Áratugur síðan Díana prinsessa fórst í bílslysi

Þessi atburður er án efa mörgum minnisstæður og eins og einhver sagði geta örugglega margir staðsett sig á þeirri stundu sem fregnir um andlát prinsessunnar bárust þeim.
Sama má segja um fregnir af morðinu á John Lennon. Alla vega gleymi ég því aldrei hvar, nákvæmlega,  ég var stödd þegar ég frétti það.

Díana var heimsbyggðinni vel kunn því hún hafði hleypt almenningi inn í líf sitt; gleði, sorgir, væntingar og drauma. Það er mín skoðun að þess vegna var eins og við, þótt fjarlæg og ókunnug vorum, upplifðum andlát hennas sem værum við náskyldir ættingjar.

Sumum þótti nóg um viðbrögðin og nefndu að Díana væri nú ekki eina unga konan sem hefði farist á vofveiflegan hátt.  Munurinn er auðvitað sá að Díana var fræg/þekkt, hafði verið gift Karli Bretaprins og verið árum saman vinsælt fjölmiðlaefni.

Auðvitað er hennar dauðsfall ekkert sorglegra en önnur ótímabær dauðsföll sérstaklega ungs fólks. Við hvert slíkt sitja ávalt einhverjir eftir niðurbrotnir þótt opinberri athygli sé ekki fyrir að fara né einu sinn óskað.


Meira um fjármagnstekjuskatt; kjarninn er að reikna sér endurgjald

Að reikna sér endurgjald er kjarni þessa máls.
Vísað er í færsluna hér á undan og er verið að tala um þá sem lifa á fjármagnstekjum sínum einvörðungu, að þeir reikni sér eitthvert endurgjald og hluti af skattgreiðslu þeirra renni til þess sveitarfélgs sem þeir búa í og meðtaka þjónustu frá eins og hver annar sem aflar einhverra tekna gerir.

Hversu stór hluti hef ég ekki myndað mér skoðun á en að þeir greiði eitthvað til samneyslunnar í viðkomandi sveitarfélagi. 

Sveitarfélög eru vissulega misvel stödd, sum ágætlega, önnur ekki eins og vel og kemur margt til. Sum eru vel rekin á meðan önnur eru rekin með tapi.
Ef íbúar telja að sveitarstjórn sé ekki að standa sig sem skyldi í að halda utan um efnahag sveitarfélagsins í samræmi við efni og aðstæður á hverjum tíma skal ekki veita henni brautargengi í næstu sveitarstjórnarkosningum.  Út á það ganga lýðræðislegar sveitarstjórnarkosningar.

Sá sem er tekjulítill eða hefur engar tekjur getur eðli málsins samkvæmt ekki greitt  mikið til samneyslunnar. Þeir sem hafa viðunandi og/eða háar tekjur bera þar að leiðandi þá ábyrgð.
Út á þetta gengur samfélag.

Markmiðið er að hafa samneysluna sem markvissasta og helst takmarkaða við grunnmálaflokka eins og t.d. mennta, heilbrigðis,- og tryggingarkerfið. 

Svona er að búa í samfélagi og það viljum við, ekki satt?
Sumum farnast vel, öðrum ekki eins vel og enn öðrum illa.  Orsakir fyrir velgengni eru margar og flóknar og verða ekki reifaðar hér í þessari færslu.


Fjármagnstekjuskattur: Er ekk réttlátt að allir sem afla tekna hvaða nöfnum sem þær kunna að nefnast greiði til sveitarfélagsins?

Öllum sem hafa tekjur ber að greiða af þeim til samfélagsins líka þeir sem hafa fjármagnstekjur.
Fjármagnstekjur eru tekjur þótt sveiflukenndar kunni að vera á stundum og tap eigi sér stað.
Þeir sem hafa af því ágóða/hagnað að versla með peningana sína ber að greiða af hagnaðinum til sveitarfélagsins sem þeir búa í alveg eins og hinn almenni launþegi og einnig sjálfstæður atvinnurekandi/verktaki gerir með því að reikna sér laun.

Það kostar að lifa í samfélagi.  Á könnu sveitarfélaga eins og ríkisins eru ótal margir þættir sem greiða þarf  fyrir svo sem skólamál og fjölmörg önnur nærþjónusta sem allir í sveitarfélaginu njóta góðs af til jafns hvaðan svo sem þeir hafa sínar tekjur.

Þeir sem lifa að mestu eða alfarið á tekjum sem eru tilkomnar með því að kaupa og selja eigin verðbréf ættu þar að leiðandi að reikna sér endurgjald.
Þetta er einfaldlega réttlætismál og ætti í rauninni að vera hafið yfir flokkspólitíska umræðu.


Snilld að það skuli vera frítt í strætó fyrir framhaldsskólanema

Þetta er snilldarhugmynd og strax orðið ljóst að aðsóknin í vagnanna er meiri.  Eftir að ný borgarstjórn undir forystu Vilhjálms Þ. tók við finnst mér sem eitt og annað sé nú í betra horfi í höfuðborginni en oft áður. Það er a.m.k. verið að reyna með ákveðnum aðgerðum að koma málum sem ekki hafa verið í góðu horfi í betra horf.

Það er þetta með strætisvagnana, fríkortin og hvernig verið er að leita markvissra lausna varðandi óspektir og ölvun í miðbænum um helgar.
Eins finnst mér, alla vega í því hverfi sem ég bý í,  að ég sjái oftar starfsmenn frá hreinsunardeild borgarinnar.  Á skokkinu í gær sá ég mann mála yfir krot í undirgöngum sem ég gjarnan hleyp í gegnum. Það hef ég aldrei séð fyrir sem er jú líklegast bara tilviljun.

Reykjavíkurlistinn gerði margt gott og ekki skal vanmeta það.  Þessi borgarstjórn hefur samt tekið skrefið lengra í mörgum málum.
Vonandi er þetta bara byrjunin því verkefnin eru sannarlega mörg.


Bruni á Stuðlum, bílvelta fyrir austan, óspektir í miðbænum og umferð

Það eru bæði gleði,- og sorgartíðindi sem berast okkur á þessum fallega sunnudegi.

Mér var illa brugðið við að frétta af brunanum á Stuðlum, mínum gamla vinnustað en frá stofnun Stuðla og fram til lok árs 1999 var ég þar yfirsálfræðingur.
Mikil mildi að engin skyldi slasast og giftursamleg björgun stúlknanna tveggja stórkostleg.
En það eru líka sorgartíðindi.
Leitin af Þjóðverjunum er hætt og áætlunarbíll veltur á Fljótsdalshéraði þar sem a.m.k. 15 manns slasast.

Ég er ekki frá því að það sé búin að vera einhver spenna í loftinu þessa helgi.
Ástandið í miðbænum var óvenju slæmt og umferð um Suðurlandsveginn nú um kvöldmatarleytið einnig óvenju þétt svona þegar nær dró höfuðborginni. 

Sumri er að halla og haustfiðringurinn e.t.v. að grípa um sig.


Kraftaverk ef Þjóðverjarnir eru á lífi. Við höldum í vonina

Kraftaverk gerast.  Nú er bara að liggja á bæn og vona að mennirnir séu á lífi. Veðrið er enþá milt og ekki útilokað að þeir hafi getað haldið á sér hita og varast ofþornun.

Skoða þarf mál ferðamanna almennt séð sem hingað koma að sumri til.

Það farast alltaf einhverjir útlendir ferðamenn hér á landi á hverju ári. Útlendir ferðamenn gera sér oft takmarkaða grein fyrir öllum hættum sem leynast á okkar fallega landi. Þeir sjá hella, jökla og hálendið fyrir sér í hillingum en þekkja ekki hætturnar jafnvel þótt þeir séu margir hverjir ágætlega búnir til leiðangursins. En það eru gil, gljúfur, sprungur og svelgir sem hinn almenni ferðamaður kann alls ekki alltaf að varast.

Sem gestgjafar verðum við að vara fólkið við og kenna þeim hvar eru hættusvæði og hvernig skuli bera sig að á ferðum sem þessum.  Brýnast af öllu er að koma upp eftirlitskerfi þannig að vitað er hverjir eru á ferðinni,  hvert ferðinni er heitið og hvenær stefnt er að því að koma til byggða.
Best er ef þetta verður með svipuðum hætti og loftferðareftirlitið. Með því móti er hægt að bregðast við strax ef fólk ekki skilar sér.

Eins og málum er háttað nú þurfa björgunarsveitir oft að leita á stórum svæðum.  Leitin er þess vegna í upphafi oft ómarkviss meðan verið er að finna einhverjar vísbendingar.  Þegar svona lítið er vitað um staðsetningar eða ferðir fólks eru björgunarsveitarmenn jafnvel að leggja sig í hættu svo ekki sé minnst á kostnaðinn.

Þetta væri mikið auðveldara ef menn og staðsetningar væru kortlagðar fyrirfram.
Vonandi verður gert eitthvað í þessu hið bráðasta. Hvað og hvernig liggur kannski ekki ljóst að svo komnu máli.


Lóðarleigutakar frístundabyggða réttlausir

Í umsögn Talsmanns neytenda kemur fram að hann telji að ekki sé nægilega tekið tillit til hagsmuna og réttinda lóðarleigutaka í drögum að lagafrumvarpi um réttarstöðu í frístundabyggðum.

Þessari athugasemd ber að fagna.
Nú hefur Landssamband sumarhúsaeigenda einnig fengið frumvarpið til umsagnar en hvort þeir gerðu sambærilega athugasemd, veit ég ekki.

Vonandi verður tekið mark á umsögn Talsmanns neytenda því þarna er um mikið réttindarmál að ræða.

All margir lóðarleigutakar hafa tjáð sig um þessi mál síðustu misseri og þá ekki hvað síst þeir sem hafa í mörg ár ef ekki áratugi verið að koma sér upp frístundahúsi og ræktun. Við eigendaskipti hafa sumir þeirra verið tilneyddir til að yfirgefa frístundaumhverfi sitt vegna þess að hinir nýju eigendur hafa hækkað leiguna svo um munar eða farið fram á að leigutaki kaupi lóðina langt yfir markaðsverði.  Leigutaki hefur þess utan ekki haft neinn forleigurétt þannig að ef hann ekki samþykkir tilboðið bíður hans fátt annað en að taka pokann sinn og yfirgefa frístundaumhverfi sitt, sumarbústað og ræktun.

Forgangsréttur leigutaka að áframhaldandi leigu verður að vera bundin í lög.


Lögreglan fór um í flokkum í miðbænum í kvöld.

Lögreglan gekk um í miðbæinn í kvöld og fóru saman í hópum. Þeir voru vel sýnilegir í gulu og svörtröndóttu vestunum sínum. Happy

Mikið var gaman að sjá þetta. Ég þori að veðja að flestir ef ekki allir gestir miðbæjarins í dag og í nótt verða til mikillar fyrirmyndar  enda þora þeir ekki annað þar sem lögreglan okkar er mætt á svæðið og gefur ekkert eftir ef einhver ætlar að abbast upp á einhvern annan.

Það er um að gera fyrir lögregluna að vera nógu margir saman sérstaklega á álagskvöldum eins og nú í kvöld og í nótt. Starf lögreglunnar er krefjandi og því fylgir andlegt álag.  Í starfi sem þessu má gera því skóna að auðvelt sé að brenna út. Ef lögreglamaður/kona  lendir oft á alvarlegum átökum eða aðstæðum þar sem hann stendur frammi fyrir ógn eða ofbeldishegðun setur það sitt mark á tilfinningarlífið og hefur áhrif á starfsánægjuna. Þess vegna má ekki gleyma að hlúa að þeim vösku mönnum og konum sem gefa sig þessu mikilvæga starfi.


Af hverju heitir þetta FIT kostnaður?

Það gjald sem bankar innheimta hjá viðskiptavinum sínum fyrir hina og þessa þjónustuna svo sem ef viskiptavinur vill taka út af reikningi sínum kallast FIT kostnaður. 
Ég verð nú að játa vanþekkingu mína og spyr, fyrir hvað stendur FIT?

Eiginlega ætti frekar að kalla þetta okurgjald eða siðlaus gjaldtaka.
Mín upplifun sem viðskiptavinur eins af stærstu bönkum landsins er sú að þetta gjald nær yfir æ fleiri þjónustuviðvik eftir því sem árin hafa liðið. Fari maður í útibúin held ég að tekið sé gjald fyrir nánast allt nema að leggja inn.

Einhvern veginn hafa bankarnir náð að færa sig æ meira upp á skaftið í þessum efnum án þess að við höfum tekið svo mikið eftir því. 
Eigum við ekki að mótmæla þessu?


Opnunartíminn ekki vandamálið

Að stytta opnunartíma skemmtistaðanna í miðbænum leysir ekki þann vanda sem okkur er tíðrætt um þessa dagana. Ef það yrði niðurstaðan myndi ég telja að vandamálið myndi fremur aukast.  Eftir lokun myndu þeir gestir sem ekki væru tilbúnir að fara heim eða ekki komast heim því erfitt gæti reynst að fá leigubíla einfaldlega fylla götur miðbæjarins. Því meiri fjöldi af fólki í misjöfnu ástandi því meiri líkur á neikvæðum uppákomum sér í lagi ef hvergi bólar á lögreglu.  Að stytta opnunartímann er þess vegna ekki lausnin.

Meginlausnin felst í sýnileika laganna varða. Nýr lögreglustjóri lagði á það áherslu þegar hann tók við embætti að auka bæri sýnileika lögreglu.  Það virðist ekki hafa orðið. Þvert á móti hefur það komið fram að lögreglan röltir helst ekki um bæinn að næturlagi um helgar.

Þeir sem eru mest til trafala eru ekki börn og unglingar heldur fullorðið fólk sem höndlar illa áfengi og er jafnvel í vímuefnaneyslu að auki. Meðan verið er að ná tökum á þessum vanda þarf að efla löggæslu. Ef til vill er hægt síðar meir að draga úr henni aftur en núna eins og ástandið hefur verið í sumar er þetta sú leið sem líklegust er til árangurs.

Írskir, Danskir, Franskir- og Fiskidagar og svo Ástarvika á Bolungarvík

Landsbyggðin hefur svo sannarlega tekið við sér undanfarin ár hvað varðar hugmyndir að skemmtilegum uppákomum og hátíðum.  Æ fleiri bæjarfélög bjóða landsmönnum til veislu og hver og ein einkennist af ákveðnu þema.

Þótt ég hafi sjálf, ekki enn, lagt leið mína á svona Daga þá gleður það að fá fréttir frá þessum stöðum og fylgjast með úr fjarlægð hversu vel þetta tekst og hvað fólkið er glatt með þetta.

Í dag eru Fiskidagar á Dalvík og á morgun hefst Ástarvikan á Bolungarvík.
Ástarvikan á Bolungarvík er alger snilld. Hugmyndin er frumleg og vel til þess fallin að þjappa fólkinu á staðnum saman og þá ekki bara pörunum í bókstaflegri merkingu heldur einnig hinum sem bera hag staðarins fyrir brjósti sér. Fjölgun í bæjarfélaginu varðar nefnilega alla.
Góða skemmtun Dalvíkingar og Bolvíkingar. 


Eru fullorðnir þolendur eineltis bara krónískir vælukjóar?

Ég er nú ekki alveg nógu sátt við það viðhorf sem hún nafna mín Kolbrún Bergþórsdóttir birtir í pistli sínum í Blaðinu í dag sem hún nefnir Allir eru vondir við mig.

Ég óttast mjög að einmitt þetta viðhorf sé þess eðlis að viðhalda fordómum í garð fullorðinna sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/ofbeldi á vinnustað eða annars staðar í samfélaginu. 
Það kann vel að vera að hluti þeirra sem upplýsa slík mál séu bara eins og Kolbrún segir, leiðindaskjóður sem enginn nennir að umgangast. 
Hvert og eitt mál af þessum toga hlýtur að vera einstakt og þarfnast skoðunar samkvæmt því.  Ef við hins vegar ætlum að bregðast við með þessum hætti er hætta á að þolendur veigri sér enn frekar við að koma út úr skápnum með sín mál.  Einelti fullorðinna er falið vandarmál því þolendur þora ekki að opinbera það. Stærsta hindrunin er skömmin og óttinn við að verða dæmdur sem vandræðagemill og letingi eða annað því mun verra.

Margir óttast að ef málið kemst upp á yfirborðið munu möguleikar þeirra til að vera ráðnir annars staðar stórminnka.  Atvinnurekendur munu hugsa sem svo,  já  þessi lenti nú víst í einhverju veseni á síðasta vinnustað......best að taka enga sjensa með að ráða hann ..... kannski var hann bara alveg ómögulegur, osfrv.

Eins mikið eins og mér finnst hún nafna mín skemmtileg og frábær manneskja þá held ég að skrifin hennar í Blaðinu í dag séu ekki til að hjálpa í þessu málefni.


Samtök fullorðinna þolenda eineltis

Er ekki tímabært að stofna samtök fullorðinna þolenda eineltis?

Í gær birti ég færslu á bloggsíðu minni um einelti á vinnustað sem bar yfirskriftina:
Einelti á vinnustað er vísbending um stjórnunarvanda.

Ég hef fengið talsverð viðbrögð við þessari færslu sem aðallega hafa borist mér  í tölvupósti og með símtölum. 
Þessi viðbrögð staðfesta tvennt í mínum huga:
1. Einelti á sér engin landamæri
2. Einelti er ekki einskorðað við ákveðinn aldurshóp. Það lifir og þrífst meðal fullorðinna og á sér stað á vinnustöðum, í háskólum, í félagasamtökum og í tómstundahópum af ýmsu tagi.

Ýmis samtök hafa verið stofnuð í kringum stærri sem smærri hópa fólks sem telur sig hafa verið beitt einhverskonar órétti eða orðið fyrir ofbeldi. Í ljósi nýlegrar umræðu um einelti á vinnustað tel ég tímabært að stofnuð verði samtök fullorðinna þolenda eineltis. Þessi samtök gætu þjónað margs konar hlutverki. Meginhlutverkið gæti verið að standa vörð um hagsmuni þeirra einstaklinga sem hafa orðið fyrir einelti á fullorðinsárum hvort sem er á vinnustað eða annars staðar í samfélaginu. Hlutverk slíkra samtaka gæti einnig verið að mynda hóp fagteymis sem fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir gætu kallað til sé þörf á aðstoð við að uppræta eineltismál.


Einelti á vinnustað vísbending um stjórnunarvanda

Fjölmiðlar hafa fjallað um einelti sem kraumað hefur í einhvern tíma á einum þekktum vinnustað hér í borg.

Birtingarmyndir eineltis á vinnustað eru margar.  Í hnotskurn hefur þetta fyrirbæri að gera með það að einn eða fleiri taka upp á því að baktala, rægja, vera með tilefnislausar aðfinnslu og neikvæðar athugasemdir í garð einhvers eins aðila. Orsakir eru margslungnar, engan veginn einhlítar og eflaust mismunandi eftir eðli og aðstæðum sérhvers vinnustaðar. 

Kjarni málsins er að sá aðili sem fyrir þessu verður, skynjar oftar en ekki lítið samhengi í árásunum. Hann spyr sjálfan sig: Hvað hef ég gert?  Hvað er eiginlega með mig?  Hvernig á ég að vera til þess að þetta ástand hverfi?
Allt kemur fyrir en ekki, ástandið bara versnar.

Ef um hóp er að ræða sem hefur krunkað sig saman undir forystu eins eða tveggja aðila þá fer, alla vega til að byrja með, undirróðurinn og baktjaldarmakkið yfirleitt fram án vitundar þess sem verið er að tala um. Hópurinn magnast og reynir að fá fleiri í lið með sér.  Vegna þess að um hóp er að ræða (3 eða fleiri) er auðvelt fyrir hvern og einn í hópnum að leita réttlætingar. Illskan gagnvart þessum eina aðila sem oft heltekur hópinn getur gengið svo langt að samúð og samkennd þverr með öllu og andúð gagnvart þessum sem eineltið beinist að verður algert.  Í kjölfarið kemur hundsun. Þolandinn upplifir sig ósýnilegan og finnur að hópnum stendur slétt á sama um hvernig honum reiðir af.

Hverjir eru gerendur?
Þeir sem eru frumkvöðlar að einelti leitast við að safna saman í kringum sig fólki til að taka með sér þátt í að að ráðast að einhverjum einu sem þeir telja einhverra hluta vegna ómögulegan eða telja sig eiga harma að hefna. Gerendur eru gjarnan fólk sem hefur lágt sjálfsmat, er óánægt með sig sem manneskjur og/eða sem fagaðila, gengur illa í sínu einkalífi og hefur jafnvel sjálft verið fórnarlamb eineltis.
Í sumum tilvikum er gerandinn aðeins einn. Það stoppar hann þó ekki í að vera með eilífar, neikvæðar aðfinnslur, skítkast og niðurlægjandi athugasemdir sem skjótast út leynt og ljóst við möguleg og ómöguleg tækifæri. Markmiðið er að brjóta þann sem þetta beinist að niður, helst svo rækilega að hann/hún hættir störfum.

Hvar er yfirmaðurinn?
Ef svona ástand sprettur upp og fær að þrífast um einhvern tíma er mál að skoða stjórnunarhætti vinnustaðarins. Ef yfirmaður/menn eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skynja ástandið eða neita meðvitað eða ómeðvitað að viðurkenna vandann þá er ekki von til þess að mál sem þetta leysist.

Dæmi eru um að yfirmenn falli í þá gryfju að kalla þann sem fyrir þessu verður á teppið og fullyrða að þar sem svo margir eru óánægðir með hann/hana, hlýtur vandinn að liggja hjá viðkomandi.
Því sé e.t.v. best að í stað þess að fara að takast á við reiða hópinn,  þá sé ráð að þolandinn hætti störfum. Gildir þá einu hversu góður fagmaður viðkomandi er, eða nokkuð annað, ef því er að skipta.

Mörg mál af þessu tagi lykta einmitt með þessum hætti.  Fyrir þann sem fer úr starfi á þessum forsendum bíður fátt annað en eymd. Sjálfstraustið er í molum.  Viðkomandi er fullur efasemdar um sjálfan sig rétt eins og manneskja sem hefur verið beitt langvarandi heimilisofbeldi. 
Einkennin er flest þau sömu.  

Ofangreind lýsing er ein af mörgum birtingarmyndum eineltis á vinnustað og er einungis til umhugsunar. Vinnustaðareineltið sem fjölmiðlar hafa fjallað um þessa helgi er samkvæmt nýjustu fréttum loks í farvegi.
Spyrja má í því sambandi: Hvað þurfti til? 
Hugsanlegt svar: Opinbera umræðu eða hvað?

Hvað margir hafa þjáðst og hverjar eru afleiðingarnar liggur hins vegar ekki fyrir í þessu tilviki frekar en mörgum öðrum sambærilegum.


18-23 ára fá ekki að tjalda í Akureyrarbæ um verslunarmannahelgina

Í ljósi reynslunnar hafa Akureyringar ákveðið að gera breytingar á hverjir fá að tjalda á útihátið þeirra Ein með öllu. Þessar breytingar má sjá á heimasíðu þeirra. Það kveður nokkuð við annan tón hjá mótshöldurum í ár en oft áður.  Af 14 útihátíðum leggur rúmlega helmingur sérstaklega áherslu á að um fjölskylduhátíð sé að ræða. Tvær höfða til ákveðinnar afþreyingar s.s. golfmót og ein til þeirra sem hafa gaman af harmóníkuspili. Af þessu má sjá að tónninn er að breytast. Mótshaldarar sækjast eftir því að fá fjölskylduna í heild sinni en ekki einvörðungu unglingana þó einstaka horfi einna helst til þess að fá sem flesta inn á svæðið. Tónninn í umsjónarmönnum tjaldsvæða hefur einnig breyst. Þeir hafa ekki farið varhluta af ofbeldinu sem sérstaklega fylgir eiturlyfjaneyslu sé hún fyrir hendi á staðnum.

Mótshaldarar hljóta að vera ábyrgir fyrir því sem gerist á hátíðinni sem þeir standa fyrir. Foreldrar eru ábyrgir fyrir að veita börnum undir 18 ára fararleyfi án eftirlits. Fjöldi sjálfboðaliða og grasrótarsamtaka geta aldrei komið alveg í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað ef neysla áfengis- og vímuefna er á staðnum. Þeir eru heldur ekki ábyrgðaraðilar. Óeigingjarn starf þeirra er að mínu viti ekki nægjanlega þakkað eða virt. Þetta kemur skýrast fram í þeirri frétt sem lesa mátti í dag að allir sjálfboðaliðar verða sem dæmi að greiða fullt verð inn á Þjóðhátíð í Eyjum þótt erindi þeirra sé einvörðungu að sinna hjálparstarfi.


Lækka áfengisverð - áfengisaldur óbreyttur

Í kvöld horfði ég á þá Ágúst og Svavar í Kastljósinu en þeir ræddu áfengisverð og áfengisaldur af miklum móð. Báðir höfðu eitt og annað til síns máls. Mínar vangaveltur byggjast á áralangri vinnu með unglinga. Meginkjarni þessara vangaveltna er að lækka beri áfengisverðið en skynsamlegt sé að halda áfengisaldrinum óbreyttum.  Lækkun á áfengisverði ógnar ekki forvörnum, með öðrum orðum þá tel ég lágt áfengisverð ógni ekki forvörnum að sama skapi og ef við lækkum áfengisaldurinn.

Málið er viðkvæmt og finna má haldbær rök sem styðja hvort heldur að lækka beri áfengisaldurinn til jafns við sjálfræðisaldurinn og einnig að honum skuli haldið óbreyttum.  Áfengisaldurinn er 20 ár en 18 ára verður ungmenni sjálfráða, fær kosningarrétt, má þá ganga í hjónaband og fær flest þau réttindi sem fullorðinn einstaklingur hlýtur.   Þrátt fyrir svo háan áfengisaldur hefja þau ungmenni sem það ætla sér drykkju allt að 5-6 árum áður en þeir fá lögformlegt leyfi til að kaupa áfengi. Stór hluti þessa hóps byrjar að drekka á fyrsta ári í framhaldsskóla. Neyslan er þá jafnvel með vitneskju og jafnvel samþykki sumra foreldra.  Kjarni míns máls er sá að ef við lækkum aldurinn óttast ég að þessi hópur muni einfaldlega stækka. Samþykkið yrði rýmkað og  upphafsmörk neyslunnar færist sennilega enn neðar. 

Áfengisverðið.
Áhrif lækkunar á áfengisverði ef til kemur tel ég að hafi mun minni, jafnvel óverulegt áhrif á drykkkjumynstur eða venjur unglinganna. Einnig er ég ekki viss um að það muni leiða til þess að fullorðnir drekki eitthvað meira.  Þeir sem ætla sér að drekka hvort heldur sem ungir eða fullorðnir útvega sér áfengi með einum eða öðrum hætti og gildir þá einu hvort léttvínsflaskan er 500 krónur dýrari eða ódýrari en það verð sem nú gildir. Verðlag flöskunnar mun ekki ráða úrslitum um hvort drukkin verður ein flaska eða 4 ef því er að skipta. 

Hafa skal það jafnframt í huga að í nútímasamfélagi hafa flestir unglingar talsverð fjárráð. Sumir vinna með skólanum og margir fá einnig umtalsvert fé hjá foreldrum sínum. Verðið á áfengi er ekki hindrun ætli viðkomandi að drekka á annað borð.  Lækkun áfengisverðs, verði það að veruleika og áhrif þar að lútandi er ekki hægt að leggja að jöfnu við lækkun áfengisaldurs.  

Það sem einnig mælir með lækkun áfengisverðs er að Ísland verði samkeppnishæft í Evrópu. Ferðamenn og ferðaþjónustan mun njóta góðs af. Ferðamenn sem margir hverjir eru aldir upp við allt aðra vínmenningu en við Íslendingar og þeir sem það vilja munu geta leyft sér að nota áfengi með sama hætti í samræmi við þann lífstíl sem þeir eru aldir upp við.  Sú staðreynd hvað matur og vín eru dýr hér og langdýrast ef samanborið við Evrópuþjóðirnar er leiðinleg fyrir okkur sem þjóð.

Ég er þeirrar skoðunar að vínmenning okkar Íslendinga sé sérstök.  Ölvun um helgar og þegar eitthvað er við að vera; 17. júní, verslunarmannahelgin, menningarnótt osfrv. hlýtur að teljast einsdæmi. 

Nú fer í hönd sú helgi sem lengst af hefur verið sú mesta fylleríishelgi unglinga.
Hvernig erum við í stakk búin til að mæta henni?
Ég tel að við séum ekki sérlega vel undirbúin nú frekar en áður þrátt fyrir þrotlaust starf sjálfboðaliða og grasrótarsamtaka.  Eftirlitslausir unglingar allt niður í 12 ára munu flykkjast á útihátíðir og hópur þeirra mun drekka sig ofurölvi og sumir neyta eiturlyfja með misdýrum afleiðingum. 

Í fyrra var ég með fyrirspurn til ráðherra hvort hann íhugaði eða hefði áform um að setja 18 ára aldurstakmark á skipulagðar útihátíðir, eða sjá til þess að börn undir 18 ára fái einungis aðgang að slíkum hátiðum séu þau í fylgd með fullorðnum sem staðfestir að hann taki ábyrgð á þeim?
Þetta kom m.a. fram í svari ráðherra:

Í fyrirspurninni er sérstaklega spurt um aldurstakmark á „skipulögðum útihátíðum“. Flestar slíkar skipulagðar útihátíðir eru haldnar um verslunarmannahelgina fyrstu helgina í ágúst. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur árlega gefið út sérstakt umburðarbréf til lögreglustjóra um reglur og skilyrði vegna „skipulagðra útihátíða“, ásamt kynningu á reglugerð um löggæslukostnað við slíkar útihátíðir. Ráðherra hefur mikinn áhuga á að skoða aldurstakmörk á þessum hátíðum í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og aðra þá aðila er kæmu að slíkri ákvörðun.

En nú er kominn nýr félagsmálaráðherra. Spennandi verður að sjá hvaða afstöðu hún tekur til þessara mála í framtíðinni.


Göng til Eyja, raunhæfur eða óraunhæfur möguleiki sem svo kostar hvað?

Það er afar erfitt á þessu stigi málsins að mynda sér einhverja vitræna skoðun á hvort göng til Eyja sé raunhæf og skynsöm framkvæmd eða jafnvel með öllu óraunhæfur kostur svo ekki sé minnst á hvað slíkt mannvirki kunni að kosta. Sjaldan hefur maður heyrt jafn ósamrýmanlegar skoðanir og álit á nokkru máli sem þessu. Fyrir liggur rannsóknarskýrsla sem og fjölmörg álit ólíkra sérfræðinga.
Sannfæring Árna Johnsen er jú öllum kunn. Þótt heill hópur vísindamanna munu færa rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu mun það líklega ekki hafa nein áhrif á sannfæringu hans í þessu máli.

Eins virðist vera farið með Eyjamenn. Þá sem ég hef spurt um þetta mál eru annars vegar á sömu skoðun og Árni eða segja þetta vera hina mestu firru.

Best er líklega að hinkra við og sjá hverju fram vindur. Einn góðan veðurdag mun án efa liggja fyrir skotheldar niðurstöður um hvort þetta sé raunhæfur kostur eður ei og ef raunhæfur hvort kostnaðurinn sé nær 20 milljörðum eins og Árni telur að sé á bilinu 60-80 milljarðar eins og segir í umræddri skýrslu.

Tímabært að afnema neitunarvald stórveldanna í Öryggisráði SÞ.

Ég heyrði ávæning af ummælum Ingibjargar Sólrúnar, utanríkisráðherra að ef við Íslendingar yrðum aðilar að Öryggisráði SÞ, ættum við að beita okkur fyrir afnámi neitunarvalds.

Eins og kunnugt er hefur Ísland sóst eftir kosningu til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ráðið skipar fimmtán aðildarríki en af þeim hafa fimm stórveldi fast sæti auk þess sem þau hafa neitunarvald. Allsherjarþingið kýs í Ráðið tíu önnur aðildarríki, hvert til tveggja ára. Framboð Íslendinga til Öryggisráðsins hefur verið umdeild aðgerð enda kostnaður við framboðið talsverður.


Að beita sér fyrir afnámi neitunarvalds er á brattan að sækja og líklega óraunhæft.  Að sjálfsögðu er þetta allt samningsatriði og mörgum kann að þykja afar ólíklegt að þetta nái fram að ganga jafnvel þótt fjölmargar aðildarþjóðir leggist á eitt.

Hvað sem því líður sakar ekkert að hugsa á þessum nótum.  Neitunarvald stórveldanna er barn síns tíma.


Flugdólgar óskemmtilegir samferðarmenn

Mikið lifandi skelfing held ég það sé ömurlegt að vera um borð í flugvél þar sem einhver tekur upp á því að láta dólgslega. Það er einmitt í flugvél sem maður vill síst af öllu vera í námunda við einstaklinga sem viðhafa dólgshegðun því engin er jú undankomuleiðin. Ekki þarf að spyrja að líðan farþegana sem þurftu að þola að horfa upp á manninn láta ófriðlega, áreita flugfreyjur og abbast upp á farþegana. Slík hegðun skapar mikið óöryggi og kvíða í aðstæðum þar sem ekkert er hægt að gera nema bíða og vona að maðurinn róist. Fyrir þá sem eru flughræddir eða óöryggir í flugvél þá er upplifun sem þessi ekki á það bætandi. Gott ef það fólk nær sér aftur eftir svo neikvæða reynslu.

Ekki þarf að spyrja að því að flugdólgurinn var ölvaður.  Sennilega lætur engin svona allsgáður, alla vega ekki um borð í flugvél. Ég velti því fyrir mér hvernig manninum leið með þetta þegar runnið hafði af honum. Eins og vitað er þá hefur áfengi þannig áhrif á sumt fólk að það gjörsamlega umturnast. Það á líka við um marga sem eru að öllu jöfnu rólyndis fólk. Þessi maður er klárlega einn af þeim sem ætti að láta áfengi með öllu vera.  Vonandi verður þetta til þess að hann ákveður að gera eitthvað í sínum málum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband