Er gáttuð á ráðningu í starf umboðsmanns skuldara
23.7.2010 | 18:21
Öryggið á oddinn. Er smokkurinn of dýr?
20.7.2010 | 19:15
Að smokkurinn sé of dýr og að það sé ástæða aukinna tilfella m.a. Lekanda?
Þessa skýringu kaupi ég ekki. Í fréttum var fjallað um lokaverkefni tveggja sálfræðinema og var þetta m.a. ein af skýringum þeirra fyrir aukinni tíðni lekanda og annarra kynsjúkdóma.
Tveir smokkar kosta 500 krónur og 12 smokkar kosta 2000 krónur.
Ég held að ástæða þess að ungmenni noti ekki smokkinn í meiri mæli sé fyrst og fremst að þeim þykir það hallærislegt. Þetta er feimnismál. Það er ólíklegt að helsta ástæðan sé sú að þeir hafi ekki ráð á að kaupa smokka.
Ástæður fyrir því af hverju svo margir eru enn reiðir og pirraðir
15.7.2010 | 08:12
Því er ekki að leyna að það er pirringur og reiði í samfélaginu sem tengist með einum eða öðrum hætti hruninu og afleiðingum þess. Einhverjir kunna að furða sig á því hve reiðin er enn djúpstæð og virðist ætla að endast lengi. Í ljósi þess hversu mikið áfall dundi yfir þjóðina á haustdögum 2008 er hins vegar ekki að undra að fólk skuli enn vera tilfinningalega sundurtætt. Þannig mun það án efa verða um sinn eða í það minnsta þar til sérstökum saksóknara hefur tekist að grynnka á málafjöldanum á hans borði. Fólk verður ekki sátt fyrr en fundnar hafa verið ásættanlegar lausnir á allra erfiðustu skuldamálum sem til var stofnað á góðæristímanum. Meira um þetta hér
Mótmæli síðastliðna daga endurspegla ekki reiðina í þjóðfélaginu
7.7.2010 | 10:19
Stöðugt er verið að vísa í almenningur þetta og almenningur hitt eins og allur almenningur sé einn einstaklingur. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í umræðunni um gengistryggðu lánin eftir dóm Hæstaréttar og viðbragða Seðlabanka og FME í því sambandi.
Það er kannski rétt að minna á að það tóku ekki allir gengistryggð bílalán. Það eru ekki heldur allir með lán á bakinu. Það eru til einstaklingar og fjölskyldur sem hafa einmitt forðast eins og heitan eldinn að taka lán yfir höfuð. Þeir hafa heldur viljað vera án hluta eða látið sig vanta þá frekar en taka fyrir þeim lán. Þetta er fólkið sem jafnvel hefur unnið myrkrana á milli og lagt fyrir til að geta síðan síðar veitt sér einhvern munað. Það er ekki óeðlilegt að þessi hópur sé einnig reiður enda kemur það í hlut þeirra sem skattgreiðenda að borga brúsann þegar upp er staðið.
Það eru margir reiðir hópar í samfélaginu nú en þeir eru ekki allir reiðir yfir sama hlutnum.
Aflífa eðluna, af hverju?
23.6.2010 | 22:16
Stundum séð sem hrein og einskær öfund
22.6.2010 | 20:19
Fetaði i fótspor stóru systur.
Það er eðlilegt og mjög algengt að yngri systkinum langi til að taka eldri systkini sín til fyrirmyndar og fylgja í fótspor þeirra. Dæmi eru þó um að eldri systkini telji að yngri systkini "hermi" eftir þeim af einskærri öfund og að það sé þess vegna sem þau vilji gera eins og þau.
Fischer verður grafinn upp
16.6.2010 | 19:11
Bara að svara spurningu Björns Vals
10.6.2010 | 19:11
Sigurður Kári þarf bara að svara Birni Vali betur. Ekki nóg að segja bara að hann hafi engin tengsl.
Krafa fólksins er að upp á borð komi ítarleg svör sérstaklega um þessi viðkvæmu mál.
Það á ætíð að vera leyfilegt að spyrja spurninga. Maður bara verður að svara á heiðarlegan og einlægan hátt og það getur Sigurður Kári vel gert. Ég treysti honum alla vega vel til þess.
Þetta er eina leiðin til að eyða allri tortryggni.
Ósætti í leikskóla ratar í blöðin
9.6.2010 | 19:47
Ég hef verið afar hugsi yfir bls. 8 í DV í dag. Uppreisn gegn leikskólastjóra. Er að velta fyrir mér hvað sé þarna í gangi. Þarna er hópur að kvarta yfir leikskólastjóra, hópurinn leitar í fjölmiðla af því að leikskólasviðsstjóri borgarinnar virðist ekki hafa svarað bréfum frá kvörtunarhópnum.
Allir eru nafngreindir. Þær sem kvarta stilla sér upp á mynd, fjórar á móti einum. Leikskólastjórinn vill ekki tjá sig, enda spyr maður, á að gera út um svona mál í dagblaði?
Tek það fram að ég þekki ekki málavöxtu en svona mál á ekki erindi í dagblað að mínu viti. Þarna reynir á stjórnsýsluna sem þarf að ræða við báða aðila og klára málið fljótt. Það er fullt að fólki, fagfólki og fólki með reynslu sem er til í að aðstoða í svona máli ef skortir á færni embættismanna að gera það.
Hækka gjaldskrár og kaupa Benza.
9.6.2010 | 08:49
Hækka gjaldskrár og kaupa Benza.
Eru Reykvíkingar sáttir við þetta?
Hjörleifur Kvaran virðist ekki vera allur þar sem hann er séður. Ég botna alla vega ekkert í þessum stjórnunarháttum hans.
Hversu margir toppar hjá Orkuveitunni skyldu nú vera með svona grand bílasamninga?
Er ekki kominn tími til að þeim verði rift?
Er ekki kominn tími til að þeir sem steypt hafa þessu annars góða fyrirtæki í skuldir taki pokann sinn og aðrir hæfari komi inn í staðinn?
Nú er að sjá hvað Jón Gnarr gerir í málinu.
Allir 15 borgarfulltrúar vinni saman
30.5.2010 | 15:35
Burt með þolandann
21.5.2010 | 16:35
Er ekki bara best að þú hættir störfum?
Þolendur og gerendur eineltis fyrirfinnast á flestum aldursskeiðum. Sjónum hefur hvað mest verið beint að einelti barna en e.t.v. minna að einelti meðal fullorðinna. Einelti meðal fullorðinna er síður en svo einskorðað við vinnustaði.
Meira um einelti á vinnustað, þolandann, gerandann og stjórnandann.
Klíniskir sálfræðingar, hvað gera þeir og hverjir eru þeir?
20.5.2010 | 15:19

Nýlega var opnuð heimasíða Félags sérfræðinga í klínískri sálfræði www.klinisk.is
Á heimasíðunni gefst almenningi kostur á að kynna sér faglegt starfssvið klínískra sálfræðinga þar sem fram kemur fyrir hvað sérgreinin stendur. Gefnar eru upplýsingar um menntun og starfssvið, netföng ásamt myndum af félagsmönnum.
Einnig hefur verið gefinn út upplýsingabæklingur félagsins sem hægt er að nálgast á heimasíðunni og á ýmsum heilsugæslu og læknastöðvum.
Félag sérfræðinga í klíniskri sálfræði (FSKS) hefur verið starfandi frá árinu 1994 og hefur m.a. staðið fyrir ýmis konar fræðslu bæði fyrir fagfólk og almenning.
Formaður Félags sérfræðinga í klínískri sálfræði er Álfheiður Steindórsdóttir.
Ég var ekki sá eini, það gerðu þetta allir!
14.5.2010 | 19:45
Svona var þetta bara, þetta var umhverfið sem við lifðum í.
Því fleiri sem hinn grunaði getur bent á og sagt hann gerði þetta líka eða það gerðu þetta allir því auðveldara reynist honum að réttlæta hegðun sína fyrir sjálfum sér. Hvort honum tekst að réttlæta hana fyrir umheiminum gegnir hins vegar öðru máli. Þó eru alltaf einhverjir sem samþykkja réttlætingu sem þessa.
Hugsanlega eru það einkum einstaklingar sem hafa sjálfir staðið frammi fyrir svipaðri freistingu eða hafa nú þegar óhreint mjöl í pokahorninu. Einnig grípa aðstandendur oft til réttlætingar af þessu tagi í þeim tilgangi að líða betur við erfiðar aðstæður.
Meira um réttlætingu og siðblindu hér.
Ég samhryggist þér
13.5.2010 | 12:09
Að vera viðstaddur jarðarför, erfisdrykkju og hitta syrgjendur í eigin persónu skapar mörgum kvíða. Ástæðan er m.a. sú að fólk veit ekki alltaf hvað það á að segja og óttast jafnvel að missa eitthvað klaufalegt út úr sér. Íslensk tunga er að mínu mati óþjál þegar kemur að því að velja orð og setningar undir þessum viðkvæmu kringumstæðum.
Dáleiðsla sem meðferðartækni. Síðasti þáttur Í nærveru sálar.
1.5.2010 | 19:32

Dáleiðsla er ekkert nýtt fyrirbæri. Dáleiðsla hefur verið notuð áratugum saman í margs konar tilgangi og við ólíkar aðstæður víða um heim. Dáleiðsla er vinsælt umfjöllunarefni og er oft notuð í sögubókum, í bíómyndum og á leiksviði.
Ýmsar skilgreiningar eru til á dáleiðslu. Eftirfarandi skilgreining er birt á Vísindavefnum:
Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitni fólks í námi eða íþróttum.
Dáleiðsla er í hugum margra umvafin leyndardómi eins og svo oft er þegar um undirmeðvitundina er að ræða. Undirmeðvitundina er erfitt að rannsaka enda hvorki hægt að snerta hana né mæla. Við vitum þó að þarna er botnlaus brunnur minninga, drauma, óska og væntinga sem skjóta upp kollinum í vöku sem draumi og í dáleiðsluástandi. Þrátt fyrir að mun meira sé vitað um þetta flókna svið nú en t.d. fyrir fimmtíu árum þá er undirmeðvitundin enn og verður e.t.v. alltaf ráðgáta.
Dáleiðsla sem meðferðartækni er viðurkennd aðferð sem margir kjósa að reyna, til að ná betri líðan, fá lækningu við sjúkdómum, til að stöðva skaðlega hegðun eða tileinka sér og ástunda nýtt atferli sem það telur að leiði til góðs fyrir andlega og líkamlega heilsu.
Dáleiðslufélag Íslands er félagsskapur fagaðila sem hafa aflað sér tilheyrandi þekkingar á þessu sviði og öðlast grunnþjálfun til að stunda dáleiðslu. Formaðurinn Hörður Þorgilsson, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði ræðir um dáleiðslu sem meðferðartækni í Í nærveru sálar hinn 3. maí á ÍNN. Þetta er 76. þátturinn og jafnframt sá síðasti en Í nærveru sálar hefur nú, í hartnær, tvö ár verið fastur dagskrárliður á ÍNN. Hann mun upplýsa um sögu dáleiðslunnar, upphafið hér á Íslandi og tilkomu félagsins.
Hvernig er dáleiðsluferlið? Hvernig eru ákjósanlegustu aðstæður til dáleiðslu? Hversu langan tíma tekur einn dáleiðslutími? Hvað þarf að útskýra fyrir dáþeganum?
Grundvöllur þess að dáleiðslutæknin geti virkað er að gagnkvæmt traust ríki milli dáleiðara og dáþega. Dáleiðslan sjálf byggist ekki hvað síst á einstaklingnum sjálfum og hvort hann sé nægjanlega sefnæmur.
Um dáleiðslu hefur oft gætt nokkurs misskilnings í hugum fólks. Margir telja t.a.m. að hinn dáleiddi missi meðvitund eða að hann komi ekki til með að muna neitt af því sem fram fór á meðan hann var í dáleiðsluástandinu. En þannig er því einmitt ekki farið. Einnig er trú margra að hægt sé að festast í ástandinu og að dáleiðarinn geti fengið hinn dáleidda til að gera eitt og annað sem hann myndi t.d. aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum.
Meira um þetta í lokaþætti Í nærveru sálar 3. maí á ÍNN kl. 21.30.
Hvað fá börnin að borða í grunnskólum Reykjavíkur?
29.4.2010 | 13:27
Mataræði í reykvískum grunnskólum
25.4.2010 | 08:34

Stórt skref var stigið þegar ákveðið var að skólabörn skyldu fá heitan mat í skólum. Þessi breyting varð ekki á einni nóttu. Fyrir u.þ.b. 35 árum var í mesta lagi hægt að kaupa snúð og mjólk í gagnfræðaskólum borgarinnar. Eins og staðan er í dag er börnum boðið upp á heitan mat í flestum ef ekki öllum skólum í Reykjavík.
Fyrirkomulag skólaeldhúsa er mjög breytilegt. Í sumum skólum eru foreldrar og börn mjög ánægð með þann mat sem boðið er upp á, matreiðslu hans og skipulag almennt séð. Í öðrum skólum er minni ánægja og í enn öðrum er einfaldlega veruleg óánægja.
Hvernig stendur á þessum mikla breytileika? Í sumum tilvikum er maturinn að mestu ef ekki öllu leyti aðkeyptur en í öðrum tilvikum er hann matreiddur í skólanum að öllu leyti eða a.m.k. að hluta til. Sumir skólar bjóða börnunum upp á unnar matvörur en aðrir skólar leggja áherslu á ferskt hráefni og að það sé matreitt í skólanum.
Hvernig svo sem þessum málum er háttað í einstaka skólum geta allir verið sammála um mikilvægi þess að börnin borði hollan og staðgóðan mat enda skiptir það sköpum fyrir vellíðan þeirra, vöxt og þroska.
Mataræði í reykvískum grunnskólum er viðfangsefni þáttarins Í nærveru sálar mánudaginn 26. apríl. Við undirbúning þáttarins var haft samband við formann Menntasviðs. Hann kvaðst fagna þessari umræðu enda hafði Menntaráð nýlega haft málið á dagskrá og í kjölfarið samþykkt svohljóðandi tillögu:
Menntaráð felur fræðslustjóra að gera úttekt á samsetningu máltíða sem í boði eru fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkurborgar með tilliti til þeirra markmiða um hollustu matar sem fram koma í gæðahandbók Mennta- og Leikskólasviðs.
Sett hefur verið á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að vinna í matarmálum fyrir bæði skólastigin, leik- og grunnskóla.
Í Í nærveru sálar munu þrír einstaklingar tjá sig um þetta mál. Það eru þau:
Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Hann á einnig sæti í hinni nýskipuðu nefnd.
Sigurveig Káradóttir, matreiðslumaður og foreldri barns í grunnskóla og
Þröstur Harðarson, matsveinn í Hagaskóla.
Atriði sem komið verður inn á:
Af hverju er þetta svona misjafnt milli skóla?
Hver hefur ákvörðunarvald um hvernig þessu skuli háttað?
Komið verður inn á atriði eins og fjármagn sem veitt er til skólanna, samninga/reglugerðir um skólaeldhús, mikilvægi þess að matreiðslufólk skóla hafi ríkt hugmyndaflug, útsjónarsemi og þar til gerða hæfni og færni til að sinna þessu mikilvæga starfi.
Hvernig er samspil embættiskerfisins og skólastjórnenda þegar kemur að því að ákveða útgjöld, ráðningar í störfin og ákvörðun um hvers lags matur (hráefni og matreiðsla) skuli vera í viðkomandi skóla?
Ef tekið er mark á óánægjuröddum sem heyrst hafa er ljóst að ekki sitja öll börn í grunnskólum borgarinnar við sama borð í þessum efnum. Unnar matvörur eru oftar á borðum sumra skóla en annarra. Þegar talað er um unnar matvörur er sem dæmi átt við reyktar og saltaðar matvörur, svo sem pylsur og bjúgu. Einnig matvörur úr dósum, pökkum eða annar samþjappaður matur sem oft er búið að bæta í ýmsum rotvarnarefnum.
Eins má spyrja hvernig þessum málum er háttað á kennarastofunum. Er til dæmis sami maturinn í boði fyrir börnin og kennarana?
Hagræðing og skipulag hlýtur að skipta sköpum ef bjóða á upp á hollan, góðan og jafnframt ódýran mat. Hafa matreiðslufólk skólaeldhúsa almennt tækifæri til að fylgjast með fjárhagsáætlun og hvernig hún stendur hverju sinni svo þau geti hagað innkaupum og aðlagað skipulag samkvæmt því.
Ef horft er til þess að samræma mataræði í skólum kann einhver að spyrja hvort ekki sé þá betra að skipulag skólaeldhúsa væri í höndum annarra en skólastjórnenda?
Eins og sjá má er málið ekki einfalt. Spurt er:
Hverjar verða helstu áherslur þeirrar nefndar sem nú skoðar málið og mun hún leita eftir samstarfi og samvinnu við foreldra?
Að heyra barnið sitt vaxa
17.4.2010 | 19:19
Hversu sjálfgefið finnst manni ekki að geta séð og heyrt, já og hafa öll helstu skynfæri virk. En auðvitað er það ekkert sjálfgefið. Það veit sá best sem er ekki með sjón eða heyrn.
Ungur faðir, Bergvin Oddsson, sem hefur verið blindur frá 15 ára aldri lýsir í nýútkominni bók sinni hvernig honum leið þegar í ljós kom að hann og unnusta hans ættu von á barni. Í fögnuðinum og eftirvæntingunni fólst einnig kvíði, kvíði fyrir því að geta ekki, vegna blindunnar, annast barnið sitt á þeim sviðum þar sem máli skiptir að hafa sjón.
Að heyra barnið sitt vaxa er titill bókarinnar. Sonurinn Oddur Bjarni er nú rúmlega ársgamall. Í bókinni má jafnframt finna hagkvæmar leiðbeiningar sem varða undirbúning komu barns í fjölskyldu og ýmsar ráðleggingar sem snúa að uppeldi og uppeldisfræðum.
Félag langveikra ungmenna á Akureyri gefa bókina út og mun allur ágóði renna til Félagsins. Í þessari afar persónulegu bók Bergvins leiðir hann lesendur inn í heim blindunnar. Bókin er bæði með háalvarlegu ívafi en bregður auk þess upp kómískum myndum af hvernig Bergvini hefur tekist að mæta þeim vandamálum sem blindra foreldra bíður öllu jafnan.
Meðal þess sem Bergvin ræðir um er hvernig fötlun hans kom til og hvernig honum gekk að aðlagast þegar ljóst var að hann fengi aldrei sjónina aftur. Bergvin lýsir á einlægan hátt óttablöndnum hugsunum sínum þegar hann velti fyrir sér hvernig honum myndi ganga að annast barnið sitt eins og t.d. að skipta á bleyju. Ógnvænlegasta hugsunin var þó sú að honum tækist ekki að gæta barnsins sín nægjanlega vel utandyra ef sá litli tæki sem dæmi upp á því að hlaupa frá honum.
Blindir foreldrar og samfélagið
Bergvin hefur lent í ýmsu þegar hann er á ferð með Odd Bjarna. Hann hefur oft upplifað höfnun og fundið að margir eiga það til að vanmeta blint fólk. Bergvin bendir á að blindir hafa iðulega þróað með sér sterkt lyktarskyn, heyrn, næmni og innsæi sem vegur upp á móti blindunni. Eins hefur blint fólk þurft að leggja sérstaka áherslu á að skipuleggja sig, sýna fyrirhyggju og vera helst alltaf skrefi á undan í huganum til að geta verið viðbúið hindrunum sem kunna að verða á vegi þeirra. Bergvin segir frá einum erfiðasta degi lífs síns sem tengist samskiptum hans við flugáhöfn í einni af ferðum hans með Odd Bjarna til Reykjavíkur. Við ákveðnar aðstæður hefur Bergvin þannig orðið að sýna sérstakleg fram á að hann geti, þrátt fyrir blindu, gætt öryggis barns síns komi eitthvað upp á.
Fylgist með viðtalinu við þennan hugrakka, jákvæða föður sem segir frá lífi sínu og tilveru Í nærveru sálar mánudaginn 19. apríl.
Bókina AÐ HEYRA BARNIÐ SITT VAXA er hægt að fá í öllum Hagkaupsverslunum að undaskilinni Hagkaup á Seltjarnarnesi.