Tvímenna í klefa, er það svo slæmt?
14.6.2009 | 20:02
Í fréttum í kvöld var verið að fjalla um ástandið í fangelsismálum landsins. Öll fangelsi eru yfirfull og tugir ef ekki hundruðin bíða þess að getað afplánað.
Sagt var frá því að dæmi eru um að fangar þurfi að tvímenna í klefa og slíkt sé með öllu óásættanlegt.
Ég spyr, er það svo slæmt að deila klefa með öðrum fanga? Ég hef ekki sjálf verið fangi þannig að kannski á ég ekki að tjá mig um þetta neitt sérstaklega. Ég geri mér þó alveg grein fyrir að það getur verið afar mikið álag að deila klefa með einhverjum sem maður á ekkert sameiginlegt með annað en að vera innilokaður í fangelsi. Það hlýtur því að skipta máli að skoðað sé sérstaklega hverjir deili fangaklefa.
En takist nú vel til að velja saman fanga í fangaklefa þá skyldi maður ætla að það þurfi ekki endilega að vera erfiðasta reynsla fangans á afplánunartímanum. Við það að deila klefa með öðrum gætu verið einhverjir kostir, sem dæmi, aukin samskiptafærni, þjálfun í að sýna hvor öðrum tillitssemi og umburðarlyndi. Samveran út af fyrir sig gæti einnig verið af hinu jákvæða?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook
Þekki þið svona manneskju?
14.6.2009 | 09:56
Ég er að leita að manneskju sem er þekkt fyrir að búa yfir þeim eiginleikum að vera jákvæð, glaðlynd, tilfinningarík, lætur sér annt um náungan, ófeimin, vel að sér á helstu sviðum mannlífsins, raunsæ, heiðarleg, víðsýn, kjarkmikil og kraftmikil. Manneskju sem lætur illa að vola og kvarta þótt aðstæður sé erfiðar og kýs frekar að bretta upp ermarnar og leita lausna.
Þekkið þið einhvern sem þessi lýsing á við?
Ef svo er, endilega látið mig vita annað hvort hér á bloggsíðunni eða með tölvupósti: kolbrunbald@simnet.is eða kolbrunb@hive.is
Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti kynnt frekar í menntamálaráðuneytinu á þriðjudaginn
13.6.2009 | 11:09
Á þriðjudaginn verður haldinn fundur með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að tilstuðlan heilbrigðisráðuneytis þar sem talsmenn Sérsveitarhugmyndarinnar í baráttunni gegn einelti kynna hana enn frekar.
Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti
Með einföldum hætti er hægt að búa til úrræði í formi sérstaks fagteymis. Teymi sem þetta verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur. Teymið er fyrst og fremst hugsað sem úrræði í þeim málum sem ekki hefur náðst lausn í með úrræðum sem skólar hafa yfir að búa. Í þessum tilvikum geta foreldrar leitað til teymisins og óskað eftir því að það taki málið til skoðunar. Hér er mikilvægt að taka fram að með hugmyndinni um sérstakt fagteymi er ekki meiningin að taka ábyrgðina af skólastjórnendum.
Skólastjórnendur eru ávallt þeir sem fá málið fyrst inn á borð til sín og innan skólans er fyrst leitað leiða til lausna. Hugmyndin er frekar sú að fagteymið verði einungis virkjað sé það mat foreldra þolanda að skólinn hafi ekki ráðið við að stöðva eineltið þannig að þolandanum finnst hann öruggur í skólanum. Sé teymið kallað út að beiðni forráðamanna þolanda mun það setja sig í samband við viðkomandi skóla, óska eftir samvinnu við skólastjórnendur og fagaðila hans með ósk um að málið verði leyst í sameiningu.
Í sumum tilvikum gæti nægt að teymið veitti skólayfirvöldum og fagfólki hans ráðgjöf og leiðbeiningar um hvernig hugsanlega væri best að bregðast við og hvaða skref gætu þurft að taka til að höggva á hnútinn. Betur sjá augu en auga. Teymið mun þó í engum tilvikum sleppa hendi af þolandanum fyrr en staðfest hefur verið af honum og forráðamönnum hans að búið sé að stöðva eineltið, ræða við alla aðila málsins og að fyrir liggi að öryggi barnsins í skólanum sé tryggt.
Eðli málsins samkvæmt er það fyrirsjáanlegt að hugmynd um sérstakt utanaðkomandi fagteymi getur ekki orðið að veruleika nema með milligöngu stjórnvalda. Til að teymið geti borið sig að með skilvirkum hætti er nauðsynlegt að það hafi greiðan aðgang að skólanum og þeim sem tengjast málinum með einum eða öðrum hætti. Teymið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á samvinnu við skólastjórnendur og starfsfólk skólans. Samvinna fagteymis og viðkomandi skóla skiptir öllu máli ef takast á að uppræta einelti með árangursríkum hætti.
Nákvæmari útfærslu á Sérsveitarhugmyndinni má finna hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook
Mikil fjölgun í Sólóklúbbnum í kjölfar þáttarinns
11.6.2009 | 09:58
Það hefur orðið 44% fjölgun í Sólóklúbbnum eftir að þátturinn Í nærveru sálar var sendur út 27. apríl sl. sem fjallaði um starfssemi Sólóklúbbsins og félagsins Parísar.
Þessir tveir klúbbar standa opnir öllum þeim sem eru einhleypir og langar til að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki.
Kristín frá Sólóklúbbnum tjáði mér í gær að hún hafi síst átt von á svo jákvæðum og miklum viðbrögðum sem raun bar vitni. Fólk hringdi í hana persónulega og stór hópur gekk til liðs við félagsskapinn vikurnar eftir útsendingu. Meðlimir í Sólóklúbbnum eru nú alls 130. Ég hef ekki náð sambandi við Sigríði sem er í forsvari fyrir París til að kanna hvort þessu sé eins farið hjá þeim.
www.paris.is
www. soloklubburinn.is
Varðhundur hins almenna borgara
8.6.2009 | 10:23
Umræðuefnið Í nærveru sálar í kvöld er réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum og hver gætir hagsmuna þeirra ef á þeim er brotið.
Ástæðan fyrir vali á þessu efni er að svo allt of oft heyrir maður fólk kvarta yfir því að erindum sem beint er til stofnanna hins opinbera sé ekki svarað enda þótt frestur samkvæmt stjórnsýslulögum sé löngu liðinn. Hvaða úrræði hefur fólk sem finnur sig í slíkum aðstæðum?
Á ÍNN í kvöld fræðir Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti, okkur um embætti Umboðsmanns Alþingis sem mér finnst, persónulega, að ætti frekar að heita Umboðsmaður Almennings.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook
Fullt hægt að gera frítt!
7.6.2009 | 11:02
Það var skemmtileg samantekt í DV um daginn um hluti sem kosta ekkert og hvað hægt sé að gera án þess að þurfa að greiða fyrir það. Eina sem þarf er bara hugmyndaflug og svo að drífa sig af stað.
Greinin var kaflaskipt í Útivist, Hreyfing, Góðgerðarstarf, Veraldarvefurinn, Menning, Þjónusta, og síðan Landsins gæði og Hitt og þetta.
Undir yfirskriftinni Hitt og þetta var t.d. heimsókn til vina og vandamanna, fara á stefnumót og já síðan stunda kynlíf sem eins og höfundur segir, er að öllu jöfnu ókeypis, hvort heldur það er gott eða lélegt.
Fyrir þá sem eru verulega verkefnalausir og finnst tilveran grá má t.d. skoða hús á sölu án þess að kaupa, nú eða taka þátt í mótmælum.
Enginn aðgangseyrir er heldur að einu af stærsta leikhúsi landsins sem að mati höfundar er sjálft Alþingi Íslendinga. Á Alþingi fer fram dagskrá sem getur bæði verið áhugaverð og skemmtileg.
Borgarafundur í Seljakirkju um löggæslumál í Breiðholti. Gestir eru dómsmálaráðherra og lögreglustjóri
4.6.2009 | 16:31
Almennur borgarafundur um löggæslumál í Breiðholti
STÖNDUM VÖRÐ UM GÓÐA LÖGGÆSLU Í BREIÐHOLTI
Íbúasamtökin Betra Breiðholt (ÍBB) standa fyrir fundi um
löggæslumál í Breiðholti hinn 4. júní í Seljakirkju.
Fundurinn hefst kl. 20:00
Gestir fundarins eru Stefán Eiríksson,
lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Eins og kunnugt er hefur lögreglustöðin í Mjódd nú færst yfir á Dalveginn
í Kópavogi. Íbúum í Breiðholti gefst kostur á að heyra hver staða
löggæslumála er um þessar mundir í Breiðholti og hvernig málum verður
háttað í framtíðinni.
Fundarstjóri: Ólafur J. Borgþórsson, prestur.
Dagskrá:
Kl. 20:00
Formaður stjórnar ÍBB, Helgi Kristófersson setur fundinn.
Kl. 20:05
Þorsteinn Hjartarson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar í
Mjódd ræðir um samstarf lögreglunnar við þjónustumiðstöðina.
Kl. 20:15
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins ræðir um
breytingar á fyrirkomulagi löggæslunnar í Breiðholti.
Kl. 20:35
Ragna Árnadóttir, Dóms- og kirkjumálaráðherra ræðir um
löggæsluna frá sjónarhorni Dómsmálaráðuneytisins.
Kl. 20.45 Almennar umræður og fyrirspurnir.
Öflug löggæsla og náið samstarf íbúa við lögreglu er
hagur allra.
Íbúar í Breiðholti eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórn Íbúasamtaka Betra Breiðholts.
Hundar sem eigendur vilja losa sig við
4.6.2009 | 11:29
Það er sárt að hugsa til þess með hvaða hætti sumt fólk reynir að losa sig við gæludýrin sín. Dæmi eru um að þau eru skilin eftir við útidyrnar hjá öðrum og eflaust þá einna helst í Kattholti eða á hundahótelum. Hræðilegast er þó að hugsa til þess að þau séu skilin eftir þar sem vitað er að þau muni ekki finnast og látin þannig deyja úr sulti og þorsta.
Flestir sem taka þá ákvörðun að eignast gæludýr eru ábyrgir aðilar sem jafnframt hafa gert sér grein fyrir þeirri skuldbindingu sem því fylgir að taka að sér að annast um dýr. En því miður finnst fólk sem þykir þessi ákvörðun léttvæg og gera sér ekki grein fyrir þeirri vinnu sem henni fylgir. Þessir sömu aðilar eru sennilega þeir fyrstu sem vilja síðan losna við dýrin þegar minnkar í buddunni eða þegar þeir verða áþreifanlega varir við að dýrinu þarf að sinna.
Þótt ástandið í samfélaginu sé slæmt og kunni að eiga eftir að versna skulum við ekki gleyma að hlúa að dýrunum sem eiga allt undir eigendum sínum. Ef við verðum vör við að dýr sé vanrækt eða illa farið með það á einhvern hátt, er það skilda okkar að láta okkur það varða t.d. með því að tilkynna það.
Fátt er eins gefandi en að hlúa vel að gæludýrinu sínu: gefa því gott heimili, veita því öryggi og sjá til þess að því líði vel í alla staði. Endurgjöfin er líka ómetanleg. Þakkæti, traust og ást skín úr augum dýra sem njóta góðrar aðhlynningar eigenda sinna.
Góð íþrótt, gulli betri. Tóm hönd á ÍNN í kvöld
1.6.2009 | 10:41
Agi, virðing og líkamleg þjálfun sem skerpir huga og nærir sál.
Við hnýtum beltishnútana, setjum okkur í stellingar og ræðum um Karate sem þýðir tóm hönd og er forn japönsk bardagaíþrótt. Við skoðum saman sálfræðina sem henni tengist og hvernig hún er iðkuð hér á landi.
Gestir Í nærveru sálar í kvöld kl. 21:30 eru Sigríður Torfadóttir, sem nýlega fékk svarta beltið, Indriði Jónsson, brúnbeltingur og sonur hans Birkir sem einnig skreytir sig með svörtu belti.
Fjölmiðlar | Breytt 17.6.2009 kl. 16:11 | Slóð | Facebook
Leið til betra lífs. ÍNS á ÍNN í kvöld kl. 21.30
25.5.2009 | 11:11
Vinun er ráðgjafa- og þjónustumiðstöð.
Fyrir hverja?
Fyrir fólk sem þarfnast aðstoðar vegna fötlunar, veikinda, slysa og/eða öldrunar.
Allt um VINUN í ÍNS (Í nærveru sálar) á ÍNN 25. maí kl. 21.30
Fá stöðu grunaðra, hvað þýðir það í raun?
24.5.2009 | 14:23
Það segir í fréttum að búast megi við að heldur fleiri en færri muni fá stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks saksóknara á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutum í Kaupþingi. Er þetta gert til þess að girða ekki fyrir hugsanlegar ákærur á síðari stigum rannsóknarinnar og einnig til þess að tryggja að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái notið réttlátrar málsmeðferðar.
Hvað þýðir þetta í raun?
Spurningunni verða löglærði að svara.
Mín fyrsta hugsun þegar ég heyrði þessa frétt var eitthvað á þá leið að þeir sem kunna að hafa framið afbrot í þessum málum sem verið er að rannsaka, munu einfaldlega sleppa betur fái þér stöðu grunaðra.
En það er kannski ekki þannig þegar öllu er á botninn er hvolft?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook
Spilling á Íslandi
23.5.2009 | 10:22
Í krossgötum Hjálmars Sveinssonar í dag á rúv kl. 13:00 verður fjallað um hvít, grá og svört svæði Spillingar á Íslandi við Gunnar Helga Kristinsson prófessor.
Að skiptast á greiða ...
Gera má ráð fyrir áhugaverðum þætti eins og Hjálmars er von og vísa.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Í háskólum, á vinnustöðum, á elliheimilinu. Á ólíklegustu stöðum fyrirfinnast gerendur eineltis.
20.5.2009 | 11:01
Einelti/kynferðislegt áreitni á vinnustöðum.
Sérsveitarhugmyndin til lausnar eineltismálum í framhaldsskólum eða á vinnustað.
Hugmyndina um sérstakt teymi fagfólks má allt eins sjá fyrir sér í heimi fullorðinna. Teymið er virkjað, hafi ekki tekist að leiða mál til lausnar með úrræðum sem framhaldsskólar/háskólar eða vinnustaðir hafa yfir að búa með þeim hætti að sá sem upplifir sig hafa verið lagður í einelti finnist að unnið hafi verið í málinu með hagsmuni hans að leiðarljósi.
Þeir sem geta óskað eftir að virkja teymið:
1. Einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir einelti/ofbeldi í framhaldsskóla, háskóla eða á vinnustað.
2. Skólastjórnendur framhaldsskóla, atvinnurekendur/stjórnendur fyrirtækja.
Eins og alkunna er, koma reglulega upp alvarleg eineltismál á vinnustöðum. Staða þolanda eineltis á vinnustað getur verið mjög slæm enda vinnsla og úrlausnir á höndum yfirmanna og eigenda fyrirtækis sem viðkomandi starfar hjá.
Eins og staðan er í dag getur þolandi eineltis á vinnustað leitað eftir ráðgjöf til síns stéttarfélags og einnig til Vinnueftirlitsins. Sá meinbugur sem finnst á þessum tveimur stofnunum þegar kemur að eineltismálum, er sá að þessi kerfi geta ekki einskorðað sig við að sinna einum starfsmanni umfram annan, hvort heldur hann er þolandi eða gerandi. Sem dæmi getur lögfræðingur stéttarfélags eða Vinnueftirlitsins illa sinnt aðila sem segist vera þolandi eineltis þar sem hann er allt eins lögfræðingur geranda.
Með öðrum orðum nær hugmyndafræði og aðgerðir t.d. Vinnueftirlitsins ekki nema hálfa leið þar sem ekki er gengið í að vinna í málinu með það fyrir augum að ná einhvers konar niðurstöðu. Hvort unnið sé í málum af þessum toga á vinnustöðum yfir höfuð veltur í öllum tilvikum á vilja og ákvörðun stjórnenda/atvinnurekenda. Sé stjórnandi eða atvinnurekandinn gerandi í máli segir það sig sjálft að staða þolandans er afleit. Dæmi hafa sýnt að sé málum þannig háttað bíði fátt annað fyrir þolandann en að yfirgefa vinnustaðinn. Vissulega gefst honum kostur á að sækja mál sitt fyrir dómstólum. Allir þeir sem eitthvað þekkja til þessara mála vita að sú leið er ekki bara kostnaðarsöm heldur afar tyrfin. Eftir situr einstaklingurinn með málið óuppgert en með allar þær fjölmörgu skaðlegu afleiðingar sem sýnt hefur verið fram á að einelti geti valdið svo sem félagslegt óöryggi og brotna sjálfsmynd.
Hugmyndin sjálf.
Hugmyndin um að þolandi geti leitað til sérstaks utanaðkomandi, hlutlauss fagteymis er fýsilegur kostur telji viðkomandi sig ekki vera að fá lausn sinna mála á vinnustaðnum. Yrði sérsveitarhugmyndin að veruleika á þolandi eineltis á vinnustað það ekki lengur undir yfirmanni sínum hvort mál hans verði skoðað eða að tilraun verði gerð til að leysa það.
Atvinnurekandi/stjórnandi getur að sama skapi óskað eftir liðsinni teymisins telji hann sig hafa reynt að leiða málið til lykta en án árangurs. Fagteymið getur þannig komið öllum aðilum til góða. Sé um að ræða vinnustað er mjög mikilvægt að auk sálfræðings sé um borð lögfræðingur þar sem sennilega myndi oftar en ekki koma upp spurningar er lúta að lögfræðilegum réttindum þolanda.
Fagteymi til lausnar í eineltismálum er ekki ný af nálinu. Á árum mínum innan BHM, þegar ég var formaður Stéttarfélags Sálfræðinga og átti síðar einnig sæti í stjórn BHM, átti ég einnig sæti í eineltisnefnd BHM. Þá kom ég með þá hugmynd að aðildarfélögin myndu sameinast um að reka svona teymi sem hægt væri að kalla út að ósk þolanda eða atvinnurekanda. Þessi hugmynd átti ekki upp á pallborðið á þeim tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook

Sérsveitarhugmynd til lausnar.
Það er með einföldum hætti hægt að búa til kerfi í formi teymis sem færi í gang ef skólinn hefur ekki geta leitt einstakt eineltismál til lykta.
Hér er mikilvægt að taka fram að með þessari hugmynd er ekki verið að taka ábyrgðina af skólastjórnendum heldur er hér átt við að teymið komi einungis til hafi ekki tekist að mati þolanda og foreldra hans eða skóla að leysa málið innan skólans.
Til að þessi hugmynd geti orðið að veruleika þurfa stjórnvöld að leggja henni lið. Öðruvísi er ekki hægt að tryggja óheftan aðgang á vettvang og opin samskipti við alla þá sem að málinu koma. Um sérstakt fagteymi sem þetta þarf að búa til ramma og reglugerð þar sem fram kemur hlutverk þess og hvernig því er ætlað að þjóna þolendum eineltis sem telja sig ekki fá lausn sinna mála á þeim vettvangi sem eineltið á sér stað.
Hugmyndin er þessi í hnotskurn:
Ráðuneyti og/eða sveitarfélag standi að myndun fagteymis sem samanstendur t.d. af sálfræðingi, lögfræðingi og sé teymið ætlað að sinna grunnskólum sérstaklega þá einnig kennara og námsráðgjafa (3-5). Teymið þarf að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur.
Annað kvöld í Í nærveru sálar (ÍNS) á ÍNN.
Gestir: Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Auður Stefánsdóttir, skrifstofustjóri Menntasviðs, Selma Júlíusdóttir, skólastjóri Lífsskólans og Kristinn Breiðfjörð, formaður Skólastjórafélagsins.
Sátt við sykurskattinn
16.5.2009 | 11:44
Aukinn skattaálagning er í sjálfu sér aldrei neitt gleðiefni. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra vill að lagður verði á sérstakur sykurskattur.
Þessi tillaga er góð og í raun mjög góð ef hún er hugsuð þannig að skatturinn verði notaður til að niðurgreiða tannlæknaviðgerðir barna. Þess utan er sennilegt að með þessari framkvæmd mun draga úr kaupum á sætindum og gosi sem leiðir til bættari tannheilsu barna og ungmenna. Allir vita að sykurneysla í óhófi er engum holl hvorki börnum né fullorðnum.
Vitað er að tannheilsu barna og ungmenna hefur farið hrakandi hér á landi. Svo virðist sem fjöldi fólks hafi ekki ráð á að senda börn sín til tannlæknis eða í það minnsta hafi ekki alltaf sett það í forgang, ef marka má aðsóknina í ókeypis tannlæknaþjónustu sem boðið hefur verið upp á nokkra laugardaga.
Umboðsmaður barna heimsæki skóla reglulega
14.5.2009 | 16:09
Hlutverk umboðsmanns barna er víðtækt og því gerð góð skil á heimasíðu hans sem er að öllu leyti til fyrirmyndar. Í embætti umboðsmanns barna hefur ávallt verið ráðinn lögfræðingur. Embættið hefur verið að þróast og vafalaust tekið hvað mestum breytingum þegar skipti hafa orðið á umboðsmanni. Nýir siðir og venjur koma með nýjum embættismönnum enda þótt lagaramminn hafi e.t.v. haldist nokkuð óbreyttur frá upphafi.
Lagaumhverfið sem lýtur að börnum er grundvallaratriði sérhvers samfélags sem vill gæta þess að hagsmunir þeirra séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þess vegna er það forgangsatriði að fylgst sé gaumgæfilega með að þjóðréttarsamningar sem snerta réttindi og velferð barna og Ísland er aðili að séu virtir og að íslensk lög og reglugerðir sem lúta að börnum og velferð þeirra séu aðlöguð jafnóðum og aðstæður eða samfélagsumhverfið gera um það kröfur.
En það eru önnur verkefni sem ekki er síður mikilvægt að embætti umboðsmanns barna sinni af alúð. Hér er átt við að umboðsmaður barna geri sér sérstaklega far um að vera í beinum tengslum við börnin í samfélaginu. Leiðin að börnunum er að umboðsmaðurinn byggi sér brú yfir til þeirra með því að heimsækja leikskóla og skóla landsins. Tilgangur heimsóknanna væri í raun tvíþættur: að umboðsmaðurinn kynni sig og embættið og að hann kynnist börnunum og raunheimi þeirra.
Að sækja börnin heim í skóla þeirra er ein áhrifaríkasta leiðin ef umboðsmaðurinn hefur áhuga á að skynja, upplifa og kynnast samfélagi barna og unglinga. Það er trú mín að börnin sjálf munu hafa bæði gagn og gaman af slíkri heimsókn. Á Íslandi hefur verið borin ákveðin virðing fyrir mikilvægum embættum og ef heimsóknar er að vænta frá embættismönnum finna börnin til sín og hlakka til. Þetta hefur margsinnis sýnt sig þegar t.d. forseti Íslands vísiterar eða borgarstjóri.
Umboðsmaður barna hefur með þessum hætti gullið tækifæri til að ræða við börnin um fjölmarga hluti sem lúta að þeim og umhverfi þeirra t.d. um jákvæð samskipti og hversu áríðandi það er þau beri virðingu fyrir hvert öðru. Góð vísa sem þessi er aldrei of oft kveðin.
Ávinninginn af slíkum heimsóknum umboðsmanns barna er e.t.v. ekki hægt að mæla með beinum hætti. En gera má ráð fyrir að því fleiri aðilar frá ólíkum stofnunum samfélagsins sem bætast í hóp þeirra sem miðla nauðsynlegum skilaboðum til barna auki líkur þess að þau meðtaki boðskapinn.
Ég vil í þessari grein hvetja umboðsmann barna að gera sér far um að komast í beina tengingu við börnin í landinu, hlusta með eigin eyrum á hvað þau hafa að segja og á sama tíma ræða sérstaklega við þau um mikilvægi þess að koma vel fram hvert við annað hvort heldur þau eru í skólanum, í hverfinu þar sem þau búa eða á Veraldarvefnum.
Sláandi frásögn ungs manns í ÍNS
12.5.2009 | 23:33
Þátturinn Í nærveru sálar frá því í gærkvöldi kominn á Vefinn (www.inntv.is)
Viðtalið við unga manninn á ÍNN í gærkvöldi um afleiðingar langvarandi eineltis sem átti sér stað í grunnskóla. Hann er höfundur greinarinnar Einelti gerði mig næstum að fjöldamorðingja en hún var birt í styttri útgáfu í Morgunblaðinu fyrir tæpu ári síðan.
Greinina í heild sinni má finna á www.kolbrun.ws Sagan öll
Barn á rétt á að líða vel í skólanum sínum. Skólum ber að gæta öryggis barnanna á skólatíma.
Sérsveitarhugmyndin kynnt, sjá nánar hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook
Rætt verður við ungan mann sem kemur ekki fram undir nafni um afleiðingar langvarandi eineltis. Hann er höfundur greinarinnar Einelti gerði mig næstum að fjöldamorðingja...
Úr greininni:
Einelti gerði mig næstum að fjöldamorðingja er ástæðan fyrir að ég skrifa nafnlaust. Upphaflega skrifaði ég eitthvað ekki eins gróft sem ég taldi mig geta gefið út undir nafni, og áherslan var á að segja sögu eineltisins, sem sagt segja frá völdum atvikum í tímaröð. En þegar ég leit yfir það ritverk fannst mér það varla segja 1% af sögunni. Þannig að ég ákvað að reyna í staðinn að útlista áhrifin sem einelti getur haft. Einelti er MIKLU meira en bara röð atvika, og það er ómögulegt fyrir þann sem hefur aldrei lent í einelti sjálfur að skilja það til fulls. En með því að lýsa endastöðinni -hversu djúpt ég sökk á endanum- þá get ég kannski gefið hugmynd um hversu hryllilegt ferðalagið var.
Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atvik þegar ég var á fótboltaæfingu, og vingjarnlegur strákur var að skjóta á mig (ég æfði sem markmaður). Hann sagði nokkrum sinnum eitthvað á þessa leið "Vel gert!" og endurtók þessa ánægju sína með frammistöðu mína nokkrum sinnum í röð og með meiri ákafa. Mér leið sífellt verr því ég var nokkuð viss um að hann væri að gera grín að mér. Þegar hann hrósaði mér hátt og með mjög mikilli áherslu í lokin gat ég ekki meira, "snappaði" á hann og gelti í leiðinlegum tón "þegiðu!" ...
... hann varð skiljanlega *mjög* fúll og þrátt fyrir að ég hafi útskýrt að ég hafi haldið að hann væri að gera grín að mér þá líkaði honum aldrei við mig eftir þetta.
Í nærveru sálar í kvöld kl. 21.30
Greinina í heild sinni má finna á www.kolbrun.ws Sagan öll
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook
Hvernig lítur þetta út? Framsókn tækifærissinnaðir en hvað munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera?
10.5.2009 | 20:07
Ég er smá áhyggjufull varðandi það að leggja ESB aðildarákvörðunina fyrir þingið. Formaður Framsóknar virkar svo tækifærissinnaður í svörum. Það er aldrei að vita hvað þeir taka upp á að gera. Spurning líka hvort Jón Bjarnason sé nógu framsýnn. Framsýni og fyrirhyggja er það sem þarf nú að stjórna ferð, ekki hvað síst í landbúnaðarmálunum.
Ég ætla svo rétt að vona að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji tillögu um viðræður þegar hún kemur fyrir þingið. ESB er eins og ég sé þetta og hef oft tjáð mig um, stór hluti af því að komast út úr þessum rústum.
Ósk um viðræður mun auka trúverðugleika okkar, skapa traust á alþjóðavettvangi og gefa til kynna að þjóðin hafi yfir höfuð einhverja framtíðarsýn í efnahagsmálum.
Þar til annað kemur í ljós, sýnist mér kostirnir mun fleiri en gallarnir.
Hlakka til að fá að kjósa um þetta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook