EKKI MEIR fræðsla í boði
12.9.2013 | 09:26
Útgefandi er Skólavefurinn ehf. Nánari upplýsingar um bókina og innihald fræðslunnar má sjá á www.kolbrunbaldurs.is

Erindi byggð á hugmyndafræði EKKI MEIR:
EKKI MEIR fyrir kennara og starfsfólk grunnskóla, leiðbeinendur og þjálfara íþrótta- og æskulýðsfélaga
EKKI MEIR fyrir kennara og starfsfólk framhaldsskóla
EKKI MEIR fræðsluerindi um eineltismála sérsniðið að foreldrum
EKKI MEIR, fræðsluerindi fyrir vinnustaði
Einnig er boðið upp á eftirfarandi fræðsluerindi:
Hvernig eflum við innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofbeldi?
Fræðsla í samskiptum sérsniðin að þjálfurum, leiðbeinendum og sjálfboðaliðum
Grunnskólabarnið: samskipti foreldra og barna, þjálfun í foreldrafærni
Unglingastigið: Samskipti á heimilinu, tölvunotkun og netið
Fjarfundarkennsla er í boði eigi sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni þess kost að fá fræðsluerindi á netfundi
Sálfræðistofa Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings er flutt í Ármúla 5
Einstaklingsráðgjöf, para- og hjónaráðgjöf, uppeldisráðgjöf
Ráðgjöf í forsjár- og umgengnismálum
Handleiðsla og samskiptaþjálfun
Tímapantanir í síma 899 6783 eða í tölvupósti www.kolbrunbald@simnet.is
www.kolbrunbald@simnet.is
eða í síma 899-6783
Viðvarandi rifrildi og þras eitrar
8.9.2013 | 10:50
Ósætti og ítrekuð rifrildi foreldra hefur skaðlegri áhrif á börn en sumt fólk gerir sér grein fyrir. Foreldrar gleyma þessu stundum í tilfinningahita leiksins og halda að barnið/börnin séu bara að leika sér eða séu í sínum hugarheimi.
Þau eru hins vegar sennilegast að hlusta gaumgæfilega, fylgjast með framvindu mála full kvíða og vanmáttar. Stundum halda þau að ósætti mömmu og pabba sé sér að kenna.
Skilaboðin eru þessi:
Ekki rífast fyrir framan barnið/börnin ykkar. Það skaðar þau.
Gerum okkur klár
14.8.2013 | 21:06
Í upphafi haustannar þarf að yfirfara forvarnarstefnu og framkvæmd hennar, verkferla og vinnubrögð við úrvinnslu eineltismála og viðbragðsáætlun.
Meira hér
Gerum okkur klár
grein í morgunblaðinu í dag
Á Hvolsvelli í Hvolsskóla mánudaginn 26. nóvember
24.11.2012 | 10:42
EKKI MEIR! Vinnum gegn einelti!
Fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála verður haldið 26. nóvember kl. 17.30 19.00 í sal Hvolsskóla. Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur EKKI MEIR.
EKKI MEIR er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Á erindunum er Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum Siðareglum Æskulýðsvettvangsins.
Bókin EKKI MEIR er seld á staðnum á kostnaðarverði.
Léttar kaffiveitingar í boði og allir velkomnir.
Upplestur úr barnabókum
24.11.2012 | 10:17
Eymundsson er 140 ára og í tilefni af því mun ágóðinn af öllum seldum barnabókum renna til Barnaheilla. Eymundsson verður með viðburði í öllum verslunum sínum þar sem ýmsir þekktir einstaklingar munu lesa uppúr barnabókum.
Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari samakanna mun leggja þeim lið með því að lesa upp úr barnabók í Eymundsson Austurstræti í dag, laugardag kl. 14.
Hér má sjá ræðu formanns Barnaheilla í heild sinni.
Verndari Barnaheilla, Frú Vigdís Finnbogadóttir, forsætisráðherra, ráðherra, biskup Íslands og aðrir góðir gestir.
Til hamingju með daginn!
Í dag, á afmælisdegi Barnasáttmálans mun Barnaheill veita sína árlegu viðurkenningu til að vekja athygli á sáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna í öllum birtingarmyndum. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, samtökum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna og með starfi sínu bætt réttindi og stöðu þeirra sem og lagt grunn að andlegu og líkamlegu heilbrigði þeirra.
Saga mannréttinda barna og Barnasáttmálans er samofin sögu Save the Children samtakanna. Eglantyne Jebb stofnaði Save the Children árið 1919. Jebb lagði áherslu á að öll börn skyldu njóta sömu réttinda óháð stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Árið 1923 gerðu Save the Children samtökin drög að sáttmála sem var yfirlýsing um réttindi barna, oftast nefnd Genfaryfirlýsingin. Yfirlýsingin var samþykkt af Þjóðarbandalaginu árið 1924.
Ný yfirlýsing um réttindi barna var gefin út árið 1959, en þá var Þjóðarbandalagið liðið undir lok og Sameinuðu þjóðirnar búnar að taka við keflinu. Nú skyldi festa réttindi barna í lög og börnum ekki mismunað vegna kynþáttar, tungumála eða annars. Börn áttu nú rétt á nafni, þjóðerni og að alast upp hjá foreldrum sínum ef mögulegt er og skuli þau njóta ókeypis grunnmenntunar.
Á 7. áratugnum var farið að leggja áherslu á mikilvægi þess að þjóðir setji upp áætlanir um réttindi og velferð barna. Það leiddi til þess að ákveðið var að árið 1979 yrði alþjóðlegt ár barnsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Í kjölfarið fór vinna í gang við gerð Barnasáttmálans og var hann samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989.
Barnasáttmálinn er leiðarljós Barnaheilla- Save the Children á Íslandi. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur árið 1992. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa fullgilt sáttmálann og er hann því útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um lögfestingu samningsins og fagna Barnaheill því og þeirri réttarbót sem því fylgir fyrir börn á Íslandi.
Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn og felur hann í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð forsjáraðilum, og að þau ber að vernda gegn hvers kyns hættum og ofbeldi. Samningurinn tryggir börnum borgaraleg réttindi, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi.
Öllum þeim sem koma að málefnum barna með einum eða öðrum hætti ber að rækta persónuleika og andlega og líkamlega getu þeirra. Í skyldum okkar felst að kenna þeim að lifa ábyrgu lífi í anda skilnings, umburðarlyndis, jafnréttis og vináttu milli þjóða, þjóðernis- og trúarhópa. Veitum einnig athygli réttindum barna til hvíldar og tómstunda, til að leika sér og stunda skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og til þátttöku í menningarlífi og listum. Samkvæmt 12. og 13. grein Barnasáttmálans eiga börn rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Þau eiga jafnframt rétt á að tjá sig, leita sér upplýsinga, fá upplýsingar og miðla þeim.
Eitt af grunngildum Barnasáttmálans er réttur barna til að njóta umhyggju og ástar forráðaaðila sinna og það er einmitt í þessum gildum sem sjálfsmynd barnsins á sér rætur.
Til að barnið eigi þess kost að þróa með sér sterka sjálfsmynd og geti upplifað sig verðugan einstakling þarf það að finna að það skiptir máli, sé elskað án tillits til hugsana, tilfinninga eða atferlis. Tilfinningin um verðleika og að líða vel í eigin skinni öðlast barnið einna helst í samskiptum við uppeldisaðila sína.
Sjálfsmynd einstaklingsins samanstendur af fjölmörgum þáttum sem spannar bæði fortíð, nútíð og væntingar til framtíðar. Sjálfsmyndin byggir á hugmyndum og skoðunum sem einstaklingurinn hefur um sjálfan sig, hvernig hann metur sjálfan sig, skilgreinir sig, ber sig saman við aðra, mátar sig og speglar í viðbrögðum annarra.
Einstaklingur sem kemur út í lífið með gott sjálfstraust, metnað og innri aga hefur lært að bera virðingu fyrir tilfinningum sínum og tilfinningum annarra. Hann hefur lært að bera virðingu fyrir líkama sínum og er því líklegri til að vilja sneyða hjá því sem getur ógnað eða skaðað andlega eða líkamlega heilsu hans. Hann hefur öðlast færni í að skynja, meta og lesa aðstæður og á t.a.m. auðveldara með að greina hvenær um hópþrýsting er að ræða. Einstaklingur með sterka sjálfsmynd er sjálfsöruggari í allri sinni framkomu. Líkurnar á því að hann muni eiga góð og uppbyggileg samskipti við samferðarfólk sitt eru miklar.
Þannig má segja með sanni að forvarnirnar felist fyrst og síðast í sjálfsöryggi og persónulegum metnaði sem einstaklingurinn nýtir til að ná settum markmiðum og árangri.
En það kemur þó ekki einungis í hlut umönnunaraðila að hjálpa barninu að byggja upp heilsteypta sjálfsmynd. Fjölmargir aðrir koma við sögu. Og það eru einmitt þessir aðrir sem Barnaheill vill með viðurkenningu sinni heiðra að þessu sinni.
Viðurkenningin í ár er veitt samtökum sem leggja áherslu á að styrkja og efla sjálfsmynd ungs fólks og vera sterkar fyrirmyndir hvert fyrir annað.
Viðurkenning Barnaheilla- Save the Children á Íslandi er að þessu sinni veitt Jafningjafræðslunni
Jafningjafræðslan er fræðslu- og forvarnarverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni "ungur fræðir unga" þar sem forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk. Fræðsla Jafningjafræðslunnar er unnin á jafnréttisgrundvelli og eru allir íslenskir fræðarar á aldrinum 17-21 árs.
Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegra fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft. Ástæðan er sú að ungmenni samsama sig öðrum ungmennum, gefa orðum þeirra oft frekar gaum en orðum fullorðinna og eru óhrædd við að tjá sig í félagsskap jafnaldra. Þetta er það sem oft er kallað tvöföld virkni Jafningjafræðslunnar, samræðurnar annars vegar og virkni fyrirmynda hins vegar.
Jafningjafræðslan var stofnuð á Íslandi árið 1996 af menntaskólanemum og studd danskri fyrirmynd og hét þá Jafningjafræðsla framhaldsskólanema. Upphaflega var Jafningjafræðslan stofnuð til að sporna við og draga úr neyslu vímuefna. Núna er Jafningjafræðslan rekin af Hinu Húsinu í Reykjavík og hefur starfsemi hennar orðið æ fjölbreyttari með árunum. Boðið er upp á hnitmiðaða fræðslu um ólík mál, umræðuvettvangur skapaður í félagsmiðstöðvum og skólum og vímulausar skemmtanir og uppákomur skipulagðar. Í öllu starfi Jafningjafræðslunnar er lögð áhersla á að efla og styrkja sjálfsmynd ungs fólks, enda besta veganestið sem unglingar fá út í lífið þar sem hún eykur velgengni og vellíðan.
Störf jafningjafræðara eru eftirsótt hjá ungu fólki og tugir sækja um ár hvert. Allir fræðarar gangast undir strangt ráðningarferli og inntökupróf. Þeir jafningjafræðarar sem eru valdir í störfin eiga það sameiginlegt að hafa ríka samskiptahæfileika, eiga auðvelt með að ná til ungs fólks og eru sjálfir góðar fyrirmyndir í sínu persónulega lífi.
Góðu gestir
UNGUR FRÆÐIR UNGAN er sú hugmyndafræði sem Barnaheill vill með viðurkenningunni í ár leggja áherslu á. Barnaheill vill með vali sínu beina sjónum samfélagsins að hæfileikum, dugnaði og hugmyndaauðgi ungs fólks og hvernig það nýtir hæfileika sína til að fræða og hvetja annað ungt fólk til dáða.
Við fullorðnu fyrirmyndirnar, foreldrar, forráðamenn, ömmur, afar, frænkur og frændur getum lagt lóð á vogarskálina með því að auka meðvitund unga fólksins í fjölskyldum okkar og ekki síður okkar sjálfra. Spyrjum spurninga eins og:
Get ég huggað einhvern með návist minni?
Get ég veitt einhverjum skjól?
Get ég veitt einhverjum aðstoð eða stuðning?
Get ég hrósað, örvað og hvatt til dáða?
Get ég gert eitthvað sem gleður? Brosað til þeirra sem ég mæti eða talað fallega við þá sem ég umgengst?
Ég vil þakka Jafningafræðslunni fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Ég vil þakka frumkvöðlum hennar og stofnendum hér á Íslandi. Ég vil þakka þeim sem hafa beitt sér fyrir því að styrkja starfsemina og skapa þær góðu aðstæður sem hún býr nú við.
Megi Jafningjafræðslan vaxa, þróast og eflast enn frekar um ókomin ár, ungu fólki til hamingju og heilla.
En nú, kæru vinir, er komið að því að veita viðurkenningu Barnaheilla- Save the children á Íslandi 2012. Ég vil biðja framkvæmdastjóra Barnaheilla Ernu Reynisdóttur að koma hingað og fyrir hönd Jafningjafræðslunnar þau Brynhildi Karlsdóttur og Hersi Aron Ólafsson og veita þessu fallega glerverki viðtöku. Mig langar að geta þess að verðlaunagripinn gerði Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona.
Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla- Save the children á Íslandi
![]() |
Jafningjafræðslan hlaut verðlaun Barnaheilla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
EKKI MEIR á Hólmavík 22. nóvember
19.11.2012 | 18:39
Næsti viðkomustaður með EKKI MEIR er á Hólmavík á fimmtudaginn 22. nóvember. Tvö fræðsluerindi verða haldin þar, sá fyrri í grunnskólanum en sá síðari er kl. 16.30 í Félagsheimili Hólmavíkur og er sá fundur öllum opinn.
Komið er einnig inn á forvarnir og einelti á vinnustað og sjónum beint að tengslum forvarnarvinnu við staðarbrag og menningu. Áhersla er lögð á að útskýra með hvaða hætti staðarbragur tengist líðan starfsfólks og hvernig sú líðan er líkleg til að hafa áhrif á tíðni eineltismála. Leiða má líkum að því að þar sem forvarnarvinna er virk séu eineltismál fátíðari. Nefnd eru nokkur atriði sem eru nauðsynleg á vinnustað til að tryggja að góður andi varðveitist og viðhaldist. Framkoma sem einkennist af kurteisi og virðingu á að vera hluti af lífstíl en ekki tímabundið átak sem hrint er af stað í kjölfar t.d. kvörtunar um einelti.
Á erindinu verður Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum siðareglum Æskulýðsvettvangsins. Bókin EKKI MEIR verður auk þess seld á kostnaðarverði.
EKKI MEIR
25.10.2012 | 08:46
Svo mörg sorgleg mál hafa ratað inn á borð til mín nú eftir að EKKI MEIR kom út.
Þess vegna vil ég segja þetta:
Þolandi eineltis má aldrei tapa voninni. Sárin gróa seint, örin jafnvel aldrei. En það eru til aðferðir til að styrkja sjálfsmyndina og milda höfnunartilfinninguna og vanmáttinn.
Næsti fræðslufundur er í dag á Egilsstöðum. Að venju dreifum við veggspjöldum Æskulýðsvettvangsins og gænýrri Aðgerðaráætlun þeirra.
Að Æskuýðsvettvanginum standa UMFÍ, Skátarnir, KFUM og KFUK og Landsbjörg. Sjá nánar dagsskrá fyrirlestra á kolbrunbaldurs.is
Fræðslufundirnir eru öllum opnir.
Þekkir þú svona yfirmann?
24.3.2012 | 12:53
Þekkir þú svona yfirmann?
Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um það að fólk sem skortir flest það sem telst prýða góðan stjórnanda rati í yfirmannsstöður. Dæmi eru um vanhæfan og slakan stjórnanda á vinnustað þar sem hámenntað fólk af báðum kynjum starfar sem og á vinnustað
þar sem lítillar menntunar er krafist.
Þessa grein má sjá í heild sinni á pressunni
Sjá einnig meira um eineltismál á upplýsingavefnum Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
www.kolbrunbaldurs.is
Mikilvægt að dómari eigi þess kost að dæma sameiginlega forsjá
16.2.2012 | 10:04
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á barnalögum. Tekin hefur verið út heimild dómara til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.
Þetta er miður.
Það er mjög mikilvægt að dómari eigi þess kost að geta dæmt sameiginlega forsjá. Þetta hefur án efa verið rökstutt víða og mun ég ekki gera það hér. Ekkert mál af þessu tagi er eins og skiptir verulegu máli að auka valmöguleika dómara og meðdómara.
Á mínum ferli sem sálfræðingur hef ég nokkrum sinnum verið meðdómari í forsjárdeilumálum og minnist ég a.m.k. tveggja dómsmála sem bráðvantaði að geta gripið til þess að dæma sameiginlegt forræði.
Djók
4.11.2011 | 08:52
Ég er bara að djóka eða "grín" heyrist býsna oft, einkum meðal barna og unglinga en einnig stundum hjá fullorðnum. Þessi setning er gjarnan sögð í kjölfarið á einhverri athugasemd í þeim tilgangi að draga úr mögulega neikvæðum áhrifum sem athugasemdin gæti haft á viðkomandi aðila. Þegar á eftir fylgir ég er bara að djóka eða "ég er bara að grínast" er stundum eins og eitthvað neikvætt sé undirliggjandi. Það sem sagt er með djók, eða grínívafi er náttúrulega stundum fátt annað en smá skot, og getur virkað á hinn aðilan sem móðgandi eða særandi athugasemd(ir).
Hvatar að baki þess að segja ég er bara að djóka geta verið allt frá því að vera kaldhæðinn húmor, biturleiki, kvikindisskapur, hatursfullar hugsanir eða bara afbrýðisemi. Stundum er viðkomandi að reyna að vera fyndinn í augum félaganna og gerir það með þessum hætti, en þá á kostnað einhvers annars. Sá sem bætir við ég var bara að djóka vill nefnilega ekki fá neinn bakreikning, t.d. að verða ásakaður um að hafa viðhaft neikvæða eða særandi framkomu. Verði hann krafinn skýringa segir hann einfaldlega já en ég var bara að djóka. Skilaboðin eru ekki taka það sem ég var að segja OF alvarlega en ég meinti það kannki samt.
Sennilega er þetta ekki svo háalvarlegt nema ef ekki sætu oft eftir blendnar tilfinningar hjá hinum aðilanum. Hugsunin og tilfinningin um að kannski hafi verið heilmikil meining og alvara að baki orðunum sem sögð voru situr eftir og vangaveltur um hvort eigi að taka athugasemdinni sem gríni eða alvöru. Hver svo sem niðurstaðan verður í huga viðkomandi skilja tjáskipti af þessu tagi oft eftir sig slæma tilfinningu. Öllu gríni fylgir jú oft einhver alvara.
En auðvitað verður að vera hægt að gantast eða spauga og sannarlega er gott að temja sér að taka sig ekki of hátíðlega. En börn eru börn og þau hafa ekki alltaf þroska til að vinna úr því sem sagt er í "djóki" eða "gríni". Orð bera alltaf einhverja ábyrgð. Ef neikvæð, jafnvel þótt sett fram í gríni, eiga þau það til að lifa lengur en þægilegt er, gera usla og raska sálarró.
Foreldrar og kennarar sem heyra börn nota þetta mikið, ættu að benda þeim á að þau gætu verið að særa þann sem þau tala við og að djókinu sé ekki endilega tekið sem slíku. Hægt er að hvetja þau til hugsa hvað þau eru að segja og spyrja sig hvort þau myndu vilja láta "djóka" svona með sig. Hreinskiptin samskipti eru auðvitað það sem hlýtur að vera eftirsóknaverðast að tileinka sér ef horft er til almennra samskipta manna á milli. Hæfni til að greina á milli þess hvað hægt er að segja án þess að særa og hvað best er að láta kyrrt liggja kemur með þroska og er einnig liður í almennu grunnuppeldi.
Kennum börnum okkar að hafa aðgát í nærveru sálar að leiðarljósi. Börn og fullorðnir hafa gott af því að rifja upp tvennt í þessu sambandi:
Hugsa áður en talað er og prófa sem oftast að setja sig í spor annarra.
Í þínum sporum
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
www.kolbrunbaldurs.is
Í NÆRVERU SÁLAR komnir á kolbrunbaldurs.is
25.10.2011 | 19:55
Nú er hægt að sjá þættina Í nærveru sálar sem sýndir voru á ÍNN á árunum 2009 og 2010 á vefnum www.kolbrunbaldurs.is
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
Um er að ræða valda þætti, sérstaklega þá sem tengjast eineltismálum, einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað; einelti meðal barna og unglinga og viðtal m.a. við Rögnu Árnadóttur og Þórhildi Líndal um einelti eins og það kemur fram í íslenskum lögum.
Einnig er þar að finna þátt sem margir hafa spurt um og ber titilinn Skyggnst inn í heim lesblindra en þar lýsir ung kona með ótrúlegum hætti hvernig lífið getur gengið fyrir sig þegar glímt er við slæmt tilfelli af lesblindu.
Svavar Knútur ræðir um tölvufíkn eða tölvueinsemd eins og það er stundum kallað og síðast en ekki síst er þáttur um hvernig má kenna börnum að varast þá sem hafa í hyggju að beita þau kynferðisáreiti eða ofbeldi. Þessi þáttur er hugsaður fyrir foreldra og fagfólki skóla.
Fleiri þættir koma inn á vefinn innan tíðar m.a. um:
PMT uppeldistækni
Hugræna atferlismeðferð
Dáleiðslu
Áhyggjur og kvíða hjá ungum börnum
Leiðrétting á kyni þar sem Anna Kristjánsdóttir ræðir um líf sitt og reynslu.
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
2.10.2011 | 11:15
Ný heimsíða,
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
hefur verið opnuð.
Allir þeir sem hafa með mannaforráð að gera geta nálgast hagnýtar upplýsingar um t.d. helstu grunnatriði viðbragðsáætlunar ef upp koma eineltismál eða kvörtun um kynferðislegt áreiti á vinnustað, í skóla eða í íþrótta-, æskulýðs- og félagsmiðstöðvum.
Um er að ræða hráefni sem sérhver stofnun getur nýtt til að hanna og þróa sína eigin viðbragðsáætlun sem hentar viðkomandi stofnun.
Einnig er á síðunni forvarnarfræðsla, upplýsingar um algengar birtingamyndir eineltis og kynferðislegs áreitis sem gagnast getur stjórnendum, nemendum, foreldrum, starfsmönnum, kennurum, þolendum og gerendum eineltis.
Ástæða fyrir stofnun heimasíðunnar www.kolbrunbaldurs.is. er að það virðist vera mikill áhugi i samfélaginu að taka þessi mál fastari tökum. Þess vegna langar mig að miðla hagnýtri þekkingu sem ég hef aflað mér um þennan málaflokk s.l. 20 ár til þeirra sem geta nýtt hana með einhverjum hætti.
Í þínum sporum
Í skugga eineltis
Enn einn dagur að kveldi,
einmana sorgbitin sál.
Vonlaus, vesæl ligg undir feldi,
vafra um hugans sárustu mál.
Líði barni illa í skólanum þarf að finna hvað veldur
14.9.2011 | 20:26
Að afnema skólaskyldu yrði brjálaði enda klárlega ekki á döfinni. Það væri hugmynd sem er ekki hugsuð út frá hagsmunum barna.
Líði barni illa í skólanum þarf að taka það háalvarlega, skoða í grunninn hvað veldur og hætta ekki fyrr en búið er að bæta úr þannig að barnið geti hlakkað til að koma í skólann og geti notið þess að vera þar.
Skólinn er ekki bara mikilvægur vegna námsefnisins. Það er svo margt annað sem börnin eru að fá út úr skólasókn en að læra á bókina eins og við vitum. Að taka þennan rétt frá þeim væri mannréttindabrot.
Skil þó alveg þann punkt sem Margrét Pála er að nefna með mótiveringu foreldranna og að þeir sjái þetta ekki vera kvöð fyrir barnið sitt sem e.t.v. líður illa í skólanum.
Öll börn eiga rétt á því að líða vel í skólanum sínum. Góð samvinna við foreldra er lykilatriði.
Algengt er að menn reisi hús og hótel á leigulóð
7.9.2011 | 19:45
Kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo vill kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Íslendingar eiga ekkert endilega lóðirnar undir húsum sínum.
Af hverju þarf að þessi maður endilega að eignast alla jörðina til að hugsanlega fá að reisa þar hótel og golfvöll?
Mörg hótel á landinu eru á leigulóðum.
Hvernig líður þér á vinnustaðnum þínum?
21.7.2011 | 19:20
Vitundarvakning á vinnustöðum?
Það er upplifun mín að vinnuveitendur/yfirmenn vilji í æ ríkari mæli huga að uppbyggingu jákvæðs andrúmslofts á vinnustaðnum enda er það grunnforsenda fyrir vellíðan starfsfólks. Telja má víst að flestir atvinnurekendur vilji hlúa vel að starfsfólki sínu og leggi ríka áherslu á að samskiptamenning vinnustaðarins einkennist af gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og hlýlegum samskiptum manna á milli.
Ef jákvæð og uppbyggileg samskipti eiga að vera fastur kjarni vinnustaðamenningar þá þarf að nota sem flest tækifæri þegar hópur samstarfsfólks kemur saman til að skerpa á samskiptareglum og minna á að sérhver starfsmaður er ábyrgur fyrir sjálfum sér. Að byggja upp og viðhalda jákvæðum vinnustaðarbrag er hægt að gera með ýmsu móti.
Mikilvægt er að yfirmenn séu sjálfir góðar fyrirmyndir og að stjórnunarstíll þeirra einkennist af heiðarleika, réttlæti, virðingu og alúð fyrir vinnustaðnum, verkefnunum og fólkinu. Jákvæðum starfsanda má viðhalda með því að:
1. Ræða reglulega við starfsfólk um kjarna góðra samskipta.
2. Ræða við starfsmenn í starfsmannaviðtölum um líðan þeirra og upplifun á vinnustaðnum.
3. Bjóða upp á fræðslustundir og námskeið.
4. Minna reglulega á hvaða hegðun og framkoma er ekki liðin á vinnustaðnum.
Vellíðan á vinnustað byggist einnig á því að starfsmenn viti að ef upp kemur vandamál eins og t.d. eineltismál eða kynferðisleg áreitni þá sé kvörtun eða ábending um það tekin alvarlega og að tekið verði á málinu af festu og einurð. Starfsmenn þurfa jafnframt að vita hverjir það eru á vinnustaðnum sem hafa það hlutverk að annast umsjón og vinnslu slíkra mála og hvernig úrvinnsluferlið er í grófum dráttum. Mikilvægt er að upplýsingar um þetta ásamt viðbragðsáætlun vinnustaðarins sé aðgengileg á heimasíðu. Sumir vinnustaðir hafa auk þess sérstök tilkynningareyðublöð sem einnig er hægt að nálgast á heimasíðu.
Ef eineltismál, kvörtun eða ábending er sett í viðhlítandi farveg og hugað strax að málinu er líklegra að það hljóti farsæla lausn. Sé máli af þessu tagi ekki sinnt fljótt er líklegt að það vindi upp á sig og verði erfiðara viðureignar þegar kemur að því síðar meir að reyna að leysa það.
Stundum þróast mál þannig að lausn fæst ekki þrátt fyrir faglega íhlutun vinnustaðarins. Þá eiga yfirmenn þess kost að leita til utanaðkomandi þjónustuaðila.
Hafi yfirmenn ekki hugað að viðbragðsferli á vinnustaðnum er tilhneigingin oft sú að bíða (gera ekki neitt) í þeirri von um að vandinn hverfi. Þegar þjónustuaðilar eru loksins kallaðir til er málið oft orðið afar umfangsmikið og flókið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um skaðsemi og neikvæðar afleiðingar ef mál af þessu tagi hafa fengið að vinda upp á sig um óskilgreindan tíma.
Meðgöngustaðgengill?
5.4.2011 | 20:14
Umræðan um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun á Íslandi hefur verið áberandi að undanförnu bæði á Alþingi og í tengslum við mál Jóels litla sem eflaust er flestum enn í fersku minni.
Hugtakið staðgöngumæðrun er þó e.t.v. ekki heppilegasta hugtakið yfir þennan gjörning. Frekar ætti kannski að tala um meðgöngustaðgengil, þar sem um er að ræða meðgöngusamning við konu um að hún gangi með barn fyrir annað foreldri/foreldra. Sú kona sem gengur með barnið er ekki og verður ekki móðir barnsins eftir fæðingu þess. Hún bíður líkama sinn til að ganga með barn fyrir aðra konu sem ekki á þess kost af einhverjum orsökum. Samkomulagið felur í sér tímabundið verkefni sem lýkur við fæðingu barnsins. Þess er hvorki vænst né er það, eðli málsins samkvæmt, æskilegt að meðgöngustaðgengill myndi nokkur tilfinningatengsl við barnið hvorki á meðgöngu né við fæðingu. Hugtakið staðgöngumæðrun og þá sérstaklega orðið mæðrun á því ekki við.
Með því að benda á þetta skal athugað að ekki er verið að lýsa afstöðu til meðgöngusamninga í þessum tiltekna pistli. Hér er aðeins verið að velta vöngum yfir hvort það íslenska hugtak sem valið hefur verið til að nota í þessu sambandi sé heppilegt ef tekið er mið af eðli þess sem um ræðir.
Skyldi hann sleppa?
4.3.2011 | 19:50
Nú er réttað yfir Baldri Guðlaugssyni og enginn veit hvort hann fái nokkurn dóm á sig.
Mun hann halda peningnum eða verður þetta fé gert upptækt?
Fái hann dóm, fangelsisdóm, skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn en fær að halda þessum milljónum segir það til um hvernig það verður með fjölmarga aðra í svipaðri stöðu þ.e. þá sem fengu innherjaupplýsingar og seldu.
Loksins, gamla frumvarpið mitt til laga að verða að veruleika
15.2.2011 | 20:06
Mitt fyrsta og sennilega síðasta frumvarp til laga er að verða að veruleika að því sem ég best get séð. Hækka á ökuleyfisaldur í 18 ára.
Á sínum tíma taldi ég mig færa ágæt rök fyrir mikilvægi þess að hækka lágmarksaldur ökuleyfis í 18 ár. Ég mælti fyrir þessu frumvarpi síðla dags í nærveru afar fárra þingmanna. Þáverandi samgönguráðherra var reyndar svo almennilegur að vera viðstaddur.
Það vildu ekki margir þingmenn koma nálægt þessu frumvarpi. Pétur Blöndal var strax tilbúinn að vera með og Þuríður Backman bættist í hópinn á síðustu stundu.
Nú er þetta að verða raunin. Ég ætla ekki að þreyta bloggheim með rökum þessu tengdu en á þau til að sjálfsögðu.