Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Meistaraprófs krafist af kennurum á öllum menntastigum
28.11.2007 | 10:01
Mín vitneskja á innihaldi þessara frumvarpa er fengin úr fjölmiðlum.
Ég tel mig strax sjá í hendi mér að í þessum frumvörpum felast margar góðar breytingar og löngu tímabærar. Má þar nefna sérstaka áherslu á að iðn- og verknám verði metið til jafns við bóknám og einnig sú samfella sem verður í skólastarfinu þar sem eitt skólastig tekur við af öðru.
Það sem hins vegar slær mig er að meistaraprófs skuli vera krafist af kennurum á öllum menntastigum. Hér er verið að tala um skilyrði sem ég gæti trúað að erfitt yrði að fullnægja.
Ég velti því jafnframt fyrir mér hvort hér sé ekki full langt gengið og hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að setja þau skilyrði að enginn geti kennt t.d. við leik- og grunnskóla öðruvísi en að vera sérfræðingur, þ.e. með meistarapróf.
Sú upplifun mín hingað til af kennurum, hvort heldur kennurum barna minna eða kennurum sem ég hef starfað með er ekki sú að þeir hafi verið illa menntaðir nema síður sé.
Vissulega eru kennarar mishæfir eins og gengur og gerist í fagstéttum. En hvort hæfni þeirra til starfsins hafi verið ábótavant vegna þess að þeir hafi ekki haft meistarapróf í greininni efast ég stórlega um.
Ég veit ekki hvað kennurum sjálfum finnst um þetta menntunarskilyrði. Eins og staðan er í dag þá vitum við hins vegar að kennarar upp til hópa telja sig fá allt of lág laun miðað við núverandi menntunarstig þeirra og kröfur sem kennarastarfið gerir. Flótti er úr stéttinni núna í aðdraganda nýrra kjarasamningsviðræðna og stefnir í neyðarástand í sumum skólum.
Verði krafan sú að þeir einir fá kennsluréttindi sem hafi að lágmarki meistarapróf segir það sig sjálft að launin þurfa að hækka verulega. Við kennaranámið eins og það er í dag bætist allt að tvö ár og eykst námskostnaður að sama skapi.
Ég vona að þetta atriði frumvarpsins verði skoðað ofan í kjölinn og fái mikla og góða umræðu bæði á þinginu, meðal kennara og foreldra.
Menntun er sannarlega mikilvæg enda leggjum við mikla áherslu á að einstaklingurinn sæki sér menntun. Menntunarstig hefur almennt hækkað, krafist er lengri menntunar á mörgum sviðum og einnig meiri sérfræðimenntunar. Einu sinni þótti glæsilegt að hafa lokið landsprófi/ gagnfræðaprófi en nú virðist ekkert duga minna en stúdents- eða framhaldsskólapróf.
Kjarni málsins er að allir eigi þess kost að mennta sig, óski þeir þess, og að námsvalið sé fjölbreytt þannig að hver og einn geti sótt sér menntun við hæfi og eftir áhugasviði.
Mér sýnist að margt í þessum frumvörpum stuðli einmitt að því að svo megi verða í ríkari mæli en nú er. En hvort lágmarksmenntunarstig kennara verði að vera meistarapróf set ég spurningarmerki við.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook
Hin umdeilda biblíuþýðing, hvaðan koma gagnrýnendur hennar?
20.11.2007 | 21:08
Ég hef eftir bestu getu reynt að fylgjast með umfjölluninni um hina nýja bíblíuþýðingu en hún hefur eins og allir vita litast talsvert af gagnrýni á einstaka þætti þýðingarinnar.
Fyrir fáeinum vikum hlustaði ég á Guðrúnu Kvaran, íslenskufræðing og þátttakanda í þýðingarnefnd Nýja Testamentisins gera grein fyrir þýðingarferlinu. Í máli hennar kom skýrt fram að á löngu vinnsluferli þýðingarinnar voru drög oftar en einu sinni send til fjölmargra aðila, presta, kennara í fræðunum og annarra sem vegna starfa sinna og sérþekkingar voru álitnir hæfir til að koma með gagnlegt álit.
Nú vaknar upp sú spurning hverjir það eru sem ganga harðast fram í að gagnrýna hina nýju biblíuþýðingu?
Eru það sérfræðingar sem nefndinni sást yfir að leita til á meðan á þýðingarferlinu stóð?
Eru þetta kannski aðilar sem komu með ábendingar en sem nefndin ákvað síðan að taka ekki mið af?
Eða eru þetta aðilar sem var boðið að senda inn álit sitt og freista þess að hafa áhrif á þýðinguna en kusu ekki að tjá sig fyrr en nú þegar verkið hefur verið útgefið?
Hugsanlega og líklegast tilheyra gagnrýnendur þýðingarinnar öllum þessum þremur hópum en í hvaða hlutfalli er mér ekki kunnugt um. Sumum gæti þótt sem það skipti e.t.v. litlu máli nú þar sem verkið er komið út. Umræðan hefur þó sannarlega verið fyrirferðarmikil.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook
Uppgreiðslugjald ekki beint hvetjandi vilji maður greiða niður lán
19.11.2007 | 10:31
Það er óhætt að segja að hafi einstaklingur fjárhagslega burði til að greiða inn á eða greiða niður lán þá virkar það ekki mjög hvetjandi þegar hann veit að til þess að gera það þarf hann að greiða lánastofnuninni ákveðna prósentu fyrir hverja milljón sem hann greiðir. Sem dæmi, sé uppgreiðslugjald tvö prósent þarf lántakandi að greiða tuttugu þúsund aukalega sbr. þessa frétt.
Ég minnist þess sjálf að þegar ég greiddi niður lán hjá Spron fyrir einhverjum 2-3 árum þá þurfti ég að borga fyrir það einhverja tugi þúsunda sem vissulega hefði betur verið varið í frekari niðurgreiðslu á láninu.
Þetta er sérlega ósanngjarnt sé lánastofnunin líffeyrissjóður því eins og fram kemur í pistlinum, þá greiða sjóðfélagar til sjóðanna og eiga þá.
Nú þegar verið er að hvetja almenning til að skulda minna vegna hárra vaxta þá skýtur þessi ráðstöfun lánastofnanna skökku við.
Að rukka uppgreiðslugjald letur fólk frekar en hvetur til að grynnka á lánum sínum.
Það er því vel skiljanlegt að þessu sé harðlega mótmælt.
Peningamál | Slóð | Facebook
Neyðarástand blasir við í sumum grunnskólum landsins vegna kennaraeklu
15.11.2007 | 15:11
Mínar áhyggjur þessa dagana hafa að gera með þá staðreynd að víða í grunskólum eru kennarar að segja störfum sínum lausum.
Sem skólasálfræðingur hef ég orðið áþreifanlega vör við ugginn sem kennarar, skólayfirvöld og foreldrar upplifa nú æ meira með hverjum deginum sem líður enda spurning hvort takist að manna stöðurnar aftur þennan skólavetur.
Fyrir var ástandið ekki gott þar sem ekki tókst að ráða í allar lausar stöður í haust.
Ef skoðað er á heimasíðu Kennarasambandsins má sjá auglýstan ótrúlegan fjölda af lausum kennarastöðum þegar haft er í huga að nú er miður nóvember.
Óánægjan liggur í lágum launum. Án þess að ætla að gengisfella önnur störf þá þekki ég það af eigin raun hversu krefjandi og álagsmikið kennarastarfið getur verið.
Innan tíðar eru kjarasamningar lausir og heyrist mér kennarar almennt séð ekki vera bjartsýnir á að viðræður skili viðunandi niðurstöðum.
Málið er grafalvarlegt. Eina sem hægt er að vona er að borgarstjórn hafi nú þegar lagst yfir að leita lausna og finna leiðir til að halda í kennara. Leiði samningaviðræður og nýr kjarasamningur til þess að kennarar yfirgefi stéttina í stórum stíl þarf líka að skoða hvernig bregðast skuli við því.
Eitt er víst að börnin halda áfram að koma í skólann sinn og þau eiga rétt á kennslu.
Gefa gömlu leikföngin til barna sem lítið eða ekkert eiga
14.11.2007 | 09:55
Hver man ekki hversu gaman það var þegar maður var barn að fara inn í leikfangaverslun og óska þess að maður gætti eignast fullt af fallegu dóti.
Allt þar til nú hefur lítið farið fyrir sérverslunum á þessu sviði. Einna helst man maður eftir verslun sem heitir Leikbær. Nýlega hafa stórar og heimsfrægar leikfangaverslanir sprottið upp hér í borg og heyrst hefur að fólk bíði í biðröðum fyrir utan til að gera stórkaup á leikföngum.
Ekkert skrýtið við það, jólin nálgast og hver vill ekki gleðja börnin sín og barnabörnin.
Án þess að vilja fullyrða nokkuð held ég að flest íslensk börn eigi talsvert mikið af leikföngum. Nú um þessi jól mun leikfangasafn þeirra vaxa enn frekar.
Þegar hugsað er um að eiga gnótt af einhverju hvort sem það eru leikföng eða annað þá virkar það stundum þannig á skynjunina að minna virðist vera varið í hlutinn/hlutina. Maður kann jafnvel síður að meta verðgildi hans og auknar líkur eru á að fá leið á honum. Ef gnótt er af einhverju þá er líka tilhneigingin stundum sú að ekki er farið eins vel með hlutinn/hlutina eins og maður myndi kannski gera ef minna eða lítið er til.
Fyrir börn sem eiga mikið af leikföngum og eru e.t.v. hætt að leika sér að hluta þeirra, vil ég hvetja foreldrana til að semja við börn sín um að pakka þeim inn í jólapappír og setja t.d. undir jólatréið í Kringlunni þegar því verður stillt upp rétt fyrir jólin
Með því að gleðja börn sem lítið eða ekkert eiga með þessum hætti er enn frekar hægt að njóta þess að eignast nýja hluti.
Er það tímaspursmál hvenær hægt verður að greiða fyrir vörur með evrum í verslunum á Íslandi?
11.11.2007 | 13:52
Ýmsir sérfræðingar á sviði peningamála segja að krónan og evran geti lifað góðu lífi saman næstu árin og að ekki sé nein knýjandi nauðsyn að breyta skipan gjaldeyrismála með formlegum hætti.
Æ fleiri fyrirtæki eru að taka upp annan gjaldmiðil, gera upp og greiða laun aðallega í evrum.
Ekki er annað hægt en að spyrja sig hvort staðan sé að verða þannig að skammt sé í að íslenskir kaupmenn sem kaupa inn í evrum kjósi einnig að selja vöruna í evrum?
Peningamál | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook
Þriðja leiðin: einokun eða fákeppni?
10.11.2007 | 12:56
Einkarekin áfengisverslu eða svokölluð þriðja leiðin sem gerð var skil í pistli í Fréttablaðinu í gær tryggir varla samkeppni í sölu.
Hugmyndasmiðurinn á þó sannarlega hrós skilið fyrir að koma með innlegg í þetta umdeilda málefni en hugmynd hans vekur jafnframt upp nokkrar spurningar.
Þriðja leiðin er útfærð þannig af höfundi að aðeins yrðu gefin út ákveðið mörg leyfi og aðeins ein áfengisverlun verði í hverju hvefi, í hverjum bæ
Er þetta ekki sama einokunin og verið hefur nema að í stað þess að Ríkið njóti góðs af ágóðnum, hirða hann einhverjir fáir útvaldir?
Eins mikið eins og einkavæðing getur átt rétt á sér og verið bráðnauðsynleg til að hægt sé að færa út kvíarnar þá er ekki hægt að leggja að jöfnu einkavæðingu t.d. bankanna annars vegar og hins vegar vöru eins og áfengi. Ekki er séð að mikil samkeppni verði ef áfengisleyfið verði í höndum fárra og að einungis verði ein verslun í hverju hverfi.
Verslun með áfengi er og verður arðsöm verslun. Ef Ríkið ætlar á annað borð að selja þennan rekstur er mjög mikilvægt að það verði gert með þeim hætti að grundvöllur fyrir samkeppni verði tryggður.
Muggur og Tíu litlir negrastrákar
7.11.2007 | 20:17
Eins og flestir vita myndskreytti Muggur bókina Tíu litlir negrastrákar.
Í allri umræðunni um Litlu negrastrákana dró ég nú fram þessa bók um Mugg og fletti upp í henni þar sem segir frá þeim tíma þegar hann vann við myndskreytinguna og sendir myndirnar til Kaupmannahafnar. Fjallað er um bókina og aðrar barnabækur sem Muggur myndskreytti á sama tíma. Höfundur Muggs fer eftirfarandi orðum um Negrastrákana:
þar er gáskinn uppi, fullur með óhamið spaug, svo ég efast um að víða verði fundið öllu skemmtilegra gamankver handa börnum. Það er enda orðið klassiskt í hillunni hjá litla rúminu, og mun eflaust verða þar hjá margri ókominni kynslóð
Óhætt er að segja að þessi texti stingi stúf við þær umræður sem verið hafa undanfarna daga um Negrastrákana og myndirnar í henni.
Skrásetjaranum Birni Th. hefur líklega seint grunað að bókin ætti eftir að vera svo umdeild sem hún nú er og að hópur fólks finnist hún hvorki skemmtilegt gamankver né bók sem eigi heima í barnabókahillum.
Þetta er e.t.v. gott dæmi um hvað samfélagsbreytingar hafa verið örar og viðhorfabreytingar fylgja vissulega í kjölfarið.
Við þetta má bæta að þessi sama amma mín fór með mig á bíómyndina Sögu Borgarættarinnar sem sýnd var í Nýja Bíó að mig minnir. Ég var líklega um 8-9 ára gömul þá. Muggur fór með hlutverk Ormars Örlygssonar og fékk fyrir leik sinn góða dóma.
Í bókinni Muggur er sagt frá því hvernig gekk að taka Sögu Borgarættarinnar upp og minna lýsingar af hrakförum sem myndargerðarfólk og leikarar lentu í, mjög á erfiðleika sem tökufólk Bjólfskviðu varð að glíma við á meðan á töku þeirrar myndar stóð.
Veðurfar var mikill áhrifaþáttur í báðum tilvikum.
Tökuferli Bjólfskviðu var vel lýst í heimildarþætti sem sýndur var í sjónvarpinu um daginn.
Sagan endurtekur sig sannarlega .., alla vega stundum.
SLAA Samtök Kynlífs- og Sambandsfíkla
5.11.2007 | 11:24
Það er stutt frétt um þessi samtök í Fréttablaðinu í dag en um er að ræða samtök fyrir fólk sem telur sig eiga við stjórnleysi að stríða á þessu sviði. Samtökin heita Samtök Kynlífs- og Ástarfíkla en ættu að mínu mati að heita Samtök Kynlífs- og Sambandsfíkla. Hugtakið ást og sú upplifun sem við tengjum því finnst mér ekki passa í þessu sambandi.
Þetta eru þörf samtök því þau eru einnig fyrir þann hóp fólks sem telur sig eiga við sambandsfíkn að stríða. Af því sem ég hef kynnt mér í þessu sambandi og einnig í gegnum reynslu mína sem sálfræðingur eru konur í meirihluta þeirra sem leita sér aðstoðar vegna þess hversu háðar þær eru að vera í sambandi. Þetta eru einstaklingar sem geta ekki hugsað sér að lifa öðruvísi en að vera í samböndum og gildir þá einu hvort samböndin séu neyslu- og/eða ofbeldissambönd. Margar fara frá einu slíku sambandi í annað enda höfuðáherslan lögð á að vera ekki einar (og yfirgefnar).
Grunnvandi er brotin sjálfsmynd, óöryggi og sú trú að án annars aðila séu þær einhvern veginn ófullkomnar eða ekki verðugar og muni jafnvel ekki getað spjarað sig. Kvíði er fyrir að vera einmana, einangraður og ósjálfbjarga. Sjálfsmyndin er með einhverjum hætti og af einhverjum orsökum spyrt við hugmyndina um að vera í sambandi/eiga maka, hvernig svo sem hann kann að vera í hátt og framkomu. Oft veit viðkomandi vel að hún (hann) væri betur komin án þessa sambands en fær sig ekki til að slíta því.
Orsakir eru oftar en ekki margslungnar og geta verið hvort heldur af uppeldis/ félagslegum og/eða af tilfinningarlegum toga. Vinir og vandamenn reyna að aðstoða en uppskera kannski ekki árangur sem erfiði.
Það er mjög mikilvægt að SlAA samtökin geti kynnt starfssemi sína með þeim hætti að þessir aðilar finni að þarna sé einnig vettvangur fyrir þá og í gegnum 12 spora kerfið sé hægt að ná bata.
SLAA er sem sagt ekki einungis samtök fyrir fólk sem á við kynlífsfíkn að stríða í þeim skilningi að það stjórnlaust hugsi um fátt annað en að stunda kynlíf með einum eða öðrum hætti heldur einnig þá sem eins og fyrr segir leggja höfuðáhersluna á að vera í sambandi án tillits til innihalds þess.
Stýribankinn hækkar seðlavexti
3.11.2007 | 12:24
Þessi víxlun er ekki bara skemmtilegt heldur einnig einstaklega rökræn. Seðlabankinn er jú sannarlega stýribanki og stýrivextir vissulega seðlavextir.
Hvork hækkun þessi einmitt nú er til góðs eða ills fyrir land og þjóð er síðan allt annað mál enda sýnist sitt hverjum um það.