Þingkonur tala styst á þingi og það eru ekki ný tíðindi.

Karlar tala lengst og mest á Alþingi en konur verma sæti þeirra sem tala styst.

Það segir sig sjálft að ef það eru einhverjir sem tala lengst og mest á þinginu þurfa náttúrlega að vera einhverjir sem tala styst. Ekki geta allir verið jafnir.

Það er hins vegar ekki ný tíðindi að þegar þetta er skoðað verma þingkonur gjarnan sæti þingmanna sem tala styst. Á heilu þingi er dæmi um að þingkona hafi talað aðeins í fáeinar mínútur.

Af hverju?
Ef á að skoða þetta er fyrst spurt hvort liggi að baki einhver almennur kynjamismunur eða hvort hér sé um að ræða ítrekaðar tilviljanir?

Þegar ég rifja gróflega upp þær upplýsingar sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina finnst mér eins og að almennt séð og í samanburði við hitt kynið, hafi konur ekki beint legið undir ámælum fyrir að vera þöglar eða eiga almennt erfitt með að tjá sig. Mikið frekar hafa þær haft vinninginn hvað mælsku varðar. Enn aðrar rannsóknir kunna að sýna allt aðrar niðurstöður og því skal varast að fullyrða eða alhæfa nokkuð í þessum efnum.

EN hverju sætir það að á Alþingi skulu konur oftast ef ekki alltaf verma sæti þeirra sem tala styst?

Árið 2007 minnir mig að hafi verið gerð á þessu könnun. Þegar tæpar þrjár vikur voru liðnar af þingvetri það árið höfðu þingkarlar farið 657 sinnum í ræðustól en þingkonur einungis 153 sinnum. Karlar höfðu verið 84% af þingtíma í ræðustóli en konur 16%. Er þetta með svipuðum hætti nú í ár?

 

Er þetta ásættanlegt?
Það er mín skoðun að þær konur sem ákveða að sækjast eftir kjöri á þing eða í sveitarstjórn verði að búa yfir getu og færni til að tjá sig, taka þátt og láta að sér kveða í orði og á borði. Að sitja með hendur í skauti og hreyfa sig vart úr sæti getur ekki verið ásættanlegt jafnvel þótt þeir séu að hlusta vandlega á það sem fram fer.
Ég, persónulega, vil HEYRA Í  þeim konum sem ég veiti atkvæði mitt.

 

Ég hvet þær konur sem kosnar hafa verið á þing til að nota hvert tækifæri og krefjast alls þess svigrúms og tíma sem þær telja sig þurfa í ræðustól. Þótt þingkonur séu dugnaðarforkar, samviskusamar og hugmyndafræðilega öflugar þá er mjög líklegt að pólitísk velgengni þeirra sé mæld einmitt út frá þeim mælikvarða hversu oft og mikið þær láti í sér heyra, gefið að málefnið sé verðugt, flutt með málefnalegum hætti og vel rökstutt.

Það er í ræðustóli Alþingis sem vinna þingmanna er kjósendum hvað mest sýnileg.

   

 


Uppeldi til ábyrgðar, ekkert nýtt en meira í umræðunni núna.

Uppeldi til ábyrgðar er ekki ný hugmyndafræði en virðist nú vera á hraðri leið upp vinsældarlistann bæði í orði og á borði.

Þessi hugmyndafræði rekur upphaf sitt til Diane nokkurar Gossen.

Í þrengingum þeim sem skullu á þjóðinni í aðdraganda og kjölfar hrunsins hefur mikið verið rætt um hugtakið ábyrgð, hverjir eru ábyrgir og hverjir munu eða munu ekki axla ábyrgð o.s.frv.

Guðbjartur Hannesson þingmaður og formaður fjárlaganefndar minnist á þessa hugmyndafræði í viðtali í Morgunblaðinu í dag en hann starfaði árum saman sem skólastjóri á Akranesi.

Þegar talað er um Uppeldi til ábyrgðar er í stuttu máli verið að tala um að kenna börnum sjálfstjórn, sjálfsaga og styrkja þau í að axla ábyrgð af eigin mistökum með það að markmiði að læra af þeim.

Uppeldi til ábyrgðar kennir:

  • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, viðurkenna mistök
  • Að bera ábyrgð á eigin námi
  • Leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun
  • Hvernig þeir geta leiðrétt mistök og bætt fyrir þau
  • Aðferðir við lausn ágreiningsefna
  • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum
  • Forðast að kenna öðrum um, skoða ávallt sinn hlut í málinu
  • Að mynda tengsl við aðra
  • Að setja sér markmið og gera uppbyggingaráætlanir
  • Að rækta og efla sinn innri áhuga
  • Að vera maður sjálfur og sú/sá sem maður vill vera.
  •  

    Margir skólar hafa tekið inn þetta hugmyndafræði t.d. Brekkuskóli á Akureyri.


    Meira um þessa hugmyndafræði hér.

 

 


Skrásetjarar hrunadansins

naerverusalar_2-24agu09.jpgÞeir eru mættir galvaskir í ÍNN, mánudagskvöld, 24. ágúst, fyrstu þrír skrásetjarar hrunadansins: Ólafur Arnarson, Guðni Th. Jóhannesson og Þorkell Sigurlaugsson.

Hverjir eru mennirnir bak við textana og hver var hvatinn að skrifunum?

Hvað eiga þeir sameiginlegt og um hvað eru þeir hugsanlega ósammála?

Vilja þeir mynda Skuggaviðskiptaráðuneyti?

Hvernig líst þeim á aðgerðir stjórnvalda í dag?

Kl. 21.30 á ÍNN


Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi hefur ekki tekist að manna stöður frístundarheimila

Þúsundir manna þar á meðal fjölmargir foreldrar eru atvinnulausir. Samt hefur ekki tekist að manna allar stöður á frístundarheimilum.

Það er ekki minni ásókn nú en oft áður í að börn fái pláss á frístundarheimilum.

Ályktanir sem draga má af þessu geta sjálfsagt verið margvíslegar.
Við fyrstu sýn má samt komast að einhvern veginn svona niðurstöðu:

Þeir sem eru atvinnulausir núna hafa mikið til ekki áhuga á að vinna á frístundarheimilum.
Svo virðist sem foreldrar óski eftir að börnin þeirra fái pláss á frístundarheimilum og gildir þá einu hvort þeir eru atvinnulausir eða ekki.

 


Framsókn ekki með, er Siv sátt?

Framsókn ekki með. 

Ég trúi ekki að Siv sé ánægð? Ekkert hefur heyrst frá henni í gegnum þetta allt?

Ef Bretar og Hollendingar verða ekki með eitthvað vesen með þessar fyrirvara þá er þetta sannarlega eitthvað til að fagna. Breið samstaða og einhvers konar lausn úr ófremdarástandi þótt súr biti í hundskjaft.Crying

Nú er bara að skoða hvort eignir sumra (útrásarvíkinga Icesave) ganga ekki líka upp í þetta.

Bjart framundanSmile 


Formaður Fjárlaganefndar stendur í ströngu.

Ég verð að segja að mér finnst Guðbjartur Hannesson hafa staðið sig vel í þeim ólgusjó sem hlýtur að hafa verið í Fjárlaganefndinni að undanförnu.  Honum hefur tekist ágætlega að sýna yfirvegun  og hefur sýnt að hann ræður vel við þá ábyrgð sem formennsku nefndarinnar fylgir þegar verið er að reyna fá botn í svo erfitt mál sem Icesave málið er.

Að sama skapi finnst mér Höskuldur Þórhallsson, (Framsókn), hafa komið ágætlega fyrir þegar verið er að spyrja hann spurninga varðandi málið. Svo virðist sem hann hafi haft löngun að finna á því flöt.

Ég er ekki með sömu upplifun gagnvart formanni Framsóknar. Sé hann spurður um gang mála t.d. í þeim krefjandi málum sem nú eru á dagskrá þá eru svör hans flest neikvæð og túlkun hans  flöt. Mér finnst eins og hann (Framsókn) geti varla verið að einbeita sér að fólkinu í landinu heldur hafi þeir fyrst og fremst þessa knýjandi þörf fyrir að gagnrýna stjórnarflokkanna, eins og bara til að gagnrýna.

Áður en Sigmundur Davíð fór í pólitík kom hann fyrir sjónir sem klár náungi sem hafði auk þess góða nærveru. Eftir að hann skellti sér í pólitíkina virðist sem hann hafi tapað einhverju af sínum persónulega sjarma. Kannski á þetta eftir að breytast aftur í jákvæða átt enda  er ekki sanngjarnt að dæma hann hart nú heldur frekar að ímynda sér að hann eigi eftir að finna sinn takt á þessum vettvangi sem hann hefur nú valið sér.

 


Hvaða endemis rugl er þetta að verða?

Eftir fréttir dagsins er ekki séð hvernig venjulegt fólk á að geta skilið hvað er að gerast í þessu Icesave máli á pólitískum vettvangi. Fyrirvarar ekki fyrirvarar? Þverpólitísk samstaða eða hrein og klár svik...?

Búið er að verja dögum ef ekki vikum saman í að semja svokallaða fyrirvara við Icesave samninginn, já, og sterka fyrirvara, nota bene.

Málið er, að ekkert okkar hefur hugmynd um hvort þessir fyrirvarar verði teknir gildir af viðsemjendum.

Ég get rétt ímyndað mér hversu gaman það er fyrir Breta og Hollendinga að fylgjast með ferlinu og vita, að þeir geta svo bara sagt, NEI, glætan.

Það liggur fyrir undirskrifaður samningur og hvað sem fólki finnst um hann þarf einfaldlega að afgreiða hann, eins og gert var ráð fyrir þegar staðið var upp frá samningaborðinu.

Verði honum hafnað vitum við hvernig staðan. Það vita þá viðsemjendur okkar líka.

ÞÁ fyrst er og hægt að skoða framhaldið á vitrænan hátt í stað þess að flækja þjóðinni inn í eilífar getgátur um hvað gerist ef .. 

Verði samningurinn samþykktur þá verður hann samþykktur...

Tíminn er ekki að vinna með íslensku þjóðinni í þessu máli. Öll sú endalausa pæling er þegar upp er staðið ekki að skila sér sé sem skyldi eins og þetta horfir við mér. Eftir tíu ár munu fáir ef nokkrir muna hvað hver sagði í þessu máli.


Er græðgi í völd að valda usla eða er þetta bara draumurinn um að verða hinn eini sanni þjóðarbjargvættur?

Fyrirbærið valdabarátta er þekkt fyrir að leiða til þess að mörg sambönd splundrist og gildir þá einu hvernig þau eru til komin.

Nú velti ég fyrir mér hvort það sé valdabarátta sem sé um það bil að splundra ríkisvaldinu. Gerist hið versta mun það leiða til þess að hér ríki alger stjórnarkreppa.

Glötuð hugsun myndu einhverjir segja nú en eftir að hafa hlustað á Gunnar Helga, stjórnmálafræðing, þá virðist þessi hugsun allt eins geta lýst því sem gæti orðið, ef heldur sem horfir.

Hann sagði einfaldlega að ef þessi ríkisstjórn springur vegna Icesave mun sennilega verða reynt að mynda þjóðstjórn. Hins vegar sé það ekki líklegt að þjóðstjórn nái neitt frekar að afgreiða Icesave enda fleiri sem þurfa að ná saman.

Ennfremur sagði hann að ef kosið yrði aftur nú sem er vissulega leið, sé nokkuð ljóst hver niðurstaðan yrði þ.e. Samfylking og VG myndu ná endurkjöri.  Allt ferlið myndi hins vegar verða ein stór hneysa fyrir þjóðina, innanlands sem utan og gefa fátt annað til kynna en hversu brjáluð ólga og óreiða ríki í landinu.

Er það þetta sem raunverulega gæti gerst?

Telur stjórnarandstaðan, að með því að vera á bremsunni í Icesave málinu með þeim hætti sem verið hefur, muni þeir komast til valda fljótt og vel?

Nú hljóta þjóðarhagsmunir að gilda umfram flokkshagsmuni og það í öllum flokkum? Ef ekki nú þá aldrei skyldi maður halda.

Ekkert af því sem er að gerast nú á sviði þjóðmálanna er hægt að leggja að jöfnu eða bera saman við það sem gerðist í borginni sbr. REI og allt það sem fylgdi í kjölfarið.

Ef einhver sem nú situr í stjórnarandstöðu lætur sér detta í hug að ef þessi ríkisstjórn yrði svo óvinsæl vegna Icesave-málsins, hrópi fólkið á stjórnarandstöðuflokkana að redda málum, tel ég þann hinn sama vera á alvarlegum villigötum. Það er deginum ljósara að það er enginn einn flokkur/forysta flokks sem getur nú skotist upp í stjörnuhimininn og orðið einhver allsherjar þjóðarreddari af því að hann/þeir séu svo klárir en hinir svo heimskir. 

Sá eða sú sem  hugsar svona í þessum erfiðum kringumstæðum er að leika sér að eldinum á kostnað fólksins í landinu til þess eins að fullnægja flokkshagsmunum eða valdagræðgi?

Það er nú eða aldrei sem afgreiða þarf þetta hörmunga mál eigi þjóðin ekki að missa sprotann úr höndunum sökum vanhæfni.


VÆG LEIÐ til að fella Icesavesamninginn?

Lífið og tilveran er eins og skákborð, hvað gerir þessi og ef þessi gerir þetta hvað gerir hinn þá osfrv.

Nú er mest spennandi að fylgjast með Icesave skákborðinu. Í færslu í gær dró ég upp þrjú möguleg scenario eða atburðarrás sem gæti orðið þegar Bretum og Hollendingum verða kynntir þeir fyrirvarar sem nú eru óðum að fá á sig mynd á borðum þingmannanna okkar. 

Í Morgunblaðinu í dag er einmitt verið að velta vöngum yfir þessu. Meðal þeirra sem tjá sig á síðum Moggans er Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ. Hann segir:

Ef gerðir eru fyrirvarar þá er samningnum í rauninni hafnað, síðan gætu menn skoðað samninginn með fyrirvörunum sem nýtt tilboð. Þannig má líta á þessa aðferð sem vægari leið til að fella samninginn.

Ég er alveg sammála Stefáni en finnst skondið að ímynda mér að hægt sé að fella samning vægt. Annað hvort er hann felldur eða ekki.

En það sem Stefán er sennilega að segja að með því að hafa það vel skilgreint hverju þurfi að breyta í samningnum til að hægt sé að samþykkja hann er ekki alveg verið að segja að allt í honum sé ónýtt þótt honum sé hafnað. Í kjölfarið hæfust samningaviðræður að nýju ef mótaðili samþykkir það yfir höfðuð.

Nú er mikið spáð i hvernig þessir fyrirvarar eru. Er þetta bara  fínpússning á orðalagi, smá tiltekt í texta eða eru þetta víðtækari efnisbreytingar? Hvar liggja mörkin?

Segjum að Bretum og Hollendingum langi til að ljúka þessu og séu því tilbúnir að skoða fyrirvarana þótt víðtækir séu innan þessara sömu samningalotu og hyggist senda móttillögur sem síðan yrðu skoðaðar hér og svo framvegis.., þá lítur svo út sem samningaviðræðunum sem hófust fyrr á þessu ári hafi í raun aldrei verið alveg lokið jafnvel þótt skrifað hafi verið undir samning?  

 


Hvernig munu Bretar og Hollendingar bregðast við Icesave fyrirvörunum?

Brátt munu þeir fyrirvarar sem setja á við Icesave-ríkisábyrgðina (Samninginn)  liggja fyrir, fyrirvarar sem flokkarnir eru að koma sér saman um. Vinnslan er á lokastigi samkvæmt Guðbjarti Hannessyni, formanni Fjárlaganefndar.

Guðbjartur sagði í fréttum að fyrirvararnir eða öllu heldur hugmyndir að þeim hefðu ekki verið lagðir fyrir Breta og Hollendinga með formlegum hætti en muni það verða gert þegar flokkarnir hafi endanlega komið sér saman um útfærslu þeirra. Þetta segir að mjög líklega hafa Bretar og Hollendingar verið upplýstir að einhverju leyti um eðli þessara fyrirvara auk þess sem þeir frétta vissulega af ferli málsins með því að fylgjast með fréttum frá Íslandi.

Nú verður spennandi að sjá hvernig Bretarnir og Hollendingarnir bregðast við þegar þeim verða kynntir þessir fyrirvarar.

Hér koma nokkur senaríó sem hægt væri að ímynda sér að gæti gerst:

1. Bretar og Hollendingar eru sáttir við fyrirvarana og hvetja til þess að Icesave ríkisábyrgðin með þessum fyrirvörum verði lögð fyrir þingið til afgreiðslu.

2. Bretar og Hollendingar hugnast ekki þessir fyrirvarar að hluta til eða að öllu leyti og segja að ekki hafi verið samið um neinn annan fyrirvara en þann að Samningurinn skyldi lagður fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Þeir vilji halda sig við það sem lagt var upp með. 

3. Bretar og Hollendingar eru opnir fyrir að skoða þessa fyrirvara, sumir séu í lagi en þeir kunni að vilja gera á öðrum einhverjar breytingar sem þeir munu þá senda um hæl. Boltinn er þá hjá þeim og Alþingi bíður eftir að sjá hvað kemur til baka

Verði viðbrögð Breta og Hollendinga eins og segir í lið 3, má segja að nýjar samningaviðræður hefjist án þess að hinn umdeildi samningur sem Samninganefnd Íslands kom með heim leggist nokkurn tíman fyrir Alþingi til afgreiðslu.

Það verður sannarlega fróðlegt að sjá hvernig þetta allt muni þróast og hvernig Bretar og Hollendingar bregðast við nú þegar þeim verða kynntir fyrirvarar íslenska ríkisins

Skyldu þeir vera stífir og fastir í prinsippi eða vera sveigjanlegir, opnir og lausnarmiðaðir í hugsun?

 


Clinton fær í samskiptum

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, skellti sér í heimsókn til Norður-Kóreu til að ræða við þarlend stjórnvöld um lausn tveggja bandarískra blaðamanna, sem hafa verið fangelsaðir. 

Hann hafði árangur sem erfiði.

Konurnar eru lausar. 

Upplýsingar um hvernig eða hvaða aðferðir og nálgun Clinton notaði í þessum viðræðum liggja ekkert endilega fyrir. Gera má því skóna að Clinton sé einfaldlega afar flinkur í samskiptum.

Vel er hægt að sjá fyrir sér hvernig hann hefur notað tækni sem einkennist af diplómatískri framkomu og festu þar sem hann missir aldrei sjónar af markmiði sínu.

 


Hefði ég vitað að skortur væri á bílaleigubílum...þá...

-hefði ég verið til í að leiga minn.

Umræðan um að þann mikla skort sem verið hefur á bílaleigubílum í sumar var í fréttum í kvöld.

Afleiðing  bílaleiguskortsins, segir fulltrúi bílaleigu, vera tap upp á marga milljarða.

Fréttir af þessari vöntun á bílum til leigu hefur ekki heyrst fyrr í sumar (minnir mig)  en ætla má að hefði fólk almennt vitað um að bílaleigur vanti bíla í svo stórum stíl til að leigja út er ekki ósennilegt að einhverjir hefðu viljað leiga sinn og fá með því nokkrar krónur í vasann. 


Samskiptahættir á Alþingi; þingmenn kvarta yfir að vera lagðir í einelti

Alþingi er sérstakur vinnustaður að því leyti að hann er einmitt þess eðlis að þar gengur vinnan oftar en ekki út á að sannfæra aðra um réttmæti skoðana sinna og selja hugmyndir til lausna ýmsum samfélagslegum vandamálum. 

Vel er hægt að sjá fyrir sér að þrýstingur myndist þegar verið er að leita að meðflutningsmönnum með frumvarpi eða einfaldlega leita eftir stuðningi við einstaka mál hvort heldur þingmannamál eða stuðningi við stjórnarfrumvarp. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að þeir sem sækjast eftir því að starfa á þessum mjög svo sértaka og krefjandi vinnustað stígi klárlega í báðar fætur, hafi sterka sjálfsmynd, dómgreind og einfaldlega kalli ekki allt ömmu sína.

Ekki alls fyrir löngu kvörtuðu a.m.k. tveir þingmenn yfir því að þeir höfðu verið lagðir í einelti af öðrum þingmönnum og einn þingmaður (3. aðili) sagði frá því að ofbeldi hafi klárlega verið beitt þegar kom að atkvæðagreiðslu mikilvægs máls. 

Ekki skal gera lítið úr þessu.  Þegar þingmaður segir í fréttum að hann hafi verið lagður í einelti eða þegar 3. aðili (þingmaður) segir að hann hafi orðið vitni af því að þingmaður beitti annan ofbeldi þá er mjög mikilvægt að fylgja eftir hvað átt er við og biðja aðila um að útskýra nánar hvað liggur að baki orðum þeirra enda ef rétt reynist er hér um alvarlegar ásakanir að ræða.

Hvað varðar 3. aðilann er einnig áhugavert að skoða hvort sá sem segist hafa orðið vitni af ofbeldi kunni að vera að nýta uppkomnar ásakanir sem pólitískan þrýsting t.d. til að vekja athygli á hvað hinir eru vondir og hvað málstaður þeirra sé slæmur. 

Enda þótt vinnan á Alþingi gangi mikið út á að selja skoðanir sínar, sannfæra aðra þingmenn um að ein leið sé betri eða verri en önnur, ber þingmönnum eins og öðrum að varast að ganga ekki of langt í viðleitni sinni að fá aðra á sitt mál.  Sá sem vill sannfæra þarf að gæta þess að ganga ekki svo langt að hægt sé að segja að um áreitni sé að ræða og sá sem er í hlutverki þess sem verið er að reyna að sannfæra þarf einnig að geta sett mörk og sagt sem dæmi, nú er nóg komið, hingað og ekki lengra, ég hef gert upp minn hug og við það situr.  

Hvað sem þessu líður þarf Alþingi eins og allir aðrir vinnustaður að hafa sína starfsmannastefnu og í henni þarf að felast eineltisáætlun, ferli sem hægt er að setja mál af þessum toga í komi þau upp. 

Vert er að rifja upp hér í lok færslunnar hvernig ein af algengustu skilgreiningum á einelti hljóðar þannig að þeir sem lesa færsluna eigi betur með að setja innihald hennar í samhengi við það sem kallast einelti. Skilgreining á vef Fjármálaráðuneytisins er svona:

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.
(Af vef Fjármálaráðuneytis).

 


Það er erfitt að fyllast ekki óþoli en maður vill þó ekki vera ósanngjarn

Af hverju er eins og vinna hjá embætti Sérstaks saksóknara gangi svakalega hægt sérstaklega þegar fréttir eins og þessar berast:

Fjármálaeftirlitið hefur sent um tug mála vegna peningafærslna sem tengjast bankahruninu til frekari rannsóknar, meðal annars til sérstaks saksóknara. Forstjóri eftirlitsins, segir að afar erfitt sé að sanna brot.

Enn hefur ekkert mál af þessum toga sem verið hefur til rannsóknar hjá embætti Sérstaks saksóknara ratað til dómstóla.

Ég veit að svona mál taka tíma í vinnslu en tími er samt einmitt eitthvað sem þessi þjóð virðist ekki hafa nógu mikið af sérstaklega þegar kemur að þessum málum.

Þarf ekki hinn Sérstaki saksóknari og hans fólk að gefa enn meira í.

 


Sérsveitin vel nærð en almenna lögreglan býr við skort?

Ef marka má þær upplýsingar sem berast m.a. frá lögreglumanninum sem ritað hefur nafnlaus bréf um stöðu lögreglunnar virðist liggja fyrir að vandræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru talsverð eða í það minnsta eru lögreglumenn, margir hverjir, afar ósáttir með sína stöðu.  Sagt er að það sé mikið álag, rannsóknarmál hlaðast upp. Ástæðan er sú að of litlu fé er veitt til LRH (Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu).

Á sama tíma og fréttir berast af erfiðleikum lögreglumanna virðist sem Sérsveit RLS (Ríkislögreglustjóra) sé í þokkalegustu málum fjárhagslega.

Þá spyr ég sem almennur borgari hvort ekki sé hægt að minnka fjárhagslegt vægi RLS og auka þess í stað vægi LRH?
Nú eða sameina LRH og RLS í eitt embætti?
Eins má kannski endurskoða skipulagið hjá báðum þessum embættum t.d. draga úr fjölda aðalvarðstjóra og lögreglufulltrúa?

Það skýtur í það minnsta skökku við að hafa vel-útbúna sérsveit til taks í einhver fá útköll á ári þegar hinn almenni lögreglumaður er að kikna undan álagi í starfi og getur þar að leiðandi illa sinnt skyldum sínum gagnvart hinum almenna borgara.

Hvar svo sem lausnirnar liggja er ljóst að eitthvað þarf að gera.
Sjálfsagt eru engar skyndilausnir til en lausnir engu að síður. 


Þeir gáfu ávallt af sér fremur góðan þokka

Björgólfsfeðgar gáfu ávallt af sér frekar góðan þokka, virtust heilir og heiðarlegir í því sem þeir tóku sér fyrir hendur.  Nú eru að berast æ fleiri fréttir af alls kyns viðskiptarflækjum þeim tengdum.

Það nýjasta er að Landsbankinn hafi lánað fjölmörgum félögum, sem tengdust þáverandi eigendum bankans, vel yfir lögbundið hámarki og að vafi leiki á því hvort Landsbankinn hafi greint rétt frá lánum til tengdra aðila í síðasta uppgjöri sem bankinn birti áður en hann hrundi í haust.

Um þetta hefur fréttastofa Rúv heimildir og staðfesti Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins við fréttastofu að þetta mál væri til skoðunar hjá eftirlitinu auk sambærilegra mála annarra banka en afgreiðslu væri ekki lokið.


Nýjir vendir sópa best

Sagði Þorvaldur Gylfason í einstaklega góðu viðtali sem var að ljúka á Útvarpsögu rétt í þessu. Hann vill meina að ekki hafi tekist nógu vel að skipta út fólki og sem dæmi sitji enn í Skilanefndum einstaklingar sem þar ættu ekki að vera og einnig almennt í viðskiptageiranum.

Þorvaldur ræðir um í þessu viðtali hversu ömurleg samningsstaða Íslendinga er í þessu Icesave máli enda séu mistökin sem gerð voru hér þess eðlis að ekki sé sennilegt að rauða dreglinum verði skellt út og okkur boðið að koma aftur að samningsborðinu verði Icesave-samningurinn felldur á Alþingi.

Þorvaldur er að mínu viti sá hagfræðingur sem ekki er hægt annað en að hlusta á ætli maður að skoða þessi mál frá öllum sjónarhornum.

 


Kúplar sig út með milljarða meðan fyrirtækið sekkur eins og sementspoki

Fréttin um gjaldþrot auglýsingastofunnar Góðs fólks olli gallbragði í munni manns.  Eigandinn er Karl Wernersson. Hann gat greitt sér út milljarða í arð en eftir stendur eignalaust fyrirtæki, útistandandi launakröfur og tómir bótasjóðir.

Hvað vakir fyrir einstaklingi sem gerir svona? Er þetta hrein og klár viðskiptasiðblinda?

Manni langar ekki að trúa því að fólk eins og þessi eigandi sé svo forhertur sem halda mætti þegar tíðindi berast eins og um gjaldþrot auglýsingastofunnar Góð fólks.

Vonandi verður þetta rannsakað ofan í kjölinn og helst öll viðskipti þessara bræðra.


Að eignir viðskiptaglæpamanna verði teknar upp í Icesaveskuldina

Ég tel að við eigum að stefna leynt og ljóst að því að megnið af eigum þeirra sem kunna að fá dóm fyrir viðskiptaglæpi skuli teknar upp í Icesaveskuldina. Hér er átt við þá sem fremstir fóru í flokki þeirra sem lögðu grunn að þeim forapytti sem þjóðin situr nú í vegna óeðlilegra og sennilega glæpsamlegra viðskiptahátta fárra íslendinga á erlendri grundu með ábyrgð íslenska ríkisins sem bakhjarl.

Spurt er hvort verið sé að vinna að kappi í því að hafa upp á þessum eignum samhliða því að verið er að undirbúa dómsmál þessara einstaklinga.

Sé það rétt að viðskiptaglæpamenn (meintir en sem komið er) hafi komið fé sínu kyrfilega fyrir í fasteignum og inn á reikningum útí heimi þá spyr ég hvort aðrar þjóðir t.d. Bretar og Hollendingar séu tilbúnar til að aðstoða íslendinga við að nálgast þær t.d. með því að aflétta bankaleynd í breskum bönkum?

Cayman Island tiheyra t.a.m. bresku krúnunni.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband