Hvernig taka íslensk lög á einelti? Þátturinn kominn á netið

naerverusalar149_981910.jpgÞáttinn má sjá hér.

Mánudaginn 19. apríl verður gestur Í nærveru sálar Bergvin Oddsson.
Bergvin er blindur og lýsir upplifun sinni: tilhlökkun og kvíða sem tengist því að vera blint foreldri.  Hann hefur nú skrifað bók sem heitir Að heyra barnið sitt vaxa. Bókin kemur út í dag.


Umfjöllun um einelti í íslenskum lögum

naerverusalar149_980461.jpg

Hvað er sagt og hvað er ekki sagt um einelti í íslenskum lögum?

Þrátt fyrir að heilmikil vitundarvakning hafi orðið á skilningi landsmanna á einelti og alvarlegum afleiðingum þess,  eru enn að koma upp afar ljót eineltismál bæði í skólum og á vinnustöðum. Sum þessara mála fá að vaxa og dafna og hægfara leggja líf þolandans í rúst. Umræðan undanfarin misseri hefur verið mikil og farið fram jafnt í sjónvarpi, útvarpi og í dagblöðum. Rætt er um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig skuli bregðast við komi upp mál af þessu tagi: hverjir eiga að ganga í málin og hvers lags ferli/áætlanir eru árangursríkastar?

Einn angi af umræðunni undanfarið misseri er hugmyndin um hina svokölluðu Sérsveit í eineltismálum. Þessi pæling er afrakstur vinnu lítils kjarnahóps sem berst gegn einelti á öllum stigum mannlegrar tilveru. Hugmyndin gengur út á að fái foreldri ekki úrlausn í eineltismáli barns síns geti þeir leitað til fagteymis á vegum stjórnvalda sem biði viðkomandi skólayfirvöldum  aðstoð við lausn málsins. Að sama skapi gæti fullorðinn einstaklingur sem telur sig hafa mátt þola einelti á vinnustað og sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála hjá vinnuveitanda,  leitað að sama skapi til teymisins. Hugmyndin hefur verið kynnt hópi ráðherra og ráðamanna víða um landið.

Það sem stendur í íslenskum lögum í þessu sambandi skiptir gríðarmiklu máli. Lög og reglugerðir hafa það hlutverk og markmið að vera jafnt  leiðbeinandi sem upplýsandi fyrir fólkið í landinu eins og t.d. hvar mörkin liggja í almennum samskiptum.

Til að ræða þetta koma saman Í nærveru sálar mánudaginn 12. apríl Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar  Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Ragna Árnadóttir, ráðherra dómsmála og mannréttinda og Gunnar Diego, annar af tveimur framleiðendum heimildarmyndar um einelti. Gunnar er einnig þolandi langvinns eineltis í grunnskóla.  Umræðan er afar krefjandi og ótrúlega flókin þrátt fyrir að flestir séu sammála um hvaða breytingar væru æskilegar og að mikilvægt sé að setja eitthvað neyðarúrræði fyrir þolendur fái þeir ekki lausn mála sinna í skóla eða á vinnustað.

Hvorki virðist skorta vilja né skilning hjá ráðamönnum um mikilvægi þess að liðka fyrir vinnslu þessara erfiðu mála og að tryggja að enginn eigi að þurfa að búa við að vera lagður í einelti mánuðum eða árum saman án þess að gripið sé til lausnaraðgerða.

 Meðal þess sem spurt verður um og rætt er:
- Hefur eineltismál  vegna barns einhvern tímann farið í gegnum dómstóla þar sem því er lokið með dómi?

-Hver er helsta aðkoma barnaverndar í þessum málum?

-Dæmi: ef foreldrar vilja ekki senda barn sitt í skólann vegna þess að það er lagt í einelti af skólafélögum sínum gætu foreldrar átt það á hættu að málið verði tilkynnt til viðkomandi barnaverndarnefndar þar sem að barnið er skólaskylt.

-Hvað í lögunum verndar unga þolendur eineltis?

-Hver er ábyrgð foreldra þeirra barna sem eru gerendur?

-Hver er ábyrgð skólans?

-Ætti að gera einelti refsivert eins og hvern annan glæp? 

Hafa skal í huga í þessu sambandi að barn er ekki sakhæft fyrr en 15 ára.  Oftast eru gerendur sjálfir í mikilli vanlíðan, þeir hafa stundum áður verið þolendur. Mjög algengt er að gerendur eineltis séu sjálfir með brotna sjálfsmynd, stríði við námsörðugleika eða eiga við aðra félagslega og tilfinningalega erfiðleika að stríða. Oft hefur einnig komið í ljós að erfiðleikar eru á heimili barna sem leiðast út í að vera gerendur eineltis.

Skólinn reynir oftast að gera sitt besta til að vinna úr þessum erfiðu málum. Staðreyndin er þó sú að þeir (starfsmenn og fagfólk skólans) eru eins og gengur,  mishæf til að takast á við erfið og þung mál af þessu tagi.
Hvernig má styðja við bakið á þeim skólum sem eru ráðþrota og vilja skólar yfir höfuð fá utanaðkomandi aðstoð?

Fullorðnir þolendur eineltis

Fullorðinn þolandi eineltis t.a.m. á vinnustað á í raun í fá skjól að venda ef yfirmaður ákveður að gera ekkert í málinu. Margir ábyrgir og góðir stjórnendur fá utanaðkomandi faglega aðstoð í þessu sambandi og hefur það oftar en ekki gefið góða raun. Fjölmörg dæmi virðast þó vera um að yfirmaður grípi til þeirrar óábyrgu leiðar að láta þolandann taka pokann sinn og yfirgefa vinnustaðinn. Þá telja sumir stjórnendur að vandamálið sé úr sögunni. Enda þótt fullorðinn þolandi eineltis á vinnustað geti leitað til Vinnueftirlitsins og Jafnréttisstofu er þjónusta þessara stofnanna takmörkuð. Hvorug tekur á einstaklings- eineltismálum. Stéttarfélögin eru heldur ekki nægjanlega góður kostur því lögfræðingar þeirra sitja öllu jöfnu beggja vegna borðs og geta því ekki þjónustað þolandann sem skyldi. Þolandi eineltis á vinnustað sem yfirmaður ákveður að hafna á því fáa aðra möguleika en að fara dómsstólaleiðina sé hann staðráðinn í að fá úrlausn mála sinna á sanngjarnan og faglegan máta. Sú leið er eins og allir vita bæði afar tyrfin og kostnaðarsöm.

 

Frekari vangaveltur sem fram koma í þættinum Í nærveru sálar 12. apríl eru:

Hvað snýr beint að ráðherra dómsmála og mannréttinda?

Hvernig á að bregðast við til skamms/langs tíma?

Er hægt að gera einhverjar ráðstafanir fljótt?

Hvað er raunhæft og óraunhæft að setja í lögin?

Hvaða viðbætur er hægt að koma með strax sem kynnu að stuðla að því að mál af þessu tagi verði viðráðanlegra, auðveldara og hraðara í vinnslu?

Er þetta eins flókið og sumir vilja vera láta?

Af hverju hafa ráðuneyti þessara mála ekki getað sameinast um lausnir og unnið saman þrátt fyrir ítrekaða beiðni?

 

Fylgist með, mánudaginn 12. apríl á ÍNN.


Afreksbörn í íþróttum

naerverusalara_afresks145.jpgEnginn efast um jákvætt gildi íþróttaiðkunar barna og unglinga.

Íþróttaiðkun hefur uppeldisfræðilegt gildi sem styrkir sjálfsmyndina, sjálfsöryggi og felur í sér fræðslu og þjálfun í félagslegum samskiptum. Íþróttaiðkun að staðaldri er talin vera ein sú allra mikilvægasta forvörn gegn ytri vá.

Það að vera afreksbarn í einhverri íþróttagrein er eins og gefur að skilja stórkostlegt fyrir barnið sjálft og foreldra þess sem eðlilega eru fullir af stolti fyrir hönd barns síns. Væntingar barnanna sjálfra eru einnig oft miklar og stundum svo miklar að þær eru óraunhæfar.

En eins og á öðru eru á þessu tvær hliðar. Að vera í hópi barna sem flokkast sem afreksíþróttafólk krefst mikillar vinnu, skipulagningar og úthalds ef viðkomandi einstaklingur á að geta stundað æfingarnar samhliða öðru.

Fyrir ómótaðan einstakling getur þetta verið erfitt, jafnvel ofraun. Oftar en ekki þarf margt annað að sitja á hakanum svo sem skólinn, félagarnir og aðrar tómstundir. Sum börn ráða mjög vel við þessar kringumstæður sérstaklega ef námið liggur vel fyrir þeim og ef þau er vel skipulögð og eiga auk þess góðan stuðning fjölskyldu sinnar.

En þannig er því ekki farið hjá öllum börnum.  Sumum börnum reynist þetta býsna erfitt og í stað þess að geta notið hæfileika sinna á sviði íþrótta upplifa þau sem álag og streitu.

Um þetta ætlar Jón Páll Pálmarsson, fótboltaþjálfari ræða Í nærveru sálar á ÍNN hinn 29. mars.  Þá mun hann mun upplýsa áhorfendur m.a. um Afreksskóla FH í Hafnarfirði og afreksbraut Flensborgarskólans. Sá fyrrnefndi hefur verið við líði í 5 ár og inn í hann eru börnin sérvalin.

Segja má að hér á landi sé áhersla á afreksíþróttir tiltölulega nýleg. Frammistaða íslenskra íþróttaafreksmanna á alþjóðakeppnismótum hefur verið glæsileg. Skemmst er að minnast á frammistöðu  íslenska handboltaliðsins á Ólympíuleikum í Peking og í EM nú nýlega. Til að ferlið megi haldast glæst er mikilvægt að hlúa vel að íslenskum afreksíþróttamönnum. Þeir eru fyrirmynd nýliðanna. Gott gengi íslensks íþróttafólks skiptir máli fyrir útbreiðslu íþrótta, til að  skapa breidd í liðum og einstaklingsíþróttum og vekja áhuga ungmenna á iðkun íþrótta almennt séð svo ekki sé minnst á að laða að sjálfboðaliða til að sinna íþróttastarfinu. Afreksíþróttamenn og konur eru fyrirmyndir sem hvetja aðra til að leggja sig fram um að ná hámarksárangri. Við unnin afrek vex sjálfstraust og framtakssemi einstaklinga, hópa og jafnvel heillar þjóðar.

En það geta ekki allir orðið afreksmenn hvorki í íþróttum né á öðrum sviðum. Þau sjónarmið hafa heyrst að afreksíþróttamönnum sé e.t.v. of mikið hampað á kostnað annarra sem vilja stunda íþróttir en eru ekki endilega efniviður í afreksíþróttafólk.  Í raun er aðeins lítil prósenta barna sem nær því marki að komast á þann stað að þau teljist til afreksfólks í þeim skilningi sem hér um ræðir.


Þörfin að vita framtíð sína

Þátturinn um hverjir og af hverju fólk leitar til spákonu og hverjir eru það sem starfa við að spá fyrir fólki. Smella hér.

Spákonur, spámiðlar og fólk sem leitar til þeirra

naerverusalarspa1kro42.jpgÞörfin að vilja vita hvað framtíðin ber í skauti sér blundar í brjósti fjölmargra. Af hverju vill fólk fá að vita hvað verður eða verður ekki?

Við þessu er ekkert eitt svar. Ekki er ósennilegt að ástæðan sé m.a. sú að fólk vill vera undir eitt og annað búið sem kann að bíða þeirra handan við hornið. Sumir eru e.t.v. kvíðnir, óttast að eitthvað slæmt gerist og leita þess vegna til spákonu til að freista þess að fá áhyggjum sínum eytt.

Aðrir leita til spáfólks til að fá góð ráð, hvað þeir eigi að gera undir ákveðnum kringumstæðum, hvort verið sé að taka réttar ákvarðanir eða hvaða ákvörðun sé heppilegust í einstaka málum og svona mætti lengi telja.

Oft leitar fólk til spákonu og spámiðla þegar það hefur orðið fyrir áfalli og finnst t.d. fótunum hafa verið kippt undan sér, eða ef það á við einhvern sérstakan vanda að glíma og vill heyra hvort vænta megi bata innan tíðar eða annarra lausna.

Fjöldi þeirra, sem starfa við það að spá fyrir öðrum um framtíðina liggur ekki fyrir og enn síður er hægt að segja til um hve stór hópurinn er sem hefur leitað til spákonu eða leitar eftir slíkri þjónustu með reglubundnu millibili.

Í nærveru sálar 29. mars leiðir Sigrún Elín Birgisdóttir áhorfendur inn í heim þeirra sem starfa við það að segja fyrir um framtíð fólks.

Við ræðum um fjölmarga vinkla málsins bæði út frá sjónarhóli þeirra sem leita til spáfólks og einnig út frá sjónarhornum spáfólksins.

Við skoðum kynjamismun í þessu sambandi t.d. hvort það séu frekar konur en karlar sem sækjast eftir því að láta spá fyrir sér og ef svo er hver skyldi vera skýringin?

Einnig hvaða eiginleika/hæfileika/þekkingu hafa þeir sem eru hvað færastir í að skyggnast inn í framtíð fólks hvort heldur með aðstoð spila t.d. Tarrotspila eða með því að lesa úr táknum í kaffibolla? Er það skyggnigáfan sem gildir?

Hvernig er samkeppni háttað innan spástéttarinnar?
Hvað ef spákonan er illa upplögð og á vondan dag?

Margir hafa reynslu af því að fara til spákonu en þegar fram líða stundir kemur í ljós að fátt ef nokkuð hefur ræst.
Tekur spádómurinn e.t.v. bara mið af núverandi stöðu og ástandi viðkomandi, vonum og óskum sem þegar upp er staðið verða e.t.v. aldrei að veruleika?

Allir vilja heyra um að þeirra bíði fjölmörg ferðalög, ríkidæmi og þeir sem eru ólofaðir vilja gjarnan heyra hvort stóra ástin sé nú ekki brátt væntanleg inn í líf þeirra.
Hvað ef ekkert slíkt sést nú í spilunum heldur jafnvel bara tóm ótíðindi, veikindi og gjaldþrot?

Svo er það efahyggjufólkið sem þykir þetta allt hin mesta vitleysa, slær sér á lær og segir sveiattan, að þú skulir trúa á þetta bull!

Á hinn bóginn má spyrja hvort þetta sé nokkuð meiri vitleysa en hvað annað? Spáfræði og spámenn er ekkert nýtt fyrirbæri. Sú var tíðin að litið var til spámanna af virðingu og á þá var hlustað með andakt.

Hvað sem öllum skoðunum, trú og viðhorfum til spáfólks og spádóma líður getur það varla skaðað að heimsækja spákonu a.m.k. einu sinni á ævinni. Sumum kann að finnast það vera skemmtileg reynsla og smá krydd í tilveruna.  Aðalatriðið hlýtur að vera að varast að taka spádóma of alvarlega og minnast þess ávallt, hverju svo sem spáð er, að hver er sinnar gæfu smiður. Það siglir engin hinu persónulega fleygi nema skipstjórinn og á þeirri leið er bara einn ábyrgur, hann sjálfur.

 


Í skugga eineltis

Í SKUGGA EINELTIS

Enn einn dagur að kveldi,
einmana sorgbitin sál.
Vonlaus, vesæl ligg undir feldi,
vafra um hugans sárustu mál.

Svíður í hjartað, stingir í maga,
sárkvíði morgundegi.
Háð, spott og högg, gömul saga,
hrópa eftir hjálp, ÞETTA ÞARF AÐ LAGA.
 
Til Liðsmanna Jerico með þökk fyrir það góða starf sem samtökin hafa unnið að í baráttu gegn einelti og til allra þeirra sem hafa verið og eru þolendur eineltis.
Frábært framtak að fá Tony og Kathleen til landsins.

Börn sem stama verða frekar fyrir stríðni og einelti

Þátturinn um STAM er nú kominn á vefinn. Smella hér.

Í sporum þeirra sem stama

naerverusalarstakrm139.jpgSamkvæmt rannsóknum er áætlað að 4% barna stami og 1% fullorðinna. Stam er afar erfið máltruflun sem hefur oftar en ekki neikvæð áhrif á sálræna líðan þess sem stamar og gildir þá einu hvort stamið er lítið eða mikið. 

 

Stam getur birst með ýmsum hætti. Dæmi eru um að stam einstaklings sé  svo mikið að hann stami í hverju orði. Í öðrum tilvikum birtist stamið e.t.v. einungis í upphafi máls eða í upphafi setningar/orðs eða aðeins þegar viðkomandi ber fram ákveðin hljóð.

 

Vitað er að í mörgum tilvikum hverfur stamið, að hluta til eða að öllu leyti, með auknum þroska eða þegar viðkomandi fullorðnast.  Í öðrum tilfellum fylgir stamið manneskjunni áfram til fullorðinsára en kann þó að taka einhverjum breytingum. Það er ekki óalgengt að það minnki og hafi því ekki jafn truflandi áhrif á fullorðinsárum.

 

Sá sem hefur stamað frá barnsaldri hefur líka í tímans rás lært að fara í kringum stamið og fundið leiðir til að komast frekar hjá því með því að forðast þau hljóð sem kalla það helst fram. Sem dæmi, sé stamið bundið við ákveðin hljóð þá veigrar viðkomandi sér við að hefja setningu á því hljóði.  Sumir sem hafa glímt lengi við stam hafa sagt að ef þeir reyna að tala mjög hratt komist þeir frekar hjá því að stama. Aðrir fullyrða að tali þeir hægar og jafnvel hægt er síður líklegt að þessi máltruflun komi fram. Enn öðrum finnst þeir ná betri tökum á framsetningu málsins ef þeir hafa það sem þeir ætla að segja skrifað fyrir framan sig. 

 

Vitað er fyrir víst að börn sem stama er frekar strítt og þau lögð í einelti. Afleiðingar stríðni og langvarandi eineltis hafa oftar en ekki langvarandi neikvæð sálræn áhrif á þá sem fyrir eineltinu verður.  Börn sem stama og sem hefur sérstaklega verið strítt vegna þess finna oft til innri vanmáttar og félagslegs óöryggis. Tilfinningar eins og skömm geta gert vart við sig. Mörg þessara barna vilja draga sig í hlé og séu þau í félagslegum aðstæðum forðast þau oft í lengstu lög að tjá sig. Sé um að ræða aðkast vegna stamsins til lengri tíma getur sjálfsmynd þeirra orðið fyrir varanlegu  hnjaski.  Eftir að komið er á fullorðinsár og stamið er enn til staðar eru þessir einstaklingar oft áfram hlédrægir  og forðast að taka þátt í umræðum eða leggja orð í belg.  Séu þeir í félagsskap ókunnugra líður þessum einstaklingum oft sérlega illa með sjálfa sig og kjósa að sitja þögulir.

 

Hvernig meðferð stendur börnum sem stama til boða og hvernig er hægt að aðstoða foreldra þannig að þau geti aðstoðað börn sín við að draga úr þessari erfiðu máltruflun?
Hvernig meðferð stendur fullorðnum einstaklingum sem stama til boða?

 

Stam hefur ekkert að gera með tungumálið. Orsakir eru líffræðilegar og tengjast taugaboðum. Hvernig stamið birtist og hversu mikið það er byggist oft á aðstæðum sem viðkomandi er í hverju sinni. Líðan sem tengist staminu er einnig mjög einstaklingsbundin.  Sem dæmi ef sá sem stamar kennir streitu, kvíða eða finnst hann þurfa að vera snöggur að tjá sig, má leiða líkum að því að stamið verði jafnvel meira og tíðara. Taka skal fram að margir sem eiga við þessa málatruflun að stríða sérstaklega ef hún er væg, eru afslappaðir gagnvart henni ekki hvað síst eftir að komið er á fullorðinsár.

 

Í nærveru sálar 15. mars mun Jóhanna Einarsdóttir,  lektor við HÍ fræða okkur um stam. Umræðan mun ekki hvað síst snúast um sálræn áhrif og neikvæðar afleiðingar stams á börn og fullorðna sem glíma við þessa erfiðu máltruflun.

 


Flugfreyjan, draumastarf margra

naerverusalarflugf136_skorin_967871.jpg

Svo lengi sem menn muna hefur flugfreyjustarfið verið draumastarf fjölmargra ungra kvenna. Síðasta áratuginn hefur það einnig færst í aukana að piltar/menn sækjast í að starfa sem flugþjónar.

Starfið hefur á sér ákveðinn ævintýrablæ sem felst ekki hvað síst í þeirri staðreynd að þeir sem starfa í háloftunum eru á ferð og flugi út um allan heim. Engu að síður er hér um afar venjulegt þjónustustarf að ræða sem fram fer um borð. Starfið er krefjandi og segja þeir sem því sinna að á meðan á flugi stendur er álag mikið sem felst í að þjóna farþegum, m.a. færa þeim mat og drykk.

Í nærveru sálar á ÍNN 11. mars mun Guðmunda Jónsdóttir sem um þessar mundir á 25 ára starfsafmæli sem flugfreyja leiða áhorfendur inn í allan sannleikan um starfið, kosti þess og ókosti. Meðal þess sem við ræðum um er hvernig gengur að samhæfa vinnu af þessum toga og fjölskyldulíf?
 
Er starfið eins heillandi og margir telja?

Eitt er að heimsækja fjarlægar stórborgir sér til ánægju og yndis en síðan allt annað að staldra rétt sem snöggvast við á flugvöllum og bíða á flughótelum þar til næst vinnutörn hefst.

Farþegar eru eins og gengur eins misjafnir og þeir eru margir. Þeirra þarfir, kröfur og væntingar eru ólíkar og hverjum og einum þarf að sinna af alúð og natni.
Hvernig annast flugfreyjur t.d. um þá farþega sem glíma við alvarlega flughræðslu?

Þetta og margt annað þessu tengt Í nærveru sálar,  mánudaginn 15. mars kl. 21.30.


Ömmurnar orðnar fyrirsætur

naerverusalararf133_966940.jpgFrændfólkið, Kolbrún, Björk og Heiðar skoða arfleifðina. Þátturinn kominn á vef ÍNN.

Hér

Ömmurnar frá Krossum eru nú einnig orðnar fyrirsætur hvernig svo sem þeim líkar það nú_mmurnar_og_urintop.jpg

 


Arfleifðin skoðuð með Heiðari snyrti og Björk borgarfulltrúa.

naerverusalararf133.jpg

Það er sennilega aldrei eins tímabært og nauðsynlegt og nú en að hugsa til baka og rifja upp hvernig forfeður og mæður okkar lifðu. Þrautseigjan, eljan og krafturinn bjó meðal þorra íslendinga því stór hluti þeirra lifði oft við erfiðar aðstæður bæði kulda, vosbúð og fátækt.

Í nærveru sálar 1. mars ræði ég við frændfólk mitt þau  Heiðar Jónsson, snyrti og Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa um arfleifðina en ömmur okkar þær María og Stefanía Ásmundsdætur frá Krossum voru systur.

Hver voru skilaboð þessara kraftmiklu systra til afkomenda sinna og hvernig minnumst við þeirra sem fyrirmynda?  Við ræðum saman um lífið sem þær lifðu á Krossum og tengjum okkur við lífsskoðun þeirra og gildismat. Hvernig getum við mynda brú frá gömlu góðu gildum fortíðarinnar yfir í hina flóknu og ólgumiklu nútíð sem við lifum og hrærumst í?

maria_og_stefania_smundsdaettur.jpgMaría og Stefanía Ásmundsdætur voru dætur Ásmundar Jónssonar og Kristínar Stefánsdóttur frá Krossum. Þær fæddust fyrir aldamótin 1900, bjuggu og ólu börn sín upp á Krossum í Staðarsveit. Stefanía varð snemma ekkja með stóran barnahóp og María var einstæð móðir með tvær dætur. Við frændfólkið rifjum upp minningarnar um ömmur okkar, lærdóminn sem þær miðluðu, umburðarlyndið sem þær kenndu og hvernig þær sýndu kærleikann í verki.


Hvað er eðlilegra fullorðnu fólki en að löngunin til að eignast barn

Þátturinn um ófrjósemi og allar þær flóknu hliðar sem þeim vanda fylgir er kominn á vefinn.

Hér


Að glíma við ófrjósemi

naerverusalar1kr_tilverass30.jpgFátt er eins eðlilegt fullþroska fólki en löngun og þrá til að eignast barn. Barnleysi getur verið sársaukafullt vandamál. Þeir sem glíma við ófrjósemi verja oft mörgum árum af fullorðinslífi sínu í tilraunir til að eignast barn.

Skilgreining á ófrjósemi er þegar par hefur reynt að eignast barn í eitt ár án árangurs. Talið er að 15-20% para á barneignaraldri glími við ófrjósemi einhvern tímann á lífsleiðinni. Ófrjósemi er fyrst og fremst líffræðilegt vandamál enda þótt sálrænir þættir hafi svo sannarlega áhrif.

Tilvera, samtök um ófrjósemi var stofnuð 1989. Hlutverk Tilveru er m.a. að standa við bakið á pörum sem þarfnast tæknifrjóvgunarmeðferðar. Aðeins þeir sem hafa verið og eru í þeirri stöðu að glíma við ófrjósemi og hafa reynt að eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar vita hversu mikið álag ferlið er og hversu mikil áhrif það hefur á tilfinninga- og líkamlega líðan. Ef meðferðin skilar ekki árangri eykst álagið enn frekar og algengt er að tilfinningar eins og sorg, vonleysi og kvíði komi upp.

Fyrir nokkrum árum var Tæknifrjóvgunardeildinni á LSH lokað og gerður var samningur við ART Medica um að annast þessa þjónustu. Tæknifrjóvgun eins og glasafrjóvgun er kostnaðarsöm meðferð og oft er fleiri en einnar meðferðar þörf.  Kostnaður fer m.a. eftir hversu margar meðferðir parið hefur farið í og einnig hvort parið á eitt eða fleiri börn saman.

Ófrjósemi virðist vera vaxandi vandamál.  Ástæður eru vafalaust hvorki einhlítar né einfaldar.

Í nærveru sálar 22. febrúar verða þessi  mál rædd með þeim Katrínu Björk Baldvinsdóttur og Huldu Hrönn Friðbertsdóttur en þær sitja í stjórn Tilveru. Meðal þess sem verður fjallað um er hversu mikið og margslungið álag það er að vera í þessum sporum.  Það reynir ekki einvörðungu á líkama og sál heldur einnig á samband og samskipti para svo ekki sé minnst á fjárhagsleg útgjöld sem því fylgir að fara í fjölmargar tæknifrjóvgunartilraunir svo sem glasafrjóvganir.

Við ræðum um ófrjósemi og skilgreinum síðbúna ófrjósemi sem oft fær mun minni athygli. Lengi vel hefur ófrjósemi einnig verið feimnismál  í hugum sumra. Það er von flestra að með opinni umræðu um þetta málefni muni það breytast.

Þrái fólk að eignast barn má einnig spyrja hvort við því sé ekki bara ein lausn sem er að parið eignist BARN? Í þessu sambandi ræðum við hvað felst í hugtakinu barnfrelsi.

Síðast en ekki síst er spurningin hvort stjórnvöld geti liðkað enn frekar til fyrir þennan hóp t.d. með breytingum á lögum og reglugerðum þessu tengdu.

Meira um ófrjósemi 22. febrúar Í nærveru sálar á ÍNN kl. 21.30.


Væntingar og vonbrigði nýnema í háskóla

naerverusalar_kr_hi11feb.jpgFyrsta árið í háskóla er ekki alltaf dans á rósum. Nýnema bíða oft alls kyns skakkaföll og hindranir. Þeir leggja af stað í þessa vegferð, flest hver full væntinga en uppgötva síðan stundum all harkalega að leiðin er hvorki bein né greið.  Viðbrigðin að koma í háskóla eru gríðarleg.  Enda þótt nemendur séu að koma úr ágætum menntaskólum og eru margir hverjir tiltölulega vel undirbúnir þá er nám á háskólastigi frábrugðið að mjög mörgu leyti. Í háskóla er samankominn hópur námslega sterkra nemenda. Samkeppni getur því verið mikil. Sá sem hefur verið með þeim hæstu í menntaskóla er e.t.v. kominn í hóp meðaljónanna þegar komið er í háskóla. 

Í háskólanámi er þess krafist að nemendur beri ábyrgð á eigin námi. Það er ekki kennaranna að fylgjast með því hvort nemendur hafi lært heima eða séu að fylgjast með því sem fram fer í tímum. Nemendur verða, ef þeir ætla að ná árangri, að hafa færni og getu til að vinna sjálfstætt. Þeir þurfa að hafa nægjanlegan sjálfsaga til að liggja yfir bókunum án þess að nokkur sé endilega að hvetja þá eða fylgjast með að þeir stundi námið sómasamlega.

Til að ræða þetta og margt fleira í þessu sambandi koma Í nærveru sálar 15. febrúar tveir náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands þær Jónína Ólafsdóttir Kárdal og María Dóra Björnsdóttir.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa í háskóla er afar víðtækt. Það er ekki lengur einskorðað við að kynna námsleiðir eða hjálpa krökkunum að velja sér brautir heldur einnig að kenna námstækni, hvernig undirbúningi undir próf verður best háttað og hugga og hvetja nemendur sem hafa ekki náð tilskyldum árangri. Við ræðum um klásus, síur og óheyrilegt fall fyrsta árs nemenda svo sem í lögfræði. Hvað er hægt að gera fyrir tugi ef ekki hundruðir nemenda sem t.d. falla í hinni alræmdu Almennu? Eins er forvitnast um hvort námsráðgjafar leiðbeini kennurum í samskiptum þeirra við nemendur og hvernig sértækum hópum er sinnt eins og þeim sem glíma við lesblindu?


Staða ættleiðingarmála á Íslandi í dag

naerverusalar_aettlkk123.pngTilkoma barns á heimili er oftast nær tilefni gleði og eftirvæntingar. Þetta á ekki síður við í þeim tilvikum þegar börn eru ættleidd. Nær undantekningarlaust hafa fjölskyldur sem bíða eftir að fá barn ættleitt gengið í gegnum langan biðtíma sem jafnvel er stundum hlaðinn óvissu. Mörg pör eru þá þegar búin að ganga langa þrautargöngu við að reyna að eignast sitt eigið barn og í því sambandi gengið í gegnum erfiðar aðgerðir og tilraunir á sviði tæknifrjóvgunar.

Í þættinum Í nærveru sálar 8. febrúar verða þessi mál skoðuð nánar. Nýútkomin bók, Óskabörn verður kynnt en segja má að hún sé eins konar biblía í þessum málaflokki. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út um ættleiðingar í 45 ár.

Enn er biðlistinn eftir að ættleiða barn gríðarlangur. Yfir 100 fjölskyldur bíða þess að geta sótt barn til eitthvað af þeim löndum sem Ísland hefur ættleiðingarsamband við.

Gestir þáttarins eru þau:
Sigrún María Kristinsdóttir, blaðamaður, doktorsnemi og höfundur bókarinnar Óskabörn og Hörður Svavarsson, formaður félagsins Íslensk ættleiðing.

Í þættinum ræðum við um Haíti og hvort það sé raunverulegur möguleiki að gert verði formlegt ættleiðingarsamband milli Íslands og Haíti. Hvernig geta íslensk stjórnvöld liðkað enn frekar fyrir í þessum málum? UNICEF og önnur alþjóðleg samtök hafa varað þjóðir heims við hættu á því að nokkurs konar gullgrafaraæði brjótist út hjá fólki sem vilja ættleiða börn í kjölfar hörmunganna á Haíti. Hver eru helstu rökin fyrir því að börnin eru oftar en ekki orðin ársgömul og jafnvel eldri þegar foreldrar fá þau í hendurnar?
Hvernig er staðan með ættleiðingar frá Kína um þessar mundir?

Hér eru aðeins nefnd fáein atriði af þeim sem farið verður yfir í Í nærveru sálar næstkomandi mánudag.


Hin árangursríka sálfræðinálgun Hugræn Atferlismeðferð

naerverusalar1hamkrbr26.jpgHelstu sérkenni Hugrænnar atferlismeðferðar. Sálfræðinálgun sem hentar þeim sem glíma við kvíða, streitu og depurð. Oddi Erlingsson og Sóley Davíðsdóttir, sálfræðingar segja frá námskeiði sem þau bjóða upp til að kenna fólki að tileinka sér þessa árangursríku tækni.

Í Nærveru sálar kl. 21.30 1. febrúar á ÍNN.

Námskeið í Hugrænni Atferlismeðferð, sjá meira á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar www.kms.is

Hugræn atferlismeðferð er meðferðarform sem sameinar bæði aðferðir hugrænnar meðferðar (cognitive therapy) og atferlismeðferðar (behavior therapy).  Í hugrænni meðferð fær fólk aðstoð við að breyta neikvæðu hugarfari þannig að líðan þeirra fari batnandi. Í atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að breyta atferli sínu, til dæmis takast smátt og smátt á við það sem það kvíðir fyrir að gera. Þannig fer líðan þess smám saman batnandi og fólk öðlast meiri trú á getu sinni.


Kaupgleði er eitt en kaupæði allt annað

Hvar liggja mörkin á milli kaupgleði og kaupæðis?

Mörgum þykir afar gaman að ganga um verslunarmiðstöðvar, skoða gluggaútstillingar en enn fleirum finnst gaman að fara inn í verslanir, skoða hluti, máta föt og kaupa síðan eitthvað sem þeim þykir fallegt.

Kaupgleði er mjög einstaklingsbundin. Á meðan sumir vilja helst eyða mörgum tímum á viku í verslunum eru aðrir sem líkar það illa og fara helst ekki í verslanir nema að þeir neyðist til þess þegar þeim bráðvantar eitthvað. Ástæðan gæti t.d. verið að viðkomandi líður illa innan um margt fólk, í stóru rými og þar sem vöruúrvalið virðist óendanlegt.

Það lætur ekki öllum vel að eiga auðvelt með að taka ákvarðanir um hvað skuli kaupa og hvað ekki. Að velja, vita hvað maður vill getur vafist fyrir sumu fólki á meðan aðrir eru eldsnöggir að finna út hvað hentar þeim. Hversu auðvelt einstaklingurinn á með að taka ákvarðanir hvað hann ætli að kaupa fer eftir mörgu, þó ekki endilega hvort viðkomandi hafi ekki þroskað með sér ákveðinn smekk eða stíl heldur kannski frekar hvort viðkomandi upplifi það sem einhverja sérstaka áhættu að kaupa eitthvað sem honum mun kannski síðan ekki líka. Hugmyndir fólks um hvernig það vill verja peningunum sínum spilar einnig hlutverk í þessu sambandi sem og hvort einstaklingur skilgreinir sig sem vandlátan og jafnvel sérsinna. Sjálfsmat, ánægja með útlit eru þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að ákveða fatakaup.

En eitt er að vera haldin kaupgleði og annað að vera með kaupæði þótt oft megi telja að þarna sé mjótt á mununum. Kaupæði er þegar einstaklingur ver svo miklum tíma í verslunum í að kaupa eitt og annað að það er farið að koma niður á öðrum þáttum í lífi hans. Um er að ræða fíkn þar sem stjórnleysi hefur fest sig í sessi. Oftar en ekki er kaupfíkillinn snöggur að ákveða sig hvað hann ætlar að kaupa enda er þetta frekar spurning um að kaupa mikið og oft frekar en að kaupa fáar, vel ígrundaðar vörur. Sá sem haldin er stjórnleysi vill allt eins kaupa til að gefa öðrum eins og að kaupa eitthvað handa sjálfum sér. Mestu máli skiptir að hann sé að kaupa.

Kaupæði vísar til stjórnlausrar, áráttukenndra kaupa þar sem kaupandi hefur ekki tök á að stöðva atferlið jafnvel þótt öll heimsins skynsemi mæli gegn eyðslunni sem kaupunum fylgir. Sá sem er haldinn kaupfíkn er oft líka með söfnunaráráttu. Honum finnst hann þá þurfi að eiga allt af ákveðinni tegund sem hann er að safna.

Meira um þetta hér


Í DV að morgni, í fréttum RÚV og Stöðvar 2 að kvöldi?

DV fréttamenn virðast vinna fréttir bæði fyrir Stöð 2 og RÚV: útvarp/sjónvarp.

Ég hef ítrekað tekið eftir því að RÚV og Stöð 2 eru með sömu fréttir og lesa má í DV að morgni.

Oftar en ekki eru þetta fréttir um fjármál, meint fjármálasvik og fleira í þeim dúr en einnig um margt annað líka.

Stundum er forsíða DV einfaldlega aðalfréttaefni Stöðvar 2 og ríkisútvarps/sjónvarps.

Hvaða merkingu á að leggja í þetta?

Ein er sú að Stöð 2 og RÚV þykja DV vera áreiðanlegur fjölmiðill fyrst þeir taka svona beint upp eftir blaðamönnum DV.


Börn eru börn til 18 ára aldurs

Börn eru börn til 18 ára. Það er hlutverk foreldra /umönnunaraðila þeirra að gæta að velferð þeirra þar til þau ná þessum aldri. Að gæta að velferð barna sinna getur þýtt margt.  Fyrstu árin reynir mest á að gæta þeirra þannig að þau fari sér ekki að voða.  Að veita þeim ást, umhyggju og örvun eru viðvarandi nauðsynlegir uppeldisþættir ef barn á að eiga þess kost að þroskast eðlilega og geta nýtt styrkleika sína til fulls.

Þegar börnin stálpast og nálgast unglingsárin koma æ sterkar inn uppeldisþættir í formi fræðslu og leiðbeiningar til að unglingarnir læri að vega og meta aðstæður eigi þeir að geta varist ytri vá af hvers kyns tagi. 

Áhrifagirni og  hvatvísi er meðal algengustu einkenna unglingsáranna. Leit að lífstíl og samneyti við vini er það sem skiptir börn á þessum aldri hvað mestu máli. Það er einmitt þess vegna sem foreldrar þurfa að vera sérstaklega meðvituð um leiðbeiningarþátt uppeldisins og að geta sett börnum sínum viðeigandi mörk.

Stundum þurfa foreldrar einfaldlega að segja NEI. Þetta á við sé barnið þeirra að fara fram á að fá að gera hluti sem foreldrar telja annað hvort  óviðeigandi ef tekið er mið af ungum aldri þeirra eða ef þau telja að það sem barnið biður um að gera geti hugsanlega valdið þeim andlegum,- líkamlegum eða félagslegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Undir þetta falla þættir eins og að gæta þess að unglingarnir þeirra taki ekki þátt í álagsmiklum félagslegum uppákomum, aðstæðum sem auðveldlega geta orðið óhörðnuðum og óreyndum unglingum ofviða og jafnvel skaðlegar.   

Mörgum foreldrum finnst erfitt að banna barni sínu að gera eitthvað sem þau sækja fast og sérstaklega ef þau fullyrða  að jafnaldrar þeirra hafi fengið leyfi sinna foreldra.  Eins og gengur og gerist hjá kraftmiklum og klárum unglingum neyta þau gjarnan ýmissa bragða til að fá foreldra sína til að gefa eftir.  „Þið eruð leiðinlegustu foreldrar í heimi“ glymur endrum og sinnum á heimili unglings. Það er ekkert notalegt að fá slíka athugasemd frá barni sínu. Sektarkenndin á það til að flæða um og áður en þau átta sig jafnvel,  hafa þau gefið eftir.

Ef foreldrar eru í einhverjum vafa um hvar mörkin liggja milli þess að leyfa, semja við eða hreinlega banna börnum sínum eitthvað,  ættu þeir að leita sér ráðgjafar.  Umfram allt mega foreldrar ekki missa sjónar af þeirri staðreynd að það eru þeir sem ráða þegar upp er staðið og að þeir bera að fullu ábyrgðina á barni sínu þar til það hefur náð sjálfræðisaldri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband