Þá er að undirbúa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
7.1.2010 | 21:03
Uppeldistækni sem virkar
3.1.2010 | 16:37

PMT stendur fyrir Parent Management Training, sem er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi.
Um er að ræða hugmyndakerfi sem ættað er frá Oregon og sem miðast að því að stuðla að góðri aðlögun barna. Þessi aðferðarfræði hefur nýst sérlega vel ef börn sýna einhver hegðunarfrávik. Meginhöfundurinn er Dr. Gerald Patterson.
PMT felur í sér að foreldrum er kennt að nýta sér styðjandi verkþætti eða verkfæri sem stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga að sama skapi úr neikvæðri hegðun. Í löngu rannsóknarferli hefur það sýnt sig að viðeigandi beiting hefur verulega bætandi áhrif á atferli og aðlögun barnsins.
Í Í nærveru sálar, mánudagskvöldið 4. janúar kl. 21.30 ætlum við Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði að skoða ofan í verkfærakassa PMT.
Þar er m.a. að finna hvernig hægt er að gefa fyrirmæli á árangursríkan hátt og hvað það er sem skiptir máli, vilji foreldrar stuðla að jákvæðum samskiptum við barnið. Einnig mikilvægi þess að nota hvatningu og hrós þegar kenna á nýja hegðun. Við skoðum hvaða nálgun virkar þegar setja skal mörk og einnig þegar draga þarf úr óæskilegri hegðun.
Síðast en ekki síst munum við Margrét ræða um mikilvægi þess að grípa inn í snemma og vinna með vandann á fyrstu stigum. Alvarlegir hegðunarerfiðleika sem ná að fylgja barni til unglingsára geta leitt til enn alvarlegri vandamála síðar meir og haft m.a. í för með sér áfengis- og vímuefnanotkun með tilheyrandi fylgikvillum.
Unnið er eftir PMT hugmyndafræðinni víða um land þar á meðal í Hafnarfirði.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Hvorki barn né fullorðinn
28.12.2009 | 17:00

Unglingsárin, helstu einkenni þeirra.
Hverjar eru þarfir unglinganna?
Hver er kjarni góðra samskipta og hverjar er öruggustu forvarnirnar?
Unglingurinn, tölvunotkun og Netið.
Er hægt að ánetjast tölvunni/Netinu?
Þetta er vitað:
Dæmi eru um að aðrir hlutir sem unglingum fannst áhugaverðir og mikilvægir í lífi sínu hafa vikið fyrir tölvunni.
Verði tölvunotkun stjórnlaus er hætta á að aðrir mikilvægir þættir í lífi og tilveru unglingsins þurrkist einfaldlega burt.
Þetta er meðal þess sem fjallað verður um Í nærveru sálar í kvöld 28. desember kl. 21.30 á ÍNN
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook
Leikföng sem þroska og þjálfa
20.12.2009 | 11:51
Handan við hornið eru jólin og margir nú í óða önn að kaupa jólagjafirnar. Í pakka barnanna leynast oft leikföng. En leikföng eru ekki bara leikföng.
Gríðarlegt úrval er til af allskonar leikföngum. Það er ekki bara dúkka og bíll heldur ótal annað dót sem kallar á mismunandi viðbrögð barnsins bæði á sviði vitsmunar og hreyfifærni.
Við sem erum þessa dagana að velja í pakkana handa börnum og barnabörnum viljum auðvitað gefa spennandi leikföng, helst leikföng sem kalla á áhrif eins og vááá og í augum þeirra má sjá ljóma þegar litlar hendur teygja sig eftir leikfanginu.
En hversu lengi finnst barninu leikfangið spennandi?
Hvaða kosti hefur einmitt þetta leikfang?
Þetta eru e.t.v. spurningar sem mjög mörg okkar leiða ekkert sérstaklega hugann að.
Frekari spurningar gætu verið:
Leiðir þetta leikfang til jákvæðrar upplifunar hjá barninu?
Er þetta leikfang skammtímaafþreying eða mun það hafa einhvern líftíma?
Öll vitum við að örvun og þjálfun er nauðsynlegur þáttur í lífi hvers barns eigi það að ná fullum þroska og geta nýtt til fulls getu sína og færni.
Allir þeir sem að barninu standa bera ábyrgð á því að hjálpa því til þroska og þess vegna skiptir val á leikföngum miklu máli.
Fjölmörg leikföng hafa þann eiginleika, sé leikið með það, að örva fínhreyfingar og hugsun. Það hefur þann eiginleika að kalla fram nýjar hugmyndir hjá barninu og hvetja til nýsköpunar. Sum leikföng eru þess eðlis að þau kalla á færni í að flokka og skipuleggja eftir stærð, litum, lögun og í að búa til mynstur. Þessir þættir eru ómetanlegur hluti af þroska sérhvers barns.
Hönnun leikfangsins og efnið sem það er búið til úr er ekki síður mikilvægt. Efnið þarf að vera barnvænt og laust við alla mengun. Hönnun þarf að vera þannig að leikfangið geti ekki undir neinum kringumstæðum verið barninu skaðlegt.
Margir spyrja sig einnig hvar leikfangið er framleitt, frá hvernig verksmiðju það kemur og hverju unnu við framleiðslu þess?
Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að við vitum að sumstaðar í heiminum viðgengst barnaþrælkun. Börnum er þrælað út í vinnu meðal annars við að framleiða leikföng.
Í Í nærveru sálar á ÍNN, mánudaginn 21. desember kl. 21.30 verður fjallað um þessi atriði og fjölmörg fleiri þessu tengt. Við skoðum ýmis leikföng sem talin eru heppileg fyrir börn og fjölyrðum m.a. um hvað það þýðir þegar talað er um opið eða lokað leikefni.
Gestir þáttarins eru þær Sigríður Þormar, hjúkrunarfræðingur og verslunareigandi og Valgerður Anna Þórisdóttir, leikskólastjóri Foldakoti
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Tyllir sér á stýrið þar sem fótinn vantar
16.12.2009 | 12:53
Þátturinn Fötluð gæludýr er kominn á vefinn. Þar er hinn þrífætti Mjallhvítur og sýnir hversu lipur hann er þótt einn fótinn vanti.
Það er gaman að sjá hvernig hann notar stýrið til stuðnings þegar hann tyllir sér. Þá skýtur hann því undir þar sem fótinn vantar.
Umræðan er um að elska og eiga gæludýr, ábyrgðina og væntumþykjuna.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Fötluð gæludýr
13.12.2009 | 11:32
Það fylgir því mikil ábyrgð að eignast gæludýr. Flestir gæludýraeigendur mynda við þau djúp tengsl og komi eitthvað fyrir þau er harmur heimilisfólksins og ekki hvað síst barnanna oft mikill.
Einn mikilvægasti hluti uppeldis er að kenna börnum að vera góð við minnimáttar, þar á meðal dýr. Dýrin treysta á umönnunaraðila sína og öll þeirra tilvera er undir eigendunum komin.
Foreldarnir eru sterkar fyrirmyndir að þessu leyti. Dæmi eru um að börnum sem ekki hafa verð kennt að bera virðingu fyrir dýrum séu þeim vond. Einnig eru dæmi um að fullorðið fólk komi illa fram við gæludýrin sín og líti jafnvel á þau sem skammtíma afþreyingu eða gera sér ekki grein fyrir að dýrin hafa sínar þarfir og þeim þarf að sinna. Sem betur fer eru þetta undantekningar.
Gæludýr, eins og mannfólkið, eiga við sín vandamál að stríða. Þau veikjast, verða fyrir slysum og þarfnast þá sérstakrar aðhlynningar.
Í nærveru sálar hinn 14. desember kl. 21.30 kynnumst við honum Mjallhvíti en á hann vantar einn fót. Fótinn varð að fjarlægja í kjölfar slyss. Eigandi hans Anna Ingólfsdóttir og dýralæknirinn Hanna Arnórsdóttir sem gerði á honum aðgerðina upplýsa okkur um reynslu sína af Mjallhvít. Anna lýsir hvernig það var fyrir fjölskylduna þegar þeim var tjáð að taka þyrfti af honum fótinn. Hanna segir frá því hvernig það er að vera dýralæknir þegar fólk biður, af einhverjum ástæðum, um að láta svæfa dýrin sín.
Mjallhvítur er frægur köttur því út er komin bók um hann. Hann lætur ekki fötlun sína stoppa sig og fer um eins og hver annar köttur enda fær hann orku sína aðallega úr ullarsokkum.
Nýr dagur, nýtt ljós. Til hamingju!
8.12.2009 | 21:36
Nýr dagur, nýtt ljós. Til hamingju með Sigur í tapleik, mynd eftir Einar Má Guðmundsson um knattspyrnulið þar sem flestir leikmenn eiga áfengismeðferð að baki.
Tímamóta mynd og lagið er frábært, vel sungið af Helga Björnssyni, lag eftir Gunnar Bjarna Ragnarsson og texti eftir Einar Má.
Lagið virkar þannig að manni langar að hlusta á það aftur og aftur og aftur.
Megastuð í Múlalundi
7.12.2009 | 08:50
Í Múlalundi, vinnustað þeirra sem hafa skerta starfsorku má bæði finna færni og frumkvæði. Þar er að finna hugmyndaríkt fólk sem getur hrundið hugmyndum sínum framkvæmd á vinnustað eins og Múlalundi. Nýsköpun og sveigjanleiki virðist einkenna þennan vinnustað. Við fáum að kynnast Múlalundi ögn nánar í
Í nærveru sálar, ÍNN mánudaginn 7. desember kl. 21.30.
Gestir eru Helgi Kristófersson, framkvæmdarstjóri og Ólafur Sigurðsson, starfsmaður. Meðal þess sem við ræðum um er:
Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
Geta allir öryrkja sem þess óskað fengið vinnu?
Hvað er helst framleitt, hver ákveður hvað er framleitt og hvernig er tengslum við atvinnulífið háttað?
Líðan á vinnustaðnum og þýðing Múlalundar í lífi fólksins sem þar starfar.
Ólafur segir okkur frá hvernig dagurinn byrjar á morgnana og hvernig ferlið er þegar nýr starfsmaður kemur til starfa.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook
Týndur í kerfinu
29.11.2009 | 10:48

Margir þekkja þá tilfinningu að vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér í kerfinu. Hver eru mín réttindi í einstaka málum og hvert sæki ég þau? Sá hópur sem hvað helst stendur í þessum sporum eru þeir sem þiggja bætur frá ríkinu af einhverju tagi.
Tryggingarstofnun ríkisins er í hugum margra mikið bákn og virkar við fyrstu sýn eins og stórt völundarhús. Réttindi flest hver eru háð skilyrðum, undantekningum og takmörkunum. Þetta virkar ekki bara flókið heldur er það.
En eins og með annað, því meira og betur sem maður setur sig inn í hlutina, því einfaldari verða þeir.
Miklar breytingar hafa orðið á Tryggingarstofnun ríkisins undanfarin misseri. Það kann að vera að ekki séu allir á einu máli um hvernig stofnun eins og þessi eigi að vera eða starfa en hafa skal í huga að starfsfólk hennar er einungis að framfylgja ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Það setur ekki reglurnar.
Í Nærveru sálar þann 30. nóvember ætla þær Sólveig Hjaltadóttir og Margrét S. Jónsdóttir á Réttindasviði Tryggingarstofnunar að freista þess að einfalda og leiðbeina um þjónustuna.
Sérstaklega verður rætt um stuðning við fjölskyldur og barnafólk og mikilvægi þess að fólk gefi réttar upplýsingar svo útreikningar verði réttir.
Annað sem fram kemur í viðtalinu við þær stöllur er:
1. Samningur sem gerður hefur verið við sálfræðinga í þeim málum barna þar sem fyrir liggur greining frá BUGL eða Miðstöð heilsuverndar barna.
2. Hvernig málum er háttað hjá þeim sem dvalið hafa erlendis og flytja til landsins
3. Hverjar eru kæruleiðirnar sé fólk ósátt við úrskurði.
4. Þjónustan, hversu mikil áhersla er lögð á að þjálfa fólk í lipurð og mannlegum samskiptum.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook
Ofbeldi á meðgöngu
23.11.2009 | 14:26

1. Meðgangan er álagstími fyrir báða aðila,
2. Parsambandið víkur til hliðar fyrir meðgöngunni og afbrýðisemi og óöryggi karlsins getur aukist.
Tíðni ofbeldis á meðgöngu er talið algengara en margra annarra meðgöngukvilla eins og meðgöngusykursýki og meðgöngueitrun.
Í nærveru sálar 30. nóvember verður fjallað um þetta viðkvæma mál.
Hallfríður Kristín Jónsdóttir, ljósmóðir gerir grein fyrir útskriftaverkefni sínu en hún gerði rannsókn á með hvaða hætti ljósmæður skima eftir ofbeldi hjá þunguðum konum.
Aðrar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum þætti sem hluti af stærri rannsókn. Félags- og Tyggingarmálaráðuneytið stóð nýlega fyrir víðtækri rannsókn/könnun (2009) þar sem 3000 konur voru spurðar um eitt og annað er tengist hvort þær teldu sig hafa orðið fyrir ofbeldi. Í ljós kom að meðganga er áhættuþáttur þar sem 5% kvenna sem urðu fyrir ofbeldi voru ófrískar þegar síðasta ofbeldisatvikið átti sér stað.
Meðal þess sem rætt verður í Í nærveru sálar er hvernig ljósmæður nálgast þetta viðfangsefni t.d. hvort þær spyrji allar konur um ofbeldissögu, hvernig er spurt, hvernig er skráð og hverjar eru helstu hindranirnar í þessu sambandi? Eins og gefur að skilja reynir hér á hæfni ljósmæðranna í viðtalstækni enda málið og aðstæður viðkvæmar.
Um er að ræða vandamál sem þekkt er um allan heim. Þetta er ekki einkamál fjölskyldna og þá er spurt hvernig stórfjölskyldan og samfélagið getur hjálpað?
Eins má spyrja hvort fjallað sé nægjanlega um þetta í námi ljósmæðra? Fá þær viðhlítandi þjálfun í að greina, meta og nálgast upplýsingar á varfærin og faglegan hátt?
Að lifa með Psoriasis (þátturinn endursýndur 20. nóv.)
15.11.2009 | 10:56

Hve margir vita að það eru 125 milljónir manna með Psoriasis í heiminum og á Íslandi er allt að níu þúsund manns greindir með sjúkdóminn og enn fleiri ef þeir eru taldir með sem glíma við aðra exemsjúkdóma.
Oftast kemur psoriasis fram á aldrinum 17-25 ára. Ekki er óalgengt að börn glími við ýmis konar exemsjúkdóma.
Alheimsdagur Psoriasis var þann 29. okt. sl. en hann var haldinn fyrst 2004. Nú í ár var Bláa Lóninu með Grím Sæmundsen, lækni og forstjóra Bláa Lónsins í fararbroddi veitt viðurkenning fyrir framlag til málefna psoriasissjúklinga.
Í Í nærveru sálar hinn 16. nóvember ræðir Valgerður Auðunsdóttir formaður Samtaka Psoriasis og exemsjúklinga um þessi mál. Hún segir okkur m.a. frá hvenær félagið var stofnað hér á landi og hvert hlutverk og markmið þess er.
Ennþá ríkja einhverjir fordómar í garð þeirra sem glíma við húðsjúkdóma. Mörgum hryllir við að sjá hvernig húð psoriasissjúklinga getur verið undirlögð af blettum og sárum sem einkenna sjúkdóminn. Kynning og fræðsla skiptir því höfuðmáli ef takast á að upplýsa fólk um staðreyndir og þar með draga úr fordómum. Til dæmis halda ennþá einhverjir að Psoriasis sé smitandi.
Valgerður segir frá kynningarátaki á vegum Samtakanna, heimsóknir í skóla og fleira.
Annað sem rætt verður er:
Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér?
Getur exem orðið Psoriasis síðar á ævinni?
Hver eru tengslin við erfðarþætti
Hvaða svæði líkamans eru í mestri hættu?
Hver er algengasta þróunin ef einkennin birtast strax á barnsaldri
Hverjir eru helstu fylgikvillar?
Við ræðum um sálfræðiþáttinn í þessu sambandi svo sem að börn sem eru með Psoriasis upplifa mikið álag og óþægindi t.d. þegar þau eru að fara í leikfimi og sund. Einnig þá staðreynd að streita hefur neikvæð áhrif á sjúkdóminn.
Hvernig er hægt að milda líðan barna með húðsjúkdóm?
Til er fræðsluefni eins og barnabókin Lalli og Fagra Klara og
Börn og psoriasis.
Heilsa og heilbrigði | Breytt 20.11.2009 kl. 17:36 | Slóð | Facebook
Börn hrædd eftir að hafa horft á Sveppa og Villa
13.11.2009 | 18:59
Kvikmyndir | Slóð | Facebook

Flest vitum við hvernig tilfinning það er að mæta dónalegri framkomu frá aðila í þjónustugeiranum eða í samskiptum við aðra ókunnuga einstaklinga.
Það er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að þeir sem starfa við þjónustu af einhverjum toga beri undantekningarlaust að koma prúðmannlega fram við notendur þjónustunnar. Allir eiga sína slæmu daga, en það er ekki ásættanlegt að láta vanlíðan eða geðvonsku sína bitna á næsta manni.
Ef einstaklingur verður fyrir ókurteisi, hroka eða dónaskap af hálfu starfsmanns fyrirtækis eða stofnunar sem hann leitar til getur slík framkoma kallað á reiði, tilfinningu um niðurlægingu, sársauka og vonbrigði.
Sá sem fyrir þessu verður bregst oft á tíðum illa við, fer niður á sama plan og úr verða neikvæð samskipti sem skilja eftir sig pirring og jafnvel illsku. Fólk sem er í góðu jafnvægi þann daginn eða er að jafnaði yfirvegað og þolinmótt mætir slíkri framkomu af meiri rósemd, tekur henni ekki persónulega og bregst við samkvæmt því.
Algeng dæmi eru t.d. ef starfsmaðurinn hlustar ekki á hvað er verið að biðja um eða grípur fram í. Fari samskiptin fram í gegnum síma er viðkomandi stundum gefið samband nánast út í loftið, látinn bíða lengi á línunni, fær síðan talhólfið, þarf að skella á að lokum og hringja aftur o.s.frv. Sá sem gegnir starfinu kemur jafnvel fram eins og verið sé að ónáða hann persónulega og sýnir viðskiptavininum það óhikað.
Hin hliðin
Frá sjónarhorni starfsmanna hvort heldur hjá hinu opinbera eða einkageiranum kannast allir við að hafa fengið erfiða viðskiptavini. Þeir geta verið frekir og pirraðir og sumir bíða eftir tækifæri til að byrja að rífast og þrasa.
Spyrja má hvort viðskiptavinurinn hafi samt ekki alltaf rétt fyrir sér? Ber starfsmanninum ekki ávallt að gæta sín og vera kurteis þótt viðskiptavinurinn fari yfir mörkin?
Vissulega hljóta að vera takmörk fyrir því hversu mikið og lengi starfsmaður getur leyft frekum og ókurteisum viðskiptavini að valta yfir sig með dónaskap og yfirgangi.
Viðbrögð starfsmanna þegar viðskiptavinur fer yfir strikið hljóta samt sem áður ávallt að skipta sköpum hvað varðar framhald samskiptanna. Líklegt er að ef starfsmaður æsir sig gagnvart reiðum einstaklingi þá er það eins og að hella olíu á eld.
Í Nærveru Sálar þann 9. nóvember verður fjallað um þetta málefni. Gestur þáttarins er sérfræðingur í mannasiðum, Unnur Magnúsdóttir eigandi og framkvæmdarstjóri Dale Carnegie.
Við ræðum jafnframt:
Hvernig er þjálfun starfsfólks háttað í stofnunum og fyrirtækjum?
Allir, hvort heldur starfsmenn eða skjólstæðingar, eiga rétt á að komið sé kurteislega fram við þá.
Kurteis og hlýleg framkoma auðveldar ávallt samskipti. Sveigjanleiki og lipurð skila BARA ávinningi hvernig sem á það er litið. Það er nefnilega erfitt að vera frekur og leiðinlegur við fólk sem sýnir manni hlýju, skilning og alúð.
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Betri líðan hjá börnum nú en árið 2006?
1.11.2009 | 11:14
Í könnun sem Rannsókn og Greining gerðu í febrúar á þessu ári kemur fram að ekki séu skýr merki um að líðan barna á Íslandi sé að breytast til verri vegar þrátt fyrir það erfiða þjóðfélagsástand sem ríkt hefur í kjölfar hrunsins 2008.
Þetta kemur mörgum alls ekki á óvart. Ýmsir hafa ekki getað merkt breytingar til hins verra hvað varðar almenna líðan barna sem beinlínis má rekja til hruns fjármálakerfisins fyrir rúmu ári síðan.
Margir hafa þó komið fram á sjónarsviðið og viljað fullyrða að börnum líði mun verr nú en áður og megi rekja aukna vansæld þeirra til erfiðleika sem fjölmargir foreldrar eru nú að glíma við í kjölfar hrunsins. Það gefur augaleið að ef foreldrum líður illa fara börnin oft ekki varhluta af því sama hversu vel foreldrarnir vilja leyna því.
Gestur Í nærveru sálar 2. nóvember er Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. Rannsókn og Greining hefur gert kannanir á líðan barna og unglinga í hartnær tíu ár. Bryndís mun upplýsa áhorfendur um einstakar niðurstöður þessarar nýju könnunnar og bera þær saman við sambærilegar niðurstöður t.d. frá árinu 2006.
Við ræðum þessi mál vítt og breytt og reynum að átta okkur á hvaða þættir það eru sem liggja til grundvallar betri líðan hjá sumum börnum ef samanborið við á þeim árum sem þjóðin bjó við mikinn hagvöxt og velsæld.
Hafa skal í huga í umræðu sem þessari að ekki er hægt að alhæfa út frá rannsóknarniðurstöðum heldur er hér um að ræða mikilvægar vísbendingar sem hægt er að byggja á þegar verið er að skoða með hvaða hætti hægt sé að betrumbæta samfélagið og þar með líðan borgaranna.
Með því að gera sambærilegar rannsóknir yfir langan tíma kemur í ljós hvar skóinn kreppir á hverjum tíma í samanburði við fyrri ár. Með þessum hætti er hægt að sjá með áþreifanlegum hætti hvernig hlutirnir kunna að vera að þróast samhliða öðrum breytingum í þjóðfélaginu.
Mörgum finnst það sérkennilegt ef börnum almennt séð líði betur og séu kátari nú en á árum áður, fyrir hrunð.
En hvaða skýringar liggja þarna að baki?
Ástandið sem hafði myndast hér í samfélaginu og sá lífstíll sem þúsundir manna og kvenna höfðu tileinkað sér hafði einfaldlega ekki góð áhrif á börnin. Mörg voru farin að verja minni tíma með foreldrum sínum og skynjuðu án efa spennu og æsing þeirra sem tóku þátt í lífgæðakapphlaupinu.
Nú er þjóðin smám saman að komast niður á jörðina. Þeir sem höfðu tapað áttum eru að finna sig. Þeir líta sér frekar nær núna og hafa meiri tíma og svigrúm til að taka eftir ástvinum sínum og börnunum. Tengsl eru án efa að styrkjast, samvera er meiri og ró hefur færst yfir fjölmörg heimili. Oft er það þannig að eitthvað gott kemur út úr hverjum raunum. Ef það er betri líðan einhverra barna í þjóðfélaginu getum við verið bjartsýn.
Meira um þetta Í nærveru sálar á ÍNN 2. nóvember.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook
Minn líkami, mín sál. Kennum börnum að varast og verjast þeim sem vilja vinna þeim mein.
25.10.2009 | 17:05

Hvernig geta foreldrar og skóli sameinast um að fræða börnin um með hvaða hætti þau geta greint vafasamar kringumstæður og varist áreiti einstaklinga sem hafa það að ásetningi að vinna þeim mein?
Þau börn sem eru í hvað mestri áhættu eru fyrst og fremst þau sem ekki hafa fengið næga og viðeigandi fræðslu um hvað það er í þessu sambandi sem þau þurfa að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart. Til þess að geta varast hættur þurfa börn, eins og aðrir, að hafa einhverja hugmynd um hvernig hætta kann að birtast þeim og hvaða atferli og hegðun einstaklinga kunni að reynast þeim skaðleg.
Í Í nærveru sálar á ÍNN þann 26. október verður farið í stórum dráttum yfir hvernig foreldrar og skóli geta sameinast um að fræða börnin um þessi mál. Farið verður yfir hvaða aðrir hópar barna eru í áhættu, hver helstu grunnhugtök fræðslunnar eru og hvaða lesefni er fáanlegt. Áhersla er lögð á að skólinn og foreldrar vinni saman að þessu verkefni.
Hafi skólinn það á stefnuskrá sinni að bjóða upp á fræðslu um þessi mál, er mikilvægt að foreldrar séu upplýstir um það, að þeim séu kynnt helstu áhersluatriði, hugtök fræðslunnar og hvenær hún á að fara fram. Með þeim hætti geta foreldrar fylgt umræðunni eftir á heimilunum og svarað spurningum sem upp kunna að koma í kjölfarið. Þessi umræða er vandmeðfarin vegna þess að, sé hún ekki nógu vel undirbúin eða illa matreidd, er hætta á að hún valdi börnunum kvíða og ótta.
Forvarnir í formi fræðslu sem byrja snemma gera börnin hæfari í að lesa umhverfið, meta aðstæður og greina muninn á atferli sem annars vegar telst rétt og eðlilegt og hins vegar ósiðlegt og ólöglegt. Sterkt innra varnarkerfi er ein besta vörnin sem börnin hafa völ á til að sporna gegn ytri vá sem þessari.
Meira um þessi mál í Í nærveru sálar á ÍNN, mánudaginn 26. október kl. 21.30
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Opin á morgun milli 13:00 og 17:00. Sýning á trélist. Hráefni: heimaræktaður viður.
20.10.2009 | 15:31
Í Árskógum 4, gegnt Mjóddinni, hægra megin við Breiðholtsbrautina.
Jón Guðmundsson er plöntulífeðlisfræðingur og trérennismiður og vinnur eingöngu úr innlendum viði auk rekaviðar. Hann hefur verið í stjórn Félags trérennismiða á Íslandi frá árinu 2000 og verið með á samsýningum félagsins frá árinu 1998.
Heimaræktaður viður getur verið mikilvægt hráefni í listsköpun svo og framleiðslu nytjahluta. Nýting þessa hráefnis er sjálfstætt markmið. Í lauftrjám má finna margs konar áferð, liti og mynstur.
Við vinnslu viðarins er ávallt reynt að ná fram sérstöðu hvers viðarbútar, svo sem einstakt viðarmynstur. Suma viðarbúta er hægt að renna svo þunnt að hægt er að nota þá í lampaskermi, en nærri allir henta í skálar og krúsir. Einkenni rekaviðarins er að þar má finna maðksmogna búta sem kemur skemmtilega út í trélist.
Sýningin er opin virka daga frá kl. 09:00 til 17:00 og um helgina 24. -25. október frá kl. 13:00 til 17:00. Heitt kaffi á könnunni um helgina. Til sýnis eru 22 hlutir.
Menning og listir | Breytt 24.10.2009 kl. 20:47 | Slóð | Facebook
Mönnum sem beita maka sína ofbeldi stendur til boða meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar
18.10.2009 | 13:29

Heimilisofbeldi er eitt af þeim vandamálum sem er hvað mest falið. Þess vegna er erfitt að gera sér grein fyrir algengi þess.
Sá sem fyrir því verður upplifir oft mikla skömm og finnst jafnvel sem sökin sé af einhverjum ástæðum sín. Gerendum finnst erfitt að taka ábyrgð á ofbeldinu og telja oft að sökin sé raunverulega þolandans fremur en þeirra sjálfra. Þeir upplifa líka skömm og finnst mörgum því erfitt að koma fram í dagsljósið að sjálfdáðum og leita sér hjálpar.
Í þættinum Í nærveru sálar á ÍNN hefur áður verið rætt um heimilisofbeldi en á síðasta ári kom í viðtal í þáttinn framkvæmdarstýra Kvennaathvarfsins.
Gestir þáttarins 19. október eru sálfræðingarnir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson en þeir annast meðferðarprógramm fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi. Um er að ræða sérúrræði fyrir karla en þeir eru í meirihluta þeirra sem beita maka sína ofbeldi og þá sérstaklega sé um að ræða líkamlegt ofbeldi. Konur hafa einnig verið uppvísar að því að beita maka sína ofbeldi en hvað algengi varðar er að sama skapi erfitt að segja til um. Gera má því skóna að sé konan gerandi sé oftast um að ræða andlegt ofbeldi.
Eitt og annað þessu tengt verður krufið s.s. mögulegar orsakir fyrir því að einstaklingur beitir ástvin sinn ofbeldi, áhrifin á fjölskylduna og afleiðingar til skemmri og lengri tíma fyrir meðlimi fjölskyldunnar og fjölskylduna í heild.
Verkefnið Karlar til ábyrgðar www.karlartilabyrgdar.is var sett á laggirnar fyrir tíu árum. Sýnt hefur verið fram á að það hafi skilað árangri fyrir marga sem lokið hafa meðferðinni takist þeim á annað borð að horfast í augu við vandamálið og taka ábyrgð á ákvarðatöku sinni og hegðun.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook
Gullregn og Gráelri á markaðinum í Mjódd, laugardaginn 17. október.
16.10.2009 | 20:58
Íbúasamtökin Betra Breiðholt standa fyrir markaði í göngugötunni í Mjódd laugardaginn 17. október og hefst hann kl. 11:00 og stendur til að minnsta kosti 14:00.
Ýmislegt verður til sölu, fatnaður: barna- og fullorðins, ýmsir hlutir og einnig tré s.s Gullregn og Gráelri sem hægt er að setja niður hvenær sem er. Gjafverð að sjálfsögðu.
Markaðurinn er hugsaður til að skapa vettvang fyrir íbúana til að hittast og eiga saman góða stund.
Réði Bakkus ríkjum á þínu bernskuheimili?
11.10.2009 | 10:49

Ekkert barn er eins og þess vegna er upplifun þeirra á félagslegu umhverfi sínu einnig mismunandi. Sum börn alkóhólista eru svo heppin að eiga aðra fjölskyldumeðlimi að sem láta sér hag þeirra varða t.d. afa og ömmu, frænda eða frænku. Önnur eru ekki eins heppin.
Barn sem elst upp við alkóhólisma á heimili fer oftar en ekki á mis við stuðning, hvatningu og er jafnvel ekki að fá þá umönnun sem börnum er nauðsynlegt til að þau þrífist og þroskist.
Glími þetta sama barn einnig við vandamál eins og ofvirkni, athyglisbrest eða eru að takast á við einhver afbrigði námserfiðleika sem þarfnast sérstakrar aðhlynningar getur staða þess verið sérlega bágborin og það átt erfitt uppdráttar í lífinu. Veganesti þessara barna er rýrt og oft fátt annað en brotin sjálfsmynd og félagslegt óöryggi.
Þrátt fyrir erfiða bernsku koma margir ótrúlega sterkir út í lífið, með gott innsæi og heilbrigða sýn á lífið og tilveruna. Það eru ótal margar breytur sem þarna hafa áhrif. Persónuleikaeinkenni og persónulegir styrkleikar eins og félagsfærni, léttleiki og góð nærveru eru t.d. þættir sem auðvelda einstaklingnum að takast á við erfiðar aðstæður og mynda tengsl til framtíðar.
Algengustu einkenni margra fullorðinna barna alkóhólista sem líkleg eru til að lita líf þeirra alla vega á fyrri hluta fullorðinsáranna eru t.d. sjálfsgagnrýni, vanmáttartilfinning og ótti við höfnun. Margir hafa tilhneigingu til að misskilja og mistúlka orð og aðstæður. Einnig ber oft á erfiðleikum með að tjá tilfinningar. Öfgafull samskipti og atferli eru ekki óalgeng hjá þessum hópi. Fullkomnunarárátta, tiltektarþörf eða að skapa óreiðu í nærumhverfi og jafnvel í samskiptum þekkja jafnframt margir sem hafa þessa reynslu.
Hafa skal í huga að mörg fullorðin börn alkóhólista þekkja ekki annað en óskipulag og óreiðu. Ákveðinn hópur fullorðinna barna alkóhólista glímir einnig við fíkn af einhverju tagi og ef marka má rannsóknir þá er ekki óalgengt að þessir einstaklingar hvort sem þeir eru sjálfir fíknir eða ekki, velji sér maka sem á við fíknivanda að stríða.
Í nærveru sálar mánudaginn 12. október kl. 21.30 verða þessi mál rædd.
Við höfum valkosti. Engin er, frekar en hann vill, tilneyddur til að vera fangi fortíðardrauga. Það eru til úrræði: fólk, stofnanir og samtök sem hafa það meginhlutverk og markmið að hjálpa og styðja fullorðin börn alkóhólista til að hrista upp í gömlum þreyttum hlutverkum sem mótuðust í kringum alkóhólistann á bernskuheimilinu. Lærum að njóta lífsins til að geta lifað því lifandi meðan það varir.
Gestur þáttarins er Hörður Oddfríðarson, ráðgjafi hjá SÁÁ. Hann mun jafnframt upplýsa um úrræði fyrir fullorðin börn alkóhólista á vegum Samtakanna.