Er Staksteinaskrifarinn smá fattlaus?
21.7.2009 | 11:14
Höfundur Staksteina finnst að verið sé að gera einfalt mál flókið þegar lagt er til að hækka ökuleyfisaldurinn í 18 ár í áföngum.
Í tillögu samgönguráðherra er gert ráð fyrir að aldurstakmarkið verði hækkað í áföngum til ársins 2014. Á árinu 2015 verði síðan 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda.
Höfundur Staksteina spyr hvort nauðsynlegt sé að hafa hækkun bílprófsaldursins svona flókna?
Ég spyr, er hann með aðra og betri tillögu um með hvaða hætti þetta skuli vera gert ef það á að vera gert á annað borð?
Hefur hann e.t.v. hugsað sem svo að best væri að skella þessari breytingu á í einum áfanga þannig að ökukennsla falli niður í heilt ár?
Í frumvarpi því sem ég mælti fyrir hér um árið um hækkun ökuleyfisaldursins í 18 ár var aðlögunin tvö ár. Þessi tillaga samgönguráðherra nú er allt eins góð enda mildari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook
Sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ættu fyrr en síðar að hasla sér völl í öðrum stjórnmálaflokkum
19.7.2009 | 19:43
Borgarahreyfingin hyggst leggja sig niður og hætta störfum, segir í heimasíðu þeirra, þegar ákveðnum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.
Nú hefur veður skipast þannig í lofti að, a.m.k. sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar ættu, að mínu mati, að huga að hvort ekki sé rétt að þeir skiptu um flokk og það fyrr en síðar?
Þrír þeirra hafa ákveðið að taka aðra stefnu t.d. hvað varðar aðildarviðræður og umsókn í ESB en lagt var upp með í þeirra stjórnarsáttmála. Aðrir hafa ákveðið að standa við það sem þeir lofuðu kjósendum en það var:
Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.
Þetta er sérkennileg staða sem komin er upp í einni og sömu hreyfingunni.
Meðal þingmanna Borgarahreyfingarinnar eru ábyrgðarfullir stjórnmálamenn sem eiga e.t.v. framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Þeir hinir sömu ættu að huga að stöðu sinni og skoða hvort þeir finni ekki skoðunum sínum og sannfæringu fast (fastara) land undir fótum.
Þjóðin á þing var slagorð hreyfingarinnar sem nú lítur út fyri að vera frekar Geðþótti á þing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook
Mikill léttir
16.7.2009 | 16:03
Tillaga um að leggja inn aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu var samþykkt í dag með 33 atkvæðum gegn 28 en 2 þingmenn sátu hjá.
Þetta er mikill léttir.
Tvöföld atkvæðagreiðsla var ekki fýsileg leið, hefði bæði tekið tíma og kostað sitt. Ég er ánægð með Ragnheiði Ríkharðsdóttur í þessu máli. Ég veit að margir eru ósáttir en gleymum ekki að við, hvert og eitt munum hafa um samninginn að segja þegar þar að kemur.
Eitt er víst að ekki þarf að velta þessum þætti málsins lengur fram og til baka enda margir orðnir hundleiðir á því líka.
Er þetta rétt skilið?
14.7.2009 | 22:20
Icesave.
Er það rétt skilið að aðallögfræðingur Seðlabankans hafi hringt í Árna Þór í gærkvöldi og sagt honum að álit Seðlabankans á Icesavesamningnum hafi verið hennar persónulega álit?
Þetta er sérkennilegt, ef rétt er, í ljósi þess að Seðlabankinn átti fulltrúa í Icesave- samninganefndinni. En best að hafa allan vara á hvað er rétt og satt í þessu máli sem öðru.
En þetta skýrist kannski allt betur á morgun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook
Bannað að selja heimabakstur úr einkaeldhúsi
14.7.2009 | 15:53
Bannað er að selja heimabakstur úr einkaeldhúsi nema um sé að ræða kökubasar.
Einnig er bannað að selja unnin matvæli nema þau komi úr viðurkenndu eldhúsi. Hvað felst í því að kallast viðurkennt eldhús er ég ekki alveg með á hraðbergi en sennilega þurfa að vera 2-3 vaskar og fleira í þeim dúr.
Hér held ég hljóti að mega gera einhverjar tilslakanir. Auðvitað þarf að vera einhverjar lágmarkskröfur en aðalatriðið hlýtur að vera að hægt sé að rekja vöruna.
Nú er knýjandi að einfalda reglugerðir sem lúta að þessum þáttum svo heimamarkaðir geti blómstrað hvort heldur í sveit eða borg. Fyrir marga hugmyndaríka og flínka í matargerð gæti hér verið um að ræða atvinnutækifæri.
Smá úttekt er um þessi mál í Mogganum í dag á bls. 13.
Sláandi niðurstöður í rannsókn um ofbeldi gagnvart konum
6.7.2009 | 11:15
Ofbeldi gagnvart konum er algengt samkvæmt nýrri rannsókn. Meðal niðurstaðna er að 18,2% af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3% líkamlegu og 1,3% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Fjórðungur kvenna orðið fyrir ofbeldi. (Frétt á mbl.is í dag).
Viðtal á ÍNN við Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdarstýru Kvennaathvarfsins (28. maí. 2008) má sjá hér.
Áætlaðar endursýningar í sumar
5.7.2009 | 12:40
Endursýningar á Í Nærveru sálar á ÍNN á mánudögum kl. 21.30 eru áætlaðar eftirfarandi:
6. júlí. Endursýndur þáttur frá 29.06.09.
SASA félagsskapur karla og kvenna sem hafa þá sameiginlegu reynslu að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Viðmælandi er þolandi og segir frá starfsemi samtakanna.
13. júlí. Endursýndur þáttur rá 09.02.09.
Kynin og kynlíf, fyrri hluti.
Gestur: Ingibjörg Jóna Jónsdóttir, kynfræðingur.
20. júlí. Endursýndur þáttur frá 16.02.09.
Kynin og kynlíf, seinni hluti.
Gestur: Ingibjörg Jóna Jónsdóttir, kynfræðingur
27. júlí Endursýndur þátturinn frá 11.05. 09.
Einelti gerði mig næstum að fjöldamorðingja.
Frásögn ungs manns um hvernig langvinnt einelti hafði skaðlegar afleiðingar á hugsun hans og tilfinningar.
3. ágúst. Endursýndur þátturinn frá 18.05. 09.
Sérsveitarhugmyndin í einelti. Hugmyndin kynnt menntamálaráðherra , fulltrúa frá Menntasviði og formanni Félags Skólastjóra. Selma Júlíusdóttir lýsir þrautagöngu aðstandanda.
10. ágúst. Endursýndur þátturinn frá 08.06.09.
Varðhundur borgarinnar.
Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við HÍ upplýsir um hlutverk Umboðsmanns Alþingis og hvenær og hvernig almenningur getur leitað til embættisins.
17. ágúst. Endursýndur þátturinn frá 01.06.09.
Góð íþrótt er gulli betri. Karate er íþrótt sem gæti átt við þig.
Sigríður Torfadóttir, Indriði Jónsson, Birkir Indriðason og Kolbrún Baldursdóttir bregða sér í búningana.
24. ágúst. Endursýndur þáttur frá 22. 06.09
Sjálfsvíg, stuðningur við aðstandendur.
Fjallað er um nýútkomna handbók fyrir aðstandendur.
Elín Ebba Gunnarsdóttir, Halldór Reynisson og Katrín Andrésdóttir.
Til þess að gera SASA-félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að ná bata
29.6.2009 | 10:58
SASA eða Sexual Abuse Survivors Anonymous er félagsskapur karla og kvenna sem hafa þá sameiginlegu reynslu að hafa einhvern tíman á lífsleiðinni orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Meðlimur SASA er gestur í
Í nærveru sálar á ÍNN í kvöld, mánudag 29. júní kl. 21.30.
Hann segir frá uppruna samtakanna, hvernig þau hafa vaxið, hver nálgunin er, hvernig þau eru uppbyggð og hvernig starfseminni er háttað. Dagskrá funda verður einnig kynnt í þættinum.
Markmið meðlima samtakanna er að ná bata frá afleiðingum kynferðisofbeldis sem framin voru á þeim fyrr á lífsleiðinni.
www.sasa.is
Í nærveru sálar fráfarandi bæjarstjóra í Kópavogi. Hann lagði til að Ásthildur Helgadóttir kæmi næst en hún vildi ekki þiggja boðið.
28.6.2009 | 10:57
Það er viðtal við Gunnar I. Birgisson víða um þessar mundir enda eitt og annað búið að ganga á í hans lífi að undanförnu og í Kópavogi öllum.
Gunnar var gestur Í nærveru sálar á ÍNN í janúar sl. þar sem hann sagði frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni og ræddi einnig lítillega pólitíkina.
Þáttinn með sjá á vef ÍNN með því að smella hér:
Viðtal við Gunnar I. Birgisson fráfarandi bæjarstjóra Kópavogs 19. janúar sl.
Því má bæta við hér að í lok þáttarins leggur Gunnar til að Ásthildur Helgadóttir verði næsti pólitíkusinn í stólinn en hún vildi síðan ekki þiggja boðið. Þar með lauk, a.m.k. um tíma, heimsóknum stjórnmálamanna til sálfræðingsins í Í nærveru sálar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook
Íslenskur sjávarútvegur og ESB. Algengar ranghugmyndir
25.6.2009 | 17:28
Ég hlustaði á áhugaverðan fyrirlestur í hádeginu um Íslenskan sjávarútveg og ESB og hvað breytist við aðild. Í fyrirlestrinum fór Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild HR yfir Sjávarútvegsstefnu ESB, kosti og galla, áherslur í viðræðum, mismunandi leiðir og ávinning af ESB fyrir sjómenn og verkafólk.
Það sem vakti sérstaklega áhuga minn var sá hluti fyrirlestrarins sem fjallaði um helstu ranghugmyndir komi til aðildar. Hér koma þær:
-Frjáls aðgangur. Að hér komi erlendir togarar inn í íslenska lögsögu.
-Hinn svokallaði hlutfallselgi stöðugleiki (relative stability)geti breyst án fyrirvara án þess að Íslendingar fái við því spornað
-Eftirlit á Íslandsmiðum minnkar
-Kvótinn fari úr landi (þ.e.a.s. Íslendingar munu ekki njóta efnahagslegs ávinnings af kvótanum)
-Önnur ríki taka ákvörðun um kvóta Íslands
-Evrópusambandið ákveður úthlutun kvóta
-Brottkast verður skylda í íslenskri lögsögu
-Risavaxið styrkjakerfi
Ekkert af þessu er rétt segir Aðalsteinn og útskýrði hann og rökstuddi mál sitt á mjög trúverðugan hátt. Ég vil benda þeim sem hafa áhuga á að kynna sér einmitt þetta frekar að hafa samband við Aðalstein.
Það sem mér fannst ekki síður markvert sem Aðalsteinn sagði var að við getum ekki með neinu móti vitað hvaða sérhagsmunum við komum til með að ná nema að setjast við samningaborðið.
Ávinningurinn sem nú þegar liggur fyrir að verði er:
Allir tollar falla niður á sjávarafurðum
Hagstæðara verður að vinna fisk til útflutnings
Minni byggðalög geta hagnast á aðild
Evran, þegar hún kemur mun tryggja stöðugleika
Viðræður verða án efa strembnar en það er raunhæfur möguleiki að ná hagstæðri niðurstöðu.
Handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur þeirra sem taka sitt líf
25.6.2009 | 10:26
Sjálfsvíg, stuðningur við aðstandendur.
Þátturinn kominn á vef ÍNN www.inntv.is
Umfjöllun um stuðning við aðstandendur og þar á meðal þessa nýju bók sem Biskupsstofa og Skálholtsútgáfan gefur út í þýðingu Elínar Ebbu Gunnarsdóttur, rithöfundar.
Gestir þáttarins eru: Elín Ebba, Halldór Reynisson og Katrín Andrésdóttir.
Höngum saman í sumar er yfirskrift sumarátaks SAMAN- hópsins. Með átakinu vill hópurinn hvetja foreldra og börn til samveru yfir sumartímann. Yfirskriftin hefur þá skírskotun að samveran þarf ekki að kosta neitt, vera skipulögð eða hafa skemmtanagildi, en skili engu að síður árangri.
SAMAN hópurinn hefur gert marga góða hluti, staðið fyrir ýmsum verkefnum sem ég tel að hafi skilað sér vel til foreldra og barna.
Hvað yfirskrift þessa verkefnis varðar hefði það mátt einfaldlega heita Verum saman í sumar eða Gaman saman í sumar.
Að hanga saman hefur alla vega í minni vitund eilítið neikvæðan blæ yfir sér eins og fólki jafnvel leiðist og sé eiginlega að bíða eftir að tíminn líði.
Tímamótadómur í eineltismáli.
23.6.2009 | 16:42
Fær miskabætur vegna eineltis á vinnustað
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Ásdísi Auðunsdóttur, sem starfaði á Veðurstofunni, hálfa milljón króna í miskabætur vegna eineltis, sem hún sætti á vinnustaðnum.
Er þetta ekki tímamótadómur sem ber að fagna?
Ég minnist þess ekki að áður hafi fallið dómur í eineltismáli þar sem íslenska ríkið er gert að greiða skaðabætur.
Ásdís leitaði til stéttarfélags síns vegna þess að hún taldi sig hafa sætt einelti af hálfu yfirmanns síns. Að mati Veðurstofunnar stöfuðu þessir árekstrar af því að konan vildi skilgreina starf sitt með öðrum hætti en yfirmenn hennar.
Annað markvert í þessu er að það er mat dómsins, að síðbúin viðbrögð veðurstofustjóra hafi falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda Ásdísi vanlíðan. Var ríkið talið skaðabótaskylt vegna þess.
Einelti á vinnustað er vísbending um stjórnunarvanda að mínu mati og margra annarra sem hafa skoðað þessi mál. Ef svona ástand sprettur upp og fær að þrífast um einhvern tíma er oft eitthvað verulega bogið við stjórnunarhætti yfirmanns vinnustaðarins. Ef yfirmaður/menn eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skynja ástandið eða neita meðvitað eða ómeðvitað að viðurkenna vandann þá er ekki von til þess að mál sem þetta leysist fljótt og farsællega.
Dæmi eru um að yfirmenn falli í þá gryfju að kalla þann sem fyrir þessu verður á teppið og fullyrða að þar sem svo margir eru óánægðir með hann/hana, hlýtur vandinn að liggja hjá viðkomandi.
Því sé e.t.v. best að í stað þess að fara að takast á við reiða einstaklinginn/hópinn, þá sé ráð að þolandinn hætti störfum. Gildir þá einu hversu góður fagmaður viðkomandi er, eða nokkuð annað, ef því er að skipta.
Mörg mál af þessu tagi lykta einmitt með þessum hætti. Afar fá fara fyrir dómstóla enda sú leið bæði kostnaðarsöm og tyrfin. Hugsanlega mun nú verða breyting á þegar komið er fordæmi eins og með þessum nýfallna dómi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook
Ástvinamissir vegna sjálfsvígs
22.6.2009 | 09:32
Ástvinamissir vegna sjálfsvígs er yfirskrift þáttarins
Í nærveru sálar á ÍNN í kvöld og er einnig titill nýútkominnar handbókar til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur. Biskupsstofa og Skálholtsútgáfan gefa út handbókina.
Gestir: Elín Ebba Gunnarsdóttir, rithöfundur og þýðandi handbókarinnar. Hún er einnig aðstandandi. Halldór Reynisson, verkefnastjóri Biskupsstofu og Katrín Andrésdóttir, íþróttakennari er einnig aðstandandi.
Við syrgjum öll á mismunandi hátt segir í bókinni. Við þurfum að vita að tilfinningarfárviðrið er eðlilegt: ringulreiðin, einstaklingshelförin, örvæntingin, sektarkenndin, sjálfsásökun, stundum reiði og svo óendanlegt magnleysi og þreyta.
Þær Elín Ebba og Katrín sem báðar eru aðstandendur segja að stuðningshópur getur verið eins og griðastaður. Stuðningur sem til þess er fallinn að styðja aðstandendur til sjálfshjálpar getur einnig mildað og auðveldað þess erfiðu vegferð.
Markmiðið er að ná stillingu, jafnvægi, finna málamiðlun, læra að lifa með missinn og ná við hann nægjanlegri fjarlægð til að takast á við daglegt líf.
Í Nærveru Sálar kl. 21.30 í kvöld, 22. júní.
Fjölskyldur flýja land
21.6.2009 | 19:16
Það lítur út fyrir að það sé alvarlegt tengslaleysi á milli annars vegar, ríkisstjórnarinnar og aðgerða hennar til að bjarga heimilum og hins vegar, bankanna/lánadrottna.
Reglulega berast tíðindi um að einstaklingar og fjölskyldur kvarti yfir að ná ekki eyrum lánadrottna sinna og að ekkert gangi að semja við þá um raunhæfa greiðslubyrði. Hér er í mörgum tilvikum verið að tala um bankana.
Sú eina leið sem virðist fær fyrir sumar fjölskyldur sem ekki ná raunhæfu samkomulagi við lánastofnanir er að yfirgefa land og þjóð og margar segjast ekki ætla að snúa aftur heim næstu árin.
Með hverri fjölskyldu sem yfirgefur landið er mikið tap fyrir alla og ekki síst fyrir lánastofnanirnar. Mörg dæmi eru um að banki/bankar eigi hreinlega fjölskyldur. Þeir tapa því mest flýi viðkomandi fjölskylda land. Það eru þá bankarnir sem eiga eignirnar sem sitja uppi með þær. Engin borgar af eigninni og engin leið er að selja hana nú.
Sú brú sem átti að vera frá ríkisstjórn og aðgerðum hennar yfir til lánastofnanna hefur greinilega ekki verið fullsmíðuð. Jóhanna og Steingrímur þurfa að fara að tukta til þessar stofnanir. Sveigjanleiki og skilningur er það sem þarf nú gagnvart fjölskyldum sem skulda. Ef ég man rétt voru það skilaboð stjórnvalda til lánastofnanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook
Í minningu fallinna eineltisþolenda
21.6.2009 | 14:33
Í minningu fallinna eineltisþolenda er grein eftir Ingibjörgu H. Baldursdóttur móður Lárusar heitins en hann, eins og móðir hans skrifar í grein sinni og birt er í Morgunblaðinu í dag, 21. júní,
hafði þurft að þola ofbeldi í sinni ljótu mynd í skóla, ofbeldi sem braut sjálfsmynd hans í mola og fylgdi honum eins og svartur skuggi allt hans líf og felldi hann að lokum.
Í greininni segir Ingibjörg frá því hvernig nafnið á Samtökum foreldra, eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico, er tilkomið. Jerico var notendanafn Lárusar á netinu. Það var einmitt á þeim vettvangi sem Lárus mátti m.a. þola aðkast og ljótar og niðurlægjandi athugasemdir.
Ingibjörg segir einnig frá því að 16. júní sl. var kynnt hugmynd að sérsveit/fagteymi á fundi hjá menntamálaráðuneyti með ráðuneytum, stofnunum, samtökum og félögum alls staðar að úr íslensku samfélagi. Sérsveitarhugmyndin hafði áður verið sérstaklega kynnt heilbrigðisráðherra og um hana var einnig rætt við Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, fulltrúa frá Menntasviði Reykjavíkurborgar og formann Félags Skólastjóra í þættinum Í nærveru sálar þann 18. maí sl.
Nú er að bíða og sjá hvort stjórnvöld og ráðamenn sem hafa með þennan málaflokk að gera taki við sér og þiggi að skoða með okkur sem að hugmyndinni standa þetta úrræði sem hugsað er sem neyðarúrræði í þeim tilvikum þar sem þolandi og aðstandendur fá ekki úrlausn mála sinna í skóla barnsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
Góð fyrirmynd að hjóla en slæm fyrirmynd að vera hjálmlaus
19.6.2009 | 10:05
Það var gott að ekki fór verr fyrir umhverfisráðherranum sem féll af reiðhjóli sínu og skall með höfuðið í götuna.
Sannarlega frábært hjá henni að hjóla og mættu fleiri taka sér þann ferðamáta til fyrirmyndar. En að vera án hjálms er náttúrulega ekki nógu gott og það fékk Svandís að reyna á eigin skinni.
Hún slapp með skrekkinn og mun líklega vera komin með hjálm áður en dagur er úti.
Síðustu sjö komnir á Netið
17.6.2009 | 17:15
Eftirfarandi þættir Í nærveru sálar eru nú komnir inn á www.inntv.is:
15.06. Leitað í smiðju unglinganna í baráttunni gegn einelti.
Erna Sóley Stefánsdóttir, Karen Carlsson og Sandra Benediktsdóttir.
08.06. Varðhundur borgaranna.
Traustir Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við HÍ.
01.06. Karate. Góð íþrótt, gulli betri.
Sigríður Torfadóttir, Indriði Jónsson og Birkir Jónsson.
25.05. Allt um Vinun, ráðgjafa- og þjónustufyrirtækið.
Gunnhildur Heiða Axelsdóttir, frumkvöðull.
18.05. Sérsveitarhugmyndin kynnt fyrir menntamálaráðherra og fleirum.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Auður Stefánsdóttir, skrifstofustjóri Menntasviðs, Selma Júlíusdóttir, skólastjóri Lífsskólans og Kristinn Breiðfjörð, formaður Skólastjórafélagsins.
Viðmælandi kemur ekki fram undir nafni.
04.05. Hvernig tökum við á rafrænu einelti?
Heiða Kristín Harðardóttir og Kristrún Birgisdóttir ræða um rannsókn sína á rafrænu einelti.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Leitað í smiðju unglinga í baráttunni gegn einelti
15.6.2009 | 11:08
Þær koma með góða punkta stúlkurnar í þættinum Í nærveru sálar í kvöld. Þær heita Karen Carlsson og Sandra Björk Benediktsdóttir og voru báðar að útskrifast úr 10. bekk.
Með þeim er Erna Sóley Stefánsdóttir, forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar Versins í Hafnarfirði.
Við ræðum saman um hvað megi betur fara í þessum málum í grunnskólum, skoðum eineltisáætlanir, ræðum um rafrænt einelti, forvarnir og viðbrögð eins og það kanna að líta út frá sjónarhorni unglinga.