Gagnrýnendur hafa örlög listamanna í hendi sér
19.7.2007 | 10:33
Grein myndlistarkonu í Mbl. í gær vakti athygli mína en í henni bregst hún við rýni gagnrýnanda um sýningu sína. Sú gagnrýni hafði áður birst í Mbl. Myndlistarkonan upplifir að gagnrýnandinn hafi ekki skoðað og túlkað verk hennar af innsæi heldur eins og hún sjálf segir valtað yfir sýninguna.
Nú er ég sjálf ekki listamaður af neinu tagi en ég hef oft leitt hugann að því hvernig það sé að hafa unnið að list sinni af natni og tilfinningu og eiga síðan velgengni sína undir skoðun og áliti einhvers gagnrýnanda. Neikvæð gagnrýni getur jafnvel leitt til þess að ferill listamannsins fari í slíkt uppnám að hann nái sér ekki á strik aftur svo ekki sé minnst á hvaða áhrif slík gagnrýni hefur á sjálfstraustið.
Ég hef tekið eftir því að margir treysta á gagnrýnendur. Sjái þeir að einhver sýning, hvort heldur listaverkasýning eða leikhús/kvikmyndasýning fær neikvæða gagnrýni þá fara þeir einfaldlega ekki á sýninguna. Ég sjálf hef orðið uppvís að því að velja og hafna allt eftir því hvernig dómur gagnrýnanda hljóðaði. Ef gagnrýnendur eru samdóma í áliti sínu t.d. á kvíkmynd þá finnst mér í raun skiljanlegt að fólk taki mark á því. En þegar um er að ræða t.d. listaverkasýningu hljóta önnur lögmál að gilda. Stíll, gildismat og upplifanir fólks eru það ólíkar að það sem einum þykir e.t.v. ömurlegt gæti öðrum þótt áhugavert eða fallegt.
Þá spyr ég, hafa gagnrýnendur kannski of mikið vald í íslensku samfélagi? Ákveða þeir helst til of mikið hvað hinn almenni borgari kýs að velja og hafna?
Það hlýtur að skapa heilmikla togstreitu og jafnvel kvíða hjá listamönnum og finna að gagnrýnendur hafi örlög listamannaferils þeirra í hendi sér í svo miklum mæli sem raun ber vitni.
Grein listakonunnar ber því að fagna og myndi ég alveg vilja sjá fleiri svona skrif. Þá get ég sem hugsanlegur listunnandi einnig lagt mat á rýni gagnrýnendanna. Hvaða gagnrýnendur eru það sem mæta á sýningu með opinn huga og skoða og túlka af innsæi og hverjir eru það sem ja, dæma út frá útlitinu einu. Því oftar sem maður fær tækifæri til að meta vandvirkni og hæfileika gagnrýnenda að rýna í verk annarra því meiri líkur eru á að maður finni hvort hægt sé að treysta rýni hans.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook
Aldrei að gefast upp
18.7.2007 | 20:02
Þetta er einmitt eina hugsunin sem gildir þegar börnin okkar og börn almennt séð eru annars vegar. Aldrei að gefast upp.
Kastljósið fjallaði aftur um hina ungu móður, Dagbjörtu sem var neydd til að fara frá BNA og skilja barn sitt eftir í umsjón föðurömmu barnsins. Eins og fram kom í þættinum þarf hún að drífa sig út og ganga í málið sem er flókið og sennilega afar tímafrekt svo ekki séð minnst á kostnaðarsamt. Aðalatriðið er að missa aldrei vonina.
Dagbjört þarfnast stuðnings sem flestra og ef ég þekki íslensku þjóðina rétt þá hjálpum við henni sem best við getum. Tilhugsunin um að málinu ljúki nú og með þessum hætti er óásættanleg að mínu mati.
Kastljósið á hrós skilið fyrir þessa umfjöllun.
Málið með Lúkas, var það bara múgsefjun eftir allt saman?
17.7.2007 | 20:34
Síðan fer sagan af stað með hjálp fjölmiðla og auðvitað trúir fólk því sem það les. Hverjum dettur í hug að þegar hópur vitna hefur tjáð sig með svo sannfærandi hætti að hér sé bara um rógburð og rangfærslur að ræða, ómeðvitaða eða meðvitaða. Örugglega ekki meðvitaða.
Ég vil fekar trúa því að að tilfinningarleg skynjun og upplifun hinna meintu vitna hafi illa brugðist og að fólkið taldi sig sjá eitthvað sem síðan reyndist vera eitthvað allt annað.
Ég trúði þessu sjálf, svo mikið er víst. Reyndar hugsaði ég ekkert út í það að hræ hundsins var ekki til staðar þegar haldnar voru landsfrægar minningarvökur um hann. Einhvern veginn fannst mér það bara hljóta að vera, í það minnsta að enginn vafi léki á því sem átti að hafa átt sér stað.
Aðeins meira um Stellu
12.7.2007 | 22:49
Nú er ég að ljúka lestri síðustu bókarinnar, Morðið í Rockville. Það er eitt sem ég hef tekið eftir í bókunum sem vakið hefur athygli mína og það er að þegar Stella fer austur á Litla Hraun að heimsækja skjólstæðinga sína þá ekur hún ætíð Hellisheiðina. Meira segja í þessari síðustu bók sem gefin er út 2006 ekur Stella Hellisheiðina austur á Eyrarbakka. Af hverju fer hún ekki Þrengslin??
Veit höfundurinn ekki að það er mikið styttra að aka Þrengslin frá Reykjavik austur á Eyrarbakka?
Enn er ég á því að höfundurinn sé kvenkyns og alls ekki neinn pólitíkus, hvorki fyrrverandi né núverandi.
Vona að fleiri bækur eftir Stellu Blómkvist komi út fljótlega
Hver er Stella Blómkvist?
10.7.2007 | 10:34
Ég hef verið að lesa bækurnar hennar Stellu Blómkvist í sumarfríinu en þær fjalla um hina kjörkuðu Stellu sem er lögfræðingur í Reykjavík. Stella tekur að sér erfið mál og linnir ekki látum fyrr en hún hefur fundið lausnina.
Stella Blómkvist er dulnefni og mér skilst að ekki sé vitað hver rithöfundurinn er. Bækurnar finnst mér alveg frábærar, stíllinn stuttur og hnitmiðaður og talsmáti Stellu sem oftar en ekki er býsna grófur er jafnframt oft mjög fyndinn. Ég tók eftir því hjá sjálfri mér að eftir að hafa lesið nokkrar bækur eftir Stellu var ég farin að taka upp talsmátan hennar, orðin all kjaftfor og farin að blóta í tíma og ótíma. Svona er nú hægt að vera áhrifagjarn á miðjum aldri.
Efni bókanna gengur út á að morð hefur verið framið, morð í Alþingishúsinu, morð í Hæstarétti, morð í Stjórnarráðinu og morð í sjónvarpinu, já meira að segja í beinni útsendingu.
Eftir að hafa lesið bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar finnst mér eiginlega Stella skemmtilegri. Ég er þó all upptekin af því að spekúlera í hver höfundurinn er. Þetta er að mínu viti klárlega kona frekar en karl þó konan á bókasafninu sem ég hef rætt þetta við segir að það séu getgátur um að þetta sé nefnilega karlhöfundur. Enginn karl gæti skrifað svona um konu, það er ég alveg viss um.
Enda þótt ég sé ekkert sérlega vel að mér í bókmenntaheiminum þá dettur mér í hug hvort þetta geti verið hún Guðný Halldórsdóttir Laxness? Gæti hún ekki skrifað einmitt svona texta?
Alla vega mæli ég með þessum bókum.
Er uppbygging ökunáms ófullnægjandi?
9.7.2007 | 17:21
Hvort röng uppbygging ökunáms sé orsök glannaaksturs unglinga er umfjöllun í grein sem birtist um helgina. Sú hugsun er jafnframt sett fram að kostur fylgir að lækka ökuleyfisaldurinn því þá séu börnin ekki eins mótuð og taki því betur leiðbeiningum.
Það kann að vera að margt megi betur fara í uppbyggingu og skipulagi ökunáms hér á Íslandi sem ég tel þó að hafi tekið stórlegum framförum undanfarin ár. Uppbygging ökunáms er mismunandi eftir löndum og tekur greinahöfundur dæmi um hvernig þessu er háttað í einum af fylkjum Bandaríkjanna. Þar fá ungmenni ökuprófið fyrr en þurfa að uppfylla nokkur grundvallarskilyrði áður en þau fá full réttindi.
Er umferðaröryggi á Íslandi líkt því sem það gerist best annars staðar?
Þessari spurningu treysti ég mér ekki til að svara. Það þurfa þeir að gera sem gert hafa samanburðarrannsóknir á þessu sviði.
Mín tilfinning er þó sú að við eigum langt í land með að vera samkeppnishæf hvað þessu viðkemur. Að sjálfsögðu má finna þjóðir og svæði þar sem umferðarmenning er vafasöm. Einhverjir myndu kvarta yfir frekjugangi ökumanna í New York eða áhættuakstri sumra í París osfrv. Sjálf hef ég reynslu af því að aka í vestur Evrópu og á þeim tíma sem ég bjó á austurströnd Bandaríkjanna minnist ég þess ekki að hafa upplifað ókurteisi og tillitsleysi í umferðinni eða að ég hafi nokkurn tímann verið í stórkostlegri hættu. Slíka reynslu hef ég hins vegar margsinnis upplifað hér á landi.
Ég er því þeirra skoðunar að ofsaakstur sé ekki ökunáminu um að kenna eða uppbyggingu þess. Vissulega er mikilvægt að leita stöðugt leiða til að bæta ökunámið eins og allt annað sem skiptir máli. Vandinn hér felst í umferðarmenningunni og viðhorfi ökumanna til annarra vegfarenda. Einhvers staðar á leiðinni höfum við misst tökin á umferðaruppeldinu. Afleiðingin er agaleysi.
Þess vegna tel ég það hæpið að leggja það til að við tökum upp í heild sinni sambærilegt kerfi og gengur vel annars staðar í heiminum. Slíkt kerfi þarf ekki endilega að verða árangursríkt hér. Suma þætti mætti skoða með það fyrir augum að taka upp í einhverri mynd. Dæmi um einn slíkan þátt er að ungum ökumönnum leyfist ekki að hafa jafnaldra sína í bílnum aðra en fjölskyldumeðlimi fyrr en þeir hafa náð 21 árs aldri.
Vandinn við þetta er sá að það gæti reynst erfitt að framfylgja þessari reglu.
Með það í huga að umferðarmenningin hér á landi er allt að því ruddaleg í samanburði við víða annars staðar og að 17 ára ungmenni eiga talsvert í land með að ná fullum vitsmuna- og félagsþroska stend ég fastar en ella á þeirri skoðun að færa lágmarksaldurinn upp í 18 ár.
Það munar um hvert ár. Með þeirri aðgerð mun lífum verða bjargað.
Af misjöfnu þrífast börnin best, eða hvað?
5.7.2007 | 12:46
Í Blaðinu 4. júlí er rætt við Birgittu Jónsdóttur Klasen en hún titlar sig náttúrulækni og sálfræðing. Reyndar skilst mér að Birgitta sé ekki löggildur sálfræðingur og þar að leiðandi má hún ekki titla sig sálfræðing hér á landi. En það er nú ekki efni þessa bloggs heldur það að hún segir það mikilvægt að skipta á rúmum barna einu sinni í viku til að tryggja að hreinlæti sé eins og best verður á kosið. Sérstaklega sé mikilvægt að skipta á koddum og hreinsa þá, já meira að segja þurrhreinsa þá á einhverra mánaða fresti. Ástæðan er sú að sögn Birgittu að í koddum má finna tíu til fimmtán mismunandi sveppategundir og eftir ársnotkun hefur hann safnað í sig 100 lítrum af svita.
Nú spyr ég, hvað varð um þetta sem maður heyrði svo oft hérna áður fyrr:
....af misjöfnu þrífast börnin best...... Á það ekki við lengur?
Er ekki of langt gengið í öllu þessu hreinlætisæði. Hvað með ofnæmi og ofnæmisviðbrögð sem þvottaefni, mýkingarefni, sápur og mörg önnur hreinsiefni geta framkallað. Varla er það skárra að vera með kláða, roða og bólgna húð vegna þess að fatnaður og annað tau sem við umgöngumst er stútfullt af sterkum efnum.
Farsælast er að finna milliveg í þessu sem öðru. Ég persónulega ætla bara að halda áfram að skipta á rúmunum á tveggja vikna fresti og koddinn má alveg fara í þvottavélina þess vegna á tveggja ára fresti.
Kolefnisjafna bíla.. hvaða rugl er nú það?
3.7.2007 | 09:07
Mér þykir auglýsingabransinn ganga býsna langt í að að reyna að laða að sér kaupendur ef þeir ætla að nota svona rökleysu.
Vilji menn í alvörunni vera umhverfisvænir í samgöngum ættu þeir að fjárfesta í sparneytari bílum eða velja umhverfisvænni leiðir til að koma sér á milli staða svo sem að reyna að hjóla oftar eða ganga ef það er möguleiki.
Ef Kolviður á ekki að gengisfalla í hugum fólks verður stjórn þess að leitast við að fá svona auglýsingar stöðvaðar.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook
Eru íslenskir foreldrar kærulausir?
2.7.2007 | 17:17
Svo segir í fréttum í Mbl frá föstudeginum sl., alla vega að kæruleysi sé ríkt í íslenskum foreldrum. Þetta megi t.d. sjá í sundlaugum. Þar séu margir foreldrar allt of afslappaðir (kærulausir) og leyfi ungum börnum sínum að leika sér í lauginni án þess að vera gætt af fullorðnum einstaklingi.
Kannski er þessi afslöppun eða kæruleysi innbyggt í þjóðarsálinni. Við erum mörg hver, alla vega hér í Reykjavík, alin upp með annan fótinn í sundi og það virðist vera svo víðs fjarri að slys geti átt sér stað jafnvel í lauginni þar sem hún er grynnst. En allur er varinn góður og engum langar að ætla að verða vitur eftir á þegar slysin hafa átt sér stað. Þess vegna verðum við að vera mátulega stressuð og hreinlega aldrei líta af ungum börnum í sundlauginni eða pottunum hvort sem í sundlaugum eða heima í garði.
Á sömu síðu segir að foreldrar geti orðið skaðabótaskyldir gagnvart barni sínu sem hefur orðið fyrir varanlegum skaða í sundlaugaslysum vegna þess að þeir hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína. Á þetta þá ekki líka við ef sýnt þykir að foreldrar hafi sýnt vanrækslu á ýmsum öðrum sviðum sem hugsanlega hefur leitt til þess að barnið hafi borið andlegan eða líkamlegan skaða af? Til dæmis ef barn verður fyrir bíl eða meiðist. Nú ef barn hefur verið skilið eitt eftir eftirlitslaust á heimili og svona mætti eflaust lengi telja.
Kannski það verði algengt í framtíðinni að börn fari upp til hópa að lögsækja foreldra sína fyrir eitt og annað sem betur hefði mátt fara í aðbúnaði þeirra á uppeldisárunum.
Ég ætla að bíða
26.6.2007 | 22:12
Ég ætla að bíða er yfirskrift auglýsingar Kaupþings og Samfó (samstarf um forvarnir) sem ég rak augun í í sjónvarpsdagskrá vikunnar.
Ég er ekki alveg sátt við þessa auglýsingu en hún beinist að unglingum sem ætla að bíða.
Bíða eftir hverju spyr ég? Jú, ef betur er að gáð eru skilboðin þau að hópur unglinga vill bíða, bíða þar til þau verða eldri eða hafa náð tilskildum aldri til að nota áfengi. Ég er þó að geta mér þetta til enda segir ekki beint í auglýsingunni hvað átt er við nema þá að ástæðan fyrir því, að ungmenni sem ætla að bíða vilja gera það m.a. vegna þess að:
Þau eru nokkuð forvitin um framtíðina og vilja ekki missa af henni
Þau langar til að vita hvernig þau virka í þessum heimi.
Þau eru ástfangin
Það er nógu flókið að vera unglingur.
Fleiri ástæður fyrir því að þau ætla að bíða eru tilteknar í auglýsingunni.
Ég vil gera athugasemdir við það viðhorf sem liggur að baki þessarar auglýsingar sem og annarra af sama meiði. Þau skilaboð sem þær fela í sér eru villandi og óréttlátar í garð þeirra sem hvorki nú né síðar á ævinni hafa hug á að neyta áfengis né annarra vímugjafa ef því er að skipta.
Athugasemdir mínar hafa að gera með það að með auglýsingu sem þessari er ekki verið að taka tillit til þeirra fjölmörgu ungmenna sem hvorki sem unglingar, né fullorðnir hafa hug á að nota áfengi. Hópur ungmenna er sem sagt ekki að bíða eftir einu eða neinu hvað þessu viðkemur.
Ég vil fullyrða eftir áralanga vinnu með unglingum og foreldrum þeirra að vímugjafar, þótt löglegir séu, eru ekki endilega á óska,- eða biðlista allra unglinga eins og virðist gefið í skyn í auglýsingu sem þessari. Í allri umræðu um forvarnir finnst mér það vilja gleymast að til eru þau ungmenni sem hvorki nú né síðar, sjálfráða eða löggildir áfengiskaupendur hafa það á sinn stefnuskrá að bragða eða nota áfengi sem hluta af sínum lífstíl. Forvarnarumræðan ætti einmitt ekki að gleyma tilvist þessara krakka heldur mikið frekar að minnast á þá og hvetja aðra unglinga til að taka þá sér til fyrirmyndar.
Þegar svona auglýsingar eru birtar mætti halda að möguleikarnir í stöðunni væru þessir:
1. Að vera barn (ósjálfráða unglingur) sem drekkur.
2. Að vera sjálfráða unglingur sem byrjar að drekka.
3. Að vera ungmenni sem náð hefur 20 ára aldri og ákveður að drekka þar sem hann hefur náð tilskildum aldri til að kaupa áfengi.
Skilaboð þessarar auglýsingar virka þannig á mig að gengið sé út frá því að unglingar almennt séð vilji drekka áfengi og ætli að gera það þegar þau hafa aldur til. Vissulega er það mikilvægt að bíða. Allir þeir sem vinna með börnum og unglingum geta verið sammála um að því meiri þroska sem unglingurinn hefur öðlast þegar hann neytir fyrst áfengis því betra. Þessi skilaboð eru góð og gild en það má ekki stilla þeim upp með þeim hætti að sá möguleiki að DREKKA ALDREI sé ekki meðal valkosta.
Ég myndi því vilja sjá þessar annars ágætu auglýsingar taka smá breytingum og þá með þeim hætti að bætt verði í þær að sumir unglingar hafa tekið þá ákvörðun að neyta ekki áfengis hvorki nú né síðar á ævinni. Ef þau hyggjast taka ákvörðun um annað muni sú ákvörðun bíða betri tíma þ.e. þar til þau hafa náð fullorðinsaldri.
Fjölmiðlar | Breytt 27.6.2007 kl. 10:22 | Slóð | Facebook
Ganga gegn slysum er frábært framtak.
26.6.2007 | 10:27
Ég fagna framtaki hjúkrunarfræðinga með því að boða til göngu, göngu gegn slysum.
Allt hjálpar til að vekja athygli á þeim afleiðingum sem hraðakstur og annars konar glannaakstur getur leitt af sér. Eins og margsinnis hefur verið rætt að undanförnu þá eru sumrin sá tími sem alvarlegum umferðarslysum hefur jafnvel fjölgað. Þetta er reyndin þrátt fyrir að einmitt á þessum árstíma er færðin hvað best og skyggni hvað mest. En þá gefa líka sumir allt í botni.
Yfir hásumarið er ég sjálf mikið út á vegum, fer í bústað eins og gengur og gerist. Í vikulegum ferðum fjölskyldunnar bregst það ekki að við verðum vör við glæfralegan framúrakstur. Einhver sem er svo mikið að flýta sér að hann er tilbúinn að taka talsverða og oft mikla áhættu með því að taka fram úr einum, tveimur og stundum fleiri bílum. Ég hugsa iðulega með sjálfri mér að jafnvel þótt við sjálf ökum afar varlega og eru stöðugt á varðbergi með alla skynjara í gangi þá samt sem áður gætum við allt eins orðið fórnarlömb áhættuökumanns ef við erum stödd á röngum stað á röngum tíma. Í þessum tilvikum ræður oft tilviljun för og hrein hundaheppni eða hundaóheppni ef því er að skipta.
Þannig er þessu farið með marga sem lent hafa í umferðarslysum. Þrátt fyrir að þeir sjálfir séu til fyrirmyndar í umferðinni, þá hafa þeir verið svo óheppnir að mæta eða verða á vegi ökumanns sem tók áhættu. Sum þessara fórnalamba hafa sloppið vel, aðrir eru lemstraðir fyrir lífsstíð og enn aðrir eru ekki lengur í tölu lifenda.
Svona frumskógarlögmál viljum við ekki búa við hér og þess vegna ber að fagna öllu framtaki sem hjálpar að vekja fólk til meðvitundar um hversu hættulegt það er að aka of hratt, aka ekki samkvæmt aðstæður og taka áhættur.
Pilates æfingakerfið lofar góðu.
21.6.2007 | 15:34
Pilates æfingakerfið er spennandi valkostur fyrir þá sem vilja bæta heilsuna og styrkja líkamann.
Ég hef nýlega byrjað á slíku námskeiði og komu þessar æfingar mér skemmtilega á óvart. Fyrir þá sem stunda hefðbundna líkamshreyfingu eins og fara á líkamsræktarstöðvar og/eða skokk og/eða göngu þá eru Pilates góð viðbót og gefur einnig vissa tilbreytingu. Það er ekki langt síðan ég vissi ekki hvað Pilates var, ég hafði hreinlega aldrei heyrt þetta nefnt. Eins og segir á heimsíðu þeirra sem bjóða upp á einkatíma og námskeið í þessum æfingum þá bætir Pilates æfingakerfið:
Orku og vellíðan
Sveigjanleika, styrk og jafnvægi
Líkamsstöðu
Verki í baki, háls og öxlum
Gigtarverki
Ónæmiskerfið
Líklega þarfnast þetta æfingarkerfi betri kynningar. Ég mæli eindregið með að fólk sem hefur áhuga á almennu heilbrigði kynni sér þetta.
Björgum lífum, hækkum ökuleyfisaldurinn
18.6.2007 | 20:30
Undanfarin ár hafa ökumenn á aldrinum 17 til 18 ára átt hlut að mörgum umferðarslysum vegna glæfralegs akturslags. Í kjölfar hrinu alvarlegra umferðarslysa, jafnvel banaslysa, hefjast gjarnan miklar umræður í samfélaginu um með hvaða hætti hægt sé að sporna við hraða- og ofsaakstri ungra ökumanna.Í nóvember s.l. mælti ég fyrir frumvarpi til laga um hækkun ökuleyfisaldurs úr 17 ára í 18 ára. Meginrökin fyrir frumvarpinu og sem reifuð voru í meðfylgjandi greinagerð voru þau að lungað af 17 ára unglingum hefur ekki öðlast tilskilinn þroska til að stjórna ökutæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir í umferðinni.
Vitað er að einstaklingar taka út stóran hluta líkamlegs og andlegs þroska fyrstu 20 ár ævi sinnar. Hversu hratt viðkomandi fer í gegnum þroskaferilinn er bæði einstaklings- og kynjabundi , sem og aðstæðubundið. Enda þótt líkamlegur þroski ungmenna sé hvað sýnilegastur á þessum árum, tekur vitsmuna- og félagsþroski unglingsins stöðugum breytingum og munar mikið um hvert ár því nær sem dregur fullorðinsárunum. Ef litið er nánar á þennan aldur er það almenn vitneskja að meðal einkenna unglingsáranna sé ákveðin tilhneiging til áhættuhegðunar, áhrifagirni og hvatvísi.
Sökum ungs aldurs hafa unglingar ekki öðlast nema takmarkaða almenna lífsreynslu né hafa þeir þann vitsmuna- og félagsþroska til að geta lagt raunhæft mat á flókin ytri áreiti og aðstæður. Upplifun þeirra og skynjun á hættum í umhverfi sínu er oftast nær frábrugðin skynjun og upplifun fullþroska einstaklings. Önnur algeng einkenni þessa aldurskeiðs er óttaleysi, unglingar skynja oft ekki mikilvægi þess að vera varkárir né mikilvægi þess að hugsa gaumgæfilega áður en framkvæmt er. Sökum þroska- og reynsluleysis sjá margir á þessu aldurskeiði ekki tengsl orsakar og afleiðingar nógu skýrt.
Út frá sjónarmiðum þroskasálfræðinnar er því auðvelt að leiða líkum að því að 18 ára unglingar séu mun hæfari til að taka ábyrgð á sér og sínu lífi en þegar þeir voru 17 ára. Hvert ár á þessu tímaskeiði getur þannig skipt sköpum hvað varðar nauðsynlegan þroska til að geta tekið þá lágmarksábyrgð sem stjórnun ökutækis í umferðinni krefst. Þetta hafa margir ökukennarar staðfest.
Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að aldursmörkin yrðu hækkuð í þrepum, um einn mánuð á tveggja mánaða fresti. Ekki er talið eðlilegt að unglingur sem verður 17 ára daginn eftir gildistöku laganna þyrfti að bíða í heilt ár eftir að fá ökuskírteini. Að sama skapi yrði líka slæmt ef ökukennsla og sú sérþekking sem henni fylgir félli niður í nærri heilt ár. Markmið laganna, næðu þau fram að ganga, myndi með þessu nást á tæpum tveimur árum.
Skemmst er frá því að segja að samþykkt var að vísa frumvarpinu til nefndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2007 kl. 15:39 | Slóð | Facebook
Leikurinn var æði
17.6.2007 | 23:42
Þessi leikur var meiriháttar, ég er úrvinda, raddlaus, rennblaut af svita en alsæl.
Stemningin var frábær í höllinni, en það mátti engu muna þrátt fyrir þokkalega gott forskot á tímabili. Svona er þetta, rétt eins og lífið sjálft, stundum ups og stundum downs en oftar ups ef hugsunin er jákvæð. Góður dagur í alla staði!!
Ísland - Serbía, landsleikurinn í kvöld
17.6.2007 | 14:18
Nú er leikurinn í kvöld og ég er að fara að horfa á hann. Spennandi, engin spurning. Ég hef aldrei áður farið á landsleik svo þetta verður ný upplifun. Nú er bara að sjá hvort ég muni haga mér prúðmannlega. Ég óttast nefnilega að ég kunni allt eins að missa stjórn á mér ef spennan nær einhverju hámarki. Ég, þessi svona venjulega dagfarsprúða miðaldra kona á nefnilega til aðra britingarmynd þegar ég verð spennt. Sú birtingarmynd er þannig að ég byrja að að hoppa upp og niður, sveifla höndunum og gefa frá mér einkennileg hljóð, hróp og köll.
En starfa míns vegna þarf ég auðvitað að sýna yfirvegun og fágun. Ekki má gleyma því að ég kann að vera fyrirmynd einhverra. Þess vegna er ekki gott að það spyrjist út að sálfræðingurinn hún Kolbrún hafi verið snarvitlaus á leiknum.
Auglýsingar sem ætlaðar eru börnum þarfnast skoðunar og takmörkunar
16.6.2007 | 11:10
Ég er sammála því að setja þurfi reglur er varðar markaðssókn gagnvart börnum. Slíkar reglur þurfa að fela í sér ákveðnar takmarkanir en ekki síður þarf að skoða vandlega hvað verið er að auglýsa og hvaða áhrif auglýsingin kann að hafa á börnin.
Markmið markaðsaðila er að gera vöruna það heillandi að barnið biður foreldra sína að kaupa hana handa sér. Ákefð markaðsaðila að selja vöruna getur verið slík að þeir geta hæglega misst sjónar af hvar hin siðferðislegu mörk liggja í þessu sambandi. Þess vegna þarf samfélagið að setja reglur og ramma, sem fyrst og fremst er ætlað til að vernda börnin.
Ef bera á markaðssetningu sem beint er að börnum hér á Íslandi saman við sambærilega markaðssetningu t.d. í Bandaríkjunum þá eru við enn sem stendur í þokkalegum málum. Í því fylki í Bandríkjunum sem ég bjó í um fimm ára skeið virtist mér sem markaðsaðilar væru tilbúnir að ganga býsna langt til að hafa áhrif á hugsanagang og tilfinningarlíf barnanna. Sjónvarpið var sá miðill sem hvað mest er notaður í því skyni. Mest var auglýst að morgni dags þegar barnaefnið var á dagskrá og þá hvað mest um helgar þegar stór hluti barna í Ameríku situr fyrir framan sjónavarpið jafnvel klukkutímum saman. Mér eru þessar auglýsingar minnisstæðar því ungviðið á mínu heimili varð eins og gefur að skilja upptendrað sem leiddi til þess að það var suðað, beðið og grátbeðið um að fá eitt og annað sem stöðugt var verið að auglýsa. Það sem var hvað mest auglýst amk á þessum árum voru leikföng, barbiedúkkur og leikfangabílar sem og önnur leikföng. Einnig sælgæti og morgunkorn svo fátt eitt sé nefnt.
Hér á Íslandi hafa skotið upp fremur vafasamar auglýsingar gagnvart börnum. Sem dæmi má nefna að verið er að auglýsa matvöru sem sögð er vera holl og góð og því tilvalin að hafa í nestispakkanum í skólann. Þegar betur er að gáð er jafnvel um að ræða vöru sem er beinlínis óholl. Hver man ekki eftir jógúrt sem sérstaklega var auglýst holl fyrir börnin en þegar farið var að skoða innihaldið innihélt hún sykurmagn sem samsvaraði 5 sykurmolum. Eflaust má finna fleiri svona dæmi og mörg svæsnari en þetta.
Það er sannarlega tími fyrir okkur hér á Íslandi og staldra nú við og skoða hvar við erum stödd á þessum vettvangi. Markaðssetning gagnvart börnum hefur aukist og mun halda áfram að gera það stjórnlaust ef ekki verða sett mörk. Með hvaða hætti hún fer fram og hvað það er sem verið er að auglýsa til að hafa áhrif á börnin þarf að skoða með gagnrýnu auga.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook
Ungmenni gera sér ungadráp að leik
13.6.2007 | 08:33
Spurningunni hvort sumir séu einfaldlega vondir í eðli sínu, komi hreinlega í heiminn með hvatir til að pynta svara ég hiklaust með neii. Slík nálgun er að mínu mati afar varhugaverð og vita gagnslaus. Hins vegar er ljóst að í tilvikum þessara ungmenna hefur eitthvað farið úrskeiðis á þeirra stuttu ævi. Hvað nákvæmlega er ekki gott að segja nema eftir að hafa skoðað málþeirra og fjölskyldna þeirra.
Siðblinda
Þegar fregnir berast af andfélagslegri hegðan sem þessari koma mörg önnur hugtök upp í hugann, hugtök eins og siðblinda, að viðkomandi hefi ekki fengið lærdóm í grundvallaratriðum siðfræðinnar. Birtingarmyndin gæti verið sú að einstaklingurinn eigi erfitt með að setja sig í spor annarra, finni ekki til mikillar samkenndar með öðrum og standi jafnvel nokkuð á sama um hvernig öðrum líður. Að meiða og deyða dýr sér til gamans er klárlega æfing í ofbeldi sem ekki nokkur leið er að segja til um hvar endar. Verði þessum aðilum ekki hjálpað eru þeir að mínu mati í áhættuhópi þeirra sem stunda að jafnaði andfélagslega hegðun.Múgsefjun
Einnig hvarflar það að manni hvort sá sem þetta gerir sé svo óendanlega áhrifagjarn og þarna hafi átt sér stað múgsefjun, hópþrýstingur. Afleiðingar hópþrýstings geta verið alvarlegar. Mikilvægt er að börnum sé snemma kennt að varast hann. Hvort orsakir verknaðar sem þessa sé einhlít eða megi rekja til margra þátta er eins og fyrr segir ekki hægt að vita fyrr en mál þessara einstaklinga er skoðað.Hvað er hópurinn stór? Einnig vitum við ekki hvort hér sé um örfáa einstaklinga að ræða sem endurtaka þennan verknað eða hvort hópurinn telji fleiri.
Finna þessa einstaklinga. Sé einstaklingurinn undir 18 ára er það hlutverk viðkomandi barnaverndarnefndar að skoða málið og bjóða upp á viðeigandi úrræð. Sé hann orðinn 18 ára tekur refsikerfið við og þá er brýnt að viðkomandi hafi aðgang að fagfólki til að fá þá meðferð sem hann þarfnast. Ég hvet alla þá sem vita um verknað sem þennan og hverjir gerendur eru að láta vita, tilkynna málið til viðkomandi barnaverndarnefndar/foreldra. Öðruvísi er ekki hægt að hjálpa þessu fólki.
Foreldrar barna sem viðhafa andfélagslega hegðan sem þessa þurfa án efa á áfallahjálp að halda. Svona málum þarf að fylgja eftir til langs tíma þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að meðferð hafi skilað sér. Þessir einstaklingar gætu síðar meir liðið mikið fyrir að hafa tekið þátt í svona óhuggnaði. Hver vill líta til bernskunnar og rifja upp að hafa pyntað og murkað lífið úr dýrum.
Tökum sameiginlega ábyrgð. Fyrir okkur sem heyrum þessi ótíðindi vil ég bara segja að við skulum fara varlega í dæma, foreldrana. Það skilar engu. Það sem skilar er að ná til þessa fólks, greina vandann og veita viðeigandi aðstoð. Eins þarf að hlúa að þeim sem koma að slíkum verknaði. Þeir kunna að þarfnast áfallahjálpar. Fyrst og fremst er þetta ólýsanlega sorglegt, fyrir þá sem þetta gera, fjölskyldur þeirra og okkur sem samfélagsþegna.
Fagna nyrri rikisstjorn hedan fra Bulgariu
23.5.2007 | 19:17
Mikid ljomandi list mer vel a nyja rikisstjorn og radherrahopinn. Valinn einstaklingur i hverju saeti.
That eru god fjogur ar framundan fyrir okkur Islendinga.
kvedja til bloggvina hedan fra Golden Sands
Nú eru hjólin farin að snúast í rétta átt. Nái þessir tveir flokkar að mynda ríkisstjórnarmeirihluta sem ég tel að séu miklar líkur á mun þjóðin verða í góðum málum. Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hlaut að ljúka nú. Það var vilji kjósenda. Að hundsa svo skýr skilaboð frá kjósendum hefði verið há ávísun á erfiðleika ekki bara fyrir Framsókn heldur einnig síðar meir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Enda þótt einstaka stefnumál séu ólík milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þá er munurinn ekki slíkur að ekki sé hægt að mætast á miðri leið eða finna aðrar viðeigandi lausnir hverju sinni. Að sjálfsögðu mun koma upp ágreiningur endrum og sinnum enda eru engir tveir flokkar ávalt sammála ekki frekar en þeir sem voru nú að láta af stjórnarsamstarfi. Hér er á ferðinni samstarf sem vel getur gengið ef menn vilja láta það ganga. Hindranir, verði þær í vegi, eru vel yfirstíganlegar þegar þessir tveir flokkar eru annars vegar. Þetta er í það minnsta mín trú.
Framundan eru ágæt fjögur ár. Sjórnarandstaðan mun verða öflug en stjórnin ekki síður enda góður meirihluti að baki henni. Þjóðin mun öll græða á þessari nýju blöndu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook