Engin skólaganga í boði fyrir einhverfa stúlku
12.4.2019 | 19:48
Skóli án aðgreiningar getur ekki sinnt einhverfri stúlku en samt á skólinn að vera fyrir alla. Barn með einhverfu er ekki lengur með skólavist hér á landi.Það hefur lengi verið vitað að það er ákveðinn hópur barna sem líður illa í skólanum en í þessu tilfelli hefur barnið enga skólavist. Er þetta skóli án aðgreiningar að geta ekki boðið þessu barni þá þjónustu sem það þarf til að stunda skólann? Varla. Sorgleg staðreynd og hér er það staðfest enn og aftur að þessi metnaðarfulla ímynd um skóla fyrir öll börn er ekki að virka fyrir ÖLL börn og ekki nóg með það heldur er börnum sem þurfa sérhæfða þjónustu eins og þessu barni hreinlega vísað frá. Tek það fram að þetta er ekki kennurum og skólastjórnendum að kenna heldur hefur aldrei verið sett nægjanlegt fjármagn í þetta kerfi til að það virki eins og það ætti að gera og í samræmi við hugmyndafræðina. Eigum við ekki að fara setja mál barna og það allra barna í forgang í þessari borg? Til að skóli án aðgreiningar gangi upp þarf að vera þar fullnægjandi þjónusta fyrir öll börn sem eðli málsins samkvæmt eru með ólíkar þarfir. Svo bendir borgin á ríkið og öfugt. Hér má nefna að Klettaskóli er löngu sprunginn en hann er sérskóli og samkvæmt því sem fram kemur hjá borginni er ekki talin ástæða til að útbúa annað sambærilegt úrræði.
Að eldri borgarar fái sveigjanlegri vinnulok
12.4.2019 | 08:12
Ég hef lagt það til að borgin sem vinnuveitandi leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða eldri borgurum upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir miklum kostum, menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki enda stór vinnustaður og bjóða upp á sveigjanleika þegar komið er að starfslokum. Sumir viljað hætta áður en 70 ára markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og af því er reynsla t.d á Droplaugartöðum. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar takmarkað.
Hvað margir eldri borgarar skyldu vera á bið?
11.4.2019 | 16:11
Í morgun á fundi borgarráðs lagði ég fram beiðni um að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara er varðar bið eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum?
Í dag 12.4. er þessi frétt um að enn fleiri séu nú á en Flokkur fólksins vill fá nákvæmar tölur í Reykjavík
Staðan í desember 2018 var sú samkvæmt velferðarsviði að 53 einstaklingar lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi er ósáttur við að tillagan um Hagsmunafulltrúa eldri borgara var hafnað. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara og taldi ekki þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða. Engu að síður berast fréttir af eldri borgurum í neyð. Tillagan um hagsmunafulltrúann fól í sér að hann myndi skoða málefni eldri borgara ofan í kjölinn, halda utan um hagsmuni þeirra og fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn átti að kortleggja stöðuna í heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða. Sá þjónustufulltrúi sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir Hagsmunafulltrúa Flokks fólksins enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun.
Tillaga um úttekt Innri endurskoðunar á Gröndalshúsi felld
5.4.2019 | 17:22
Flokkur fólksins lagði til í janúar að Innri endurskoðun gerði úttekt á Gröndalshúsi en sú tillaga var felld í borgarráði í vikunni.
Hún hljóðaði svona:
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg."
Tillagan var felld
Hér er bókun sem lögð var fram í framhaldi af umsögn borgarinnar um málið og afgreiðslu.
Bókun Flokks fólksins
Óskað var eftir að gerð yrði úttekt á Gröndalshúsi sambærileg þeirri sem gerð var á Nauthólsvegi 100. Í svari frá Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar segir að ekki sé ástæða til að gera úttekt á Gröndalshúsi þar sem verkefnið var unnið á vegum Minjaverndar og þeir starfsmenn sem komu að þessu verkefni á vegum skrifstofunnar hafa látið að störfum.
Flokkur fólksins telur þetta engin rök. Ennfremur segir að ekki sé rétt með farið að Gröndalshús hafi farið 198 milljónir fram úr áætlun og að verið sé að blanda saman atvinnutengdu samstarfsverkefni með Völundarverki og endurgerð hússins að Vesturgötu.
Er hér verið að fullyrða að frétt sem birtist í 15. 12. 2018 sé röng en í henni segir:
Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun.
Segir ennfremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir.
Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram eftirfarandi fyrirspurn:
Spurt er þá hvort eftirfarandi frétt sem birtist í visi.is 15.12.2018 sé röng?
En í henni segir:
Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun.
Segir ennfremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir.
Aðrar tvær tillögur bíða afgreiðslu en þær voru einnig lagðar fram af Flokki fólksins 10. janúar:
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Barnaleg þrákelkni meirihlutans þegar kemur að miðborgarskipulaginu
2.4.2019 | 19:40
Samráð við rekstraraðila og borgarbúa hefur mikið til verið hundsað og mörgum þykir þeir hafa verið blekktir þegar kemur að lokunum Laugavegar og Skólavörðustígs. Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn virðst ætla að keyra áfram þessara lokanir þrátt fyrir að undirskriftalistar hafa borist borginni í dag þar sem 90% þeirra eru mótfallnir lokunum á þessu svæði. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Vilji yfir 90% rekstraraðila skal bara troðið ofan í kokið á þeim og undirskriftalistarnir fara ofan í skúffu hjá borgarstjóra, verða skjalaðir" eins og borgarstjóri orðaði það.
Er miðbærinn einungis fyrir borgarmeirihlutann og ferðamenn? Borgarbúar hafa verið beittir blekkingum og eru í dag í borgarstjórn þegar sífellt er klifað á að fjölmargar kannanir hafa sýnt að lokanir sem hér um ræðir séu með vilja meirihluta borgarbúa. Þetta er ekki rétt. Verði haldið áfram með þessi áfrom er verið að misbjóða borgarbúum gróflega. Hér á að valta yfir fjölmarga. Hvar er samráð við hreyfihamlaða? Tal um samráð er bara hljómið eitt og sannarlega er hvorki verið að huga að þeim sem gíma við hreyfihömlun né eldri borgara. Flokkur fólksins gerir kröfu um að haft sé fullt samráð þegar kemur að þessum lokunum. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.
Í borgarstjórn í dag mun tillaga Flokks fólksins vera lögð fram um að lokun Laugavegar og Skólavörðustígs verði frestað á meðan að könnuð verði til hlítar afstaða borgarbúa gagnvart heilsárs lokun þessara gatna fyrir bílaumferð.
Lagt er til að Reykjavíkurborg taki upp samstarf við háskóla og/eða reynslumikið fyrirtæki sem framkvæmir skoðanakannanir, í þeim tilgangi að vinna að viðhorfsrannsókn ýmissa hópa í borginni gagnvart lokun umræddra gatna fyrir bílaumferð. Lagt er til að leitað verði viðhorfa hagsmunaaðila við þær götur sem á að loka, jafnframt samtök eldri borgara, samtök fatlaðra og breiðs hóps borgarbúa sem búa víðs vegar um borgina. Nauðsynlegt er að úrtakið endurspegli þýðið og sýni þannig sem best raunverulegan vilja borgarbúa og einstakra hópa. Nauðsynlegt er að móta spurningar þannig að skýrt sé hvað spurt er um og þátttakendum gert ljóst hvað er í vændum varðandi lokun þessara gatna til frambúðar.
Börn veik af myglu og raka í skólahúsnæði borgarinnar
20.3.2019 | 12:48
Það var hart tekist á um myglu og raka í leik- og grunnskólum á fundi borgarstjórnar í gær. Meirihlutinn varðist fimlega og ekki er inn í myndinni að viðurkennt er að borgaryfirvöld til margra ára hefur flotið sofandi að feigðarósi þegar kemur að viðhaldi hvað þá að hlustað á kvartanir og ábendingar foreldra og starfsfólks. Flokkur fólksins var með eftirfarandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill benda á að langvarandi skortur á viðhaldi og að ekki hafi verið sett fjármagn í þennan flokk er nú illilega að koma í bakið á borgaryfirvöldum með mögulega miklum tilkostnaði og ómældum óþægindum fyrir foreldra og börn sbr. Fossvogsskóla. Útsvarsfé borgarbúa hefur sannarlega ekki verið sett í viðhald á húsnæði þar sem börnin í borginni sækja nám sitt. Hér hefur verið flotið sofandi að feigðarósi. Staðan væri ella ekki svona slæm og þessi vandi varð ekki til í gær heldur er uppsafnaður til margra ára. Lengi var ekki hlustað á kvartanir, ábendingar og upplýsingar og ýmis einkenni hafa verið hunsuð. Hefði viðhaldi verið sinnt og brugðist strax við fyrstu mögulegu vísbendingum hefði vandinn ekki orðið svona djúpstæður. Ljóst er að umfangsmikilla framkvæmda er þörf. Hvernig á að bæta börnunum, foreldrum og starfsfólki þetta upp? Fram hefur komið að það er foreldri sem knúði á um úttekt á skólahúsnæði Fossvogsskóla. Það þurfti að knýja sérstaklega á um þetta, berjast fyrir að fá almennilega skoðun þegar börnin voru farin að veikjast vegna myglu og raka. Borgaryfirvöldum ber að hlusta á borgarbúa, heyra raddir þeirra þegar koma mikilvægar upplýsingar og ábendingar. Annað sýnir virðingarleysi gagnvart borgarbúum, foreldrum, börnum og starfsfólkinu.
Vá hvað þetta á eftir að kosta okkur mikið
15.3.2019 | 14:22
Lögfræðingum var stundum sigað á skjólstæðinga Félagsbústaða
15.3.2019 | 08:42
Svar barst við fyrirspurn um lögfræðikostnað Félagsbústaða og hér kemur bókun Flokks fólksins
Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar skjótt og skýrt svar frá framkvæmdarstjóra Félagsbústaða um sundurliðun lögfræðikostnaðar. Það er leitt að sjá hvernig Félagsbústaðir hafa eytt tæpum 112 milljónum í lögfræðikostnað undanfarin 6 ár. Stærstu póstarnir eru Málþing ehf, Lögheimtan og Mótus eða um 100 milljónir. Lögfræðikostnaður vegna innheimtumála nam tæpum 65.8 milljónum eða um 12.3 mkr á ári. Borgarfulltrúa finnst miklu fé hafa verið varið í að innheimta af fólki sem margt hvert hefur e.t.v. enga möguleika á að greiða þessar skuldir. Er t.d. kannað hvað liggur að baki því að fólkið geti ekki greitt? Fólk skuldar varla að gamni sínu. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta harkalegar aðgerðir. Það er hægt að innheimta án þess að senda skuldina til lögfræðings. All margar kvartanir bárust borgarfulltrúa á síðasta ári um að Félagsbústaðir sigi á það lögfræðingum í sífellu. Það ætti að vera eðlilegt að bíða í lengstu lög að rukka fólk sem vegna lágra tekna eða erfiðra aðstæðna getur ekki greitt skuld sína. Hér mætti vel nefna þá sem hafa orðið fyrir skaða vegna myglu og raka í húsnæði Félagsbústaða. Ef horft er til sanngirnissjónarmiða má spyrja hvort þeir sem hafa búið í mygluhúsnæði hafi fengið einhverjar skaðabætur frá Félagsbústöðu jafnvel þótt alvarlegt heilsutjón hafi verið staðfest?
Viðbrögð Icelandair: Ætla að "fylgjast grannt með"
10.3.2019 | 19:42
Flugstjórar vélanna tilkynntu um tæknilega örðugleika
Í morgun hrapaði vél Ethiopian Airlines á leið sinni frá Addis Ababa til Naíróbí. Vélin tók á loft um hálf níu að staðartíma í morgun en missti samband við flugturninn um sex mínútum síðar. Staðfest er að 157 sem voru um borð í vélinni hafi farist. Flugstjóri farþegaþotunnar hafði óskað eftir leyfi til að snúa vélinni við skömmu eftir flugtak vegna vandræða og hafði fengið leyfi frá flugturninum í Addis Ababa til að lenda. Á blaðamannafundi fyrr í dag sagði forstjóri flugfélagsins að flugstjórinn væri afbragðs flugmaður með meira en átta þúsund flugtíma að baki. Flugvélin hafði einungis verið í notkun hjá félaginu í um fjóra mánuði.
Í september í fyrra fórst farþegaþota Lion Air, einnig af gerðinni Boeing 737, með 189 innanborðs aðeins 13 mínútum eftir flugtak. Flugmaður vélarinnar hafði óskað eftir því að snúa vélinni við skömmu áður en hún hvarf af ratsjám. Þá hafði verið tilkynnt um tæknibilun í vélinni daginn áður en að hún fórst.
Icelandair fylgist grannt með gangi mála
Icelandair er með þrjár vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8 í notkun. Sex slíkar vélar bætast við flugflotann nú á vormánuðunum. Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir að félagið muni ekki bregðast sérstaklega við þessum fregnum að svo stöddu en að grannt verði fylgst með gangi mála.
Þetta er nýskeð og svo sem ekkert sem við vitum um orsök þessa slyss. Það er alltof seint að tengja það við flugvélina eða þess háttar. Við erum í samstarfi við framleiðanda vélarinnar alla daga og í þessu tilfelli þá er það alltaf Boeing sem myndi leggja fram upplýsingar þegar eitthvða kemur út úr rannsókn slyssins, ef þau telja tilefni til aðgerða.
Jens segir að reksturinn á þeim þremur vélum eru í notkun hjá Icelandair hafi gengið mjög vel. Auk þess sé starfsfólk flugfélagsins vel þjálfað til að bregðast við þeim aðstæðum sem kunna að koma upp um borð. Við teljum að sú bilun sem kom upp í vél Lion Air á sínum tíma, að í fyrsta lagi hafi verið hægt að komast hjá henni í okkar umhverfi og í öðru lagi að flugmenn okkar hafa áratugum saman fengið mjög góða þjálfun í því að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp um borð. Við störfum samkvæmt okkar öryggisstöðlum sem hafa reynst okkur vel.
Jens segir hvorki hægt að segja af né á að svo stöddu hvort tilviljun valdi því að báðar vélarnar hafi verið af sömu gerð. Það er eðlilegt að tengja þetta saman en það er bara ekkert hægt að segja hvað gerðist í Eþíópíu í morgun og meðan svo er getum við ekkert fullyrt. (Úr fréttum í kvöld)
Þetta er bara alls ekki mjög traustvekjandi. Tvær nýjar vélar af sömu gerð hafa farist á hálfu ári. Er það tilviljun? Vissulega á eftir að rannsaka þetta en engu að síður skyldi maður ætla að engir sjensar séu teknir með líf og limi tugi farþega.
Borgin auglýsti mest í Fréttablaðinu
8.3.2019 | 16:34
Auglýsingakostnaður Reykjavíkurborgar er rúmur milljarður frá 2010.
Fréttablaðið fékk stærstu sneiðina
Frétt á eyjan.is
Auglýsingakostnaður Reykjavíkurborgar frá árinu 2010 og fram til febrúar ársins 2019 er rúmur milljarður króna, eða alls 1.016.520. Þetta kemur fram í samantekt fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar vegna fyrirspurnar Miðflokksins fyrir borgarráði.
Hvað hefur borgin auglýst í fjölmiðlum fyrir háar upphæðir á áranum 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og það sem af er árinu 2019? Svarið óskast sundurliðað eftir miðlum tæmandi talið, eftir dagblöðum, útvarpi, sjónvarpi, hverfablöðum og öðrum þeim miðlum sem auglýst hefur verið í.
Í meðfylgjandi mynd og töflu hvernig kostnaðurinn skiptist á milli ára í milljónum talið. Þar sést að kostnaður hefur aukist töluvert frá árinu 2010 og hefur aukist undanfarin ár.
Fréttablaðið fékk stærstu sneiðina
Alls verslaði Reykjavíkurborg við tæplega 500 birgja á þessu árabili. Þar voru 365- prentmiðlar lang fyrirferðarmestir, sem gáfu út Fréttablaðið áður en 365 miðlum var skipt upp.
Á eftirfarandi mynd má sjá hvernig auglýsingakostnaður skiptist á milli þeirra birgja sem eru með meira en 1% viðskipta af heildar auglýsingakostnaði eða samtals 25 birgjar. Aðrir birgjar (tæplega 475) voru hver og einn með minna en 1% kostnaðar sem samtals nemur 206.264 þkr. eða 20,3% af heildarkostnaði áranna 2010 til upphafs ársins 2019.
Í svarinu segir einnig:
Þegar rýnt er í töfluna hér til hliðar má sjá hvernig sundurliðun auglýsingakostnaðar er bókaður eftir birgjum sem hvort heldur geta verið miðlar eða aðrir birgjar. Um 79,7% kostnaðar eða 810.256 þkr leggst til vegna þeirra 25 birgja sem hver fyrir sig eru með meira en 1% af heildafjárhæð auglýsingakostnaðar. Dæmi: H. Pálsson ehf. er verkfræðistofa sem sér um auglýsingar á aðal- og deiliskipulagi borgarinnar, svo eitthvað sé nefnt. Ekki er hægt að sjá sundurliðun í fjárhaldskerfi á því í hvaða miðlum þær auglýsingar birtust. Þannig gæti hluti þess auglýsingakostnaðar sem bókaður er á H. Pálsson ehf. verið vegna auglýsinga sem birtust í prentmiðlum t.d. bæði Árvakurs hf. og 365 prentmiðla ehf. til viðbótar við þann kostnað sem er bókaður beint á þá miðla, sbr. töfluna hér til hliðar. Gefur því framangreind mynd svo og taflan ekki rétta mynd af því hvernig sundurliðuð skipting er á birtingum auglýsinga eftir miðlum og eftir tegund miðla (þ.e. útvarp, sjónvarp, prentmiðlar, netmiðlar eða annað) heldur einungis heildarkostnað allra auglýsinga borgarinnar á tilgreindu árabili.
Kostnaður við leigubíla í borginni 70 milljónir 2018
7.3.2019 | 19:10
Svar frá Reykjavíkurborg við þessum fyrirspurnum:
- Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt í leigubílakostnað á árunum 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, og 2011?
- Hvaða kjörnir fulltrúar hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar?
- Hvaða embættismenn hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar?
- Hver er kostnaður við innkaup, viðhalds og rekstur bíla fyrir starfsmenn borgarinnar ef velferðasvið er frá talið árin 2018, 2017, 2016, 2015,2014, 2013, 2012 og 2011?
- Er farið í útboð ef Reykjavíkurborg kaupir bíla?
- Hver var kostnaður Reykjavíkurborgar við flugmiðakaup 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012 og 2011 sundurliðað eftir kjörnum fulltrúum og starfsmönnum?
- Er farið í útboð þegar flugmiðar eru keyptir?
- 8. Falla vildarpunktar við flugmiðakaup í hlut borgarinnar eða þeirra starfsmanna sem ferðast út fyrir landsteinana?
Bókun Flokks fólksins:
Kostnaður sem hér um ræðir er feikna hár að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, bæði notkun leigubíla og akstur á eigin bifreiðum í vinnutengdum verkefnum. Yfirmenn hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveða hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla. Það er í höndum þeirra að stýra og bera ábyrgð á notkun leigubifreiða. Fram kemur að hluti af leigubílakostnaði er vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar en hvað er það stór hluti af þessum tölum?
Eftir lestur á þessu svari koma óneitanlega upp spurningar um hvort aðhald kunni að skorta í þetta kerfi eða hvort ekki þyrfti að skoða skipulagið eitthvað nánar? Það er einnig sláandi að sjá hækkun sem hefur orðið t.d. frá 2011 til 2018 á kostnaði við leigubíla jafnvel þótt að skýra megi hækkunin að einhverju leyti vegna þess að árið 2014 var öllum aksturssamningum við starfsmenn borgarinnar sagt upp. Árið 2011 er kostnaður rúmar 37 milljónir en 69,5 milljónir árið 2018.
Einn brauðmoli í borgarstjórn í gær
6.3.2019 | 07:37
Vinnuvikan mín í grófum dráttum í borgarmálunum
4.3.2019 | 09:59
Ný vika er hafin, hún verður krefjandi en vonandi líka gefandi. Það er borgarstjórn á morgun, velferðarráð á miðvikudaginn og borgarráð á fimmtudaginn.
Á fundi forsætisnefndar á föstudaginn sl. lagði ég til að allir fundir verði opnir. Ástæðan er tvíþætt: Ég held að fundirnir fari betur fram og það eykur einnig gegnsæi, gerir t.d. almenningi og fjölmiðlum kleift að fylgjast betur með störfum borgarfulltrúa í borgarstjórn. Þessari tillögu fylgir greinargerð með frekari skýringu á þessum rökum sem má sjá í fundargerð eða á kolbrunbaldurs.is
Í velferðarmálum erum við Þór Þór Elís Pálsson, varaborgarfulltrúi að vinna að tillögum er varða eldri borgarar annars vegar sem lýtur að félagslegu starfi og virkni og hins vegar möguleika þeirra á sveigjanlegri vinnulokum.
Á fundi borgarráðs í vikunni verð ég með tillögu að dregið verði í sæti á fundi borgarráðs.
Einnig mun ég óska eftir upplýsingum um allar auglýsingar borgarinnar á síðasta kjörtímabili og óska eftir að kostnaður verði sundurliðaður eftir mánuðum, árum og eftir því hvaða fjölmiðla er að ræða. Ég mun einnig óska eftir upplýsingum um magnafslætti ef einhverjir eru.
Í borgarstjórn á morgun er tillaga Flokks Fólksins eftirfarandi:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela Reykjavíkurborg í samstarfi við Landspítala háskólasjúkrahús að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem
þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla.
Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu, jafnt í miðborgum sem og við aðstæður eins og hér um ræðir. Þessi möguleiki yrði í boði við innganga a.m.k. við bráðamóttökur og fæðingardeild og aðrar deildir þangað sem fólk kann að þurfa að leita í slíkum flýti að það getur ekki tafið við að finna stæði og greiða stöðugjald.
Bílastæðin skulu merkt til umræddra nota. Leyfilegur tími væri tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá.
Hér er ekki meiningin að vera með nákvæma útfærslu á fyrirkomulaginu en sem dæmi mætti nálgast bifreiðaklukkuna í afgreiðslu t.d. bráðavaktar eða í móttöku í anddyri spítalans og á bensínstöðvum.
Greinargerð má sjá bæði á kolbrunblaldurs.is undir borgarmál og einnig á vefnum: borgarstjornibeinni. Málið er síðast á dagskrá.
Utan þessara funda er ýmislegt annað á döfinni, fundur með varaborgarfullrúanum, fundur í stýrihóp um heimilisleysi og fleira
TÍMAMÓT hjá þjóðkirkjunni
3.3.2019 | 17:28
Ég hef setið á framhaldskirkjuþingi um helgina og í morgun var samþykkt tillaga að nýrri stefnu þjóðkirkjunnar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar ásamt fylgiskjali með ítarlegu verkferli. Þessi vinna mín, ásamt tveimur öðrum, hefur staðið síðan í nóvember en á kirkjuþingi 2018 var samþykkt tillaga mín og nokkurra annarra að skipa nefnd þriggja fulltrúa til að móta stefnu og verklag. Einnig var lagt til og það samþykkt að setja á laggirnar teymi utanaðkomandi sérfróðra aðilar um þessi mál. Teymið tekur á móti kvörtunum sem upp kunna að koma á starfsstöðvum þjóðkirkjunnar og er varða ofbeldi af hvers lags tagi. Teymið kannar málið eftir ákveðnu verklagi og skilar áliti sínu í greinargerð. Allt starfsfólk kirkjunnar og aðrir þeir sem hagsmuna eiga að gæta og sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi, einelti eða kynferðislegri áreitni geta vísað máli sínu til Teymis þjóðkirkjunnar. Teymið mun taka til starfa í sumar. Samþykkt þessarar tillögu eru tímamót hjá þjóðkirkjunni og fyrir hönd hennar og starfsmanna er ég afar ánægð með þennan áfanga.
Að allir fundir í borginn verði opnir fundir
1.3.2019 | 17:24
Var að koma af forsætisnefndarfundi og lagði fram tillögu um að allir fundir borgarráðs, ráða og nefnda verði opnir. Ástæðan er tvíþætt, annars vegar að ég tel að fundirnir fari þá betur fram og hins vegar til að auka gegnsæi.
Svona hljóðar tillagan:
Lagt er til að fundir borgarráðs auk funda nefnda og ráða á vegum Reykjavíkurborgar verði opnir almenningi. Á því verði sú undantekning að fundir verði lokað þegar trúnaðarmál eru til umfjöllunar. Ástæða fyrir að þessi tillaga er lögð fram er að borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að með því að hafa fundina opna er líklegra að þeir fari betur fram og að samskipti á þeim verði betri en áður. Markmiðið er einnig að með því að hafa fundina opna eykur það gegnsæi og gerir almenningi og fjölmiðlum þannig kleift að fylgjast betur með störfum borgarstjórnar.
Greinargerð
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur oft þótt fundir borgarráðs, ráða og nefnda erfiðir og hefur rætt það bæði við valdhafa borgarinnar einstaklingslega og einnig opinberlega. Það er mjög líklegt að með því að hafa fundi opna í þeirri merkingu að þeir séu sendir út á vefinn fari þeir betur fram en áður.
Hvað varðar gegnsæi þá er það þannig að langstærsti hluti af störfum borgarstjórnar fer fram á vettvangi borgarráðs, ráða og nefnda sem starfa í umboði og á ábyrgð hennar. Í flestum tilvikum eru ákvarðanir teknar á þessum fundum og þær síðan staðfestar af borgarstjórn oft án mikillar umræðna. Á meðan fundir ráða og nefnda eru lokaðir hefur almenningur litla sem enga möguleika á að fylgjast með umræðum á þeim vettvangi þar sem málinu er í raun ráðið til lykta.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur ekki nauðsynlegt að umræddir fundir verði sendir út í mynd heldur einungis í hljóði í gegnum vefinn. Finna má í 55. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar leyfi fyrir fyrirkomulagi sem þessu um einstaka fundi. Hér er lagt til að samþykktin um opna fundi verði virkjuð þannig að fundir séu almennt opnir nema þegar fjallað er um trúnaðarmál. Umrætt ákvæði í samþykktinni hljóðar svo:
Samkvæmt 55. gr. samþykktar segir:
Nefndir borgarstjórnar geta ákveðið að efna til opinna funda með borgarbúum, íbúum einstakra hverfa, féloÌgum eða oÌðrum hagsmunahópum þegar þær hafa til meðferðar mál sem eðlilegt þykir að fjalla um á þann hátt áður en þau eru afgreidd í viðkomandi nefnd. Fagráð sem kosin eru skv. B-lið 63. gr. skulu að jafnaði halda einn opinn fund árlega.
Mikið lagt á starfsmenn borgarinnar. Það er komið nóg!
23.2.2019 | 16:55
Borgarritari og borgarstjóri ættu að biðja starfsfólk borgarinnar afsökunar á að hafa brugðist skyldum sínum. Ekkert af þessum andstyggðarmálum hefðu komið upp hefðu þeir sinnt starfi sínu og viðhaft sem dæmi eftirlit eins og þeim bar. Þá hefðum við ekki setið uppi með þetta braggamál. Og hefði borgarritari geta tekið á starfsmannamálum fjármálastjórans og skrifstofustjórans hefði þessi dómur Héraðsdóms aldrei falli sem kostar borgarbúa 5 milljónir. Svo er það jafnréttisbrotið og brot á persónuverndarlögum. Fleira er hægt að telja til. Ég segi eins og borgarritari, það er komið nóg! Það er komið nóg af ábyrgðarleysi, þöggun og að kenna öðrum um. Við vonum innilega að ekki fleiri skítamál eigi eftir að mokast upp.
Þrátt fyrir allt þetta hefur sennilega enginn minnihluti lagt fram eins mörg góð mál í þágu fólksins í borginni (sjá hér). Við höfum ekki látið þessi skandalmál trufla okkur í því sem við vorum kosin til að gera og lofuðum fólkinu. Alla vega ekki Flokkur fólksins
Ég segi að þessir valdhafar skulda starfsfólki borgarinnar afsökunarbeiðni, að hafa lagt öll þessi ósköp á það. Að ráðast á borgarfulltrúa minnihlutans og kenna þeim um að valda vanlíðan hjá starfsfólki borgarinnar er undirbeltisstað skot til að dreifa athyglinni frá eigin mistökum. Til að toppa þetta segir borgarritari, " þeir sem bregðast við taka þetta greinilega til sín". En þetta stemmir ekki. Ég tek þetta ekki til mín enda hef ekki hallmælt neinum starfsmanni borgarinnar sem sinnir sínu starfi að heiðarleika og alúð en ég ætla samt að bregðast við þessu!!
Síminn er stundum besti vinurinn
20.2.2019 | 09:43
Snjalltæki, snjallsíminn og börn eru nokkuð í umræðunni núna. Það versta sem getur hent suma unglinga er að síminn þeirra verði tekinn af þeim. Að gleyma eða týna farsímanum er mörgum fullorðnum hin versta martröð. Síminn er ómissandi hluti af daglegu lífi okkar og er allt að því fastgróinn í lófa margra. Það breytir ekki því að margir eru uggandi yfir börnum þessa lands og hversu háð þau eru orðin snjalltækjum. Á meðan börnin eru í skólanum viljum við að þau sinni náminu af óskertri athygli. Með símann í vasanum, í kjöltunni, í töskunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá bara verður maður að gá hvaða skilaboð eru komin á skjáinn. Við þekkjum þetta allflest.
Snjallsíminn og skólinn
Eðlileg spurning er hvort ekki eigi að hvíla símann á meðan börnin eru í skólanum. Einstaka skólar hafa gengið svo langt að banna snjallsímanotkun á skólatíma. Í þeim tilfellum er nemendum heimilt að koma með snjallsíma í skólann en þeir verði settir í vörslu skólaritara á meðan á skólastarfi stendur og ekki afhentir aftur fyrr en í lok skóladags.
Frakkar hafa t.d bannað snjallsíma í grunnskólum með þeim rökum að skólinn eigi að vera sá vettvangur þar sem börn og unglingar eiga félagsleg samskipti sín á milli án truflana frá símtækjum. En það er aldrei gaman að leggja til boð og bönn. Stundum er því brugðið á það ráð að fara mildari leið og vera frekar með vinsamleg tilmæli um að hinir fullorðnu sammælist um að börnin skilji símann eftir fyrir utan skólastofuna á skólatíma.
Börn og samfélagsmiðlar
Eins og vitað er verja börn og unglingar umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oftast í gegnum snjallsíma. Börn sem hafa einangrað sig frá skóla og félögum vegna kvíða eru líklegri til að hanga meira í símanum og tölvunni. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli streitu og kvíða og mikillar netnotkunar sem er einna helst í gegnum símann. Margt af því sem börn gera í tölvu og síma getur auðveldlega valdið spennu, streitu og pirringi. Fyrst má nefna tölvuleiki. Í verstu tilfellum stjórnar gengi barnsins í tölvuleiknum líðan þess. Gangi illa í leiknum verður barnið reitt og pirrað en gangi vel er barnið glatt og kátt. Tölvuleikir og skjánotkun almennt séð hefur aðdráttarafl. Þegar barnið er ekki við skjáinn myndast stundum óþreyja og pirringur. Aðrir hlutir daglegs lífs verða grámyglulegir í augum barns sem upplifir að mestu skemmtunin sé fyrir framan skjáinn. Óhófleg og stundum stjórnlaus skjánotkun getur auðveldlega dregið úr áhuga barns á námi og skólaástundun, jafnvel tómstundum, og samvera með fjölskyldu og vinum minnkar.
Mótvægisaðgerðir/reglur
Sem sálfræðingur til 30 ára sem hefur unnið mikið með börnum, unglingum og foreldrum tel ég mikilvægt að foreldrar hafi gott aðgengi að fræðslu þegar kemur að málefnum barna sinna og þá er snjallsímanotkun engin undantekning. Barn sem eyðir allt að fjórum tímum á dag fyrir framan skjá er í hættu með að þróa með sér kvíðatengd vandamál.
Í þeim tilfellum þar sem foreldrar nefna of mikla tölvunotkun og ónógan svefn sem hluta af kvíðavandanum eru börnin ekki endilega sammála og því ekki alltaf fús til að draga úr notkuninni. Þetta er oft erfitt og reynir á allt heimilisfólkið.
Stundum má skynja vanmátt foreldra sérstaklega ef barnið hefur lengi haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að nettengdum skjá. Mörgum foreldrum finnst oft óljóst hvað flokkast sem óhófleg notkun snjallsíma. Þá treysta foreldrar sér stundum ekki til að setja reglur af ótta við að barnið bregðist illa við því. Sumir foreldrar óttast jafnvel að unglingar þeirra munu bregðast við með ofsa, eigi að fara að setja þeim mörk hvað varðar skjá- og netnotkun. Það gæti því verið mjög hjálplegt ef skólinn bjóði foreldrum upp á leiðbeiningar og ráðgjöf um reglur og stuðning til að viðhalda reglunum. Kenna þarf börnunum að umgangast Netið af varúð, vanda tjáskipti sín á samfélagsmiðlum og varast allar myndsendingar sem geta valdið misskilningi eða særindum. Best er að setja viðeigandi mörk og setja reglur um tölvunotkun á heimilinu um leið og barnið kemst á þann aldur að fara að nota tölvu/síma. Reglurnar þurfa að vera í samræmi við aldur og þroska barnsins sem og félags- og námslega stöðu þess.
Börn eiga ekki að hafa eftirlitslausan aðgang að skjá og neti. Ég tel tímabært að skoða hvort ekki þurfi að stýra snjallsímanotkun í skólum hvort sem það er sett í einhvers konar bannútgáfu eða tillögu um að setja símann í geymslu á skólatíma.
Bókunarvald minnihlutans ekki virt á fundum
15.2.2019 | 18:48
Að gefnu tilefni fannst mér ég knúin til að leggja fram bókun í borgarráði um hversu langt meirihluti borgarinnar hefur stundum gengið til að hafa áhrif á hvernig borgarfulltrúar minnihlutans bóka í hinum ýmsu málum á lokuðum fundum eins og í borgarráði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst fulltrúar meirihlutans oft hafa gengið allt of langt í að reyna að hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum, bæði með því að gagnrýna efni bókanna harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel ákveðnu atferli í verstu tilfellum. Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt. Bókanir eru alla vegna eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr kafinu hafa verið að koma mörg mál sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð. Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.