Húrra!! Bráðum er hægt að fara á kaffihús sem er án reykjarstybbu.

Nú fer að líða að því að hægt verði að fara á kaffihús, veitingastaði og bari sem ekki eru fullir af reykjarfýlu.  Ég hlakka til. Þvílíkur lúxus, nú kemur maður bara heim af þessum stöðum og þarf ekkert endilega að fara í sturtu til að ná af sér stybbunni eða setja endilega fötin í þvott. Ein vinkona mín sem var að fara á krá með vinum sínum ákvað að fara í gömlu kápunni sinni sem hún er löngu hætt að nota því þá myndi hún ekki þurfa að splæsa hreinsun á kápuna sem hún gengur dags-daglega í.
Enda þótt veitingastaðir og kaffihús hafa haft afmörkuðuð svæði fyrir reykingarfólk þá smitaðist reykurinn og lyktin ávalt um allan staðinn. Á krám og börum er í raun algerlega ólíft þegar líða tekur á kvöldið. Þetta er því það eina sem dugar. Ég veit að margir eru ekki sáttir við þetta. Ég hef þá von og trú samt að þeir aðlagist og að þetta verði til þess að þeir dragi úr reykingum sínum og helst hætti alveg.

Hugur (ekki hagur) Hafnarfjarðar, hver er hann?

Jæja, nú er að koma að því. Spennan vegna kosninganna í Hafnarfirði fer vaxandi. Hver skyldi nú hugur Hafnarfjarðar vera á morgun?  Mér skylst að úrslitin geti oltið á örfáum atkvæðum. Ég hef reynt að fylgjast með umræðunni og heyri eitt og annað þessu tengdu í starfi mínu í einum grunnskóla Hafnarfjarðar. Aragrúi greina hefur verið skrifaður með og á móti. Enda þótt ég sé ekki fullnuma í bakgrunnsfræðunum hef ég myndað mér skoðun á þessu máli. Ég er með stækkun álvers í Hafnarfirði. Mér finnst í raun að ekki einungis Hafnfirðingar hefðu átt að fá að kjósa um þetta. Málið snertir marga aðra en þá. Satt að segja finnst mér það óðs manns æði að vera á móti þessu og myndi sannarlega finna til með bæjarbúum verðir niðurstaðan sú að stækkuninni verði hafnað.
Í Mbl í dag er ágætis yfirlit (á bls. 20) um margvísleg rök sem andstæðingar og stuðningsmenn stækkunar færa fyrir máli sínu. Eftir að hafa lesið það finnst mér rök þeirra sem eru á móti, alla vega sum hver, afar ósannfærandi.  Til dæmis þar sem segir „Hótanir Alcan um að loka í Straumsvík fái þeir ekki að stækka hafa verið kallaðar hræðsluáróður af okkur andstæðingum stækkunar“.  Að mínu mati eru þetta engin rök heldur afneitunar og blekkingaleikur. Það er afar líklegt ef ekki staðreynd að verði stækkun ekki samþykkt þá muni innan skamms ekkert álver vera í Hafnarfirði.  Með því að hafna þessu eru starfsmöguleikar Hafnfirðinga í uppnámi, tekjum kastað á glæ og hætta á að fyrirtæki flosni upp. Hafnfirðingar! Ekki láta það gerast.

Hvað er DRG?

Ég hlustaði á áhugaverðan fyrirlestur á Rótarýfundi í Rótarýklúbbnum mínum Reykjavík-Asturbæ í hádeginu í dag. Þar talaði Margrét Hallgrímsson sviðstjóri á Kvennasviði LSH um sín störf og rekstur sviðsins.  Kvennasviðið er DRG fjármagnað sem þýðir að greiðslukerfið er byggt á framleiðslu. Ákveðinn DRG flokkur gefur fasta fjárupphæð og í sama DRG flokk lenda sjúkdómsgreiningar sem kosta u.þ.b. jafn mikið. Stjórnendur DRG fá upplýsingar um tekjur og útgjöld í einum pakka, sjá hvaða einstaka sjúklingahópar kosta, sjá á einfaldan og skýran hátt hvaða þjónusta er veitt og hvað hún kostar og sjá auðveldar sveiflur á ársgrunni.
Föst fjármögnun er hins vegar við lýði alls staðar annars staðar á LSH. Þjónustueining með fasta fjármögnun fær fjárheimild án tillits til framleiðslu. Stjórnendur fá upplýsingar úr mörgum kerfum aðallega kostnaðarliði. Þeir sjá þegar kostnaður eykst en þó aðallega vegna aukins launakostnaðar. Stjórnendur eiga þannig erfitt með að bera starfsemina saman við aðrar samskonar einingar og eiga jafnframt bágt með að aðgreina hvað einstaka sjúklingahópar kosta.

Maður skyldi ætla, samkvæmt þessu, að DRG væri það form sem LSH myndi vilja taka upp fyrir öll sín svið.  Þess vegna kom það mér á óvart að heyra Margréti segja að Sviðið hefur þurft að berjast fyrir að fá að hafa þetta rekstrarform en ekki fasta fjármögnun. Hvernig getur heilbrigðisráðuneytið ekki viljað viðhafa rekstrarform sem skilar hagræðingu heldur frekar ríghalda í form sem löngu er búið að sýna ótal vankanta?Shocking


Kosningarnar í vor og velferðarmálin

Það kom mér ekki á óvart að lesa að velferðarmálin voru talin mikilvægust af sex málefnum sem fólk var beðið um að gefa einkunn í skoðanakönnu Fréttablaðsins. Þegar ég var í prófkjörinu skynjaði ég áhuga fólks á að setja velferðarmálin á oddinn. Ég, sem sálfræðingur, tók þessu vissulega fagnandi enda hef ég fundið í gegnum starfið hvar og hvernig mætti bæta eitt og annað sem snýr að þessum málaflokki. Þetta var ein af aðalástæðum þess að ég gaf kost á mér í þetta prófkjör. Ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar skoðanakönnunar þá setti Sjálfstæðisflokkurinn reyndar efnahagsmálin efst. Þau eru sannarlega mikilvæg og kannski er ekkert hægt að segja að einn málaflokkur sé mikilvægari en annar. Hitt er víst að sé fólk í persónulegum vanda; tilfinningar,- eða félagslegum vanda þá er eins og það hafi margföldunaráhrif. Velferð er undirstaða þess að hægt sé að njóta alls þess góða sem okkar þjóðfélag býður að öllu jöfnu upp á.

Ísland í dag og Kastljósið kvöldið 26. mars.

Bæði Ísland í dag og Kastljósið voru með áhugavert efni í kvöld. Fyrst má nefna aurskriðuna fyrir norðan. Mikið lifandi skelfing er þetta fólk frábært, sterkt og mikil ljúfmenni. Þau halda fullkominni yfirvegun. Manni finnst eitthvað svo dapurt að sveitarfélagið skuli ekki einfaldlega koma þarna og taka til hendinni. Öðruvísi verður ekki svona verk, sannkallað drulluverk unnið. Ég skora á Eyjafjarðarsveit að taka málið í sínar hendur.
Svo er það viðtalið við veslings fyrrverandi lögreglumanninn hann Björn. Ég minnist þess að hafa lesið um þetta í einhverju dagblaðanna á sínum tíma, þá sjálf nýkomin heim frá námi. Síðan fréttist ekkert meira af þessu. Hitt er að svona var þetta á þessum árum og allt fram til þess að vitundarvakning varð í þjóðfélaginu og Barnahús var stofnað. Ég er svo sannfærð um að svona viðbrögð eins og þessi maður, Björn, sýndi þegar stúlkurnar leituðu til hans voru ekki svo óalgeng á þessum tíma. Hann má eiga það karl greyið að hann viðurkenndi mistökin og er tilbúinn að biðjast afsökunnar. En svona var þessi samtími.  Fólk réði einhvern veginn ekki við umræðu af þessum toga eða þessi  hugtök hvað þá að ímynda sér hvernig bregðast ætti við. Lausnin var að þagga upplýsingar, vitneskju um svona lagað í hel skytust þær upp á yfirborðið. Ef grunnsemdir voru til staðar voru þær einnig oft bældar niður.
Margt vatn hefur runnið til sjávar í þessum málaflokki, svo mikið er víst. Ég spái í hvernig mínir eigin foreldrar hefðu brugðist við hefði maður lent í því að vera misnotaður/áreittur kynferðislega og ákveðið að segja frá því.  Svei mér þá, ég er ekkert viss um að neitt hefði verið gert nema manni ráðlagt að forðast viðkomandi.


Konur í vændi (breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna)

Ég er bara tiltölulega sátt við þessi nýju lög. Með því að gera hvorki kaup né sölu vændis refsiverð er minni hætta á að vændi fari neðanjarðar. Auk þess er auðveldara fyrir þann sem stundar vændi að bera vitni í málum gegn vændismiðlurum sem og mögulegu ofbeldi sem þeir sem stunda vændi kunna að verða fyrir af hálfu kaupenda.  Veigamesta atriðið í þessu er að einhver 3. aðili (melludólgar) geti ekki haft af þessu fé. Jafn mikilvægt er að taka af hörku á allri miðlun og auglýsingum. Hvað tveir fullorðnir einstaklingar (eldri en 18 ára) ákveða að gera sín á milli er síðan þeirra mál.
Hvað varðar afnám fyrningarfrestsins í alvarlegustu kynferðisbrotamálunum gagnvart börnum er einnig jákvæð breyting. Kannski leiðir það ekki til fleiri sakfellingar vegna þess hversu sönnunarstaðan er erfið þegar langt er um liðið en þetta hefur móralska þýðingu. Gerendur vita nú að hægt er að sækja þá til saka á öllum tímum, þeir eru sem sagt aldrei sloppnir. Kannski það stoppi einhverja þeirra.
Ég er einnig afar sátt við að nú hefur kynferðislegt áreiti s.s. að þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns verið lögfest. Þessi atriði voru áður ætíð á gráu svæði í lagakerfinu. Margt jákvætt má segja um þessar nýju breytingar.
Vildi bara að þær hefðu litið dagsins ljós miklu fyrr.
 


Blogg ætlað uppalendum

Ég hef í all mörg ár verið eins og þeytispjald með fræðsluinnlegg um samskiptamál og tengd málefni fyrir hinar ýmsu fagstéttir s.s.  starfsfólk frístundaheimila, starfsmenn íþróttamiðstöðva og sundlauga, starfsmenn skóla og íþróttaþjálfara, flokksstjóra... Ég hef í dag verið að undirbúa innlegg sem ég ætla að vera með í Áslandsskóla á mánudaginn.  Efnisyfirlitið er svona:
1. Barnið, algengustu vandamál og orsakir
2. Skólastarfið, eðli og kröfur
3. Forvarnir og fyrirmyndir
4. Agi og agavandamál
5. Kjarni góðra samskipta
6. Helstu reglur í uppeldismálum
7. Snertisamskipti

Ég ætla að deila með ykkur einum, tveimur uppeldisgullmolum ef þið gætuð nýtt ykkur í uppeldishlutverkinu.
Það sem óvart veldur stundum hegðunarvanda:
1. Barnið fær ekki umbun fyrir að sýna sérlega góða hegðun (dæmi: gleymist að taka eftir því og minnast á það)
2. Barnið fær umbun fyrir óþekkt (dæmi: gefið er eftir þegar barnið er búið að grenja nóg)
3. Barnið er óvart skammað fyrir góða hegðun (dæmi: barnið gerir eitthvað jákvætt en fær skammir fyrir að gera ekki betur eða eitthvað öðruvísi)
4. Barnið er ekki áminnt þegar það sýnir af sér slæma hegðun (dæmi: barn lemur systkini sitt og enginn segir neitt).

Hvernig skal áminna.
Áminning/athugasemdir skulu beinast að hegðuninni/atferlinu en ekki persónunni.
Mikilvægt er að gera ekki atlögu að persónuleika barnsins þegar verið er að ávíta það.
Segja: „Mér þykir óendanlega vænt um þig/elska þig en mér líkar hins vegar ekki hegðun þín“


Pólitískar embættisráðningar og klíkuskapur

Það er vonandi að pólitískar embættisráðningar og annar ámóta klíkuskapur innan stjórnmálaflokka fari nú brátt að heyra sögunni til. Hvernig skyldi þessum málum vera háttað hjá nágrannaþjóðum okkar?
Enn virðist þetta vera algengt hér á landi sbr. umfjöllun í Fréttablaðinu í dag en þar kemur m.a. fram að pólitískar embætisráðningar i utanríkisþjónustunni hafi aukið til muna undanfarin ár. Ef klíkuskapur hvort sem það eru ættar- eða vinatengsl á að ráða hver fær hvaða embætti eða stöður þá má gera því skóna að sá hæfasti hreppi sjaldnast hnossið.

Leyndarmál lífsins í tilefni dagsins

Mig langar að blogga eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
Hvað er það sem skiptir máli?
Hvað er það sem er gaman og hvað er það sem mig langar að ná betri tökum á?
Þetta eru allt afar persónulegar spurningar og svör fólks sem fá við þeim því mjög einstaklingsbundin.
Svona í hnotskurn eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá skiptir heilsan öllu máli því án hennar er hætta á að skemmtilegir hlutir fái á sig gráan blæ. Að sama skapi skiptir vellíðan og velgengni ástvinna okkur öllu máli til að við getum notið okkur að fullu.
Það sem hefur gefið mér hvað mesta gleði er vinna mín með börnum og unglingum í starfi mínu sem sálfræðingur. Að vinna með börn er forréttindi. Ef maður einfaldlega temur sér að HLUSTA á hvað þau eru að segja, skilja þeirra hugarheim þá er árangur skammt undan.  Ég spyr flest þau börn sem ég tala við eftirfarandi spurninga:
1. Ef þú ættir eina ósk hvers myndir þú óska þér?
2. Hvað er það sem er gott í lífi þínu?
3. Hvað er það sem er ekki svo gott í lífi þínu?
4. Er það eitthvað sem þú vilt að breytist heima og/eða í skólanum
5. Hvað er það sem þú getur gert til að breyta því og hvað er það sem aðrir þurfa að gera til að breyta því?

Þau svör sem ég fæ við þessum spurningum gefa mér venjulega gott hráefni til að halda áfram að vinna í átt að lausn og betri líðan barnsins og fjölskyldu þess.

En hvaða er það sem miðaldra konu svona eins og mig langar mest til að ná árangri með?
Jú, það er að „master the mind“ eða að ná enn betra valdi á hugsunum með þeim hætti að temja sér stöðugt jákvæðar hugsanir og fleygja öllum þeim neikvæðum út. Þetta er gamla góða hugræna atferlismeðferðin sem ekki bara virkar vel fyrir þá sem stríða við þunglyndi eða depurð heldur einnig alla aðra. Kjarnin er að hafa skýr markmið og sjá fyrir sér og trúa að maður nái þessum markmiðum. Gott er að muna samhliða þessu að maður breytir ekki öðrum en maður getur breytt sjálfum sér og framkallað þannig annars konar viðbrögð frá umhverfinu. Áhrif hugsana, skoðanaorku og frágeislunar á umhverfið held ég að sé oft vanmetin. Ef hugsanir og orkan þeim tengd er neikvæð er hætta á að maður dragi að sér neikvæða hluti og að sama skapi ef hugsanir eru jákvæðar þá laði maður að sér jákvæða þætti bæði fyrir sjálfan sig og þá sem hugsunin nær til.

Eigið þið öll góðan og blessaðan dag.


Breiðavíkurdrengir stefna ríkinu

Þessi frétt olli mér vonbrigðum. Undanfarnar vikur hefur íslenska ríkið verið að finna leiðir til að bæta Breiðavíkurdrengjunum upp þann hræðilega tíma sem margir þeirra áttu í Breiðavík. Unnið hefur verið að því að leita leiða með hvaða hætti hægt er að milda þennan skaða sem að sjálfsögðu aldrei er hægt að bæta að fullu frekar en aðra skelfilega reynslu sem sumir hafa orðið fyrir í bernsku. Íslenska ríkið hefur boðið bætur svo sem í formi sálfræðiaðiaðstoðar sem hluti þessa hóps hefur þegið að nýta sér. Nú hafa nokkrir menn sem þarna voru ákveðið að stefna íslenska ríkinu sem þýðir að „ríkið“ þarf að skipta um hlutverk og fara að verjast. Einhvern veginn virkar þetta á mig þannig að nú séum við ekki að vinna saman í þessu lengur heldur er e.t.v. langt og mikið deiluferli framundan þar sem deiluefnið fjallar um peninga. Ég spyr, hverjir eru hvatamennirnir að svona málaferlum? Eru það Breiðavíkurdrengirnir eða lögmenn þeirra?

Heimilisfang Geirs Þórissonar sem afplánar 20 ára dóm í Bandaríkjunum

Viðtal við Geir Þórisson sem nú afplánar 20 ára dóm fyrir líkamsárás í Bandaríkjunum var sýnt í Kastljósi þann 5. mars síðastliðinn. Áframhaldandi umfjöllun var um mál hans í Kastljósi þann 6. og 7. mars. Viðtalið hreyfði við mörgum enda alveg ljóst að þær aðstæður og sú félagslega einangrun sem hann hefur nú búið við í 9 ár eru vægast sagt ömurlegar.

Geir hefur ekki verið gefinn kostur á að stunda nám og möguleikar hans til samskipta við fjölskyldu og vini eru verulega takmarkaðir. Sökum þeirra sterku viðbragða sem fjöldi manns sýndi í kjölfar viðtalsins hafa ættingjar Geirs gefið leyfi fyrir því að dreifa heimilisfangi hans til þeirra sem vilja senda honum góðar kveðjur. Hægt er að senda honum bréf (aðeins þunn umslög) en ekki er hægt að senda honum pakka.
Fyrir einstakling í þeirri stöðu sem Geir er í þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu uppörvandi það er fyrir hann að fá sendar kveðjur héðan að heiman og finna að landar hans hugsa til hans. Hvatningarorð okkar geta verið það haldreipi sem Geir þarfnast svo mjög við þessar erfiðu aðstæður.
Hægt er nálgast viðtalið við Geir á www.ruv.is <http://www.ruv.is/>

Heimilsfang Geirs*:

Geir Thorisson 263907
Grcc HU 5-425
901 Corrections.way
Jarrett VA 23870

U.S.A.

Aðstandendur Geirs hafa stofnað bankareikning í hans nafni fyrir þá sem vilja sýna stuðning með framlagi:

Landsbankinn í Grafarvogi, 0114-05-061708, kennitala 080469-3819, Geir Þórisson.


Átröskun. Hver ber ábyrgðina?

Ég var að lesa viðtal við Ölmu Geirdal í Fréttablaðinu frá því í gær. Ég vil byrja á að hrósa þessari ungu konu og Eddu, samstarfskonu hennar fyrir framtak þeirra í þeirri viðleitni að varpa hulunni af átröskunarsjúkdómum. Í greininni kemur fram eitt og annað sem Alma er ósátt við eins og t.d. gengdarlaus umræða um heilsufæði og heilsusamlegt líferni, svo ekki sé minnst á megrunarkúra. Eins gagnrýnir hún hina svokölluðu kjörþyngd, segir að það hugtak geti verið varasamtsem og líkamsræktarstöðvar fyrir börn sem hafa nú litið dagsins ljós. Það nýjasta eru átröskunarhópar fyrir nýbakaðar mæður sem þyngst hafa um og of á meðgöngu.
Það má vel skrifa undir þessar áhyggjur Ölmu, allar öfgar í þessu máli sem öðru skal varast. Hins vegar finnst mér við hljóta að eiga að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að fólk og ekki hvað síst börn þyngist yfir höfuð það mikið að þau fari að leita í einhver örþrifaráð til að grenna sig. Besta leiðin er eins og gamla máltakið segir að „byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann.“
Hvað börnin varðar þá er ábyrgð foreldranna mikil. Foreldrarnir eru fyrirmynd og ef þeir sýna í verki hvaða lífstíll er vænlegastur til vellíðan þá er afar líklegt að börnin fylgi því eftir. Ef foreldrarnir taka eftir því að barnið þeirra er að þyngjast umfram það sem almennur þroski þess gerir ráð fyrir er mikilvægt að grípa inn í. Saman geta foreldrar og barn leitað orsaka hvort sem þær eru að finna í neyslumynstrinu, fæðutegundum eða skorti á hreyfingu. Ef gripið er fljótt inn í er hægt að stöðva frekari óheillaþróun. Ástæðan fyrir því að margir foreldrar veigra sér við að ræða þessi mál við barnið sitt er ótti við að barnið bregðist harkalega við og grípi þá jafnvel til þess ráðs að hætta að borða. Málið er að það er ennþá hættulegra að láta barnið afskipt og taka þá áhættu að það síðar meir leiti skaðlegra leiða til að grennast. Eins er það með þungaðar konur. Maður skyldi ætla að með góðri ráðgjöf og almennri skynsemi geti sérhver þunguð kona verið meðvituð um að varast að þyngjast ekki svo mikið að eftir fæðinguna sitji hún uppi með megnið af aukakílóunum. 


Hafðu áhrif!

Málefnanefndir Sjálfstæðisflokksins eru nú að halda opna fundi fundi í Valhöll.  Á morgun 19. mars kl. 17.15 er fundur í Velferðarnefnd  en sú nefnd var sameinuð eftir síðasta landsfund og í henni eru heilbrigðis-, og tryggingarnefnd og nefnd um málefni aldraðra. Fundurinn er opinn öllum sjálfstæðismönnum  og nú er um að gera að mæta og leggja sitt af mörkum. Ég hyggst mæta og langar til að vekja athygli á tveimur málefnum:

1. Á áralangri baráttu sem sálfræðingar hafa átt við
Heilbrigðis- og tryggingarráðuneytið hvað varðar þjónustusamning
Félagsins við TR. Þetta málefni er ekki hvað síst mikilvægt nú í kjölfar umræðunnar um skort á fagfólki á stofnunum eins og í Byrginu.

2.  Að eldri borgurum verði gefin kostur á að vera áfram á vinnumarkaði óski þeir þess og án þess að lífeyrir þeirra verði skertur.  Þetta er margt hvert orkumikið fólk sem er tilbúið að starfa áfram.
Um gæti verið að ræða léttari störf, ýmis hlutastörf eða fullt starf ef því er að skipta.
Þess vegna þarf að lyfta þakinu með þeim hætti að þeir sem vilja og geta starfað áfram eigi þess
kost.  Þessi hópur hefur öðlast ævilanga reynslu og safnað fjölþættri þekkingu. Með því að auka hlutfall eldri borgara á vinnumarkaði geta þeir miðlað til okkar hinna þroskuðum viðhorfum,
sögulegum venjum og hefðum, dýrmætum menningararfi sem skilar sér hvað best í munnlegum samskiptum frá einum aðila til annars. Því lengur sem eldri borgarar eru virkir í atvinnulífinu og í sem nánustu tengslum við yngri kynslóðirnar því meiri ávinningur fyrir samfélagið í heild."

Sjálfstæðismenn, mætum á fundinn á morgun og söfnum í sarpinn fyrir landsfund.


Ókeypis lögfræðiaðstoð mun sannarlega nýtast mörgum innflytjendum ekki hvað síst konunum

Lögrétta, félag laganema við HR ætlar að bjóða innflytjendum ókeypis lögfræðiaðstoð í Alþjóðahúsi. Þessu ber að fagna. Ásamt því að upplýsa innflytjendur um réttarstöðu sína á Íslandi þá er hópur kvenna á hverjum tíma sem þarfnast ráðleggingar og lögfræðiaðstoðar er varðar hjúskparrétt og forsjár- og umgengnismál.  
Aðilar beggja vegna borðs munu græðu á þessu framtaki; lögfræðinemarnir öðlast dýrmæta reynslu og innflytjendur fá lögfræðiaðstoð sem þeir að öðrum kosti myndu jafnvel ekki geta sótt sér bæði vegna þess hversu kostnaðrsöm hún er og einnig vegna þess að þeir vita e.t.v ekki hvert þeir eiga að leita. 
Ókeypis lögfræðiþjónusta ásamt því að bjóða innflytjendum upp á íslenskunám þeim að kostnaðarlausu hlýtur að vera kjarninn í stefnu okkar Íslendinga í innflytjendamálum.


Kynferðislegt áreiti á sundstöðum

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi nýverið karlmann til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir að leita á ungar stúlkur þegar þær voru við leik í sundi. Á námskeiðum sem ég hef haldið fyrir starfsmenn sundlauga höfum við einmitt verið að fara í þetta efni. Kynferðislegt áreiti á sundstöðum getur verið erfitt að koma auga á, hvað þá að sanna og myndi ég halda að það sé algengara en margan grunar. Hvað er það við sundstaði sem hugsanlega laða gerendur að?
Á sundstaði koma jú saman mörg börn á öllum aldri. Í sundi eru mörg tækifæri til að áreita; t.d. klípa í, káfa og nudda sér upp við annan aðila undir yfirborði vatnsins. Algeng dæmi eru líka að gerendur rekist „óvart“ í og lendi þá „óvart“ á viðkvæman stað osfrv.
Þættir sem laða gerendur að:
Þeir geta hagað sér eins og börn
Starfsmenn eiga erfiðara með að hafa eftirlit og yfirsýn
Auðvelt er að fela sig bak við nafn- og klæðaleysi
Auðvelt er að komast í líkamlega snertingu

Ástæðan fyrir því hversu erfitt getur verið að hafa auga með þessu er að ekki er alltaf hægt að álykta hvort hinn fullorðni þekki barnið eða hvort kynnin hafa átt upptök sín í sundlauginni og staðið þá jafnvel yfir í einhvern tíma. Gerandi hefur þá náð að mynda traust við barnið sem grunar ekki annað en að þarna sé hættulaus einstaklingur á ferð.
Hvaða börn eru í áhættu?
*Börn sem eru félagslega einangruð
*Börn sem lögð hafa verið í einelti
*Börn sem hafa lágt sjálfsmat/brotna sjálfsmynd
*Börn sem skortir hlýju, umhyggju og athygli
*Börn sem eiga við einhverskonar fötlun að stríða.

Hvað geta starfsmenn gert? Starfsmenn eru að sjálfsögðu með vökult auga og grípa inn í ef grunur er um eitthvað vafasamt liggur fyrir. Eins ef barn kemur og segir frá þá skal undantekningalaust kanna málið. Mikilvægt er að góðar verklagsreglur liggi fyrir á sundstöðum um hvernig bregðast skuli við uppákomum sem þessum. Gríðarlega mikilvægt er að foreldrar fræði börn sín um þessa hættu þannig að þau læri að meta aðstæður standi þau frammi fyrir tilvikum sem þessum. Eins að hvetja börn til að láta vita, segja frá hafi þau orðið fyrir áreiti af einhverju tagi.


Níundu bekkingar í menntaskóla. Gott mál!

Ég er mjög ánægð með að skoða eigi möguleika á sveigjanlegum námstíma í grunnskóla í báða enda. Sem skólasálfræðingur í Áslandsskóla þá skynja ég sterkt hversu gríðarlega mikill fjölbreytileiki er innan þessa hóps á öllum sviðum og að útilokað er að ætla að setja alla undir sama hatt hvað varðar námskröfur eða hraða námsferils. Því meiri sveigjanleiki og einstaklingsbundnar námsleiðir því betra. Þannig geta foreldrar og síðan unglingarnir þegar þeir nálgast 9. bekk  fengið að móta eigin námsfarveg allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Heyrst hafa óánægjuraddir sem segja að þarna sé verið að hafa af börnunum bestu árin. Þetta eru meiningarlaus orð þar sem ekki er hægt að sjá neina tengingu milli lengd grunnskólanáms og „bestu áranna“. Það hentar ákveðnum hópi barna bæði vitsmunalega, tilfinninga,- og félagslega að fara hraðar í gegnum grunnskólakerfið en boðið hefur verið upp á hingað til. Öðrum hópi hentar að fara hægar og enn öðrum hópi ennþá hægar.  Þannig er það bara og við eigum að geta mætt þörfum allra þessara hópa í stað þess að steypa alla í sama mót og telja okkur ávalt vita hvað öðrum er fyrir bestu.

Dýr aflífuð áður en farið er í frí

Þetta er fyrirsögn á frétt í Fréttablaðinu í dag. Manni finnst þetta hreint ótrúlegt. Getur verið að einhverjir séu svo miklir tækifærissinnar að eiga dýr t.d. yfir veturinn og aflífa þau svo fyrir utanlandsferðina. Auðvitað er alls konar fólk til, þetta er bara eitthvað svo ljótt og óþarft.  Mér finnst að hver og einn ætti að spyrja sig áður en hann ákveður að eignast gæludýr hvort hann í fyrsta lagi sé hæfur til að annast dýrið og í öðru lagi hvort hann sé tilbúinn til að færa fórnir hvort sem það eru peningafórnir eða annað. Oft er þetta kannski bara spurning um peninga, fólk tímir ekki að borga fyrir gæsluna. Það fylgir því ábyrgð að eiga dýr.


Að leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir ber vott um kjánaskap og tillitsleysi

Hvað gengur þeim ferðamönnum til sem leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir? Þeir sem taka slíka áhættu og lenda síðan í hremmingum eiga að mínu mati að bera kostnaðinn sem til fellur vegna leitar og  björgunaraðgerða. Gera þessir aðilar sér ekki grein fyrir að reikningar björgunasveita eru upp á milljónir? Er þeim kannski bara alveg sama?  Svo er spurning hvort ekki eigi að skylda ferðamenn til að gera grein fyrir ferðaátælunum sínum.


Kjóllinn hennar Ragnhildar í Kastljósinu í kvöld var ..spes..

Þetta var hin mesta furðuflík sem hún Ragnhildur klæddist í Kastljósinu í kvöld og kalla ég nú ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Fyrst sýndist mér dressið vera með grænan, munstraðan smekk en svo kom nú í ljós við nánari athugun að þetta græna, skræbótta stykki var áfast við kjólinn sem var að öðru leyti svartur með einhverjum svona glitrandi borðum undir græna smekknum og á ermunum. Alla vega stórmerkileg hönnun svo mikið er víst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband