber vitni.
Ég geri mér góða grein fyrir að enda þótt ég telji mig góðan kost í þetta verkefni þá er ég hvorki betri né hæfari til að takast á við það en fjölmargir aðrir frambjóðendur.
Vonandi velst á þingið hópur af heiðarlegu fólki sem á gott með að eiga samskipti. Hópurinn ætti helst að vera sem næst því að vera þverskurður af samfélaginu. Stjórnlagaþingmenn þurfa einnig að hugsa stöðugt um á meðan á verkefninu stendur, hvernig samfélag gagnast best komandi kynslóðum.
Starfshættir Alþingis fyrr, nú og í framtíðinni
20.11.2010 | 14:55
Í tilefni umræðunnar í tengslum við stjórnlagaþing set ég hér inn fróðlegt viðtal við Ragnhildi Helgadóttur fyrrv. alþingismann og ráðherra.
Við græðum yfirleitt á því að hlusta á reynslumikið fólk eins og Ragnhildi. Af henni getum við lært með hvaða hætti við viljum hafa eitt og annað í sambandi við t.d. starfshætti á Alþingi.