Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

18-23 ára fá ekki að tjalda í Akureyrarbæ um verslunarmannahelgina

Í ljósi reynslunnar hafa Akureyringar ákveðið að gera breytingar á hverjir fá að tjalda á útihátið þeirra Ein með öllu. Þessar breytingar má sjá á heimasíðu þeirra. Það kveður nokkuð við annan tón hjá mótshöldurum í ár en oft áður.  Af 14 útihátíðum leggur rúmlega helmingur sérstaklega áherslu á að um fjölskylduhátíð sé að ræða. Tvær höfða til ákveðinnar afþreyingar s.s. golfmót og ein til þeirra sem hafa gaman af harmóníkuspili. Af þessu má sjá að tónninn er að breytast. Mótshaldarar sækjast eftir því að fá fjölskylduna í heild sinni en ekki einvörðungu unglingana þó einstaka horfi einna helst til þess að fá sem flesta inn á svæðið. Tónninn í umsjónarmönnum tjaldsvæða hefur einnig breyst. Þeir hafa ekki farið varhluta af ofbeldinu sem sérstaklega fylgir eiturlyfjaneyslu sé hún fyrir hendi á staðnum.

Mótshaldarar hljóta að vera ábyrgir fyrir því sem gerist á hátíðinni sem þeir standa fyrir. Foreldrar eru ábyrgir fyrir að veita börnum undir 18 ára fararleyfi án eftirlits. Fjöldi sjálfboðaliða og grasrótarsamtaka geta aldrei komið alveg í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað ef neysla áfengis- og vímuefna er á staðnum. Þeir eru heldur ekki ábyrgðaraðilar. Óeigingjarn starf þeirra er að mínu viti ekki nægjanlega þakkað eða virt. Þetta kemur skýrast fram í þeirri frétt sem lesa mátti í dag að allir sjálfboðaliðar verða sem dæmi að greiða fullt verð inn á Þjóðhátíð í Eyjum þótt erindi þeirra sé einvörðungu að sinna hjálparstarfi.


Lækka áfengisverð - áfengisaldur óbreyttur

Í kvöld horfði ég á þá Ágúst og Svavar í Kastljósinu en þeir ræddu áfengisverð og áfengisaldur af miklum móð. Báðir höfðu eitt og annað til síns máls. Mínar vangaveltur byggjast á áralangri vinnu með unglinga. Meginkjarni þessara vangaveltna er að lækka beri áfengisverðið en skynsamlegt sé að halda áfengisaldrinum óbreyttum.  Lækkun á áfengisverði ógnar ekki forvörnum, með öðrum orðum þá tel ég lágt áfengisverð ógni ekki forvörnum að sama skapi og ef við lækkum áfengisaldurinn.

Málið er viðkvæmt og finna má haldbær rök sem styðja hvort heldur að lækka beri áfengisaldurinn til jafns við sjálfræðisaldurinn og einnig að honum skuli haldið óbreyttum.  Áfengisaldurinn er 20 ár en 18 ára verður ungmenni sjálfráða, fær kosningarrétt, má þá ganga í hjónaband og fær flest þau réttindi sem fullorðinn einstaklingur hlýtur.   Þrátt fyrir svo háan áfengisaldur hefja þau ungmenni sem það ætla sér drykkju allt að 5-6 árum áður en þeir fá lögformlegt leyfi til að kaupa áfengi. Stór hluti þessa hóps byrjar að drekka á fyrsta ári í framhaldsskóla. Neyslan er þá jafnvel með vitneskju og jafnvel samþykki sumra foreldra.  Kjarni míns máls er sá að ef við lækkum aldurinn óttast ég að þessi hópur muni einfaldlega stækka. Samþykkið yrði rýmkað og  upphafsmörk neyslunnar færist sennilega enn neðar. 

Áfengisverðið.
Áhrif lækkunar á áfengisverði ef til kemur tel ég að hafi mun minni, jafnvel óverulegt áhrif á drykkkjumynstur eða venjur unglinganna. Einnig er ég ekki viss um að það muni leiða til þess að fullorðnir drekki eitthvað meira.  Þeir sem ætla sér að drekka hvort heldur sem ungir eða fullorðnir útvega sér áfengi með einum eða öðrum hætti og gildir þá einu hvort léttvínsflaskan er 500 krónur dýrari eða ódýrari en það verð sem nú gildir. Verðlag flöskunnar mun ekki ráða úrslitum um hvort drukkin verður ein flaska eða 4 ef því er að skipta. 

Hafa skal það jafnframt í huga að í nútímasamfélagi hafa flestir unglingar talsverð fjárráð. Sumir vinna með skólanum og margir fá einnig umtalsvert fé hjá foreldrum sínum. Verðið á áfengi er ekki hindrun ætli viðkomandi að drekka á annað borð.  Lækkun áfengisverðs, verði það að veruleika og áhrif þar að lútandi er ekki hægt að leggja að jöfnu við lækkun áfengisaldurs.  

Það sem einnig mælir með lækkun áfengisverðs er að Ísland verði samkeppnishæft í Evrópu. Ferðamenn og ferðaþjónustan mun njóta góðs af. Ferðamenn sem margir hverjir eru aldir upp við allt aðra vínmenningu en við Íslendingar og þeir sem það vilja munu geta leyft sér að nota áfengi með sama hætti í samræmi við þann lífstíl sem þeir eru aldir upp við.  Sú staðreynd hvað matur og vín eru dýr hér og langdýrast ef samanborið við Evrópuþjóðirnar er leiðinleg fyrir okkur sem þjóð.

Ég er þeirrar skoðunar að vínmenning okkar Íslendinga sé sérstök.  Ölvun um helgar og þegar eitthvað er við að vera; 17. júní, verslunarmannahelgin, menningarnótt osfrv. hlýtur að teljast einsdæmi. 

Nú fer í hönd sú helgi sem lengst af hefur verið sú mesta fylleríishelgi unglinga.
Hvernig erum við í stakk búin til að mæta henni?
Ég tel að við séum ekki sérlega vel undirbúin nú frekar en áður þrátt fyrir þrotlaust starf sjálfboðaliða og grasrótarsamtaka.  Eftirlitslausir unglingar allt niður í 12 ára munu flykkjast á útihátíðir og hópur þeirra mun drekka sig ofurölvi og sumir neyta eiturlyfja með misdýrum afleiðingum. 

Í fyrra var ég með fyrirspurn til ráðherra hvort hann íhugaði eða hefði áform um að setja 18 ára aldurstakmark á skipulagðar útihátíðir, eða sjá til þess að börn undir 18 ára fái einungis aðgang að slíkum hátiðum séu þau í fylgd með fullorðnum sem staðfestir að hann taki ábyrgð á þeim?
Þetta kom m.a. fram í svari ráðherra:

Í fyrirspurninni er sérstaklega spurt um aldurstakmark á „skipulögðum útihátíðum“. Flestar slíkar skipulagðar útihátíðir eru haldnar um verslunarmannahelgina fyrstu helgina í ágúst. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur árlega gefið út sérstakt umburðarbréf til lögreglustjóra um reglur og skilyrði vegna „skipulagðra útihátíða“, ásamt kynningu á reglugerð um löggæslukostnað við slíkar útihátíðir. Ráðherra hefur mikinn áhuga á að skoða aldurstakmörk á þessum hátíðum í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og aðra þá aðila er kæmu að slíkri ákvörðun.

En nú er kominn nýr félagsmálaráðherra. Spennandi verður að sjá hvaða afstöðu hún tekur til þessara mála í framtíðinni.


Göng til Eyja, raunhæfur eða óraunhæfur möguleiki sem svo kostar hvað?

Það er afar erfitt á þessu stigi málsins að mynda sér einhverja vitræna skoðun á hvort göng til Eyja sé raunhæf og skynsöm framkvæmd eða jafnvel með öllu óraunhæfur kostur svo ekki sé minnst á hvað slíkt mannvirki kunni að kosta. Sjaldan hefur maður heyrt jafn ósamrýmanlegar skoðanir og álit á nokkru máli sem þessu. Fyrir liggur rannsóknarskýrsla sem og fjölmörg álit ólíkra sérfræðinga.
Sannfæring Árna Johnsen er jú öllum kunn. Þótt heill hópur vísindamanna munu færa rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu mun það líklega ekki hafa nein áhrif á sannfæringu hans í þessu máli.

Eins virðist vera farið með Eyjamenn. Þá sem ég hef spurt um þetta mál eru annars vegar á sömu skoðun og Árni eða segja þetta vera hina mestu firru.

Best er líklega að hinkra við og sjá hverju fram vindur. Einn góðan veðurdag mun án efa liggja fyrir skotheldar niðurstöður um hvort þetta sé raunhæfur kostur eður ei og ef raunhæfur hvort kostnaðurinn sé nær 20 milljörðum eins og Árni telur að sé á bilinu 60-80 milljarðar eins og segir í umræddri skýrslu.

Tímabært að afnema neitunarvald stórveldanna í Öryggisráði SÞ.

Ég heyrði ávæning af ummælum Ingibjargar Sólrúnar, utanríkisráðherra að ef við Íslendingar yrðum aðilar að Öryggisráði SÞ, ættum við að beita okkur fyrir afnámi neitunarvalds.

Eins og kunnugt er hefur Ísland sóst eftir kosningu til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ráðið skipar fimmtán aðildarríki en af þeim hafa fimm stórveldi fast sæti auk þess sem þau hafa neitunarvald. Allsherjarþingið kýs í Ráðið tíu önnur aðildarríki, hvert til tveggja ára. Framboð Íslendinga til Öryggisráðsins hefur verið umdeild aðgerð enda kostnaður við framboðið talsverður.


Að beita sér fyrir afnámi neitunarvalds er á brattan að sækja og líklega óraunhæft.  Að sjálfsögðu er þetta allt samningsatriði og mörgum kann að þykja afar ólíklegt að þetta nái fram að ganga jafnvel þótt fjölmargar aðildarþjóðir leggist á eitt.

Hvað sem því líður sakar ekkert að hugsa á þessum nótum.  Neitunarvald stórveldanna er barn síns tíma.


Flugdólgar óskemmtilegir samferðarmenn

Mikið lifandi skelfing held ég það sé ömurlegt að vera um borð í flugvél þar sem einhver tekur upp á því að láta dólgslega. Það er einmitt í flugvél sem maður vill síst af öllu vera í námunda við einstaklinga sem viðhafa dólgshegðun því engin er jú undankomuleiðin. Ekki þarf að spyrja að líðan farþegana sem þurftu að þola að horfa upp á manninn láta ófriðlega, áreita flugfreyjur og abbast upp á farþegana. Slík hegðun skapar mikið óöryggi og kvíða í aðstæðum þar sem ekkert er hægt að gera nema bíða og vona að maðurinn róist. Fyrir þá sem eru flughræddir eða óöryggir í flugvél þá er upplifun sem þessi ekki á það bætandi. Gott ef það fólk nær sér aftur eftir svo neikvæða reynslu.

Ekki þarf að spyrja að því að flugdólgurinn var ölvaður.  Sennilega lætur engin svona allsgáður, alla vega ekki um borð í flugvél. Ég velti því fyrir mér hvernig manninum leið með þetta þegar runnið hafði af honum. Eins og vitað er þá hefur áfengi þannig áhrif á sumt fólk að það gjörsamlega umturnast. Það á líka við um marga sem eru að öllu jöfnu rólyndis fólk. Þessi maður er klárlega einn af þeim sem ætti að láta áfengi með öllu vera.  Vonandi verður þetta til þess að hann ákveður að gera eitthvað í sínum málum.


Gagnrýnendur hafa örlög listamanna í hendi sér

Grein myndlistarkonu í Mbl. í gær vakti athygli mína en í henni bregst hún við rýni gagnrýnanda um sýningu sína. Sú gagnrýni hafði áður birst í Mbl. Myndlistarkonan upplifir að gagnrýnandinn hafi ekki skoðað og túlkað verk hennar af innsæi heldur eins og hún sjálf segir valtað yfir sýninguna.

Nú er ég sjálf ekki listamaður af neinu tagi en ég hef oft leitt hugann að því hvernig það sé að hafa unnið að list sinni af natni og tilfinningu og eiga síðan velgengni sína undir skoðun og áliti einhvers gagnrýnanda. Neikvæð gagnrýni getur jafnvel leitt til þess að ferill listamannsins fari í slíkt uppnám að hann nái sér ekki á strik aftur svo ekki sé minnst á hvaða áhrif slík gagnrýni hefur á sjálfstraustið.

Ég hef tekið eftir því að margir treysta á gagnrýnendur. Sjái þeir að einhver sýning, hvort heldur listaverkasýning eða leikhús/kvikmyndasýning fær neikvæða gagnrýni þá fara þeir einfaldlega ekki á sýninguna. Ég sjálf hef orðið uppvís að því að velja og hafna allt eftir því hvernig dómur gagnrýnanda hljóðaði.  Ef gagnrýnendur eru samdóma í áliti sínu t.d. á kvíkmynd þá finnst mér í raun skiljanlegt að fólk taki mark á því. En þegar um er að ræða t.d. listaverkasýningu hljóta önnur lögmál að gilda. Stíll, gildismat og upplifanir fólks eru það ólíkar að það sem einum þykir e.t.v. ömurlegt gæti öðrum þótt áhugavert eða fallegt.

Þá spyr ég, hafa gagnrýnendur kannski of mikið vald í íslensku samfélagi? Ákveða þeir helst til of mikið hvað hinn almenni borgari kýs að velja og hafna?

Það hlýtur að skapa heilmikla togstreitu og jafnvel kvíða hjá listamönnum og finna að gagnrýnendur hafi örlög listamannaferils þeirra í hendi sér í svo miklum mæli sem raun ber vitni.

Grein listakonunnar ber því að fagna og myndi ég alveg vilja sjá fleiri svona skrif. Þá get ég sem hugsanlegur listunnandi einnig lagt mat á rýni gagnrýnendanna. Hvaða gagnrýnendur eru það sem mæta á sýningu með opinn huga og skoða og túlka af innsæi og hverjir eru það sem ja, dæma út frá útlitinu einu. Því oftar sem maður fær tækifæri til að meta vandvirkni og hæfileika gagnrýnenda að rýna í verk annarra því meiri líkur eru á að maður finni hvort hægt sé að treysta rýni hans.


Aldrei að gefast upp

Þetta er einmitt eina hugsunin sem gildir þegar börnin okkar og börn almennt séð eru annars vegar. Aldrei að gefast upp.

Kastljósið fjallaði aftur um hina ungu móður, Dagbjörtu  sem var neydd til að fara frá BNA og skilja barn sitt eftir í umsjón föðurömmu barnsins. Eins og fram kom í þættinum þarf hún að drífa sig út og ganga í málið sem er flókið og sennilega afar tímafrekt svo ekki séð minnst á kostnaðarsamt. Aðalatriðið er að missa aldrei vonina.

Dagbjört þarfnast stuðnings sem flestra og ef ég þekki íslensku þjóðina rétt þá hjálpum við henni sem best við getum. Tilhugsunin um að málinu ljúki nú og með þessum hætti er óásættanleg að mínu mati.

Kastljósið á hrós skilið fyrir þessa umfjöllun.


Málið með Lúkas, var það bara múgsefjun eftir allt saman?

Er litli, skrýtni Lúkas á lífi eftir allt saman? Svo virðist vera. Sérst hefur til hans og telur eigandinn sig hafa þekkt hundinn sinn, hundinn sem átti að hafa verið drepinn á grimmilegan hátt eins og flestum landsmönnum er nú án efa kunnugt um. Samkvæmt þeim fréttaflutningi sem nú er efst á baugi er líklegt að þarna hafi verið um svæsna múgsefjun að ræða. Hópur fólks segist hafa verið vitni af því hvernig Lúkas hafi verið pyntaður til dauða. Þessi sami hópur gefur skýrslu um það sem það varð vitni af. Nú virðist sem svo að þetta sé allt einhver uppspuni. Já eins og þetta lítur út nú virðist sem hér sé um klára múgsefjun að ræða.
Síðan fer sagan af stað með hjálp fjölmiðla og auðvitað trúir fólk því sem það les. Hverjum dettur í hug að þegar hópur vitna hefur tjáð sig með svo sannfærandi hætti að hér sé bara um rógburð og rangfærslur að ræða, ómeðvitaða eða meðvitaða. Örugglega ekki meðvitaða.
Ég vil fekar trúa því að að tilfinningarleg skynjun og upplifun hinna meintu vitna hafi illa brugðist og að fólkið taldi sig sjá eitthvað sem síðan reyndist vera eitthvað allt annað.

Ég trúði þessu sjálf, svo mikið er víst. Reyndar hugsaði ég ekkert út í það að hræ hundsins var ekki til staðar þegar haldnar voru landsfrægar minningarvökur um hann. Einhvern veginn fannst mér það bara hljóta að vera, í það minnsta að enginn vafi léki á því sem átti að hafa átt sér stað.
  

Aðeins meira um Stellu

Nú er ég að ljúka lestri síðustu bókarinnar, Morðið í Rockville.  Það er eitt sem ég hef tekið eftir í bókunum sem vakið  hefur athygli mína og það er að þegar Stella fer austur á Litla Hraun að heimsækja skjólstæðinga sína þá ekur hún ætíð Hellisheiðina. Meira segja í þessari síðustu bók sem gefin er út 2006 ekur Stella Hellisheiðina austur á Eyrarbakka. Af hverju fer hún ekki Þrengslin??
Veit höfundurinn ekki að það er mikið styttra að aka Þrengslin frá Reykjavik austur á Eyrarbakka?

Enn er ég á því að höfundurinn sé kvenkyns og alls ekki neinn pólitíkus, hvorki fyrrverandi né núverandi.

Vona að fleiri bækur eftir Stellu Blómkvist komi út fljótlega Smile


Hver er Stella Blómkvist?

Ég hef verið að lesa bækurnar hennar Stellu Blómkvist í sumarfríinu en þær fjalla um hina kjörkuðu Stellu sem er lögfræðingur í Reykjavík. Stella tekur að sér erfið mál og linnir ekki látum fyrr en hún hefur fundið lausnina.
Stella Blómkvist er dulnefni og mér skilst að ekki sé vitað hver rithöfundurinn er.  Bækurnar finnst mér alveg frábærar, stíllinn stuttur og hnitmiðaður og talsmáti Stellu sem oftar en ekki er býsna grófur er jafnframt oft mjög fyndinn. Ég tók eftir því hjá sjálfri mér að eftir að hafa lesið nokkrar bækur eftir Stellu var ég farin að taka upp talsmátan hennar, orðin all kjaftfor og farin að blóta í tíma og ótíma. Svona er nú hægt að vera áhrifagjarn á miðjum aldri.

Efni bókanna gengur út á að morð hefur verið framið, morð í Alþingishúsinu, morð í Hæstarétti, morð í Stjórnarráðinu og morð í sjónvarpinu, já meira að segja í beinni útsendingu.
Eftir að hafa lesið bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar finnst mér eiginlega Stella skemmtilegri. Ég er þó all upptekin af því að spekúlera í hver höfundurinn  er. Þetta er að mínu viti klárlega kona frekar en karl þó konan á bókasafninu sem ég hef rætt þetta við segir að það séu getgátur um að þetta sé nefnilega karlhöfundur.  Enginn karl gæti skrifað svona um konu, það er ég alveg viss um.
Enda þótt ég sé ekkert sérlega vel að mér í bókmenntaheiminum þá dettur mér í hug hvort þetta geti verið hún Guðný Halldórsdóttir Laxness?  Gæti hún ekki skrifað einmitt svona texta?
Alla vega mæli ég með þessum bókum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband