Kynjamismunur á Alþingi. Karlar í ræðustóli 84 prósent en konur 16 prósent
21.10.2007 | 14:12
Hverju sætir það að á Alþingi halda konur meira en helmingi færri ræður en karlar?
Nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar af þingvetri segir í þingbréfi birt í Mbl. nú um helgina að á meðan karlar hafa farið 657 sinnum í ræðustól hafa konur einungis farið 153 sinnum. Karlar hafa verið 84% af þingtíma í ræðustóli en konur aðeins 16%.
Markmið þessa pistils er í sjálfu sér ekki að reyna að kryfja orsakir þessa mismunar til mergjar. Greinarhöfundur þingbréfsins nefnir ástæður eins og að þingflokkar tefli frekar körlum fram og að málin séu karllægari.
Ég tek einnig undir með greinarhöfundi þingbréfsins að ekki sé hægt að kalla konur einar til ábyrgðar heldur ekki hvað síst samspili kynjanna. Ef litið er til samspils kynjanna á leik,-og grunnskólum hafa kennarar æði oft lýst því að drengir geri meiri kröfu um athygli og að þeim sé hlutfallslega bæði oftar og meira sinnt en stúlkunum. Þetta gæti allt eins einkennt samskipti kynjanna á vinnustöðum þegar komið er á fullorðinsár og þar er Alþingi engin undantekning.
EF þetta skyldi vera raunin þá má spyrja hvers vegna konur taki ekki sinn tíma og krefjist meira rýmis fyrir sig og sinn málflutning hvort sem það er innan viðkomandi þingflokks eða í þingsal?
Til að leitast við að svara þessari spurningu er freistandi að skoða hvað sumar rannsóknir um kynjamismun segja. Vísbendingar eru um að konur nálgist markmið sín oft á annan hátt en karlar. Þær eru uppteknari af því að stíga nú ekki á neinar tær á leiðinni. Konur forðast frekar en karlar að nýta sér veikleika annarra. Þeim líður einnig verr en karlmönnum í aðstæðum þar sem samkeppni er ríkjandi. Orka kvenna fer gjarnan í að gera hlutina þægilega fyrir alla, fara samningsleiðina og hlúa að góðum og friðsamlegum samskiptum.
Svo er þetta jú einnig spurning um uppeldislega þætti, hvatningu og fyrirmyndir.
Getur kynjamismunur, sé hann þ.e.a.s. raunverulegur, haft eitthvað að gera með það að konur hafi einungis vermt ræðustól Alþingis 16% af tímanum en karlar 84%?
Það er sannarlega áhugavert að skoða þetta út frá sem flestum sjónarhornum þar sem munurinn á fjölda ræðna og ræðutíma kynjanna á þingi er mjög mikill.
Ég vil hins vegar hvetja þingkonur til að láta í sér heyra í þingsal, nota hvert tækifæri og krefjast alls þess svigrúms og tíma sem þær telja sig þurfa. Þótt þingkonur séu dugnaðarforkar, samviskusamar og hugmyndafræðilega öflugar þá er ekki ósennilegt að pólitísk velgengni þeirra sé mæld einmitt út frá þeim mælikvarða hversu oft og mikið þær láti í sér heyra, gefið að málefnið sé verðugt, flutt með málefnalegum hætti og vel rökstutt.
Það er í ræðustóli Alþingis sem vinna þingmanna er kjósendum hvað mest sýnileg.
Árni Johnsen gerir góðverk
17.10.2007 | 08:43
Nú hefur hann fært Hegningarhúsinu tíu flatskjái að gjöf og ekki er öðruvísi hægt að skilja tíðindin en að hann hafi greitt fyrir þá úr eigin vasa.
Þetta er sannarlega mikið góðverk enda var sjónvarpskostur Hegningarhússins ekki upp á marga fiska. Vel er hægt að ímynda sér að hafi Árni ekki sjálfur upplifað fangelsisvist eru varla líkur á því að hann hafi tekið þetta frumkvæði. Þó veit maður aldrei hvað fólki dettur í hug að gera.
Ég við óska Hegningarhúsinu til hamingju með þetta.
Trúverðugleiki dagblaðanna.
11.10.2007 | 15:14
Hversu trúverðugur er fréttaflutningur dagblaðanna?
Borið hefur á því að undanförnu að ákveðið dagblað hafi verið ásakað um að fara rangt með upplýsingar, ýkja, mistúlka og fleira í þeim dúr.
Eftir sitja sárir, reiðir og móðgaðir aðilar, þolendur ófaglegrar fréttamennsku.
Þeir sem hafa upplifað þetta af eigin raun hafa eflaust myndað sér skoðun á því dagblaði sem viðhefur svona vinnubrögð og taka fréttir og frásagnir þess því með fyrirvara.
Flestir lesa blöðin fullir trausts um að, það sem í þeim stendur sé í meginatriðum það sem átt hefur sér stað þ.e. staðreyndir málsins s.s. hvernig hlutirnir gerðust, hver sagði hvað og hvenær.
Til að geta haft skoðun eða túlkað orð annarra, gjörðir, ferli eða atburðarrás að einhverju viti þurfa ótvíræðar staðreyndir málsins að liggja fyrir. Túlkun er persónuleg upplifun/útskýring á einhverri staðreynd. Ef staðreyndir eru rangar eða bjagaðar mun túlkunin eðlilega líka vera út úr kú.
Svarið við þessari spurningu er einstaklingsbundið og kemur þar margt til. Sem dæmi skiptir persónuleg reynsla á fjölmiðlinum máli. Sumum finnst miðill sem á sér langan lífaldur vera traustur, aðrir finna traust í stærð miðilsins og enn aðrir treysta miðlinum af því að þeir þekkja ritstjóra eða fréttamenn hans fyrir að vera áreiðanlegt fólk.
Það er alveg víst að frétta,- og blaðamannastéttin á misjafna sauði eins og allar aðrar stéttir. Flestir eru faglegir, vandvirkir, nákvæmir og gera sér far um að fara vel með upplýsinar um menn og málefni. Aðrir og þá örugglega alger minnihluti eru ófaglegir, kærulausir, fljótfærir, leika sér að því að ýkja, misskilja, sleppa úr meginatriðum, snúa út úr og setja efni upp í æsifréttarstíl. Hægt er að gera því skóna að tengsl séu á milli vinnubragða/fagmennsku blaðamanna og trúverðugleika þess dagblaðs sem þeir starfa hjá.
Ég hef eins og aðrir myndað mér ákveðna skoðun á trúverðugleika dagblaðanna og les þau í samræmi við það.
Það væri áhugavert ef einhverjir rannsakendur sæju sér fært að gera rannsókn á:
- Áreiðanleika íslenskra dagblaða
- Skoða hvað lesendum þeirra finnst um fréttaflutning þeirra
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook
Minningin um John Lennon kærkomin nú mitt í allri umræðu um peningamál
9.10.2007 | 20:59
Gleðiatburður eins og tendrun súlunnar í Viðey í minningu John Lennons hjálpar okkur kannski að hverfa a.m.k í smá tíma frá amstri dagsins og gleyma áreiti hvort sem það eru átök á sviði stjórnmálanna, annarra krefjandi hluta í samfélaginu eða í okkar eigin persónulega lífi.
Þessir atburðir kalla fram gamlar minningar frá árum áður þegar þessir frábæru einstaklingar voru og hétu. Maður er minntur á hversu lífið er hverfult og óútreiknanlegt og að kannski sé tími nú til að þakka.
Í allri þessari peningaumræðu sem verið hefur undanfarna daga er minningin um John Lennon sérstaklega kærkomin en hans er minnst eins og flestir vita fyrir ást og kærleik í garð náungans og baráttu hans fyrir friði á jörð.
Margir tengja frístundakortin einna helst við íþróttafélögin
2.10.2007 | 10:54
Um er að ræða tónlistarskóla, kóra, dansfélög, hestamannafélög, hjólreiðarfélög, skátafélög svo fátt eitt sé nefnt.
Þetta framtak Reykjavíkurborgar er hreint stórkostlegt.
Kópavogur og önnur sveitarfélög ættu að taka Reykjavík sér til fyrirmyndar í þessum efnum hafa þau ekki þegar gert það.
Ástarsorg er reynsla mörgum kunn.
28.9.2007 | 20:02
Ástarsorg er tilfinning, reynsla/upplifun sem er mörgum kunn. Þeir sem hafa á einhverjum tímapunkti ævi sinnar upplifað hana eða eins sagt er, lent í henni, vita hversu sár hún getur verið. Slíkur er sársaukinn að meðan hún er sem djúpust nístir hún merg og bein og virðist þá sem lífið hafi misst allan sinn lit.
Einkennin geta verið doði og einbeitingarskortur, hnútur í maganum, lystar- og svefnleysi, vonleysi og grátköst. Þessi sorg er eins og með aðra sorgarreynslu þess eðlis að tíminn mildar og mýkir mesta sársaukann.
Er hægt að skilgreina ástarsorg?
Ástarsorg er einhvers konar kokteill af höfnun, brostnum vonum og söknuði eftir sambandi við annan aðila sem hann eða hún upplifði sem gott, gefandi, jákvætt og skemmtilegt.
Ástarsorg getur hent alla sem á annað borð hafa náð vitsmunar,- og tilfinningarþroska til að geta fundið til hrifningar/ástar í garð annars einstaklings og skynjað löngun til að vera í sambandi við hann.
Ungt fólk getur upplifað ástarsorg mjög sterkt og eiga margir hverjir erfitt í kjölfar sambandsslita sem þeir hafa ekki viljað að endaði. Í sumum tilvikum hefur sambandið verið náið og vinirnir hafa þess vegna verið vanræktir. Þegar sambandinu lýkur eru þeir því e.t.v. víðs fjarri og unglingnum finnst að einmanaleiki og einangrun blasi við honum.
Í raun er þessu ekkert mikið öðruvísi farið hjá fullorðnum einstaklingum en hjá ungu fólki eða unglingunum nema þó að þeir hinir fyrrnefndu hafa öðlast meiri þroska og vita þess vegna að það versta líður hjá með hverjum deginum sem líður.
Höfnunarhlutinn er oft sárasti partur ástarsorgarinnar. Ef við setjum okkur í sporin og upplifum hvernig tilfinning það er ef sá sem maður telur sig elska og hefur haft væntingar til vilji mann ekki lengur og hafi jafnvel frekar valið að vera með einhverjum öðrum. Enn sárarar er ef viðkomandi stóð í þeirri trú að tilfinningar hins aðilans hafi verið gagnkvæmar.
Þessa reynslu kannast margir við sem eina sárustu lífsreynslu sem þeir hafa upplifað um ævina.
Þeir sem hafa lent í djúpri ástarsorg eiga oft mjög erfitt með að gleyma alveg þessari sáru reynslu og þeim sem hún snerist um. Minningin verður hluti af lífspakkanum og sá sem ástarsorgin beindist að fær sitt hólf í hjartanu eða skúffu í huganum.
En hvað er hægt að gera fyrir manneskju í ástandi sem þessu?
Það er í raun fátt hægt að gera til að hjálpa nema þá helst að vera til staðar, lána öxl til að gráta á og kannski fyrst og fremst að ljá eyra.
Hversu sárt sem þetta er þá kemur dagur eftir þennan dag og lífið heldur áfram...
....sama lögmál gildir fyrir alla.
Ástarsorg
Ástina eitt sinn ég fann.
Um tíma á skýjunum sveif.
Af öllu hjarta, ég elskaði hann.
Allt þar til við því, kom blátt bann.
Nístandi sorgin á brott mig hreyf.
(KB)
ESB og evran
27.9.2007 | 09:07
Umræðan um evruna og mögulega aðild Íslendinga í ESB hefur orðið æ áleitnari síðustu mánuði og er nú einnig farin að heyrast úr fleiri áttum. Lengi hafa menn þó velt vöngum yfir kostum og göllum upptöku evrunnar, hvenær íslenskt efnahagslíf verði tilbúið og hvort aðild að ESB sé nauðsynleg eða hvort hægt sé að taka hana upp einhliða.
Ég hef fylgst með þessari umræðu eins og aðrir, hlustað á fjölda fyrirlestra um málið þar sem rök með og á móti hafa verið reifuð.
Undanfarna daga hefur heyrst talað um hvort Íslendingar eigi og geti tekið upp evruna einhliða. Í því sambandi minnist ég þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra fullyrti á sínum tíma að sá möguleiki væri raunhæfur og fannst mér hún fá fyrir það mikla gagnrýni og allt að hneykslun margra. Nú hins vegar virðast allar hliðar umræðunnar leyfilegar og æ fleiri vilja taka þátt í henni, sem er auðvitað alveg frábært.
Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en sé í hendi mér að upptaka evrunnar yrði ekki einungis mikill kostur fyrir viðskiptalífið heldur einnig hinn almenna borgara.
Fleira mætti nefna. Sú spenna sem fylgir því að kaupa varning erlendis frá hyrfi. Íslendingar hafa eytt mikilli orku í að hitta á rétta tímann, þegar gengið er hagstætt og kaupa áður en það fellur síðan aftur.
Ég er þeirrar skoðunar að þessi þáttur hefur á sumum tímabilum jafnvel ýtt undir ótímabær kaup okkar eins og á bílum og öðrum dýrum erlendum varningi. Ekki hefur mátt bíða með að kaupa því að hætta hefur verið á að varan hækkaði við gengisbreytingar.
Aðild að ESB eða ekki.
Málflutningur fjölda þeirra sérfræðinga sem rætt hafa um nauðsyn þess að ganga í ESB ef taka á upp evru er afar sannfærandi. Öðruvísi verðum við ekki aðilar að Evrópska seðlabankanum og höfum þar að leiðandi engan stuðning þar frá.
Aðild að ESB er stórt mál enda varðar það margt fleira en upptöku evrunnar. Menn óttast hvað helst að það sé sjávarútvegurinn sem ekki verði hægt að standa nægjanlegan vörð um.
Aðild eða ekki aðild verður ekki ákveðin nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hvað sem öllu líður fagna ég því að æ fleiri vilja skoða málið með opnum huga enda var vitað að umræðu um evruna og ESB aðild yrði ekki umflúin.
Fyrir mitt leyti get ég ekki betur séð en að evran sé framtíðin og spái því að hún verði með einum eða öðrum hætti orðin okkar gjaldamiðill innan 10 ára. Nú við þetta má bæta að eins getur verið að við tökum upp einhvern annan gjaldmiðil en evruna, eða höldum krónunni en spyrðum hana við evru já eða dollar ef því er að skipta.
Peningamál | Breytt 11.11.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook
Smá minnisatriði fyrir okkur foreldra
23.9.2007 | 17:53
Á klukkutíma fyrirlestri fer ég víða allt frá ágripi af þroskasálfræði og yfir í hvernig undirbúa megi barnið fyrir grunnskólagönguna.
Mér datt í hug að deila einu atriði úr þessum fyrirlestri með foreldrum hér á blogginu sem ég held að gott sé að minna sig reglulega á. Það er hversu mikilvægt það er að við foreldrar skeytum ekki skapi á börnunum okkar.
Öll föllum við endrum og sinnum í þessa gryfju. Börn, sérstaklega þessi litlu kríli hafa viðkvæmar sálir. Ef við látum okkar vanlíðan sem stundum birtist í geðvonsku bitna á þeim þá halda þau mörg hver að þau hafi gert eitthvað af sér eða að þau hafi ekki verið nógu þæg. Sumum finnst sem þau eigi að reyna að gera eitthvað til að mömmu/pabba líði betur og taki gleði sína á ný.
Unglingarnir taka þetta ekkert síður nærri sér og velja þá oft bara að forða sér út eða inn í herbergið sitt.
Að finnast maður vera ábyrgur fyrir líðan foreldra sinna er mikil byrði fyrir ung börn.
Þess vegna er svo gott að hlífum þeim sem mest við getum ef okkur sjálfum líður eitthvað illa.
Hænurnar komnar úr sumarorlofinu
17.9.2007 | 17:55
Það hljóta að verða viðbrigði fyrir fuglana að koma nú í hænsnakofann sinn og stíuna eftir allt þetta frjálsræði en þær hafa getað spókað sig að vild á amk 5 hektara svæði.
Vandinn okkar lá hins vegar í því að finna hreiðrin sem alltaf urðu fjarri og fjarri bústaðnum. Ég veit ekki hversu mörgum tímum ég hef varið í að skríða undir tré og plöntur í leit að eggjunum. Það er engin smá vinna enda plöntur tæplega 30 þúsund á öllu svæðinu.
Það segir sig sjálft að ég fann líklega ekki nema brot. En það var gaman að finna hreiður því stundum voru allt að 18 egg í einu slíku.
En af hverju eru þær komnar til borgarinnar?
Jú það var nefnilega ekki þorandi að hafa þær mikið lengur í sveitinni þar sem rebbi gæti nú farið að skjóta upp kollinum hvað af hverju.
Vona svo bara að nágrannarnir verði jafn yndislegir og þeir hafa verið hvað þetta varðar.
Því er ekki að neita að það getur oft verið svakalegur kjaftagangurinn í hænsunum þegar þær eru upp á sitt besta. Aldrei hefur þó borist nein kvörtun sem betur fer.
Þegar umræða skilar sér
14.9.2007 | 10:21
Flestum er það enn minnistætt þegar kona kærði lögregluna á Selfossi fyrir valdbeitingu þegar settur var upp þvagleggur hjá henni með valdi. Miklar umræður sköpuðust í þjóðfélaginu og þar á meðal hér á Moggablogginu.
Ég fagna þessu framtaki samgönguráðherra enda tímabært að skoða þessa reglur ofan í kjölinn. Þær, eins og aðrar reglur, þarfnast endurskoðunar með reglulegu millibili sér í lagi þegar augljósir vankantar hafa komið í ljós.
Rennið við í Ráhúsinu á laugardaginn
11.9.2007 | 20:05


Skáldað í tré handverkshefð í hönnun
15. 30. september 2007
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri opnar sýningu
Félags trérennismiða á Íslandi
Skáldað í tré handverkshefð í hönnun,
í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík,laugardaginn 15. september kl. 14.
13 félagsmenn sýna rennd trélistaverk, sem er þversnið af því hvernig vinna og hönnun hefur þróast í trérennismíðiá Íslandi undanfarin ár.
Þetta er í þriðja sinn sem Félag trérennismiða á Íslandi skáldar í tré í Ráðhúsinu í Reykjavík og fimmta sýning félagsins undir þeim merkjum .
Sýningin er opin frá kl. 12 til 18 alla dagana.
rennið við í ráðhúsinu !
Menning og listir | Breytt 13.9.2007 kl. 10:08 | Slóð | Facebook
Markmiðið með Jesúsauglýsingunni náð
8.9.2007 | 20:46
Það hefur eitthvað verið að ásækja mig frá því að ég sá þennan Kastljóssþátt með Jóni Gnarr og Halldóri Reynissyni, fulltrúa Biskupsstofu.
Á hlaupabrettinu í dag, (en á því finnst mér ég oftar en ekki sjá hluti í öðru ljósi) sló niður ákveðinni hugsun varðandi þessa margumtöluðu Jesúsauglýsingu og Síðustu kvöldmáltíðina.
Nú er bara spurning hvort ég komi henni frá mér án þess að menn misskilji mig.
Því vil ég byrja á því að segja að mér finnst Jón Gnarr hinn viðkunnalegasti náungi og oft mjög fyndinn og fjölhæfur skemmtikraftur. Auglýsingin er líka vel gerð, um það eru flestir sammála um. Hún olli mér persónulega hvorki hneykslun né sársauka.
EN.. .. var ekki markmiði framleiðanda auglýsingarinnar að fá einmitt bæði styðjandi viðbrögð og einnig reiði og hneyklunarviðbrögð? Vitað var fyrir víst að ákveðinn hópur í samfélaginu myndi bregðast neikvætt við vegna þess efniviðar sem notaður er í henni.
Ég álít sem svo að efniviðurinn sem er Píslarsagan er valin vegna umróta sem ljóst var að hann myndi valda.
Þess vegna stingur mig þessi sakleysis,- og undrunarsvipur sem Jón Gnarr sýndi í þessu þætti Kasljóss þegar Halldór Reynisson tjáði hug sinn í garð auglýsingarinnar.
Önnur hugsun sem leitar á mig;
Jón fór á fund biskups af því að hann sagðist umhugað um álit hans á að nota þetta efni í auglýsingu.
Þá spyr ég:
Ef honum var svona umhugað um álit Biskupsstofu, af hverju sýndi hann biskupi ekki auglýsinguna á lokastigum framleiðslunnar og áður en hún birtist opinberlega??
Hvað er meiri auglýsing á auglýsingu en einmitt að hafa hana þannig úr garði gerða að hún verði verulega umdeild: veki upp flóru jákvæðra og neikvæðra tilfinninga?
Markmiðinu er náð, svo mikið er víst en þá hefði mátt sleppa þessum fundi með biskupi.
Hann virkar nú, alla vega á mig, eins og einhver leikur eða sýndarmennska svona til að þykjast vera goodý gæ og svo er bara settur upp einhver undrunarsvipur þegar gagnrýnisraddir heyrast.
Breytingar í landbúnaðarmálum
8.9.2007 | 09:29
Mikilvægt er vissulega að aðgerðir í þessa átt séu í sátt við bændur, neytendur og landnýtingu.
En kerfið má klárlega einfalda og tímabært er að losa um einstaka höft.
Aukið frjálsræði leiðir til hagkvæmari framleiðslu og þar með lækkun á verði.
Núverandi kerfi hefur hindrandi áhrif þar sem niðurgreiðslukerfið miðast við gömlu búgreinarnar, kjöt og mjólkurframleiðslu.
Ekki er að vænta að landbúnaðurinn geti aukið fjölbreytni eins og búvörulögin eru nú því að niðurgreiddar gamlar búgreinar eru í samkeppni við óniðurgreiddar nýbúgreinar.
Áhuga er sjaldnast hægt að kaupa.
5.9.2007 | 11:39
Stöðugar fregnir berast af manneklu á stofnunum og skort á fólki í hinum ýmsu aðhlynningarstörfum.
Skortur er á fólki til starfa á leikskólum, í grunnskólum og í Lögregluna svo fátt eitt sé nefnt.
Áður var þessi starfsmannaskortur einna helst áberandi í aðhlynningarstörfum en nú er þetta vandamál gegnum gangandi innan þjónustugeirans svo sem í verslunarstörfum og öðrum álagsmiklum þjónustustörfum
Þetta segir okkur svo sannarlega að það er ekki atvinnuleysi í þessu landi.
Íslendingar eru hins vegar orðnir vandfýsnari á hvað þeir taka sér fyrir hendur og þeir geta leyft sér að vera það enda valmöguleikarnir margir. Íslendingar, alla vega fjölmargir eru alveg hættir að vilja þessi störf. Nóg er af fólkinu en svo virðist sem lungað af mannskapnum hefur fundið sér eitthvað annað að gera sem þeim finnst meira verðugt að hvort sem það er að fara í nám eða vinna annars konar störf.
Vítahringur.
Mannekla á leikskólum veldur því að ekki er hægt að taka börn inn á leikskólana sem síðan hefur þau áhrif að foreldrar komast ekki til vinnu eða í skólann nema með aðstoð frá fjölskyldu eða vina.
Og lausnin?
Svarið hlýtur að vera bætt kjör fyrst og fremst. Þó er ekki þar með sagt að það dugi til nema að um verulegar launahækkanir verði að ræða. Jafnvel þótt kjörin yrðu bætt svo um munar er ekki þar með sagt að vandamálið verði úr sögunni því áhuginn er einfaldlega ekki lengur til staðar.
Áhuga er nefnilega sjaldnast hægt að kaupa.
Vandinn ef vanda skyldi kalla er að gildismat landans hefur breyst. Áhugi, viðhorf og væntingar til atvinnuvals og almennt séð hvernig við viljum verja tíma okkar hefur breyst samhliða öðrum þjóðfélagsbreytingum.
Það sem bjargar okkur nú er að innflytjendur og annað fólk sem er af erlendu bergi brotið og býr hér til langs eða skamms tíma hefur tekið að sér að sinna þessum láglauna,- álagsstörfum.
Í ljósi þess að þetta eru láglaunastörf sem Íslendingar vilja helst ekki sinna hvort sem það er vegna launanna eða einhvers annars þá má telja víst að um neyðarástand væri að ræða hér nytum við ekki erlends vinnuafls.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook
Leiðir til að votta samúð.
3.9.2007 | 12:48
Íslensk tunga er óþjál þegar kemur að því að velja orð og setningar undir þessum kringumstæðum að mínum mati. Málið bíður okkur ekki upp á marga möguleika hvað þetta varðar.
Við segjum helst: ég samhryggist þér eða ég votta þér samúð mína.
Þessar setningar virka stirðbusalegar í munni og fyrir suma jafnvel yfirborðskennd. Vegna þess hversu íslensk tunga er í raun snauð að þessu leytinu til velja margir fullorðnir frekar að tjá samkenndina með faðmlagi fremur en orðum.
Eins er þessu farið með unglinga og ungt fólk sem eðlilega hefur ekki öðlast langa þjálfun í samskiptum á sorgarstundum. Ég hef orðið vör við að unglingum þykir mjög erfitt að segja: ég samhryggist þér eða ég votta þér samúð mína.
Ef fyrir dyrum er jarðarför finna unglingar þess vegna oft fyrir kvíða og óttast að þeir muni koma klaufalega fyrir. Fyrir ungling að faðma syrgjandann, e.t.v. vin eða skólafélaga sem hefur misst ástvin, finnst honum jafnvel heldur ekki auðvelt. Mörgum unglingum finnst náin snerting vera óþægileg og myndu gjarnan vilja velja aðrar leiðir til að tjá tilfinningar sínar heldur en t.d. faðmlag eða kossa.
Það er mín skoðun að enskumælandi heimurinn sé betur settur hvað þetta varðar. Þeir segja einfaldlega I´m so sorry með tilheyrandi raddblæ og svipbrigðum.
Þetta segir allt sem segja þarf á erfiðum stundum og er jafnframt þjált í munni ef svo má að orði komast.
Dæmi sem lýsir þessu mjög vel er að einn félagi minn mismælti sig þannig að hann sagði óvart við syrgjandann til hamingju þegar hann ætlaði að segja ég samhryggist þér.
Hann var lengi miður sín á eftir og fannst hann hafa verið einstaklega klaufalegur á svo viðkvæmri stundu. Mismæli sem þessi geta í raun komið fyrir alla. Sumum finnst sem þeir þurfi hreinlega að æfa sig í huganum hvað þeir ætla að segja undir þessum kringumstæðum til að tryggja að segja ekki eitthvað sem þeim líður síðan illa yfir.
Afburðafréttamanni sagt upp á Stöð 2
1.9.2007 | 10:00
Þetta eru mikil óráð og gerist í kjölfar þess að Steingrímur Ólafsson, fyrrum upplýsingarfulltrúi Halldórs Ásgrímssonar er ráðinn sem fréttastjóri.
Þóra Kristín er með allra bestu fréttamönnum sem Stöð 2 hefur haft á að skipa.
Uppsögnin lyktar af pólitík að mínu mati og hlýtur því þessi gjörningur að teljast afar ófaglegur.
Rétt væri að hinn nýji fréttasjóri upplýsti almenning hverjar ástæður uppsagnarinnar eru ef hann vísar því á bug að þær séu af pólitískum toga.
Með þessari uppsögn myndi ég telja að trúverðugleiki fréttastofunnar minnkaði til muna.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Áratugur síðan Díana prinsessa fórst í bílslysi
31.8.2007 | 10:07
Þessi atburður er án efa mörgum minnisstæður og eins og einhver sagði geta örugglega margir staðsett sig á þeirri stundu sem fregnir um andlát prinsessunnar bárust þeim.
Sama má segja um fregnir af morðinu á John Lennon. Alla vega gleymi ég því aldrei hvar, nákvæmlega, ég var stödd þegar ég frétti það.
Díana var heimsbyggðinni vel kunn því hún hafði hleypt almenningi inn í líf sitt; gleði, sorgir, væntingar og drauma. Það er mín skoðun að þess vegna var eins og við, þótt fjarlæg og ókunnug vorum, upplifðum andlát hennas sem værum við náskyldir ættingjar.
Sumum þótti nóg um viðbrögðin og nefndu að Díana væri nú ekki eina unga konan sem hefði farist á vofveiflegan hátt. Munurinn er auðvitað sá að Díana var fræg/þekkt, hafði verið gift Karli Bretaprins og verið árum saman vinsælt fjölmiðlaefni.
Auðvitað er hennar dauðsfall ekkert sorglegra en önnur ótímabær dauðsföll sérstaklega ungs fólks. Við hvert slíkt sitja ávalt einhverjir eftir niðurbrotnir þótt opinberri athygli sé ekki fyrir að fara né einu sinn óskað.
Meira um fjármagnstekjuskatt; kjarninn er að reikna sér endurgjald
29.8.2007 | 21:54
Að reikna sér endurgjald er kjarni þessa máls.
Vísað er í færsluna hér á undan og er verið að tala um þá sem lifa á fjármagnstekjum sínum einvörðungu, að þeir reikni sér eitthvert endurgjald og hluti af skattgreiðslu þeirra renni til þess sveitarfélgs sem þeir búa í og meðtaka þjónustu frá eins og hver annar sem aflar einhverra tekna gerir.
Hversu stór hluti hef ég ekki myndað mér skoðun á en að þeir greiði eitthvað til samneyslunnar í viðkomandi sveitarfélagi.
Sveitarfélög eru vissulega misvel stödd, sum ágætlega, önnur ekki eins og vel og kemur margt til. Sum eru vel rekin á meðan önnur eru rekin með tapi.
Ef íbúar telja að sveitarstjórn sé ekki að standa sig sem skyldi í að halda utan um efnahag sveitarfélagsins í samræmi við efni og aðstæður á hverjum tíma skal ekki veita henni brautargengi í næstu sveitarstjórnarkosningum. Út á það ganga lýðræðislegar sveitarstjórnarkosningar.
Sá sem er tekjulítill eða hefur engar tekjur getur eðli málsins samkvæmt ekki greitt mikið til samneyslunnar. Þeir sem hafa viðunandi og/eða háar tekjur bera þar að leiðandi þá ábyrgð.
Út á þetta gengur samfélag.
Markmiðið er að hafa samneysluna sem markvissasta og helst takmarkaða við grunnmálaflokka eins og t.d. mennta, heilbrigðis,- og tryggingarkerfið.
Svona er að búa í samfélagi og það viljum við, ekki satt?
Sumum farnast vel, öðrum ekki eins vel og enn öðrum illa. Orsakir fyrir velgengni eru margar og flóknar og verða ekki reifaðar hér í þessari færslu.
Fjármagnstekjuskattur: Er ekk réttlátt að allir sem afla tekna hvaða nöfnum sem þær kunna að nefnast greiði til sveitarfélagsins?
28.8.2007 | 21:08
Fjármagnstekjur eru tekjur þótt sveiflukenndar kunni að vera á stundum og tap eigi sér stað.
Þeir sem hafa af því ágóða/hagnað að versla með peningana sína ber að greiða af hagnaðinum til sveitarfélagsins sem þeir búa í alveg eins og hinn almenni launþegi og einnig sjálfstæður atvinnurekandi/verktaki gerir með því að reikna sér laun.
Það kostar að lifa í samfélagi. Á könnu sveitarfélaga eins og ríkisins eru ótal margir þættir sem greiða þarf fyrir svo sem skólamál og fjölmörg önnur nærþjónusta sem allir í sveitarfélaginu njóta góðs af til jafns hvaðan svo sem þeir hafa sínar tekjur.
Þeir sem lifa að mestu eða alfarið á tekjum sem eru tilkomnar með því að kaupa og selja eigin verðbréf ættu þar að leiðandi að reikna sér endurgjald.
Þetta er einfaldlega réttlætismál og ætti í rauninni að vera hafið yfir flokkspólitíska umræðu.