Áfram tala Framsóknarmenn um 90% lán?

Ég var að heyra í fréttum í kvöld að enn og aftur vilja Framsóknarmenn 90% lán. Var ég að misskilja eitthvað?  Er ekki nóg komið af þessari vitleysu? Auðvitað er hver og einn ábyrgur fyrir sínum lántökum en ungt fólk freistast til að að halda að þetta sé sniðugt. Þau eru mörg hver ekki að horfa langt inn í framtíðina eða að átta sig á því að skuldir hverfa ekki bara. Spurt var í  fréttunum áðan hvort þetta væri kosningatitringur hjá Framsókn. Ég spyr, lærir þessi Flokkur ekki af reynslu? 

Hin mörgu mistök Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn hefur verið í samstarfi við minn góða Flokk (Sjálfstæðisflokkinn) árum saman og ég veit að samstarfið hefur verið gott sérstaklega ef tekið er mið af svo löngu hjónabandi. Margir framsóknarmenn og konur eru líka yndislegt fólk, því kynntist ég í eigin persónu þegar ég var á þinginu. Öll uxu þau í áliti hjá mér við kynni.  Þegar, hins vegar, litið er aftur í tímann og stefna og framkvæmdir Framsóknarflokksins skoðaðar svona þegar hann er að spila upp á eigin spýtur, þá blasa mistökin við og sum þeirra býsna alvarleg. Skemmst er að minnast kosningaloforðs Árna Magnússonar um 90% lánin og sá rússíbani sem kom í kjölfar þess í lána- og bankamálum. Þessi bolti nánast sneri þjóðfélaginu á hvolf. Svo er það blessuð landbúnaðarstefnan sem við höfum verið að blogga heilmikið um upp á síðkastið. Listinn er langur svo mikið er víst og nær langt aftur í tímann.

Offituvandi á barnsaldri getur dregið dilk á eftir sér.

Sálfræðilegt innlegg um offituvanda á barnsaldri.

Enda þótt offituvandinn sé án efa erfiður á öllum
aldursskeiðum má álykta sem svo að neikvæð áhrif og afleiðingar hans séu alvarlegri hafi hann átt við offituvandamál að stríða strax á unga aldri.
Á aldursskeiðinu 5-18 ára er einstaklingurinn að móta sína eigin sjálfsmynd. Hann skoðar sjálfan sig,  ber sig saman við jafnaldrana og speglar sig í umhverfi sínu.  Hann lærir fljótt hvað það er sem þykir flott, er viðurkennt og eftirsóknarvert. Skilaboðin sem einstaklingurinn fær um sjálfan sig frá þeim aðilum sem hann umgengst er stór áhrifaþáttur á mótun sjálfsmyndar hans.  Sá sem strax á barnsaldri á við offituvanda að stríða er útsettari fyrir neikvæðum athugasemdum frá umhverfi  sínu, leyndum sem ljósum.  Hann er auk þess í áhættuhópi þeirra sem lagðir eru í einelti; er strítt eða látinn afskiptur.  Afleiðingarnar eru oftar en ekki brotin sjálfsmynd; óöryggi, tilfinningaleg vanlíðan og jafnvel þunglyndi. Í slíkri vanlíðan eru félagsleg vandamál oft ekki fjarri. Eitt leiðir  af öðru og brátt, ef ekki er aðgáð,  getur líf þessa einstaklings verið undirlagt af erfiðleikum sem fylgt getur honum út ævina.
Sökum þess hversu offita er persónulegt mál hefur umræðan verið viðkvæm. Sumir þora ekki að nefna vandamálið því þeir óttast að vera særandi eða skapa óþægilega nærveru með slíku tali.  Foreldrar sem hafa verið að horfa upp á börn sín þyngjast óhóflega hafa stundum veigrað sér við að ræða vandamálið opinskátt af ótta við að auka enn frekar á vanlíðan þeirra. Einnig óttast þeir jafnvel að umræðan kunni að hvetja barnið til að grípa til öfgakenndra viðbragða eins og að byrja að borða óreglulega og jafnvel svelta sig.  Það liggur hins vegar í augum uppi að offituvandinn verður ekki leystur án þess að horfst verði fyrst í augu við hann, vandinn skilgreindur og lausnir ræddar ekki satt? Það er eins með þetta og allt annað sem telst vera vandamál, það þarf að ræða það!


Offita barna

Mér fannst hún svo sorgleg fréttin í kvöld um feita 8 ára drenginn í Bretlandi sem var tekinn af móður sinni vegna þess að offita hans var farin að ógna heilsu hans. Líklega var þessi aðgerð nauðsynleg hjá barnaverndaryfirvöldum á staðnum en mér fannst óþarfi að setja þetta í þannig búning að móðir hans hefði gerst sek um vanrækslu eða annað þeim mun verra. Móðirin réði einfaldlega ekki við þetta enda drengurinn afar aggressívur þegar kom að mat. Ég hefði viljað sjá barnaverndaryfirvöld túlka þetta sem aðstoð við móðurina fremur en hún væri vanhæf í uppeldinu eins og gert var í þessari frétt. Offita barna er vissulega erfitt og vaxandi vandamál sem við hér á Íslandi erum líka að berjast við.

Er sinubrennsla enn siður? Ef svo er, þá er það vondur siður!

Stundum hefur verið vísað til sinubrennslu sem náttúruhamfara en sinubrennsla er mikið oftar hamfarir af mannavöldum vegna þess að einhver kveikir í. Flokka má sinubrennslu því frekar sem glæp gegn náttúrunni. Í mörgum tilvikum er  vitað hver kveikir í, en sá sem gerir það er sætir engri ábyrgð. Þannig hefur það a.m.k. verið fram til þessa.  Sumir hafa nefnt að nóg sé að auka fræðslu og þá muni þeir sem vilja kveikja sinubruna sjá af sér. Heyrst hefur einnig í kjölfar sinubruna að kviknað hafi í vegna þess að gróður hafi verið orðin svo þurr. Fólk hlýtur að sjá að sinubrennsla er ekkert eðlileg fyrirbrigði a.m.k. ekki hér á landi. 

Bændur hafa löngum staðið í þeirri trú að sinubrennsla sé til góðs. Þeir sjá að landið grænkar fyrr að vori eftir brunann því að fyrr sést í strá sem vex á nakinni jörð en strá sem fyrst þarf að vaxa upp í gegnum sinu. En við brunann hljóta að tapast mikilvæg næringarefni úr sverðinum og  mikið af lífrænu efni tapast einnig. Það er augljóst að fæða fyrir milljónir smárra lífvera fer forgörðum þegar sinueldar brenna, orka tapast úr vistkerfinu og er ekki lengur tiltæk lífríkinu. Með sinubruna má því gera ráð fyrir að gróðurfarið breytist, því að trjágróður þrýfst ekki þar sem brennt er

Sinubrennsla tengist þannig skógrækt. Ef skógrækt á að gefa af sér, verður það ekki fyrr en áratugum seinna eftir að plantað er. Getur sá sem plantar verið öruggur um að svæðið fái að vera í friði fyrir sinubruna svo lengi?   

Hver er lausnin á biðlistavandamálinu t.d. á Bugl?

Ljóst er að hér er um uppsafnaðan vanda að ræða. Undanfarin ár hafa læknar og sérfræðingar LSH sent Heilbrigðis- og tryggingarráðuneytinu fjölda skýrslna með tillögum til úrbóta. Þetta eru m.a. tillögur sem ganga út á að auka stjórn á vettvangi og að ábyrgðar- og valdsvið haldist í hendur svo aðeins ein af fjölmörgum tillögum séu nefndar. Margar af þessum tillögum virðast skynsamar og þaulhugsaðar. Þeir sem starfa á þessum stöðum hljóta að vita hvernig best er að skipuleggja og hagræða í kerfinu. En hafa heilbrigðisráðherrar í gegnum tíðina hlustað eða tekið mið af ráðleggingum þeirra?

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að við eigum að horfa til nágrannaþjóða okkar og reyna að læra af þeim hvernig reka á skilvirkt heilbrigðiskerfi. Margir eru t.d. sammála um að hin Norðurlöndin séu langt á undan Íslandi í geðheilbrigðismálum hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Fíkniefnaneytendur mynda annan hóp sem okkar kerfi hefur ekki náð að umvefja nægjanlega vel.

Við verðum að finna leið út úr þessu. Við sem störfum í þessum geira erum máttlaus og manni finnst maður stöðugt vera að tuða en ekkert okkar vill búa við endalausa biðlista. Ég vil að við og auðvitað stjórnmálamennirnir hverju sinni hlusti á raddir notenda, aðstandenda og þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem hafa lagt fram vel ígrundaðar tillögur til úrbóta. Kostnað við úrbætur þarf ávallt að meta í ljósi þess ávinnings sem úrbæturnar færa. Til að móta heildstæða stefnu þurfa allir aðilar borðsins að koma að málum. Vinna sem unnin er úr glerhýsi skilar engu. Stefna og leiðir til úrbóta er ekki einkamál stjórnmálamanna.
Framsóknarflokkurinn hefur fengið að spreyta sig á þessu verkefni árum saman án þess að hafa náð viðunandi árangri. Ég vil sjá þetta ráðuneyti komist í hendurnar á sjálfstæðismönnum frá og með næstu kosningum.


14 mánaða biðlisti á Bugl

Ég er alveg miður mín eftir samtal við Bugl. Þar er nú ungur skjólstæðingur minn á biðlista og var mér tjáð að 14 mánaða bið væri eftir því að hann kæmist að og þá eru við ekki að tala um innlögn heldur bara viðtal hjá geðlækni. Tíminn vinnur ekki með þessu barni sem vegna kvíða getur ekki stundað skóla að heitið geti. Hvað eiga foreldrar að gera? Ef eitthvað er þá er þetta að versna því Miðstöð heilsuverndar barna átti að taka kúfinn af Bugl. Það hefur ekki gerst. Margir foreldrar leita að lokum til heimilislækna sinna því það er heldur ekki hægt að komast að hjá barnageðlækni á stofu.  Við vandann bætist að þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd af Tryggingarstofnun eins og viðtal hjá geðlæknum. Á meðan stéttum er mismunað með þessum hætti hafa margir ekki í nein hús að vernda. Ekki er hægt að komast að hjá geðlækni og sálfræðiþjónusta er bara fyrir þá efnameiri.

Sálfræðilegur prófíll höfundar nafnlausa bréfsins.

Nú er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins,  Aðalsteinn held ég að hann heiti að reyna að greina sálfræðilegan prófíl höfundar nafnlausa bréfsins. Áhugavert. Sem sálfræðingur freistast maður til að taka þátt í þessu. Ég held að fleiri en einn og fleiri en tveir séu höfundar af þessu bréfi. Klárlega hafa einhverjir lesið það yfir áður en það var sent. Nema hvað, nafnlaus bréf eru óþolandi. Þau sýna einmitt að viðkomandi er huglaus eins og bréfsendarinn segir sjálfur.  Hvort sem það er einhver einn eða tveir sem eru ábyrgir fyrir skrifunum þá skora ég á hann eða þá að gefa sig fram.  

Varðandi þennan málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins,  þá hvíslaði einhver að mér að hann hefði sagt til um það  hvernig „Breiðavík“ ætti að beygjast. Samkvæmt því sem hann segir er nafnið Breiðavík ekki dregið af því að víkin sé breið heldur dregið af orðinu „breiða“ og ætti því að beygjast Breiðavík um Breiðavík í stað Breiðavík um Breiðuvík.
Ég er persónulega enn í miklum vafa  þótt ég sé engin sérfræðingur á þessu sviði. Finnst sem Breiðavík hljóti að draga nafnið að víkinni breiðu.


Karate er frábær íþrótt fyrir unga sem aldna. Mæli með henni.

Hvað er Karate og hvaða ávinningur fæst með því að stunda Karate?
Orðið karate merkir “tóm hönd” og vísar til japanskrar bardagalistar. Tækni í karate skiptast aðallega í fernt: högg, stöður, spörk og varnir. Hefð er fyrir því í flestum löndum að tækniheiti og stöður beri japönsk heiti. Það gerir það að verkum að engu máli skiptir frá hvaða landi þjálfarar koma eða hvaðan iðkendur koma; allir geta skilið hvað um er að ræða.

Karate tekur til margra ólíkra þátta í tilveru þess sem íþróttina stunda. Iðkun karate reynir til að mynda á marga ólíka vöðva líkamans suma hverja sem í daglegu lífi eru ekki mjög virkir. Karate reynir sér í lagi á vöðva í fótleggjum og lærvöðva.  Næst skal nefna þjálfun andardráttar en með réttri öndun eykst úthald og almenn vellíðan að sama skapi. Sá sem leggur stund á Karate öðlast aukna sjálfsstjórn og aukinn viljastyrk. Aukinn viðbragðsflýtir er enn eitt sem fæst með því að stunda Karate. Þeir sem hafa einna mest áhuga á almennri líkamlegri hreyfingu eru sem sagt ekki sviknir af því að æfa þessa íþrótt.

En víkjum nú að öðrum þáttum í Karate. “Virðing” og “prúðmennska” er samofin í uppruna karate. Í karate er þess vegna gerð krafa um að iðkendur komi fram af kurteisi og yfirvegun jafnt gegn “andstæðingi” sínum sem öðru fólki. Eitt helsta merki í karate er að sýna ávallt kurteisi og virðingu og það gera hneigingarnar.  Þeir sem iðka karate ber að hneigja sig fyrir kennara sínum fyrir og eftir æfingar og fyrir “andstæðingi sínum” bæði fyrir og eftir hverja tækni. Allir hneigja sig þegar þeir koma inn í æfingasalinn og einnig þegar þeir yfirgefa salinn. Þessi íþrótt er því einstaklega góð fyrir unga krakka sem þurfa að auka sjálfsaga sinn og fylgja fyrirmælum
Sjálf hef ég stundað Karate í 3 ár, (hef reyndar verið löt upp á síðkastið) og hafði það af að ná mér í brúnt belti en beltaröðunin er eftirfarandi:
hvítt = byrjendur,- gult,- appelsínugult,- rautt,- grænt,- blátt,- fjólublátt, því næst 3 brún  belti   (3. kYU, 2. KYU og 1. KYU). Eftir það kemur svarta beltið sem skiptist einnig í 3 stig: fyrsta, annað og þriðja DAN.


Óþolandi mismunun

Ég vil benda ykkur á greinina hans Harðar Þorgilssonar, sálfræðings sem birt var í Mbl. 23. febrúar s.l. en hún fjallar um það að „sálfræðiþjónusta utan stofnana er ekki niðurgreidd af hinu opinbera tryggingarkerfi eins og t.d. þjónustu geðlækna enda þótt um sambærilega þjónustu er að ræða hvað varðar greiningu og meðferð. Vel rökstudd mótmæli sálfræðinga hafa heyrst árum saman sem heilbrigðisráðherrar framsóknarflokksins hefur alla tíð hundsað.  Auk þess halda sálfræðingar því fram að verið sé að brjóta samkeppnislög. Hið opinbera er að mismuna starfsstéttum sem eru að starfa á sambærilegum starfsvettgangi“
Góð grein hjá Herði.


Valfrelsi eldri borgara til að ákveða hvort þeir vilji vera lengur á vinnumarkaði.

Hver segir að þú verðir að hætta að vinna þótt þú hafir náð ákveðnum aldri? 
Alla tíð hefur íslenskt samfélag sent eldri borgara heim af vinnumarkaði þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri hvort sem það er 67 ára eða 70 ára. Nú er öldin önnur og við höfum vitkast og lært. Þess vegna er komin tími til að breyta þessu.  Það er engin ástæða til að senda eldhresst fólk af vinnumarkaði þótt það hafi náð einhverjum ákveðnum aldri. Þessi hópur er eins misleitur og allir aðrir hópar. Sumir fagna því að hætta að vinna og vilja fara að gera eitthvað annað. Aðrir hætta að vinna af heilsufarsástæðum og enn aðrir vilja ekkert frekar en að halda áfram að vinna enda fullir af starfsorku og elju. Ég vil endilega að við lyftum þessu þaki með þeim hætti að fólk fái að ráða því meira sjálft hvort og hvenær það vill láta af störfum.  Það býr í eldri borgurum gífuleg reynsla og uppsöfnuð þekking á ótrúlegustu og ólíklegustu sviðum, sviðum sem yngri kynslóðin mun aldrei kynnast nema í kynnum sínum við eldri borgara. Við skulum ekki taka þennan dýrmæta fjársjóð frá þeim sem nú eru að alast upp og slíta barnsskónum. Engin kynslóð kemur aftur og því ber okkur að hlúa að hverri og einni eftir þvi sem árin líða. Öll verðum við einn góðan veðurdag eldri borgarar. Þess vegna er svo mikilvægt að skapa kringumstæður/umhverfi  þar sem ungir, miðaldra og eldri geta unnið sem mest saman. Þannig miðla eldri til þeirra yngri og allir græða.

Höft landbúnaðarstefnunnar eins og hún er í núverandi mynd.

Sú landbúnaðarstefna sem nú ríkir er vægast sagt erfiðleikum bundin og lítt vænleg til að skapa eðlilegt umhverfi á landbúnaðarmarkaði. Núverandi styrkjakerfi miðar að því að styrkja eingöngu gömlu búgreinarnar og  hindrar að sama skapi að aðrar búgreinar nái fótfestu. Dæmi um nýjar búgreinar sem gætu þróast fengju þær tækifæri eru hreindýrarækt, kornrækt,  villisvínarækt,  sauðnaut og strútar svo fátt eitt sé nefnt. Af hverju sjá bændur þetta ekki?
Þeir ríghalda í gamla kerfið enda kannski ekki skrýtið þar sem engum smá fjármunum er varið til að halda þeim gangandi í þessu gamla, ósveiganlega kerfi. Ég vil benda á góða grein um þessi mál sem var í Mbl. um daginn eftir Margréti Jónsdóttur. 
Annað þessu tengt eru vandkvæði íslenskra bænda að selja afurðir sínar beint. Breyta þyrfti lögum og reglugerðum þannig að íslenskir bændur geti unnið og selt afurðir sínar beint til kaupenda, enda séu þeir ábyrgir fyrir framleiðslu sinni.  Hér kemur ýmisleg framleiðsla til greina t.d. á minjagripum, sultum, pönnukökum, kökum, brauði og öðrum matvælum. Það ferli sem framleiðandi þarf að ganga í gegnum áður en hann getur selt vöru sína er, eins og sakir standa, óþarflega flókið og viðamikið. Staðan í dag er með þeim hætti að til þess að mega framleiða og selja matvæli þarf að taka framleiðslustaðinn út. Framleiðslunni fylgir síðan ámóta eftirlit, líkt og væri um verksmiðjuframleiðslu að ræða. Skilvirkasta eftirlitið felst í þvi að bændur og aðrir þeir sem eru með heimilisframleiðslu séu einfaldlega ábyrgir fyrir sinni vöru. Það eina sem skiptir máli í þessu sambandi er að ef upp koma vandkvæði með vöruna eða í tengslum við hana, verður að vera hægt að rekja hana til seljandans. Víða liggja möguleikar.


 

 

 


Ég er svooo ánægð með þessa niðurstöðu hvað varðar þetta klámþing.

Er þessi þjóð og þjóðarsál ekki meiriháttar!!  Hvaða þjóð getur státað sig af slíkri samstöðu sem hér ríkir þegar heill hópur ætlar að streyma til landsins í þeim tilgangi  að fjalla um og skiptast á klámefni? Þá brettir íslenska þjóðin upp ermarnar, allir sem einn og segir nei.  Þetta er of gott til að vera satt. Ég satt að segja þorði ekki að vona að þetta gæti orðið niðurstaðan eða að þetta væri yfir höfuð raunhæfur möguleiki . Allir þeir sem hafa mótmælt þessu eiga hrós skilið og þar fara grasrótarsamtökin fremst í flokki. Að sjálfsögðu höfum við eitthvað um það að segja hvaða hópar koma hingað og í hvaða tilgangi. Hvort þetta dregur einhvern dilk á eftir sér verður bara að koma í ljós. Við tökumst á við það þegar og ef til þess kemur. Ég er stolt af Bændasamtökunum og ég er rígmontin af alþingismönnunum okkar. Þetta var lagið!

Nú rofar til hjá þeim sem þjáðst hafa af skammdegisþunglyndi

Með hverjum degi sem nú líður eykst britan. Þeir sem þola illa skammdegið geta nú farið að láta sér hlakka til vorsins. Ákveðinn hópur einstaklinga upplifir þunglyndi á þeim tíma ársins sem mesta myrkrið er. Einkennin eru þreyta, kvíði, neikvæðar hugsanir og streitueinkenni. Sumum líður svo illa á þessum tíma að þeim finnst átak að stíga fram úr á morgnana og takast á við daginn og gildir þá einu hvort verkefnin sem bíða eru flókin eða einföld. Sem sagt framundan er yndislegur tími og maður fyllist löngun til að hoppa og skoppa. Frábært að heyra aftur í fuglunum í tjránnum og hænurnar mínar hérna í garðinum verpa sem óðar væru þessa daganna.

 


Niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu.

Í dag barst mér svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn sem borin var upp á Alþingi í nóvember s.l. Eins og flestir vita kannski hefur Sálfræðingafélag Íslands barist fyrir því í hartnær 20 ár að þeir sem óska eftir þjónustu sálfræðinga fái niðugreiddan kostnað á viðtölum rétt eins og tíðkast hefur árum saman hjá geðlæknum og fleiri heilbrigðisstéttum. Þetta er spurning um að velja sér heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Með því að semja ekki við sálfræðinga er einnig verið að mismuna stéttum. Svörin má nálgast á vefsíðu Alþingis undir Kolbrún Baldursdóttir eða á heimasíðu minni www.kolbrun.ws.
Fyrirspurnin er þessi:

1. Til heilbrigðisráðherra um viðtalmeðferðir vegna kvíða- og þunglyndiröskunar.
a. Hversu margir sjúklingar koma árlega í viðtalsmeðferð vegna kvíða- og þunglyndisröskunar?
b. Hversu margir aðilar hér á landi hafa réttindi til að veita slíka meðferð?
c. Hvað hefur ráðuneytið gert til að veita sjúklingum val um viðtalsmeðferð?
d. Hver er afstaða ráðuneytisins um greiðsluþátttöku Tryggingarstofnunar í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingum?


Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni?

Nú þegar verið er að ræða að byggja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni finnst mér sem líkurnar á að flugvöllurinn kunni að verða þar áfram til lengri tíma séu að aukast. Ég myndi fagna því mjög ef það yrði niðurstaðan. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þar, eða í næsta nágrenni, eigi að vera flugvöllur. Mörg gild sjónarmið eru fyrir því s.s. mikilvægi þess að staðsetning innanlandsflugsins sé sem næst sjúkrahúsi borgarinnar enda geta mínútur skipt máli þegar um bráðatilvik eru að ræða. Keflavík finnst mér aldrei hafa verið aðlaðandi kostur enda þótt margir líti á akstur á Leifsstöð sem skottúr. Sá tími sem tekur að fara frá Reykjavík og nágrenni og þar til gengið er út í vél er býsna drjúgur. Það vita þeir best sem leggja leið sína oft þangað í millilandaflug.

Hjólreiðabrautir í vegaáætlun. Til hamingju Sturla!

Vísað er í hádegisfréttir en þar var sagt að á morgun verði lögð fyrir Alþingi ný samgönguáætlun. Ein af nýjungunum í tillögu um nýja vegaáætlun er að heimila að styrkja gerð göngu-, og hjólreiðastíga meðfram stofnvegum í þéttbýli og meðfram fjölförnustu þjóðvegum í dreifbýli.  Landssamtök hjólreiðafólks hafa lengi barist fyrir að hjólreiðabrautir verði settar í vegalög og viðurkenndar sem hluti að vegakerfinu.  Í tillögum að nýrri vegaáætlun segir: “Í tengslum við endurskoðun vegalaga og hugsanlegar heimildir þar mun koma til skoðunar þátttaka ríkisins í gerð hjóla,- og göngustíga meðfram stofnvegum í þéttbýli. Á sama hátt mun koma til skoðunar þátttaka ríkisins í gerð hjóla,- og göngstíga meðfram fjölförnustu stofnvegum í dreifbýli.“

Þetta er mikill gleðidagur fyrir hjólreiðafólk og persónulega fyrir mig líka en á Alþingi í nóvember s.l. var ég með fyrirspurn til ráðherra um þetta efni sem var svona:
Hefur ráðherra látið undirbúa áætlun um að lagðar verði hjólreiðabrautir sem verði fullgildur samgöngukostur?
Í munnlegu svari ráðherra kom fram að hann var jákvæður fyrir þessu máli og nú er sannarlega tilefni til bjartsýni.


Unglingar sem skemma geta greitt skuldina þegar þeir hafa náð 18 ára aldri.

Nú eru skemmdarvargarnir í Hafnarfirði fundnir. Þar sem þeir eru á aldrinum 16-17 ára sleppa þeir að borga skaðann. Foreldrarnir eru heldur ekki ábyrgir þar sem synir þeirra teljast hálffullorðnir. Þetta er skv. frétt í Blaðinu í dag.  Hérna er greinilega einhver glufa í kerfinu sem þarf að skoða nánar. Það er ekki langt þangað til að þessir strákar ná 18 ára aldri og þá á þessi skuld einfaldlega að bíða þeirra amk að hluta til.  Svo einfalt er það. Ég hvet dómsmálaráðherra til að skoða þessi lög/reglugerðir nánar með tillliti til þessa. Við verðum að stöðva skemmdarverk.  Að þurfa að taka afleiðingum gerða sinna er eina markvissa leiðin til að slökkva á neikvæðu atferli sem þessu.

Fyrir hverja er Hrossaræktardeildin í Hólaskóla?

Ég heyrði því fleygt að íslendingar sem sóttu um í Hólaskóla ættu í harðri samkeppni við útlendinga, aðallega þjóðverja um að fá inngöngu í Hrossaræktardeildina. Kæmist ég á þing aftur myndi ég vilja spyrja landbúnaðarráðherra hver væri samsetning nemenda í þessari deild.
Annars er ég þeirrar skoðunar að bæði Landbúnaðarháskólinn og Hólaskóli ættu að tilheyra Menntamálaráðuneytinu eins og aðrir skólar landsins. Það væri bæði rökrétt og eðlilegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband