Ósætti í leikskóla ratar í blöðin
9.6.2010 | 19:47
Ég hef verið afar hugsi yfir bls. 8 í DV í dag. Uppreisn gegn leikskólastjóra. Er að velta fyrir mér hvað sé þarna í gangi. Þarna er hópur að kvarta yfir leikskólastjóra, hópurinn leitar í fjölmiðla af því að leikskólasviðsstjóri borgarinnar virðist ekki hafa svarað bréfum frá kvörtunarhópnum.
Allir eru nafngreindir. Þær sem kvarta stilla sér upp á mynd, fjórar á móti einum. Leikskólastjórinn vill ekki tjá sig, enda spyr maður, á að gera út um svona mál í dagblaði?
Tek það fram að ég þekki ekki málavöxtu en svona mál á ekki erindi í dagblað að mínu viti. Þarna reynir á stjórnsýsluna sem þarf að ræða við báða aðila og klára málið fljótt. Það er fullt að fólki, fagfólki og fólki með reynslu sem er til í að aðstoða í svona máli ef skortir á færni embættismanna að gera það.
Hækka gjaldskrár og kaupa Benza.
9.6.2010 | 08:49
Hækka gjaldskrár og kaupa Benza.
Eru Reykvíkingar sáttir við þetta?
Hjörleifur Kvaran virðist ekki vera allur þar sem hann er séður. Ég botna alla vega ekkert í þessum stjórnunarháttum hans.
Hversu margir toppar hjá Orkuveitunni skyldu nú vera með svona grand bílasamninga?
Er ekki kominn tími til að þeim verði rift?
Er ekki kominn tími til að þeir sem steypt hafa þessu annars góða fyrirtæki í skuldir taki pokann sinn og aðrir hæfari komi inn í staðinn?
Nú er að sjá hvað Jón Gnarr gerir í málinu.
Allir 15 borgarfulltrúar vinni saman
30.5.2010 | 15:35
Burt með þolandann
21.5.2010 | 16:35
Er ekki bara best að þú hættir störfum?
Þolendur og gerendur eineltis fyrirfinnast á flestum aldursskeiðum. Sjónum hefur hvað mest verið beint að einelti barna en e.t.v. minna að einelti meðal fullorðinna. Einelti meðal fullorðinna er síður en svo einskorðað við vinnustaði.
Meira um einelti á vinnustað, þolandann, gerandann og stjórnandann.
Klíniskir sálfræðingar, hvað gera þeir og hverjir eru þeir?
20.5.2010 | 15:19

Nýlega var opnuð heimasíða Félags sérfræðinga í klínískri sálfræði www.klinisk.is
Á heimasíðunni gefst almenningi kostur á að kynna sér faglegt starfssvið klínískra sálfræðinga þar sem fram kemur fyrir hvað sérgreinin stendur. Gefnar eru upplýsingar um menntun og starfssvið, netföng ásamt myndum af félagsmönnum.
Einnig hefur verið gefinn út upplýsingabæklingur félagsins sem hægt er að nálgast á heimasíðunni og á ýmsum heilsugæslu og læknastöðvum.
Félag sérfræðinga í klíniskri sálfræði (FSKS) hefur verið starfandi frá árinu 1994 og hefur m.a. staðið fyrir ýmis konar fræðslu bæði fyrir fagfólk og almenning.
Formaður Félags sérfræðinga í klínískri sálfræði er Álfheiður Steindórsdóttir.
Ég var ekki sá eini, það gerðu þetta allir!
14.5.2010 | 19:45
Svona var þetta bara, þetta var umhverfið sem við lifðum í.
Því fleiri sem hinn grunaði getur bent á og sagt hann gerði þetta líka eða það gerðu þetta allir því auðveldara reynist honum að réttlæta hegðun sína fyrir sjálfum sér. Hvort honum tekst að réttlæta hana fyrir umheiminum gegnir hins vegar öðru máli. Þó eru alltaf einhverjir sem samþykkja réttlætingu sem þessa.
Hugsanlega eru það einkum einstaklingar sem hafa sjálfir staðið frammi fyrir svipaðri freistingu eða hafa nú þegar óhreint mjöl í pokahorninu. Einnig grípa aðstandendur oft til réttlætingar af þessu tagi í þeim tilgangi að líða betur við erfiðar aðstæður.
Meira um réttlætingu og siðblindu hér.
Ég samhryggist þér
13.5.2010 | 12:09
Að vera viðstaddur jarðarför, erfisdrykkju og hitta syrgjendur í eigin persónu skapar mörgum kvíða. Ástæðan er m.a. sú að fólk veit ekki alltaf hvað það á að segja og óttast jafnvel að missa eitthvað klaufalegt út úr sér. Íslensk tunga er að mínu mati óþjál þegar kemur að því að velja orð og setningar undir þessum viðkvæmu kringumstæðum.
Dáleiðsla sem meðferðartækni. Síðasti þáttur Í nærveru sálar.
1.5.2010 | 19:32

Dáleiðsla er ekkert nýtt fyrirbæri. Dáleiðsla hefur verið notuð áratugum saman í margs konar tilgangi og við ólíkar aðstæður víða um heim. Dáleiðsla er vinsælt umfjöllunarefni og er oft notuð í sögubókum, í bíómyndum og á leiksviði.
Ýmsar skilgreiningar eru til á dáleiðslu. Eftirfarandi skilgreining er birt á Vísindavefnum:
Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitni fólks í námi eða íþróttum.
Dáleiðsla er í hugum margra umvafin leyndardómi eins og svo oft er þegar um undirmeðvitundina er að ræða. Undirmeðvitundina er erfitt að rannsaka enda hvorki hægt að snerta hana né mæla. Við vitum þó að þarna er botnlaus brunnur minninga, drauma, óska og væntinga sem skjóta upp kollinum í vöku sem draumi og í dáleiðsluástandi. Þrátt fyrir að mun meira sé vitað um þetta flókna svið nú en t.d. fyrir fimmtíu árum þá er undirmeðvitundin enn og verður e.t.v. alltaf ráðgáta.
Dáleiðsla sem meðferðartækni er viðurkennd aðferð sem margir kjósa að reyna, til að ná betri líðan, fá lækningu við sjúkdómum, til að stöðva skaðlega hegðun eða tileinka sér og ástunda nýtt atferli sem það telur að leiði til góðs fyrir andlega og líkamlega heilsu.
Dáleiðslufélag Íslands er félagsskapur fagaðila sem hafa aflað sér tilheyrandi þekkingar á þessu sviði og öðlast grunnþjálfun til að stunda dáleiðslu. Formaðurinn Hörður Þorgilsson, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði ræðir um dáleiðslu sem meðferðartækni í Í nærveru sálar hinn 3. maí á ÍNN. Þetta er 76. þátturinn og jafnframt sá síðasti en Í nærveru sálar hefur nú, í hartnær, tvö ár verið fastur dagskrárliður á ÍNN. Hann mun upplýsa um sögu dáleiðslunnar, upphafið hér á Íslandi og tilkomu félagsins.
Hvernig er dáleiðsluferlið? Hvernig eru ákjósanlegustu aðstæður til dáleiðslu? Hversu langan tíma tekur einn dáleiðslutími? Hvað þarf að útskýra fyrir dáþeganum?
Grundvöllur þess að dáleiðslutæknin geti virkað er að gagnkvæmt traust ríki milli dáleiðara og dáþega. Dáleiðslan sjálf byggist ekki hvað síst á einstaklingnum sjálfum og hvort hann sé nægjanlega sefnæmur.
Um dáleiðslu hefur oft gætt nokkurs misskilnings í hugum fólks. Margir telja t.a.m. að hinn dáleiddi missi meðvitund eða að hann komi ekki til með að muna neitt af því sem fram fór á meðan hann var í dáleiðsluástandinu. En þannig er því einmitt ekki farið. Einnig er trú margra að hægt sé að festast í ástandinu og að dáleiðarinn geti fengið hinn dáleidda til að gera eitt og annað sem hann myndi t.d. aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum.
Meira um þetta í lokaþætti Í nærveru sálar 3. maí á ÍNN kl. 21.30.
Hvað fá börnin að borða í grunnskólum Reykjavíkur?
29.4.2010 | 13:27
Mataræði í reykvískum grunnskólum
25.4.2010 | 08:34

Stórt skref var stigið þegar ákveðið var að skólabörn skyldu fá heitan mat í skólum. Þessi breyting varð ekki á einni nóttu. Fyrir u.þ.b. 35 árum var í mesta lagi hægt að kaupa snúð og mjólk í gagnfræðaskólum borgarinnar. Eins og staðan er í dag er börnum boðið upp á heitan mat í flestum ef ekki öllum skólum í Reykjavík.
Fyrirkomulag skólaeldhúsa er mjög breytilegt. Í sumum skólum eru foreldrar og börn mjög ánægð með þann mat sem boðið er upp á, matreiðslu hans og skipulag almennt séð. Í öðrum skólum er minni ánægja og í enn öðrum er einfaldlega veruleg óánægja.
Hvernig stendur á þessum mikla breytileika? Í sumum tilvikum er maturinn að mestu ef ekki öllu leyti aðkeyptur en í öðrum tilvikum er hann matreiddur í skólanum að öllu leyti eða a.m.k. að hluta til. Sumir skólar bjóða börnunum upp á unnar matvörur en aðrir skólar leggja áherslu á ferskt hráefni og að það sé matreitt í skólanum.
Hvernig svo sem þessum málum er háttað í einstaka skólum geta allir verið sammála um mikilvægi þess að börnin borði hollan og staðgóðan mat enda skiptir það sköpum fyrir vellíðan þeirra, vöxt og þroska.
Mataræði í reykvískum grunnskólum er viðfangsefni þáttarins Í nærveru sálar mánudaginn 26. apríl. Við undirbúning þáttarins var haft samband við formann Menntasviðs. Hann kvaðst fagna þessari umræðu enda hafði Menntaráð nýlega haft málið á dagskrá og í kjölfarið samþykkt svohljóðandi tillögu:
Menntaráð felur fræðslustjóra að gera úttekt á samsetningu máltíða sem í boði eru fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkurborgar með tilliti til þeirra markmiða um hollustu matar sem fram koma í gæðahandbók Mennta- og Leikskólasviðs.
Sett hefur verið á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að vinna í matarmálum fyrir bæði skólastigin, leik- og grunnskóla.
Í Í nærveru sálar munu þrír einstaklingar tjá sig um þetta mál. Það eru þau:
Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Hann á einnig sæti í hinni nýskipuðu nefnd.
Sigurveig Káradóttir, matreiðslumaður og foreldri barns í grunnskóla og
Þröstur Harðarson, matsveinn í Hagaskóla.
Atriði sem komið verður inn á:
Af hverju er þetta svona misjafnt milli skóla?
Hver hefur ákvörðunarvald um hvernig þessu skuli háttað?
Komið verður inn á atriði eins og fjármagn sem veitt er til skólanna, samninga/reglugerðir um skólaeldhús, mikilvægi þess að matreiðslufólk skóla hafi ríkt hugmyndaflug, útsjónarsemi og þar til gerða hæfni og færni til að sinna þessu mikilvæga starfi.
Hvernig er samspil embættiskerfisins og skólastjórnenda þegar kemur að því að ákveða útgjöld, ráðningar í störfin og ákvörðun um hvers lags matur (hráefni og matreiðsla) skuli vera í viðkomandi skóla?
Ef tekið er mark á óánægjuröddum sem heyrst hafa er ljóst að ekki sitja öll börn í grunnskólum borgarinnar við sama borð í þessum efnum. Unnar matvörur eru oftar á borðum sumra skóla en annarra. Þegar talað er um unnar matvörur er sem dæmi átt við reyktar og saltaðar matvörur, svo sem pylsur og bjúgu. Einnig matvörur úr dósum, pökkum eða annar samþjappaður matur sem oft er búið að bæta í ýmsum rotvarnarefnum.
Eins má spyrja hvernig þessum málum er háttað á kennarastofunum. Er til dæmis sami maturinn í boði fyrir börnin og kennarana?
Hagræðing og skipulag hlýtur að skipta sköpum ef bjóða á upp á hollan, góðan og jafnframt ódýran mat. Hafa matreiðslufólk skólaeldhúsa almennt tækifæri til að fylgjast með fjárhagsáætlun og hvernig hún stendur hverju sinni svo þau geti hagað innkaupum og aðlagað skipulag samkvæmt því.
Ef horft er til þess að samræma mataræði í skólum kann einhver að spyrja hvort ekki sé þá betra að skipulag skólaeldhúsa væri í höndum annarra en skólastjórnenda?
Eins og sjá má er málið ekki einfalt. Spurt er:
Hverjar verða helstu áherslur þeirrar nefndar sem nú skoðar málið og mun hún leita eftir samstarfi og samvinnu við foreldra?
Að heyra barnið sitt vaxa
17.4.2010 | 19:19
Hversu sjálfgefið finnst manni ekki að geta séð og heyrt, já og hafa öll helstu skynfæri virk. En auðvitað er það ekkert sjálfgefið. Það veit sá best sem er ekki með sjón eða heyrn.
Ungur faðir, Bergvin Oddsson, sem hefur verið blindur frá 15 ára aldri lýsir í nýútkominni bók sinni hvernig honum leið þegar í ljós kom að hann og unnusta hans ættu von á barni. Í fögnuðinum og eftirvæntingunni fólst einnig kvíði, kvíði fyrir því að geta ekki, vegna blindunnar, annast barnið sitt á þeim sviðum þar sem máli skiptir að hafa sjón.
Að heyra barnið sitt vaxa er titill bókarinnar. Sonurinn Oddur Bjarni er nú rúmlega ársgamall. Í bókinni má jafnframt finna hagkvæmar leiðbeiningar sem varða undirbúning komu barns í fjölskyldu og ýmsar ráðleggingar sem snúa að uppeldi og uppeldisfræðum.
Félag langveikra ungmenna á Akureyri gefa bókina út og mun allur ágóði renna til Félagsins. Í þessari afar persónulegu bók Bergvins leiðir hann lesendur inn í heim blindunnar. Bókin er bæði með háalvarlegu ívafi en bregður auk þess upp kómískum myndum af hvernig Bergvini hefur tekist að mæta þeim vandamálum sem blindra foreldra bíður öllu jafnan.
Meðal þess sem Bergvin ræðir um er hvernig fötlun hans kom til og hvernig honum gekk að aðlagast þegar ljóst var að hann fengi aldrei sjónina aftur. Bergvin lýsir á einlægan hátt óttablöndnum hugsunum sínum þegar hann velti fyrir sér hvernig honum myndi ganga að annast barnið sitt eins og t.d. að skipta á bleyju. Ógnvænlegasta hugsunin var þó sú að honum tækist ekki að gæta barnsins sín nægjanlega vel utandyra ef sá litli tæki sem dæmi upp á því að hlaupa frá honum.
Blindir foreldrar og samfélagið
Bergvin hefur lent í ýmsu þegar hann er á ferð með Odd Bjarna. Hann hefur oft upplifað höfnun og fundið að margir eiga það til að vanmeta blint fólk. Bergvin bendir á að blindir hafa iðulega þróað með sér sterkt lyktarskyn, heyrn, næmni og innsæi sem vegur upp á móti blindunni. Eins hefur blint fólk þurft að leggja sérstaka áherslu á að skipuleggja sig, sýna fyrirhyggju og vera helst alltaf skrefi á undan í huganum til að geta verið viðbúið hindrunum sem kunna að verða á vegi þeirra. Bergvin segir frá einum erfiðasta degi lífs síns sem tengist samskiptum hans við flugáhöfn í einni af ferðum hans með Odd Bjarna til Reykjavíkur. Við ákveðnar aðstæður hefur Bergvin þannig orðið að sýna sérstakleg fram á að hann geti, þrátt fyrir blindu, gætt öryggis barns síns komi eitthvað upp á.
Fylgist með viðtalinu við þennan hugrakka, jákvæða föður sem segir frá lífi sínu og tilveru Í nærveru sálar mánudaginn 19. apríl.
Bókina AÐ HEYRA BARNIÐ SITT VAXA er hægt að fá í öllum Hagkaupsverslunum að undaskilinni Hagkaup á Seltjarnarnesi.
Hvernig taka íslensk lög á einelti? Þátturinn kominn á netið
16.4.2010 | 13:19
Mánudaginn 19. apríl verður gestur Í nærveru sálar Bergvin Oddsson.
Bergvin er blindur og lýsir upplifun sinni: tilhlökkun og kvíða sem tengist því að vera blint foreldri. Hann hefur nú skrifað bók sem heitir Að heyra barnið sitt vaxa. Bókin kemur út í dag.
Umfjöllun um einelti í íslenskum lögum
12.4.2010 | 12:09

Hvað er sagt og hvað er ekki sagt um einelti í íslenskum lögum?
Þrátt fyrir að heilmikil vitundarvakning hafi orðið á skilningi landsmanna á einelti og alvarlegum afleiðingum þess, eru enn að koma upp afar ljót eineltismál bæði í skólum og á vinnustöðum. Sum þessara mála fá að vaxa og dafna og hægfara leggja líf þolandans í rúst. Umræðan undanfarin misseri hefur verið mikil og farið fram jafnt í sjónvarpi, útvarpi og í dagblöðum. Rætt er um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig skuli bregðast við komi upp mál af þessu tagi: hverjir eiga að ganga í málin og hvers lags ferli/áætlanir eru árangursríkastar?
Einn angi af umræðunni undanfarið misseri er hugmyndin um hina svokölluðu Sérsveit í eineltismálum. Þessi pæling er afrakstur vinnu lítils kjarnahóps sem berst gegn einelti á öllum stigum mannlegrar tilveru. Hugmyndin gengur út á að fái foreldri ekki úrlausn í eineltismáli barns síns geti þeir leitað til fagteymis á vegum stjórnvalda sem biði viðkomandi skólayfirvöldum aðstoð við lausn málsins. Að sama skapi gæti fullorðinn einstaklingur sem telur sig hafa mátt þola einelti á vinnustað og sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála hjá vinnuveitanda, leitað að sama skapi til teymisins. Hugmyndin hefur verið kynnt hópi ráðherra og ráðamanna víða um landið.
Það sem stendur í íslenskum lögum í þessu sambandi skiptir gríðarmiklu máli. Lög og reglugerðir hafa það hlutverk og markmið að vera jafnt leiðbeinandi sem upplýsandi fyrir fólkið í landinu eins og t.d. hvar mörkin liggja í almennum samskiptum.
Til að ræða þetta koma saman Í nærveru sálar mánudaginn 12. apríl Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Ragna Árnadóttir, ráðherra dómsmála og mannréttinda og Gunnar Diego, annar af tveimur framleiðendum heimildarmyndar um einelti. Gunnar er einnig þolandi langvinns eineltis í grunnskóla. Umræðan er afar krefjandi og ótrúlega flókin þrátt fyrir að flestir séu sammála um hvaða breytingar væru æskilegar og að mikilvægt sé að setja eitthvað neyðarúrræði fyrir þolendur fái þeir ekki lausn mála sinna í skóla eða á vinnustað.
Hvorki virðist skorta vilja né skilning hjá ráðamönnum um mikilvægi þess að liðka fyrir vinnslu þessara erfiðu mála og að tryggja að enginn eigi að þurfa að búa við að vera lagður í einelti mánuðum eða árum saman án þess að gripið sé til lausnaraðgerða.
Meðal þess sem spurt verður um og rætt er:
- Hefur eineltismál vegna barns einhvern tímann farið í gegnum dómstóla þar sem því er lokið með dómi?
-Hver er helsta aðkoma barnaverndar í þessum málum?
-Dæmi: ef foreldrar vilja ekki senda barn sitt í skólann vegna þess að það er lagt í einelti af skólafélögum sínum gætu foreldrar átt það á hættu að málið verði tilkynnt til viðkomandi barnaverndarnefndar þar sem að barnið er skólaskylt.
-Hvað í lögunum verndar unga þolendur eineltis?
-Hver er ábyrgð foreldra þeirra barna sem eru gerendur?
-Hver er ábyrgð skólans?
-Ætti að gera einelti refsivert eins og hvern annan glæp?
Hafa skal í huga í þessu sambandi að barn er ekki sakhæft fyrr en 15 ára. Oftast eru gerendur sjálfir í mikilli vanlíðan, þeir hafa stundum áður verið þolendur. Mjög algengt er að gerendur eineltis séu sjálfir með brotna sjálfsmynd, stríði við námsörðugleika eða eiga við aðra félagslega og tilfinningalega erfiðleika að stríða. Oft hefur einnig komið í ljós að erfiðleikar eru á heimili barna sem leiðast út í að vera gerendur eineltis.
Skólinn reynir oftast að gera sitt besta til að vinna úr þessum erfiðu málum. Staðreyndin er þó sú að þeir (starfsmenn og fagfólk skólans) eru eins og gengur, mishæf til að takast á við erfið og þung mál af þessu tagi.
Hvernig má styðja við bakið á þeim skólum sem eru ráðþrota og vilja skólar yfir höfuð fá utanaðkomandi aðstoð?
Fullorðnir þolendur eineltis
Fullorðinn þolandi eineltis t.a.m. á vinnustað á í raun í fá skjól að venda ef yfirmaður ákveður að gera ekkert í málinu. Margir ábyrgir og góðir stjórnendur fá utanaðkomandi faglega aðstoð í þessu sambandi og hefur það oftar en ekki gefið góða raun. Fjölmörg dæmi virðast þó vera um að yfirmaður grípi til þeirrar óábyrgu leiðar að láta þolandann taka pokann sinn og yfirgefa vinnustaðinn. Þá telja sumir stjórnendur að vandamálið sé úr sögunni. Enda þótt fullorðinn þolandi eineltis á vinnustað geti leitað til Vinnueftirlitsins og Jafnréttisstofu er þjónusta þessara stofnanna takmörkuð. Hvorug tekur á einstaklings- eineltismálum. Stéttarfélögin eru heldur ekki nægjanlega góður kostur því lögfræðingar þeirra sitja öllu jöfnu beggja vegna borðs og geta því ekki þjónustað þolandann sem skyldi. Þolandi eineltis á vinnustað sem yfirmaður ákveður að hafna á því fáa aðra möguleika en að fara dómsstólaleiðina sé hann staðráðinn í að fá úrlausn mála sinna á sanngjarnan og faglegan máta. Sú leið er eins og allir vita bæði afar tyrfin og kostnaðarsöm.
Frekari vangaveltur sem fram koma í þættinum Í nærveru sálar 12. apríl eru:
Hvað snýr beint að ráðherra dómsmála og mannréttinda?
Hvernig á að bregðast við til skamms/langs tíma?
Er hægt að gera einhverjar ráðstafanir fljótt?
Hvað er raunhæft og óraunhæft að setja í lögin?
Hvaða viðbætur er hægt að koma með strax sem kynnu að stuðla að því að mál af þessu tagi verði viðráðanlegra, auðveldara og hraðara í vinnslu?
Er þetta eins flókið og sumir vilja vera láta?
Af hverju hafa ráðuneyti þessara mála ekki getað sameinast um lausnir og unnið saman þrátt fyrir ítrekaða beiðni?
Fylgist með, mánudaginn 12. apríl á ÍNN.
Afreksbörn í íþróttum
26.3.2010 | 10:22
Enginn efast um jákvætt gildi íþróttaiðkunar barna og unglinga.
Íþróttaiðkun hefur uppeldisfræðilegt gildi sem styrkir sjálfsmyndina, sjálfsöryggi og felur í sér fræðslu og þjálfun í félagslegum samskiptum. Íþróttaiðkun að staðaldri er talin vera ein sú allra mikilvægasta forvörn gegn ytri vá.
Það að vera afreksbarn í einhverri íþróttagrein er eins og gefur að skilja stórkostlegt fyrir barnið sjálft og foreldra þess sem eðlilega eru fullir af stolti fyrir hönd barns síns. Væntingar barnanna sjálfra eru einnig oft miklar og stundum svo miklar að þær eru óraunhæfar.
En eins og á öðru eru á þessu tvær hliðar. Að vera í hópi barna sem flokkast sem afreksíþróttafólk krefst mikillar vinnu, skipulagningar og úthalds ef viðkomandi einstaklingur á að geta stundað æfingarnar samhliða öðru.
Fyrir ómótaðan einstakling getur þetta verið erfitt, jafnvel ofraun. Oftar en ekki þarf margt annað að sitja á hakanum svo sem skólinn, félagarnir og aðrar tómstundir. Sum börn ráða mjög vel við þessar kringumstæður sérstaklega ef námið liggur vel fyrir þeim og ef þau er vel skipulögð og eiga auk þess góðan stuðning fjölskyldu sinnar.
En þannig er því ekki farið hjá öllum börnum. Sumum börnum reynist þetta býsna erfitt og í stað þess að geta notið hæfileika sinna á sviði íþrótta upplifa þau sem álag og streitu.
Um þetta ætlar Jón Páll Pálmarsson, fótboltaþjálfari ræða Í nærveru sálar á ÍNN hinn 29. mars. Þá mun hann mun upplýsa áhorfendur m.a. um Afreksskóla FH í Hafnarfirði og afreksbraut Flensborgarskólans. Sá fyrrnefndi hefur verið við líði í 5 ár og inn í hann eru börnin sérvalin.
Segja má að hér á landi sé áhersla á afreksíþróttir tiltölulega nýleg. Frammistaða íslenskra íþróttaafreksmanna á alþjóðakeppnismótum hefur verið glæsileg. Skemmst er að minnast á frammistöðu íslenska handboltaliðsins á Ólympíuleikum í Peking og í EM nú nýlega. Til að ferlið megi haldast glæst er mikilvægt að hlúa vel að íslenskum afreksíþróttamönnum. Þeir eru fyrirmynd nýliðanna. Gott gengi íslensks íþróttafólks skiptir máli fyrir útbreiðslu íþrótta, til að skapa breidd í liðum og einstaklingsíþróttum og vekja áhuga ungmenna á iðkun íþrótta almennt séð svo ekki sé minnst á að laða að sjálfboðaliða til að sinna íþróttastarfinu. Afreksíþróttamenn og konur eru fyrirmyndir sem hvetja aðra til að leggja sig fram um að ná hámarksárangri. Við unnin afrek vex sjálfstraust og framtakssemi einstaklinga, hópa og jafnvel heillar þjóðar.
En það geta ekki allir orðið afreksmenn hvorki í íþróttum né á öðrum sviðum. Þau sjónarmið hafa heyrst að afreksíþróttamönnum sé e.t.v. of mikið hampað á kostnað annarra sem vilja stunda íþróttir en eru ekki endilega efniviður í afreksíþróttafólk. Í raun er aðeins lítil prósenta barna sem nær því marki að komast á þann stað að þau teljist til afreksfólks í þeim skilningi sem hér um ræðir.
Þörfin að vita framtíð sína
24.3.2010 | 08:05
Spákonur, spámiðlar og fólk sem leitar til þeirra
21.3.2010 | 08:34
Þörfin að vilja vita hvað framtíðin ber í skauti sér blundar í brjósti fjölmargra. Af hverju vill fólk fá að vita hvað verður eða verður ekki?
Við þessu er ekkert eitt svar. Ekki er ósennilegt að ástæðan sé m.a. sú að fólk vill vera undir eitt og annað búið sem kann að bíða þeirra handan við hornið. Sumir eru e.t.v. kvíðnir, óttast að eitthvað slæmt gerist og leita þess vegna til spákonu til að freista þess að fá áhyggjum sínum eytt.
Aðrir leita til spáfólks til að fá góð ráð, hvað þeir eigi að gera undir ákveðnum kringumstæðum, hvort verið sé að taka réttar ákvarðanir eða hvaða ákvörðun sé heppilegust í einstaka málum og svona mætti lengi telja.
Oft leitar fólk til spákonu og spámiðla þegar það hefur orðið fyrir áfalli og finnst t.d. fótunum hafa verið kippt undan sér, eða ef það á við einhvern sérstakan vanda að glíma og vill heyra hvort vænta megi bata innan tíðar eða annarra lausna.
Fjöldi þeirra, sem starfa við það að spá fyrir öðrum um framtíðina liggur ekki fyrir og enn síður er hægt að segja til um hve stór hópurinn er sem hefur leitað til spákonu eða leitar eftir slíkri þjónustu með reglubundnu millibili.
Í nærveru sálar 29. mars leiðir Sigrún Elín Birgisdóttir áhorfendur inn í heim þeirra sem starfa við það að segja fyrir um framtíð fólks.
Við ræðum um fjölmarga vinkla málsins bæði út frá sjónarhóli þeirra sem leita til spáfólks og einnig út frá sjónarhornum spáfólksins.
Við skoðum kynjamismun í þessu sambandi t.d. hvort það séu frekar konur en karlar sem sækjast eftir því að láta spá fyrir sér og ef svo er hver skyldi vera skýringin?
Einnig hvaða eiginleika/hæfileika/þekkingu hafa þeir sem eru hvað færastir í að skyggnast inn í framtíð fólks hvort heldur með aðstoð spila t.d. Tarrotspila eða með því að lesa úr táknum í kaffibolla? Er það skyggnigáfan sem gildir?
Hvernig er samkeppni háttað innan spástéttarinnar?
Hvað ef spákonan er illa upplögð og á vondan dag?
Margir hafa reynslu af því að fara til spákonu en þegar fram líða stundir kemur í ljós að fátt ef nokkuð hefur ræst.
Tekur spádómurinn e.t.v. bara mið af núverandi stöðu og ástandi viðkomandi, vonum og óskum sem þegar upp er staðið verða e.t.v. aldrei að veruleika?
Allir vilja heyra um að þeirra bíði fjölmörg ferðalög, ríkidæmi og þeir sem eru ólofaðir vilja gjarnan heyra hvort stóra ástin sé nú ekki brátt væntanleg inn í líf þeirra.
Hvað ef ekkert slíkt sést nú í spilunum heldur jafnvel bara tóm ótíðindi, veikindi og gjaldþrot?
Svo er það efahyggjufólkið sem þykir þetta allt hin mesta vitleysa, slær sér á lær og segir sveiattan, að þú skulir trúa á þetta bull!
Á hinn bóginn má spyrja hvort þetta sé nokkuð meiri vitleysa en hvað annað? Spáfræði og spámenn er ekkert nýtt fyrirbæri. Sú var tíðin að litið var til spámanna af virðingu og á þá var hlustað með andakt.
Hvað sem öllum skoðunum, trú og viðhorfum til spáfólks og spádóma líður getur það varla skaðað að heimsækja spákonu a.m.k. einu sinni á ævinni. Sumum kann að finnast það vera skemmtileg reynsla og smá krydd í tilveruna. Aðalatriðið hlýtur að vera að varast að taka spádóma of alvarlega og minnast þess ávallt, hverju svo sem spáð er, að hver er sinnar gæfu smiður. Það siglir engin hinu persónulega fleygi nema skipstjórinn og á þeirri leið er bara einn ábyrgur, hann sjálfur.
Í skugga eineltis
19.3.2010 | 21:34
Enn einn dagur að kveldi,
einmana sorgbitin sál.
Vonlaus, vesæl ligg undir feldi,
vafra um hugans sárustu mál.
Svíður í hjartað, stingir í maga,
sárkvíði morgundegi.
Háð, spott og högg, gömul saga,
hrópa eftir hjálp, ÞETTA ÞARF AÐ LAGA.
Börn sem stama verða frekar fyrir stríðni og einelti
17.3.2010 | 10:09
Í sporum þeirra sem stama
12.3.2010 | 20:12
Samkvæmt rannsóknum er áætlað að 4% barna stami og 1% fullorðinna. Stam er afar erfið máltruflun sem hefur oftar en ekki neikvæð áhrif á sálræna líðan þess sem stamar og gildir þá einu hvort stamið er lítið eða mikið.
Stam getur birst með ýmsum hætti. Dæmi eru um að stam einstaklings sé svo mikið að hann stami í hverju orði. Í öðrum tilvikum birtist stamið e.t.v. einungis í upphafi máls eða í upphafi setningar/orðs eða aðeins þegar viðkomandi ber fram ákveðin hljóð.
Vitað er að í mörgum tilvikum hverfur stamið, að hluta til eða að öllu leyti, með auknum þroska eða þegar viðkomandi fullorðnast. Í öðrum tilfellum fylgir stamið manneskjunni áfram til fullorðinsára en kann þó að taka einhverjum breytingum. Það er ekki óalgengt að það minnki og hafi því ekki jafn truflandi áhrif á fullorðinsárum.
Sá sem hefur stamað frá barnsaldri hefur líka í tímans rás lært að fara í kringum stamið og fundið leiðir til að komast frekar hjá því með því að forðast þau hljóð sem kalla það helst fram. Sem dæmi, sé stamið bundið við ákveðin hljóð þá veigrar viðkomandi sér við að hefja setningu á því hljóði. Sumir sem hafa glímt lengi við stam hafa sagt að ef þeir reyna að tala mjög hratt komist þeir frekar hjá því að stama. Aðrir fullyrða að tali þeir hægar og jafnvel hægt er síður líklegt að þessi máltruflun komi fram. Enn öðrum finnst þeir ná betri tökum á framsetningu málsins ef þeir hafa það sem þeir ætla að segja skrifað fyrir framan sig.
Vitað er fyrir víst að börn sem stama er frekar strítt og þau lögð í einelti. Afleiðingar stríðni og langvarandi eineltis hafa oftar en ekki langvarandi neikvæð sálræn áhrif á þá sem fyrir eineltinu verður. Börn sem stama og sem hefur sérstaklega verið strítt vegna þess finna oft til innri vanmáttar og félagslegs óöryggis. Tilfinningar eins og skömm geta gert vart við sig. Mörg þessara barna vilja draga sig í hlé og séu þau í félagslegum aðstæðum forðast þau oft í lengstu lög að tjá sig. Sé um að ræða aðkast vegna stamsins til lengri tíma getur sjálfsmynd þeirra orðið fyrir varanlegu hnjaski. Eftir að komið er á fullorðinsár og stamið er enn til staðar eru þessir einstaklingar oft áfram hlédrægir og forðast að taka þátt í umræðum eða leggja orð í belg. Séu þeir í félagsskap ókunnugra líður þessum einstaklingum oft sérlega illa með sjálfa sig og kjósa að sitja þögulir.
Hvernig meðferð stendur börnum sem stama til boða og hvernig er hægt að aðstoða foreldra þannig að þau geti aðstoðað börn sín við að draga úr þessari erfiðu máltruflun?
Hvernig meðferð stendur fullorðnum einstaklingum sem stama til boða?
Stam hefur ekkert að gera með tungumálið. Orsakir eru líffræðilegar og tengjast taugaboðum. Hvernig stamið birtist og hversu mikið það er byggist oft á aðstæðum sem viðkomandi er í hverju sinni. Líðan sem tengist staminu er einnig mjög einstaklingsbundin. Sem dæmi ef sá sem stamar kennir streitu, kvíða eða finnst hann þurfa að vera snöggur að tjá sig, má leiða líkum að því að stamið verði jafnvel meira og tíðara. Taka skal fram að margir sem eiga við þessa málatruflun að stríða sérstaklega ef hún er væg, eru afslappaðir gagnvart henni ekki hvað síst eftir að komið er á fullorðinsár.
Í nærveru sálar 15. mars mun Jóhanna Einarsdóttir, lektor við HÍ fræða okkur um stam. Umræðan mun ekki hvað síst snúast um sálræn áhrif og neikvæðar afleiðingar stams á börn og fullorðna sem glíma við þessa erfiðu máltruflun.