Skjalaskandallinn til borgarlögmanns? Hvort á maður að gráta eða hlægja?

15. janúar 2019 var þessi tillaga mín og Miðflokks um að fela borgarlögmanni að vísa málinu til þar til bærra yfirvalda til rannsóknar felld. Það var okkar mat að það væri eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru, að fá það á hreint af óháðum aðilum hvort um misferli hafi verið að ræða 
 
Málinu er hvergi nærri lokið. Með nýrri skýrslu borgarskjalavarðar um frumkvæðisathugun hennar skellur þetta spillingarmál á okkur aftur eins og höggbylgja og nú verra en áður.
 
Nú er sú hugmynd uppi, hugmynd Sjálfstæðismanna, að málið fari ekki lengra en á borð borgarlögmanns sem rannsaki það sjálfur. Ég veit ekki hvort á að gráta eða hlægja en það hljóta allir að sjá vandamál með hæfi borgarlögmanns hér. En borgarstjóri elskar að sjálfsögðu þessa hugmynd og útilokar hana ekki eins og sagt var í fréttum. Ég tel borgarlögmann fullkomlega vanhæfan vegna innri tengsla í ráðhúsinu og ferlisins við ráðningu hans. 

Frístundakortið ekki fyrir börn fátækra foreldra

Á næsta fundi borgarstjórnar 18. febrúar vil ég ræða enn meira um afbökun reglna frístundakortsins og minna aftur á upphaflegan tilgang þess. Ég mun tengja umræðuna við tillögu mína um að fjölga stöðugildum hjá Leikni sem er lítið íþróttafélag í Efra Breiðholti. Félagið berst í bökkum og er að reyna að halda úti fótboltadeild með aðeins einn starfsmann. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Í sumum öðrum hverfum er notkun Kortsins yfir 90%. Ef horft er á íþróttir einungis þá er notkun þess einnig minnst í hverfi 111 í samanburði við önnur hverfi(aðeins 21% stúlkna og 43% drengja). 

Ég tel að ein af ástæðum þess að börnin eru ekki að nota Frístundakortið í hverfi 111 sé sú að foreldrar sem eru í fjárhagserfiðleikum eru tilneyddir til að nota rétt barna sinn til frístundakortsins til að greiða frístundaheimilið eða tungumálakennslu auk þess sem gefa þarf upp rétt Frístundakortsins til að hægt sé að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir skulda hjá borginni. Svona er nú komið fyrir Frístundakorti barnanna.

Haustið 2018 voru 6.298 börn í 1.-4. bekk. Frístundakortið var nýtt upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra.

Upphaflegur tilgangur Frístundakortin var að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti lagt stund á íþróttir. Árið 2009 var af tilstuðlan VG reglum um Frístundakortið breytt, fyrst þannig að hægt var að nota það til að greiða frístundaheimili en svo var haldið áfram að gengisfella Kortið með því að tengja það við fjárhagsaðstoð og skuldir foreldra. Þar með gat barnið ekki notað það til að greiða með æfingagjöld t.d. til að leggja stund á fótboltaiðkun hjá Leikni. 

Hægt er að fara aðrar leiðir til að hjálpa fólki í fjárhagsvanda en að hrifsa af börnunum rétt þeirra til að nota Frístundakortið. Ég hef bent á styrki á grundvelli 16. gr. A. Eins og staðan er nú er ekki hægt að sækja um styrk samkv. þeirri grein nema uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð og til að uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð þarf að gefa eftir rétt barnsins til Frístundakortsins. Svona ganga nú kaupin á eyrinni fyrir sig í borginni. 

Börn eru á Frístundaheimili til þess að foreldrar geti unnið úti.  Eins og þessum málum er háttað í dag er verið að beita börn efnaminni foreldra órétti. Það er verið að gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

 

 


Skepnurnar í skjól áður en óveðrið skellur á!

Vona að bændur og allir sem bera ábyrgð á dýrum sem eru almennt úti á vetrum komi þeim í skjól fyrir morgundaginn eins og framast er kostur.
Það hefur enginn gleymt hvernig fór fyrir veslings skepnunum í óveðrinu í desemberdýrin


Speak English?

Ég er alin upp í vesturbæ Reykjavíkur og miðbærinn var leiksvæðið mitt. Í hálfa öld hef ég fylgst með miðbænum sem hefur verið í alls kyns birtingarmyndum. Nú er hann að taka á sig mynd sem ekki hefur sést fyrr. Íslendingum hefur fækkað í bænum og nánast hvert sem litið er, á veitingahús eða í verslun er spurt hvort maður tali ensku? "Já ég tala ensku" svo langar mig mjög oft að bæta við, "en þegar ég heimsæki miðbæinn minn langar mig bara helst að tala Íslensku".

Þegar ég kem inn í rammgerða Íslenska verslun eins og Rammagerðina langar mig helst alls ekki að tala ensku við afgreiðslufólkið. En ég verð að gera það því annars skilja þau mig ekki. 

Ég vil að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann með því að auðvelda aðgengi. Til þess að aðkoma að miðbænum sé eftirsóknarverð þarf að létta á umferðinni með því að breyta ljósastýringum og hafa bílastæði tiltæk. Bílastæðahús eru ekki að gera sig fyrir alla.
Það væri líka voða gaman að geta talað móðurmálið í bænum svona alla vega sem oftast.

 

Umræða um lokanir gatna: Laugavegar, Bankastrætis og Skólavörðustígs og þá bláköldu staðreynd að fjöldi fyrirtækja hafa yfirgefið bæinn hefur verið hávær. Verslanir þrífast ekki nema inn í þær komi viðskiptavinir. Eftir að þessum götum lokaði fyrir umferð allt árið um kring hurfu kúnnar og þar með tugir verslana sem nú gera það gott annars staðar þar sem aðgengi er betra fyrir alla.

Í bænum er vissulega fólk á ferð. Þar býr fólk sem er eðli málsins samkvæmt á ferð um bæinn og svo eru það ferðamennirnir sem hefur reyndar fækkað og munu sennilega fækka enn meira t.d. vegna uppkominnar skaðlegrar veiru, sem vonandi verður ekki að faraldri.  

Um fækkun Íslendinga í bæinn er varla lengur deilt. Meirihlutinn í borgarstjórn mótmælir því ekki einu sinni lengur þegar á þetta er minnt. Hann situr bara og þegir. Í borgarstjórn er ég fulltrúi flokks sem var stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara. Áhersla mín sem borgarfulltrúi er á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að einhverjum orsökum. 

Ég og við í Flokki fólksins leggjum  mikla áherslu á að haft sé gott samráð við fólkið en því er ekki að skipta í þessum máli. Þeir flokkar sem eru við stjórn lögðu áherslu á lýðræði og samráð í kosningabaráttunni en það voru og eru bara orð og hafa í raun aldrei verið annað en orð.

Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast engir P-merktir bílar niður neðri hluta Laugavegar eða Bankastrætis sem dæmi. 
Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi því stundum er það einfaldlega þannig að þegar fólk er komið yfir sjötugt þá treystir það sér ekki að ganga langt.

Miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi og fjöri. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna þess að borgaryfirvöld telja að lokanir gatna og breytingar á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur allt árið um kring sé málið. Þetta halda þau af því að svona er þetta t.d. í Osló.

Ef rekstraraðilar finna að þetta hefur haft skaðleg áhrif á viðskipti þeirra og viðskiptavinir segjast ekki treysta sér lengur í bæinn vegna aðgengisvanda hljóta borgaryfirvöld að verða að staldra við og hlusta. Hvers lags yfirvöld eru það sem hlusta ekki á hvar og hvernig hjarta borgarbúa slær?

Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Lengi getur vont versnað. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Ég velti því fyrir mér hvort það bíði Laugavegar það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir rekstraraðila eins og við hljótum öll að muna. 


Borgarmeirihlutinn háður SSH með allar ákvarðanir

Það voru heitar umræður um skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu á fundi borgarstjórnar í gær. Stjórn ætlar ekki að axla ábyrgð nema í orðum í mesta lagi.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína úr borgarráði að stjórnarmaður borgarinnar axli ábyrgð og víki og helst á öll stjórnin að gera það einnig. Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi, stjórnunarhættir eru ámælisverðir, segir í skýrslunni. Skuld er skellt á framkvæmdarstjórann. Hann hefur vissulega mikla ábyrgð en hún er fyrst og fremst að halda utan um daglegan rekstur og vissulega að halda stjórn upplýstri um málefni sem tengjast Sorpu. En stjórnarmenn bera stærstu ábyrgðina. Stjórnarmenn skulu, eins og segir í skýrslu innri endurskoðunar, óska eftir og kynna sér öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem stjórn telur sig þurfa til að stýra fyrirtækinu. Byggðasamlagskerfið er gallað kerfi eins og það er núna ef stjórn stendur sig ekki þá er varla von á góðu. Ekki er langt síða að á fundi borgarstjórnar var leitað samþykkis fyrir ábyrgð á láni til að mæta framúrkeyrslu Sorpu. Nú neyðist meirihlutinn til að skoða málið og treystir sér aðeins til að gera það undir verndarvæng SSH. Það hefði þurft að grípa fyrr í taumanna. Ef borgin ætlar að taka þátt í byggðasamlagi þá þarf hún sem stærsti eigandinn að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við ábyrgð og eignarhald og skipa þarf stjórn sem hefur einhverjar þekkingu á málefnum Sorpu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og breytingatillögu meirihlutans sem meirihlutinn og Sjálfstæðismenn samþykktu:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er út af borðinu enda náði hún ekki nógu langt. Að því leyti er tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram skárri enda meira í takt við tillögu Flokks fólksins frá í september 2019 þess efnis að „borgarstjórn samþykki að aðild borgarinnar að byggðasamlögum verði skoðað með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu borgarbúa að þeim“. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt allt frá upphafi kjörtímabils að byggðasamlög eins og þau starfa nú eru ólýðræðisleg og fjarlæg hinum almenna borgara. Tillaga Flokks fólksins var felld í september og Sjálfstæðisflokkur sat þá hjá. Sá hluti breytingartillögu meirihlutans sem er ásættanlegur er: „að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna til að tryggja hagsmuni eigenda þeirra“. En það sem hugnast ekki Flokki fólksins er samkrull með utanaðkomandi ráðgjöfum og Samtökum Sveitarfélaga. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þessa tillögu meirihlutans. Flokkur fólksins telur borgarmeirihlutann of háðan Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með hin ýmsu mál. Reykjavík er sjálfstætt sveitarfélag, lang stærst og að á gæta fyrst og fremst hagsmuna borgarbúa. Ef byggðasamlag á að vera lýðræðislegt þurfa stjórnunarheimildir að vera í samræmi við ábyrgð en svo eru byggðasamlög náttúrulega ekkert lögmál.


Stjórn Sorpu á að víkja

Það er áberandi í skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu bs að stjórn réði ekki við hlutverk sitt. Innri endurskoðandi vill að stjórn sé skipuð fagfólki en ekki kjörnum fulltrúum. Ég er reyndar ekki sammála því enda hér um að ræða eina af mikilvægustu stofnunum borgarinnar. Aftenging við kjörna fulltrúa gengur því ekki upp. En við lestur skýrslu innri endurskoðunar er alveg ljóst að stjórn er vanhæf og hefur flotið sofandi að feigðarósi.
 
Framkvæmdastjóri hefur gert það líka en hann er látinn taka allan skellinn. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Stjórn hefur skýra frumkvæðisskyldu þegar kemur að öflun upplýsinga samkvæmt eigendastefnu en sinnti henni ekki.
 
Í kjölfar áfellisdóms sem stjórnin fær í skýrslu innri endurskoðunar hlýtur stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu að víkja úr stjórn? Auðvitað hefur borgin ekkert að segja um aðra stjórnarmenn hinna sveitarfélaganna jafnvel þótt borgin sé langstærsti eigandinn. En þetta er einmitt gallinn við byggðasamlög. Stærsti eigandinn greiðir hlutfallslega mest en ræður hlutfallslega minnst. Reykjavík fær ekkert mál í gegn nema tvö önnur sveitarfélög samþykki þau. Þannig eru reglur um byggðasamlög. Hversu lýðræðislegt er það þegar um er að ræða langstærsta eigandann og stærsta greiðandann þegar kemur að því að greiða fyrir framúrkeyrslu tilkomna vegna grófrar vanáætlunar?

Stýrihópur um þjónustu borgarinnar við gæludýr

Eins og margir kannski vita þá hef ég lagt fram nokkrar tillögur er varða gæludýr og hundamál og má sjá þær hér neðar í færslunni. En nú hefur verið stofnaður stýrihópur hjá borginni sem fara á yfir þjónustu borgarinnar við gæludýr. Ég hef spurt formanninn hvort þessi mál sem öllum var vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs muni koma til skoðunar hjá hópnum. Hann svaraði því reyndar ekki en sagði að vinna taki nokkra mánuði og haft verði samráð við hagsmunaaðila. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Samráð þessa meirihluta við hagsmunaaðila hafa hingað til verið meira á orði en á borði.

Tillögur um hunda og gæludýr:
 
13. september 2018 lagði ég fram tillögu um að hunda- og kattahald yrði leyft í félagslegum íbúðum í Reykjavík. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða þar sem hún var í vinnslu heila meðgöngu en var síðan samþykkt.
Undir lok síðasta árs lagði ég fram nokkrar tillögur:
 
Tillögu um að heimilt verði að halda katta- og hundasýningar í íþróttahúsum
 
Tillaga um að rýmri reglur verði fyrir gæludýr í strætisvögnum
 
Tillaga um að Reykjavíkurborg hefði frumkvæði að því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fái undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti og að samþykkt um hundahald verði endurskoðuð m.t.t. undanþágu frá reglugerðinni um:
 
1. Að gæludýr hafi aðgang að kaffihúsum með eigendum sínum þar sem rekstraraðilar leyfa.
2. Gæludýr hafi aðgang að verslunarmiðstöðvum nema annað sé tekið fram.
3. Einnig er lagt til að hundaleyfisgjaldið verði nýtt til að bæta aðstöðu fyrir hundaeigendur í borginni. Gjaldið er nú notað til að greiða starfsemi hundaeftirlits borgarinnar.
 
Tillaga um að hundagjald hundaeigenda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður
 
Tillaga um að hundaeftirlitsgjald verði notað í þágu dýr og eigenda þeirra í ríkari mæli en gert er
 
Tillaga um að lagfæringar verði gerðar á hundasvæðinu í Geirsnefi og sá peningur sem innheimtur er með hundaeftirlitsgjaldi verði nýttur til þess.
 

Færum dýrahald í borginni til nútímans
Gæludýr, þar með taldir hundar og kettir, eru hluti af lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einmana. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli sem og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýna áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrs getur verið djúpstæð. Hundar og kettir eru til dæmis oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nístir þegar gæludýr fellur frá eða er aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra.


Harmageddon í morgun, leikskólamál, byggðasamlög og Sorpa til umræðu

Ég var í viðtali í Harmageddon í morgun. Alltaf svo gaman að hitta strákana þar. Við ræddum styttingu opnunartíma leikskólanna, galla við byggðasamlög fyrir sveitarfélag eins og borgina sem á stærsta hluta í þeim en hefur ekki áhrif í samræmi við það og svo auðvitað málefni Sorpu.

Ég hef sterkar skoðanir á þessu leikskólamáli sem ég byggi mest á þekkingu og reynslu minni sem sálfræðingur og auðvitað reynslu minni sem móður og ömmu. Langflestum börnum þykir gaman á leikskóla enda líður þeim þar vel. Samvera við önnur börn er sérhverju barni bráðnauðsynleg. Ég vil að foreldrar séu hafðir með í ráðum þegar díla og víla á um börn þeirra og leikskólann.

Aðstæður foreldra eru mismunandi og samfélagið verður að bjóða upp á rúmt val. Gleymum því ekki að vegna ófremdarástands í umferðarmálum eru margir foreldrar kannski 45 mínútur að komast frá vinnustað sínum til leikskóla barna sinna. Fæstir vinna á sama stað og þeir búa og flest börn eru í leikskóla í hverfinu sem þau búa.

Ég vil að horft sé á grunnvandann sem er mannekla og undirmönnun. Þetta er áherslan sem meirihlutinn vill ekki ræða. Það er mannekla og undirmönnun í Dagdvöl aldraðra. Er það næsta á dagskrá að stytta opnunartíma þar kannski? Það hljóta allir að sjá á hvað vondu leið við erum í þessum málum. Það kostar að veita góða þjónustu og það er eitthvað sem þessi borgarmeirihluti sem nú ríkir skilur ekki. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og við í Flokki fólksins segjum FÓLKIÐ FYRST!


Lenska að senda framkvæmdastjóra heim en stjórn fríar sig ábyrgð

Ber ekki stjórn fyrirtækis höfuðábyrgð á rekstri þess? Í annað sinn á stuttum tíma er framkvæmdastjóri í fyrirtæki í eigu borgarinnar sendur heim en stjórnarformaður situr sem fastast og stjórnin öll ef því er að skipta. Þetta mátti sjá hjá Félagsbústöðum en þar pakkaði framkvæmdastjóri saman en stjórnarformaður til langs tíma sat sem fastast og situr enn. Nú er sama upp á teningnum hjá Sorpu.

Skýrsla innri endurskoðunar er komin út og er svört. Ekki ætla ég á þessu stigi að setja mig í dómarasæti en mér finnst skjóta skökku við að framkvæmdarstjóri taki alla ábyrgð á mistökum, klúðri eða hvað eina sem þarna hefur verið í gagni á meðan stjórn fríar sig ábyrgð. 

Í morgun lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði:

Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt.
Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum Sorpu. Í skýrslunni koma fram  ástæður fram­úr­keyrslu sem varð á áætl­uðum fram­kvæmda­kostn­aði vegna bygg­ingar gas- og jarð­gerð­ar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­á­ætlun fyr­ir­tæk­is­ins vegna næstu fjög­urra ára.  Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar gerði jafn­framt úttekt á stjórn­ar­háttum félags­ins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Í kjölfari áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.

 

Greinargerð

Í skýrslunni eru marg­hátt­aðar athuga­semdir. Á meðal þess sem fram kemur í skýrsl­unni að stýri­hópur eig­enda­vett­vangs og rýni­hópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eft­ir­lit með verk­efn­inu, hafi reynst lítt virk­ir. Þá hafi fram­vindu­skýrslur fram­kvæmda­stjóra til stjórnar vegna bygg­ingar GAJA verið ómark­vissar og stundum með röngum upp­lýs­ing­um, auk þess sem skýrslu­gjöf hefði átt að vera reglu­bundn­ari. Í skýrslu innri endurskoðunar segir m.a.: „Full­nægj­andi upp­lýs­inga­gjöf og mis­vísandi orða­notkun í skýrslum til stjórnar var sér­stak­lega óheppi­leg þar sem stjórn Sorpu var að meiri­hluta skipuð nýjum full­trúum eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018 auk þess sem nýr for­maður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn.“

Varla er búið að gleyma því að stjórn Sorpu óskaði nýlega eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt var um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Engar haldbærar skýringar voru gefnar fyrir því að það vantaði rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Stjórnarmeðlimur borgarinnar í Sorpu var bara pirruð á minnihlutanum að samþykkja þetta ekki möglunarlaust í borgarstjórn. Meirihlutinn í borginni spurði einskis, gekk bara þegjandi í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í ítrekuðu klúðri Sorpu kristallast þetta. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera í byggðasamlagi þá þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórnarmaður borgarinnar þarf einnig að vera manneskja sem er laus við meðvirkni og er tilbúin að spyrna við fótum sé eitthvað rugl sýnilega í gangi.

Tillögunni var frestað

Það sem svo gerist er að hún er tekin fyrir næst og felld eða vísað frá sorp


Mér finnst talað niður til foreldra í þessu máli, þeir alla vega ekki spurðir um neitt

Vanmetum ekki foreldra

Vísbendingar eru um að meirihlutinn í borginni endurskoði ákvörðun sína um styttingu opnunartíma leikskóla. Fram hefur komið að nú eigi að gera jafnréttismat og hafa samráð við foreldra sem ekki var gert áður en þessi ákvörðun var tekin. Fram hefur einnig komið að þessi ákvörðun verði ekki staðfest í borgarráði 23. janúar eins og upphaflega stóð til. Tilkynnt hefur verið að þessi breyting taki ekki gildi 1. apríl eins og upphaflega stóð til.

Ákvörðun um styttingu opnunartíma leikskóla var samþykkt í skóla- og frístundarráði fyrir stuttu og kom flestum á óvart. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Rökin fyrir ákvörðuninni eru sett í tilfinningalegan búning og tengd við hvað sé barni fyrir bestu. En um það er varla deilt. Hin raunverulega ástæða tel ég vera viljaleysi borgaryfirvalda að hækka laun og bæta aðstæður starfsmanna á leikskólum.

Hagsmunir barna ráða för

Foreldrar þekkja börn sín, líðan þeirra og þarfir. Sjái foreldrar að níu tímar á dag er of mikið fyrir börn sín á leikskóla bregðast flestir við með því að sækja þau fyrr alltaf þegar þau geta það. Ekki á að vanmeta foreldra eða ganga út frá því að þeir vilji geyma barnið sitt sem lengst í leikskólanum. Börn eru misjöfn í eðli sínu og á þeim er dagamunur eins og gengur. Langflestum börnum þykir gaman á leikskóla enda líður þeim þar vel. Samvera við önnur börn er sérhverju barni bráðnauðsynleg. En áríðandi er, sýni barn leiða og þreytu síðasta klukkutímann í leikskólanum, að foreldrar séu upplýstir um það til að geta leitað annarra leiða þótt ekki væri nema hluta vikunnar. Hagsmunir barna eiga ávallt að ráða för.

Það er ekki hlutverk skóla- og frístundarráðs að ala upp foreldra þótt vissulega sé sjálfsagt að koma með ábendingar. Ákvörðun sem þessi hefur víðtæk áhrif á vinnumál mjög margra foreldra.  Kerfisbreytingin mun  leiða til aukins ójafnvægis og álags fyrir hóp foreldra nema hún sé tekin í samráði við alla hlutaðeigandi aðila. Hún þarf einnig að vera tekin í takti við aðstæður foreldra, atvinnulífið og umræðuna um styttingu vinnuvikunnar. Stytting vinnuviku er nú eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar. Vegna þess hversu aðstæður eru mismunandi hjá foreldrum er mikilvægt að hafa val. Hvort félagsþjónustan geti fundið viðeigandi lausnir fyrir þá foreldra sem lenda í vandræðum verði opnunartími leikskóla styttur er stór spurning.  Það er heldur ekki lausn að setja ábyrgðina um sveigjanlegan opnunartíma í samræmi við þarfir foreldra alfarið á herðar leikskólanna eins og Sjálfstæðisflokkur lagði til í borgarstjórn. Ef öllum foreldrum stendur ekki til boða sami opnunartími býður það upp á hættu á mismunun. Ráðast þarf að rót vandans sem er mannekla og rót mannekluvanda eru lág laun í leikskólum. Einnig þarf að finna leiðir til að létta á álagi og má gera það t.d. með því að vaktaskipta deginum. Lítið pláss og mannekla einkenna leikskóla og það hefur neikvæð áhrif á börn og starfsfólk. Áherslan ætti að vera á að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei  í leikskólastarfi.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

 


Hundaeftirlitið barn síns tíma

Það þarf að skoða hundamálefni borgarinnar ofan í kjölinn með það fyrir augum að færa allt dýrahald til nútíðar. Ég vil að innri endurskoðandi fari í rekstrarúttekt á hundaeftirliti Reykjavíkur. Ég hef sent beiðni um það á skrifstofu innri endurskoðanda og lagði eftirfarandi tillögu fram í borgarráði í gær:

Tillaga Flokks fólksins að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirliti Reykjavíkur.

Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfalt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda.

 


Leigubílanotkun embættis- og starfsmanna borgarinnar

Þegar ég mæti á viðburð t.d. opnun af einhverju tagi hjá borginni þá sé ég ávallt nokkra leigubíla koma með starfsmenn borgarinnar. Stundum er bara einn starfsmaður í bíl.

Í gær á fundi velferðarráðs lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fyrirspurn Flokks fólksins um leigubílanotkun velferðarsviðs og ráðs
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðasviðs.

Stórkostlegt tap bílastæðasjóðs?

Tvær af mjög góðum tillögum Flokks fólksins voru látnar róa á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun. Önnur var að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar. Hin að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar erlendis úr eigin vasa.
Ég á ekki sæti í skipulags- og samgönguráði en fæ sem betur fer tækifæri til að bóka afstöðu Flokks fólksins á fundi borgarráðs á morgun þegar fundargerð skipulagsráð verður lögð þar fram.
Þær bókanir verða svona:
 
Meirihlutinn í skipulagsráði hefur fellt tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum um helgar. Rökin eru að tillagan kalli á tekjutap bílastæðasjóðs. Hér má benda á að bærinn hefur tæmst af Íslendingum og þ.m.t. eldri borgurum. Þeim finnst aðgengi flókið, erfitt að fá stæði og eiga erfitt með að átta sig á nýjum stöðumælum. Það er sorglegt að sjá hvernig miðbærinn er orðinn að draugabæ nema á tyllidögum. Kannski fáeinir eldri borgarar hefðu nýtt sér frí stæði í bílastæðahús bæjarins hefði þessi tillaga orðið að veruleika og því enginn ástæða fyrir meirihlutanna að óttast að bílstæðasjóður beri stóran skaða af þótt þessi tillaga hefði verið samþykkt.
 
Tillaga um kolefnisjöfnuð úr eigin vasa hefur verið vísað frá af meirihlutanum í skipulags- og samgönguráði á þeim rökum að fagráð setji ekki reglur um hvernig fólk ráðstafi launum sínum. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutanum finnist borgarfulltrúar merkilegri en alþingismenn? Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á þingi af forseta Alþingis. Meirihlutinn ferðast á kostnað borgarbúa á sama tíma og hann kvartar yfir mengun frá bílum. Það er ekki nóg að setjast á hjólið og telja sig þá vera búinn að leggja sitt af mörkun til umhverfismála

Er borgin að virða lög?

Á morgun fer ég á fund skipulags- og samgönguráðs. Eitt af þeim málum sem ég mun leggja fram er fyrirspurn vegna nýrra umferðarlaga og varðar heimild fyrir p merkta bíla að aka göngugötur og leggja þar. Þessu viljum við í Flokki Fólksins fylgja fast eftir.

Hér er fyrirspurnin:
Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?

Yfir 600 börn bíða eftir sérfræðiþjónustu skóla

Á fundi velferðarráðs í desember voru lagðar fram biðlistatölur barna sem bíða eftir sérfræðiþjónustu skóla. Það eru 489 börn sem bíða eftir fyrstu þjónustu og 340 börn sem bíða eftir frekari þjónustu. Alls eru því 641 barn að bíða. Með sérfræðiþjónustu skóla er átt við sálfræðiviðtöl, kennslufræðilegt mat, talkennslu og sértækar greiningar á vanda barnanna sem foreldrar, kennarar og fleiri telja að barnið þurfi nauðsynlega á að halda. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram formlega fyrirspurn um stöðu barnanna sem bíða eftir þessari þjónustu og sundurliðun á ástæðu tilvísunar.

Grípa verður til aðgerða
Ráðast verður til atlögu með markvissum og kerfisbundnum hætti til að stytta biðlista. Það verður einungis gert með því að fjölga fagfólki skólanna og skipuleggja störfin þannig að meiri skilvirkni náist. Við síðari umræðu um fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar lagði Flokkur fólksins fram fimm breytingartillögur. Ein þeirra var tillaga um að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar til að stytta biðlista. Lagt var til að ráðið yrði fagfólk tímabundið, tveir sálfræðingar og einn talmeinafræðingur til eins árs. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. Tillagan var felld.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lengi talað fyrir að aðsetur skólasálfræðinga sé í skólunum þar sem sálfræðingarnir eru nálægt börnunum og til stuðnings og ráðgjafar við kennara og starfsfólk. Það myndi bæta skipulag og auka skilvirkni. Bið eftir þjónustu skapar óvissu og veldur börnum og foreldrum þeirra oft miklu álagi. Það hafa ekki allir foreldrar ráð á að leita sér aðstoðar með börn sín hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott aðgengi að allri þjónustu borgarinnar þar með talið sérfræðiþjónustu skólanna.
 


Metantillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn í júní skilar árangri

Strætó bs. skoðar nú fýsileika þess að metanvæða hluta
af bílaflota fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta mikla umframframleiðslu Sorpu bs. á gastegundinni. Nýlega festi Strætó kaup á tveimur metanvögnum. Annar þeirra var tekinn í notkun í byrjun september og hefur reynslan af akstrinum verið góð.

Þetta er fagnaðarefni sér í lagi að þetta er einmitt tillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júní 2019 og hljóðar þannig að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Ég vil bara trúa að þessi tillaga hafi haft þessi áhrif. Henni var vísað til stjórnar Strætó bs. Auðvitað mun Flokkur fólksins aldrei fá neina staðfestingu á því að þessi tillaga hafi leitt til frekari skoðunar á málinu með þessari góðu niðurstöðu. 

Ég hef fylgt eftir þessari tillögu  í fjölmörgum bókunum um orkuskipti, nota öll tækifæri til að minnast á metan sem framleitt er mikið af en brennt á báli þar sem ekki er hægt að hleypa því út í andrúmsloftið. Því er það  svo upplagt að nota það á strætisvagna og þess vegna lagði ég þetta til

 

Hér er tillaga í heild sinni ásamt greinargerð og bókun mín við afgreiðslunni:

Borgarstjórn
18. júní 2019
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Strætó á nú tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er metan sem ekki selst brennt á báli. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs nýti metan sem byggðasamlagið Sorpa framleiðir en nýtir ekki.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er hins vegar dýr, en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn.

Greinargerð

Í ljósi þess að  metan er til og ekki nýtt er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti.

Nokkur orð um metan.
Metangas  myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni. Í Álfsnesi er lífrænt sorp urðað og þar myndast metangas og því gasi er safnað. Metanið er orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða um 30 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Sé það ekki nýtt er betra að  brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa.

Eins og framan greinir kom fram í svari frá Strætó bs við fyrirspurn borgarfulltrúa um málið að fyrirtækið hefur óskað eftir tilboðum í vetnisbíla en ekki metanbíla þótt  nóg sé til af metani. Það er vægast sagt sérkennilegt.

Skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist  fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Þar sem Reykjavíkurborg á meirihlutann í báðum þessum byggðasamlögum, Strætó bs og Sorpu ætti borgin að geta haft einhverja skoðun á því hvernig þeim er stjórnað þegar kemur að hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki geta selt allt það metangas sem hún framleiðir og í þess stað þurfi að brenna því engum til gagns. Það er óskiljanlegt af hverju annað fyrirtækið geti ekki nýtt sér það sem hitt framleiðir, fyrirtæki sem  bæði eru að stórum hluta í eigu borgarinnar.

Rökrétt er að reyna að nýta metangasið á stóra bíla, þar sem illa hefur gengið að koma því á almenna bílaflotann. Að nota gasið á strætisvagnana er því sjálfsagt mál. Það er sóun að brenna gasinu til einskis nema í þeim tilgangi að minnka gróðurhúsaáhrifin að sjálfsögðu.  Metangassöfnun í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra og hefur varla minnkað síðan. Þarna er nægt gas til að nýta á fjölmarga strætisvagna sé vilji til.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillögunni er vísað til stjórnar Strætó bs og vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs fái upplýsta umræðu þar.

Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnibíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá  hvernig  metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.   Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en  svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Mynd 4 17.12

 

 


Frítt að borða í skólum. Reykjavík er nískasta sveitarfélagið

Enn eitt sveitarfélagið hefur ákveðið að bjóða grunnskólabörnum fríar skólamáltíðir. Ég hef reynt þetta tvisvar í Reykjavík með tillögu um alveg fríar máltíðir og tvisvar um lækkun bæði þriðjungs- og helmingslækkun en án árangurs. Síðasta tilraun sem Flokkur fólksins gerði var 3. des í síðari umræðu um fjárhagsáætlun og sjá má hér hvernig atkvæði féllu. Hér er tillagan og sjá má hvernig atkvæði féllu:
 
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar. Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr. á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.
Greinargerð fylgir tillögunni (sjá hana á kolbrunbaldurs.is).

Tillagan er felld með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Fríar skólamáltíðir  á Hellu

Borgarbúar komnir með upp í kok af umferðartöfum

Allar þrjár umferðartillögur Flokks fólksins sem miðast m.a. að bættu umferðarástandi við Hörpu voru felldar í skipulags- og samgönguráði í morgun.
Lagt var til :
1) Að umferðarflæði verði bætt í borginni með því að vinna betur við ljósastýringu og að gera fráreinar án ljósa við hægri beygju þar sem hægt er

2) Að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn

3) Að taka svæðið Geirsgata, Kalkofnsvegur móts við Hörpu til endurskoðunar til að lágmarka tafir
Sjá greinargerðir á kolbrunbaldurs.is borgarráð 28. nóvember

Halda mætti að skipulagsyfirvöld vilji hafa þarna kaos til að fæla frá þá sem koma akandi.
Hvernig á annars að túlka þetta?

Hér eru bókanir:
Bókun umferðartillaga 1
Það er ábyrgðarleysi ef skipulagsyfirvöld í borginni ætla ekki að taka á þeim umferðarvanda sem er í miðborginni. Ekki gengur að stinga hausnum í sandinn. Umferðartafir eru komnar upp í kok á borgarbúum og borgaryfirvöld reyna að láta sem ekkert sé. Haldi sem horfi á þetta eftir að stórskaða miðborgina og fólk einungis að mæta á svæðið sé það tilneytt. Tillögur Flokks fólksins sem hér eru lagðar fram eru til að bæta það sem hægt er að bæta og þá er fyrst að nefna að leiðrétta ljós og gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut þótt enginn sé að fara yfir er ekki til að bæta útblástursvanda. Skipulagsyfirvöld eru sífellt að kvarta yfir bílum og bílamengun en gera svo ekkert til að draga úr slíku öðruvísi en að vilja banna öll ökutæki í bæinn. Það er afleitt að bílar bíði í röðum eftir að taka af stað þegar engin ástæða er til? Því hefur verið fleygt fram að skipulagsyfirvöld í borginni skapi þennan vanda að ásettu ráði svo hægt sé að draga upp en svartari mynd af „bílnum í miðborginni“. Það eru hæg heimatökin þegar kemur að skynsamlegum lausnum eins og tímastillingar ljós og hægri beygjuslaufur eins og t.d. fram hjá ljósunum af Kalkofnsvegi inn á Geirsgötu.

Bókun við umferðartillögu 2
Það kemur á óvart að skipulagsyfirvöld sjái ekki hvernig gönguljós sem loga þótt enginn sé að fara yfir telur umferð og eykur á mengun. Ljósastýring á þessu svæði er öll í ólestri, ekkert samhengi er milli þeirra og þess vegna er endalaus umferðarteppa á þessu svæði. Ein af gönguþverunum þarna er með ljósastýringu og eru gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Hér skortir alla heilbrigða skynsemi og spurt er hvort þetta sé gert af ásetningi, til að stöðva akandi umferð að óþörfu. Engin hefur farið varhluta af andúð skipulagsyfirvalda borgarinnar og formanns skipulagsráðs hvað helst gegn heimilisbíl fólks og skilaboðin að akandi fólk er ekki velkomið í bæinn eru ítrekað send út. Með þessu áframhaldi munu fleiri verslunar- og rekstraraðilar skaðast og ef ekki verður úr bætt mun þeim fækka enn meira öðrum en þeim sem ferðamanna halda gangandi.

Bókun við umferðartillögu 3
Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld og borgarmeirihlutinn í borgarstjórn hafa brugðist skyldum sínum að sjá til þess að umferðarflæði í borginni sé viðunandi með því að fella þessa tillögu. Ástandið er ekki síst slæmt víða í miðborginni en einnig annars staðar. Með snjallljósastýringu og betur stilltum ljósum væri hægt að bæta verulega flæði. Hægri slaufubeygja er einnig möguleiki sem breytt gæti umferð til hins betra. Fráreinar án ljósa er víða hægt að koma við væri vilji til þess sem myndi bæta flæði til muna og þar með draga úr útblæstri bíla. Ástandið við Hörpu er ekki boðlegt sér í lagi nú á meðan framkvæmdir eru einnig í gangi á þessu svæði. Bílar sitja fastir þarna á stuttu svæði oft í langan tíma. Á meðan ekki annar ferðakostur er fyrir fólk sem kemur lengra frá er ekki hægt að bjóða upp á svona ófremdarástand á svæði sem geymir megnið af menningu og skemmtanalífi borgarinnar. Taka þarf þetta svæði til athugunar með það fyrir augum að leysa málið en ekki gera það verra. Flokkur fólksins kallar eftir að borgarmeirihlutinn sýni hér skynsemi og taki ábyrgð.
umferð hjá hörpu1

JUST BROWSING skilar ekki pening í kassann

Það er eiginlega bara átakanlegt að hlusta á viðtöl við rekstrar- og verslunareigendur við Laugaveginn í þætti á Hringbraut þegar þeir lýsa hvernig fólkið sem býr í landinu treystir sér ekki inn á þetta svæði lengur vegna þess að aðgengi er slakt og erfitt að finna bílastæði utandyra. Bláköld staðreynd er sú að ekki allir treysta sér í bílastæðahús. 
Allt er gert af borgaryfirvöldum til að útiloka þá sem koma á einkabíl sínum í bæinn. Meirihlutinn í borgarstjórn er andvígur bílum í miðbæinn, vilja hann burt. Þessi stefna gengur ekki ef við viljum fá Íslendinga í miðbæinn eins og áður var. 
Þetta er ekki bara röfl í Flokki fólksins í borgarstjórn þegar við segjum að bærinn okkar er að verða einsleitur, í honum eru bara ferðamenn og þeir sem koma til að skemmta sér. Þetta er bláköld staðreynd. Ég óttast að fleiri verslanir taki á flótta en nú þegar hafa tugir verslana flúið. Og hvað með Kolaportið þar sem m.a. öll þessi fallega prjónavara er til sölu. Þar er fátt um landann eftir því sem ég frétti þegar ég fór í heimsókn þangað um daginn.

Meira segja litla Jólabúðin þrífst illa, engir Íslendingar, ferðamenn koma sem kaupa oft ekki neitt, og sama á við um aðrar verslanir, just browsing! en það skilar engu í kassann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband