Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Nýju gjaldeyrisbremsulögunum ber að fagna eða hvað?
29.11.2008 | 10:07
Þessi lög taldi ég vita á gott og væru þau sett sem fyrirbyggjandi aðgerð til að fyrirbyggja að enn verr fari fyrir okkur íslendingum hvað varðar gjaldeyrismálin.
Í ljós ummæla sem Vilhjálmur Egilsson og Pétur Blöndal hafa látið frá sér fara veit maður einfaldlega ekki hvað er best og rétt í þessum efnum
Mér fannst það lógískt að á meðan verið er að sjá hvort og hvernig krónan flýtur þarf að tryggja gjaldeyrir inn í landið og að hann haldist þar en á sama tíma að sporna við að hann fari úr landi.
Margir hafa beðið eftir að opnað verði fyrir gjaldeyrisviðskipti og mjög sennilega hefði sá gjaldeyrir sem íslenska ríkið hefur haft svo mikið fyrir að skrapa saman erlendis frá þurrkast upp eldsnöggt ef einhverjar bremsur verða ekki settar þar á.
Þá gæti sú staða komið upp að íslenska þjóðin sæti eftir í sömu og jafnvel verri súpu, með skuldir sem aldrei fyrr en engan gjaldeyrir.
En eins og áður segir, nú veit ég bara ekki hvað skal halda um þetta. Er þetta gott eða vont??
Svörin eru afar mótsagnakennd og er það vægt til orða tekið.
Peningamál | Breytt 1.12.2008 kl. 19:51 | Slóð | Facebook
Tvær hliðar á krónunni líka þeirri verðtryggðu
29.11.2008 | 09:57
Það er áhugaverð grein í Fréttablaðinu í gær:
Lausn undan verðtryggingu,
og er eftir Skúla Helgason.
Þeir sem tala um að nú skuli afnema verðtrygginguna si svona ættu að lesa þessa grein.
Hún er sú fyrsta sem ég hef séð í langan tíma sem skýrir með einföldum hætti þetta verðtryggingarfyrirbæri og af hverju hún hefur ekki einfaldlega verið afnumin.
Afnám verðtryggingar hljómar vel í eyrum skuldara en myndi þýða tekjutap fyrir ríkissjóð og niðurskurð á framlögum til almannaþjónustu.
Tap lánveitenda þar á meðal lífeyrissjóða sem geyma eignir almennings myndu verða ófyrirsjáanlegar. Slík aðgerð myndi fela í sér nauðsyn þess að ríkið tæki enn frekari lán og auka þurfi skattheimtu, eins og Skúli bendir á.
Talað er um lausnir og ein þeirra felst í því að Ísland verði aðili að ESB og tæki upp evru. Með því móti myndu skapast forsendur fyrir því að færa íbúðalán úr krónum í evrur og í framhaldinu myndi verðtryggingin lognast út af segir höfundurinn.
En að afnema verðtrygginguna í því þjóðfélagsástandi sem nú ríkir er bara ekki í boði. Að strika hana út nú með einu pennastriki hér og nú er fullkomlega óraunhæft.
Peningamál | Slóð | Facebook
Á gelgjunni á Flónni
27.11.2008 | 17:29
Ég er nú komin yfir gelgjuskeiðið og rúmlega það og ætla í kvöld að gera aðra tilraun með Fló á skinni að þessu sinni í Borgarleikhúsinu.
Þá mun koma í ljós hvort gelgjunni var um að kenna eða hvort ég sé kannski bara sneydd allri kímnigáfu?
Gerist það aftur að mér stökkvi ekki bros á Fló á skinni sem mér skilst að sé með því fyndnara, þá er þetta reyndar spurning um hvort breytingarskeiðinu geti ekki verið um að kenna?
Seint mun ég vilja viðurkenna að ég hafi engan húmor en þessi skeið geta haft hin undarlegustu áhrif á geðið
Klára þetta fyrir jól - heilkennið
25.11.2008 | 21:40
Það þarf að klára þetta fyrir jól!
Hvað er eiginlega með þetta FYRIR JÓL dæmi.
Fyrir hver jól reyni ég að sporna við þessari tilfinningu og hugleiði í góðum tíma með sjálfri mér að vera nú bara róleg þótt eitthvað þurfi að klára, þá þarf ekki að klára það fyrir 24. desember.
En svo... finn ég hvernig hægt og bítandi þetta kapp, þetta óþol byrjar að heltaka mig og ég missi út úr mér:
Við verðum að klára þetta fyrir jól og helst vel fyrir jól svo það verði ekkert stress síðustu dagana fyrir jól!!
Þetta er náttúrulega bara bull og vitleysa.
Það kemur dagur og dagar eftir þessi jól og sumt má vel bíða þar til eftir jól, eða hvað?
Guðfríður Lilja um lífið og tilveruna á ÍNN í kvöld
24.11.2008 | 12:46
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er gestur
Í nærveru sálar í kvöld.
Hún ræðir um skákina, lífið og tilveruna.
Í lok þáttarins stingur Guðfríður upp á að stjórnmálamaður úr Framsóknarflokknum komi næst.
Sé blaðagrein eða frétt skrifuð af heift og reiði getur hún varla verið mjög trúverðug.
23.11.2008 | 22:02
Reiði er allsráðandi þessa dagana vegna fjármálahruns íslenska hagkerfisins. Ásakanir ganga á víxl á sama tíma og þeir sem fá á sig megnið af þeim reyna að verjast þeim.
Á síðum dagblaðana lesum við nýjustu fréttir af atburðum þessu tengdu, greinar sem fólk hefur sent inn til blaðanna og greinar blaðamanna sem hafa það hlutverk fyrst og fremst að upplýsa almenning um gang mála með eins trúverðugum hætti og aðstæður leyfa hverju sinni.
Mig langar að segja nokkur orð um skrif blaða- og fréttamanna.
Sé grein blaðamanns gegnsýrð af heift og hatri í garð þess einstaklings eða fyrirtækis sem verið er að skrifa um hlýtur það að rýra trúverðugleika greinarinnar (fréttarinnar) til muna.
Hafi blaða/fréttamaður fyrirfram neikvætt viðhorf og jafnvel hatursfullar hugsanir í garð viðfangsefnis síns getur hann varla fjallað um það með trúverðugum hætti.
Hatrið og fyrirlitningin mun ávallt skína í gegn og lita innihaldið.
Blaða- og fréttamenn verða að reyna að gæta hlutleysis. Séu þeir af einhverjum orsökum uppfullir af reiði og hatri gagnvart þeim sem þeir eru að skrifa um eru þeir einfaldlega vanhæfir til verksins og ættu eðli málsins samkvæmt að segja sig frá því. Að öðrum kosti eiga þeir á hættu að fólk dæmi skrif þeirra ótrúverðug. Einnig er hætta á, þegar upp er staðið að skrif sem sprottin eru úr slíkum jarðvegi skaði þann fjölmiðil sem þeir starfa fyrir þá stundina.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook
Sjálfbærni, ofnotað tískuhugtak.
21.11.2008 | 23:32
Sjálfbær þróun og sjálfbærni er hugtak sem er mikið í tísku að nota um þessar mundir.
Ef merking þess er skoðuð þýðir sjálfbærni eitthvað sem þróast eða þrífst t.d. án þess að gengið sé á auðlindir. Um er að ræða eitthvað sem er það endurnýjanlegt að hægt sé að nýta það. Sem dæmi um þetta er nýting sólarorku, vindorku og fallorku.
Sjálfbærni eða sjálfbær þróun er þegar eitthvað (hvað svo sem það kann að vera) í þessum heimi er skilað eins góðu til næstu kynslóðar eins og það var þegar núverandi kynslóð tók við því.
Sumir segja að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfbær. En er hún það?
Ef svo er þá ættu framkvæmdir að vera afturkræfanlegar.
Sama má segja um að jarðhitavirkjanir. Þær eru varla sjálfbærar í þeim tilvikum sem gengið er á orkuforðann.
Megináherslan í þessari færslu er að hugtakið sjálfbær er oft notað í ýmsu samhengi án þess að maður sjái stundum hvernig það tengist því sem verið er að ræða um.
Í bloggfærslu Eyglóar Harðardóttur kemur fram að bóndi nokkur hafi sagt sem svo að sjálfbærni sé ekkert annað en heilbrigð skynsemi.
Ef eitthvað er til í þessu þá er allt eins gott að nota bara hugtökin heilbrigð skynsemi þegar viðkomandi vill lýsa einhverju sem hann telur að þróist án þess að skerðast.
Flestir, vonandi skilja hvað meint er þegar talað er um heilbrigða skynsemi.
Bloggarar undir smásjánni og hvað kallar á flest innlitin?
16.11.2008 | 22:35
Blogg og bloggarar er umræðuefni þáttarins Í nærveru sálar á ÍNN mánudaginn 17. nóvember kl. 9
Við Guðbjörg Hildur Kolbeins, fjölmiðlafræðingur ætlum að ræða saman um þennan tiltölulega nýja miðil, hverjir nota hann einna helst og hvernig.
Við spjöllum um ólíka hópa bloggara t.d. þá sem blogga um persónuleg málefni jafnvel mjög viðkvæm málefni, þá sem velja að blogga einvörðungu um stjórnmál og þá sem blogga um allt mögulegt milli himins og jarðar.
Hvers konar efni kallar á flest innlitin?
Ummæli sem innihalda níð og skítkast.
Stjórnmálamenn sem blogga og aðra sem kjósa að gera það ekki svo fátt eitt sé nefnt.
Fjölmiðlar | Breytt 17.11.2008 kl. 17:47 | Slóð | Facebook
Blogg, ein leið til að tjá viðhorf sín og skoðanir
15.11.2008 | 19:45
Það eru margir kjörnir fulltrúar hvort heldur í sveitarstjórnum eða á Alþingi sem almenningur veit í raun ekki svo mikið um, fyrir hvað þeir standa og hvað þeir eru að gera í þágu fólksins sem greiddi þeim atkvæði sitt.
Ein leið sem kjörnir fulltrúar geta farið til að brúa bilið milli þeirra og almennings er að halda úti bloggsíðu.
Sá sem heldur úti bloggsíðu hefur á þeim miðli fulla stjórn. Bloggsíðan er að því leytinu til ólík ljósvakamiðlunum og dagblöðunum. Í þeim síðarnefndu velja blaða- og fréttamenn hvaða efni skuli fjallað um, þeir ákveða við hverja skuli rætt, móta spurningarnar og matreiða síðan efnið.
Þess utan geta útvarps- og sjónvarpsstöðvar aldrei miðlað nema broti af því sem teljast mætti annars fréttnæmt og sem almenningur gæti haft gagn og gaman að vita.
Blogg og bloggsíður.
Ef áfram er horft til kjörinna fulltrúa geta þeir í gegnum skrif sín á bloggsíðum upplýst fólkið í landinu um skoðanir sínar í einstaka málum, hugmyndir, umræður og ótal aðra hluti sem tengjast starfi þeirra sem þingmenn eða sveitarstjórnarmenn.
Ákveðin tenging hefur jafnframt myndast milli bloggmiðla og annarra miðla sem dæmi að undanfarin ár hefur fjölmiðlafólk í vaxandi mæli vitnað í einstaka bloggfærslur sem þeim finnst mikilvægt að vekja athygli almennings á.
Kostir fjölmiðils eins og bloggs.
Þeir stjórnmálamenn sem hafa nýtt sér þennan fjölmiðil til að komast í samband við kjósendur og aðra landsmenn eru einmitt þeir fulltrúar sem líklegt er að fólk þekki hvað best. Nú þegar eru nokkrir þingmenn sérlega vel kynntir m.a. vegna þess að þeir halda úti bloggsíðu sem þeir skrifa reglulega á.
Leiðir til að tjá sig.
Kjörnir fulltrúar hvort heldur á þingi eða í sveitarstjórnum eru mjög misvirkir í að tjá sig opinberlega. Þessi störf eru þó eitt af þeim störfum sem beinlínis krefjast þess að menn tjái sig í ræðu og/eða riti, geri reglulega grein fyrir skoðunum sínum og viðhorfum og með hvaða hætti þeir eru vinna að málefnum í þágu lands og lýðs.
Að öðrum kosti vita kjósendur e.t.v. takmarkað um hvernig eða jafnvel hvort þeir séu að vinna að þeim málefnum sem þeir stóðu fyrir þegar þeir voru í framboði.
Ef litið er til þingmanna og varaþingmanna er það mjög einstaklingsbundið hversu oft þeir kjósa að flytja ræður. Sumum hugnast það betur að tjá sig í rituðu máli, enn aðrir tjá sig einfaldlega lítið hvort heldur í ræðu eða riti.
Að halda úti bloggsíðu er tímafrekt.
Rök sumra sem hafa kosið að nýta sér ekki bloggmiðilinn eru þau að það sé svo tímafrekt að blogga. Sumum finnst það jafnvel fyrir neðan sína virðingu að blogga. Nokkrir fordómar gagnvart bloggi og bloggurum virðast einnig leynast í samfélaginu. Raddir eins og að þeir sem blogga mikið nenni ekki að vinna eða noti vinnutímann til að blogga ofrv.
Rétt er að blogg getur verið tímafrekt sérstaklega ef fólk skrifar margar færslur á dag.
En hverjir eru kostir þess að nota bloggmiðilinn?
Ávinningurinn er fyrst og fremst sá að með bloggi kemst viðkomandi í samband við aðra á tiltölulega fljótvirkan og þægilegan hátt. Eins og fyrir kjörna fulltrúa hlýtur upplýsingamiðlun til almennings um störf þeirra að vera meðal forgangsatriða. Kjósendur og skattborgarar eiga rétt á því að vita hvað lykilaðilar í ábyrgðarstöðum eru að hugsa og gera í þágu almennings sem greiðir laun þeirra.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook
Mann langar mest til að gráta
13.11.2008 | 20:19
Tilhugsunin um hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni og komandi kynslóð kallar fram tilfinningu sorgar og trega.
Mest af öllu langar manni að setjast niður og hágráta og þá ekki hvað síst vegna þessara IceSave reikninga.
Er það sem sagt málið að vegna ákvarðanna einhverra fárra einstaklinga, svokallaðra útrásarmanna í bankamálum, sé nú íslenska þjóðin að skrapa botninn á sviði fjármála og sjálfstæðis?
Að sjálfsögðu var það ekki ætlun þessa hóps að rústa þjóð sinni.
Enginn hefur það að ásetningi að ganga frá þjóð sinni dauðri.
En þetta er sá raunveruleiki sem blasir við okkur nú og nota bene við (íslenska lýðveldið), Alþingi, kjörnir fulltrúar, kjósendur, einfaldlega stjórnskipulagið og peningamálastefnan veittum það svigrúm sem ól af sér það umhverfi sem vitleysisgangur sem þessi gat vaxið og dafnað í. Bankakerfi sem er margfalt stærra en sjálft hagkerfi landsins.
Það virkar asnalegt að segja þetta, alla vega fyrir þá sem hvergi komu nærri neinu af þessu en útá-við erum við öll sem eitt. Það hafa Íslendingar á erlendri grund fengið að finna á eigin skinni síðustu daga.
Til að skýra þetta nánar munu barnabörn mín segja þegar þau komin á fullorðinsárin eitthvað á þá leið að,
..það var í tíð ömmu sem þetta gerðist...
Framundan er að borga, borga og borga.
Jafnvel þótt gert verði eitthvert samkomulag sem lágmarkar fjárhagsþyngslin næstu árin og gera greiðslubyrðarnar viðráðanlegar eins og nú er verið að reyna að semja um, þá er stærðargráða þessar upphæða IceSave reikninganna slíkar að ómögulegt er að gera sér grein fyrir hvað þær merkja í tíma og rúmi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.11.2008 kl. 20:03 | Slóð | Facebook