Ég spurði lögguna þótt lögin séu í sjálfu sér alveg skýr

Eftirfarandi spurning hefur verið send löggunni. 
Ég er borgarfulltrúi Flokks fólksins og hef verið að vinna fyrir hreyfihamlaða ekki síst í tengslum við göngugötur í miðbænum.
 
Mig langar til að fá það staðfest hvort handhöfum stæðiskorta sé óhætt að nýta heimild 10. gr. umferðarlaga þar sem segir að þeir geti ekið göngugötur og lagt þar í stæði? Hin nýju umferðarlög tóku gildi 1. janúar 2020 og hefur þessi heimild verið til staðar frá þeim degi.
 
 
Margir handhafar stæðiskorta eru hræddir við þetta m.a. vegna neikvæðrar umræðu skipulagsyfirvalda í borginni gagnvart þessu ákvæði. Þeir vilja þess vegna vera alveg vissir um að þeir lendi ekki í vandræðum, vilji þeir nýta sér þessa heimild. Lögin eru vissulega alveg skýr.

Það truflar reyndar að búið er að setja upp keilur við innkomu á göngugötu og sem handhafar stæðiskort þyrftu þá að sveigja framhjá til að komast inn á göngugötuna á bíl sínum. Þá má jafnframt spyrja hvort það sé löglegt í ljósi þessara heimildar?
Keilur eru ákveðin hindrun og handhafar stæðiskorta gætu auk þess óttast að reka bíl sinn í þær.
 
Hlakka til að heyra í ykkur
Komið þið sæl.
Ég er borgarfulltrúi Flokks fólksins og hef verið að vinna fyrir hreyfihamlaða m.a. vegna aðgengismála ekki síst í tengslum við göngugötur í miðbænum.
 
Mig langar til að fá það staðfest hvort handhöfum stæðiskorta sé ekki óhætt að nýta heimild sem kveðið er á um í 10. gr. umferðarlaga þar sem segir að þeir geti ekið göngugötur og lagt þar í stæði? Hin nýju umferðarlög tóku gildi 1. janúar 2020 og hefur þessi heimild verið til staðar frá þeim degi.
 
Margir handhafar stæðiskorta eru hræddir við þetta m.a. vegna neikvæðrar umræðu skipulagsyfirvalda í borginni gagnvart þessu ákvæði. Þeir vilja þess vegna vera alveg vissir um að þeir lendi ekki í vandræðum, vilji þeir nýta sér þessa heimild. Lögin eru vissulega alveg skýr.
 
Það truflar reyndar að búið er að setja upp keilur við innkomu á göngugötu og sem handhafar stæðiskorta þyrftu þá að sveigja framhjá til að komast inn á göngugötuna á bíl sínum. Þá má jafnframt spyrja hvort það sé löglegt í ljósi þessarar heimildar?
Keilur eru ákveðin hindrun og handhafar stæðiskorta gætu auk þess óttast að reka bíl sinn í þær.
 
sektar ekki
 
 
 
 

Í Reykjavík eiga ekki að vera neinar dauðagildrur

Fundur borgarstjórnar er hafinn og er fyrsta mál á dagskrá Umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023.
Víða í borginni er umferðaröryggi ábótavant og aðstæður hættulegar. Strætisvagnar stoppa á miðri götu til að hleypa farþegum í og úr sem getur skapað mikla slysahættu. Dæmi eru um að strætisvagnar stoppa á miðju hringtorgi. Hreyfihömluðum er ætla að legga bíl sínum í götur sem halla og ekki er gert ráð fyrir eldri borgurum í miðbænum enda aðgengi þar að verða aðeins fyrri hjólandi. Bílastæðahús eru af ýmsum orsökum vannýtt. Nýlega var grjóti sturtað á miðjan Eiðsgranda sem getur skapað stórhættu.

Flokkur Folksins telur að kannski gangi áætlunin of skammt, ekki er tekið á brýnum málum. Í borginni eiga ekki að vera neinar dauðagildrur. Fjölgun þeirra sem fer um hjólandi má fagna en meira þarf að gera til að hvetja þá sem fara um á bílum að fjárfesta í rafmagns eða metan bílum, gefið að öllu metani sé þ.e. ekki sóað. Í nýjum vistvænum bílum eru öflugir skynjara sem láta bílstjóra vita af gangandi og hjólandi vegfarendum sem dregur án efa úr slysahættu.

Ljósamálin eru enn í ólestri. Á 100 stöðum í borginni eru úrelt ljós. Snjallstýrð götuljós myndu bæta mikið. Að aðskilja andstæðar akreinar með vegriði er oft hægt að koma við. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Flest slysin verða þegar götur eru þveraðar og þá lang oftast þegar hjólreiðamenn hjóla þvert yfir götu/gangbraut.

Segir í skýrslunni að taka þarf tillit til sérþarfa s.s þeirra sem glíma við líkamlega fötlun. Þetta er þessi meirihluti ekki að gera með því að vilja hindra að handhafar stæðiskorta geti ekið göngugötur eins og heimilar er í lögum. Þeim er þess í stað ætlað að leggja í hliðargötum þar sem þeirra víða er stór hætta búin vegna halla og þrengsla.

Meirihlutinn þarf að taka mark á þessari áætlun ætli hann að samþiggja hana.

Beita ætti hægrireglur þar sem kostur er í stað biðskildu enda sýna tölur að óhappatíðni er hærri á gatnamótum sem eru með biðskyldu.

Þetta er aðeins brot af því sem þyrfti að bæta í þessari borg þegar kemur að umferðaröryggismálum


Martröð í bílastæðahúsum borgarinnar

Vandræði í bílastæðahúsum borgarinnar. Fundur í skipulags- og samgönguráði er um það bil að hefjast og mun ég leggja fram eftirfarandi tillögu að gefnu tilefni:parking_house_2-2
Fulltrúi Flokks fólksins gerir það að tillögu sinni að Reykjavíkurborg hafi neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma
Það er bagalegt hvað margt fólk hefur lent í ómældum vandræðum t.d. í bílastæðahúsum borgarinnar þegar það hefur lokast inni með bílinn sinn. Almennt séð er það ólíðandi að fólk geti ekki hringt í neitt númer, neyðar- eða þjónustunúmer þegar það lendir í vandræðum í einhverjum af stofnunum Reykjavíkurborgar eftir að lokar. Nýtt dæmi er að kona lokaðist inni í bílastæðahúsi á Laugavegi þar sem hún varð innlyksa með lítið barn en kom bílnum sínum ekki út. Hún hringdi í borgarfulltrúa sem reyndi að ná í einhvern hjá bílastæðasjóði en árangurslaust.

Þetta er ekki fyrsta tilfellið þar sem fólk lendir í vandræðum í bílastæðahúsum og hringir í angist sinni. Í þessu tilfelli voru slárnar uppi og enginn miði kom ef kallað var eftir honum. Þegar konan mætti aftur til að ná í bílinn höfðu slárnar verið settar niður og engin leið fyrir konuna að koma bílnum sínum út þar sem hún var ekki með miða. Hér þarf að bæta úr hið snarasta. Það myndi breyta miklu að hafa þjónustu/neyðarsíma sem fólk hefur aðgang að ef það lendir í vandræðum í borginni.

Bílastæðahúsin eru nú þegar hálftóm og tilfelli sem þessi hvorki eykur nýtingu þeirra eða vinsældir. Fleiri hafa nefnt að það sé bagalegt að ná ekki í aðstoð þegar fólk hefur lent í þeim aðstæðum að bílastæðahús hafa lokað og bíllinn situr fastur inni en þá virðist enginn vera til að aðstoða. Það getur bæði endað vanlíðan fólks sem og mikinn tilkostnað. Bílastæðahús mætti hafa opin eftir venjulega gjaldskyldu bílastæða. Það hvetti til notkunar þeirra og leysti mörg vandamál.

Hve mörg verslunarrými hafa losnað í miðbænum?

Ég lagði fram fyrirspurn í gær á fundi skipulags- og samgönguráðs um hvað mörg verslunarrými við göngugötur í miðbænum hafa losnað sl. eitt og hálft ár?   

Hér er spurt um rými sem hafa losnað við bæði varanlegar göngugötur og tímabundnar, svokallaðar sumargötur.
Spurt er vegna þess að fyrir liggur að fjölmargir rekstraraðilar sem ráku verslanir við þessar götur hafa flutt verslanir sínar annað eða lagt niður rekstur sinn.
Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um auð verslunarrými. Það er mikilvægt að fá upplýsingar um á hvað stórum skala búðarflóttinn er til þess að átta sig betur á stöðunni og þróun mála í miðbænum hvað varðar verslun og viðskipti.

 


Sóun á metani í stað þess að nýta það er hrein og klár heimska

Í borgarstjórn er meirihlutinn að leggja fram græna planið sitt og er það gott eins langt og það nær. En í það vantar stóran þátt og þess vegna verður fulltrúi Flokks fólksins að sitja hjá. Það er nefnilega tvískinnungsháttur að tala um græna borg á meðan kosið er að brenna metani, grænni, innlendri afurð, frekar en að reyna að nýta það. Metan sem ekki er nýtt verður að brenna því það er vond gróðurhúsalofttegund. En það er hrein og klár heimska að verða að sóa því þar sem það er ekki nýtt sem yrði öllum til góðs. Það væri sem dæmi hægt að nota metanið á alla bíla á vegum borgarinnar.

Það er óskiljanlegt að sveitarfélögin sem eiga SORPU og sem reka alls konar bíla þ.m.t. strætó reki ekki fleiri metanbíla. Af hverju er ekki settur kraftur í að koma metani á strætisvagna, stóra og smærri flutningsbíla, vinnubíla, pallbíla og greiðabíla á vegum borgarinnar? Fólksbílar sem aka á metani myndu koma inn samhliða ef fólk fengi metanið á kostnaðarverði og gæti treyst því að verðið yrði stöðugt sem nemur líftíma metanbíls. Því meira sem metanið er nýtt því minna þarf að sóa því. . Nóg framboð er og verður meira með nýrri jarð- og gasgerðarstöð (GAJA). Hættum að brenna metani út í loftið og brennum því frekar á bílum. Öllum tillögum Flokks fólksins sem lúta að nýtingu metans hafa verið felldar eða vísað frá af meirihlutanumMethane Flame


Rekstraraðilar stýri því sjálfir hvenær gata er höfð opin eða lokuð fyrir umferð

Tillögunni um tilraunaverkefni að rekstraraðilar taki sjálfir ákvörðun um hvort hafa eigi opnar eða lokaðar göngugötur sem meirihlutinn hefur ákveðið að séu varanlegar göngugötur eða tímabundnar, var vísað frá í skipulags- og samgönguráði í fyrradag og þá sátu sjálfstæðismenn í borginni hjá.
Ég lagði tillöguna aftur fyrir í borgarráði í gær. Henni var aftur vísað frá en í þetta sinn greiddu sjálfstæðismenn í borginni atkvæði gegn frávísuninni. Flott hjá þeim!


Bókun:
Hér er um góða málamiðlunartillögu að ræða sem væri vel þess virði að láta reyna á tímabundið. Á góðviðrisdegi kann að vera sniðugt að loka götu fyrir umferð og gera hana að göngugötu en á köldum dögum að hafa þær opnar fyrir bílaumferð.
Það er vel þess virði að kanna hvernig fyrirkomulag sem þetta myndi reynast. Þess utan á eftir að gera mælingar af hlutlausum aðilum á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram af meirihlutanum. Öðruvísi er varla hægt að taka upplýstar ákvarðanir.
Þessi götulokunarmál hafa verið sérlega erfið og finnst mörgum sem meirihlutinn hafi beitt mikilli valdníðslu því í ljós hefur komið að meirihluti fólks þ.m.t. rekstraraðilar vilja þetta ekki og hafa í kjölfar lokunar flutt verslanir sínar í burtu af svæðinu.
Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta kaldar kveðjur frá skipulagsyfirvöldum til rekstraraðila. Treystir meirihlutinn þeim ekki til að stýra því sjálfir hvort sú gata sem þeir reka verslun við sé opin fyrir bílaumferð eða ekki?


Þéttingastefnan komin út í öfgar?

Á fundi skipulags- og samgönguráðs lagði ég fram eftirfarandi tillögu:
Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum.

Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur, hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að „íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi.“ Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni

Fyrirvari settur við samþykkt ársreiknings m.a. vegna Félagsbústaða

Hér er fyrirvari Flokks fólksins við samþykkt ársreiknings borgarinnar 2019 sem settur var samhliða undirritun hans. Ástæðan fyrir þessum fyrirvara var m.a. vegna Félagsbústaða en ekki síður vegna þess með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar. Þetta voru orð Einars S. Hálfdánarsonar endurskoðanda sem sagði sig úr endurskoðunarnefnd borgarinnar á dögunum.

Hér er fyrirvari Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög.

Tíðindum sætti þegar einn af endurskoðendum endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sagði sig úr nefndinni vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.


Borgin ætti að reka sinn eiginn "Arnarskóla"

Af hverju getur borgin ekki rekið sinn eigin "Arnarskóla"?
Ég hef verið með bókanir vegna þess að borgin hefur sett stopp umsóknir í Arnarskóla vegna þess að svokallað ytra mat liggur ekki fyrir sem ekki er í höndum borgarinnar að framkvæma.
 
Ég segi að þetta sé fyrirsláttur. Hér er inntak úr einni af mínum bókunum þegar samþykkt var að greiða fyrir fjóra síðustu nemendur í skólann þar til ytra mat liggur fyrir:

Búið er að loka fyrir umsóknir í Arnarskóla af því það vantar svokallað ytra mat sem ekki er í höndum borgarinnar að framkvæma. Þetta er ekkert annað en fyrirsláttur því meirihlutinn vill ekki borgar fyrir fleiri börn í Arnarskóla.
 
Það sem skipti máli er að öll börn séu í skólaúrræðum þar sem þeim líður vel, finna sig meðal jafningja og fá náms- félags- tilfinningalegum þörfum sínum mætt.

Skólayfirvöld í borginni samþykktu að greiða inngöngu fjögurra barna nú nýlega í Arnarskóla en segir að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir. Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Í Arnarskóla er hugað að einstaklingnum og að mæta þörfum hans að öllu leyti.
 
Það er tímabært að leysa sérskólamál öðruvísi en með skammtímalausnum í Reykjavík. Langur biðlisti er í skólaúrræði eins og Klettaskóla og Brúarskóla. Báðir eru fullir og sá fyrri yfirsetinn. Bregðast þarf við með varanlegum lausnum og ef vel ætti að vera ætti borgin að reka sjálf skóla eins og Arnarskóla.
 
Flokkur fólksins hefur lagt til að fjölga þátttökubekkjum Klettaskóla, rýmka inntökureglur og stækka Brúarskóla. Í svörum og umsögnum við tillögu um stækkun Brúarskóla var beinlínis sagt að ekki væri þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma. Samt eru 19 börn á biðlista eftir skólavist í Brúarskóla. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir í Arnarskóla.

Ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd

Í vikunni samþykkti velferðarráð að hraða innleiðingu stafrænnar tækni á velferðarsviði m.a. vegna jákvæðrar reynslu af nýtingu rafrænna lausna á tímum COVID-19 faraldursins, s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu, notkun fjarfundabúnaðar til ráðgjafasamtala og móttöku rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins fannst sjálfsagt að vera með í þessari tillögu en vildi á sama tíma leggja áherslu á að ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd.

Rafrænar lausnir eru sannarlega framtíðin og tekið var heljarstökk í framþróun á snjalllausnum vegna COVID-19. Jákvæð reynsla er af nýtingu rafrænna lausna s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu og víða. Innleiðing tæknilausna einfaldar margt en það sem fulltrúi  Flokks fólksins vill halda til haga er að það eru ekki allir sem nota snjalltækni til að hafa samskipti við umheiminn. Ástæður eru ótal margar. Þessum hópi fólks má ekki gleyma í allri snjalltæknigleðinni. Starfsfólk þarf að vera næmt á hvað hentar hverjum og einum og hvað hann þarf og vill. Notandi þjónustu á að stýra ferð enda er hann sá eini sem veit hvað hann þarf, vill og getur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því að persónuleg tengsl, nánd og snerting eigi eftir að dragast saman vegna allra þeirra rafrænu lausna sem nú eru í boði. Það má aldrei hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Einnig er mikilvægt að gera reglulega athuganir á rafrænum lausnum og hvernig þær eru að nýtast.

 


Oft legið við stórslysi á hjólreiða- og göngustígum

Á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun var lagt fram til staðfestingar erindisbréfi samgöngustjóra varðandi stýrihóp um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025.


Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

Það sem sá stýrihópur sem hér um ræðir verður að gera er að huga að reglum á blönduðum stígum (hjólreiða- og göngustígum). Oft hefur legið við stórslysum á blönduðum stígum. Að leggja stíga, blandaða stíga sérstaklega fylgir ábyrgð að öryggi þeirra sem eiga að nota hann verði sem best tryggt. Setja þarf hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Á sínum tíma var lögð lína þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Sú lína er ekki lengur þar sem umferð á stígum hefur aukist mikið. Í hjólreiðaáætlun er markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Þetta tekur mörg ár. Nú myndast iðulega vandræða- og hættuástand á blönduðum stígum. Fólk er hvatt til að hjóla en aðstæður fyrir hjólandi og gangandi eru bara víða ekki góðar. Þar sem hægt er að hafa línu til að aðskilja gangandi og hjólandi þá ætti hún að vera til staðar. Skipulagsyfirvöld voru of fljót á sér að fræsa línuna í burtu og halda að skilti duga. Sums staðar hefur línan verið látin eyðast. Fulltrúa Flokks fólksins þykir þetta ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum. Á meðan hjólreiðastígar eru ekki aðskildir frá göngustígum þarf að gæta varúðar og freista einskis til að tryggja öryggi vegfarenda stíganna eins og hægt er.


Lýðræði, gegnsæi og að hlusta á borgarbúa

Miðbæjarmálin voru á dagskrá fundar skipulags- og umhverfisráðs og ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili. Ákveðið var að fresta tillögu meirihlutans um eina viku en hún var á þá leið að stækka ætti göngugötusvæðið enn meira. Þetta mál er í raun einstakt fyrir nokkrar sakir. Fulltrúa Flokks fólksins fannst þetta vera prófmál þessa meirihluta á kosningaloforð þeirra sem var m.a. að virða lýðræði, gegnsæi og hlusta á borgarbúa. Á þessu prófi er meirihlutinn nú þegar kolfallinn. Ráðist hefur verið í breytingar sem fljótlega komu í ljós að voru ekki í þágu fjölda fólks og þ.m.t. fólks sem hefur persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Margt hefur verið reynt til að ná eyrum meirihlutans, undirskriftalistar, hróp, skrif, umræður og viðtöl. Allt hunsað og keyrt áfram af hörku. Þegar viðskipti minnkuðu flúðu tugir eigendur verslana svæðið. En það breytti engu fyrir þennan meirihluta, áfram skyldi haldið með það sem “var ákveðið og allir áttu að vita að hafi verið ákveðið, fyrir löngu” eins og þau segja í meirihlutanum þegar þau eru krafin um rök fyrir framgöngu sinni.  En framkoma eins og þessi við borgarbúa sýnir vanvirðingu. Flestir sjá að vel er hægt að bíða og endurmeta stöðuna. Það skaðar ekki.


Setja þarf hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum

Á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun lagði ég fram tillögu um að setja hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi, sumir með hunda í taumi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum.
 
Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda eða hunda. Ekki er nóg að leggja hjólreiðastíga heldur verður yfirvald einnig að sýna tilhlýðilega ábyrgð og sinna fræðslu til að fyrirbyggja slys og óhöpp.
 
Greinargerð
Flokkur fólksins leggur til að borgaryfirvöld taki þessi mál föstum tökum og komi upp bæði skiltum og fræðsluefni um hjólreiðar og að hverju þurfi að gæta, sérstaklega að í borgarlandinu. Færst hefur í aukana að fólk noti hjól sem samgöngutæki og er það hið besta mál. Hjólastígum hefur fjölgað mikið og fyrir liggur að fjölga þeim enn meira. Um reiðhjól gilda um margt sömu lögmál og um bíla. Hjólreiðamönnum farnast best þegar þeir haga sér líkt og aðrir ökumenn í umferðinni og þegar komið er fram við þá sem ökumenn.
Í VII. kafla umferðarlaga er fjallað um reglur fyrir hjólreiðamenn. Í 42. gr. er fjallað um akstursstefnu, umferðarreglu og hvernig skuli aka fram úr á reiðhjóli. Í 43. gr. er síðan fjallað um hvaða reglur gildi við notkun reiðhjóla á göngustígum, gangstéttum og göngugötum. Heimilt er að sekta fyrir brot á 42. gr. Það er þó ekki heimilt að sekta fyrir broti gegn 43. gr. Því er ekki heimild í umferðarlögum til að sekta fyrir það ef hjólreiðamaður brýtur gegn þeim reglum sem fjalla um hegðun hjólreiðamanna á göngustígum eða á hjólastígum sem liggja við göngustíga. Um þá gilda hinsvegar almennar reglur um tillit til gangandi vegfarenda, sbr. 27. gr. umferðarlaga, sem leggja þá skyldu á ökumenn til að gefa vegfarendum færi á að víkja til hliðar og veita þeim nægilegt rými. Ef ökumaður reiðhjóls ekur á gangandi vegfaranda þá getur verið heimilt að sekta hann samkvæmt þessu ákvæði. Hámarkshraði á göngustígum og hjólastígum í þéttbýli er hinn almenni hámarkshraði í þéttbýli, 50 km á klukkustund, nema að veghaldari ákveði önnur hraðatakmörk. Reykjavík getur ákveðið hámarkshraða á vegum borgarinnar, sbr. 84. gr. umferðarlaga. Reykjavík getur því sett reglur um hámarkshraða á göngustígum, gangstéttum og reiðhjólastígum. Á umferðarþungum stofnbrautum með að- og fráreinum og miklum umferðarhraða gilda að hluta aðrar reglur.
 
Mörgum finnst þægilegt að hjóla á stígum og gangstéttum. Þeir upplifa það friðsælla og öruggara en það skapar meiri hættu fyrir gangandi vegfarendur og hunda. Hjólreiðamaður verður að takmarka hraða sinn á stígum og gangstéttum til að tryggja öryggi sitt og gangandi vegfarenda. Hjólreiðamaður þarf að haga ferð og hraða miðað við aðstæður. Hjólreiðamaður þarf að lesa í umferðina og skilja hvernig hún virkar og sjá fram í tímann hvaða hættur geta steðjað að á leið hans. Hvernig hugsar gangandi vegfarandi, bílstjóri, eru dýr í næsta nágrenni sem huga þarf að o.s.frv.
Reiðhjól, rafknúnar vespur, rafknúin hjólabretti og rafknúin hlaupahjól geta náð miklum hraða. Dæmi eru um að þessi farartæki geti náð allt að 60 kílómetra hraða á klukkustund. Það er allt of mikill hraði í kringum gangandi vegfarendur. Hámarkshraði bifreiða í íbúðagötum er 30 kílómetrar á klukkustund, og í vistgötum og göngugötum mega vélknúin ökutæki ekki fara hraðar en 10km/h. Við þurfum að grípa til aðgerða sem tryggja öryggi að sama marki á göngustígum og hjólastígum borgarinnar.
 
Langflestir íslenskir hjólreiðamenn eru jafnframt bílstjórar. Ef menn hugsa um eigin hegðun í bíl og síðan á hjóli geta menn orðið bæði betri bílstjórar og betri hjólreiðamenn. Þetta má sjá í umferðarfræðum um hjólreiðar. Hjólreiðamenn eiga að gefa stefnumerki tímanlega, eins og aðrir í umferðinni. Nær allir stígar eða gangstéttir eru blandaðir stígar og gangstéttir. Á þeim og á gangstéttum eru hjólreiðamenn gestir og þurfa að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda og hunda sem eru í taumi með eigendum sínum. Hægja þarf vel á áður en menn mætast eða farið er framúr. Gott er að hringja bjöllu í góðri fjarlægð því ef hringt er of nálægt geta vegfarendur vikið til hliðar og í veg fyrir reiðhjólið. En gangandi vegfarendur, sem og hjólandi eru oft að hlusta á tónlist og heyra því e.t.v. ekki bjölluviðvörun. Vert er að borgaryfirvöld minni á það með reglulegum hætti í ræðu og riti að áfengi og hjólreiðar eiga ekki samleið. Þá er brýnt að lögregluyfirvöld í borginni hafi virkt eftirlit með því að umferðarreglur séu virtar á göngustígum og hjólastígum borgarinnar.
 
 

Bleyta fyrst og sópa svo

Ég lagði fram tillögu í borgarráði í vikunni að aukin áhersla verði lögð á götuþvott að vori samhliða almennri götusópun með það að markmiði að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni
 
Flokkur fólksins leggur til að aukin áhersla verði lögð á götuþvott að vori samhliða almennri götusópun með það að markmiði að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni. Bleyta þarf götur áður en þær eru sópaðar á þurrviðrisdögum og að götusópun lokinni þarf að þvo götur eins fljótt og auðið er. Á ári hverju safnast ógrynni af ryki, möl, drullu og rusli á vegum borgarinnar. Á vorin hefjast þrif á götum borgarinnar. Í áætlunum um hreinsun gatna í Reykjavík má sjá að þegar húsagötur eru sópaðar þá er samhliða, eða skömmu eftir, þvegið göturnar. Þegar hinsvegar stofnæðar borgarinnar eru þrifnar þá líður langur tími á milli sópunar og þvotts. Samkvæmt verkáætlun lauk hreinsun stofngatna 26. apríl sl. en þær verða ekki þvegnar með vatni þar til 25. maí. Þegar vélsópar hreinsa vegkanta þá skilja þeir ávallt eftir hluta af fínasta rykinu. Því er mikilvægt að götur séu spúlaðar skömmu eftir. Ellegar myndast lag af hárfínu ryki á vegum. Á háhraða götum þyrlast þetta ryk upp og myndar töluvert af svifryki í andrúmsloftinu. Þetta sjáum við vel þegar við ferðumst á stofnæðum borgarinnar. Það er bráðnauðsynlegt að draga úr svifryki. Svifryk er afar heilsuspillandi og þá sérstaklega fyrir fólk með öndunarsjúkdóma.
 
Greinargerð
 
Til að sporna gegn svifryksmengun er mikilvægt að hefja þvott á stofnæðum borgarinnar strax að lokinni sópun. Þá gæti það einnig hjálpað til ef götur eru bleyttar áður en þær eru sópaðar á þurrviðrisdögum. Þó vélsópar séu með vatnsspíssa þá mynda þeir ekki svo mikið vatn að það dugi til að bleyta nægilega göturnar þegar óhreinindi eru mikil, eins og raunin er þegar hreinsun hefst á vorin. Það er varasamt að þvo götur áður en þær eru forsópaðar. Þá er hætta á því að niðurföll stíflist. Það er þó hægt að bleyta þær áður en þær eru sópaðar. Það mætti gera með því að láta vatnsbíl og götusóp þræða göturnar í beit. Þá eru einnig til nýir sópar með háþrýstispíssum og vatnssugum sem nota mætti á staði þar sem ryksöfnun er mikil.
 
Rykmengun er viðvarandi vandamál þegar götur eru sópaðar í þurru veðri. Það vita borgarbúar vel. Því ber að leggja aukna áherslu á að götur séu bleyttar vel áður en þær eru sópaðar svo að sópunin mengi ekki út frá sér. Því er lagt til að Reykjavíkurborg ráðist í breytingar á gildandi verkáætlunum með það að markmiði að auka götuþvott og draga úr svifryksmengun. Þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg hafi samráð með Vegagerðinni um hvernig megi endurskipuleggja sópun og þvott stofnæða borgarinnar.
 
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Einn stærsti áfangi lífs míns

Glefsur úr viðtali Vikunnar:

"Þegar Flokkur fólksins kom fram
á sviðið og fór að leggja áherslu á
fjölskyldumálin fórum við Inga Sæland að tala
saman á messenger og það gerðist mjög
hratt að ég gaf kost á mér í oddvitasæti
flokksins í borgarstjórnarkosningunum,“
útskýrir Kolbrún. „Og nú er ég búin að vera
næstum tvö ár í borgarstjórn og hef lagt fram
örugglega á fjórða hundrað mála, alls konar
mál."

"Fyrir utan að eignast börnin mín og barnabörnin mín
var það að vera kosin í borgarstjórn einn
stærsti áfangi lífs míns. Ég er mjög þakklát
fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og vil
standa mig vel.“

mynd blog svart hv
 

Ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda undantekning

Ég hef verið óþreytandi í að benda á kostnað vegna ferða embættismanna, borgarstjóra og hans aðstoðarmanns erlendis. Vonandi snarfækkar ferðum núna í kjölfar Covid-19 enda allir orðnir flinkir í fjarfundum. Á sameiginlegum fundi Skipulags- og samgönguráðs og Umhverfis- og heilbrigðisráðs var lagt fram yfirlit yfir ferðir ráðanna árið 2019. Hér erum við að tala um 12 milljónir sem vel mætt nota í þágu eldri borgara og öryrkja svo ekki sé minnst á börnin.
Bókun Flokks fólksins við yfirliti yfir ferðakostnað starfsmanna Umhverfis- og skipulagssviðs 2019:
Það fer gríðarmikið fé í ferðir erlendis hjá þessum sviðum, oft fara heilu hóparnir á ráðstefnur og e.t.v. í skoðunarferðir. Eiginlega er þetta ekki boðlegt enda allt á kostnað borgarbúa. Dagpeningar er stór hluti þessa kostnaðar og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að þeir verði lagðir af og í staðin tekið upp notkun viðskiptakorts eins og mörg fyrirtæki hafa tekið upp og er slíkt fyrirkomulag með ákveðnu hámarki eðlilega. Nú má vænta þess að ferðum snar fækki vegna þess að með
Covid-19 lærði fólk að nota fjarfundakerfi. 
Ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda ættu því að geta orðið alger undantekning. Í tilfelli þessa sviðs er upphæðin 12.139.972. fyrir árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hversu mikið borgarbúar hafa grætt á að þessar ferðir voru farnar?
 
Sjálf hef ég farið eina ferð á vegum borgarinnar, á fund oddvita til Osló.
Svo því sé haldið til haga. Ég reikna ekki með að fara frekari ferðir á þessu kjörtímabili, sé það alla vega ekki fyrir mér nú.

Áfengið tók allt, sjálfsmyndina líka

„Ég vissi alltaf að pabba þótti mjög vænt um okkur systkinin en sjúkdómurinn alkóhólismi var bara búinn að taka hann“

Vikan mynd

 

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur lengi barist fyrir því að börn alkóhólista fái sálfræðiþjónustu á vegum borgarinnar, en sú tillaga hefur ekki hlotið hljómgrunn. Kolbrúnu er þetta hjartans mál enda þekkir hún sjálf afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma á sjálfsmynd og sjálfsmat barna. Hún segist hafa verið komin á fullorðinsár þegar hún loks fór að trúa því að hún gæti eitthvað og væri einhvers virði.

„Ég er yngst fjögurra systkina og þegar ég fæddist bjó fjölskyldan á Víðimel hjá móðurömmu í agnarsmárri þakíbúð“ segir Kolbrún beðin um að gera grein fyrir bakgrunni sínum. „Pabbi var þá byrjaður að byggja í Sólheimunum, var í góðri vinnu á Keflavíkurflugvelli og foreldrar mínir voru fólk sem átti mikla möguleika á að koma sér vel fyrir. Á yfirborðinu var allt slétt og fellt og fallegt, fjögur börn og foreldrar og föðuramma mín sem bjó hjá okkur síðar í Sólheimunum,  virkilega falleg mynd utanfrá séð. En alkóhólismi pabba var búinn að vera að þróast í töluverðan tíma um það leyti sem ég er að fæðast og smátt og smátt fór þessi fallega mynd að molna og það endar með því að pabbi missti allt út úr höndunum og foreldrar mínir skildu þegar ég var sex ára. Þá vorum við búin að vera að þvælast milli staða, búa heima hjá móðurömmu minni í annað sinn í einni kös. Áfengið var búið að taka allt frá okkur.“

Kolbrún segir föður sinn hafa verið góðan mann, hjálpsaman, ljúfan og rólegan,  en hann hafi oft verið ofbeldisfullur þegar hann drakk og það hafi hann tekið út aðallega á móður hennar.

mynd í vikunni real

 

 


Hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu?

Það á ekki nota núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld noti ekki viðkvæmt ástand vegna COVID-19 veirunnar til að þrýsta málum í gegn sem eru jafnvel í óþökk fjölda borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það blasa við að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld ætli að nota tækifærið í þessu ástandi til koma áformum sínum um að loka fyrir bílaumferð í miðbænum hraðar í gegn. Sagt er að rekstraraðilar vilji stækka staði sína til að virða tveggja metra regluna og leggur borgarstjóri til frekari lokanir gatna í því sambandi. Inn í umræðuna reyndi borgarstjóri að draga þá Þórólf og Víði sem hafa nú sagst ekki hafa neina skoðun á hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu.

Hverjir hafa viljað stækka staði sína? Eru það veitingastaðir? Hvað með aðrar verslanir, eiga þær að færa varning sinn út á götu? Þessar hugmyndir eru með öllu óraunhæfar og munu skaða miðbæinn. Með því að loka fleiri götum verður verra aðgengi fyrir bíla. Miðbærinn er nú mannlaus vegna veirufaraldurs. Borgarstjóri vill notfæra sér veirufaraldurinn til að loka fleiri götum fyrir umferð. Tveggja metra reglan er notuð sem yfirskyn og sagt að rekstraraðilar vilji þetta. Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilja sæta lagi og draga enn frekar úr ferðum bíla í miðbæinn. Ekki er verið að hugsa mikið um þá sem koma lengra frá, fólk sem býr í úthverfunum og landsbyggðafólk sem kemur akandi og langar e.t.v. að heimsækja miðbæinn. Bíllinn er öruggari ferðamáti en almenningssamgöngur ef horft er til tveggja metra reglunnar. Almenningssamgöngur eru nánast engar auk þess sem fólk er hrætt við að nota þær. Þær voru slakar fyrir og eru enn stopulli nú vegna COVID-19. 

Með því að loka fleiri götum munu enn færri koma í miðbæinn. Ekki verður ferðamönnunum fyrir að fara þetta árið. Sífellt er vísað til annarra borga, milljóna borga með þróað og öflugt almenningssamgöngukerfi og þar sem veðurfar er jafnvel ólíkt. Hvernig er hægt að bera Reykjavík saman við Osló eða Kaupmannahöfn í þessu sambandi? Hver vill sitja úti í vindinum á Laugavegi með kaffibolla en á þeirri götu er ekki oft sól og blíða. Einstaka sinnum þegar sólin gægist fram kemur fólk kannski í tvo tíma.

Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld hafa aldrei verið í góðu samstarfi við rekstraraðila, eiginlega bara engu. Í meirihlutasáttmálanum voru teknar einhliða ákvarðanir um að loka götum fyrir umferð og rekstraraðilar voru aldrei spurðir. Engu að síður var lofað að hafa samráð sem mest og best. Óskir verslunareigenda og skoðanir hafa verið hunsaðar. Skeytum/erindum ekki einu sinni svarað eins og fram kemur í viðtölum við verslunareigendur. Við eigum ekki að nota faraldur til að beyta skipulagi borgarinnar. Margir eiga um sárt að binda og væri nær að einblína frekar á aðgerðir til hjálpar en að einblína á að  finna smugu til að hindra aðgengi bíla enn frekar í miðbæinn.

Grein birt á visi.is 28.4.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

 


Auðvitað á að nota frístundakortið í sumarnámskeiðin

Sumarið er komið og standa börnum til boða ýmis konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á vegum skóla- og frístundaráðs. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinnipartinn af faraldri bíða mörg börn þess með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum.

Í undirbúningi hjá Flokki fólksins er að leggja aftur fyrir tillögu um að rýmka reglur frístundakortsins þannig að hægt sé að nota það á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar sem og önnur viðurkennd námskeið án tillits til lengdar námskeiðanna. Núgildandi reglur um frístundakort kveða á um að frístundastyrkinn, 50.000 kr., sé aðeins hægt að nýta í námskeið sem eru að lágmarki 10 vikna löng. Nú býður Fjölskyldu og húsdýragarðurinn börnum upp á 5 daga námskeið sem kosta 18.500 og 4 daga námskeið sem kosta 15.100. Skóla- og frístundaráð býður börnum einnig upp á námskeið sem kosta um 10.000 á viku.

Í borgarráði 2. maí 2019 lagði ég til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Ég hyggst gera aðra atrennu að regluverkinu von bráðar því það er öllum börnum afar mikilvægt að komast á námskeið í sumar eftir þennan óvenjulega vetur.

Að skilyrða notkun frístundakortsins við 10 vikna löng námskeið lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Það er ekki lengd námskeiðs sem skiptir máli heldur gæði þess og hvernig námskeiðið hentar barninu.

Fjárhagur foreldra er misjafn. Sumir hafa misst vinnu eða laun þeirra verið skert vegna COVID-19. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að leyfa börnum sínum að taka þátt í sumar- eða vetrarnámskeiðum. Það lítur sérkennilega út að sjá öll þau fjölbreyttu sumarnámskeið auglýst á vefsíðu ÍTR og skóla- og frístundaráðs og sjá á sama stað vísað í upplýsingar um frístundakort, sem þó er ekki hægt að nota vegna þess að ekkert námskeiðanna nær 10 vikum.

Gengisfelling frístundakortsins í gegnum árin

Auk þess að leggja fram tillögur um rýmkun á reglum frístundakortsins hef ég einnig lagt fram tillögur sem lúta að því að frístundakortið fái aftur upphaflegan tilgang. Til upprifjunar þá var frístundakortið hugsað sem tæki til jöfnuðar, til að gefa öllum börnum tækifæri til að stunda íþrótta eða tómstundastarf án tillits til efnahags foreldra þeirra.

Árið 2009 var byrjað að afbaka reglur frístundakortsins sem varð til þess að frístundakortið var ekki lengur það jöfnunartæki sem það átti að vera. Gengisfelling á frístundakortinu hófst þegar ákveðið var að hægt yrði að nýta rétt frístundakortsins til að greiða gjald frístundaheimilis. Sé kortið notað til að greiða frístundaheimili þá getur barnið ekki notað það til að fara á íþrótta- eða tómstundanámskeið. Hér hefði átt að finna aðrar leiðir til að styrkja foreldra sem ekki gátu greitt frístundaheimili fyrir barn sitt í stað þess að taka frístundakortið af barninu. Næst var tekið upp á að blanda rétti til nýtingar frístundakortsins saman við umsókn um fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við barn. Sú ákvörðun dró enn frekar úr líkum þess að barn gæti notað það til að velja sér tómstund eða íþrótt.

Barátta mín og Flokks fólksins fyrir rétti barnsins að nýta frístundakortið í samræmi við tilgang þess er hvergi nærri lokið en hefur þó skilað nokkrum árangri. Til stendur að gera þær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð að fellt verði úr gildi að skilyrða umsækjanda að nýta sér rétt sinn samkvæmt frístundakorti til að geta sótt um aðstoð vegna barns. Þetta er sannarlega fagnaðarefni. Drög af breytingum á reglunum eru nú í umsagnarferli.

Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt allt of stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera 10 vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þar sem styrkurinn er aðeins 50.000 geta efnaminni og fátækir foreldrar oft ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

Í gangi er stefnumótunarvinna um frístundakortið. Vonandi er sá hópur að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til. Ég mun áfram halda á lofti tillögum um breytingar sem miða að því að koma frístundakortinu aftur til uppruna síns sem stuðningstæki sem stuðlar að því að öll börn 6-18 ára í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortið er ætlað til jöfnunar og fjarlægja þarf annmarka við reglur kortsins til að börn í öllum hverfum geti nýtt kortið eins og tilgangur þess segir til um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2020


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband