Áramótagrein oddvita Flokks fólksins

Litið um öxl árið 2020. 
Áramótagrein Flokks fólksins í borgarstjórn birt á Kjarnanum

Vonandi verður bið á því að við þurfum að upplifa annað eins ár og 2020. Hver átti von á að við gengum í gegnum þær aðstæður sem nú ríkja þar sem skæð veira skekur heiminn allan? Ástandið kallar á æðruleysi og samstöðu. Í æðruleysi felst m.a. að sætta sig við það sem ekki fæst breytt. Enginn er beinlínis sökudólgur og enginn er óhultur. Veiran er sameiginlegur óvinur og allir, án tillits til samskipta eða sambanda, vináttu eða ágreinings, þurfa að berjast gegn vánni.

Við höfum öll verið sammála um að ætla ekki að leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka og hörmungum. Öll höfum við einnig verið sammála um að standa vörð um viðkvæma hópa, þá sem hafa verið og eru veikir. Margir hafa misst lífsviðurværi sitt sem getur tekið toll af heilsu fólks. Þeir sem hafa alið önn fyrir sér og sínum eru skyndilega komnir á atvinnuleysisbætur. Hugur okkar í Flokki fólksins er hjá þessu fólki og fjölskyldum þeirra.

 

Þakkir til starfsmanna borgarinnar

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ásamt því að sinna vel fólkinu, ekki eingöngu á erfiðleikatímum heldur alltaf, ber okkur sem stjórnvald á neyðartímum að stappa í það stálinu, blása í það von og trú. Við sem kjörnir fulltrúar eigum að haga okkur eins og skipstjórar, fara síðust frá borði, ef nota má þá samlíkingu.

Ég er stoltur fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Flokkurinn er vakinn og sofinn yfir þörfum fólks og að það fái þörfum sínum mætt eins og lög gera ráð fyrir. Kjörorð okkar er „Fólkið fyrst.“ Flokkur fólksins berst gegn fátækt og misrétti og við berjumst fyrir bættum kjörum og aðstæðum þeirra verst settu. Mörgum eldri borgurum og öryrkjum líður illa í ríku samfélagi okkar. Engin ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunnþörfum. Hópur hinna lakast settu er oft falinn og um hann ríkir jafnvel þöggun.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur staðið sig vel við þessar aðstæður. Flokkur fólksins kann þeim öllum bestu þakkir fyrir. 

 

Fátækt er staðreynd

Fátækt meðal barna á Íslandi er staðreynd og á sér margar birtingarmyndir. Enda þótt við sjáum ekki fólk liggjandi á götunni eða grátandi börn að betla, eru allt of margir á  vergangi með börnin sín. Börn einstæðra foreldra búa oft við sárafátækt. Foreldrar á lægstu launum eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi.

Foreldrar sem eru aðþrengdir fjárhagslega þurfa að forgangsraða ef endar ná ekki saman og þá koma grunnþarfir fyrst. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80%. Það er ómögulegt að ná endum saman þegar 20% launa þurfa að duga fyrir öllu öðru. Þessi staða hefur ríkt í Reykjavík í meira en áratug.

Til að tryggja að ekkert fátækt barn sé svangt í skólanum lögðum við til á árinu að öll börn í leik- og grunnskólum borgarinnar fái fríar skólamáltíðir. Sú tillaga var felld. Við höfum líka lagt til að fresta gjaldskrárhækkunum um eitt ár í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu eða afnema hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021. Til viðbótar höfum við lagt til hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku, afnám tekjutengingar húsnæðisstuðnings, fjölgun stöðugilda sálfræðinga í skólum og að vannýttar fjárhæðir Frístundakortsins vegna COVID færist yfir á næsta ár, 2021. Allt eru þetta tillögur sem miða að því að létta íbúum borgarinnar róðurinn í kreppuástandi. Þetta eru eingöngu nokkur dæmi um tillögur okkar og allar hafa þær verið felldar af meirihlutanum.

Langir biðlistar rótgróið mein í Reykjavík

Hinn langi biðlisti barna til fagaðila skólaþjónustu er ólíðandi. Samkvæmt nýjum vef sem sýna lykiltölur eru um 800 börn á bið eftir fagfólki skólaþjónustu, um helmingur eftir fyrstu þjónustu. Langflest börn bíða eftir að komast til sálfræðings. Til að komast til talmeinafræðinga bíða yfir 200 börn. Mikill munur er á biðlistum eftir hverfum. Það kæmi ekki á óvart að foreldrar leiti sér að húsnæði þar sem staðan er góð í skóla hverfisins hvað varðar aðgengi að skólasálfræðingi og öðru fagfólki.  Velferðaryfirvöld segja að málum sé forgangsraðað eftir alvarleika. Það er ekki óeðlilegt en hafa verður í huga að mál getur orðið að bráðamáli í einni svipan sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Það sárvantar fleiri fagaðila til starfa til að sinna því dýrmætasta sem við eigum, börnunum. Tillaga Flokks fólksins í borgarstjórn um fjölgun stöðugilda fagaðila hefur ítrekað verið felld. Bíða á eftir frumvarpi félagsmálaráðherra sem á að samþætta þjónustuna. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

 

Sykurhúðaður sýndarveruleiki

Á árinu 2020 hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram vel yfir 100 mál í borgarstjórn. Þetta eru á bilinu 60-70 tillögur og 50-60 fyrirspurnir. Eingöngu þrjár tillögur voru samþykktar sem allar sneru að viðspyrnu aðgerðum vegna faraldursins. Um 25 tillögum var vísað frá eða felldar en önnur mál sitja einhvers staðar föst í kerfinu, vísað til fagráða eða stjórna. Meirihlutinn hefur hins vegar tekið til sín nokkrar tillögur og gert að sínum í skjóli þess að breyta þurfi kannski einni setningu, eða með þeim rökum að það átti hvort eð er að gera þetta.

Í þessu kristallast sú staðreynd að síðustu meirihlutar í borginni og sá sem nú er, forgangsraða þjónustu við fólkið ekki ofarlega. Frekar hefur verið lögð áhersla á skreytingar eða verkefni sem vel mega bíða betri tíma. Smáar sem stórar framkvæmdir og alls kyns sérstök verkefni: viti, mathöll, torg, braggi, þrengingar gatna, stíga, flest sem kemur ekki beint lífsviðurværi fólks við.

Ennþá er t.d. bragginn óuppgerður, ekki aðeins í orðsins fyllstu merkingu, heldur sem fjármálaklúður. Minnisvarði um hvernig kaupin gengu á eyrinni: skortur á eftirliti, vanáætlanir, verk gerð án útboðs, án samninga, jafnvel án heimildar. Viðreisn, VG og Píratar hafa staðið vörð um þetta verklag og varið það. Öll bera þau ábyrgðina.

 

Þykjustusamráð við borgarana

Fá hugtök hafa sennilega verið orðuð eins oft á þessu kjörtímabili og hugtakið samráð. Hugtakið samráð hefur komið upp í málum eins og Laugavegslokunum, um Skerjafjörð, skólamál í norðanverðum Grafarvogi, svokallaðan Sjómannareit, aðgengismál fatlaðra og margt fleira. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sínar eigin skilgreiningar á hvað samráð er og ekkert í þeirri skilgreiningu segir til um hvort bjóða eigi borgarbúum að ákvörðunarborðinu.

Þegar kallað er eftir samráði milli meirihluta og minnihluta eru algeng viðbrögð meirihlutans að segja: „Þetta stendur í meirihlutasáttmálanum, þetta er okkar stefna og allir vissu hver hún var þegar við vorum kosin.“ Við svona aðstæður skapar meirihlutinn sýndarlýðræði. Þau þykjast hlusta á alla borgarbúa en gera það ekki. Ef samráð á að vera í alvöru þurfa fulltrúar notenda að vera í öllum samráðshópum, á öllum STIGUM, líka á byrjunarstigi velferðarsviðsins sem og annarra sviða og aðkoma þeirra að vera virk á öllum stigum frá byrjun til enda. Ég vil minna hér á kjörorð fatlaðra í þessu sambandi: „Ekkert um okkur án okkar!“ Þessi hópur veit hvað hann er að tala um í þessum efnum.

 

Farleiðir og umhverfismál

Almenningssamgöngur hafa heldur ekki staðið fötluðu fólki til boða. Loksins á nú að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætisvagnabiðstöðva. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, er aðgengi eiginlega hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum.

Aðgengi að strætisvagnabiðstöðvum hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.

Meirihlutanum verður tíðrætt um „græna planið“ svokallaða sem á að sýna hvað þau eru umhverfisvæn. Hvað með lagningu Arnarnesvegar? Hversu græn getur sú framkvæmd verið? Hraðbraut ofan í Vetrargarð. Hraðbraut sem klýfur Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild. Náttúrulegar fjörur eru að verða fágætar í Reykjavík. Landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis t.d. í Skerjafirði munu skerða náttúrulegar fjörur í Reykjavík, Náttúrufræðistofnun hefur mælst til að fjörulífi verði ekki raskað. Forsendur fyrir þéttingu byggðar, og þeirri hagkvæmni sem því getur fylgt, eiga ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur. Sumar fjörur einkennast af leirum, aðrar af þaragróðri. Þetta eru mikilvæg svæði fyrir smádýr og fugla.  

 

Lífið í minnihlutanum

Hvernig er svo að vera í minnihluta? Sem kjörinn fulltrúi í minnihluta hefur maður ekki mikil áhrif. Að leggja fram bókun er eiginlega eini farvegurinn til að opinbera skoðun á máli eða afgreiðslu mála og með bókun er hægt að koma upplýsingum til fólksins. Við getum lagt fram fyrirspurnir og við fáum svör. Bókanir Flokks fólksins skipta  hundruðum og má sjá þær allar á heimasíðunni www.kolbrunbaldurs.is

Tillaga frá minnihluta hefur aldrei (kannski einu sinni) verið samþykkt á sjálfum fundum borgarstjórnar. Margoft hefur aðeins munað einu atkvæði sem þessi tæpi meirihluti hefur umfram minnihlutann. Allmörg tilvik eru þar sem meirihlutanum líkar tillaga minnihlutans og gerir hana þá að sinni, stundum samstundis eða síðar. En þá er þess vel gætt að aftengja hana uppruna sínum.

 

Lokaorð

Flokkur fólksins vill að öllu fólki, líði vel í borginni. Við höfum efni á því. Fólk þarf að finna til öryggis, að stjórnvöld láti það sig varða og að það þurfi ekki að kvíða morgundeginum. Að það hafi fæði, klæði og húsnæði, og komist milli staða án vandræða til að sinna störfum sínum og öðrum skyldum. Ef þessir þættir eru ekki í lagi skiptir litlu  máli hvernig umhverfið er, hvort þú hafir bragga, pálma eða Laugaveginn í breyttri göngugötumynd. Kjörorð okkar í Flokki fólksins er Fólkið fyrst!

Ég óska borgarbúum og landsmönnum öllum friðar yfir hátíðarnar og gleðilegs árs.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn.
Birt á vefsíðu Kjarnans 30. desember 2020

logo mynd jpg


 


Hundaeftirlitsgjald ólögmætt?

Skatt má ekki leggja á nema með lögum en svo segir í 40. gr. stjórnarskrárinnar. Öðru gegnir um þjónustugjöld. Stjórnvöldum er almennt heimilt að krefjast greiðslu fyrir veitta þjónustu. Ef stjórnvöld á annað borð innheimta gjöld langt umfram kostnaðarþörf er ekki um annað að ræða en skattheimtu í dulbúningi. Hundaeftirlitsgjald í Reykjavík er skýrt dæmi um slíkt. Reykvíkingar þurfa að greiða árlega 19.850 kr. vilji þeir eiga hund. Sú gjaldtaka er sögð nauðsynleg til að standa undir kostnaði við hundaeftirlit í borginni. Eigendur skráðra hunda greiða auk þess skráningargjald þegar hundurinn er fyrst skráður og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði frá dýralækni sem einnig þarf að greiða fyrir.

Því vekur það athygli hvernig störfum hundaeftirlitsins er lýst í nýrri skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr. Í skýrslunni segir „Meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“ Hvers vegna skyldi svo mikil áhersla vera lögð á skráningu hunda? Það gefur augaleið að það er til að auka tekjurnar. Um 2.000 hundar eru á skrá í Reykjavík en samkvæmt skýrslu stýrihópsins má gera ráð fyrir því að hundar séu á a.m.k. 9.000 heimilum í borginni. Hundaeftirlitið getur því aukið tekjur ef fleiri hundar eru skráðir.

Það fylgir því vinna að hafa eftirlit með hundum og fanga lausa hunda. Sú starfsemi er þó langt frá því að vera svo umsvifamikil að innheimta þurfi jafn hátt gjald og nú er gert. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar hefur hundaeftirlitið tekið í vörslu 19 hunda síðastliðin tvö ár, minna en einn hund á mánuði.

Samkvæmt vinnuskýrslum hundaeftirlitsmanna það sem af er ári kemur fram að hundaeftirlitsmenn hafi farið í 89 eftirlitsferðir vegna kvartana. Tveir hundaeftirlitsmenn eru í fullu starfi og samsvarar það u.þ.b. einni eftirlitsferð í viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann. Það er því auðséð að starf hundaeftirlitsmanna er ekki fullt starf fyrir eina manneskju, hvað þá fyrir tvær.

Rangt er  að innheimta eins hátt gjald og raun ber vitni. Gjaldtakan dregur augljóslega úr skráningu hunda og gerir þar með eftirlitsstörf erfiðari. Þá er gjaldið nýtt í aðra hluti en þá þjónustu sem það á að standa undir. Í skýrslu stýrihópsins er tekið fram að gjöldin „séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“  Því er ekki um þjónustugjald að ræða heldur ólögmæta skattheimtu.

Meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu mína um að leggja niður skráningar- og hundaeftirlitsgjaldið. Því mun borgin áfram innheimta skatt úr hendi þeirra hundaeigenda sem eru heiðarlegir og skrá sína hunda. Mikilvægt er að það verði skoðað fyrir alvöru hvort hundaeftirlitsgjaldið sé lögmætt.

 

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins
Greinin er birt í Fréttablaðinu 17.12. 2020


Styrkja björgunarsveitir án þess að kaupa flugelda

Ég lagði þessa tillögu fram í borgarráði í morgun:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að hvetji borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda.
Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir. Svifryk frá flugeldum  er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir einnig lífsgæði margra. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið.

Vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs 


Börn eiga núna að bíða eftir Farsældarfrumvarpinu

Í leik- og grunnskóla án aðgreiningar eru fyrirheitin sú að öll börn skuli fá þörfum sínum fullnægt. Þetta er flókið í framkvæmd. Slíkt kallar á að ráðnir séu fagmenntaðir kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, sérkennarar, sálfræðingar, hegðunarfræðingar og talmeinafræðingar.

 

Í grunnskólum Reykjavíkur eru um 30% barna í sérkennslu. Sum börn eru í sérkennslu fáeina klukkutíma í viku en önnur eru marga tíma í viku, jafnvel alla grunnskólagönguna. Börnum fer fjölgandi í sérkennslu, sum vegna fjölþætts námsvanda, önnur vegna þess að þau þurfa stuðning í lestri eða stærðfræði.

 

PISA-könnunin 2018 leiddi í ljós að um 34% 14–15 ára drengja gætu ekki lesið sér til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% reykvískra barna sér til gagns eftir 2. bekk. Ástandið virðist fara versnandi og nemendum fjölgar í sérkennslu.

Sérkennarar undir miklu álagi

Ég hef lagt fram ýmsar fyrirspurnir um sérkennsluna þann tíma sem ég hef verið borgarfulltrúi. Af svörum að dæma er það staðfest að skortur er á heildarsýn og mælanlegum markmiðum.

Svo virðist sem það skorti heildstæða stefnu. Það hefur ekki verið gerð úttekt eða könnun á sérkennslumálum í Reykjavík í a.m.k. tuttugu ár. Sérkennarar eru of fáir og starfa undir miklu álagi. Börnum með hegðunarvanda fjölgar, kannski einmitt vegna þess að þörfum þeirra er ekki svarað. Fái barn ekki náms- og félagslegum þörfum sínum sinnt upplifir það kvíða og aðra vanlíðan. Birtingarmynd sálrænnar vanlíðunar er stundum neikvæð hegðun og hegðunarvandi.

Fyrsta skrefið til umbóta er að öðlast betri yfirsýn um stöðu mála og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef lagt til í borgarstjórn að innri endurskoðun geri úttekt á þessum málaflokki. Í borgarstjórn var tillögu um úttekt af innri endurskoðanda felld en tillögunni hins vegar vísað í hóp á vegum borgarinnar sem skoðar þessi mál.


Öll þekkjum við hinn langa biðlista barna sem þarfnast aðstoðar fagfólks skóla, sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þau skipta hundruðum. Á annað hundrað barna bíða eftir að komast til talmeinafræðings. Fjöldi tilvísana til skólaþjónustu er um 2.164, hluti þeirra hefur fengið einhverja þjónustu en hinn helmingurinn enga.

 

Það er brýnt að stytta þennan biðlista. Það verður eingöngu gert með bættara skipulagi og ráðningu fleiri skólasálfræðinga. Skólasálfræðingar sinna fastmótuðu hlutverki, bæði á sviði forvarna og greiningarvinnu. Sú greining sem þeir annast, frumgreining á vitsmunaþroska og ADHD skimun, er skilyrði þess að barn fái frekari þjónustu t.d. á stofnunum ríkisins. Langur biðlisti í nauðsynlega greiningu og skimun í grunnskóla tefur fyrir að barn, sem þess þarf, fái ítarlegri greiningu á Barna- og unglingageðdeild eða Greiningarstöð ríkisins.

 

Tillögur felldar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur lagt fram tillögur til úrbóta í þessum málum. Í borgarstjórn mun ég aftur við seinni umræðu á fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun, sem fram fer 15. desember, leggja til að bætt verði við þremur stöðugildum skólasálfræðinga. Hækka þarf fjárframlög til velferðarsviðs um 40,5 milljónir króna. Tillaga þessi var lögð fram fyrir ári og var þá felld.

Flokkur fólksins hefur á þessu ári lagt fram fleiri tillögur sem grynnka á biðlistum, s.s. um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert m.a. til að stytta biðlista. Vísir er nú þegar að samstarfi sem þessu en ekkert er formlegt eða samræmt milli skóla. Einnig lagði ég til að skóla- og frístundasvið hæfi formlegt samstarf við heilsugæslu um að fá upplýsingar um niðurstöður úr fjögurra ára skimun barna. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda og hvort þörf er á sértækri aðstoð strax.


Á meðan borgin bíður með hendur í skauti þá neyðast foreldrar til að leita með börn sín sem eiga við vanda að etja til sjálfstætt starfandi fagfólks. Þetta þarf fólk að borga fyrir úr eigin vasa. Því hafa ekki allir efni á. Núverandi ástand er vítahringur sem bitnar verst á sjálfum börnunum. Búið er að samþykkja á Alþingi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ekki er vitað hvenær framkvæmd verður að veruleika. Heilsugæsla sinnir ekki greiningum og á heilsugæslu eru víða einnig biðlistar.

Aðgerðir strax


Brýnt er að gripið verði til aðgerða strax. Það sem ég tel að hægt sé að gera er að:

- Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum og komi með tillögur

- Fjölga sálfræðingum og ráðast til atlögu að biðlistum

- Formgera samstarf borgar við heilsugæslu og Þroska- og hegðunarstöð til að undirbúa markvissari snemmtæka íhlutun og einfalda aðgengi barns að barnalækni


Nú hefur félagsmálaráðherra tilkynnt að lagt verður fram svokallað farsældarfrumvarp. Áform eru hjá ráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna. Það er vel en þetta kemur ekki í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi 2022. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

Birt í Morgunblaðinu 8.12 2020


Landfyllingarárátta skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Fjörum fórnað

Hvað er með þessa landfyllingaráráttu skipulagsyfirvalda í borginni? Fjörur fá ekki að vera í friði því svo mikið þarf að þétta byggð. Gengið er á náttúrulegar fjörur. Til dæmi kemur landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis í Skerjafirði til með að skerða náttúrulegar fjörur þar.

Ýmsir hafa mótmælt. 
Náttúrufræðistofnun og fleiri hafa mælst til að fjörulífi verði ekki raskað. Sífellt hefur verið að gengið á fjörur á höfuðborgarsvæðinu. Forsendur fyrir þéttingu byggðar og hagkvæmni sem því getur fylgt á ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur. Af hverju má ekki skoðar aðrar leiðir t.d. gamla og góða aðferð sem er að gera trébryggju. Fyrstu bryggjurnar í Skerjafirði voru trébryggjur- bryggjur þar sem staurar voru reknir niður í undirlagið og trédekk sett á þá. Það er framkvæmd sem hefur lítil sem engin áhrif á lífríkið. Landfyllingar eru sums staðar hrein skemmdarverk.

landf. 1

 


Ég spurði um böðun

Óundirbúnum fyrirspurnum Flokks fólksins á fundi borgarstjórnar var beint til borgarstjóra sem framkvæmdarstjóra borgarinnar og varðar þjónustu við eldri borgara sem búa heima.

Spurt er um þjónustuþáttinn "aðstoð við böðun".
Stundum lenda baðdagar á rauðum dögum og fær fólk þá ekki aðstoðina á þeim dögum. Og nú líður að jólum og er hópur eldri borgara farinn að hafa áhyggjur af því að fá ekki aðstoð við böðun fyrir jól.

Hér kemur fyrirspurnin í heild sinni:
Sveitarfélög reka hjúkrunarheimilin. Í umræðunni nú er rætt um þörf fyrir mismunandi útfærslu á "hjúkrunar" –umönnunaraðstæðum Staðfest er að fjöldi hjúkrunarheimila eru í húsnæði sem ekki standast nútímakröfur Eftir plássi er samt löng bið. Þeir eru ófáir sem kvíða að fara á hjúkrunarheimili og fara ekki nema tilneyddir. Það er draumur lang flestra að þurfa ekki að eyða ævikvöldinu á stofnun heldur geta verið heima hjá sér. Til að fólk geti verið heima sem lengst þarf að bæta þjónustuna til muna og bæta við nýjum þjónustuþáttum. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur og lengi á heimili sínu.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs og væru því ekki á ábyrgð velferðarráðs.
Ein af tillögunum var að gera breytingar á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa þá aðstoð. Ýmislegt er ábótavant t.d. að að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi.
 
Nú líður að jólum. Ákveðinn hópur eldri borgara sem búa heima eru orðnir áhyggjufullir þar sem baðdagur þeirra lendir á rauðum degi og óttast þeir að fara inn í jólin án baðs. Á þessu þarf að finna lausn, það eru jú mannréttindi að komast í bað.
Hyggst borgarstjóra beita sér fyrir að finna lausn á þessu ákveðna máli?

Í beinu framhaldi vill ég einnig spyrja borgarstjóra hvort hann muni beita sér fyrir því að bæta þjónustu við eldri borgara sem búa heima og fjölga þjónustuþáttum til að gera þeim mögulegt að búa heima hjá sér sem allra lengst?
Sjá má svör borgarstjóra í borgarstjornibeinni
borg 17.11 2

Tölvunarfræðingar látnir taka poka sinn

Mér heyrðist borgarmeirihlutinn segja að standa ætti vörð um störf á tímum COVID?
En nú hafa fjórum tölvunarfræðingum/kerfisfræðingum verið sagt upp hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Sumir starfsmannanna hafa um 20 ára starfsreynslu. Á sama tíma er greining Capacent um tölvumál borgarinnar merkt sem trúnaðargagn sem gerir fátt annað en vekja upp tortryggni ekki síst þegar fólki er sagt upp störfum. Útvista á verkefnum sem er bæði dýrara og verra þar sem þekking og reynsla tapast úr borgarkerfinu


Leynd á neyðartímum

Á neyðartímum eins og nú ríkir er fátt verra en leynd og að halda upplýsingum frá þeim sem kosnir eru til ábyrgðar. Núverandi Neyðarstjórn hefur haldið yfir 60 fundi án þess að fundargerðir hafi borist minnihlutanum. Tímabært er að endurskoða þessa skipan og skoða trygga aðkomu kjörinna fulltrúa að Neyðarstjórninni. Í þeim tilgangi mun fulltrúi Flokks fólksins leggja fram á næsta fundi borgarstjórnar 17. nóvember tillögu um að fyrirkomulag Neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi Neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum Neyðarstjórnar.

Við vissar aðstæður er kostur að mynda Neyðarstjórn sem hefur þá heimildir til að taka ákvörðun með hraði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt einkum þegar vá er fyrir höndum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að við slíkar aðstæður þurfi þó að tryggja lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfirsýn yfir störf  Neyðarstjórnar svo að þeir geti sinnt eftirlitsskyldum sínum. Ef borgarfulltrúar fá að sitja fundi Neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fá jafnframt aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem Neyðarstjórn byggir ákvarðanatöku sína á þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort Neyðarstjórn starfi eftir lögum og reglum.

Núverandi fyrirkomulag hefur annmarka. Neyðarstjórn var sett á laggirnar með samþykkt borgarráðs 16. ágúst 2018 á grundvelli erindisbréfs þar sem hlutverk hennar var skilgreint. Í skilgreiningu segir m.a.: „Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar. Starfsmaður hópsins ber ábyrgð á fundarboðun, undirbúningi funda, fundarritun og úrvinnslu í samráði við borgarstjóra.“

Eins og staðan er núna er upplýsingaflæði frá Neyðarstjórn svo lítið að erfitt er fyrir minnihlutafulltrúa að meta aðgerðir Neyðarstjórnarinnar og hvort nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir án þess að leggja þær í lýðræðislegan farveg. Ef kjörnir fulltrúar fá aðgang að fundum og gögnum Neyðarstjórnar þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort aðgerðir og ákvarðanir Neyðarstjórnar séu nauðsynlegar eða hvort þær gangi of langt.

Slíkt fyrirkomulag myndi ekki draga úr skilvirkni Neyðarstjórnar, enda myndi áheyrn ekki trufla fundi. Þá þarf ekki að óttast það að trúnaðargögn fari í dreifingu, enda hafa kjörnir fulltrúar þegar aðgang að ýmsum trúnaðargögnum og bera sömu ábyrgð og aðrir við meðferð á trúnaðargögnum.

 


VISSA Í ÓVISSU

Hver átti von á að upplifa þær aðstæður sem nú ríkja, aðstæður þar sem skæð veira skekur heiminn allan? Slíkar aðstæður kalla á æðruleysi og samstöðu. Í æðruleysi felst m.a. að sætta sig við það sem ekki fæst breytt.  Enginn er beinlínis sökudólgur og enginn er óhultur. Veiran er sameiginlegur óvinur og allir, án tillits til samskipta eða sambanda, vináttu eða ágreinings þurfa að berjast gegn vánni. 

 

Þetta tekur vissulega á, annað væri líka sérkennilegt, en við höfum einfaldlega ekkert val. Það er ekki í boði að gefast upp og leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva óteljandi skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka og hörmungum. Vert er að minna á að það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga okkar munum við ná yfirhöndinni. Einnig er vissa um að það komi bóluefni. En þar til þurfum við að aðlagast breyttum venjum, tímabundið.  

 

Á meðal okkar eru hópar sem halda þarf vel utan um. Þeir sem eru veikir, andlega og/eða líkamlega. Annar hópur sem fer stækkandi eru þeir sem hafa misst lífsviðurværi sitt. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, mánaðarlegar tekjur og vera skyndilega komin á atvinnuleysisbætur? Sum börn eru auk þess kvíðin og fylgjast grannt með hvernig foreldrar þeirra eru að bregðast við stöðunni frá degi til dags. Um þessa hópa þarf að halda sérstaklega utan um í gegnum þennan erfiða tíma. 

 

Það er ekki allt alslæmt. Rafrænar lausnir og samskipti á netinu hafa sannarlega bjargað miklu en slíkt kemur  auðvitað aldrei í staðinn fyrir nærveru og snertingu. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki að fullu. Alltaf er hægt að fara í göngu-, hjóla- og hlaupaferðir sem bjargar geðheilsu margra, ekki síst þeirra sem stunda líkamsrækt reglulega. Bjartsýni og ekki síst uppbyggjandi tal hjálpar bæði sjálfum manni og þeim sem standa nærri.


Hér er, eins og við ýmsar aðrar aðstæður, hægt að horfa á glasið sem hálf fullt í staðinn fyrir hálf tómt. Spyrja sig, hvað er það sem ég hef sem er öruggt og gott? Horfa á það sem er TIL frekar en að einblína á það sem VANTAR. Spyrja sig, hvað get ég gert meira í þessum aðstæðum, sem ég má gera samkvæmt sóttvarnarreglum en sem ég hef ekki verið að gera? Kemur mögulega eitthvað gott út úr þessu öllu?

Fyrir langflesta skiptir máli að halda einhverri rútínu þótt innandyra sé, finna leiðir til að skapa og búa eitthvað til. Sumum finnst hjálp í því að skrifa, t.d. skrifa dagbók eða taka til hjá sér, flokka og raða, prjóna, teikna, lita eða hugleiða og slaka á. Fyrir þá sem voru orðnir fullir af streitu og þreytu þegar kófið skall á, er nú lag að nota tímann og hvíla sig, ná þreki að nýju. Ef kólguský halda áfram að hrannast upp þrátt fyrir allt, þá umfram allt að leita aðstoðar.  Að biðja um hjálp er ekki feimnismál og allir geta á einhverjum tímapunkti verið í þeim sporum. Hjálp er fyrir hendi. Það birtir upp um síðir því ekkert ástand varir að eilífu.

 Birt í Fréttablaðinu 10.11. 2020

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.


Hvernig líður börnum að vera með grímu í skólanum?

Nú þegar komin er grímuskylda fyrir ákveðinn aldurshóp barna í grunnskólum lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði í morgun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið standi fyrir könnun á hvernig börn sem nú eru skyldug til að nota grímur í skólanum upplifi það og hver áhrif grímunotkunar er á líðan þeirra og félagsleg samskipti.

Börn fædd 2011 og fyrr þurfa að bera grímu, samkvæmt breytingu á reglugerð um takmörkun á samkomum sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest. Þetta eru gríðarmikil viðbrigði fyrir börn og algjör óvissa ríkir um hversu lengi börnin þurfa að nota grímur, hvort það eru dagar eða vikur, jafnvel mánuðir.
Það er mikilvægt að skóla- og frístundasvið fylgist með áhrifum sem þetta hefur á börnin dagsdaglega, til skemmri og til lengri tíma.

Með því að gera kannanir/rannsóknir fást upplýsingar um hvort áhrif og afleiðingar grímunotkunar barna kalli á sérstakt inngrip sviðsins, framlagningu mótvægisaðgerða eða annað sem mildað gætu neikvæð áhrif grímunotkunar á andlega líðan og félagsleg samskipti. R20110105
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

börn með grímu minni

Hundagjaldið burt

Nú stendur til að öll málefni dýra fari undir einn hatt. Það er löngu tímabært að taka til í þessum málum sem hafa verið í miklum ólestri. Hundaeigendur hafa greitt árum saman hundagjald sem ég kalla nú bara hundaskatt þrátt fyrir að verkefni hundaeftirlitsins hafi bæði breyst og þeim fækkað. Nú liggur á borðinu tillögur um ýmsar breytingar.
Ég á eftir að leggjast yfir þessar tillögur en sé strax að ekki á að fella niður hundaeftirlitsgjaldið heldur í mesta lagi lækka það. Það er ekki ásættanlegt. Ég mun leggja til að hundaeftirlitsgjaldið verði lagt niður en ekki aðeins lækkað. Það er búið að innheimta alveg nóg af hundaeigendum með þessu gjaldi. Ég hef ítrekað verið með tillögur og fyrirspurnir um þessi mál í borgarstjórn og eiginlega bara fengið bágt fyrir hjá heilbrigðisnefnd borgarinnar.

 

Látið fjörur í friði

Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um af hverju þessi meirihluti getur ekki látið fjörur í friði. Það vantar ekki land. Haldið er áfram að troða á kostnað bæði grænna svæða og útivistarsvæða. Einnig á að fylla fjörur í Ártúnshöfða þar sem byggja á 900 íbúðir. Svo mikið fyrir hina “grænu áherslu” meirihlutans!

Grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar. Þetta hljómar vel nema hugmyndin um aukna byggð í Skerjafirði og það á kostnað fjara. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík.
Væri ekki nær að bíða eftir því að flugvöllurinn fari? Í þessu er því mikil þversögn því með þessu græna íbúðarhúsnæðissvæði á að horfa til að íbúar geti notið nábýlis grænna svæða og útivistarsvæða.


Ég spurði um LEAN

Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN hjá Reykjavíkurborg. Í morgun á fundi skipulagsráðs ákvað ég að forvitnast um þau mál.

Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar á umhverfis- og skipulagssviði LEAN aðferðarfræðin er brúkuð og hvað hefur hún kostað fram til þessa.
Hver verður endanlegur kostnaður hennar? 
Óskað er eftir sundurliðun á notkun LEAN (aðferðarfræðinni) innan sviðsins eftir verkefnum.

Einnig er spurt:
Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild? 

Ástæða fyrirspurnanna.
Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að  LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN hentar ekki á öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr og ekki á allra fyrirtækja færi að fjárfesta í.  


Beðið eftir strætó í kulda og trekki

Í borgarstjórn hef ég lagt fram nokkur mál í gegnum tíðina sem lúta að almenningssamgöngum. Ef þeim er ekki vísað frá samstundis hefur þeim stundum verið vísað til stjórnar Strætó bs. til umsagnar. Þar hafa sum þeirra einfaldlega dagað uppi eða strandað á borði stjórnarinnar.
Þetta er afar hvimleitt, ekki síst þegar ekki hefur frést af málinu t.d. í meira en ár. Einnig er þetta slæmt því það er fólk sem bíður eftir viðbrögðum og auðvitað afgreiðslu þessara mála.

Árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að biðsalur Strætó bs. í Mjódd verði opinn eins lengi og vagnar ganga og að betur verði búið að biðsalnum þar sem margir nota hann daglega. Verst af öllu er að hann skuli ekki vera hafður opinn lengur en raun ber vitni. Það skýtur skökku við í allri þeirri umræðu borgarmeirihlutans að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti. Að fólk skuli þurfa að bíða úti eftir strætó í Mjódd eftir kl. 18 er einfaldlega ekki boðlegt hjá þjónustufyrirtæki eins og Strætó bs. Fyrir fjölmarga er það ekki einu sinni val að nota almenningssamgöngur heldur eini möguleikinn sem fólk hefur. Ekki hafa  allir efni á að eiga bíl. Mjóddin er tengistöð margra leiða. Strætó ætti að hafa biðsalinn opinn eins lengi og vagnarnir ganga og bæta aðstöðuna þar fyrir farþega Strætó.

Tillagan var ekki lögð fram að ástæðulausu. Allmargir hafa haft samband og beðið mig um að reyna að ná þessum breytingum fram og hafa nú beðið eftir svörum í eitt ár því ekkert heyrist frá stjórn Strætó bs. Bent hefur verið á hversu erfitt það er að híma úti í alls kyns veðri og vindum, roki og rigningu, snjókomu og myrkri. Nú nýlega fékk ég skeyti frá konu á níræðis aldri og sagðist hún ekki treysta sér til að vera á ferðinni með strætó eftir kl. 17. Hún hafði tvisvar lent í því að hanga í hálftíma, eftir að hafa rétt misst af vagni, í svarta myrkri og kulda. Hún bað mig að reyna að koma vitinu fyrir þá sem hafa með almenningssamgöngur að gera og fá þá til að hafa biðsalinn opinn lengur en hann er harðlæstur á slaginu kl. 18 alla daga. Það hvatti mig til þess að reka á eftir þessu máli og vona ég að þessi pistill hjálpi einnig til við það.

Gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðra

Þetta er ekki eina mál Flokks fólksins sem liggur á borðinu hjá stjórn Strætó bs. án þess að hafa fengið athygli stjórnarinnar. Í febrúar sl. var fulltrúi Flokks fólksins með tillögu um að endurskoða  gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð. Lagt var til að Reykjavík beiti sér fyrir því að árskort fyrir ferðaþjónustu fatlaðra gildi einnig til að ferðast með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Málinu var vísað til stjórnar Strætó bs. þar sem það situr þar enn.

Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó, og því gilda ólíkar verðskrár. Vegna þessa gildir árskort fyrir öryrkja aðeins í strætó en ekki fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem þó er á vegum Strætó bs. Verð fyrir stakar ferðir er það sama en gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra býður ekki uppá magnafslátt fyrir alla, svo sem með því að kaupa kort. Það er að vísu boðið upp á nemakort fyrir fatlaða nemendur í framhalds- og háskólum en það kostar 22.600 kr. á ári fyrir 16-17 ára og 52.900 kr. á ári fyrir eldri einstaklinga. 

Það liggur í augum uppi að það er nauðsynlegt að bjóða upp á árskort. Jafnvel þótt kortið myndi kosta heilar 100.000 kr. þá eru samt yfir 200 einstaklingar sem myndu spara sér pening með því að kaupa það. Það eru því yfir 200 einstaklingar sem greiða meira en 100.000 kr. árlega í akstursþjónustuna og því enn frekar tilefni til að boðið yrði upp á árskort fyrir akstursþjónustu fatlaðra.

En þessi tillaga Flokks fólksins liggur sem sagt enn á borði stjórnar Strætó bs. Í ljósi þess að tillagan um biðskýlið var lögð fram fyrir ári má allt eins vænta þess að umsögn og afgreiðsla á tillögunni um að endurskoða  gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra komi ekki til afgreiðslu fyrir næsta ár. Slíkur er oft hægagangurinn hjá stjórn Strætó bs. og kerfisins alls.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

Grein birt á visi.is 9.10. 2020 

 


Lestur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt fram mál í borgarstjórn þar sem hvatt er til að nota ávallt gagnreynda lestraraðferð og að lögð sé áhersla á að lesskilningur sé þjálfaður frá byrjun enda er lestur og lesskilningur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun.

Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA undanfarin ár þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestribarn að lesa og lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. 

Á fundi borgarráðs í vikunni voru eftirfarandi fyrirspurnir lagðar fram:

Í hversu miklum mæli eru skólar að nota gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri s.s. bókstafa-hljóða-aðferðina sem sérfræðingar eru sammála um að sé sú leið sem hafi gefið bestan árangur?

Eru skólar að huga sérstaklega að þeim börnum þar sem hefðbundnar aðferðir henta ekki, heldur t.d. frekar sjónrænar kennsluaðferðir?

Eru gerðar einstaklingsmiðaðar námsáætlanir um leið og kemur í ljós að barn hefur sérþarfir af einhverjum toga?
Eru fyrir hendi samræmd árangursmarkmið í skólunum um að börn séu orðin læs eftir 2. 
bekk og að áherslan sé á þjálfun lesskilnings?
Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla sem snúa að þjálfun sem eykur lesskilning?

Rannsóknir hafa sýnt að börn innflytjenda eru að koma verr út en í nágrannalöndum.
Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla í Reykjavík til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.


Framkvæmdastjóri sem er diplómatískur og kann að miðla málum

Ég er aðeins að hugsa núna í ljósi þessa nýja fyrirkomulags í sveitarstjórn á Akureyri þar sem tekinn hefur verið upp samstarfssamningur. Ef ég máta þetta við sveitarfélagið Reykjavík þá er borgarstjóri ekki þessi diplómatíski málamiðlari sem hann gæti verið ef hann vildi í stað þess að taka alltaf kerfisbundið stöðu með meirihlutanum. Farsælast væri ef framkvæmdastjóri sveitarfélags væri ráðinn en ekki kjörinn, held ég.

Borgarstjóri tekur ávallt stöðu með meirihlutanum og reynir aldrei að miðla málum, ná sameiginlegri lendingu með minnihlutanum. Það myndi auðvitað breyta öllu ef framkvæmdastjórinn legði áherslu á að ná sameiginlegri lendingu í málum. Auðvitað gæti framkvæmdastjórinn, þótt hann sé kjörinn vel beitt sér þannig, t.d. gefið sjónarmiðum minnihlutans meiri gaum. Í rauninni er það í höndum framkvæmdastjórans, kjörins eða ráðins hvernig samstarfi er háttað og hvort menning og andrúmsloftið sé gott og heilbrigt í borgar/sveitarstjórninni. Það er í hans valdi hvort hann vill halda utan um sveitarstjórnina þannig að fulltrúar fá aðkomu að ákvörðunum og þar með taki ábyrgð. Og það er í hans höndum með hvaða hætti samstarfinu er háttað til að það skili sem mestum árangri fyrir fólkið í sveitarfélaginu. Í Reykjavík er minnihlutinn áhrifalaus og getur aðeins tjáð sig í gegnum bókanir og í ræðum á fundi borgarstjórnar. Málum sínum koma þeir fram með tillögum sem framkvæmdarstjóri/borgarstjóri hafnar nánast alltaf. Minnihlutinn veitir vissulega aðhald og hefur eftirlit eins og honum ber að gera og gerir það í gegnum eina tækið sem hann hefur, bókanir.

En þetta gæti verið svo mikið mikið betra ef við hefðum framkvæmdastjóra sem væri diplómatískur og fær stjórnandi.

 


Borgarstjórnarsalinn á ekki að nota til að fá útrás fyrir persónulega heift

Þessi uppákoma í gær í borgarstjórn var með ólíkindum, ég missti andlitið og að horfa upp á heiftina, hjálpi mér. Ég var komin að fremsta hlunn með að bjóða borgarfulltrúa Pírata að finna fyrir hana góðan sálfræðing. Það hlýtur að búa mikið undir þegar hvert tækifæri innan sem utan borgarstjórnar er notað til að hatast út í annan einstakling með þessum hætti. Sama gerðist reyndar í Silfrinu þar sem Sigurborg gat ekki á sér setið. Er þetta ekki komið út í meiðyrði? Alla vega á þetta ekki heima í borgarstjórn svo mikið er víst og gildir engu um hverja ræðir. Við vorum kosin til að gæta hagsmuna borgarbúa, það er okkar hlutverk í borgarstjórn. Held bara að borgarstjóra hafi verð skemmt, svei mér þá, var alla vega mín upplifun. Hann beitti sér í það minnsta ekki neitt til að stoppa þennan vitleysisgang sem meirihlutinn kallar yfir sig.

 


Fögur fyrirheit en minna um efndir

Borgarstjórnarfundur er í fullum gangi og nýlega lauk umræðu um stöðu barna í Reykjavík. Farið var vítt og breytt. Ég hef f.h. Flokks fólksins lagt fram ótal tillögur sem flestar hafa farið í tætarann hjá meirihlutanum. Í þessari bókun reyndi ég að taka saman helstu þætti sem bara verður að laga.

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi.

Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu til talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn


Ekki öll börn komast að borðinu

Samkvæmt tölum Hagstofunnar 2020 eru 28-35 þúsund manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátæk, þar af allt að 10 þúsund börn undir 16 ára aldri. Stærsti hlutinn eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna. Fátækir foreldrar hafa oft ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neita börnum sínum um þátttöku í skólatengdum félagsviðburðum. 

Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna sem ýmist eru til þess fallnar að bæta aðstæður barna í skólatengdu umhverfi, bæta og flýta þjónustu ætlaða börnum eða stuðla að börn sitji við sama borð án tillits til m.a. efnahagsstöðu foreldra.  

Enda þótt börn í Reykjavík hafi það almennt gott og líður vel bæði á heimilum sínum, í skóla, frístund og tómstundum er það margt sem betur má fara í þjónustu við börn og foreldra þeirra. Í borgarstjórn 15. september flyt ég fyrir hönd Flokks fólksins.
Hún hljóðar svona:

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. 

Hér er verið að vísa til afþreyingu utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög.Eina leiðin til að tryggja að öllum börnum sé boðið að borðinu, njóti sem sagt jafnræðis án tillits til aðstæðna eða nokkurs annars er að grípa til sértækra aðgerða eins og að tekjutengja gjöld. Ef lækkanir og afslættir ganga sífellt jafnt yfir alla þá verður aldrei neinn jöfnuður. Foreldrar sem eru vel settir fjárhagslega vilja gjarnan borga vel fyrir veitta þjónustu.

Hinn 11. apríl lagði Flokkur fólksins til í borgarráði að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum.
Tillögunni var vísað til Velferðarráðs. Þar var henni vísað frá. 

Það var miður miður og hljómar illa þegar tillaga eins og þessari er fleygt út af borðinu eins og hún sé ekki þess verð að fá nánari skoðun. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið aftur til að höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum þar með tekjutengingaraðferðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks.

Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður hefur étið upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. 




« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband