Handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur þeirra sem taka sitt líf
25.6.2009 | 10:26
Sjálfsvíg, stuðningur við aðstandendur.
Þátturinn kominn á vef ÍNN www.inntv.is
Umfjöllun um stuðning við aðstandendur og þar á meðal þessa nýju bók sem Biskupsstofa og Skálholtsútgáfan gefur út í þýðingu Elínar Ebbu Gunnarsdóttur, rithöfundar.
Gestir þáttarins eru: Elín Ebba, Halldór Reynisson og Katrín Andrésdóttir.
Höngum saman í sumar er yfirskrift sumarátaks SAMAN- hópsins. Með átakinu vill hópurinn hvetja foreldra og börn til samveru yfir sumartímann. Yfirskriftin hefur þá skírskotun að samveran þarf ekki að kosta neitt, vera skipulögð eða hafa skemmtanagildi, en skili engu að síður árangri.
SAMAN hópurinn hefur gert marga góða hluti, staðið fyrir ýmsum verkefnum sem ég tel að hafi skilað sér vel til foreldra og barna.
Hvað yfirskrift þessa verkefnis varðar hefði það mátt einfaldlega heita Verum saman í sumar eða Gaman saman í sumar.
Að hanga saman hefur alla vega í minni vitund eilítið neikvæðan blæ yfir sér eins og fólki jafnvel leiðist og sé eiginlega að bíða eftir að tíminn líði.
Tímamótadómur í eineltismáli.
23.6.2009 | 16:42
Fær miskabætur vegna eineltis á vinnustað
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Ásdísi Auðunsdóttur, sem starfaði á Veðurstofunni, hálfa milljón króna í miskabætur vegna eineltis, sem hún sætti á vinnustaðnum.
Er þetta ekki tímamótadómur sem ber að fagna?
Ég minnist þess ekki að áður hafi fallið dómur í eineltismáli þar sem íslenska ríkið er gert að greiða skaðabætur.
Ásdís leitaði til stéttarfélags síns vegna þess að hún taldi sig hafa sætt einelti af hálfu yfirmanns síns. Að mati Veðurstofunnar stöfuðu þessir árekstrar af því að konan vildi skilgreina starf sitt með öðrum hætti en yfirmenn hennar.
Annað markvert í þessu er að það er mat dómsins, að síðbúin viðbrögð veðurstofustjóra hafi falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda Ásdísi vanlíðan. Var ríkið talið skaðabótaskylt vegna þess.
Einelti á vinnustað er vísbending um stjórnunarvanda að mínu mati og margra annarra sem hafa skoðað þessi mál. Ef svona ástand sprettur upp og fær að þrífast um einhvern tíma er oft eitthvað verulega bogið við stjórnunarhætti yfirmanns vinnustaðarins. Ef yfirmaður/menn eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skynja ástandið eða neita meðvitað eða ómeðvitað að viðurkenna vandann þá er ekki von til þess að mál sem þetta leysist fljótt og farsællega.
Dæmi eru um að yfirmenn falli í þá gryfju að kalla þann sem fyrir þessu verður á teppið og fullyrða að þar sem svo margir eru óánægðir með hann/hana, hlýtur vandinn að liggja hjá viðkomandi.
Því sé e.t.v. best að í stað þess að fara að takast á við reiða einstaklinginn/hópinn, þá sé ráð að þolandinn hætti störfum. Gildir þá einu hversu góður fagmaður viðkomandi er, eða nokkuð annað, ef því er að skipta.
Mörg mál af þessu tagi lykta einmitt með þessum hætti. Afar fá fara fyrir dómstóla enda sú leið bæði kostnaðarsöm og tyrfin. Hugsanlega mun nú verða breyting á þegar komið er fordæmi eins og með þessum nýfallna dómi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook
Ástvinamissir vegna sjálfsvígs
22.6.2009 | 09:32
Ástvinamissir vegna sjálfsvígs er yfirskrift þáttarins
Í nærveru sálar á ÍNN í kvöld og er einnig titill nýútkominnar handbókar til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur. Biskupsstofa og Skálholtsútgáfan gefa út handbókina.
Gestir: Elín Ebba Gunnarsdóttir, rithöfundur og þýðandi handbókarinnar. Hún er einnig aðstandandi. Halldór Reynisson, verkefnastjóri Biskupsstofu og Katrín Andrésdóttir, íþróttakennari er einnig aðstandandi.
Við syrgjum öll á mismunandi hátt segir í bókinni. Við þurfum að vita að tilfinningarfárviðrið er eðlilegt: ringulreiðin, einstaklingshelförin, örvæntingin, sektarkenndin, sjálfsásökun, stundum reiði og svo óendanlegt magnleysi og þreyta.
Þær Elín Ebba og Katrín sem báðar eru aðstandendur segja að stuðningshópur getur verið eins og griðastaður. Stuðningur sem til þess er fallinn að styðja aðstandendur til sjálfshjálpar getur einnig mildað og auðveldað þess erfiðu vegferð.
Markmiðið er að ná stillingu, jafnvægi, finna málamiðlun, læra að lifa með missinn og ná við hann nægjanlegri fjarlægð til að takast á við daglegt líf.
Í Nærveru Sálar kl. 21.30 í kvöld, 22. júní.
Fjölskyldur flýja land
21.6.2009 | 19:16
Það lítur út fyrir að það sé alvarlegt tengslaleysi á milli annars vegar, ríkisstjórnarinnar og aðgerða hennar til að bjarga heimilum og hins vegar, bankanna/lánadrottna.
Reglulega berast tíðindi um að einstaklingar og fjölskyldur kvarti yfir að ná ekki eyrum lánadrottna sinna og að ekkert gangi að semja við þá um raunhæfa greiðslubyrði. Hér er í mörgum tilvikum verið að tala um bankana.
Sú eina leið sem virðist fær fyrir sumar fjölskyldur sem ekki ná raunhæfu samkomulagi við lánastofnanir er að yfirgefa land og þjóð og margar segjast ekki ætla að snúa aftur heim næstu árin.
Með hverri fjölskyldu sem yfirgefur landið er mikið tap fyrir alla og ekki síst fyrir lánastofnanirnar. Mörg dæmi eru um að banki/bankar eigi hreinlega fjölskyldur. Þeir tapa því mest flýi viðkomandi fjölskylda land. Það eru þá bankarnir sem eiga eignirnar sem sitja uppi með þær. Engin borgar af eigninni og engin leið er að selja hana nú.
Sú brú sem átti að vera frá ríkisstjórn og aðgerðum hennar yfir til lánastofnanna hefur greinilega ekki verið fullsmíðuð. Jóhanna og Steingrímur þurfa að fara að tukta til þessar stofnanir. Sveigjanleiki og skilningur er það sem þarf nú gagnvart fjölskyldum sem skulda. Ef ég man rétt voru það skilaboð stjórnvalda til lánastofnanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook
Í minningu fallinna eineltisþolenda
21.6.2009 | 14:33
Í minningu fallinna eineltisþolenda er grein eftir Ingibjörgu H. Baldursdóttur móður Lárusar heitins en hann, eins og móðir hans skrifar í grein sinni og birt er í Morgunblaðinu í dag, 21. júní,
hafði þurft að þola ofbeldi í sinni ljótu mynd í skóla, ofbeldi sem braut sjálfsmynd hans í mola og fylgdi honum eins og svartur skuggi allt hans líf og felldi hann að lokum.
Í greininni segir Ingibjörg frá því hvernig nafnið á Samtökum foreldra, eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico, er tilkomið. Jerico var notendanafn Lárusar á netinu. Það var einmitt á þeim vettvangi sem Lárus mátti m.a. þola aðkast og ljótar og niðurlægjandi athugasemdir.
Ingibjörg segir einnig frá því að 16. júní sl. var kynnt hugmynd að sérsveit/fagteymi á fundi hjá menntamálaráðuneyti með ráðuneytum, stofnunum, samtökum og félögum alls staðar að úr íslensku samfélagi. Sérsveitarhugmyndin hafði áður verið sérstaklega kynnt heilbrigðisráðherra og um hana var einnig rætt við Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, fulltrúa frá Menntasviði Reykjavíkurborgar og formann Félags Skólastjóra í þættinum Í nærveru sálar þann 18. maí sl.
Nú er að bíða og sjá hvort stjórnvöld og ráðamenn sem hafa með þennan málaflokk að gera taki við sér og þiggi að skoða með okkur sem að hugmyndinni standa þetta úrræði sem hugsað er sem neyðarúrræði í þeim tilvikum þar sem þolandi og aðstandendur fá ekki úrlausn mála sinna í skóla barnsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
Góð fyrirmynd að hjóla en slæm fyrirmynd að vera hjálmlaus
19.6.2009 | 10:05
Það var gott að ekki fór verr fyrir umhverfisráðherranum sem féll af reiðhjóli sínu og skall með höfuðið í götuna.
Sannarlega frábært hjá henni að hjóla og mættu fleiri taka sér þann ferðamáta til fyrirmyndar. En að vera án hjálms er náttúrulega ekki nógu gott og það fékk Svandís að reyna á eigin skinni.
Hún slapp með skrekkinn og mun líklega vera komin með hjálm áður en dagur er úti.
Síðustu sjö komnir á Netið
17.6.2009 | 17:15
Eftirfarandi þættir Í nærveru sálar eru nú komnir inn á www.inntv.is:
15.06. Leitað í smiðju unglinganna í baráttunni gegn einelti.
Erna Sóley Stefánsdóttir, Karen Carlsson og Sandra Benediktsdóttir.
08.06. Varðhundur borgaranna.
Traustir Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við HÍ.
01.06. Karate. Góð íþrótt, gulli betri.
Sigríður Torfadóttir, Indriði Jónsson og Birkir Jónsson.
25.05. Allt um Vinun, ráðgjafa- og þjónustufyrirtækið.
Gunnhildur Heiða Axelsdóttir, frumkvöðull.
18.05. Sérsveitarhugmyndin kynnt fyrir menntamálaráðherra og fleirum.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Auður Stefánsdóttir, skrifstofustjóri Menntasviðs, Selma Júlíusdóttir, skólastjóri Lífsskólans og Kristinn Breiðfjörð, formaður Skólastjórafélagsins.
Viðmælandi kemur ekki fram undir nafni.
04.05. Hvernig tökum við á rafrænu einelti?
Heiða Kristín Harðardóttir og Kristrún Birgisdóttir ræða um rannsókn sína á rafrænu einelti.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Leitað í smiðju unglinga í baráttunni gegn einelti
15.6.2009 | 11:08
Þær koma með góða punkta stúlkurnar í þættinum Í nærveru sálar í kvöld. Þær heita Karen Carlsson og Sandra Björk Benediktsdóttir og voru báðar að útskrifast úr 10. bekk.
Með þeim er Erna Sóley Stefánsdóttir, forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar Versins í Hafnarfirði.
Við ræðum saman um hvað megi betur fara í þessum málum í grunnskólum, skoðum eineltisáætlanir, ræðum um rafrænt einelti, forvarnir og viðbrögð eins og það kanna að líta út frá sjónarhorni unglinga.
Tvímenna í klefa, er það svo slæmt?
14.6.2009 | 20:02
Í fréttum í kvöld var verið að fjalla um ástandið í fangelsismálum landsins. Öll fangelsi eru yfirfull og tugir ef ekki hundruðin bíða þess að getað afplánað.
Sagt var frá því að dæmi eru um að fangar þurfi að tvímenna í klefa og slíkt sé með öllu óásættanlegt.
Ég spyr, er það svo slæmt að deila klefa með öðrum fanga? Ég hef ekki sjálf verið fangi þannig að kannski á ég ekki að tjá mig um þetta neitt sérstaklega. Ég geri mér þó alveg grein fyrir að það getur verið afar mikið álag að deila klefa með einhverjum sem maður á ekkert sameiginlegt með annað en að vera innilokaður í fangelsi. Það hlýtur því að skipta máli að skoðað sé sérstaklega hverjir deili fangaklefa.
En takist nú vel til að velja saman fanga í fangaklefa þá skyldi maður ætla að það þurfi ekki endilega að vera erfiðasta reynsla fangans á afplánunartímanum. Við það að deila klefa með öðrum gætu verið einhverjir kostir, sem dæmi, aukin samskiptafærni, þjálfun í að sýna hvor öðrum tillitssemi og umburðarlyndi. Samveran út af fyrir sig gæti einnig verið af hinu jákvæða?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook
Þekki þið svona manneskju?
14.6.2009 | 09:56
Ég er að leita að manneskju sem er þekkt fyrir að búa yfir þeim eiginleikum að vera jákvæð, glaðlynd, tilfinningarík, lætur sér annt um náungan, ófeimin, vel að sér á helstu sviðum mannlífsins, raunsæ, heiðarleg, víðsýn, kjarkmikil og kraftmikil. Manneskju sem lætur illa að vola og kvarta þótt aðstæður sé erfiðar og kýs frekar að bretta upp ermarnar og leita lausna.
Þekkið þið einhvern sem þessi lýsing á við?
Ef svo er, endilega látið mig vita annað hvort hér á bloggsíðunni eða með tölvupósti: kolbrunbald@simnet.is eða kolbrunb@hive.is
Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti kynnt frekar í menntamálaráðuneytinu á þriðjudaginn
13.6.2009 | 11:09
Á þriðjudaginn verður haldinn fundur með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að tilstuðlan heilbrigðisráðuneytis þar sem talsmenn Sérsveitarhugmyndarinnar í baráttunni gegn einelti kynna hana enn frekar.
Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti
Með einföldum hætti er hægt að búa til úrræði í formi sérstaks fagteymis. Teymi sem þetta verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur. Teymið er fyrst og fremst hugsað sem úrræði í þeim málum sem ekki hefur náðst lausn í með úrræðum sem skólar hafa yfir að búa. Í þessum tilvikum geta foreldrar leitað til teymisins og óskað eftir því að það taki málið til skoðunar. Hér er mikilvægt að taka fram að með hugmyndinni um sérstakt fagteymi er ekki meiningin að taka ábyrgðina af skólastjórnendum.
Skólastjórnendur eru ávallt þeir sem fá málið fyrst inn á borð til sín og innan skólans er fyrst leitað leiða til lausna. Hugmyndin er frekar sú að fagteymið verði einungis virkjað sé það mat foreldra þolanda að skólinn hafi ekki ráðið við að stöðva eineltið þannig að þolandanum finnst hann öruggur í skólanum. Sé teymið kallað út að beiðni forráðamanna þolanda mun það setja sig í samband við viðkomandi skóla, óska eftir samvinnu við skólastjórnendur og fagaðila hans með ósk um að málið verði leyst í sameiningu.
Í sumum tilvikum gæti nægt að teymið veitti skólayfirvöldum og fagfólki hans ráðgjöf og leiðbeiningar um hvernig hugsanlega væri best að bregðast við og hvaða skref gætu þurft að taka til að höggva á hnútinn. Betur sjá augu en auga. Teymið mun þó í engum tilvikum sleppa hendi af þolandanum fyrr en staðfest hefur verið af honum og forráðamönnum hans að búið sé að stöðva eineltið, ræða við alla aðila málsins og að fyrir liggi að öryggi barnsins í skólanum sé tryggt.
Eðli málsins samkvæmt er það fyrirsjáanlegt að hugmynd um sérstakt utanaðkomandi fagteymi getur ekki orðið að veruleika nema með milligöngu stjórnvalda. Til að teymið geti borið sig að með skilvirkum hætti er nauðsynlegt að það hafi greiðan aðgang að skólanum og þeim sem tengjast málinum með einum eða öðrum hætti. Teymið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á samvinnu við skólastjórnendur og starfsfólk skólans. Samvinna fagteymis og viðkomandi skóla skiptir öllu máli ef takast á að uppræta einelti með árangursríkum hætti.
Nákvæmari útfærslu á Sérsveitarhugmyndinni má finna hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook
Mikil fjölgun í Sólóklúbbnum í kjölfar þáttarinns
11.6.2009 | 09:58
Það hefur orðið 44% fjölgun í Sólóklúbbnum eftir að þátturinn Í nærveru sálar var sendur út 27. apríl sl. sem fjallaði um starfssemi Sólóklúbbsins og félagsins Parísar.
Þessir tveir klúbbar standa opnir öllum þeim sem eru einhleypir og langar til að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki.
Kristín frá Sólóklúbbnum tjáði mér í gær að hún hafi síst átt von á svo jákvæðum og miklum viðbrögðum sem raun bar vitni. Fólk hringdi í hana persónulega og stór hópur gekk til liðs við félagsskapinn vikurnar eftir útsendingu. Meðlimir í Sólóklúbbnum eru nú alls 130. Ég hef ekki náð sambandi við Sigríði sem er í forsvari fyrir París til að kanna hvort þessu sé eins farið hjá þeim.
www.paris.is
www. soloklubburinn.is
Varðhundur hins almenna borgara
8.6.2009 | 10:23
Umræðuefnið Í nærveru sálar í kvöld er réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum og hver gætir hagsmuna þeirra ef á þeim er brotið.
Ástæðan fyrir vali á þessu efni er að svo allt of oft heyrir maður fólk kvarta yfir því að erindum sem beint er til stofnanna hins opinbera sé ekki svarað enda þótt frestur samkvæmt stjórnsýslulögum sé löngu liðinn. Hvaða úrræði hefur fólk sem finnur sig í slíkum aðstæðum?
Á ÍNN í kvöld fræðir Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti, okkur um embætti Umboðsmanns Alþingis sem mér finnst, persónulega, að ætti frekar að heita Umboðsmaður Almennings.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook
Fullt hægt að gera frítt!
7.6.2009 | 11:02
Það var skemmtileg samantekt í DV um daginn um hluti sem kosta ekkert og hvað hægt sé að gera án þess að þurfa að greiða fyrir það. Eina sem þarf er bara hugmyndaflug og svo að drífa sig af stað.
Greinin var kaflaskipt í Útivist, Hreyfing, Góðgerðarstarf, Veraldarvefurinn, Menning, Þjónusta, og síðan Landsins gæði og Hitt og þetta.
Undir yfirskriftinni Hitt og þetta var t.d. heimsókn til vina og vandamanna, fara á stefnumót og já síðan stunda kynlíf sem eins og höfundur segir, er að öllu jöfnu ókeypis, hvort heldur það er gott eða lélegt.
Fyrir þá sem eru verulega verkefnalausir og finnst tilveran grá má t.d. skoða hús á sölu án þess að kaupa, nú eða taka þátt í mótmælum.
Enginn aðgangseyrir er heldur að einu af stærsta leikhúsi landsins sem að mati höfundar er sjálft Alþingi Íslendinga. Á Alþingi fer fram dagskrá sem getur bæði verið áhugaverð og skemmtileg.
Borgarafundur í Seljakirkju um löggæslumál í Breiðholti. Gestir eru dómsmálaráðherra og lögreglustjóri
4.6.2009 | 16:31
Almennur borgarafundur um löggæslumál í Breiðholti
STÖNDUM VÖRÐ UM GÓÐA LÖGGÆSLU Í BREIÐHOLTI
Íbúasamtökin Betra Breiðholt (ÍBB) standa fyrir fundi um
löggæslumál í Breiðholti hinn 4. júní í Seljakirkju.
Fundurinn hefst kl. 20:00
Gestir fundarins eru Stefán Eiríksson,
lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Eins og kunnugt er hefur lögreglustöðin í Mjódd nú færst yfir á Dalveginn
í Kópavogi. Íbúum í Breiðholti gefst kostur á að heyra hver staða
löggæslumála er um þessar mundir í Breiðholti og hvernig málum verður
háttað í framtíðinni.
Fundarstjóri: Ólafur J. Borgþórsson, prestur.
Dagskrá:
Kl. 20:00
Formaður stjórnar ÍBB, Helgi Kristófersson setur fundinn.
Kl. 20:05
Þorsteinn Hjartarson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar í
Mjódd ræðir um samstarf lögreglunnar við þjónustumiðstöðina.
Kl. 20:15
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins ræðir um
breytingar á fyrirkomulagi löggæslunnar í Breiðholti.
Kl. 20:35
Ragna Árnadóttir, Dóms- og kirkjumálaráðherra ræðir um
löggæsluna frá sjónarhorni Dómsmálaráðuneytisins.
Kl. 20.45 Almennar umræður og fyrirspurnir.
Öflug löggæsla og náið samstarf íbúa við lögreglu er
hagur allra.
Íbúar í Breiðholti eru hvattir til að fjölmenna.
Stjórn Íbúasamtaka Betra Breiðholts.
Hundar sem eigendur vilja losa sig við
4.6.2009 | 11:29
Það er sárt að hugsa til þess með hvaða hætti sumt fólk reynir að losa sig við gæludýrin sín. Dæmi eru um að þau eru skilin eftir við útidyrnar hjá öðrum og eflaust þá einna helst í Kattholti eða á hundahótelum. Hræðilegast er þó að hugsa til þess að þau séu skilin eftir þar sem vitað er að þau muni ekki finnast og látin þannig deyja úr sulti og þorsta.
Flestir sem taka þá ákvörðun að eignast gæludýr eru ábyrgir aðilar sem jafnframt hafa gert sér grein fyrir þeirri skuldbindingu sem því fylgir að taka að sér að annast um dýr. En því miður finnst fólk sem þykir þessi ákvörðun léttvæg og gera sér ekki grein fyrir þeirri vinnu sem henni fylgir. Þessir sömu aðilar eru sennilega þeir fyrstu sem vilja síðan losna við dýrin þegar minnkar í buddunni eða þegar þeir verða áþreifanlega varir við að dýrinu þarf að sinna.
Þótt ástandið í samfélaginu sé slæmt og kunni að eiga eftir að versna skulum við ekki gleyma að hlúa að dýrunum sem eiga allt undir eigendum sínum. Ef við verðum vör við að dýr sé vanrækt eða illa farið með það á einhvern hátt, er það skilda okkar að láta okkur það varða t.d. með því að tilkynna það.
Fátt er eins gefandi en að hlúa vel að gæludýrinu sínu: gefa því gott heimili, veita því öryggi og sjá til þess að því líði vel í alla staði. Endurgjöfin er líka ómetanleg. Þakkæti, traust og ást skín úr augum dýra sem njóta góðrar aðhlynningar eigenda sinna.
Góð íþrótt, gulli betri. Tóm hönd á ÍNN í kvöld
1.6.2009 | 10:41
Agi, virðing og líkamleg þjálfun sem skerpir huga og nærir sál.
Við hnýtum beltishnútana, setjum okkur í stellingar og ræðum um Karate sem þýðir tóm hönd og er forn japönsk bardagaíþrótt. Við skoðum saman sálfræðina sem henni tengist og hvernig hún er iðkuð hér á landi.
Gestir Í nærveru sálar í kvöld kl. 21:30 eru Sigríður Torfadóttir, sem nýlega fékk svarta beltið, Indriði Jónsson, brúnbeltingur og sonur hans Birkir sem einnig skreytir sig með svörtu belti.
Fjölmiðlar | Breytt 17.6.2009 kl. 16:11 | Slóð | Facebook
Leið til betra lífs. ÍNS á ÍNN í kvöld kl. 21.30
25.5.2009 | 11:11
Vinun er ráðgjafa- og þjónustumiðstöð.
Fyrir hverja?
Fyrir fólk sem þarfnast aðstoðar vegna fötlunar, veikinda, slysa og/eða öldrunar.
Allt um VINUN í ÍNS (Í nærveru sálar) á ÍNN 25. maí kl. 21.30