Fyrirsætustörf Lalla Johns
17.5.2007 | 09:10
Hver vaktar heimilið þitt? er yfirskrift forvarnarverkefnis Öryggismiðstöðvarinnar. Andlit Lalla Johns, manns sem margsinnis hefur afplánað dóma m.a. fyrir innbrot er notað í auglýsingu til að vekja athygli á að innbrotsþjófar eru á kreiki.
Ég vil taka undir með þeim sem finnst þetta ósmekklegt því sjálfri finnst mér þetta óviðeigandi og óheppilegt. Ekki er erfitt að ímynda sér hver viðbrögðin væru ef t.d. dæmdur nauðgari birtist á auglýsingaplakati sem hefði þann tilgang að hvetja konur til að fara varlega að næturlagi eða forðast ákveðin skuggasund. Svona mætti leika sér með þessa hugmynd og niðurstaðan er alltaf sú sama, þetta er óviðeigandi og óheppilegt.
Fyrir auglýsingastofuna sem að þessu stóð hefur þessi auglýsing skotið í mark og ekki einvörðungu vegna Lalla Johns sem á henni er heldur allri aukaumfjöllun sem hún hefur fengið.
Siðareglur eru mikilvægar öllum stéttum og þar er auglýsingatéttin engin undantekning. Nú er mér ekki kunnugt hvort þessi stétt eigi vel útfærðar sigðareglur. En séu þær til þá vil ég hveta auglýsingafólk til að skoða þær reglulega og fylgja þeim.
Hvað sem þessu öllu líður þá hef ég ákveðið umburðarlyndi gagnvart ungu fólki í þessari grein. Þetta er oft metnaðarfullt og kappsamt hugsjónafólk. Þeir sem áttu hugmyndina að þessu töldu sig án efa vera með brilliant hugmynd. Þeirra markmið var örugglega göfugt og með það eitt að leiðarljósi að vara fólk við innbrotsþjófum.
En það eru takmörk fyrir öllu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook
Stjórnarviðræður: Spennan færist í vöxt
16.5.2007 | 08:59
Ég hlakka til að vakna á hverjum morgni svo spennt er ég að heyra fréttir af ríkisstjórnarviðræðunum. "Enn er ekkert öruggt í stjórnarviðræðum" les maður á síðum dagblaðanna. Oftast heyrir maður þó að líkurnar á áframhaldandi stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar séu all verulegar, já og jafnvel bara heilmiklar.
Ég met það þó svo að enn getur allt gerst í þeim efnum. Það sem mér finnst þó hljóti að vera alveg skothelt er að Sjálfstæðisflokkurinn verður í ríkisstjórn og Geir Haarde verður forsætisráðherra. En hvaða annar flokkur eða aðrir flokkar ef því er að skipta komast um borð finnst mér enn óráðið. Auðvitað eru þetta allt getgátur en það er einfaldlega gaman að velta vöngum yfir þessu.
Ég held jafnframt að það sé mjög gott að láta nokkra daga líða nú áður en tekin er endanleg ákvörðun í þessu efni. Hlutirnir eru svona að mjatlast, þjóðin að átta sig á kosningarniðurstöðunum og alþingismenn sem og aðrir að hvíla sig eftir annasama helgi. Framsóknarmenn eru líka að melta þennan ósigur og skoða hvað þeir vilja gera með hann. Þess vegna tel ég það vera af hinu góða ef ekkert verður neglt niður næstu daga. Fjölmiðlafólkið virðist þó ekki hafa mikla þolinmæði að bíða frétta. Þeir eru eins og mý á mykjuskán í kringum formennina ef þeir svo mikið sem sjást í dyragættinni. Við verðum bara að vera þolinmóð, þetta kemur allt og verður fyrir víst á einn eða annan veg.
Botnar einhver í þessu kosningarkerfi?
15.5.2007 | 09:07
Í ljós hefur komið að íslenska kosningarkerfið er stórgallað.
Í síðustu kosningum komu þessi gallar ekki í ljós en núna birtast á því alls kyns vankantar. Það eru sjálfsagt aðrir færari en ég til að reifa þessa vankanta en eins og ég sé þetta þá er ekki jöfnuður milli flokka og jöfnunarsætin deifast með furðulegum hætti. Misvægi er milli atkvæða t.d. gilda atkvæði í norðvesturkjördæmi næstum tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu.
Undarlegt hlýtur að teljast að Samfylkingin fékk 5 þingmenn í Rvk. norður en aðeins 3 í Rvk. suður en samt eru álíka margir sem greiða flokknum atkvæði í báðum þessum kjördæmum.
Líklega er bara best að landið allt verði að einu kjördæmi. Það myndi einfalda mikið og er líklegt til að koma út með sanngjarnari hætti.
Sjálfstæðisflokkurinn og VG sigurvegarar. Hvað svo?
13.5.2007 | 20:47
Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru sigurvegarar þessarar kosninga. Okkar góði og skemmtilegi Ómar hefði átt að láta kyrrt liggja og ekki að bjóða fram ef hann vildi ná ætlunarverki sínu það er að fella ríkisstjórnina. Frjálslyndir hefðu komið enn sterkar út hefði þessi klofningur milli Guðjóns og félaga og Margrétar Sverrisdóttur og hennar stuðningsmanna ekki orðið.
Svona eru nú mörg "hefði þetta og hefði hitt" fyrirbærin. Aðdragandi kosninganna og allt það ferli er allt fullt af einstökum tilviljunum og ólíkum ákvörðunum ólíkra einstaklinga á ólíkum tímum. Þjóðfélagsdýnamíkin er í algleymingin einmitt nú.
Hins vegar sé ég fyrir mér að nú getur í sjálfu sér ýmislegt gerst hvað varðar ríkisstjórnarsamstarf. Sjálfstæðisflokkurinn hefur afburðagóða samningsstöðu en ætti ekki bíða lengi að mínu mati til að ganga frá þessum málum. Það sem gerist núna er að hinir flokkarnir fara að hugsa um eigin hag og frama og er því mikil hætta á að fólk fari að mynda óformleg bandalög svona "in case" ef má orða það svo.
Hugsunin um Framsókn, VG og Samfylkinguna í eina sæng er t.d. staða sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki hrifinn af. Áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf Sjálfsstæðisflokks og Framsóknar virðist heldur ekki líklegt til að gera sig sökum slæmra útkomu Framsóknar. Ef ríkisstjórnin heldur áfram í þeirri mynd sem hún hefur verið óttast ég að tíminn framundan gæti verið mjög erfiður fyrir alla aðila. Stjórnarandstaðan og margir í samfélaginu munu ekki linna látum og árásir og átök yrðu daglegt brauð. Aðalatriðið er að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn og Geir H. Haarde verði forsætisráðherra. Nú er bara að finna bestu mögulegu samsetninguna og því fyrr því betra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.5.2007 kl. 18:30 | Slóð | Facebook
Allir á kjörstað sem vettlingi geta valdið ...já og koma svo....!
12.5.2007 | 12:58
Kosningarrétturinn er einn mikilvægasti einstaklingsréttur sem fyrirfinnst í lýðræðislegum þjóðfélögum. Ég vona svo sannarlega að fólk noti þennan rétt sinn. Þeir sem eru að stíga upp úr flensu verða bara að búa sig vel, skjóta sér inn í heitan bíl og láta aka sér upp að dyrum á kjörstað.
Það eru afar fáar afsakanir fyrir að kjósa ekki og hafa þær þá einna helst að gera með alvarleg veikindi eða fötlun. Enda þótt réttur til að greiða atkvæði sé mikilvægur hverjum og einum má ferð á kjörstað ekki ógna heilsu eða lífi eins eða neins. En allir þeir sem vettlingi geta valdið i orðsins fyllstu merkingu drífi sig nú af stað ef þeir hafa ekki þegar kosið.
Söngvakeppnin. Austur-Evrópuþjóðirnar styðja hver aðra.
10.5.2007 | 21:53
Svona fór það með undanúrslitin. Eurovision hefur ekki lengur pláss fyrir noðurlandaþjóðirnar. Austur-Evrópuþjóðirnar hafa tekið yfir. Hvorki Ísland, Noregur né Danmörk komust áfram þrátt fyrir þrusugóð lög og þá sérstaklega íslenska lagið.
Eiríkur og félagar voru frábærir, óaðfinnanlegir en það greinilega skiptir engu máli. Þetta telst varla áfall því það er svo áberandi hvaða öfl eru þarna að verki. Lagið virðist bara litlu eða jafnvel engu máli skipta.
Ég velti fyrir mér hvort við eigum að vera að taka þátt í þessari keppni yfir höfuð? Hún kostar okkur mikið fé. Auðvitað er þetta gaman en þegar maður upplifir einhvernveginn að hér er ekki um alvöru keppni að ræða þá fer allur ljóminn af þessu.
Þetta er stór dagur í sögu Sálfræðingafélags Íslands.
Eins og ég hef margskrifað um áður bæði í greinum og hér á blogginu þá var mál okkar fyrir dómstólum. Í dag var kveðinn upp dómur Sálfræðingafélaginu í hag.
Úrskurður áfrýjunarnefndar var felldur úr gildi. Úrskurðurinn varðaði ógildingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gengi til samninga við sálfræðinga um þátttöku Tryggingastofnunar í viðtalsmeðferð. Sá úrskurður stendur sem sagt óbreyttur og kveður á um að heilbrigðisráðherra skuli ganga til samninga við sálfræðinga með sama hætti og hann hefur gert við geðlækna.
Nú verður spennandi að sjá hvað hún Siv okkar vill gera. Vill hún áfrýja?
Hún er nýlega búin að gera þjónustusamning m.a.við tannlækna og eigendur og þjálfara leiðsöguhunda. En hvað vill hún gera fyrir þá sem þarfnast sálfræðiþjónustu? Nú er lag Siv
Hér er dómurinn í fylgiskjali en hann má einnnig skoða á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur
http://domstolar.is/
Blaðið SILKI...fyrir stelpur kom úr prentun í dag
8.5.2007 | 22:48
Fimm stúlkur sem eru á þriggja ára viðskiptabraut í Verzlunarskólanum hafa gefið út blað sem ber heitið Silki...fyrir stelpur. Blaðið er að sjálfsögðu bleikt á litin, pappírinn glansandi og myndirnar skýrar og litríkar.
Þetta er verkefni sem stúlkurnar gera í áfanga í rekstrarhagfræði. Verkefnið fól í sér að þær stofnuðu fyrirtæki, söfnuðu auglýsingum fyrir allt að kr. 400.000 þúsund og gáfu út þetta blað.
Efnisyfirlitið ber sannarlega vott um að þarna eru unglingsstúlkur á ferð. Sem dæmi er að finna í blaðinu umfjöllun um tísku, grein um sjálfsmynd, kynjamismun og samskipti kynjanna, viðtal við Ragnhildi Steinunni, og reynslusögu ungra stúlku. Einnig er umfjöllun um kosningarnar sem ber yfirskriftina X-? en þar eru fulltrúar flokkanna spurðir af hverju ungt fólk á að kjósa þennan flokkinn fremur en hinn osfrv.
Margt fleira áhugavert er að finna í þessu blaði. Umfjöllun og vangaveltur um stráka er hvað mest áberandi. Sem dæmi má sjá í efnisyfirlitinu yfirskriftir eins og Hvað vilja strákar og hver er þín strákategund? Eins er kafli um 20 leiðir til að elska sjálfan sig og af hverju megrun?
Eitt og annað má síðan lesa um kynlíf, hvort það sé hollt og fleira í þeim dúr.
Til hamingju með þetta Rína Alma, Elín Ösp, Magnea Jónína, Harpa Rún og Eva Sigurbjörg.
Hægt er að nálgast eintak með því að senda skeyti á harrgla@verslo.is
Ég fékk þessa skemmtilegu könnun senda frá samstarfsfélaga
8.5.2007 | 12:39
Tekur aðeins 2. mínútur að svara og niðurstaðan birtist strax.
http://xhvad.bifrost.is/ <http://xhvad.bifrost.is/>
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að skorast undan
8.5.2007 | 11:15
Sálfræðingafélag Íslands lagði spurningar fyrir alla stjónmálaflokka sem bjóða sig fram nú.
Þær voru eftirfarandi:
1. Hver er afstaða þíns flokks til þess að Tryggingarstofnun taki þátt í kostnaði sjúklinga í þjónustu sálfræðinga á eigin stofu á sama hátt og gert er um sambærilega þjónustu geðlækna?
2. Fyrir hvaða aðgerðum mun þinn flokkur beita sér innan geðheilbrigðiskerfisins til að greiða aðgang sjúklinga að þeirri þjónustu sem þeir óska eftir, komist hann til áhrifa eftir kosningar?
Í svari frá Sjálfstæðisflokknum kemur m.a. fram að flokkurinn muni leggja áherslu á fjölbreytt framboð þjónustu, gott aðgengi að upplýsingum um hana og að fagsstéttum verði ekki mismunað hvað varðar þjónustusamninga við Tryggingarstofnun ríkisins. Í svarinu segir að þess vegna telji Sjálfstæðisflokkur að samningur við sálfræðinga komi til greina. Ennfremur segir í svari frá flokknum að brýnt sé að börnum með geðræn einkenni standi til boða sérhæfð meðferð og stuðningur í heimabyggð.
Ekki hefur borist svör frá öðrum flokkum ennþá
Velferðarmálin enn á toppnum
7.5.2007 | 10:45
Dramb er versti óvinur stjórnmálamannsins
6.5.2007 | 21:28
Dramb er það persónueinkenni sem klæðir stjórnmálamenn hvað verst og auðvitað bara allt fólk og gildir þá einu í hvaða stöðu það er. En auðvitað er þetta oftast nær persónulegt mat hvers og eins og upplifanir fólks á öðrum afar mismunandi t.d. eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.
Að mínu mati eru þó allir formenn þeirra stjórnmálaflokka sem nú bjóða fram lausir við yfirlæti. Sumir þeirra eru einmitt þvert á móti, auðmjúkir og lítillátir. Formaður Sjálfstæðisflokksins fer þar fremstur enda sýna skoðanakannanir að hann er vel liðinn og flestir treysta honum hvað best fyrir forsætisráðuneytinu.
Upp á síðkastið hefur mikið verið fjallað um Jónínu Bjartmarz og viðtalið sem Helgi Seljan tók við hana. Mér finnst að Jónína hefði mátt sýna eilítið meiri yfirvegun í þessu máli. Í raun er ekkert óeðlilegt við það að fólki hafi fundist málið þess eðlis að vel gæti verið að tengsl hennar og stúlkunnar hafi haft áhrif á umsóknarferil hennar um ríkisborgararétt.
Ég hefði ráðlagt henni að taka þessu öllu með stakri ró og einfaldlega vinna með fjölmiðlum til að sýna fram á að hún hafi hvergi komið nærri þessu eins og hún hefur ætíð haldið fram.
Vinsældir bloggsíðna eru í umræðunni í dag og er tilefnið líklega að heimsóknir inn á síðu sjónvarpsþulunnar Ellýjar hafa rokið upp og slegið við síðu Sigmars sem um nokkurn tíma hefur verið á toppnum. Hvað er það sem ræður vinsældum bloggsíðna?
Ýmsu hefur verið fleygt fram til að útskýra þetta og má fyrst nefna að þeir sem trjóna á toppnum eru gjarnan þekktir einstaklingar í þjóðfélaginu, andlit sem landinn kannast við vegna þess að þau sjást iðulega á skjánum. Eins hlýtur efni bloggsins að skipta miklu máli í þessu tilliti. Sum blogg eru afar persónuleg á meðan önnur fjalla einungis um málefni, jafnvel háfræðileg málfni.
Ekki er ósennilegt að þau blogg sem eru með persónulegu ívafi laði frekar lesendur að einungis vegna þess að fólk er almennt séð dálítið forvitið í eðli sínu um hag annarra. Þau blogg sem fjalla um viðkvæm tilfinningarleg málefni s.s. alvarleg veikindi virðast einnig laða lesendur að. Tvennt kemur þar til, annars vegar forvitni og hins vegar vill fólk gjarnan sýna stuðning.
Bloggsíða Ellýjar er sögð vera með erótísku ívafi. Það fellur greinilega mörgum vel enda er þessi þáttur talinn vera sá sem hefur átt hvað mestan þátt í þessum fjölmörgum heimsóknum inn á síðunna hennar.
Hvað sem þessu líður þá er þetta skemmtileg sálfræðileg pæling og enn skemmtilegra væri ef einhver sæi sér fært að gera á þessu könnun.
Er Samfylkingin að daðra við Sjálfstæðisflokkinn?
3.5.2007 | 16:29
Ég er ekki frá því að mér finnist að Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin sé að undirbúa jarðveginn fyrir möguleika á ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst hún hafa að verið að gefa ýmis merki um að slíkt samstarf gæti verið þeim þóknanlegt eða alla vega skárra en að sitja hjá enn eitt kjörtímabil.
Þetta er If you can´t beat them, join them syndromið.
Reyndar aðskilur viðhorf og skoðanir til ESB þessa tvo flokka, alla vega eins og sakir standa og jú einnig ýmislegt fleira. Þrátt fyrir málefnalegan ágreining er ég ekki frá því að Samfylkingin sé að teygja sig í áttina að Sjálfstæðisflokknum með því að sýna mildileg viðbrögð gagnvart einstaka máli/málum sem Sjálfstæðisflokkurinn (og Framsókn) hefur verið að vinna að nú undanfarið.
Þetta var talsvert áberandi þegar formenn flokkanna voru spurðir um viðbrögð hvað viðkom mögulegu varnarsamstarf Íslendinga og Norðmanna. Viðbrögð Ingibjargar voru ljúf, henni fannst eðlilegt og raunhæft að skoða þetta mál með Normönnum á meðan Steingrímur J. var eins og snúið roð í h
.
Vinstri grænir eru ekki í neinu tilhugalífi með Sjálfstæðisflokknum. Steingrímur fórnar ekki hugsjóninni jafnvel þótt það þýði að hann verði alla ævina i stjórnarandstöðu. Hann kann ekki að leika neina diplómatíska leiki sem er jú sannarlega virðingarvert en kannski ekki alltaf skynsamlegt. Steingrímur bregst oft við á tilfinningarlegum nótum og leiðir hugann ekkert að því hvort það kunni að skemma fyrir VG síðar meir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2007 kl. 10:16 | Slóð | Facebook
Hvað er sýslumaðurinn á Akureyri að hugsa?
1.5.2007 | 14:51
Sýslumaðurinn á Akureyri veitir leyfi fyrir sinubrunaíkveikju en kemur svo í sjónarvarpsviðtal og lýsir sig andvígan sinubruna.
Er ég að misskilja eitthvað í sambandi við þetta?
Var ekki viðtal í hádegisfréttum við sýslumanninn þar sem hann lýsti því hversu skaðlegt það væri að anda þessum reyk að sér en samt gefur hann leyfi fyrir þessu?
Stundum hefur verið vísað til sinubrennslu sem náttúruhamfara en sinubrennsla er mikið oftar hamfarir af mannavöldum vegna þess að einhver kveikir í. Flokka má sinubrennslu því frekar sem glæp gegn náttúrunni. Í þessu tilviki fyrir norðan veitti sýslumaðurinn leyfi fyrir íkveikjunni. Í mörgum tilvikum er kveikt í sinu í leyfisleysi. Sá sem það gerir hefur ekki þurft að sæta neinni ábyrgð. Er það ekki alveg ljóst nú orðið að sinubrennsla er skaðleg að öllu leyti?
Sumir bændur þráast enn við og fullyrða að sinubrennsla sé til góðs. Það virðist veita þeim svo mikla gleði að sjá grænt strá vaxa upp af sviðinni jörðinni. En við brunann tapast mikilvæg næringarefni úr sverðinum og mikið af lífrænu efni tapast einnig. Það er augljóst að fæða fyrir milljónir smárra lífvera fer forgörðum þegar sinueldar brenna, orka tapast úr vistkerfinu og er ekki lengur tiltæk lífríkinu. Með sinubruna má því gera ráð fyrir að gróðurfarið breytist, því að trjágróður þrýfst ekki þar sem brennt er. Mengun af reyknum er auk þess stórhættuleg öndunarfærunum
Vonandi verður það eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar í haust að mæla fyrir frumvarpi til laga um að leyfisveitingar fyrir sinubruna verði með öllu óheimilar.
Biðlistavandinn á Bugl úr sögunni 2008
1.5.2007 | 10:15
Nú glittir í að biðlistarvandinn á Bugl kunni að verða úr sögunni en árið 2008 er stefnt að því að taka í notkun nýja byggingu göngudeildar fyrir Bugl.
Því er ekki að neita að biðlistarvandinn hefur verið þrálátur í heilbrigðiskerfinu og á það ekki einvörðungu við um Bugl. Mest hefur verið rætt um biðlista stofnana sem þjónusta börn og unglinga og einnig biðlista hjúkrunarheimila. Klassískur biðlistavandi er á stöðum eins og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, hjá Umsjónarfélagi einhverfra sem lengi hefur barist fyrir úrbótum fyrir meðlimi sína.
Fram til þessa hafa aðgerðir til bóta ekki skilað sér sem skyldi enda sést það best á því að biðlistarnir hafa haldið áfram að lengjast. Stofnanir hafa verið settar á laggirnar til að létta á biðlistum annarra stofnana. Gott dæmi um það er Miðstöð heilsuverndar barna sem taka átti kúfinn af Bugl. Nú eru biðlistar á báðum stöðum, eins árs bið til að komast að á Bugl og a.m.k. hálfs árs bið hjá Miðstöð heilsuverndar barna.
Úr þessu er brýnt að bæta og á allra næstu árum er fyrirséð að stórbreytinga er að vænta sem mun vonandi leiða til þess að biðlistarvandinn verði endanlega úr sögunni. Fyrsti áfangi nýrrar göngudeildar verður tekinn í notkun á næsta ári. Þær lausnir sem liggja fyrir á biðlistarvandanum eru því ekki neinar skammtímalausnir heldur varanlegar umbætur á langvarandi og þrálátu vandamáli.
Jón Sigurðsson í Kastljósinu í gær
29.4.2007 | 20:15
Ég reyndi árangurslaust að ná í gegn inn í Kastljósþáttinn til að spyrja Jón Sigurðsson um afstöðu hans til þátttöku Tryggingarstofnunar í niðurgreiðslu á sálfræðiviðtölum hjá sálfræðingum á sama hátt og gert er nú um sambærilega þjónustu geðlækna.
Ég var tvisvar komin á bið en svo slitnaði að mér skilst vegna álags.
Þetta hefði verið tilvalið tækifæri að heyra beint frá Jóni hvað honum finnst um þetta mál. Stefna Framsóknarflokksins hefur nefnilega verið sú að ráða sálfræðingi á heilsugæslustöðvarnar en ekki að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga.
Fjölmiðlar | Breytt 30.4.2007 kl. 08:29 | Slóð | Facebook
Yfirboð Samfylkingarinnar
29.4.2007 | 15:22
Það er tannverndin og skólabækurnar svo fátt eitt sé nefnt. Mun Samfylkingin raunverulega geta staðið við þetta allt ef til kæmi? Þessum yfirboðum fylgir hvorki hvað þetta kostar og hvar Samfylkingin hyggst taka fé fyrir þessu. Þess vegna finnst mér þetta afar ótrúverðugt og ef eitthvað er þá fráhrindandi væri ég óákveðinn kjósandi.
Meirihluti presta vill ekki opna kirkjuna fyrir samkynhneigðum
27.4.2007 | 10:39
Það liggur nú nokkuð ljóst fyrir að meirihluti prestastéttarinnar getur ekki hugsað sér að gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband. Mér þykir skrýtið að það voru aðeins 22 sem greiddu atkvæði með tillögunni en áður höfðu 42 lagt þetta til og staðfest það með undirskrift sinni.
Hvað varð um þessa 20 þegar kom að því greiða atkvæði?
Sumir voru víst ekki viðstaddir sem er jú alltaf ákveðin leið út ef aðstæður eru erfiðar.
Þá er hægt að segja já, en ég var ekki á staðnum, þurfti að fara annað osfrv.
Einhverjir hljóta að hafa hreinlega skipt um skoðun eða þurft að láta undan þrýstingi félaga sinna. ´
Eftir stendur hópur samkynhneigðra og fjölskyldur þeirra sem áfram er meinað að sitja við sama borð og þeir sem skilgreina sig gagnkynhneigða.
Ég heyri hvað biskup segir þ.e. að hefðbundinni skilgreiningu hjónabands, sem sáttmála karls og konu megi ekki raska. Þetta eru kenningar og hefðir sem vissulega má ekki gera lítið úr enda byggjum við mikið á þeim en sumar hverjar eru orðnar afar úreltar og ekki lengur í neinum takt við samfélagið.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook