Brauð og bjór í Bónus?
5.6.2019 | 07:28
Reglulega liggur fyrir Alþingi áfengisfrumvarp í einni eða annarri mynd sem miðar að því að auka sölu áfengis. Einnig liggur fyrir borgarstjórn tillaga Sjálfstæðismanna að borgarstjórn samþykki að hvetja Alþingi til að auka frelsi á áfengismarkaði. Ýmsar spurningar vakna þegar þessi umræða hefst eins og hvort einhverjum finnist í alvöru að drukkið sé of lítið áfengi á Íslandi eða hvort okkur finnist sala áfengis of lítil eða hvort fólki finnist áfengi ekki nógu aðgengilegt? Spyrja má einnig hvort þetta sé mál málanna, jafnvel forgangsmál hjá einhverjum stjórnmálamönnum eða flokkum?
Áfengislög eru í landinu og þetta mál er fyrst og fremst málefni þingsins en ekki borgarinnar. Það væri sérkennilegt ef borgaryfirvöld ættu frumkvæði að því að ýta við þinginu um að koma áfengi í hverfisverslanir eins og tillaga Sjálfstæðismanna í borginni gengur út á. Borgin sem ber ábyrgð á að annast og mennta börnin fer varla að hvetja til aukins aðgengis að áfengi?
Skilaboð frá stjórnmálamönnum skipta máli
Það er ekki ný saga að stjórnmálamenn stökkvi fram á sjónarsviðið með tillögur sem lúta að því að auka aðgengi að vímugjöfum t.d. áfengi og kannabis. Skemmst er að minnast frumvarps fyrrverandi þingmanns Viðreisnar og núverandi borgarfulltrúa sama flokks að lögleiða kannabis. Nú er það tillaga Sjálfstæðismanna í borginni að vilja vín í borg eins og þau orða það sjálf, eða áfengi í hverfisverslanir.En einn stjórnmálamaðurinn að þessu sinni Pírati tjáði sig nýverið um vímuefnamál samfélagsins og sagði það vera einhvern grundvallarmisskilning yfirvalda að samfélagið vilji vera vímulaust. Þetta sagði hann í samhengi við umræðu um skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem rætt er um smygl glæpagengja á stórhættulegum efnum. Auðvitað vill samfélagið vera laust við slíkan ófögnuð!
Við hvorki eigum né megum normalisera þessa hluti. Sem sálfræðingur með reynslu bæði að því að starfa í fangelsum landsins og á Stuðlum sem og áratuga reynslu af því að vinna með unglingum finnst mér tal um að vilja ekki vímulaust samfélag ábyrgðarlaust. Tillögur um að auka aðgengi að áfengi og kannabis eru að sama skapi ábyrgðalausar. Þetta eru ekki góð skilaboð til unglinga sem við viljum að fresti eins lengi og mögulegt er að byrja neyslu t.d. áfengis, ef þeir ætli sér þ.e.a.s. að neyta þess á annað borð. Í svona tillögum eru aldrei reifuð mótrök. Ekki er minnst orði á hagsmuni og velferð barna þegar hvatt er til að auka aðgengi að áfengi.
Samfélagið verður aldrei vímulaust
Samfélagið verður aldrei vímulaust en við getum ákveðið hvaða fyrirkomulag við viljum hafa með sölu vímugjafa og aðgengi að þeim. Það fyrirkomulag sem er núna er kannski bara ágætt. Það er engin nauðsyn að geta bæði keypt brauð og bjór í Bónus. Það eru nógu margar áfengisverslanir í Reykjavík og aðgengi að þeim er ágætt.
Það er kannski heldur engin knýjandi þörf á því að styrkja hverfisverslanir sérstaklega með því að leyfa þeim að selja áfengi. Kaupmenn í hverfisverslunum mundu varla taka að sér að upplýsa kaupendur um skaðsemi áfengis eða rannsaka skaðsemi þess. Ungmenni sem starfa á kössunum geta varla borið ábyrgð á að spyrja um skilríki.
Ekki rugga bátnum að óþörfu
Ég er hrædd við að færa verslun áfengis í almennar verslanir, sama hvaða verslanir það eru hvað þá að lögleiða kannabis Ég eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi má tel að með þessari breytingu á fyrirkomulagi eða lögleiðingu á kannbis muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum; minnkandi unglingadrykkja og öðrum góðum árangri, vera stefnt í voða. Aukið aðgengi gæti leitt til aukinnar neyslu. Fyrir suma unglinga er áfengi fyrsta efni sem neytt er áður en farið er út í sterkara efni.
Óhætt er að fullyrða að samfélagið vill vera laust við hættuleg efni sem m.a. glæpahringir flytja inn í landið. Margir foreldrar eru uggandi um velferð barna sinna þegar kemur að áfengi og vímuefnum og neyslu þeirra. Okkur ber að gæta orða okkar. Við sem erum í stjórnmálum eigum að vera góðar fyrirmyndir og ávallt að hafa hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Okkar verkefni er að sinna forvörnum af kappi og gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þeim sem ánetjast áfengis- og vímuefnum.
Greinin er einnig birt á visi.is
Nenni ekki einhverri sýndarmennsku-vinnu í borginni
31.5.2019 | 17:50
Ég sé ekki ástæðu, a.m.k. ekki eins og sakir standa til þess að taka þátt í endurskoðun siðareglna fyrir kjörna fulltrúa í borgarstjórn.
Ástæður eru eftirfarandi:
1. 1. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram drög að samstarfsreglum sem ekki er tekið tillit til í vinnu um endurskoðun siðareglna í borginni að heitið geti
2. 2. Borgarfulltrúi er ósáttur við að meirihlutinn skyldi einhliða samþykkja svokallað bráðabrigðarverkferli til að auðvelda og hvetja starfsmenn borgarinnar að kvarta yfir kjörnum fulltrúum jafnvel þótt sýnt sé að slíkt ferli gengur ekki upp vegna ójafnrar stöðu aðila. Einnig hvöttu borgaryfirvöld kjörna fulltúa að kvarta yfir almennum starfsmönnum finnist þeim ástæða til. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki sanngjarnt gagnvart hinum almenna starfsmanni borgarinnar einnig vegna ójafnrar stöðu aðila
3. 3. Borgin hefur sjálf ekki virt núgildandi siðareglur. Í skýrslum m.a. um braggann eru dæmi um að siðareglur hafa ítrekað verið brotnar sbr. brot á sveitarstjórnarstjórnarlögum, skjalavörslulögum, og innkaupareglum, en í siðareglum 2. grein er kveðið á um að hafa í heiðri heiðarleika, rækja störf sín af ábyrgð, og forðast að aðhafast nokkuð það sem er til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein sem unnið er við. Starfsfólk skal ekkert aðhafast sem falið getur í sér misnotkun á almannafé, eins segir í núgildandi siðareglum.
4. Sú vinna sem fram hefur farið hvað varðar endurskoðun siðareglna finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins í ljósi ofangreindra atriða því hafa verið mest sýndarmennska meirihlutans
Ekkert lát á valdníðslu á fundum í borginni
31.5.2019 | 13:05
Það fauk í mig sem sjá má í bókun um fundarsköp:
Biðlista-meinsemdin í Reykjavík rótgróin
28.5.2019 | 13:42
Af og til berast fréttir af óánægju kennara og foreldra vegna óboðlegra aðstæðna í skólum borgarinnar sem koma m.a. niður á börnum með sérþarfir. Nýlegar fréttir um mál af þessu tagi komu frá Dalskóla. Þar er húsnæðið sprungið og byggingarframkvæmdir hafa dregist á langinn. Ástandið kemur illa niður á nemendum og ekki síst börnum með sérþarfir. Í Dalskóla er engin aðstaða fyrir sérkennslu og börnin hafa engan stað til að vera á, eins og segir í frétt um skólastarfið.
Óvissa fer sérlega illa í börn með sérþarfir. Ástand sem þetta ýtir undir kvíða sem hefur áhrif á líðan barna í skólanum. Foreldrar eru orðnir langþreyttir og hafa sumir þess vegna sótt um pláss fyrir börn sín í öðrum skólum. Að sækja um pláss fyrir barn með sérþarfir í öðrum skóla er ekki einfalt mál. Þeir fáu sérskólar og sérdeildir sem rekin eru í Reykjavík eru full og biðlistar langir.
Vaxandi vanlíðan barna hefur verið mikið til umræðu í vetur. Birtar hafa verið niðurstöður kannana og einnig kom út skýrsla frá landlæknisembættinu þar sem fram komu upplýsingar um aukna vanlíðan nemenda í skólum. Skólaforðun er vandi sem hefur farið vaxandi samhliða aukinni vanlíðan barna í skólum sínum. Í gögnum landlæknis segir að rúmlega 9% ungmenna á Íslandi hafi gert tilraun til sjálfsvígs.
Tillögur að úrbótum og lausnum ýmist felldar eða vísað frá
Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur í borgarstjórn sem lúta að aðgengi barna að sérfræðiþjónustu og tillögur um fjölgun eða stækkun sérskólaúrræða. Tillögur hafa ýmist verið felldar eða þeim vísað frá.
Snemma á nýju kjörtímabili lagði ég fram tillögu um að skólasálfræðingur skyldi vera í sérhverjum skóla í a.m.k. 40% starfshlutfalli.
Þá lagði ég fram tillögu um biðlistalaust aðgengi barna að sérfræðingum borgarinnar. Það er á ábyrgð skóla- og frístundaráðs að tryggja aðgengi barna að skólasálfræðingum og að í skólum starfi nægjanlega margir sálfræðingar og aðrir sérfræðingar til að sinna ólíkum náms- og félagslegum þörfum barnanna. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í langan tíma. Skóli án aðgreiningar virkar einmitt ekki sem skyldi vegna þess að í hinu almenna skólakerfi er ekki fjölbreytt flóra fagfólks til að sinna börnum með ólíkar þarfir.
Allir vita að talmeinavandi sem ekki er meðhöndlaður af fagaðila getur brotið niður sjálfstraust barns. Á vorönn lagði ég fram tillögu um að borgarstjórn samþykkti að grunnskólar í Reykjavík sæju börnum fyrir áframhaldandi talmeinaþjónustu í grunnskóla væri það faglegt mat að frekari þjónustu væri þörf.
Nokkrar tillögur sem snúa beint að sérskólaúrræðum hafa verið lagðar fram í vetur. Lagt var til að fleiri sérskólaúrræði eins og Klettaskóli yrðu sett á laggirnar þar sem hann er sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og félagslegum þörfum þess er mætt. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín og vita hvað hentar þeim náms- og félagslega.
Þá freistaði Flokkur fólksins þess að leggja til að breyta inntökureglum í þátttökubekk Klettaskóla þannig að þær verði rýmkaðar og þátttökubekkjum fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekk þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng skilyrði og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín. Aðsókn væri meiri án efa ef skilyrðin væru ekki svona ströng. Vitað er að hópur barna berst í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu.
Ofangreindar tillögur hafa ekki hlotið hljómgrunn hjá meirihlutanum í borginni.
Nýlega lagði Flokkur fólksins til að byggt yrði við Brúarskóla til þess að hann gæti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla, sem er í Vesturhlíð, er afar hentug fyrir skóla eins og Brúarskóla þar sem staðsetningin er ótengd m.a. íbúðarhverfi og verslunum. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er eini sinnar tegundar. Í honum stunda nám börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana. Þessari tillögu var vísað til skóla- og frístundarráðs.
Biðlistar rótgróið vandamál í Reykjavík
Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir sérfræðiþjónustu af neinu tagi en biðin eftir að komast til sálfræðings, ýmist í viðtöl eða í greiningu, og til talmeinafræðings er stundum margir mánuðir. Biðlistar eru tilkomnir af því að þjónusta við börn hefur ekki fengið nægjanlegt fjármagn. Þessi málaflokkur hefur verið sveltur. Barn sem er sett í þær aðstæður að stunda nám þar sem það fær þörfum sínum ekki mætt og er ekki meðal jafningja á á hættu að veslast smám saman upp andlega. Einn góðan veðurdag neitar þetta barn kannski að fara í skólann. Þetta barn er einnig í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna síðar ef aðstæður hafa verið því óhollar um langan tíma.
Tafagjald kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna
26.5.2019 | 11:48
Andúð borgarmeirihlutans á einkabílnum birtist í því að allt skal gert til að útiloka ökutæki frá miðbænum sama hvort þau eru vistvæn eða ekki. Þeir sem vilja aka vistvænum bílum fá enga hvatningu en eins og menn muna voru reglur um bílastæðaklukku vistvænna bíla þrengdar verulega fyrir nokkrum árum. Ekki er heldur nein hvatning fyrir þá sem eiga eða vilja eignast rafbíla. Bíll er bíll í augum þeirra sem stýra borginni sama hvernig hann er knúinn og hann er ekki velkominn í miðbæinn.
Nú er það komið í umræðuna að setja tafagjöld á þá staði þar sem verða miklar umferðarteppur á álagstíma, einnig á umhverfisvæna bíla. Þessa hugmynd kom formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur með heim af umhverfisráðstefnu frá Osló en þar vorum við oddvitar, borgarstjóri og fleiri sem tengjast skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík.
Samráð við borgarbúa?
En Reykjavík er ekki Osló. Reykjavík er langt á eftir Osló hvað varðar t.d. almenningssamgöngur. Þessar borgir eru því engan veginn sambærilegar. Ég óttast mjög að meirihluti borgarinnar verði búinn að setja á tafagjöld áður en við náum að snúa okkur við og án mikils eða nokkurs samráðs við borgarbúa. Lítil hugsun virðist vera um hvernig slík gjöld munu koma við þá sem minnst hafa milli handanna eða þá sem koma akandi lengra frá eða þá sem vilja og þurfa að nota bílinn sinn og eiga erindi í bæinn ýmist í vinnu eða til að sinna öðrum erindum. Ekki má heldur gleyma þeim sem eiga erfitt með hreyfingu en langar af og til að koma í miðborgina. Aðgengi er nú þegar víða slæmt og tafir oft óhjákvæmilegar. Tafagjald er við þær aðstæður ekki sanngjarnt fyrir þennan hóp.
Í samtali sem ég átti við nokkra ráðamenn í Osló um tafagjöld kom fram að það skiptir öllu máli þegar um svo stóra ákvörðun er að ræða sem snertir marga eins og að setja á tafagjald að það sé gert að vel athuguðu máli og í samráði og sátt við borgarbúa. Að ætla að keyra eitthvað í gegn með látum og hörku kallar á reiði fólks og veldur óöryggi. Kannski búa valdhafar borgarinnar meira og minna miðsvæðis og eiga því erfiðara með að setja sig í spor þeirra sem búa í úthverfum og vilja nota bílinn sinn? Loks er ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvað varð um loforð meirihlutans um að hafa notendasamráð ávallt að leiðarljósi við stjórn borgarinnar. Nýjasta dæmið um skort á samráði er ákvörðun um að loka götum í miðbænum varanlega án mikils samráðs. Hagsmuna- og rekstraraðilar fullyrða að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við þá hvað varðar varanlega lokun vinsælustu gatnanna í miðbænum.
Grein á visi.is
Everest, sport ríka fólksins
25.5.2019 | 19:41
Ég er að reyna að skilja þessa löngun að fara á topp Everest svona út frá sálfræðilegu sjónarmiði. Þetta er lífshættulegur leiðangur sem kostar auk þess mikið og því aldeilis ekki á færi nema þeirra sem eiga nóg af peningum og tíma. Skyldi þetta skila sér svona andlega, í meiri hamingju og lífsfyllingu hjá þeim sem lifa ferðina af það er að segja?
Álag á fjölskylduna hlýtur að vera mikið sem heima bíður og vonar að viðkomandi skili sér láréttur heim. Slíkt álag er vissulega ekki hægt að verðleggja.
Þetta er augljóslega sport ríka fólksins. Kannski af því að þeim leiðist, hafa prófað allt og gert allt svo spennutaugin hefur þanist?
Veit ekki!
Siðanefndarkerfi hentar illa fyrir kjörna fulltrúa
23.5.2019 | 08:13
Siðanefnd sem forsætisnefnd Alþingis skipaði ályktaði fyrir stuttu að þingmaður hafi brotið í bága við ákvæði siðareglna þingsins með ummælum sínum um annan þingmann. Um er að ræða ráðgefandi álit og hefur forsætisnefnd Alþingis síðasta orðið.
Þetta hefur vakið upp spurningar m.a. hvort siðanefnd á hinum pólitíska vettvangi ætti yfirhöfuð að vera til og ef hún er til hvert á þá hlutverk hennar að vera? Hlutverk þessarar nefndar sem hér um ræðir er m.a. að láta í ljós álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni, sbr. 5. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.
Siðanefnd á vettvangi stjórnmála - á hún að fjalla um einstaklingsmál?
Siðanefndir starfsstétta hafa vissulega margar hverjar það hlutverk að leggja mat á framkomu, hegðun og atferli aðila í viðkomandi starfsstétt. En öðru máli hlýtur að gegna um siðanefndir á pólitískum vettvangi. Sé slík nefnd til ætti hennar hlutverk kannski aðallega að beinast að tillögugerð um endurskoðun siðareglna og framsetningu þeirra frekar en að fjalla um og álykta um einstaka kvörtunarmál þingmanns yfir öðrum þingmanni. Það er mín skoðun að álit siðanefndar um einstök mál kjörinna fulltrúa geti ekki verið trúverðugt og hafi í raun litla þýðingu. Álit er bara álit og siðareglur eru auðvitað engin lög og þótt einhver segi að brotnar hafa verið siðareglur hefur það engar afleiðingar. Ég tel að siðanefndarkerfi eins og er á Alþingi henti illa fyrir kjörna fulltrúa.
Af hverju hentar siðanefnd illa fyrir kjörna fulltrúa?
Þingmaður/kjörinn fulltrúi er ekki í sömu stöðu og sá sem ræður sig í vinnu samkvæmt samningi sem grundvallaður er á réttindum og skyldum starfsmanna. Stéttarfélög halda utan um kjara- og réttindamál. Stjórnmálamaður er kosinn af fólkinu. Hegðun hans og framkoma m.a. á hinum pólitíska vettvangi er á ábyrgð hans sjálfs. Sé talið að hann hafi sýnt af sér dónalega eða óviðeigandi framkomu gagnvart öðrum þingmanni eða starfsmanni eða brotið af sér samkvæmt siðareglum á hann það fyrst og fremst við samvisku sína, flokkinn sem stendur að baki honum og kjósendur sína.
Margir hafa tjáð sig um þetta fyrirkomulag á Alþingi og sumir segja að það gangi ekki upp. Einhverjir sjá lausnina í því að fjarlægja forsætisnefndina úr ferlinu en hún hefur síðasta orðið í málinu um hvort brotið hafi verið í bága við siðareglur eða ekki. Ég get ekki séð að fyrirkomulagið verði bættara við að fjarlægja forsætisnefndina með síðasta orðið. Eftir sem áður stæði álit siðanefndar sem verður án efa alltaf umdeilt hver svo niðurstaðan er.
Hvað varðar þetta einstaka mál sem hæst hefur borið síðustu daga er ekki gott að segja um hvað verður. En ef horft er til framtíðar finnst mér tvennt koma til greina er varðar Siðanefndina á Alþingi:
1. Að Siðanefnd Alþingis fjalli ekki um einstaklingsmál
2. Að Siðanefnd Alþingis verði lögð niður.
Siða- og samstarfsreglur
Á vettvangi stjórnmála, hvort heldur á Alþingi eða í borgarstjórn, tel ég að ekki eigi að vera nein siðanefnd. Deila má um hvort setja eigi kjörnum fulltrúum einhverjar sérstakar siðareglur. Siðareglur um afmarkað efni geta verið góðar en einna helst finnst mér skipta máli að setja skýrar samstarfsreglur. Leiðbeinandi siða- og samstarfsreglur geta gagnast vel í samfélagi eins og okkar þar sem flæði upplýsinga er gríðarlegt og samskipti einstaklinga margbrotin og flókin.
Úrvinnsla: samtal, dómstólaleið eða bara ekki neitt?
Eftir áratuga reynslu af úrvinnslu eineltismála á vinnustöðum þar sem einmitt réttindi, skyldur og jafnræði aðila máls hafa iðulega komið til álita tel ég að leiðir til lausna mála þar sem kvartað er yfir kjörnum fulltrúa séu kannski tvenns konar. Fyrri leiðin er samtalsleiðin. Komi upp tilvik þar sem talið er að þingmaður/kjörinn fulltrúi hafi sýnt af sér hrokafulla eða dónalega framkomu er samtal milli aðila stundum vænleg leið til lausnar þ.e.a.s. ef það hugnast báðum aðilum að ræða saman um atvikið. Frumkvæði að slíku samtali getur verið hjá geranda eða þolanda. Gangi sú leið ekki t.d. vegna alvarleika málsins, í tilfellum þar sem um er að ræða meint lagabrot eða grun um misferli/glæp kjörins fulltrúa fer málið til þar til bærra yfirvalda til rannsóknar og til dómstóla eftir atvikum.
Grein birt á visi.is
Kirsuberjatréð, Vesturgata 4 kl. 17 í dag. Opnun sýningar: LAGT Á BORÐ. Náttúra, Landnám
16.5.2019 | 11:04
Sölusýning í Kirsuberjatrénu, Vesturgötu 4, Reykjavík
Jón Guðmundsson sýnir hönnun sína og smíð. Fornaskar, renndar skálar, diskar, fornaskar og bikarar gerðir úr innlendum viði.
Sýningaropnun er fimmtudaginn 16 maí kl. 17-18. Allir velkomnir
Sýndir eru hlutir úr tveimur hönnunarlínum:
Náttúra: Fallegir viðarbútar eru nýttir í þessa hönnunarlínu. Hér er fegurð viðarins aðalatriðið og hún látin koma fram í hlutnum. Ýtt er undir einkennin með því að nota olíur sem flæða vel og laða fram viðaræðar og viðarsveppi.
Sérhver skál er einstök.
Landnám : Sótt er í þau form, liti og mynstur sem landnámsmenn studdust við. Harður viður er nýttur í skálar, diska, aska og bikara. Litir svo sem mýrarauði, málm- og plöntulitir eru notaðir til að ýkja einkenni. Mynstur er oft hamrað í viðinn.
Sýningin mun standa dagana 16-26 maí 2019.
Opið er virka daga kl. 10.00 - 18.00, en 10-17 um helgar
Meirihlutinn í borginni þorir ekki að gera víðtæka skoðanakönnun um varanlega lokun gatna í miðbænum
15.5.2019 | 18:06
Ég lagði fram í borgarráði í síðustu viku tillögu um að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun á meðal borgarbúa og þeir spurðir um afstöðu sína gagnvart varanlegri lokun Laugavegs og Skólavörðustígs að hluta. Tillagan var felld á staðnum. Sjálfstæðismenn sátu hjá.
Meirihlutinn heldur því ítrekað fram að ánægja borgarbúa með þetta fyrirkomulag til framtíðar hafi verið margsinnis staðfest í könnunum. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum voru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.
Á borgarstjórnarfundi var þessi bókun lögð fram í málinu:
Tillaga Flokks fólksins um víðtæka skoðanakönnun vegna varanlegra lokana gatna í miðbænum var felld um leið og hún var lögð fram. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn þori ekki að láta framkvæma slíka könnun því undir niðri er vitað að víðtæk mótmæli munu koma fram vegna fyrirhugaðra varanlegra lokanna tveggja aðalgatna og jafnvel fleiri í miðborginni. Meirihlutinn rígheldur í eldri kannanir sem þeim hefur tekist að sannfæra borgarbúa um að styðji þessar framkvæmdir. Borgarbúar voru plataðir. Aldrei var spurt hvað fólki fyndist um varanlega lokun þessara gatna. Spurningar voru auk þess loðnar og óljósar og áttu svarendur án efa erfitt með að átta sig á um hvað málið snerist sem er að bílar munu aldrei framar geta ekið um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar. Fyrir hreyfihamlaða er þetta mikið áfall þar sem aðgengi að þessu svæði er slakt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.
Æ fleiri verslanir og fyrirtæki eru að flytja sig úr miðbænum. Lyfja er að fara, Lífstykkjabúðin og Sigurboginn að fara eftir meira en 85 ára rekstur. Um síðustu mánaðarmót lokuðu og fluttu, Reykjavík Foto. Flass, Spakmansspjarir, Brá og Gjóska. Svo eru sex aðrar verslanir að undirbúa flutning. Allar þessar verslanir og Lyfja líka skrifuðu undir mótmæli gegn götulokunum. En ekkert lemur á þessum meirihluta, hann hlustar ekki á fólkið í borginni.
Secret Solstice 2019
15.5.2019 | 13:28
Tillaga Flokks fólksins um dýrahald í íbúðum Félagsbústaða samþykkt
9.5.2019 | 13:19
Tillaga Flokks fólksins um dýrahald í íbúðum Félagsbústaða var samþykkt
Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði þann 16. September 2018 um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrðir leyft.
Tillögunni var var vísað til stjórnar Félagsbústaða. Tillagan var tekin fyrir í stjórn Félagsbústaða og óskaði stjórnin eftir að málið yrði skoðað frekar áður en afstaða yrði tekin. Á samráðsfundi fulltrúa Félagsbústaða og Velferðarsviðs var tillagan til umfjöllunar og var það samdóma álit fundarmanna að ekki væri rétt að standa gegn hunda- og kattahaldi.
Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þykir að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Þá þykir eðlilegt að útiloka tilteknar tegundir stórra hunda. Á fundi stjórnar félagsbústaða 2. maí sl. var málið á dagskrá að nýju. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin mun kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.
Sérskólar, afgangsstærð í borgarkerfinu
7.5.2019 | 14:30
Brúarskóli stækkaður?
Á dagskrá borgarstjórnar í dag er tillaga Flokks fólksins þess efnis að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla í Vesturhlíð er afar hentug m.a. vegna þess að hún er ótengd íbúðarhverfi og verslunum. Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn verði til framtíðar á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana stunda þar nám. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að börnin aftur fari í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru 2 þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðning úr Jöfnunarsjóði.
Ráðþrota foreldrar
Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota. Ýmislegt hefur kannski verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem er í mörgum tilfellum vanbúið til að mæta öllum þörfum barnanna. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist skóli án aðgreiningar vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skóla sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskólar í Reykjavík hafa orðið út undan, eru jafnvel einhvers konar afgangsstærðir og hafa þar af leiðandi ekki fengið næga athygli borgaryfirvalda. Sérskóli eins og Klettaskóli er einnig yfirfullur. Lagt hefur verið til af Flokki fólksins að stækka úrræði eins og Klettaskóla en sú tillaga var felld. Í ljósi þeirrar staðreyndar að Brúarskóli annar ekki eftirspurn er orðið tímabært að stækka skólann til að hægt verði að fjölga börnum upp í alla vega 30 nemendur. Skóla- og frístundarráð er hvatt til að vinna þétt með starfsfólki skólans hvað varðar framtíðarskipulag skólans.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins
Hver er staða fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn?
7.5.2019 | 11:13
Tillaga frá Flokki fólksins um að borgin greini stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn var lögð fram í borgarráði 2. maí.
Miðbærinn, fyrir hverja?
5.5.2019 | 10:21
Allt stefnir nú í að gerðar verði stórvægilegar breytingar á miðborginni og Hlemmi í óþökk fjölmargra, þar með talda rekstrar- og hagsmunaaðila en einnig fjölmargra Reykvíkinga. Breytingarnar eru varanlegar lokanir á helstu götum fyrir bílaumferð. Nýjasta útspil meirihlutans samkvæmt því sem komið hefur fram í fréttum eru áætlanir um að loka fyrir umferð bifreiða umhverfis Hlemm. Einnig að loka fyrir umferð Rauðarárstígs og Snorrabrautar, sunnan við Hlemm sem og loka fyrir bílaumferð að Hlemmi úr austurátt, á kaflanum frá Fíladelfíu að Hlemmi. Önnur þróun hefur einnig verið að eiga sér stað í miðbænum sem veldur mörgum áhyggjum. Byggðar hafa verið fjöldinn allur af rándýrum lúxusíbúðum. Nú er svo komið að offramboð er af þessum einsleitu eignum og hundruð íbúða eru á sölu eða að koma á sölu í miðborginni. Salan á þessum eignum hefur ekki gengið sem skyldi. Íbúðirnar á Hafnartorgi eru einungis ætlaðar auðjöfrum. Hvar eru ódýru íbúðirnar? Hvar er fjölbreytnin? Allt er þetta að gerast í miðri óvissu um ferðaþjónustuna en mikið af íbúðum á þessu svæði tengjast henni. Einhverjir verktakar halda nú að sér höndum og bíða eftir að verslunarrekstur fari af stað. En þvert á móti eru verslunareigendur í hópum að flýja þetta svæði. Átti ekki að gæða miðborgina lífi? Mannlausar íbúðir og tóm verslanarými er myndin sem miðborg Reykjavíkur er að taka á sig.
Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar
Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að tala miðbæinn niður, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Verði miðbærinn að draugabæ verður þeim sem töluðu hann niður kennt um? Það er vissulega handhægt fyrir þá sem vilja ekki hefja lýðræðislega umræðu að beita þöggunaraðferð sem þessari.
Tala og hlusta
Öll umræða er af hinu góða, allar upplýsingar eru til gagns og það versta sem hægt er að gera í lýðræðissamfélagi er að reyna að þagga niður umræðu af ótta við að sú hlið málsins sem hugnast ekki valdhöfum og peningaöflum nái eyrum almennings. Meirihluti borgarstjórnar, ekki síst Viðreisn og Píratar, er sífellt að státa sig af því að virða lýðræði. Er það lýðræðislegt að hunsa óskir á þriðja hundrað rekstraraðila um samráð? Meirihlutinn í borgarstjórn státar sig af því að hafa notendasamráð í öllum verkferlum. Er það dæmi um notendasamráð að vinna ekki með notendum að svo víðtækri skipulagsbreytingu sem hér um ræðir? Hagsmunaaðilar hafa fullyrt að ýmist hafi ekkert samráð verið haft við þá eða mjög lítið í besta falli. Í könnunum sem valdhafar vísa í stendur ekki steinn yfir steini hvað varðar að meirihluti borgarbúar sé himinlifandi yfir þessum breytingum.
Áfram er gengið á lagið
Nú hefur borgarmeirihlutinn ákveðið að ganga enn lengra án þess að spyrja kóng né prest. Nú er Rauðarárstígur, Snorrabraut og Hlemmur einnig undir. En miðborg Reykjavíkur er ekki eign borgarstjóra. Borgarfulltrúi Flokks fólksins krefst þess að haft verði samráð við fólkið sem reynt hefur að ná eyrum ráðandi afla í borginni. Haldi áfram sem horfi er hér verið að misbjóða fólki með grófum hætti. Ótti Flokks fólksins um að miðbærinn verði einungis fyrir túrista, auðjöfra og auðvitað æðstu valdhafa borgarinnar virðist vera að sanngerast. Þar sem þessir hópar munu aldrei ná einir og sér að halda uppi mannlífi í borginni stefnir hratt í að miðbær Reykjavíkur verði að draugabæ.
Grein birt á visi.is 2. maí
Engin gögn falin ofan í skúffu
4.5.2019 | 14:52
Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var samþykkt að skipa þverpólitískan stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sem jafnframt er sálfræðingur og sérfræðingur í eineltismálum var formaður hópsins. Vinna stýrihópsins hófst formlega í október og lauk í febrúar 2019. Afrakstur stýrihópsins var lagður fyrir borgarráð til samþykktar 7. mars og borgarstjórn 19. mars. Í stýrihópnum voru nokkrar breytingar gerðar á stefnunni og öllu fleiri á verklaginu. Sérstaklega má fagna auknu gegnsæi og tímamörkum sem nú hefur verið sett á vinnslu eineltismála hjá Reykjavíkurborg.
Helstu efnislegar breytingar í stefnunni
Í stefnunni sjálfri var ákveðið að hafa forvarnarkaflann ítarlegri en í fyrri stefnu. Einnig var tekin ákvörðun um að breyta skilgreiningu eineltis lítillega. Stýrihópurinn var sammála um að nota ekki hugtakið síendurtekin eins og er í reglugerð ráðuneytisins nr. 1009/2005 en þar er skilgreining eineltis þannig að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði að hegðunin sé SÍ-endurtekin. Þessu hefur fylgt nokkur vandi. Einstaka rannsakendur hafa nefnilega gengið svo langt að fullyrða að síendurtekin hegðun merki að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast undir skilgreiningu um einelti. Þrenging skilgreiningarinnar með þessum hætti árið 2015 hefur haft fælingarmátt. Sumir þolendur segja að ekki þýði að leggja inn kvörtun þar sem skilgreiningin er allt of þröng. Skilgreiningin í hinni endurskoðuðu stefnu Reykjavíkurborgar er því eftirfarandi:
Einelti er endurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Helstu breytingar á verklagi
Í hinni endurskoðuðu stefnu og breyttu verklagi er gerð skýrari grein fyrir hvað felst í frumkvæðisathugun atvinnurekanda og í hvaða tilvikum ber að gera hana. Skv. 7. gr. reglugerðar 1009/2015 ber atvinnurekanda að bregðast við berist honum ábending. Frumkvæðisrannsókn er þó ekki rannsókn á málum tiltekins starfsmanns líkt og þegar tilkynning berst frá þolanda heldur er þá framkvæmd almenn könnun á tilteknum atriðum á starfsstöð (vinnustaðamenningu, stjórnunarháttum).
Í hinu endurskoðaða verklagi er lögð áhersla á aukið gegnsæi í verkferlum samkvæmt upplýsingalögum og nýjum persónuverndarlögum. Aðeins er hægt að taka við tilkynningu undir nafni. Ef tilkynning er ekki undir nafni fer rannsókn ekki af stað en atvinnurekandi getur hafið frumkvæðisrannsókn samkvæmt ofangreindu. Tilkynnandi getur dregið tilkynningu sína til baka hvenær sem er og mikilvægt er að það sé þá gert með skriflegum hætti.
Málsaðilar, þolandi og meintur gerandi hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem tengjast málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónu- og upplýsingalaga nr. 140/2012. Þeir sem rætt er við (vitni) fá að vita það fyrir fram að ferlið er opið og gegnsætt gagnvart aðilum máls sem munu sjá skráningar allra viðtala. Aðilar sem rætt er við fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að lagfæra framburð sinn óski þeir þess. Á fundum í tengslum við málið er rituð fundargerð sem farið er yfir í lok fundar. Fundargerðir skulu vera á stöðluðu formi. Ef aðilar óska eftir afriti af fundargerð er hún afhent.
Óhæði rannsakenda
Sá sem tilkynnir mál er eigandi málsins ef þannig má að orði komast. Teymi hefur leiðbeinandi hlutverk og leiðbeinir viðkomandi við að kæra til lögreglu ef mál eru þess eðlis. Ef fagaðili utan eineltisteyma borgarinnar er falið að rannsaka málið t.d. vegna vanhæfis eða tengsla rannsakenda borgarinnar við aðila málsins skal leita samþykkis þess sem tilkynnti málið (þolanda). Til að niðurstaða könnunar verði trúverðug skal tryggja óhæði rannsakenda ekki ósvipað þegar dómstóll kallar til dómkvaddan matsmann. Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.
Aðrar nýjungar eru þær að sett hafa verið inn tímamörk rannsóknar og verði tafir skal upplýsa aðila máls. Einnig er opnað fyrir þann möguleika að ef ekki næst einróma niðurstaða fulltrúa teymis við rannsókn gefst færi á að skila séráliti sem tilgreinir afstöðu.
Við endurskoðun stefnunnar og verklags var tekið tillit til ábendinga sem borist hafa frá starfsfólki sem hafa verið aðilar máls. Umsagnir voru fengnar frá starfsfólki með reynslu af vinnslu mála af þessu tagi og hafðar voru til hliðsjónar ábendingar frá starfsfólki mannauðsþjónustu og fagsviða borgarinnar. Haldinn var upplýsingafundur með Persónuvernd. Sú gullna regla sem stýrihópurinn fylgdi við endurskoðun stefnunnar og verklags var sanngirni, meðalhóf og gegnsæi.
Grein þessi er birt í Morgunblaðinu 2. maí
Fráleitt að bera saman Pálma og Sólfarið
28.4.2019 | 19:12
Það er algerlega fráleitt að bera þessi tvö útilistaverk saman eins og gert var í fréttum Stöðvar 2. Þau eru á engan hátt sambærileg. Annað er lífvera sem ætlað er að lifa í framandi umhverfi, hitt er úr stáli. Margt fleira mætti nefna sem sýnir fram á að útilokað er að bera þessi tvö verk saman. Ég efast um að Sólfarið hafi t.d. nokkurn tíma farið í raunhæfismat kostað af borginni?
Þegar forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof
24.4.2019 | 14:44
Tvær tillögur Flokks Fólksins voru felldar í Skóla- og frístundarráði í gær, 23.4.
Sú fyrri:
Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem
hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.
Tillagan var felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Seinni:
Flokkur fólksins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunnskóla sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum tilfinningalegum og félagslegum vanda.
Tillagan var felld.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Ég á ekki sæti í þessu ráði nema sem varamaður og gat því ekki bókað en mun gera það þegar fundargerðin verður lögð fram á næsta fundi borgarstjórnar.
Börn fátækra foreldra geta heldur ekki beðið
19.4.2019 | 20:39
Í kvöld var verið að fjalla um greiningar lækna, sálfræðiþjónustu/sálfræðigreiningar sem eru veittar á einkarekinni stofu en sem ekki eru teknar fullgildar hjá hinu opinbera. Þess þjónustu þarf að greiða úr eigin vasa. Þetta er dýr þjónusta. Frumgreining (sem er fyrsta athugun, þá er lagt fyrir vitsmunarþroskaprófið Wechsler, ADHD skimun og e.t.v. hegðunarkvarðar) ekki undir 150 þúsund krónur. Þetta er þjónusta sem börn eiga rétt á að fá hjá borginni (þjónustumiðstöðvum) og hjá ríkinu (Greiningarstöð) ef þroskafrávik eru talin alvarlegri. Vegna langra biðlista er fólk neytt til að fara til sjálfstætt starfandi sálfræðinga eftir greiningu en þá spyr ég enn og aftur hvað með þá foreldra sem eiga ekki pening fyrir greiningu fyrir barnið sitt hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum? Oft hafa börn beðið mánuðum saman og jafnvel á annað ár í skólakerfinu eftir greiningu sem þó foreldrar og kennarar eru sammála um að þurfi að framkvæma ýmist vegna námserfiðleika og/eða tilfinningar- eða félagslegra erfiðleika. Vanlíðan hefur jafnvel vaxið stöðugt hjá þessu barni sem í sumum tilfellum er einfaldlega hætt að mæta í skólann. Um þetta vildi ég gjarnan fá almenna umræðu og hef reynt ýmislegt til þess í borgarstjórn. Það verður að útrýma þessum biðlistum í borginni og hjá ríkinu. Börnum sem líður illa .hvorki geta né eiga að þurfa að bíða eftir þjónustu. Ég hef áður rætt þessi mál og man eftir dæmi sem foreldrar voru að skrapa saman peninga til að fá greiningu fyrir barn sitt út í bæ sem búið var að bíða lengi í skólakerfinu og útskrift var að nálgast
Sjá hér viðtal um þessi mál frá því í fyrra.
Sum segjast ekki langa að fara til að fátækt þeirra spyrjist ekki út
17.4.2019 | 09:17
Allt kostar, líka að fara í skólaferðalög og halda árshátíðir. Auðvitað vilja börn og unglingar gera þetta allt saman enda skemmtilegt. En hver á að borga? Margir foreldrar sem eru í góðum efnum finnst ekkert nema sjálfsagt að greiða háar upphæðir fyrir alls kyns ferðir, viðburði og glæsilega árshátíð fyrir barn sitt með öllu tilheyrandi. En það eru ekki allir foreldrar sem eiga aukakrónur til að standa straum af kostnaði sem þessum. Börn þessara foreldra þurfa þess vegna stundum einfaldlega að sitja heima og það er sárt. Þeim langar alveg jafn mikið að fara í ferðir og á árshátíð eins og öllum hinum börnunum. En til að standa vörð um erfitt efnahagsástand foreldra sinna og af ótta við að það spyrjist út að fátækt er á heimilinu segja börnin jafnvel bara að þeim langi ekki að fara eða þau séu upptekin.
Foreldrar sem hafa ekki ráð á að borga fyrir dýra viðburði eða ferðir líða oft sálarkvalir og finnst þau vera að bregðast barni sínu. Hvað varðar árshátíð er vissulega hægt að halda árshátíð án þess að barn þurfi að reiða fram þúsundir króna. Finna þarf aðrar leiðir. Það sem skiptir máli fyrir börnin er að vera saman og gera eitthvað saman. Samveran sem slík kostar ekki neitt. Málið er að finna samverunni umgjörð sem útilokar engan. Að koma saman í sínu fínasta pússi á árshátíð sem haldin er í skólanum og skemmta sér saman: tala saman, syngja og hlægja saman og umfram allt dansa er meðal þess sem krökkum þykir hvað allra skemmtilegast. Ferðir kosta vissulega alltaf eitthvað. Það þarf alla vega að borga bílstjóranum. Í þeim tilfellum er iðulega ráðist í fjáröflun eða sótt er um styrk hjá sveitarfélaginu sem er hið besta mál.
Grunnskólinn er samkvæmt lögum gjaldfrjáls og þarf það að gilda um allt sem tengist skólanum. Sem sálfræðingur og borgarfulltrúi fagna ég umræðunni og vona að hún verði til þess að allir skólar skoði þessi mál hjá sér og gleymi aldrei að sumar fjölskyldur eiga ekki mikið aflögu. Það má aldrei vera þannig að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Öll mismunun fer illa með börn.
Ég hef í borgarstjórn margsinnis rætt um og komið með tillögur um að gæta þurfi jafnræðis þegar kemur að þátttöku í ferðum eða viðburðum á vegum skóla, frístundar og félagsmiðstöðva sem börnin sækja. Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri eða ríkra foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Skólatengdir félagslegir viðburðir og verkefni eru stundum eina tómstund þessara barna.